Porto – Liverpool 1 – 4

Liverpool heimsóttu Porto í kvöld og unnu góðan 1-4 útisigur, og tryggðu þar með einvígi við Barcelona um það að fá að mæta til Madrid í vor í úrslitaleik meistaradeildarinnar.

Mörkin

0-1 Mané (25.mín)
0-2 Salah (65. mín)
1-2 Militao (69. mín)
1-3 Firmino (77. mín)
1-4 Virgil (84. mín)

Gangur leiksins

Það var ansi varfærið rauðklætt lið sem hóf þennan leik, og satt að segja áttu Porto menn leikinn að mestu leyti, án þess reyndar að skapa sér einhver dauðafæri, en voru klárlega mun líklegri til að skora. Fremstu menn okkar voru lítið í boltanum, Mané byrjaði fremstur en eftir u.þ.b. korter skipti hann við Origi. Það var síðan á 25. mínútu að okkar menn fengu sitt fyrsta færi. Eftir svolítið kraðak í teignum fékk Salah boltann vinstra megin við vítapunkt, gaf sendingu inn á markteig (sem hefði sjálfsagt getað verið skot sömuleiðis), þar var Mané mættur á undan Casillas og setti boltann í netið. Hann fagnaði þó ekki enda lyfti línuvörðurinn flagginu, en dómarinn setti VAR hópinn í að skoða málið. Eftir vandlega skoðun kom í ljós að Mané hafði alls ekkert verið rangstæður þegar Salah lék boltanum, og markið fékk því að standa. VAR að koma sterkt inn, bæði í þessum leik og víðar í kvöld.

Hálfleikurinn kláraðist án þess að mikið meira markvert gerðist, síðasta spyrna hálfleiksins var reyndar skot frá okkar mönnum sem fór naumlega framhjá, en staðan 0-1 í hálfleik. Þetta eina mark þýddi auðvitað að staðan var 0-3 samtals, og þar sem Liverpool var komið með útivallamark hefði Porto þurft að skora 4 mörk til að komast áfram. Svoleiðis gerist ekki oft nú um stundir, undirritaður man síðast eftir því að vörnin og Alisson hafi fengið á sig 3 mörk í Palace leiknum í janúar, en fjögur mörk komu líklega síðast í seinni Roma leiknum í vor (leiðréttið mig ef mig misminnir).

Þrátt fyrir að staðan hafi verið góð ákvað Klopp að þétta miðjuna, enda veitti kannski ekki af. Hann setti því Firmino inn á í staðinn fyrir Origi, og skipti í 4-2-3-1 með Salah uppi á topp, Firmino fyrir aftan hann, Mané hægra megin og Milner vinstra megin, en þó skipt yfir í 4-3-3 þegar það hentaði. Holningin á liðinu varð allt önnur og betri, og á 65. mínútu átti Trent magnaða sendingu þvert í gegnum vörn Porto beint í lappirnar á Salah, og hann bókstaflega gat ekki annað en skorað. Þetta reyndist vera síðasta framlag Trent í leiknum því honum var skipt út af fyrir Gomez strax eftir markið. Afar jákvætt að fá Gomez aftur inn í hópinn.

Hafi einvígið verið búið þegar Porto þurfti að skora 4 mörk, þá var það alveg steindautt þegar Porto þurftu að skora 5 mörk. Þeir skoruðu reyndar eitt nokkrum mínútum eftir mark Salah, þegar Militao skoraði með skalla eftir hornspyrnu, en nokkuð ljóst að 4 mörk á 20 mínútum var ekki að fara að gerast. Þá var Robertson kallaður á bekkinn og Henderson kom inn á, og hann var síðan ekki lengi að setja mark sitt á leikinn því á 77. mínútu átti hann frábæra sendingu inn á teig þar sem Firmino kom aðvífandi og skallaði í netið. Staðan 1-3, Porto aftur komið í þá stöðu að þurfa að skora 5 mörk, og því lítil spenna þannig séð í leiknum. Skömmu áður hafði Mané fengið gullið tækifæri til að skora þegar hann komst einn inn fyrir og komst fram hjá Casillas, en þrátt fyrir að vera fyrir opnu marki náði hann ekki að setja boltann á rammann enda kominn úr jafnvægi.

