Liverpool – Bayern Munchen 0-0

Það var gríðarleg stemmning á Anfield eins og venja er á CL kvöldum. Það verður ekki annað sagt en að fyrstu 45 mínúturnar hafi verið kaflaskiptar. Liverpool var í allskonar vandræðum fyrstu 25 mínúturnar eða svo. Bayern voru klókir í sínum leik, héldu boltanum vel og spiluðu yfir pressuna hjá Liverpool. Varnarleikur Liverpool einkenndist af óöryggi fyrstu mínúturnar, sem kannski var við að búast, en skánaði þegar leið á leikinn.

Matip skoraði næstum sjálfsmark eftir um korters leik þegar hreinsun hans fór í öfuga átt en í brjóstkassann á Alisson. Brassinn var virkilega tæpur á boltann í nokkur skipti og skrítnar sendingar úr vörninni voru að skapa okkur allskonar vandræði hvað eftir annað og manni var alveg hætt að lítast á blikuna!

Mo Salah var reyndar búinn að fá ágætisfæri fyrr í leiknum en hann fékk annað þegar sending frá Trent á fjarstöng endað með skalla framhjá, ágætis færi en Alaba var að bakka og gerði honum erfitt fyrir.

Þegar hér var komið við sögu voru gestirnir búnir að vera 60% með boltann (eftir 25 mínútur) sem er ekki algeng sjón á Anfield. Eftir þetta fór Liverpool að vakna. Mané átti fínan sprett á 27 mínútu þar sem að Kimmick sparkaði hann niður og fékk gult spjald og verður því í banni í síðari leiknum.

Firmino stóð af sér tæklingu fimm mínútum síðar, lagði boltann á Keita sem skaut á markið, boltinn fór af Sule til Mane inn á markteig sem skaut framhjá í dauðafæri! Sneri reyndar baki í markið en var aleinn og átti að gera betur.

Á 37 mínútu átti Keita aftur skot, aftur fór skotið í varnarmann og til Mane, þó í talsvert þrengra færi og erfiðari móttaka en bakfallsspyrna hans fór framhjá.

Manni fannst markið liggja í loftinu á þessum tímapunkti og þremur mínútum síðar áttu heimamenn frábæra sókn þegar Salah lagði boltann með hælnum fyrir Firmino sem komst einn inn á teig, sendi út þar sem Matip skaut framhjá úr dauðafæri.

0-0 í hálfleik í fjörugum og kaflaskiptum fyrri hálfleik!

Síðari hálfleikur byrjaði með hápressu frá Liverpool. Bayern óhræddir við að spila boltanum á milli öftustu manna og Liverpool var ekki að ná síðustu sendingunni þegar þeim tókst að vinna boltann ofarlega á vellinum eða á miðjunni – Keita var þar virkilega öflugur. Annars gerðist lítið fyrsta hálftímann eða svo. Bayern var líklega meira með boltann en það var aðalega á sínum eigin vallarhelmingi. Liverpool var þá alltaf líklegra í öllum sínum sóknaraðgerðum en vantaði herslumuninn.

Milner kom inn í stað Keita á 75 mínútu sem var búinn að eiga fínan leik og Origi í stað Firmino sem einnig var búinn að vera öflugur en var að koma til baka eftir veikindi sem líklega var ástæðan fyrir því að hann fékk ekki að klára leikinn.

Salah átti frábæran sprett á 80 mínútu, fór framhjá Alaba en Gini var eitthvað að flækjast fyrir honum. Stuttu síðar fékk Matip frákastið fyrir utan vítateig Bayern og hafði nægan tíma en slakt skot hans fór framhjá.

Leikurinn fjaraði svo út, öllu rólegri síðari hálfleikur. Mér fannst Bayern koma til að sækja jafnteflið, voru agaðir og spiluðu í raun virkilega vel. Liverpool var klárlega að reyna að pressa en gestirnir leystu það virkilega vel, þó þeir hafi ekki skapað sér mörg færi – sérstaklega ekki í síðari hálfleik.

