Burnley á sunnudaginn

Á sunnudaginn mun Burnley mæta á Anfield í 30. umferð Úrvalsdeildarinnar.

Það var ansi óvanaleg sjón sem blasir við okkur þessa dagana eftir að Liverpool datt niður í 2.sætið eftir skíta “tap” í formi 0-0 jafnteflis gegn Everton síðastliðin sunnudag. Liverpool er því í 2.sætinu og stigi á eftir Man City sem liggja nú undir mikilli rannsókn frá öllum helstu knattspyrnusamböndum Englands, UEFA og FIFA vegna svindla með fjármuni sína og brota á FFP reglum. OH MY GOD! Svo óvænt! Það bjóst enginn við þessu!

…eða hitt þó heldur.

Man City mun spila á laugardeginum og gæti þá verið komnir með fjögurra stiga forskot á Liverpool þegar flautað verður til leiks á Anfield. Það er því mjög mikilvægur leikur framundan hjá Liverpool sama hvernig fer hjá City. Liðið verður annað hvort að halda í við Man City eða taka aftur af þeim toppsætið ef þeir misstíga sig gegn Watford.

Mikið hefur verið rætt og ritað um þennan jafnteflisleik við Everton og að Liverpool hefði átt að gera mikið betur í honum og fara þaðan með þrjú stigin. Liverpool spilaði leikinn svona heilt yfir nokkuð ágætlega fannst mér. Gáfu fá tækifæri á sér, sköpuðu sér færi til að klára leikinn en boltinn fór bara ekki í netið. Skiptingar Klopp voru ansi umtalaðar en hann þótti ansi “huglaus” í skiptingum sínum en hann var til að mynda með Sturridge, Keita og Shaqiri á bekknum þegar hann skiptir Mane inn á fyrir Lallana undir lok leiksins.

Klopp hefur útskýrt þessar skiptingar sínar. Shaqiri og Keita hafa báðir verið að glíma við smávegileg meiðsli eða veikindi nýlega og þar sem þétt hefur verið á milli síðustu þriggja leikja þá hefur verið takmarkaður undirbúningur til að gera breytingar á liðinu sem fylgja þeim. Ég er ekkert endilega sammála þessari pælingu hans með skiptingarnar og þess háttar en ég skil hvert hann er að fara með þessu.

Nú er hins vegar vika á milli leiksins gegn Everton og Burnley, nóg af æfingum á milli svo við getum eflaust farið að sjá einhverjar smávægilegar breytingar á liðinu frá þessum þremur síðustu leikjum.

Ætli ég myndi ekki bara giska á að það yrði eitthvað á þessa leið:

Alisson

Trent – Matip – Virgil – Robertson

Keita – Fabinho – Wijnaldum

Salah – Firmino – Mane

Ég held að Klopp muni setja auka “sóknarsinnaðan” mann inn í liðið og það verður annað hvort Shaqiri eða Keita, ég hallast að því að hann muni nota Keita til að geta haldið 4-3-3 en ég væri nú alveg líka til í að sjá Shaqiri og fórna einum miðjumanni fyrir auka sóknarmann.

Lovren er byrjaður að æfa aftur og verður klár á næstunni en líklega ekki í byrjunarliðinu á morgun, Gomez mun snúa aftur eftir landsleikjahléið og Oxlade-Chamberlain spilaði 40 mínútur með varaliðinu í gær. Það styttist því í að flestir leikmenn Liverpool sem hafa verið lengi á meiðslalistanum snúi aftur en enginn þeirra verður í byrjunarliðinu á morgun myndi ég halda. James Milner er eitthvað tæpur fyrir leikinn og óvíst hvort hann verði með.

Burnley er sem stendur með þrjátíu stig og eru rétt fyrir ofan fallsæti en frammistaða þeirra og úrslit í vetur hafa verið töluverð vonbrigði miðað við hve sterkir þeir voru í fyrra og komust meðal annars í Evrópudeildina þar sem þeir skitu upp á bak, komust ekki í riðlakeppnina og gengi þeirra í deildinni hefur verið nokkuð afleitt. Þá sérstaklega á fyrri hluta tímabils.

Sean Dyche og Klopp lentu saman eftir fyrri leik liðana í vetur og þá aðallega vegna þess að Klopp fannst leikmenn Burnley fara full háskalega í tæklingar í leiknum en ein slík sá til þess að Joe Gomez hefur verið fjarrverandi í næstum fjóra mánuði.Dyche stökk þó aðeins til varnar Klopp fyrir leik liðana og greindi frá því að hann væri uppalinn Liverpool stuðningsmaður – sem setur mann í óþægilega stöðu að nú getur manni ekki verið eins illa við Dyche!

Gengi Burnley hefur verið fyrir neðan væntingar í vetur en það eru enn öflugir leikmenn þarna inni. Jóhann Berg Guðmundsson er mikilvægur þáttur í þeirra leik, Tom Heaton er mættur aftur í markið, James Tarkowski er öflugur miðvörður og þeir eru með lurka frammi sem geta valdið vandræðum. Ashley Barnes er öflugur frammi hjá þeim og finnst mér ekki ólíklegt að hann verði settur á Joel Matip og gæti verið erfiður viðureignar. Steven Defour og Aaron Lennon eru frá vegna meiðsla og verða ekki með.

