Cardiff City 0-2 Liverpool

Mörkin

0-1 Gini Wijnaldum 57.mín
0-2 James Milner (víti) 81.mín

Leikurinn

Sól skein í heiði í Cardiff-borg og velski vallarvörðurinn virðist hafa verið í páskafríi þar sem að það „gleymdist“ að vökva völlinn sem hægði á hraða boltans frá upphafi leiks. Eins og búast mátti við þá voru Liverpool mikið með boltann frá fyrstu mínútu en þó án þess að ná að ógna marki heimamanna að nokkru leyti. Cardiff stunduðu góðan skammt af anti-football með töfum við hvert tækifæri og lágu lengi við minnstu snertingu.

Vængmenn Cardiff voru þó hættulegir og voru að valda bakvörðum okkar vandræðum. Á 14. mínútu þá fór Mendez-Laing auðveldlega framhjá TAA og krossaði fyrir markið þar sem vængsamherji hans Junior Hoilett fékk boltann í skotstöðu á fjærstöng en Robertson blokkaði skotið á síðustu stundu. Viðvörun fyrir vörn gestanna.

Lítið var að gerast hjá okkar mönnum framan af þó að við værum mikið með boltann og illa gekk að opna vörn Cardiff. En upp úr þurru á 21.mínútu þá sundurspiluðu Salah og Mané vörn heimaliðsins og Firmino fékk dauðafæri einn gegn markverði en skaut yfir með vinstri fæti. Illa farið með úrvals tækifæri og hefði verið kærkomið að komast yfir á þeim tímapunkti.

Stuttu síðar sprengdi Mendez-Laing enn og aftur framhjá TAA á sprettinum en okkar uppaldi hægri bakvörður var greinilega skotmark Cardiff sem veikasti hlekkur Liverpool. Því miður var það að virka ágætlega þar sem mesta hættan kom upp og í gegnum TAA. Rauðliðar voru þó að vaxa inn í leikinn og tempóið að aukast með meiri sóknarþunga en enn hélt vörn Cardiff. Velskir áhangendur voru með háværasta móti og studdu vel við bakið á sínum mönnum og nýttu hvert tækifæri til púa á Púlara.

Til að undirstrika heiðríkjuna og 25 stiga hitann á vellinum að þá var tekin vatnspása eftir hálftíma leik til að brynna klárunum. Eitthvað virtist vatnið á tankinn gefa okkar mönnum aukakraft því beint á eftir á 33.mínútu átti Salah frábæran snúning eftir sendingu Henderson og kom sér í gott færi í teignum en Neil Etheridge varði vel af stuttu færi í markinu.

Rauðliðar héldu áfram að hækka hitann í sókninni en enn vantaði lokagæðin í lykilsendingar, slútt á færum eða skyndiupphlaup. Um 80% ball possession dugði ekki til að koma bolta í markið en á undir lok hálfleiksins fengu heimamenn hornspyrnu og í kjölfarið af miklum skallatennis þá féll boltinn fyrir Niasse sem hitti boltann illa í góðu færi en Allison gerði þó vel að verja skotið yfir.

0-0 í hálfleik

Seinni hálfleikurinn hófst með hálffæri heimamanna hjá hafsentinum Morrison sem skallaði yfir markið frá fjærstöng. Í endursýningum sást að Robertson tók lúmskt tog í treyjuna á Morrison og rauðliðar líklega heppnir með að sleppa með skrekkinn þar. Video-dómgæsla hefði fangað þetta og myndi gera það næsta vetur en Liverpool hefur frekar orðið fyrir barðinu á slíkri dómgæslu í vetur en grætt á henni.

En Liverpool voru þó með tögl og hagldir á vellinum og augljóst að þeim var að takast að þreyta þorskinn. Það kom því engan veginn á óvart þegar að fyrsta markið kom á 57.mínútu. Alexander-Arnold tók hornspyrnu frá hægri sem var í lágum gæðaflokki en hitti fyrir Gini Wijnaldum sem átti heimsklassa hamarshögg upp í hægra hornið á markinu. Deila má um hvort að uppsetningin hafi verið beint af æfingasvæðinu eða lukkulegt lán í lélegheitum en markið var glæsilegt hjá Gini og ísinn loks brotinn.

