Níu Brendan Rodgers leikmenn gera næsta sumar spennandi

Liverpool er búið að gera stóra langtímasamninga við nánast alla lykilmenn liðsins og á næstu misserum er ekki ólíklegt að það verði frekar í forgangi að halda okkar bestu mönnum frekar en að halda áfram í leikmannakaupum fyrir metfé (Van Dijk og Alisson). Hvort mynduð þið t.d. vilja núna eins janúarglugga og Liverpool átti í fyrra eða þennan þar sem ekkert verður gert nema losa út leikmenn sem spila sama og ekkert? Það ætti að vera töluvert auðveldara að svara þessu núna en það var fyrir ári síðan.

Líklega hefur leikmannamarkaðurinn aldrei verið eins lítið til umræðu meðal stuðningsmanna Liverpool sem segir okkur að hópurinn er ekki mikið áhyggjuefni. Það gæti samt breyst hratt.

Liverpool er búið að spila 29 leiki í Úrvalsdeildinni og Meistaradeildinni og leikjaálagið hefur verið töluvert á nokkrum lykilmönnum liðsins. Alisson hefur spilað alla leikina og Van Dijk hefur spilað nánast alla leikina. Salah byrjaði einn deildarleik á bekknum en hefur oft farið útaf sem varamaður. Þessir þrír eru auðvitað okkar bestu menn.

Joe Gomez fer að verða mikið áhyggjuefni enda á fjórða meiðslahrjáða tímabili sínu hjá félaginu. Það skiptir litlu hvað hann er góður ef hann getur ekki spilað mikið meira en 50% af leikjum liðsins. Dejan Lovren sem endaði síðasta tímabil sem einn besti miðvörður í heimi (að eigin sögn) hefur spilað 35% af leikjum Liverpool í vetur sem er eitthvað svo voðalega dæmigert fyrir Liverpool. Joel Matip er svo í flokki með Lallana og Sturridge, maður man sjaldnast hvað er að honum og það er alltaf stutt í hann komi aftur en hann er ALLTAF meiddur.

Liverpool er með fjóra mjög góða miðverði en breiddin er allt of lítil vegna meiðslasögu þeirra allra og ljóst að skipta þarf út 1-2 af þeim fyrir áreiðanlegri leikmenn eða bæta þeim fimmta við. Van Dijk var nota bene ennþá að jafna sig á langtímameiðslum þegar hann kom til Liverpool.

Breiddin á miðjunni er hinsvegar góð og allir miðjumenn liðsins mjög fjölhæfir. Það er helst að það vanti alvöru heimsklassa leikmann í þennan hóp því að þó þeir séu allir góðir er enginn í Gerrard eða Alonso klassa. Líka hægt að segja að það er enginn í De Brynue, Silva eða Fernandinho klassa.

Fabinho hefur allt að bera til að þróast hjá Klopp í einmitt þann klassa og ferill Naby Keita áður en hann kom til Liverpool gaf til kynna að þar væri leikmaður sem hefur potential í að verða heimsklassa leikmaður, sérstaklega hjá Jurgen Klopp. Gini Wijnaldum hefur reyndar verið á pari við bestu miðjumenn í heimi rúmlega ár núna. Miðjan er samt ennþá veikasti hlekkur liðsins enda óumdeilanlega heimsklassa leikmenn í marki, vörn og sókn núna.

Gleymum heldur ekki að það var enginn af leikmönnum Klopp hjá Dortmund í heimsklassa áður en þeir fóru að vinna með honum og það tók tíma að móta þá flesta, sérstaklega miðjumennina.

Stuðningsmenn Liverpool myndu alltaf segja að Salah, Firmino og Mané sé besta sóknarlína deildarinnar og stuðningsmaður Man City (eintala) svarar væntanlega með Sane, Sterling og Aguero. Okkar hefur væntanlega vinninginn en breiddin hjá City er betri ef við berum saman Mahrez og Jesus við Shaqiri og Sturridge.

Mahrez er reyndar aðeins betri en Shaqiri á pappír og hefur verðmiðin þar hvað helst áhrif sem og fyrri afrek Mahrez. Shaqiri stenst vel allan samanburð við Mahrez það sem af er vetri.