Upplegg Burnley verður eflaust alveg eftir bókinni. Þeir munu liggja til baka, reyna að drepa niður leikinn sem verður spilaður í töluverðu roki og reyna að halda sér þéttum. Liverpool má ekki við jafntefli í þessum leik og verða að vinna, ég hugsa að Klopp geri sér fulla grein fyrir því og muni leyfa sér auka “sóknarmann”. Ég efast um að Burnley muni leyfa sér að keyra hátt með bakverði sína og reyni að skilja eftir eins lítið pláss og þeir geta, það er því mikilvægt að Liverpool sé með leikmenn inn á sem eru færir í að opna slík pláss.

Við sjáum hvað setur á morgun. Liverpool mun, sama hvað, þurfa að vinna upp forystu Man City og kemur í ljós seinna í dag hvort sú forysta verði eitt, tvö eða fjögur stig. Því færri því betri en niðurstaðan er sú sama hvaða Liverpool varðar. Skyldusigur og einn af fjölmörgum leikjum sem Liverpool á eftir við liðin í kringum botninn. Þessir leikir verða að klárast ef liðið vill berjast til síðustu mínútu um titilinn.

11 Comments

  1. Sæl og blessuð.

    Þetta er einfalt. Ef við vinnum ekki rest þá er ósennilegt að við vinnum mótið. Þetta er fyrsti leikur af því sem þarf helst að vera óslitin sigurganga. Lykilatriði er að framlínan okkar fari að vakna og sýna gamla takta. Miðjumenn mega svo fara að sýna meiri snerpu.

    Horfi á City vs. Watford yfir laugardagshreingerningunni. Gríðarlegir yfirburðir þeirra fyrrnefndu og það er eins og þeir grænklæddu hafi enga trú á málstaðnum. Þeir komast varla yfir miðju og eru með sína beittustu hnífa á bekknum. Nánast algjör uppgjöf en það má svo sem gæla við þá bjartsýnu hugsun að einhvern tímann komi að því að slík taktík virki og þeir fölbláu nái ekki að pot’onum inn. Í þeim rituðu orðum þá skorar Sterling. Júdasinn sá.

    Jæja, maður missir alla rósemd hugans ef dvalið er of lengi við þessa þanka. Sjáum hvað setur. Tímabilið verður sögulegt hvernig sem á málin er litið. Já – og gott að síðan er komin í gagnið aftur!

    7
  2. Sammála Lúðvík ef að við töpum eða gerum en eitt jafnteflið þá er þetta búið hjá okkur.

    2
  3. Man City að fá allar ákvarðinar með sér undanfarið. Soft víti um daginn og núna flagar línuvörður réttilega rangstöðu en eftir 3 mín spjall er því breytt og Man City kemst í 1-0. Það var ekkert var til að breytta þessu.

    Þetta þýðir að við erum 4 stigum frá toppsætinu.

    1
  4. Fyrir utan að á óskiljanlegan hátt hvílir Watford 7 lykilmenn í vetur fyrir leik gegn Man City(þeir eru ekki meiddir) og byrjuðu allir í sigri í síðasta leik og held ég að maður hefur aldrei séð lið vinna leik og deild og gera svo 7 breyttingar á því liði í næsta deildarleik.

    2
  5. Það er ekki þessi sigur hjá City sem gerir það að verkum að við erum fjórum stigum frá toppsætinu. Heldur eru það fjögur jafntefli í síðustu sex leikjum sem gera það.

    7
  6. Alger skyldusigur á morgun. Er algerlega sammála uppstillingu skýrsluhöfundar með byrjunarliðið. Kominn svo sannarlega tími á Keita.

    Ekkert óvænt í City-leiknum áðan. Ömurleg dómgæsla en þeir hefðu engu að síður alltaf klárað þetta varalið Watford.

    Sigur í næstu tveimur leikjum, Burnley á morgun og Fulham á útivelli eftir viku og toppsætið er okkar. City spilar ekki í næstu viku í deildinni, eiga bikarleik á móti Swansea um næstu helgi.

    Við eigum 9 leiki, eftir þar af 5 heimaleiki. City eiga 8 leiki eftir, þar af 3 heimaleiki.

    Allt galopið enn, koma svo rauðir!

    5
  7. Einfalt dæmi, sigur á morgun heldur okkur í baráttu, tap á morgun þíðir að við færum city titilinn á silfurfati

    1
  8. Sigur á morgun og ekkert múður. Annað er ekki í boði. Rokk og ról aftur í okkar lið. Við vinnum þetta 3-0 !

    1
  9. Nú fara leikirnir heldur betur að telja. Því þarf að setja í túrbóið og hleypa þessum leik svolítð upp. Liverpool er nefnilega mjög hætt við að gera jafntefli ef á að spila varfærnislega. Hef engar áhyggjur af þessum leik ef okkar menn bara spila sinn ákafa bolta.
    Varðandi deildina þá er heill annar hellingur eftir og held ég að MC vinni alls ekki alla sína leiki sem eftir eru. Þeir eiga td Spurs og MU (úti) eftir og jú vissulega líka Cardiff og Fulham sem þvælast sennilega ekki mikið fyrir en maður veit aldrei. Liverpool á eftir Chelsea og Spurs bæði liðin heima. Prógrammið er því ekki ósvipað en miðað við stöðu liða og heima og útileiki virðist það auðveldara hjá okkar mönnum. En eins og margtuggið er þá eru engir auðveldir leikir til í PL og orðið skyldusigur leiðist mér ákaflega.

    3
  10. Skil ekki þessa ást Klopp á Lallana. Hvað hafa Keita og Shaq eiginlega gert af sér.

    3

Gullkastið – Tvö töpuð stig á Goodison

Byrjunarliðið gegn Burnley á Anfield