Hvað munu margir skila sér úr akademíunni?

Unglingalið Liverpool (U18 ára) er komið í bikarúrslit unglingabikarsins og af því tilefni skoðaði Liverpool Echo þá leikmenn sem voru í liðinu sem vann þessa keppni síðast fyrir Liverpool, bæði árið 2006 og 2007.

Það sem helst vekur hjá manni athygli er hversu ótrúlega fáir úr þessum hópi áttu eitthvað merkilegan feril sem sýnir kannski aðeins hversu erfitt það er að verða atvinnumaður í knattspyrnu og segir manni kannski að stilla væntingar til núverandi unglinga í hóf, eða hvað?

Sá eini sem spilaði leikinn árið 2007 og varð einhver stórstjarna var Daniel Sturridge og hann spilaði fyrir Man City. Stærsta nafnið úr herbúðum Liverpool er líklega Jay Spearing en hann er sá eini sem náði að spila af einhverju viti fyrir aðalliðið.

Núna 12-13 árum síðar eru ensku liðin orðin mun ríkari en þau voru og maður myndi ætla að leiðin upp á topp sé ennþá lengri fyrir þessa stráka. Þetta er samt kannski spennandi efni til að rannsaka því maður myndi ætla að ungir leikmenn eigi meiri séns hjá Liverpool undir stjórn Klopp og ekki síður FSG. Eins er spurning hvort landslagið sé ekki töluvert breytt hvað kaup á ungum leikmönnum varðar? Stóru liðin fara mjög snemma á eftir þeim allra bestu.

Ef maður skoðar hópinn sem vann þessa keppni fyrir 12 – 13 árum sér maður engan sem var talinn eitthvað ofurefni, það var enginn Owen, Gerrard, Fowler, McManaman og ekki einu sinni Carragher í þessum hópi. Líklega er liðið núna með töluvert meira af alvöru efnilegum leikmönnum þó erfitt sé auðvitað að spá til um það.

Það var engin Bobby Duncan eða Paul Glatzel í liðinu 2007 og því síður Ki Jana-Hoever sem nú þegar hefur komið við sögu hjá aðalliðinu. En það eru fleiri mjög efnilegir á mála hjá Liverpool.

Ki-Jana Hoever er klárlega einn efnilegasti leikmaður sem verið hefur á mála hjá Liverpool á þessari öld. Hann er fæddur 2002 og byrjaði sinn fyrsta U18 ára leik í september, fyrsti leikur í U19 var í október, U23 ára í nóvember og hann fór að æfa með aðalliðinu í desember. Hann spilaði svo með þeim einn leik í janúar. Liverpool var ekkert að uppgvöta þennan leikmann, hann kemur frá Ajax og liðið þeirra í dag sýnir ágætlega hversu mikill gæðastimpill það er.

Besti leikmaður U18 ára liðsins í vetur hefur verið hinn uppaldi Paul Glatzel en hann hefur hinsvegar einhverrahluta vegna ekki ennþá fengið séns með U23 ára liðinu ennþá. Hann er fyrirliði U18 og hefur raðað inn mörkum samhliða því að leggja þau upp fyrir Bobby Duncan félaga sinn. Hann átti frábært ár 2018 eftir að hafa verið meiddur meira og minna allt árið þar á undan. Gríðarlega vinnusamur strákur og mikið látið með hann í Kirkby.

Stærsta nafnið í U18 ára liðinu er líklega Bobby Duncan og það er ekki bara vegna þess að hann er frændi Gerrard. Hann var í samningsstappi við Man City árið 2017 og spilaði nánast ekkert en hefur staðið undir öllum væntingum og vel það hjá Liverpool.

Það er erfitt að meta núna hvort Duncan og Glatzel séu meira Woodburn og Mellor eða verði alvöru leikmenn en þeir eru a.m.k. að mynda eitt mest spennandi sóknarpar sem Liverpool hefur átt á þessu leveli í langan tíma. Allt eru þetta mjög ungir strákar en bestu leikmennirnir sem eru gjaldgengir í U18 og U19 ára liðin eru að spila uppfyrir sig svipað og þeir munu væntanlega gera á næsta tímabili.

Curtis Jones hefur nokkrum sinnum verið í hóp hjá aðalliðinu í vetur og byrjaði inná gegn Wolves í bikarnum. Hann var aðalnúmerið í U18 á síðasta tímabili og talinn það mikið efni að hann fór með til Bandaríkjanna í sumar og kom við sögu í flestum leikjunum. Hann hefur verið að spila með öllum unglingaliðunum í vetur en æfir á Melwood (með aðalliðinu).