Liverpool héldu áfram að auka sóknarþungann til að dauðrota leikinn og draga drýsilinn að landi. Fjórum mínútum eftir markið átti Mané góðan undirbúning og sendingu á fyrirliðann Henderson í teignum en í dauðafæri skaut Jordan himinhátt yfir markið með skoti sem Charlie Adam hefði verið stoltur af. Örstuttu síðar fengu heimamenn sitt besta færi leiksins eftir að Alisson náði ekki að hreinsa nægilega vel frá teignum og boltinn barst á títtnefndan Morrison sem skallaði tuðruna með herðablöðunum frekar en kollvikunum og færið fór forgörðum. Hollenskar heimildir herma að dómarinn hefði dæmt brot í teignum ef Morrison hefði skorað en það er hið besta mál að ekki reyndi á þann orðróm.

Að þessum líflegheitum loknum datt leikurinn algerlega niður í hraða og í kjölfarið fylgdu fjöldamargar innáskiptingar. Fabinho kom inná fyrir Keita en entist ekki lengi þar sem brasilíska miðjuakkerið fékk höfuðhögg skömmu síðar sem krafðist þess að hann þurfti að víkja fyrir innkomu Milner. Innkoma hins óleiðinlega James átti eftir að koma í góðar þarfir því að á 80.mínútu var dæmt víti þegar að Mo Salah var ólöglega knúsaður í korter af mússímúss Morrison. Dómarinn dæmdi réttilega víti þó að Gary Neville hafi haft ranga skoðun á því og Milner lét ekki slíkt happ úr hendi sleppa og kláraði vítið örugglega með elliglapafagni í þokkabót.

Örugg forusta komin og sigurinn í höfn þó að Salah hefði getað bætt við markatöluna á lokamínútunum en Etheridge varð vel frá Egyptanum

0-2 sigur fyrir Liverpool

Bestu leikmenn Liverpool

Framan af þá voru fáir Rauðliðar að komast upp úr öðrum gír og flestar frammistöður mjög svo miðlungs. Eftir því sem leið á leikinn þá batnaði frammistaðan og stjórn okkar á spilinu jókst. Hafsentarnir Matip og VVD voru traustir í dag og Alisson leysti allt það sem á þurfti að halda. Henderson og Keita voru ágætir á miðjunni en vantaði broddinn til að setja mark sitt almennilega á leikinn. Mané var einnig líflegur að vanda og setti mikinn kraft í sína frammistöðu og sama má segja um Salah sem hefði getað skorað úr sínum færum en var með vanstilltan vinstri fót í dag.

Maður leiksins var hins vegar Hollendingurinn Gini Wijnaldum sem kom aftur í byrjunarliðið í djúpri stöðu á miðjunni og átti flottan leik. Öguð frammistaða með 96% sendingarhlutfall og hið mikilvæga opnunarmark leiksins sem var glæsilegt hamarshögg úr teignum.

Vondur dagur

Í fyrri hálfleik var herjað á Trent Alexander-Arnold og hægri bakvörðurinn réð illa við álagið með þeim afleiðingum að helstu sóknarfæri Cardiff komu í tengslum við greiða leið í gegnum hans stöðu. Hin hörmulega/þrælæfða hornspyrna gaf honum þó stoðsendingu í kladdann sem hýfði einkunnina hressilega upp.

Uppfært: Í viðtölum eftir leik við Klopp og Wijnaldum kom fram að hornspyrnan var hvorki hörmuleg né þrælæfð en hins vegar var hún hugmynd leikmanna í búningsklefanum í hálfleik. Þeir höfðu tekið eftir því að varnarvinna Cardiff í hornum bauð upp á pláss fyrir framan markteig og lág sending á Gini gæti skapað gott skotfæri. Sem það heldur betur gerði með fyrnaföstum afleiðingum! Þá vitum við það.

Eftir stendur að Firmino var í engu takti við leikinn í dag og fór skelfilega illa með frábært dauðafæri í fyrri hálfleik. Sem betur fer skiptu slæmu frammistöðurnar engu máli í lok dagsins þar sem lokatölurnar voru Liverpool í vil.

Aron Einar Gunnarsson fær einnig mínus fyrir að hafa verið svo ógáfulega agressívur að fá gult spjald fyrir mótmæli vegna hinnar augljósu vítaspyrnu sem að Liverpool fengu dæmda vegna brotsins á Salah. Það er ALDREI jákvætt að vera jafn “skynsamur” í skoðannamyndun og bæði Gary Neville eða Neil Warnock. Skamm skamm Aron Einar.