Leiknum var svo lokað endanlega á 84. mínútu þegar Milner tók hornspyrnu, boltinn rataði á kollinn á Mané sem nikkaði honum inn á markteig, þar var Virgil van Dijk einn og óvaldaður og þurfti ekki einu sinni að hoppa heldur stangaði bara boltann í netið.

Síðustu mínúturnar fóru svo bara í það að sigla leiknum örugglega í höfn, og passa að enginn færi að meiðast eða neitt slíkt. Það fór vissulega um menn þegar Fabinho lenti í samstuði um miðjan seinni hálfleik og hélt um fótinn eftir það, en hann náði a.m.k. að klára leikinn og er vonandi í lagi fyrir helgina.

Hópurinn fagnaði vel þegar dómarinn flautaði til leiksloka, enda liðið komið í undanúrslit meistaradeildarinnar annað árið í röð.

Góður dagur

Þessi úrslit eru auðvitað bara akkúrat það sem við vildum. Liðið virkaði vissulega full varnarsinnað og varkárt í fyrri hálfleik, en Klopp fær prik í kladdann fyrir að laga það strax í hálfleik, og eftir að Firmino kom inn á var eiginlega aldrei spurning um að liðið myndi sigla þessu í höfn. Persónulega fannst mér enginn leikmaður standa virkilega upp úr, þetta var mjög mikill liðssigur. Einna helst að gefa Klopp nafnbótina maður leiksins, en eins og venjulega mætti líka alveg nefna Virgil, Salah, Mané og fleiri.

Slæmur dagur

Var eitthvað neikvætt við kvöldið? Jú það náðist ekki að halda hreinu, en það skiptir litlu í stóra samhenginu. Mögulega voru úrslitin í hinum leik kvöldsins neikvæð, getur verið að Spurs mæti “saddari” í leikinn við City á laugardaginn? Líklegast ekki, kannski mun sú staðreynd að City er úr leik í meistardeildinni verða þungbær fyrir liðsandann í hóp City manna. Það væri afar æskilegt ef Tottenham nái að hirða a.m.k. einhver stig af hinum bláklæddu um helgina, en það verður allt að koma í ljós.

Origi var tekinn af velli í hálfleik, og almennt þykir kannski ekki gott fyrir leikmann að vera tekinn snemma af velli, ekki það að hann hafi verið að spila eitthvað illa sem slíkt. Holningin á liðinu var bara þannig, og það kom kannski best í ljós þarna hvað vinnuframlagið hjá Firmino er mikilvægt. Einna helst getum við sagt að þetta hafi verið slæmur dagur fyrir andstæðinga VAR.

Hvað er framundan?

Nú verður fókusinn aftur settur á deildina, því framundan er gríðarlega mikilvægur leikur gegn Cardiff á útivelli næsta sunnudag. Liðið verður einfaldlega að halda fókus, og verður að klára þann leik, en það verður allt annað en auðvelt enda Warnock að berjast fyrir lífi Cardiff í deildinni. Það vill til að Klopp kann alveg að mótívera sína menn og því treystum við honum fullkomlega til að afgreiða þann leik. Í millitíðinni leika svo City og Spurs þriðja leik sinn á 10 dögum, og eftir viku verður svo borgarslagurinn í Manchester. Vonandi sjáum við einhver stig renna City úr greipum í þessum leikjum.

Hvað meistaradeildina varðar, þá eru það núna undanúrslitin sem bíða. Liverpool – Barcelona. Verður það safaríkara? Alveg ljóst að Suarez og Coutinho munu fá “hlýjar” móttökur á Anfield, en okkar menn verða að finna leið til að stöðva þríeykið sem þeir tveir mynda ásamt líklega besta leikmanni jarðar um þessar mundir. Og ef Klopp og félagar finna lausn á þeirri þraut bíður svo úrslitaleikur í Madríd í vor þar sem andstæðingarnir verða annaðhvort Ajax eða Tottenham. Semsagt, allt gríðarlega spennandi leikir, en klárlega leikir sem Liverpool á að geta klárað.