Gabriel Jesus er hinsvegar mun betri varamaður fyrir Aguero en Daniel Sturridge er fyrir Firmino. Það að skipta Jesus inn fyrir Aguero riðlar leik City ekki neitt og m.v. hvernig Jesus er að spila núna eru þeir líklega að setja ennþá betri sóknarmann inná. Það er bara tímaspursmál hvenær hann verður númer eitt á Etihad og janvel ein af stórstjörnum alheimsfótboltans.

Það að skipta Sturridge inn fyrir Firmino krefst þess að Liverpool breyti upplegginu umtalsvert. Þar fyrir utan er Sturridge ekki nærri því jafn góður og Jesus.

Af núverandi leikmannahópi er Brewster líklega framar í framtíðarplönum (næsta tímabil) en bæði Sturridge og Origi. Hann þarf líka að koma inn með Fowler/Owen innkomu því við þurfum miklu betri varamenn sóknarlega. Það er í raun ótrúlegt að Sturridge og Origi séu ennþá hjá Liverpool miðað við hversu nákvæmlega ekki neitt Klopp treystir þeim og hversu illa þeir henta hans leikstíl.

Breiddin er meiri en sýnist

Það að lána Clyne hljómar fullkomlega galið og síðan sú afar snjalla ákvörðun var tekin hafa allir hægri bakverðir liðsins farið á sjúkralistann og varavara bakverðirnir fóru annaðhvort í bann eða líka á meiðslalistann. Með liðið í svona brutal titilbaráttu er erfitt að sykurhúða þessa ákvörðun, hún virkar algjör óþarfi.

Klopp talar hinsvegar mjög mikið um persónulega þáttinn og andrúmsloftið innan hópsins er aðalatriði. Það er ekki hægt að mæla það hversu mikil áhrif góður andi innan hópsins hefur inná vellinum en Klopp trúir klárlega á að “síðri” leikmaður með frábært hugarfar sé betri en “betri” leikmaður með slæmt hugarfar. Hann getur t.d. notað Wijnaldum og Pogba á þessu tímabili til að sanna sitt mál.

Clyne vildi fara og guð má vita hvað gekk á þessa mánuði sem hann hefur verið á meiðslalistanum. Hann hefur aðeins komið við sögu í fjórum leikjum, þar af þremur sem varamaður þannig að mögulega er það mun betra fyrir liðið að losna við hann af æfingasvæðinu úr því að hann vill fara en að hafa hann þar. Þjálfarateymi Liverpool er auðvitað mun betur í stakk búið að meta svona ákvarðanir en við stuðningsmenn sem vitum ekkert hvernig menn eru bak við tjöldin.

Það góða við Liverpool núna er að maður trúir að allar leikmannaákvarðanir eru gerðar með samþykki stjórans. Einnig ákvörðun um að kaupa ekki leikmenn.

Það skal enginn segja mér að Benitez hafi viljað selja Robbie Keane, stóru kaup sumarsins og fá ekkert í staðin með liðið í bullandi titlbaráttu við eitt besta United lið sögunnar. Peningavandræði Gillett og Hicks fóru mjög illa með okkur þar.

Klopp vill hafa lítinn og þéttann hóp og líklega verður þetta alltaf tæpt hjá honum hvað meiðsli varðar. Það fer kannski ekki vel saman að vilja tiltölulega lítin hóp en spila eins krefjandi fótbolta og Klopp fer fram á. Félagið hefur reynt að vinna á móti þessu með öflugu starfsliði.

Þetta er líka ástæðan fyrir því að Klopp er mjög hrifin af fjölhæfum leikmönnum. Allir miðjumenn Liverpool geta t.a.m. leyst nokkur mismunandi hlutverk. Þarna vinnur Klopp upp á móti lítilli breidd hvað fjölda leikmanna varðar.

Varnarlína Liverpool þegar allir okkar bestu menn eru heilir er sú besta sem við höfum haft í Úrvalsdeildinni. Babbel, Hyypia, Henchoz og Carragher voru öflugir varnarlega líka árið 2001 en þeir voru ekki með sóknarlega, sérstaklega ekki í samanburði við þetta lið.