Tölfræðin

 • Cardiff hafa ekki unnið Liverpool frá 1959 en sá tapleikur var fyrsti leikur LFC undir stjórn Bill Shankly. Fall var fararheill í þeim málum og síðan eru liðin 60 ár þó að reyndar séu leikir milli liðanna ekkert sérlega margir á þeim tíma.
 • Warnock var kokhraustur fyrir viku síðan og fullyrti að honum gengi ALLTAF vel gegn Liverpool. Uppfærð tölfræði liða undir stjórn Warnock gegn Liverpool eftir þennan leik eru 2 sigrar, 1 jafntefli og 7 töp. Miðað við feril og getu Warnock þá er 20% vinningshlutfall og 70% taphlutfall líklega nokkuð gott mót hjá gamla steingervingnum.
 • James Milner hefur skorað úr 15 vítaspyrnum af þeim 17 sem hann hefur tekið fyrir Liverpool FC.

Umræðan

Andleg heilsa Púlara mun snöggskána við þessi úrslit þó að það hafi verið vonbrigði að Tottenham tókst ekki að ná stigi af Man City deginum áður. Þessi leikur í Wales var óþægileg viðureign á dagatalinu og það er léttir að hafa landað öruggum 3 stigum og sanngjörnum sigri gegn varmenninu Warnock. Sem fyrr þá sýndu Rauðliðar mikla yfirvegun í sinni nálgun þó að áhangendur hafi nagað neglur sínar upp að öxlum í stressi meðan á leik stóð. Vel gert hjá Klopp & co. að standast pressuna og höndla leikjaálagið eftir Evrópuleik á útivelli í vikunni.

Allra augu munu nú beinast fram í miðja viku að grannaslag Manchester-liðanna en úrslit rauðu djöflanna gegn blárri helming Liverpool-borgar gæti hafti mikil áhrif á þann leik. Gary Neville og undarlega margir man utd menn hafa verið meira en tilbúnir til að farga velgengni eigin liðs til þess eins að geta minnkað líkurnar á að Liverpool verði meistarar. Líklega hafa þeir sem slíkt hugsa gleymt því hver meining orðsins stuðningsmaður er en þeir um það. Í húfi fyrir heimamenn í þeim grannaslag verður barátta um CL-sæti og framtíð stjóra, leikmanna og yfirmanna einnig. Aumingjaskapur eins og sást í dag á Góðravonargarði verður vart í boði nema að fyrrum ægivaldur ensks fótbolta sé með öllu skyni skroppinn og gerilsneyddur af öllu stolti, getu og manndóm.

YNWA

30 Comments

 1. Góðum leik lokið þó var seinni hálfleikurinn mun betri en sá fyrri.
  Fannst Matip og Hendo geggjaðir í þessum leik.
  Firmino var frábær.

  YNWA

  5
 2. Frábær sigur. En hvern djöfull er að koma fyrir Andy Robertson. Búinn að vera eins og hauslaus heilalaus hæna undafarna leiki. Moreno fýlingur. Á sínum degi er hann best bakvörður deildarinnar en hann þarf að fara rífa sig í gang

  2
 3. Einfaldlega flott 3 stig og það er eina sem skiptir máli.

  3 leikir eftir og þurfum við 9 stig og ekkert annað til að eiga pínu möguleika. 88 stig og 3 leikir eftir þetta er stórkostlegt lið sem við eigum það er ekki hægt að segja annað.

  YNWA

  10
 4. 3 stig og pressan sett á city. Þetta var vinnu sigur. Allt sem skiptir máli eru stigin 3. Alveg merkilegt hvað tjallinn getur alltaf talað um að Salah láti sig detta inní teig, þó svo honum sé haldið, rifið í hann og hann tæklaður í drasl. Þetta var eins augljóst víti eins og þau gerast !

  14
  • Það er ekki eins og Salah hafi ekki reynt að standa í lappirnar. Maðurinn einfaldlega sleppti honum bara ekki og þá var ekkert annað að gera en að fara niður.

   2
 5. Geggjaður karakter og gríðarlega mikilvægur sigur í höfn. Þetta lið mar!

  Hendo og Gini bestir í dag. En dauðafærið sem Hendo fékk, vá!

