Liverpool 4-2 Burnley

 

Mörkin

0-1  Ashley Westwood 6.mín
1-1  Roberto Firmino 19.mín
2-1  Sadio Mané 29.mín
3-1  Roberto Firmino 67.mín
3-2  Jóhann Berg Guðmundsson 90+1 mín
4-2  Sadio Mané 90+3 mín

Leikurinn

Sólin skein yfir Anfield líkt og á góðviðrisdegi í Ísafjarðardjúpinu en það var meira gluggaveður en raunviðri þar sem að sviptivindar gerðu leikmönnum lífið leitt í fyrri hálfleik og haglélið ákvað að demba sér á köflum yfir völlinn í sólinni. Lallana var mættur í byrjunarliðið og byrjaði sprækur en Liverpool fengu ósanngjarnt og óvænt kjaftshögg snemma leiks. Matip klúðraði hreinsun og gaf óþarfa hornspyrnu um 6.mínútu og úr þeirri hornspyrnu skoraði Ashley Westwood beint í markið. Þetta mark hefði aldrei átt að standa þar sem að Burnley hafði hrúgað mönnum í kringum Allison og annar þeirra bakkaði inn í hann meðan Tarkowski klifraði hraustlega upp á axlirnar á honum. Augljóst brot sem að Andre Marriner sleppti og kórónaði skelfilegan sólarhring hjá ensku dómarastéttinni í að hafa sín vanhæfu áhrif á toppbaráttuna. Allison fékk gult spjald fyrir að mótmæla óréttlætinu og lái honum hver sem vill.

Þetta hleypti ágætu lífi í heimamenn sem brugðust við á réttan máta við mótlætinu. Nokkur hálffæri og ágætis sóknaruppbyggingar fylgdu í kjölfarið en á 19.mínútu jafnaði Liverpool leikinn. Wijnaldum og Salah áttu gott samspil og þegar boltinn barst fyrir teiginn þá tókst Burnley að klúðra sinni varnarvinnu þannig að Firmino skoraði auðvelt mark í galopið markið. Leikar jafnir.

Rauði herinn hélt áfram og lét kné fylgja kviði. Á 29.mínútu átti Adam Lallana frábæra pressu á varnarmann Burnley og frákastið féll fyrir Salah í teignum. Boltinn er tæklaður af Egyptanum en fellur vel fyrir Sadio Mané sem smellir boltanum út við samskeytin. Eftir að forystu var náð róaðist leikurinn lítið eitt en vindhviður voru í aðalhlutverkinu og höfðu mikil áhrif á samspil og fyrirgjafir. Klopp hafði minnst á veðurvítin í Liverpool-borg í derby-slagnum helgina áður og hlotið bláar háðsglósur fyrir en þeir þekkja það sem spila með þann lauflétta plastbolta sem er notaður í dag að það er ekkert grín að spila hágæða fótbolta í hávaðaroki. Ekki það að bláliðar viti mikið um að spila hágæða fótbolta og þeir fengu sitt karma endurgreitt fyrir glósurnar í gær.

2-1 í hálfleik

Seinni hálfleikurinn byrjaði rólega og helst til of mikið jafnræði milli liðanna fyrir smekk skýrsluritara. Fátt markvert var þó að gerast og það var ekki fyrr en rúmar tuttugu mínútur voru liðnar að það bar raunverulega til tíðinda. Heaton markvörður Burnley átti arfaslakt útspark sem fór beint á Mohamed Salah sem stormaði upp í átt að marki. Egyptinn er tæklaður og boltinn fellur fyrir Firmino sem skorar í markmannslaust markið framhjá varnarmanni Burnley á línunni. Sanngjarnt mark miðað við heildarframlag Liverpool og þau litlu gæði sem gestirnir höfðu sýnt fram á við.