Munum svo bara að njóta stöðunnar. Liverpool er aftur mætt í fremstu röð, því það er ekkert óvart að þetta lið okkar skuli vera að berjast um tvo stærstu bikarana á sama tíma. Ég vil því biðla til okkar áhangenda að minnast þess að vera þakklát fyrir þetta lið okkar, að vera þakklát fyrir Klopp og alla leikmennina sem eru að gera þetta mögulegt, vera þakklát fyrir stöðuna sem liðið er í á þessum tveim vígstöðvum, nú og svo skulum við endilega loka augunum í smá stund og sjá fyrir okkur Jordan Henderson lyfta a.m.k. einum bikar núna í vor, ef ekki tveim. Hver veit nema slík sýn muni svo rætast þegar allt kemur til alls.

26 Comments

  1. Veit ekki hvaða áhrif þessi UCL leikur hefur á deildarleikinn. En City ættu að vita að þeir eru ekkert svo æði.

    3
  2. Auðvelt fyrir okkur og City gerðu það sem þeir gera í CL vanalega það er að skíta á sig.

    6
  3. City menn grenja eftir leikinn gæti brotið þá að hafa dottið út….VAR að hafa RISA áhrif i kvöld…

    7
  4. Verr og miður tapaði City, sem kemur sér afar illa fyrir Liverpool í baráttunni um hinn stóra titilinn. Leikjaálag hjá þeim minkar og svo óheppilega vill til að City eru að spila gegn Tottenham í næsta leik. Hversu mikil óheppni er það ? Þar mætir City væntanlega þríelfdir til leiks og taka mjög líklega þann leik. Leikjaálag hjá Man city minnkar og þeir eru svo svakalega sterkir

    Ég vil samt óska Tottenham til hamingju því það er viss sigur fyrir fótboltann þegar lið eins og Man City. Paris Saint germain vinna ekki allt sem þeir geta unnið.

    3
  5. Er ekkert viss um að sitty vinni spurs í næsta leik. Það getur nefnilega verið ansi erfitt að rífa sig upp eftir svona skell. Ekki gleyma því að spurs eru í bullandi baráttu um CL-sæti.

    Bring on barca!

    28
  6. Verðum að vona að þessi fáranlega svekkjandi úrslit brjóti City vel. Laporte og Ederson taka tap til sín og þeir fara að leka mörkum.
    Spurs fá blóð á tennurnar, ekki gleyma að þetta er mikilvægur leikur fyrir þá líka. Þeir gætu ennþá spilað í Evrópudeild á næsta tímabili og það er allt undir.
    Það væri fyndið ef næsti leikur þeirra endar 0-0. Ég myndi taka því.

    6
  7. Flottur sigur hjá Liverpool og 6-1 áfram gegn Porto sem slóu út Roma en núna að mál málana.

    Þetta er stórfurðulegar tilfiningar í gangi. Maður var meira með hugan við Man City – Tottenham leikinn í síðarihálfleik.
    Ef maður horfir á það að Tottenham er komið áfram.

    Kostir:
    Man City fengu algjört kjaftshögg og er þetta ekki til að auka sjálfstraust hjá þeim.
    Pressan á City er orðin rosaleg að vinna Enska titilinn núna og spurning hvaða áhrif það hefur á þá.
    EF(ath stórt) Liverpool fer í úrslit þá verður þar Ajax eða Tottenham sem er klárlega betri kostur en Man City.
    100% að Man City mun ekki stopa Liverpool í bæði deild og meistaradeild í ár).

    Ókostir:
    Leikjaálagið hjá Man City verður minna núna en á móti kemur er þetta lið að drukkna í breydd og ef eitthvað lið í heiminum ætti að ráða við leikja álag þá er það Man City.
    Man City eiga leik gegn Tottenham á laugardaginn og mæta brjálaðir inn í þann leik og vilja stúta þeim( ef Tottenham hefði ekki komist áfram þá hefðu þeir mætt með drápseðlið á laugardaginn, hvort að það hefði skipt máli veit ég ekki).

    Kostir og gallar en eins og alltaf þá stjórnar Liverpool ekki öðrum úrslitum en sínum eigin og vona ég bara að strákarnir hugsa bara um sitt verkefni eins og alltaf og sjá hverju það skilar.