  Frábær úrslit einnig á Emirates sem þýðir að það að United eru enn í baráttunni um 3. og 4. sætið. Endurtek samt sem ég sagði áðan að ég hef litla sem enga trú á að United stríði City nk. miðvikudagskvöld en það er enn (mjög veik) von um að það gerist. Þeir hafa allavega eitthvað að keppa að. Ætli maður fylgist ekki eitthvað aðeins með þeim leik 🙂

  Gleðilega páska!

  2
 6. Það er ekki hægt annað en að dýrka Klopp. Hann var spurður um hvernig hann undirbjó liði fyrir þennan leik.

  “Yesterday we didn’t cut the grass at Melwood, and didn’t water it,, – Það eru nákvæmlega aðstæðurnar sem þeir voru að eiga við í dag.

  15
 7. STÓRkostlegur sigur og fagnið hans Gini sýndi okkur hversu hrikalega stórt þetta mark var fyrir hann og okkur! Mér var flökurt af stressi og ég vil meina að fyrst scums skitu í buxið í dag að þá verða bara verða þeir að mæta til leiks á miðvikudaginn og ná stigi þar! Borgarslagir eru öðruvísi og oft á tíðum bara stríð!

  Liðið okkar er stórfenglegt og það yrði glæpur gegn fótboltanum ef við vinnum ekki þessa deild!

  8
 8. Já og annað, neville vildi meina að þetta væri ekki víti. Það er ekki gott fyrir sportið þegar svona rosalega hlutdrægir menn eru að lýsa leikjum. Þetta var 110%.

  12
  • Hlustaði nú á Henry Birgir sem er nú United maður lýsa þessum leik og tækla þetta atvik nákvæmlega eins og það kom manni fyrir sjónir. Talaði ekki einu sinni um Salah eða að hann hefði reynt að gera sér mat úr þessu heldur fáránlegan varnarleik Morrisson.

   Hef líka margoft séð menn eins og Rikka G og Hödda Magg lýsa leikjum með sínum liðum (báðir grjótharðir stuðningsmenn sinna liða) án þess að stjórnast af því með hverjum þeir halda. Finnst m.a.s. Neville allajafna mjög góður, en sá skeit í brækurnar í gær og því miður er ég ekki viss um að þetta sé út af því að Salah spilar fyrir Liverpool, eða ekki bara út af því. Held að það sé stærra vandamál fyrir þeim að hann er ekki frá Englandi.

   Á Englandi er Morrisson fórnarlambið í þessu atviki! Reynið að finna klippu af því þegar Neville var lýsa því þegar Englendingurinn Calvert-Levin fékk víti á síðasta tímabili gegn Lovren sem kom varla við hann. Þá var það nú heldur betur Lovren sem var asninn og bauð hættunni heim.
   Sama rugl hljómaði svo í MOTD þá um kvöldið. Þeir (MOTD) voru hinsvegar á því í gær að þetta væri klárt brot en samt dýfa og skammarlegt hjá Salah. Það er bara eins og enskir sparkspekingar þoli það ekki þegar Salah fær vafaatriði. Herferðin gegn honum er með ólíkindum og erfitt að flokka hana sem annað en andúð á útlendingum. Því að ekki fá leikmenn eins og Kane, Alli, Zaha, Vardy, Rashford o.s.frv. nálægt því sömu meðferð þó þeir hendi sér allir mun oftar niður en Salah.

   Það er ALDREI talað um brotin á Salah, hann hefur ekki ennþá farið í einvígi á þessu tímabili án þess að honum sé haldið og það er jafnan ekkert talað um það þegar hann stendur svona árásir af sér (og fær ekkert fyrir það hjá dómaranum).

   Það hefur nota bene hvað helst pirrað mig við Salah þegar hann stendur svona brot af sér að óþörfu. Vill mikið frekar Suarez týpu sem gerir allt til að vinna, eins fullkomlega óþolandi og hann er þegar hann er í liði andstæðinganna.

   6
 9. Sæl og blessuð.

  Ég segi nú bara aftur: Takk Sean Morrison… sá maður færði okkur sigurinn á silfurfati.

  Hefði hann skorað fyrir opnu marki en ekki tekið boltann á hnakkann þá hefði leikurinn þróast á allt annan hátt. Og auðvitað þessi fangbrögð sem hann tók á Salah – sem var ekki í neinu skotfæri – voru heimska á heimsmælikvarða. Enn heimskara var að mótmæla þeim dómi!

