Kvennaliðið fær Arsenal í heimsókn

Jæja, það kom loksins að því að kvennaliðið og karlaliðið væru ekki að spila á nákvæmlega sama tíma. Núna kl. 12:30 hefst leikur Liverpool og Arsenal á Prenton Park. Staða liðanna í deildinni er nokkuð ólík, Arsenal er að slást við City og Chelsea á toppnum á meðan okkar konur sigla nokkuð lygnan sjó í 8. sæti deildarinnar. Lesendur síðunnar muna e.t.v. eftir því að fyrsti leikur tímabilsins var einmitt á móti téðum Arsenal konum, og tapaðist svo illa að þáverandi stjóri liðsins hætti og Vicky Jepson tók við (ok, mögulega spiluðu aðrir hlutir inn í).

Uppstillingin er ekki alveg augljós, þó ég telji líklegt að það sé verið að spila með 3 leikmenn í öftustu línu. Gerum a.m.k. tilraun til að raða þessu upp svona:

Bekkur: Kitching, Hodgson, Kearns, Blanchard

Aftur er bekkurinn fámennur, Kearns á bekk þriðja leikinn í röð eftir að hafa átt frumraun sína með liðinu á móti Chelsea, og enn saknar liðið nokkurra lykilleikmanna eins og Jesse Clarke sem hefur ekki náð að spila leik eftir að hafa endurnýjað samninginn við félagið, Leandra Little er hvergi sjáanleg og Jasmine Matthews ekki heldur, en hún á reyndar afmæli í dag. Ég efast samt um að afmælisundirbúningurinn sé að stoppa hana af, því hún hefur líka verið frá upp á síðkastið.

Undirrituðum er ekki kunnugt um að leikurinn sé sýndur neins staðar opinberlega, en ef eitthvað streymi finnst þá verður slíkt að sjálfsögðu sett í athugasemdir. Við uppfærum svo færsluna með úrslitum og stöðu síðar í dag.


Leik lokið með sigri Arsenal, 1-5. Þær skoruðu 2 mörk með stuttu millibili eftir rúmlega 20 mínútna leik í fyrri hálfleik, og svo aftur tvö mörk með stuttu millibili í kringum 60. mínútu. Þegar um korter var eftir var Yana Daniels felld í teignum, Courtney Sweetman-Kirk fór á vítapunktinn og skoraði af öryggi í vinkilinn. Nokkrum mínútum fyrir leikslok skoruðu svo Arsenal konur fimmta markið. Það var svosem vitað að leikurinn yrði erfiður, enda er þetta lið sem hefur fengið fá mörk á sig í deildinni í vetur, og komust upp í fyrsta sætið í deildinni með sigrinum, og eiga samt leik til góða á City. Ef við horfum á björtu hliðarnar, þá náðu okkar konur a.m.k. að setja eitt mark, og svo fengu ungu stelpurnar allar dýrmætar mínútur. Ashley Hodson kom inná fyrir Babajide, Bo Kearns kom inná fyrir Kirsty Linnett og átti góðar rispur, og að lokum átti Annabel Blanchard frumraun sína með aðalliðinu. Allar þrjár koma úr akademíu Liverpool, og nokkuð ljóst að núna er planið að gefa þeim og fleiri ungum og efnilegum leikmönnum dýrmæta reynslu fyrir næstu leiktíðir.

Næsti leikur verður eftir viku en þá mætir liðið City aftur, en leikur liðanna um síðustu helgi var í bikarkeppninni.

2 Comments

Gullkastið – München

Liverpool verður rólegt á leikmannamarkaðnum