Í kjölfarið fylgdu margar innáskiptingar og uppstokkanir beggja liða en meðal þeirra sem fengu að snerta grasið voru Jóhann Berg og Peter Crouch sem fékk virðingarklapp frá The Kop og víðar á vellinum. Á 82.mínútu fékk Mané algert dauðafæri til að slútta leiknum en hann náði eingöngu að setja boltann í slánna og yfir fyrir opnu marki eftir flotta en fasta fyrirgjöf Trent Alexander-Arnold. Að klikka á þessu færi átti eftir að koma í bakið á Liverpool því að á fyrstu mínútu uppbótartíma því að eftir glundroða í teiknum þá féll boltinn fyrir Jóhann Berg sem skoraði hið hefðbundna Íslendingamark sem Rauði herinn hefur búið til hefð úr að fá á sig.

Kliður og stressbylgja fór um mannskapinn á Anfield enda sigurinn kominn á tæpasta vað. En loks náðu heimamenn að refsa með skyndisókn þegar að Sturridge kom boltanum inn fyrir á hinn eldfljóta Mané sem var á undan Heaton í boltann og setti hann svo þægilega í autt markið. Game over!

4-2 sigur fyrir Liverpool

Bestu leikmenn Liverpool

Þrátt fyrir fjögur skoruð mörk í dag þá var frammistaðan engin flugeldasýning í sjálfu sér. Gæði okkar skinu sem betur fer í gegn líkt og sólin yfir Anfield en margir leikmenn voru í frekar hlutlausum gír enda stórleikur í Bæjaralandi á næstunni sem gæti hafa haft áhrif. Lallana átti flotta innkomu og skilaði frammistöðunni af æfingasvæðinu sem Klopp var að róma og yfir í alvöruna. Van Dijk var einnig að eiga glæsilegan leik og stýrði vörninni vel þó að tvö mörk hafi endað í netinu (annað fullkomlega ólöglegt). Af þeim sem þó skinu skærast voru augljóslega tveir tveggja marka menn í Firmino og Mané sem sköruðu fremst meðal jafningja, en að mínu mati þá var það Sadio Mané sem skilaði ögn betra dagsverki og er minn maður leiksins.

Vondur dagur

Í raun var enginn sem átti slæma frammistöðu í dag og í einkunnabókina er mín lægsta einkunn vel yfir falli. Það er helst að ég hafði samúð með Salah sem lagði mikið í sinn leik í dag og hefði alveg átt skilið að ná að skora eða leggja upp mark. Vissulega var hann tvisvar tæklaður þannig að úr kom stoðsending en það er ekki alveg það sama. Eftir eyðimerkurgöngu Egyptans upp á síðkastið þá hefði verið gaman að sjá hann fá verðlaun fyrir sitt erfiði. Vonandi verður hann áfram grimmur og gráðugur gegn Bayern og nær að gera eitthvað markvert þar.

Tölfræðin

 • Sadio Mané skoraði sitt 6. mark í röð á heimavelli og hefur verið ansi drjúgur í markaskorun upp á síðkastið.
 • Mohamed Salah hefur ekki skorað í 5 leiki í röð og síðast þann 9. febrúar gegn Bournemouth.
 • Liverpool hafði haldið hreinu í deild og Evrópu í 5 leiki og síðast fengið mark á sig gegn West Ham þann 4. febrúar.

Umræðan

Púlarar verða réttilega sáttir með að ljúka skyldusigri á undan erfiðum stórleik gegn Bayern. Það er þó ákveðið óbragð í munni með ensku dómgæsluna þessa helgina og spurning hvernig hefði farið ef að efsta liðið sem er margkært fyrir svindl hefði ekki fengið upphafsmark á silfurfati. Sem betur fer bjargaði Rauði herinn dómara dagsins frá því að hafa teljandi áhrif á úrslit leiksins en þessi frammistaða hinna skólastjóralegu skitbuxa hefur verið til skammar (með fullri virðingu fyrir vel dæmandi skólastjórum).

