Upphitun: Fulham á útivelli

Ferskir frá fræknum sigri í landi frankfúrtera þá snýr Rauði herinn aftur á enska grundu og fær það verkefni að ná í 3 stig í toppbaráttunni gegn fallkandídötunum í Fulham. Verða það fúlar hamfarir eða fullt stím fram á við í forystu fótboltafélaga? Hitum upp og spáum í spilin!

Mótherjinn

Fulham eru fallnir! Dánarvottorðið er óútgefið en þeir eiga ekki raunhæfan séns á að halda sér í deild hinna bestu ensku þó að stærðfræðilega séð þá eigi þeir enn von. Í þeirri fullyrðingu er engin vanvirðing enda hefur liðið verið í tómu basli í allan vetur með eingöngu 17 stig úr 30 leikjum. Miklum fjárhæðum var eytt í mannskap fyrir tímabilið en máske voru of miklar mannabreytingar frá liðinu sem tryggði sér uppgang úr Championship árið áður. Þriðji þjálfari tímabilsins tók við til bráðabirgða fyrir 3 vikum en það er Scott Parker, fyrrum miðjumaður hjá Lundúna-liðinu eftir að Ranieri og Jokanovic voru látnir taka pokana sína fyrr í vetur.

Heimamenn hafa tapað 6 deildarleikjum í röð og eingöngu fengið 3 stig á árinu 2019 sem var sigur á Brighton í janúar. Auðvitað er auðvelt að vanmeta lið sem er í þessari stöðu og afar slæmum málum en Liverpool má ekkert við slíku. Þrátt fyrir töpin þá hefur verið lífsmark með spilamennskunni hjá Fulham upp á síðkastið og sér í lagi hefur fyrrum Púlarinn Ryan Babel hleypt lífi í sóknartilburði liðsins með sínum alþekkta hraða og lipurð þó að lokahnykkurinn vefjist oft fyrir honum. Babel lét hafa eftir sér í gær að hann viti um leynilegan veikleika hjá varnartröllinu Virgil van Dijk sem hann hygðist gernýta sér í vil í leiknum á morgun. Bætti einnig við að VVD væri bara að spila á 70% raunverulegrar getu sinnar (fínar fréttir fyrir LFC að hann eigi frábær 30% inni til viðbótar) og að hjarta hans lægi hjá Liverpool í toppbaráttunni. Kærar þakkir fyrir þessar upplýsingar herra Babel og gott að vita. So long and thanks for all the babel fish!

Ryan Babel er ýktur tappi með Liverpool-rauða lokka.

En varnarlega þá eru Fulham hriplekir og aldrei líklegir til að halda hreinu, sér í lagi gegn toppliði eins og okkar. Scott Parker er líklegur til að halda Jean Michael Seri utan byrjunarliðsins þriðja leikinn í röð en Seri var keyptur síðastliðið sumar fyrir 30 milljónir punda og Parker ekki verið ánægður með hans frammistöðu frá því að hann tók við stjórastöðunni. Hugsanlega gert til að kveikja undir afturendanum á leikmanninum eða máske er miðjumaðurinn Parker ekki hrifinn af hans leikstíl eða framlagi. En gæti einnig verið óvænt leynivopn sem væri hent í miðjubaráttuna gegn okkur mönnum sem væru ögn lúnir eftir hetjudáðina í Munchen.

Áhugavert verður að fylgjast með örfætta 18 ára táningnum Ryan Sessegnon sem hefur lengi verið skotmark LFC og annarra toppliða. Stráksi hefur ekki beint brillerað í vetur en mikið rót hefur verið á því hvar hann spilar, frá bakverði og upp allan vinstri vænginn fram í vængframherjastöðuna. Afar efnilegur Englendingur þó að illa hafi gengið hjá honum og hans liðsmönnum en honum hefur þó tekist að skila 5 stoðsendingum í bankann. Þegar örlög liðsins hans verða ráðin í vor þá er spurning hvort að hann verði til sölu og gæti verið fjölhæf lausn fyrir Liverpool sem varaskeifa fyrir Robertson. Til viðbótar þá á hann eingöngu eitt ár eftir af sínum samningi og ku hafa haldið með LFC frá æsku.