Ég verð samt að segja að 0-0 jafntefli er enginn heimsendir. Við vorum að spila með einn leikfæran miðvörð, þurftum þar af leiðandi að spila okkar næst besta miðjumanni í miðverðinum sem olli talsverðum skjálfta fyrsta hálftímann eða svo. Að halda hreinu á heimavelli er jákvætt, ef við setjum mark í Þýskalandi þá þufa þeir að setja tvö. Við sjáum hvað setur.

Bestu menn Liverpool

Henderson fannst mér algjörlega frábær, sérstaklega í fyrri hálfleik. Keita fannst mér að sama skapi aftur góður í dag, annar leikurinn í röð. Megum virkilega við því að fá hann í form á þessum tímapunkti!

Matip og Fabinho eiga hrós skilið. Byrjuðu ekkert sérstaklega vel (Alisson var ekki að hjálpa) en unnu sig inn í leikinn og voru bara mjög góðir heilt yfir. Sérstaklega fannst mér Fabinho grípa vel inní (gegn Lewandowski og Coleman á mikilvægum augnablikum í síðari hálfleik).

Umræðan

Leikbönn. Virgil er nú búinn að taka sitt bann út og verður með í síðari leiknum, sem styrkir okkur gríðarlega. Að sama skapi mun Kimmich vera í banni eftir að hafa fengið gult spjald í dag.

Varnarleikur Liverpool. Sóknarleikur Liverpool er allt annar þegar bæði Trent og Robertson eru leikfærir, því var ánægjulegt að sjá þá loksins aftur í liðinu. Koma með allt aðra vídd í þetta lið okkar. Hrós dagsins fá þó Matip og Fabinho sem héldu einum allra besta sóknarmanni heims í skefjum í dag og, utan fyrstu 25 mínúturnar eða svo, stigu varla feilspor.

Allt í járnum. Þetta einvígi er galopið. Þessi síðari leikur verður háspenna. Liverpool fer í síðari leikinn vitandi það að þeir geta vel skapað færi gegn þessu Bayern liði. Það er aftur á móti heilmikil reynsla í þessu Bayern liði. Þeir fá væntalega Goretzka inn í síðari leikinn og Ribery verður kominn í betra stand – á móti kemur verðum við vonandi með tvo eða fleiri leikfæra miðverði sem styrkir allt liðið.

Næsta verkefni

Öll verkefni liðsins eru risavaxin þessar vikurnar. Það næsta er eitt stk deildarleikur á Old Trafford á sunnudaginn takk fyrir! Þetta er auðvitað leikur sem liðið á inni (City spilar úrslitaleikinn í deldarbikarnum þessa helgi) og má liðið ekki tapa þar ef þeir ætla sér að endurheimta toppsætið aftur.

Þar til næst,

YNWA

17 Comments

 1. STÓRkostlegur leikur tveggja heimsklassaliða. Við mætum á bjórvöllinn þarna í þjóðverjalandi og þöggum niðri í þeim með fyrsta markinu. Sá leikur mun enda 1-1. Hversu sætt verður það?!?

  Fabiano er svo stútfullur af fótboltagreind að það er fáránlegt!

 2. Þetta var dapurt ég auglýsi eftir Salah hefur verið frekar týndur undanfarið. Nýttum færin okkar illa spurning hvort allt þetta frí hafi gert okkur gott virðumst vera frekar ryðgaðir og ekki nógu beittir sóknarlega. Vorum svo einstaklega lélegir í öllum föstum leikatriðum. Verðum vonandi í betri takkti í útileiknum þetta er ekkert búið.

 3. SHAQ og VVD klára þá í Þýskalandi. Vara vara vara vörnin okkar hélt þó hreinu sem er gott. Ég sætti mig við þetta jafntefli og að við vinnum á sunnudaginn 🙂

 4. Stál í stál leikur.
  Bayern voru komnir til að draga úr hraða, vera þéttir, tefja og halda markinu hreinu og það gerðu þeir svo að þeir eru sáttir við þennan leik.
  Okkar menn fengu nokkur tækifæri til að vinna þennan leik en inn vildi boltinn ekki. Við vorum í pressu í 90 mín og sá maður það á loka kaflanum að þá dróg aðeins af okkur en það má segja það sama um gestina sem voru liggjandi með krampa.
  0-0 og við héldum markinu líka hreinu með Matip/Fabinho í miðverði að kljást við einn af bestu sóknarmönnum heims sem sást varla í leiknum en vill samt taka það fram að þetta er ekki drauma parið og voru þeir nokkrum sinnum tæpir í sínum varnarleik.
  Annars fannst mér liðið okkar selja sig dýrt í þessum leik og var vinnslan á miðsvæðinu með Henderson/Keita/Winjaldum alveg til fyrirmyndar.