    YNWA – ALLEZ, ALLEZ, ALLEZ 🙂

    5
  8. Sálfræði, tvöföld sálfræði og jafnvel meira.
    Verða MC brjál um helgina eða með hausinn þar sem sólin ekki skín.
    Verða Tott peppó eða saddir?
    Held að líkur séu MC 70 30 í hag.
    En geggjað kvöld. Bring on Barca. Það verður geggjað.
    YNWA

    1
  9. Skiptir engu hvað City gerir. Liverpool þarf að vinna sína leiki. Það er það eina sem skiptir máli. En mikið svakalega var þetta skemmtileg umferð í CL. Manchester liðin úr leik sem og Ronaldo og félagar í Juve. Mjög sætt og verðskuldað finnst mér.

    Og Liverpool. Ekki hægt að biðja um meira.

    5
  10. Þetta var rosalegt kvöld, Liverpool menn að sýna að þeir ætla að slátra öllum sem á vegi þeirra verða og ætla sér að vinna tvöfalt í ár.
    Vissulega erfitt og mögulega vinnum við ekki neitt en það breytir því ekki að þetta tímabil er að verða það besta í mörg ár.
    Næsti leikur er cardiff og þar verðum við að fá 3 stig og ekkert annað.

    9
  11. Úrslitin í kvöld voru rosaleg. Manchester City er með lið sem á alveg að geta peppað sig upp eftir tap…en tapið í kvöld er ekkert eðlilegt tap! Ég meina, VAR-dómgæsla undir lok leiks á heimavelli … verður til þess að City nær ekki fernunni … ég hefði haldið að City áfram myndi þýða enn grimmara City vegna þess að þeir fá á tilfinninguna að þeir séu ósigrandi … svona stundum eins og mér leið með Liverpool í kvöld og á móti Chelsea. … en núna … með Tottenham í bullandi baráttu um efstu fjögur sætin við ManUtd, Chelsea og Arsenal, þá getur verið komið blóðbragð á tennurnar og Tottenham væri trúandi til að stríða City virkilega í næsta leik. Og svo verð ég að vona að baráttan um Manchester borgina verði okkur til hags líka, þó svo að ég gæti vel trúað City til að slátra Manutd.

    En …. það er EKKERT víst í þessum efnum. Taugar? Pffftttt…. 🙂

    4
  12. Var á eftir að eyðileggja fótboltann.
    City fær á sig ólöglegt mark eftir mistök dómarans þegar hann skoðar VAR. Hvað næst VAR að fylgjast með VAR.

    2
  13. Þess má svo geta að akademíulið kvennaliðsins var að vinna sína deild þegar 3 leikir eru eftir af tímabilinu, og unnu svo Everton í vítakeppni í leik sem fór fram í kvöld (Ég átta mig ekki á því hvaða sadismi það er að láta nokkurt einasta Liverpool lið leika á sama tíma og aðalliðið er að spila í 8 liða úrslitum meistaradeildarinnar). Meðal leikmanna akademíunnar í kvöld voru Bo Kearns og Annabel Blanchard sem hafa leikið með aðalliðinu í síðustu leikjum. Framtíðin er því alveg ágætlega björt hjá Liverpool Women sömuleiðis.

    https://www.facebook.com/LiverpoolFCW/photos/a.690117244360302/2343154755723201/?type=3&theater

    20
  14. Þegar ég skoða töfluna, þá séð ég ekki betur en Tottenham megi illa við að að tapa gegn City. Þeir myndu missa Arsenal og Chelsea fram fyrir sig og Man Und myndu jafna þá að sitgum ef öll þessi þrjú lið myndu vinna.

    Þeir væru þá komnir í fimmta sæti og yrðu að vinna allt sem eftir er til að tryggja sér öryggt meistaradeildarsæti en þeir gætu það því þeir eiga einn leik til góða á Chelsea.

    Ég held að þessi ógn, sé nægjanlega mikil til að keyra þá upp fyrir leikinn og leggja sig allan fram. Það er viss léttir þó mér finnist ótrúleg óheppni að þessi lið mæti akkurat á þessum tímapunkti í deildinni og leikurinn hafi endað með sigri hjá Man City því þeir mæta þá dýrvitlausir í þennan leik.