Stormsenterinn serbneski Aleksandar Mitrovic hefur verið besti maður Fulham í vetur og skorað 10 mörk í vetur en verið sveiflukenndur inn á milli. Ef hann dettur í stuð á góðum degi þá er hann erfiður viðureignar og því til sönnunar hefur hann þrisvar skorað tvennu í vetur og í öll skiptin voru það sigurleikir fyrir Fulham. Hann er því sá lykilmaður sem Fulham þurfa að fá í gang í þessum leik til að eiga nokkurn séns á sigri. Ólíklegt þykir að André Schürrle spili og þá eru Mawson og Bettinelli á meiðslalistanum.

Penni Parkers mun pára eftirfarandi leikmenn á liðsskýrsluna á morgun:

Líklegt byrjunarlið Fulham í leikskipulaginu 4-2-3-1

Liverpool

Eftir stórleiki í CL þá er alltaf möguleiki á hinni alræmdu Evrópu-þynnku en Klopp og Rauði herinn hans eru einbeittir í titilbaráttunni og ekki líklegir til að vanmeta slíkan leik þegar mikilvæg stig eru í boði. Vitandi að eftir þennan leik er landsleikjahlé þá munum við líklega stilla upp okkar sterkasta liði og spila sóknarleik til sigurs. Sögulega séð þá höfum við 59% vinningshlutfall gegn Fulham í öllum leikjum liðanna og ættum því ekki að óttast þá almennt.

Jurgen Klopp hélt blaðamannafund í gærdag og upplýsti að Henderson sé meiddur á ökkla en ekki alvarlega og væntanlegur til baka eftir landsleikjahlé. Naby Keita er líklegri til að vera leikfær og Oxlade-Chamberlain allur á uppleið í sinni endurkomu. Þjóðverjinn brosmildi fór yfir ýmis mál með sinni einstöku kerskni og klókum tilsvörum sem vert er að horfa á hér fyrir neðan.

Í ljósi þessara liðsupplýsinga frá stjóranum þá tel ég að liðið verði stillt upp eitthvað í áttina að þessu liði og um að gera að ræða um innkomu Adam Lallana í því samhengi á siðprúðan hátt. Hugsanlegt er að Keita eða Lovren eigi séns á að byrja en að mínu mati þá er þetta líklegast lendingin á liðsvalinu:

Líklegt byrjunarlið Liverpool í leikskipulaginu 4-3-3

Spakra manna spádómur

Rauði herinn hefur sýnt mátt sinn og megin í síðustu tveimur leikjum með 7 skoruðum mörkum og með meira flæði í sóknarleiknum. Við höfum bara tapað einum deildarleik í vetur og þrátt fyrir nokkur óheppileg jafntefli þá erum við réttilega í toppbaráttunni sem annað af tveimur liðum í sérflokki í vetur. Það verður sérstakur hvati fyrir okkar menn að komast aftur í efsta sætið og setja þannig pressu á Man City en leikurinn sem frestast hjá þeim verður grannaslagur gegn Man Utd á Old Trafford.

Ég set því á mig spádómshattinn og hygg að Liverpool vinni leikinn 1-4 gegn Fulham og um markaskorun muni sjá Salah með tvö mörk, Mané eitt og Fabinho með eitt. Babel setur sárabótarmark fyrir heimamenn.

YNWA

11 Comments

 1. Ekkert vanmat í gangi fyrir þennan leik. Þetta Fulham lið getur skapað og búið til færi en varnarleikur hefur verið að skornum skammti.
  Parker er samt greinilega að þétta þetta aðeins en Chelsea voru stálheppnir að sigra þarna 1-2 fyrir tveimur vikum og Tottenham voru líka stálheppnir að sigra þarna 1-2 með marki á 90 mín.

  Samála spá um liðið Lallana átti góðan deildarleik um daginn og Fabinho er að stimpla sig inn sem fasta mann hjá okkur. Ég tel mjög mikilvægt að skora fyrsta markið og láta lið með ekkert sjálfstraust lenda undir en ef heimamenn ná forustuni þá gæti komið smá stemmning á völlinn en þeir hafa engu að tapa gegn okkur því að þeir eru gott sem fallnir.