Annars verður umræðan á jákvæðum nótum við kaffivélina og allir Púlara spenntir fyrir leiknum á Allianz Arena í miðri viku. Á Rauða Ljóninu voru allir rauðstyðjandi meistarar í það minnsta brattir og fögnuðu hverju marki með góðri skál og t*baki í nös. Við treystum svo á að nafni minn og skólastjórinn síðskeggi & síglaði styðji hraustlega við liðið hvar sem hann drepur niður fæti í Bæjaralandi.

YNWA

26 Comments

 1. City spilar ekki deildarleik næstu helgi sem þýðir að Liverpool getur farið á toppinn með sigri á Fulham

  YNWA

  9
 2. Mané lang besti leikmaðurinn á vellinum svo koma Firmino og Lallana þar á eftir!

  7
 3. Þeir sem ætla að fá sér sokk og troða honum upp í sig eftir að hafa drullað yfir Lallana fyrir leik þá mæli ég með Mottumarsokk til að styrkja gott málefni 🙂

  YNWA – Frábær sigur í dag

  68
 4. Lallana maður leiksins.
  Að öðru leyti mikilvægur sigur.
  Sammála með mottumars sokkana fyrir Lallana haters.

  15
 5. Ég vill þakka Liverpool kærlega fyrir að bjarga bústaðar ferð er hérna með 2 sjittí mönnum og þurfti að horfa á það bull í gær áfram Liverpool gefumst ekki upp!

  12
 6. Flottur og traustur sigur. Missum okkur samt ekki alveg, þó Burnley sé ágætis lið þá eru þeir ekki í hópi þeirra bestu. Jákvæðu punktanir eru margir…
  ..gekk vel að skora
  ..liðið spilar sinn bolta
  ..Mane heilt yfir búinn að vera góður eftir áramót og bestur framherjanna
  ..Firmino kemur inn með fítónskrafti
  ..Lallana ekki alveg dauður
  ..Jóhann Berg skoraði
  Umhugsunarefnin eru m.a…
  ..liðið fær sárasjaldan á sig tvö mörk en það gerðist í dag
  ..er Shagiri meiddur eða hvað er í gangi???
  ..fer Lallana kannski ekki í sumar eins og ég var búinn að spá
  ..er liðið að róast eftir mikinn taugatitring eftir áramót
  ..að Jóhann Berg skyldi skora

  6
 7. Jói Berg verður væntanlega maður leiksins hjá Fótbolti.net ef að ég þekki þá rétt.

  4
 8. Dabbi: “bústaður” með 2 sjitty-mönnum?
  Kommon… segðu satt: Þú ert á Kvíabryggju!
  (allavegana miðað við félagsskapinn…)

  43
 9. Geggjaður sigur í dag og Lalli var mjög flottur.

  Úff… Þetta spennustig er að fara með mann.

  5
 10. Sæl og blessuð.

  Þetta var kærkomið og fallegt.

  1. Gaman að sjá þá setja hausinn undir sig og tuskast svolítið í andstæðingum – sem voru í stærð XL (nema Crouch…)
  2. Ógilt mark fær að standa – hvað er að gerast í dómaramálum hjá okkar liði? Nú er allt túlkað okkur í óhag.
  3. Salah kom að flestum mörkunum en var óheppinn/pínu klaufskur að skora ekki. Þetta ætlar að verða hæg fæðing.
  4. Eru ekki allir heilir?
  5. Hvar er Shaq?

  7
 11. Er ég eini hérna sem hef haft smá áhyggjur af Trent varnarlega?

  Mér finnst lið viljandi alltaf reyna að sækja hans megin því að hann er oft úr stöðu og lentir oft í miklum vandræðum(eins og í dag) þegar hann þarf að verjast 1 á 1 með enga hjálp.
  Trent er samt okkar framtíðar(og nútíðar) bakvörður og er ungur að árum og á efti að verða enþá betri og vonandi Liverpool legend(með fullt af bikurum).

