Southampton annað kvöld

Enska deildin heldur áfram annað kvöld þegar Liverpool heimsækir Southampton í 33.umferð og freistar þess að hoppa aftur yfir Manchester City í harðri titilbaráttu. Man City vann sinn leik í gærkvöldi og eru því stigi á undan Liverpool með jafn marga spilaða leiki en um helgina munu þeir spila bikarleik svo Liverpool verður aftur leik á undan.

Við förum að sjá endalínuna í þessari deildarkeppni og nú fer hver leikur að tikka extra mikið, hver mínúta mun líða hraðar eða hægar, hvert mark vega meira og allt það.

Það var ekkert smá dramatískur og kærkominn sigurinn á Tottenham í síðustu umferð og á pappír ætti það líklega að hafa verið fyrirfram erfiðasta hindrunin hjá Liverpool í lokaleikjunum liðsins í deildinni. Fótboltinn er þó ekki spilaður á pappír og því margar hindranir framundan og sú næsta verður fyrir framan Liverpool annað kvöld.

Southampton hefur verið á góðri siglingu undanfarið og gert góða hluti undir stjórn “hins austurríska Klopp” Ralph Hasenhuttl sem tók við þeim um áramótin. Southampton hafði verið í frjálsu falli undir stjórn Mark Hughes ansi lengi og virtust þeir aldrei ætla að taka í gikkinn og koma honum út. Hasenhuttl sem gerði vel hjá Red Bull Leipzig undanfarnar leiktíðir endaði í Southampton sem gæti reynst hvalreki fyrir þá enda mjög flottur stjóri og kemur Southampton vonandi aftur á svipaðar slóðir og þeir voru undir stjórn Pochettino og Koeman – en það má hefjast eftir að þeir tapa næsta leik.

Liverpool kaffærði vonlausu, andlausu og bitlausu liði Southampton í lok september þegar liðin mættust í fyrri leik liðana. Shaqiri átti stórleik í fyrri hálfleiknum þar sem hann lagði upp tvö mörk og var svo óvænt tekinn út af í hálfleik.

Svo margt hefur breyst hjá Southampton síðan þá. Þeir eru enn í fallbaráttu en í þokkalegri stöðu en síðan Hasenhuttl kom inn hefur liðið tekið miklum breytingum. Nú spila þeir af meiri áræðni, pressa ofar á vellinum og hann tók stórar ákvarðanir varðandi leikmannahóp sinn og er nú að gefa ungum leikmönnum tækifæri og nær að kveikja aftur á nokkrum lykilmönnum. Það má því búast við töluvert erfiðari leik en síðast er liðin mættust – já, og leikurinn er á St. Mary’s leikvanginum þar sem gæti verið mikil stemming þar sem að liðið sem allir Southampton stuðningsmenn hata kemur í heimsókn.

Frammistaða Liverpool í sigrinum á Tottenham var svolítið upp og niður, margir hlutir litu vel út og voru skarpir en aðrir hlutir voru ekki nægilega góðir. Miðjan var svolítið döpur og gekk illa að stjórna henni nægilega mikið þegar leið á leikinn og Klopp/liðið brást ekki nægilega hratt og vel við breytingum á leikskipulagi Tottenham. Kraftur og áræðni Liverpool skapaði mark í blálok leiksins sem var svo sem algjört prump af hálfu Tottenham en vá hvað það var magnað að sjá hve mikið þetta moment virtist lyfta ansi miklum þunga af öxlum Salah þó hann hafi nú í raun ekki skorað sjálfur.

Það eru allir heilir og að æfa sem eru frábærar fréttir en eins og áður þá er afar ólíklegt að Rhian Brewster og Alex Oxlade-Chamberlain, sem er uppalinn hjá Southampton, verði í leikmannahópnum og eflaust ekki klárir í svona leik strax en líklegt er að Joe Gomez muni koma aftur inn í leikmannahópinn sem er frábær innspýting fyrir komandi átök.

Alisson

Trent – Matip – Virgil – Robertson

Lallana – Fabinho – Wijnaldum

Salah – Firmino – Mane

Ég ætla að giska á að þetta verði liðið sem muni byrja gegn Southampton, aðeins öðruvísi uppbyggð miðjan en sú sem var gegn Tottenham. Ég held að Fabinho byrji alveg pottþétt þennan leik og ég held að Lallana komi inn á miðjuna með honum og annað hvort Wijnaldum eða Henderson verða þar með. Hins vegar þar sem það er leikur í Meistaradeildinni eftir helgi þá held ég að Henderson hefji leikinn á bekknum gegn Southampton og komi inn gegn Porto, Milner mun líklega vera í vinstri bakverði í miðri næstu viku þar sem Robertson er í banni og mun því ekki taka 90 mínúturnar á morgun.