  Ef og hefði – hann ekki spilað þetta upp í hendurnar á okkur er ég hræddur um að einkunnir leikmanna væru í bjórprósentum og við værum hnípin og súr. Þetta var satt að segja langt frá því að vera gott hjá liðinu okkar. Meðferðin á dauðafærum var engan vegin ásættanleg og þetta Cardiff lið sem ekkert hefur getað í sinni sókn átti nokkur mjög hættuleg færi. Makalaust ónákvæmar sendingar og sitthvað fleira sem maður er ekki mjög sáttur við.

  En þetta blessaðist blessunarlega og nú eru það hverjir næst? Höddararnir? Það er eins gott að við tökum þá með snyrtimennskunni. Risastór sigur væri vel þeginn.

  Svo er það stóra prófið. Barca á baráttudegi verkalýðsins. Svakalega hlakka ég til að sjá liðið mitt stíga upp í sínu albesta formi þá!

  2
 10. Neville er bara salty og það skín vel í gegn hann nær ekki að leyna því alveg sama hvað hann reynir.

  4
 11. Ég vil leiðrétta eitt varðandi hornspyrnuna hjá Trent Alexsander sem uppskar mark. Þeir töluðu um það í hálfleik að plássið sem Wijnaldum fór í í hornspyrnunni væri opið og því fór hann þangað og því varla hægt að segja að þetta hafi verið lítil gæði í sendingu Trent. Klopp var að segja þetta í viðtali. Klopp var mjög ánægður með þetta mark.

  4
  • Hvort sem að hornspyrnan hafi verið útpæld eða ekki þá var sendingin erfið. Gini lét hana líta vel út með því að hamra hana í markið eins og ekkert væri.

   Klopp og allir Púlarar alltaf ánægðir með öll Liverpool-mörk.

   4
 12. Fyrir þá sem ekki tóku eftir þá er skýrslan kominn inn og ég rétt náði að narta í afgangana af páskalambinu.

  YNWA

  11
 13. Fyrir mér var Henderson maður leiksins, í allavega tveimur atvikum vann hann boltann frábærlega í mjög hættulegri stöðu og fannst hann sprækur þrátt fyrir spæleggið hans fyrir framan markið. Wijnaldum er þó close second auk Matip sem mér fannst frábær í leiknum.

  Ég vorkenni Utd mönnum sem eru raunverulega það litlir í sér að þeir vilji frekar sjá sitt lið í Europa league heldur en að taka stig af City og auka líkurnar á sigri Liverpool í deildinni. Mikil biturð þessa dagana í brjóstum Utd manna sem voru ofdekraðir í hátt í þrjá áratugi og eiga erfitt með sig þessa dagana.

  Oooog sorry memmig en ég verð. Tögl og hagldir**

  Góðar stundir ?

  10
  • Veit ekki hvers vegna það kom spurningarnar merki þarna í lokin hah.

  • Takk fyrir hagldirnar. Oooog sorry, en “memmig” er klárlega skrifað “með mig” skv. orðabók Menningarsjóðs múahahaha

   Beardsley
   YNWA

   5
 14. Sælir félagar

  Takk fyrir skýrsluna Magnús Þórarinsson. Mikið var gott að ná í þennan erfiða sigur í kvöld en ég er algerlega ósammála skýrsluhöfundi um mann leiksins. Fyrir mér var Firmino langbesti maður vallarins að öllum meðtöldum. Yfirferðin, vinnslan og áhrifin á leikinn voru algerlega afgerandi í þessum leik. Oft á tíðum var hann eini maður Liverpool sem var að vinna endalaust meðan liðið sem heild mallaði aldrei hraðar en í öðrum gír. Ég veit ekki hvernig þessi leikur hefði endað ef Firmino hefði ekki stöðugt keyrt áfram og dregið liðið á eftir sér.

  Það er bara þannig að ekkert getur bjargað titli í hús nema meistaradeildin. Ef einhver bindur vonir við MU þá eru það falsvonir því það man enginn núlifandi lengur eftir lélegra MU liði en því sem er að spila í dag. Þetta samansafn af dúkkulísum mun ekki verða MC nein fyrirstaða. Ekkert lið nema Liverpool hefur neitt í MC að gera á vellinum. Þar sem við höfum lokið okkar leikjum við stóra liðið í Manchester þá er engin leið að fyrir okkar lið gera neitt í okkar titilvonum.