    6
  15. Fullkomlega geggjað að Liverpool sé aftur komið í undanúrslit Meistaradeildarinnar. Held að við séum ekki ennþá að átta okkur á því hversu stórt þetta er. Eins er Liverpool ekki nærri því eins mikið underdog núna og fyrir ári. Það er magnað að fara í útileik í 8-liða úrslitum og hvíla menn og hafa efni á að gera taktískar skiptingar með næsta deildarleik í huga.

    PSG er farið fjandans til í þessari keppni
    Man City féll úr leik á eins svekkjandi hátt og mögulegt er held ég bara.
    Real Madríd var flengt af unglingaliði
    Christiano Juventus Can var líka flengt af sama unglingaliði
    Chelsea var ekki einu sinni með.
    Óli á hjólinu endaði út í skurði með Man Utd
    A. Madríd er líka úr leik lof sé guði að ykkar eigin vali.
    Við hentum Bayern úr leik, sá það með berum augum.

    Þar með er bara Barcelona eftir af þeim liðum sem ljúft væri að losna við úr Meistaradeildinni. Það er auðvitað rosalegt verkefni fyrir okkar menn en engu minna verkefni fyrir Barcelona. Liverpool er búið að loka hratt því bili sem verið hefur á þessum liðum undanfarin áratug og notað til þess að stórum hluta fjármagn sem Barcelona hefur dælt í Liverpool liðið. Ég get ekki séð að Liverpool fari inn í þetta einvígi sem eitthvað underdog, þetta er bara 5ö/50 fyrirfram. Vonandi hentar sóknarleikur gegenpress stíl Klopp fullkomlega og detti það inn þarf ekki að spyrja að leikslokum.

    Ég hef smá áhyggjur af því að sigur Spurs geri það að verkum að þeir verði alveg vindlausir á laugardaginn, bæði þar sem þeir eru í miklum meiðslavandræðum og eins þar sem City þarf bæði stigin og að hefna þessara ófara í Meistaradeildinni. Ég satt að segja er skíthræddur um að Spurs og því síður Man Utd geri okkur nokkurn greiða og City vinni rest. Vonin er samt auðvitað sú að þessi ósigur í kvöld dragi eitthvað úr því vígtennurnar.

    22
  16. Nú mega fölir finna súrt
    og flétta úr grösum ló.
    Ei verður létt á koddum kúrt,
    því keppnin þeirra dó.

    Næst trúum vér að Tottenham
    sig tilnefni til kjörs
    sem bróður þann er brjóst vort nam;
    við berjumst öll með Spurs!

    (bara næsta laugardag samt)

    15
  17. Hjartanlega sammála hverju orði Einar Matthías, ég sé ekki fyrir mér að City misstígi sig gegn Tottenham og United, en þeir tapa stigum fyrir rest. Þá mætir maður glaður í Liverpool 12.maí

    3
  18. Ég held að síttí muni misstíga sig enda er þetta frekar sálarlaus klúbbur sem selur ekki einu sinni öll sætin sín á stórleikjum og sturluð staðreynd; peppí gardíóla hefur eytt ,,bara” 754 milljónum punda (ekki íslenskar krónur) síðan hann kom en samt hafa þeir ekki náð í úrslit í CL. Fær hann sparkið í sumar? Ég meina, er ekki múrínjó ennþá á lausu?

    1
  19. Sælir félagar

    Ég er alsæll með stöðuna, þróunina og framtíðina. Ég elska þetta lið, strákan og Klopp. Ég er alsæll

    Það er nú þannig

    YNWA

    6
  20. Þá er það klárt, undanúrslitin þetta árið. Kemur bara alls ekki á óvart því liðið okkar er frábært. Fer að minna skemmtilega mikið á 83-84 liðið. Ég spái því að annaðhvort Liverpool eða Barcelona spili gegn annaðhvort Spurs eða Ajax í úrslitum. Þar sem ég er nokkuð spámannlega vaxinn efast ég ekki um að spáin muni rætast.
    Erfiðir andstæðingar en sagan segir okkur að ef eitthvert enskt lið hefur í þessu bestu spænsku lið þá er það okkar lið.

    5

Liðið gegn Porto

Barcelona, miðar og nýr búningur