Vörnin er kannski farin að vera ákveðið spurningarmerki aftur loksins en þar sem bæði Gomez og Lovren eru komnir til baka úr meiðslum þá er held ég meira spurning um hvenær heldur en hvort annar þeirra muni taka sætið af Matip sem hefur þó spilað heilt yfir mjög vel. Ég hugsa að Klopp muni byrja með Matip í þessum leik en að sama skapi kæmi mér ekki á óvart ef hann myndi byrja inn á með Lovren.

Það er algjör skyldusigur annað kvöld, Liverpool má ekki við því að misstíga sig og ætti undir flest öllum kringumstæðum að klára þennan leik sama hvernig momentum er með Southampton. Þeir eru betri og eiga að vilja sigurinn meira, ég tek ekki annað í mál en ég held að Southampton muni ekki gefast upp án alvöru baráttu.

Vinni Liverpool annað kvöld nær liðið aftur tveggja stiga forystu á City sem á leik inni en Liverpool á svo leik á undan City í næstu umferð og tækist Liverpool að vinna báða þá myndu þeir stija fimm stigum á undan City sem ætti tvo leiki til góða og vonandi truflað sálarfriðinn hjá þeim ljósbláu þegar þeir eru að fara inn í virkilega strembið prógram.

Sjáum til, einn leikurin í einu og sá næsti er Southampton. Koma svo og klárum þennan leik!

15 Comments

  1. Ég er á því að þetta verður erfiðari leikur en margir gera sér grein fyrir. Þessi leikur er á pari við Chelsea leikinn fyrir mér. Ég vona að Fabinho/Lallana koma inn fyrir Milner/Henderson eins og spáð er.

    Þeir munu selja sig dýrt og þurfum við að vera þolimóðir en ég hef trú að við náum í 3 stig(við bara verðum)

    YNWA

    p.s Við megum ekki láta lið vinna deildina sem þarf að skila 2000 miðum í undanúrslitum bikars og að leikmenn kaupa sjálfir hátt í 1000 miða til að gefa – það væri slegist um 30 þ miða hjá Liverpool aðdáendum.

    12
  2. Takk fyrir góða upphitun!

    Fyrir mér er bara spurning hver verður með Gini og Fabinho á miðjunni, allar hinar stöðurnar haldast óbreyttar frá síðasta leik.

    Ég óttast meiðsli í þessum leik, þessir suðurstrandargæjar eru bölvaðir fautar og gætu sett stórt strik í reikninginn ef einhver okkar sóknarmanna verður að fara af velli. Því vona ég að dómarinn verði duglegur að flauta og lyfti gulu spjaldi snemma leiks.

    Dijk setur hann í þessum leik og við förum með 3 stig heim í farteskinu.

    2
  3. Sælir félagar

    Ég verð að viðurkenna að ég hefi áhyggjur af þessum leik. Það hefur verið mikil stígandi í leik S’hamton og þeir eru fullir sjálfstraust. Þeir eru líkamlega sterkir og spila eins fast og dómarinn leyfir. Þannig að ég hefi áhyggjur af dómgæslu og hugsanlegum meiðslum eins og Doremí hér fyrir ofan. En vonum hið besta en búumst við því versta. Miðað við stöðuna í deildinni ætti leikurinn að fara 0 – 4 en ég ætla að spá 1 – 3 og óska þess að allir sleppi ómeiddir. Gott væri líka að Gomes gæti fengið leiktíma og Ox líka í öruggri stöðu síðastu 20 mín.

    Það er nú þannig

    YNWA

    3
  4. Enn eykst spennan. Hver leikur öðrum mikilvægari….
    …suðurstrandarliðið er ágætis lið
    …Lallana fær pottþétt tækifæri
    …held að væri gott fyrir Salah að byrja á bekknum
    …1-0 sigur er alveg nóg fyrir mig
    …deildin verður að hafa forgang
    Áfram svo Liverpool

    6
  5. Sæl og blessuð.

    Þetta er einn af ögurleikjum sem framundan eru. Enginn þeirra verður auðveldur og orðskrípið ,,skyldusigur” er í senn vanvirðing á baneitruðum andstæðingum um leið og það er ísköld staðreynd. Tvö til þrjú glötuð stig úr einhverjum þessara leikja þýða að von okkar um langþráðan sigur verður að engu og við bíðum enn eftir ,,næsta tímabili”.

