Kvennaliðið fær Bristol í heimsókn

Það er stór dagur fyrir Liverpool aðdáendur í dag, fókusinn verður vissulega á leikinn við Cardiff enda mikið undir í baráttunni um titilinn. Maggi Beardsley ætlar að gera þeim leik skil af sinni alkunnu snilld. Áður en sá leikur brestur á ætlar kvennaliðið að taka á móti Bristol í WSL. Staðan þar er skv. www.fawsl.com eftirfarandi:

Reyndar verður það að koma fram að sú heimasíða er alls ekki uppfærð nógu reglulega, því er ekki loku fyrir það skotið að það hafi einhverjir leikir farið fram eftir að þessi uppfærsla var sett inn.

Eins og sést eru Bristol konur tveim sætum fyrir ofan okkar konur, og hafa leikið einum leik meira. Það eru því ágætar líkur á að það verði jafnræði með þessum liðum. Rétt eins og hjá körlunum fer að koma að lokum þessa tímabils hjá stelpunum, þetta ætti að vera þriðji síðasti leikurinn, og sjálfsagt vill liðið enda á jákvæðu nótunum fyrir næsta tímabil. Þess má geta að konurnar í United eru búnar að tryggja sig upp um deild, svo við munum mæta þeim á næstu leiktíð og hitta þar fyrir ýmsa góðkunningja eins og Alex Greenwood, Sioban Chamberlain og fleiri sem voru innan raða Liverpool á síðustu leiktíð.

Liðið sem mætir Bristol á eftir verður sett upp svona:

Bekkur: Kitching, Little, Hodson, Charles

Bekkurinn er fámennur, það eru greinilega ennþá leikmenn á sjúkrabekknum eins og Jess Clarke, Jasmine Matthews og fleiri, þær tvær myndu alltaf gera tilkall til sætis í byrjunarliðinu. Upp á síðkastið hafa stelpur úr akademíunni fengið tækifæri, en slíku er ekki til að dreifa í dag þar sem akademían er að spila til úrslita í bikarnum í dag.

Við uppfærum svo færsluna með úrslitum, bæði í þessum leik og í bikarleik akademíunnar, síðar í dag.


Leik lokið með virkilega góðum sigri hjá okkar konum, 5-2. Staðan var 3-1 í hálfleik, þar sem Babajide setti tvö og Yana Daniels eitt stykki. Í síðari hálfleik skoraði svo Babajide þriðja mark sitt og fullkomnaði þar með þrennuna, og að lokum skoraði Ashley Hodson eitt, en hún kom inná fyrir Christie Murray þegar rúmar 10 mínútur voru eftir af leiknum.

Afar ánægjulegt að sjá að Babajide er farin að raða inn mörkum fyrir félagið. Sweetman-Kirk hefur verið sú sem hefur tekið það að sér að mestu leyti, en það hefur alltaf verið ljóst að það er mikið efni í Babajide, stór og sterk og með talsverðan hraða, svolítið óslípaður demantur. Hún er enda í 21 árs landsliði Englendinga, og ekki að ástæðulausu. Ein af mörgum ungum og efnilegum leikmönnum Liverpool, og full ástæða til að vera bjartsýn(n) fyrir hönd liðsins.

Það hafa ekki borist fréttir af leik akademíuliðsins, við setjum uppfærslu á því í athugasemdir.

4 Comments

  1. Kannski rétt að taka fram að leikurinn hefst núna kl. 13, og ég hef ekki fundið streymi á leikinn. Læt vita ef slíkt finnst.

  2. Staðan 3-1 í hálfleik, Babajide með 2 mörk og Yana Daniels með eitt. Gaman að sjá að markaskorunin er öll að koma til hjá liðinu.

    • Reyndar ekki alveg svona slæmt :-), liðið fór í greiðslustöðvun og því voru tekin einhver slatta mörg stig af þeim. Það var held ég alltaf ljóst að liðið myndi falla, en þetta gerði útslagið.

Páskaleikur í Cardiff – Upphitun

Byrjunarliðið gegn Cardiff City á Stadiwm Dinas Caerdydd