Rafa Camacho hefur einnig bankað fast á dyrnar í vetur og einstaka sinnum verið í hóp. Hann er ári eldri en Jones og kom einnig mikið við sögu í Bandaríkjunum í sumar. Hann hefur í raun allt að bera til að verða alvöru sóknarbakvörður í framtíðinni.

Tékkneski markmaðurinn Vitezslav Jaros er enn einn gríðarlega efnilegi markmaðurinn sem er á mála hjá Liverpool. Hann er 18 ára en hefur verið að spila upp fyrir sig og er kominn í samkeppni við Grabara og Kelleher um sæti í aðalliðinu. Enginn þeirra á auðvitað break í Alisson en andskotinn hafi það einn þeirra þróast vonandi í betri markmann en Mignolet. Mjög ólíklegt samt að þetta verði leikmenn Liverpool í framtíðinni.

Vinstri bakvörðurinn Yasser Larouci hefur verið engu minna efni en Hoever á þessari leiktíð en mesta efni félagsins í þessari stöðu er líklega Adam Lewis sem er 19 ára núna. Hann er jafnvel talin verða lausn Klopp þegar Moreno fer (í sumar). Hann er lykilmaður í U23 ára liðinu eftir að hafa spilað með U18 ára liðinu fram á mitt síðasta tímabil.

Enn eitt efnið í akademíunni og þessu U18 ára liði er svo tröllið (1,95m) Rhys Williams. Það tekur því varla að spá í miðverði þegar hann er aðeins 18 ára en Williams hefur á köflum minnt á Van Dijk á U18 ára leveli og er farinn að spila reglulega með U23 ára liðinu. Hann fékk nýlega nýjan langtímasamning.

Langmesta efnið í dag er engu að síður ennþá Rhian Brewster sem er núna á 19 ári. Hann var markahæsti leikmaður HM unglinga U17 í október 2017 í sigurliði Englendinga. Hann hefur verið meiddur allt þetta tímabil og var raunar mikið frá líka fyrir HM 2017 og því spurning hvort það sé áhyggjuefni til framtíðar en klúbburinn lagði allt í sölurnar í sumar til að gera við hann nýjan langtímasamning.

 


Það er engin Trent Alexander-Arnold í sjónmáli alveg strax og líkurnar eru satt að segja á móti öllum þessum strákum. Sá leikmaður sem er uppalin og á mestan séns núna á allra næstu árum er líklega Harry Wilson sem hefur verið sterklega orðaður við önnur lið næsta sumar og hefur aldrei fengið séns hjá Klopp. Ben Woodburn sem var mun stærra nafn fyrir fjórum árum en Duncan og Glatzel eru núna virðist ekki ætla að standa undir þeim væntingum sem gerðar voru til hans. Hann er samt ennþá bara tvítugur og vissulega landsliðsmaður Wales, en það er erfitt að sjá hann komast í þetta Liverpool lið.

Brewster verður væntanlega partur af hóp næsta vetur haldist hann heill. Curtis Jones, Adam Lewis og Rafa Camacho eru líklega þeir sem við horfum næst til á eftir honum af leikmönnum úr akademíunni. Þessir hlutir eru samt mjög fljótir að breytast á þessum aldri og alls ekkert útilokað að einhver allt annar springi út og nái í gegn.

Það er því verulega ólíklegt að þetta frábæra U18 ára lið núna verði einhver hornsteinn í Liverpool liðinu eftir 5-6 ár og svosem ekkert markmiðið. Vonandi og væntanlega munu fleiri leikmenn eiga alvöru feril á hærra leveli en 2007 liðið og kannski skapa félaginu meiri tekjur. Harry Wilson einn og sér mun skila mjög góðum gróða verði hann seldur eftir þetta tímabil, líklega meiru en 2007 liðið gerði samanlagt.

Kaup og sala á ungum leikmönnum eins og Sterling, Ibe og Smith skilaði félaginu gríðarlega góðum tekjum og eins má ekki gleyma leikmönnum eins og Suso og Shelvey sem voru á barmi þess að komast í gegn hjá Liverpool og spila á háu leveli í dag.

Draumur FSG er að akademía Liverpool skili af sér leikmönnum í aðalliðið mun oftar en hún er að gera. Það eru fáir elítu stjórar sem hafa náð að skapa jafn gott lið og Klopp gerði hjá Dortmund þar sem ungir leikmenn urðu heimsklassa leikmenn á nokkrum árum fyrir fáránlega lágar fjárhæðir.

Mjög mörg af bestu liðum sögunnar voru skipuð góðum kjarna af uppöldum leikmönnum og þetta hefur ekki breyst svo ýkja mikið. Hluti ástæðunnar fyrir því hversu hrikalega vel spilandi þetta Ajax lið hefur verið í vetur er vegna þess að margir þessara stráka komu upp saman hjá félaginu. ´92 árgangurinn hjá United er líklega síðasta dæmið um þetta á Englandi en á sama tíma komu gríðarlega góðir uppaldir strákar upp á nokkrum árum hjá Liverpool sem mynduðu kjarna sem hefði átt að skila fleiri titlum.