  Því skulum við vona að liðið okkar klári leiktíðina með stolti og vinni sína leiki. Það er það eina sem ég fer fram á í deildinni. Svo væri gott að vinna meistaradeildina svona til að skila einum titli í hús með mestu stigasöfnun sem nokkurt lið í öðru sæti deildarinnar hefur fengið.

  Það er nú þannig.

  YNWA

  4
  • Á meðan það er von… Þá er von 😉

   Kannski var bara gott að manhú fengu rassskellingu í dag og að mikil pressa sé komin á óla gunnar sólarskerið. Vonandi munu þeir ná að parkera rútunni og berjast fyrir CL-sætinu á miðvikudaginn. Yndislega staða hjá þessu gamla stórveldi, eða þannig. Ekki það að ég grenji það eitthvað!

   5
 15. Annað sæti? Anyways.
  Einhver tapar stigi og flugið
  upp í loft er bikar berst
  að brjósti fyrirliða og skerst
  við skrínu hans, og engu logið,
  er sem mjólk að morgni, og days
  will never be the same, því trogið
  af töpum, gömlum, liðnum, löngum,
  langdregnum mótum af lúnum drengjum,
  er búið… þeir sem í rauðu ræða
  rigningarleysi á páskadegi
  vita að veröld bíður þeirra.
  Kannski í vor. Kannski næsta vor.
  Keppnin heldur áfram, verður
  æði jöfn. Svo er leikur gerður.
  Liðið okkar hefur þrek og þor.

  9
 16. Frábært að sjá að ósk mín um að hægt sé að svara ákveðnum kommentum beint hefur verið svarað og sett í notkun. Þessi síða verður bara betri og betri.

  13
 17. Stór sigur og ágætis leikur 70-80% possesion en gáfum samt óþarfa færi á okkur. Alltaf víti held ég fyrst Lovren fékk dæmt á sig víti í fyrra eða hitteðfyrra fyrir að leggja hönd á mann inni teignum. Minn maður leiksins var Henderson þar sem hann bjargaði okkur 1-2 stórkostlega og miðverðirnir fylgja rétt á eftir. Er hræddur um að shitty haldi þetta út og vinni þetta en það er alltaf von, einhver ofurtölva er búinn að spá þeim titlinum en það þarf enga ofurtölvu til að sjá það að þeir hafa ekki unnið 6 leiki og við ekki unnið 8. Með öðrum orðum að shitty hefur unnið fleiri leiki en við. Ég ætla allavega að leggjast á bæn á miðvikudag því það er alltaf von.

  1
 18. Úff núna verður maður að treysta á Man Utd að gera eitthvað. Kannski er það gott að þeir skít töpuðu í dag. Djöfull er þetta pirrandi maður 🙁

  4
  • Elli það treystir enginn á MU í fótbolta. Þeir eru svo lélegir að það nær engu tali. Við þurfum einfaldlega að vinna alla okkar leiki og sjá svo til hvort MC skriplar á skötu einhversstaðar. En að þeir tapi stigum á móti MU er glórulaust.

   1
 19. Fótbolti er óútreiknanlegur.
  Meira að segja þegar MC á í hlut.
  Einn leikur í einu og spyrjum að leikslokum.
  Ég nýt hverrar mínútu.
  YNWA

  1
 20. Takk fyrir það. Öruggur sigur eins og við var að búast. Liverpool er með betra lið en Cardiff þó þeir berjist eins og þeir geta og fyrir lífi sínu í deildinni sem ég vona svo sannarlega að þeim takist. Virkilega gaman að hafa lið frá Wales í deildinni.
  Hvað var þetta með Salah og vítið. Er verið að gera mikið úr því að hann vildi taka vítið eða hvað? Er ekki klárt hver tekur vítin ef Milner er inná? Þetta hlýtur að vera sett upp fyrir leikinn og menn eiga ekki breyta því nema einhverjar sérstakar ástæður séu til þess, td mjög örugg forysta eða ef einhver er búinn að skora tvö mörk og langar í þrennuna. Auðvitað vill Salah fá markakóngstitilinn en hann verður fyrst og fremst að hugsa um liðið og ekkert kjaftæði. Liðið gengur alltaf fyrir metnaði hvers og eins leikmanns. Ian Rush sá einstaki leikmaður heimtaði aldrei að fá að taka víti þó hann væri í keppni um markakóngstitil ár eftir ár.

  3

Byrjunarliðið gegn Cardiff City á Stadiwm Dinas Caerdydd

Salah sala?