Kvennaliðið heimsækir City

Það ætti ekki að hafa farið framhjá neinum að karlaliðið mætir Tottenham á Anfield núna kl. 15:30 að íslenskum tíma, 16:30 að enskum tíma þar sem það var skipt yfir í sumartímann í nótt. En áður en að þeim leik kemur skreppa stelpurnar okkar yfir til Manchester og mæta þar City í deildinni. Þetta verður því fjórði leikurinn í röð hjá þeim þar sem þær mæta toppliðunum þremur, hafandi mætt City í bikarnum, og svo Chelsea og Arsenal í deildinni í síðustu leikjum.

Liðinu verður stillt upp svona:

Bekkur: Kitching, Little, Hodson, Kearns, Linstet

Enn og aftur er bekkurinn að mestu skipaður stelpum úr akademíunni, Bo Kearns heldur áfram að byrja á bekknum, og Linstet er í fyrsta skipti á skýrslu með aðalliðinu.

Leikurinn verður sýndur beint á Facebook síðu kvennaliðsins.

Við uppfærum svo þessa færslu með úrslitum og stöðu síðar í dag.


Leik lokið með sigri City, 2-1, með sigurmarki á 94. mínútu. Ömurleg úrslit eftir að okkar konur höfðu barist eins og ljón allan leikinn. Þær fengu á sig mark um miðjan fyrri hálfleik, en á 52. mínútu fékk liðið vítaspyrnu eftir að skot af markteig fór í höndina á einum leikmanni City. Courtney Sweetman-Kirk fór á vítapunktinn, og þó svo að markvörður City hafi valið rétt horn, þá náði hún ekki að verja gott skot Courtney og staðan því jöfn, 1-1. Þannig var staðan allt fram á næst síðustu mínútu uppbótartíma þegar City fengu ódýra aukaspyrnu á miðjum vallarhelmingi Liverpool, fyrirgjöfin rataði á kollinn á leikmanni City sem skallaði í netið fram hjá Preuss sem hafði fram að því varið eins og berserkur. Sannarlega ekki úrslitin sem okkar konur áttu skilið, því þó þær hafi vissulega legið meira til baka áttu þær líka sín færi, og t.d. hefði Sweetman-Kirk átt að gera betur í uppbótartíma þegar hún vann boltann af leikmanni City og var skyndilega sloppin nánast ein inn fyrir, en ákvað að skjóta fyrir utan teig frekar en að spila nær. En svosem alltaf auðvelt að dæma leikmenn svona heima úr sófa.

Arsenal konur unnu sinn leik gegn Birmingham og eru því áfram efstar, en á meðan gerðu Chelsea jafntefli í sínum leik, og Yeovil konur unnu Everton. Okkar konur eru áfram í 8. sæti á lygnum sjó, en ef þær halda áfram að sýna frammistöðu eins og í leiknum í dag er klárt mál að þær eiga eftir að fá fleiri stig í þeim leikjum sem eru eftir af tímabilinu.

Ein athugasemd

  1. Smá misskilningur (og prentvilla): það er enginn leikmaður í unglingaliðinu sem heitir Linstet, heldur átti þetta örugglega að vera Kirsty Linnett.

Spurs mæta á Anfield

Byrjunarliðið gegn Spurs