    Sumsé:

    1. Miðjan: Ef gamli Suðurhafnarbúinn Lallana er í stuði þá væri ágætt að hafa hann þarna. Kauði er reyndar jafn steingeldur í vítateig andstæðinganna og aðrir miðjumenn okkar liðs en ,,hinn enski Cruyff” getur þó brotið upp varnir og skapað sitthvað eins og hann hefur sýnt og sannað í síðustu leikjum. Hefði eins og síðuritari viljað hvíla þá Milner og Hendó að sinni. Heilluðu ekki í síðasta leik. Fróðlegt verður að sjá hvort Keita fær lokaséns á þessari leiktíð og svo væri nú ekki amlagt ef Chambo fengi að brokka inn á völlinn í blálokin.
    2. Vörnin: Alls ekki breyta því sem orðið er. Kærkomið stabílítet er komið og því má helst ekki riðla.
    3. Sóknin: Já, tíðindi dagsins eru þau að Salah ætlar að klára sjálfur færin sín fremur en að láta seinheppna varnarmenn andstæðinganna sjá um þau mál öll.

    Svo mörg voru þau orð en ég á alveg eins von á því að við endum í dýrkeyptu jafntefli gegn vel skipulögðu liði andstæðinga, remmilega hvattir áfram af föstudagsdrukknum áhorfendum.

    2
  6. Flott upphitun, takk kærlega. Samt ekki rétt hjá þér að við eigum leik á undan þeim í næstu viku. Bæði liðin spila sunnduaginn 14. apríl, þeir á undan kl. 13:05 (Crystal Palace úti) og við kl. 15:30 ( á móti Chelsea heima).

    1
  7. Þurfum að vinna þetta og helst sannfærandi færa alla pressuna strax aftur á City það er eini sénsin til að þeir mistígi sig sem við þurfum að treysta á. Allt annað en sigur í þessum leik og þá væri titil baráttunni mögulega lokið.

    Væri kærkomið að Salah myndi skora í þessum leik koma svo!

    3
  8. Sælir félgar. Það er bara þannig YNWA.
    Byrjunarliðið fyrir mér ætti að vera:
    Simon Mignolet
    Phillips Lovren Matip Moreno
    Curtis Jones
    Woodburn Adam Lallana

    Milner Rhian Brewster
    Sturridge
    0-4 sigur. YNWA

  9. Sælir félgar. Það er bara þannig YNWA.
    Byrjunarliðið fyrir mér ætti að vera:
    Simon Mignolet
    Phillips Lovren Matip Moreno
    Curtis Jones
    Woodburn Adam Lallana

    Milner Rhian Brewster
    Sturridge
    0-4 sigur. YNWA

  10. Hef sagt það áður, er smeikari fyrir þessum leik, en leiknum gegn Porto. Pappírslega erum við auðvitað miklu betri, en því miður telur það svo fjandi lítið þegar á völlinn er komið. En ég spái samt 1-2, hverjir skora skiptir ekki máli, en þætti samt vænt um að sjá Salah setjann.

    YNWA

    3
  11. Við eigum eftir Southampton, Cardiff og Newcastle úti og Chelsea, Huddersfield, Wolves heima. Fyrir utan auðvitað Porto, Barcelona og Juve í CL 😉

    Er einhver tilbúinn að segja að hann/hún hafi engar áhyggjur af einhverjum þessara leikja? Að það sé ekkert “bananaskinn” í þessu prógrammi? Cardiff úti kannski, er það ekki bara safe? Eða Huddersfield heima, það hlýtur að vera safe, eða hvað ?

    Ef að þetta geggjað lið okkar ætlar að gera áframhaldandi atlögu að titlinum þá er ekkert annað í boði en að stíga upp í hverjum og einasta helvítis leik og gera það sem þarf til að taka þrjú stigin. Við erum með sturlað gott lið sem er gaman að horfa á spila fótbolta.

    Það er engin ástæða til annars en að hafa trú á þessu verkefni og vera fullur af bjartsýni. Í versta falli endar liðið í öðru sæti á eftir liði sem á ekki að geta tapað þessu miðað við fjárfestingar sem gerðar hafa verið á þeim bænum.

    Ég ætla í það minnsta að njóta ferðalagsins áfram og sé nákvæmlega enga ástæðu til að vera eitthvað skjálfandi á beinunum yfir þessum leik í kvöld. Up the reds !

    7

Smicer og Berger árita fyrir stuðningsmenn

Byrjunarliðið gegn Southampton