  Bayern munu ekki komast upp með þetta leikjaplan á heimavelli og er reiknað með þeim sókndjarfari í þeim leik en það mun bara henta okkur enþá betur og verður erfitt fyrir þá að halda hreinu gegn okkur en það mun reyna líka meira á okkur varnarlega en með Dijk í vörninni þá verður maður rólegri.

  Núna er það bara næsti leikur gegn Man utd á útivelli og þar fáum við allt öðruvísum leik þar sem heimamenn munu sækja til sigurs og verður þetta opinn leikur með fullt af færum.

  YNWA

 5. Svolítið merkilegt að Bayern hefur skorað 0 mörk á Anfield frá upphafi.

  Og fyrst þessi leikur vannst ekki, þá voru 0-0 bestu úrslitin. Maður sér alveg fyrir sér að Bayern spili jafnvel aðeins framar í seinni leiknum, og það gefur möguleika á að opna svæði fyrir okkar fremstu þrjá.

 6. Fabinho klárlega minn maður leiksins, og bakverðirnir ekki. Það var greinilegt at Trent er sð koma úr meiðslum og það er fínt að Robbo notaði 0-0 leik til að eiga “off” leik.

  Næsta verkefni: lækka rostann i Manu!

  Góðar stundir félagar

  YNWA

 7. Fyrst að jafntefli varð útkoman þá er 0 – 0 besta niðurstaðan.

  Henderson,sem ég hef lítt verið hrifinn af á tímabilinu,átti hörkuleik ásamt Keita og í raun ótrúlegt að við náðum ekki að skora og nokkrum sinnum vantaði bara betri sendingu til að sprengja upp vörnina hjá þeim.

  Robertsson átti erfitt uppdráttar og vonandi náum við að setja mark á þá snemma í Þýskalandi og koma þeim úr jafnvægi.

 8. Sæl og blessuð.

  Nokkur atriði:

  1. Miðjumenn vilja ekki skjóta. Það er auðvitað pínu ógnvekjandi að hafa Neuerinn þarna milli stanganna en ég held það myndi grisja svolítið vörn andstæðinganna ef hún mætti eiga von á langskotum frá miðjumönnum. Sú var tíðin að Hendó skoraði langt fyrir utan teig en það gerir hann ekki lengur. Jafnvel þótt ekki takist að skora, þá endar boltinn stundum í einhverju ,,batta-skoppi” milli þeirra sem verða fyrir honum og aldrei að vita hvað kann að gerast. Sjáið t.d. Virgilinn og lúðranir hans.
  2. Varnarmenn kunna ekki að skjóta. Hvað á það að þýða að vera ekki búinn að setja Matip og félaga á skotæfingu svo þeir amk hitti á rammann úr upplögðum færum?
  3. Sambandsleysi á lokametrum. Ákvarðanir þegar búið var að prjóna sig í gegnum teiginn voru oft furðulegar og stöku sinnum þvældust leikmenn hver fyrir öðrum.
  4. Pressusókn í reitabolta við markteig. Það var agalegt að horfa á a) hvað Alison var oft nálægt því að klúðra málum þegar hann var að reyna að fífla pressuna frá sóknarmönnum BM og b) hvað Neuer og co. náðu að þræða boltann milli sóknarmanna okkar þegar þeir reyndu að pressa.
  5. Vörnin þeirra var frábær en við rústuðum miðjunni þegar leið á leikinn og sóknarmenn þeirra sáu ekki tli sólar. Þeir náðu ekki skoti á rammann, sem er víst einsdæmi hjá þessu öfluga liði.

  Svo er það aðalleikurinn á sunnudaginn. Samkvæmt öllum sólarmerkjum ættum við að hafa þetta, en við vitum að allt getur gerst og það er aldrei á vísan að róa.