Fái þessir strákar tækifæri til þess er alveg hægt að skapa aftur aðstæður þar sem McManaman, Fowler, Owen, Gerrard, Carragher, Matteo og Murphy koma upp á 3-5 árum. Það gæti á móti skilað mun þéttari kjarna sem skilar sér innanvallar.

Ef að Barcelona gat gert þetta á hæsta leveli fyrir ekki meira en rúmlega áratug er þetta ekkert vonlaust í dag.

8 Comments

 1. Takk fyrir þetta, skemmtilegar pælingar. Það er alltaf gaman þegar uppaldir ná að skila sér upp í aðalliðið, sérstaklega þar sem manni finnst þeir líklegri til að vera extra peppaðir í mikilvægu leikina.

  1
 2. Takk fyrir þessa umfjöllun um ungu strákana. Það væri sterkt ef einhverjir af þessum köppum banka á dyrnar hjá aðalliðinu næstu 2-3 tímabil. Unglingaliðin okkar eru sterk og 18 ára liðið næstefsta sæti í sinni deild að mér sýnist. Mér finnst reyndar synd hve lítið er að uppöldum leikmönnum í Liverpool sem og öðrum toppliðum. Held líka að þessi litla tryggð leikmanna við lið sé að skemma fyrir boltanum í heild. Stóru klúbbarnir ráða för og hirða upp alla bestu leikmennina og síðan geta hin liðin slegist um rest. Mínir uppáhaldsleikmenn í gegnum tíðina hafa fyrst og fremst verið leikmenn sem haldið hafa tryggð við lið amk að mestu leiti, Carragher, Gerrrad, Giggs,Le Tissier, Totti, Maldini ofl.

  7
 3. Takk fyrir mig, Skemmtilegur pistill að venju.
  Verður mjög áhugavert að sjá hvað verður úr þessum ungu guttum. Bind vonir við Ki-Jana Hoever en hann er samt það ungur ennþá að það getur að sjálfsögðu brugðið til beggja vona.
  Ég er ansi hræddur um að meiðsli Brewster komi í veg fyrir að hann verði í topp klassa, því miður. Hugsa að hann endi sem meðal úrvalsdeildarleikmaður en vonandi losnar hann úr meiðslunum og brillerar.

  1
 4. Mjog godur pistill og verdur mjog spennandi ad fylgjast med tessum guttum a næstu arum. Er enn langmest spenntur fyrir Brewster sem gæti ordid næsti Owen eda Fowler ef hann kemst yfir tessi meidsli sem er alls ekkert utilokad og klubburinn og morg onnur lid hafa mikla tru a ad tad takist enda drengurinn mjog eftirsottur sidasta sumar tratt fyrir ad eiga vid langtima meidsli ad strida. En ER ekkert ad styttast i hann ? Maggi sagdi i podcasti sidasta sumar eda snemma i haust ad hann væri væntanlegur i desember, frestadist tad lengur eda hvad.

  1
 5. Ég hef oft spáð í þessu varðandi Akademiuna, hvort það verði að hækka gæðastandartinn í henni þegar byrjubarliðið er orðið svona ári gott. Hvort það þurfi að kaupa eingöngu leikmenn sem eiga raunhæfa möguleika á að komist alla leið. Geri ráð fyrir því að það sé verið að reyna það en það virðist mjög erfitt að sjá hverjir eiga erindi í ensku úrvaldsdeildina í kringum 16 ára aldurinn. Í sjálfu sér eru frábærar fréttir að liðið sé þó allavega með Trent Alexsander og svo Joe Gomez, sem var reyndar keyptur kornungur fyrir lítið fé. Mín von er að það rísi upp einhver stórstjarna á næstu misserum. T.d hef ég trú á því að leikmenn eins og Wilson og Brewster gætu komist alla leið eða jafnvel einhver annar. Það gæti gert útslagið um hvort Liverpool haldist á meðal þeirra bestu.

 6. Brewster er ekki væntanlegur á þessu tímabili en ætti að byrja að æfa á 100% gasi á næstunni ef hann er ekki byrjaður nú þegar. Æfingaferð Liverpool í sumar verður stór fyrir hann.

  1
 7. Það er reyndar fáránlegt að eiga tvo gæja í akademíunni með um 30 mörk hvor og þeir eiga varla möguleika á að verða einhverntímann bekkjarsetumenn fyrir aðalliðið.

Fulham – Liverpool 1-2

Gullkastið – München