Kvennaliðið mætir Milwall í 16 liða úrslitum FA bikarsins

Í dag kl. 14 hefst leikur kvennaliðs Liverpool gegn Milwall í FA bikarnum. Með sigrinum um síðustu helgi komust okkar konur í 16 liða úrslit, og með sigri í dag fæst miði í 8 liða úrslitin.

Milwall leika í næstefstu deild og hafa ekki verið að gera neinar sérstakar gloríur þar, svo fyrirfram getum við búist við að stelpurnar hennar Vicky verði sterkari, en höfum samt þennan hefðbundna bikar-fyrirvara á. Það tók enda rúman hálftíma að brjóta niður varnarmúrinn hjá MK Dons um síðustu helgi, og gæti vel orðið erfiðara í dag.

Leikurinn er sérstakur fyrir þær sakir að þetta verður síðasti leikurinn sem Satara Murray mun leika fyrir liðið, því hún hefur ákveðið að flytja aftur til Bandaríkjanna. Hún kom til klúbbsins fyrir fjórum árum síðan, þá beint úr háskóla í Bandaríkjunum, en ætlar nú að segja þessu lokið í bili. Hún hefur spilað sem bakvörður og miðvörður hingað til, og mér segir svo hugur að þetta hafi verið vitað núna í einhvern tíma, og að sú ákvörðun að fá Jemmu Purfield til liðsins hafi verið tekin með þetta í huga.

Héðan í frá verður semsagt ljóst að þegar við tölum um Murray í liðsuppstillingu, þá verður það Christie Murray.

Svo eru fleiri fréttir úr herbúðum Liverpool Women, því Jessica Clarke er búin að framlengja samning sinn við liðið. Afar jákvætt því hún hefur verið með betri leikmönnum þetta árið. Vonum að hún komi sem fyrst til baka úr þeim meiðslum sem hún er að glíma við.

En svona verður stillt upp í leiknum á eftir:

Kitching

S.Murray – Bradley-Auckland – Fahey – Purfield

Roberts – Coombs – C.Murray

Babajide – Linnett – Sweetman-Kirk

Bekkur: Preuss, Thomas, Robe, Rodgers, Hodson

Fran Kitching á afmæli í dag og við vonum að sjálfsögðu að hún fái sigur í afmælisgjöf.

Leikurinn er sýndur beint á https://www.facebook.com/LiverpoolFCW. Við uppfærum svo færsluna með úrslitum síðar í dag.


Leik lokið með 2-0 sigri hjá stelpunum okkar. Það var Kirsty Linnett sem skoraði fyrra markið, og hún lagði svo upp það síðara sem Rinsola Babajide skoraði. Fran Kitching hélt hreinu á 21. árs afmælisdeginum sínum, lenti reyndar í samstuði alveg undir lok leiksins sem hefði hugsanlega getað skemmt eitthvað fyrir en hún stóð upp eftir aðhlynningu og kláraði leikinn. Okkar konur skoruðu reyndar tvö mörk til viðbótar í fyrri hálfleik en bæði voru dæmd af vegna rangstöðu. Vicky gat leyft sér að gefa ungu stelpunum mínútur undir lokin, og skipti þeim Amy Rodgers, Lauren Thomas og Ashley Hodson öllum inná.

Það verður svo dregið í 8 liða úrslitunum annað kvöld skilst mér. Það lítur út fyrir að hin 7 liðin í pottinum verði Chelsea (sem unnu Arsenal 3-0), West Ham (sem unnu Huddersfield 8-1), Durham (sem unnu Bristol 0-2), Manchester United (sem unnu London Bees 3-0), Manchester City (sem unnu Tottenham 0-3), Reading (sem unnu Birmingham 2-1 með sigurmarki frá Rakel Hönnudóttur), og svo annaðhvort Villa eða Sheffield, en þar er nú hálfleikur og staðan 0-1 fyrir Sheffield.

7 Comments

 1. Takk fyrir það og glæsilegt hjá stelpunum. Tækifærið er klárlega í bikarnum því nokkuð langt er í toppinn í deildinni. Verður ekki liðið að dragast gegn Reading í 8 liða.

 2. Sælir félagar

  Ég horfði aðeins á þennan leik og sá fyrra markið. Liverpoolstelpurnar stjórnuðu seinni hálfleik það sem ég sá frá a til ö og hefðu getað unnið stærra. Flott hjá þeim.

  Það er nú þannig

  YNWA

 3. Það væri klárlega gaman að mæta Rakel og co. í Reading, þó svo ég ímyndi mér að Durham séu hugsanlega ögn auðveldari viðureignar.

  Svo spyr maður sig hvort Liverpool þurfi ekki líka að hafa Íslending innanborðs, liðið hefur jú ekki unnið deildina öðruvísi en með íslenskan leikmann í hópnum. Bara spurning hver myndi henta liðinu best?

 4. p.s. það urðu svo stelpurnar í Aston Villa sem urðu síðasta liðið í hattinn, en leikur þeirra gegn Sheffield endaði í vítakeppni.

 5. Auðvitað þyrfti Liverpool að hafa Íslending í liðinu. Annars vinna þær ekki deildina. Eflaust margar sem henta, t.d. myndi Dagný Brynjars smellpassa þar eins og allsstaðar.

xG og Liverpool í ár.

Bayern mæta á Anfield í Meistaradeildinni