  Spá 1-2 sigri þar. Mane og Lallana með mörkin

  4
 2. Sæl og blessuð.

  Samkvæmt áreiðanlegri haustspá Lúðvíks átti Fulham að enda í meistaradeildarsæti í lok tímabilsins. Ég sá ofsjónum yfir Schuerle, Sessegnon og Mitrovic sem eru miklir og öflugir leikmenn. Núna er Babellinn líka mættur til leiks, rauðhærður. Hélt að one-season-wonderið myndi koma þeim þetta langt og að þeir myndu slá í gegn í vetur. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það hversu fjarri öllum sanni sú framtíðarsýn var.

  Það væri ósanngjarnt að rifja upp magalendingar okkar manna undanfarin ár – Swansea, Newcastle ofl þar sem niðurbrotnir andstæðingar fengu allt í einu byr undir vængina og gerðu okkur skráveifur. Ekkert slíkt hefur gerst í vetur en beygur fylgir manni engu að síður inn í þennan lek. Ég óttast allt hið versta.

  2-2 þar sem ,,púlarinn” Babel skorar í uppbótartíma.

  Ég er viðbúinn hinu versta og sætti mig glaður við alla niðurþumla.

  5
 3. Eins og allir leikir er þessi leikur ekkert smámikilvægur. Ekkert má útaf bera í harðri samkeppni framundan og..
  ..ekkert vanmat má í þessum leik
  ..Fulham er ágætis lið en hafa verið óheppnir
  ..engin ástæða til að spila einhvern lull bolta
  ..ef VvD hefur bara spilað á 70% getu hvernig er þá 100% hjá honum
  ..verður Keita í hópnum
  ..ef Shagiri kemur ekki inná þá spyr maður, hvað er í gangi?
  ..fullt gas frá byrjun
  ..Áfram Liverpool

  5
 4. Ekkert helv% vanmat og fulla ferð áfram, við VERÐUM að klára okkar prógram því við gætum fengið hjálp úr óvæntri átt frá okkar ,,bestu” vinum þegar þeir mæta city eftir nokkrar vikur!

  Vonandi náum við forystu snemma til að róa taugarnar og svo keyra yfir þá, eins og okkar strákar gera hvað best.

  Er orðinn svo stressaður og hjátrúafullur að ég ætla ekki að voga mér að spá um tölur, vil bara þrjú stig. Alveg sama hvernig þau koma, bara að þau koma.

  4
 5. Takk fyrir þrælgóða upphitun.

  Ef dæma má útfrá andlitsmyndum leikmanna í byrjunarliðsuppstillingarmyndinni þá eru allir hissa á þessu liðsvali nema Salah, því hann var búinn að plana að skora þrennu í þessum leik.

  Ég sé enga ástæðu til að setja Lovren inn fyrir Matip, enga. Matip er loksins að sýna spilamennskuna sem hann var keyptur fyrir. Lallana á einnig innistæðu fyrir sínu sæti í liðinu, klókt hjá Klopp að spila hann í gang á þessum tímapunkti.

  Salah skorar tvívegis á fyrstu 10 mínútunum og framhaldið verður einfalt. 0-7 sigur á Craven Cottage. Lallana, Mané, Trent, Milner og svo Salah með þrennuna sína áður en hann fer í frí.

  8
 6. Sælir félagar

  Ég trúi ekki að Klopp og félagar fari að vanmeta Fulham eftir leikinn í gær hjá M. City þar sem Svansea komst í 2 – 0 og City vann á tveimur ólöglegum mörkum. Sá leikur sýndi það svo ekki verður um villst að vanmat getur orðið hvaða liði sem er að falli. Ef okkar menn mæta til leiks af fullri einurð og af þeim krafti sem þeir búa yfir þá vinna þeir 0 – 6 Hinn möguleikinn að mæta með hroka og vanmat í farteskinu býður hættunni heim. PS. Gott væri að Salah setti nokkur og kæmist þar með í gang

  Það er nú þannig

  YNWA

  2

Porto í 8 liða úrslitum

Byrjunarliðin á Craven Cottage