  7
 12. Fékk aldrei á tilfinninguna að LFC myndi tapa, þó svo að kol ólöglegt mark hafi fallið með Burnley í byrjun. Alisson var hreinlega haldið niðri í fyrirgjöf sem hann átti allan tíman. En mörkin komu og 3 stig í húsi. Vil fara að sjá Salah setjann. En flottur endir.

  YNWA

  3
 13. Æ kláraðist heppnin hjá United. Bömmer.
  Lalli kominn í gang…asskoti er etta finn Sunnudagur.

  14
 14. Hvernig væri það nú að allir þeir sem hafa ekkert að segja nema eitthvað djöfulsins drull, hvort sem það er um Klopp, Lallana, Henderson eða hvað annað prófi að skrifa þetta drull bara á blað fyrir sig í staðin fyrir að henda því hérna inn á síðuna. Málefnaleg gagnrýni er velkomin en þessi eilífa bölsýni, svartsýni og skítkast er óþolandi lesefni.
  Við erum að fara vinna þennan titil og ManU mun tryggja okkur titilinn…þið lásuð það fyrst hér.

  YNWA

  40
 15. Ég mun ekki drulla yfir liðið mitt hvorki núna né nokkurtíman, en ég hef gagnrýnt dómara þessarar deildar, þeir eru ekki lélegustu dómarar í heimi nei það er of vægt til orða tekið þeir eru lang lang lélegustu dómarar í heimi. Ég efast um að dómarinn sem dæmdi Arsenal og ManU leikinn hafi heilsu eða sé í formi til að vera dæma? vítið sem Arsenal fékk var djók miðað við það sem gerðist inni í teig ManU í leik okkar við þá um daginn, en ég græt ekki að ManU tapi þeir meiga tapa öllum leikjum sem þeir eiga eftir nema 1 stk og við vitum allveg hvaða leikur það er. En hvað um það frábær sigur okkar mann á móti 11+ 1 manna liði í dag og það ekki í fyrsta og örugglega ekki í síðasta skipti.

  YNWA.

  5
 16. Sælir félagar

  Mjög góður dagur í dag og sanngjarn sigur Arsenal skemmdi ekkert fyrir mér. Salah er minn maður leiksins enda kom hann við sögu og hafði úrslitaþýðingu fyrir fjögur af mörkum okkar manna. A. Mariner er auli og ekkert við því að gera en hitt er annað hvað hann fékk mikinn frið við sín skítverk. MU menn djöfluðust svo í J Moss að hann sleppti öðru hverju broti þeirra og spjaldaði Arse menn fyrir minnstu sakir. En svona er þetta bara.

  Það er nú þannig

  YNWA

  7
 17. Ég rak upp frekar stór augu þegar ég sá að Lallana var í byrjunarliðinu … en hugsaði með mér það er eitthvað plott í gangi. Burnley varðist aftarlega og nokkuð vel en áttaði mig þá á því hvað Kloppó var að gera. Hann vildi að Fabinho og Vinjaldum yrðu aftar á meðan bakverðirnir og Lallana sæu um að búa til ógn … fannst það ganga alveg ágætlega í dag og þá gekk planið frekar upp.
  Sáttur með það sem ég sá, eitt ólöglegt mark og svo smá einbeitingarleysi í lokin.

  Miðvikudagur … stór dagur, #belive !!

  YNWA.

  7
 18. Lallana varð ekkert allt í einu lélegur fótboltamaður, hann hefur bara verið óheppinn með meiðsli.