 9. Fínustu úrslit þannig séð hefði samt viljað fá shaqiri inn á þarna í restina hann kemur alltaf með þetta extra power og sköpun og opnar leiki en hvað veit ég…get ekki beðið eftir sunnudeginum

 10. Svavar #1 og Dog #2 voru greinilega ekki að horfa á sama leikinn.

  Eins og sumir nefna hér er furðulegt að við náðum ekki að skora. Við bætum þá úr því i Munchen… það er í góðu lagi, útivallarmörkin eru jú verðmætari.

 11. Sælir félagar

  Þetta var besta jafnteflisniðurstaða sem hægt var að fá. BM átti eitt skot á rammann í öllum leiknum og einhverntíma hefðu það þótt tíðindi. Það er merkilegt að þetta þýska lið sé ekki á toppnum í þeirri deild. Klassa betri en mitt lið, Dortmund. Ótrúleg óheppni að ná ekki að skora eitt mark amk. Salah var algerlega klipptur út úr leiknum. Hann var með yfirfrakka á sér allan leikinn og stundum tvo og þrjá. Það sér hver maður að ekki er hægt að hreifa sig mikið í frakka hvað þá þremur.

  Þega Salah er dekkaður svona svakalega þá er erfitt fyrir hann að gera mikið nema draga til sín menn og losa þannig um aðra sóknarmenn. Það var líka það sem gerðist og Mané var óheppinn að skora ekki amk. eitt mark í gær. Svo þarf leirkallinn að æfa skot og sendingar en hann stóð sig vel í gær og var svona á pari við það sem maður bjóst við bestu hjá honum. Nú skiptir mestu og reyndar öllu máli að vinna næsta leik annað er bara hjóm miðað við það

  Það er nú þannig

  YNWA

 12. Frábær leikur og fínasta skemmtun. Skil stundum ekki þessar einnkunnargjafir eins og hjá sky ofl. Miðað við einhverja sem ég sá fá varnarmenn beggja liða frekar klénar einkunnir. Stundum finnst manni umfjöllun þannig að ekki sé sami leikurinn og maður horfði á sjálfur.
  Annars fannst mér liðið almennt standa sig vel. Henderson og Firmino mjög góðir, Matip og Fabhino fínir í hafsentinum og Keita með spretti en ansi mistækur þess á milli. Robertson í smá vandræðum.Mane er frábær leikmaður og hugsið ykkur ef hann væri með betri nýtingu á færunum sínum. Er samt pínu hugsi með hvernig Liverpool sækir, alltaf keyrt inn í pakkann fyrir framan markið þar sem BM eru langsterkastir, aldrei skot eða skotógnanir fyrir utan teig sem gerir það að verkum að BM þarf ekki mannskap fyrir framan teiginn til að verjast slíku. Þarna saknar maður Couthino eða einhverjum svipuðum. Kvíði engu fyrir seinni leikinn, eitthvað hlýtur undan að láta hjá BM.

 13. Flottur leikur í heild sinni en það vantaði alltaf síðustu sendinguna eða touchið til að skora.. Menn að tala um að miðjumennirnir hefðu ekki ógnað fyrir utan en ég held að Keita hafi átti tvær eða þrjár skotilraunir við vítateiginn en þær fóru allar í varnarmann, var ekki Mane nærri því búin að skora úr einu þeirra… En það verður mjög áhugavert að sjá miðjuna í næsta leik. Hver mun fara á bekkinn. Henderson var frábær í gær, Gini hefur verið einn af okkar bestu mönnum, Fabinho er búinn að vera frábær síðan í desember og svo er Keita að stíga mjög upp.. Þannig að það verður spennandi sjá hver verður settur á bekkinn.

 14. Ótengd LFC en ég er að horfa á leik AM og Juve og ég hef sjaldan séð menn liggja jafnoft á vellinum.
  Hægur og leiðinlegur leikur þar sem menn veltast um í grasinu líkt og einhver sé á eftir þeim og negli þá niður með loftpressu.

  Annars góður bara.

Liðið gegn Bayern

Gullkastið: Þýska stálið er sterkt