  7
 19. Ég er ánægður að gamli Lallana mætti til leiks eftir rúmlega 1 1/2 árs fjarveru. Ég hef alltaf kunnað að meta þennan leikmann og var ekki búinn að gleyma því hve góður hann er í fótbolta en ég verð að viðurkenna að ég var búinn að tapa trúnni á að ég ætti eftir að sjá hann sýna aftur sömu gæði og tilþrif á vellinum og hann gerði í leik eftir leik frá haustinu 2016, á öðru ári Klopp, fram að því hann slasaðist í æfingarleik gegn Bayern Munchen síðsumars 2017, í leik sem hann var frábær og Liverpool vann 4-0. Mér er minnisstæður æfingarleikur gen Barcelona á Wembley haustið 2016 þegar hann skoraði mark og lagði upp 2. Hann var geggjaður í þeim leik sem Liverpool vann líka 4-0. Hann var frábær tímabilið 2016/17 bæði með Liverpool og ekki síður með enska landsliðinu og var meðal annars valinn besti enski leikmaður deildarinnar eftir tímabilið. Því voru bundnar miklar vonir við hann hjá Liverpool haustið 2017 sem urðu að engu í áðurnefndum leik. I dag sýndi hann gamla takta og tilþrif sem Klopp vonaðist til að hann mundi sýna með því að gefa honum það traust að velja hann í liðið. Hann er blanda af leikmanni sem sem Klopp elskar, skapandi og lipur leikmaður en samt líkamlega sterkur og getur hlaupið þindarlaust í 120 mín og getur unnið tæklingar og bolta og síðan komið með þessar löngu óvæntu fyrirgjafir fram á völlinn sem hann sýndi margsinnis í dag sem brýtur upp varnarleikeik andstæðingana og leiðir til marks . Þetta var einmitt ástæða þess að Klopp valdi hann í þennan leik gegn liði sem spilar agaðan varnarleik, einmitt lið með sömu eiginleika sem Liverpool er búið að eiga erfitt uppdráttar gen að undanförnu eins og öll jafnteflin sýna. Og hann brást ekki traustinu. Að mínu mati einn besti leikmaðurinn í dag og hann átti stóran þátt í fyrstu 2 mörkunum. Í fyrra markinu sendi hann langa 60 metra þversendingu frá vinstri kanti yfir á hægri kantinn beint á Salah sem einlék áfram inn í teiginn og fyrgjöf hans leiddi til fyrra marks Firmino. Í senna markinu tæklar hann varnarmann Burnley fyrir framan teiginn og boltinn skoppar til Mane sem sendir hann í netið. Einmitt eiginleikar sem vantað hefur leik Liverpool að undanförnu. Það skyldi þó ekki verða Lallana sem verður okkar jóker á vormánuðum og að Liverpool með hjálp hans landi Englandsmeistatitlinum. Hefði einhver trúað því ? Ekki margir ef ég miða við skrifin hér á athugasemdar síðunni fyrir leik. Klopp þekkir leikmenn sýna greinilega betur en við.

  29
 20. Frábært að Liverpool vinna loksins leik á móti slappara liði en hvar var þetta sama Liverpool lið á móti Everton eða Leicester og af hverju var Klopp ekki búin að motivateda leikmenn betur í þeim leikjum en svo kemur liðið dýrvitlaust og spilar þennan rétta sóknarbolta sem Klopp notar svo oft. Veit ekki með ykkur en ég hef áhyggjur af þessu jó jó dæmi sem virðist vera okkar há okkur og þetta skrifast alfarið á Klopp því miður hvað sem aðrir halda eða segja.

  1
 21. Nei Robbi það skrifast ekki á Klopp þó menn eigi slaka leiki inná milli þetta eru ekki vélmenni við erum að keppa við triljarða dala lið City og erum á sama leveli og í raun þannig séð betri aðeins búnir að tapa einum leik meðan að liðið með botnlausa tunnu fyrir peninga hafa tapað 4 leikjum í deild.
  Ef menn hafa ekki tekið eftir þá er City og Liverpool að skilja hin liðin eftir það eru 12 stig í 3dja sætið.

  Liverpool er með einn besta þjálfara heims og með eitt besta lið evrópu um þessar mundir ættum frekar að þakka fyrir það heldur en að atast útí nokkra jafnteflis leiki ég mun halda áfram að vera sáttur með þessa stöðu og meira segja þó að City myndi taka þetta eftir 38 umferðir á meðan Liverpool er á þessu leveli og er að berjast að verða enn betri þá er ég sáttur.

  11

Byrjunarliðið gegn Burnley á Anfield

FC Bayern