Ef að Gomez leysir Trent af í hægri bakverði þá veikir það tvær stöður. Lovren og Matip eru blessunarlega öflugir kostir í staðin og Gomez leysir bakvörðinn vel þannig að þetta hefur heppnast hjá okkur enn sem komið er. Samt er aldrei gott að taka lykilmann eins og Gomez úr sinni bestu stöðu að mínu mati.

Sama á við ef að meiðslalistinn er svo langur að Fabinho er farinn að þurfa leysa af í hægri bakverði eða miðverði. Það veikir alveg klárlega miðvæðið hjá okkur en ég er reyndar ekki viss um að það veiki okkur svo mikið varnarlega. Fabinho gæti líklega orðið frábær miðvörður.

Liverpool hefur leitað af markverði og vinstri bakverði í ár og áratugi þannig að það kemur ekki beint á óvart að það sé töluverður munur á þeim og næstu varamönnum. Við höfum oft haft mun verri varaskeifur en Moreno og Mignolet þó ekki nokkur maður vilji fá þá inn í liðið.

Eins og staðan er núna megum við hvað minnst við því að missa Fabinho af miðsvæðinu. Hinir eru allir tiltölulega svipaðir leikmenn og leysa svipuð hlutverk. Fabinho er engu að síður bara nýfarinn að festa sig í sessi hjá Klopp. Reyndar má segja að Liverpool hafi allra síst mátt við því að missa Oxlade-Chamberlain af miðsvæðinu því hann enn frekar en Fabinho bauð upp á eitthvað töluvert fráburgðið við hina miðjumenn liðsins.

Þökk sé röð atvika má sannarlega halda því fram að hópurinn hafi verið einum manni færri allt þetta tímabil og jafnvel alveg frá því Coutinho var seldur. Oxlade-Chamberlain var kominn í toppform fremstur á miðjunni þegar hann meiddist í maí á síðasta tímabili. Hann var að fylla skarð Coutinho ágætlega en það kom líka illa í bakið á okkur í Kiev að vera án þeirra beggja. Naby Keita hefur enganvegin náð að fylla þetta skarð (ennþá) og óvíst hvort hann eigi að gera það. Adam Lallana hefur núna í nokkur ár tekið pláss í hópi Liverpool sem komið hefur gríðarlega niður á breiddinni enda vitavonlaust að ætla að treysta á hann. Liverpool væri mun betur sett með Harry Wilson á bekknum en hann. Lallana hefur kannski hæfileikana til að spila þetta hlutverk og hann hafði klárlega traust stjórans en við fáum líklega aldrei að sjá þann leikmann “aftur”.

Nabil Fekir var grátlega nælægt því að verða að veruleika en hann er nákvæmlega sú tegund af leikmanni sem Liverpool hefur vantað í hópinn allt þetta tímabil. Það jákvæða fyrir endasprettinn er að Keita gæti ennþá komið til, Ox er farinn að æfa og Lallana er m.a.s. ekki meiddur akkurat núna. Einhver af þessum í toppformi fremst á miðjunni gæti skipt sköpum.

Næsta sumar og þessi gluggi

Það er hægt að sjá fyrir sér töluvert miklar breytingar á hópi Liverpool næsta sumar þó ekki verði selt neina lykilmenn. Þetta bara hlítur að vera komið gott hjá Sturridge, Origi, Lallana, Matip, Moreno, Mignolet, Markovic, Clyne, Ings og Adam fucking Bogdan!

Þetta eru tíu leikmenn á aðalliðslaunum og flestir ef ekki allir á það góðum launum að erfitt er að losna við þá. Nokkrir eru blessunarlega að renna út á samningi en það er óneitalega spennandi tilhugsun að Edwards, Klopp og félagar fari að kaupa inn leikmenn í staðin fyrir þessa Brendan Rodgers veislu.

Þetta eru allt leikmenn sem komu undir hans stjórn nema Matip sem er ólíklegastur til að fara. Það væri hægt að kaupa 3-4 leikmenn í staðin fyrir þessa og stórbæta breiddina.

Eitthvað af þessu leysist af sjálfu sér strax næsta sumar. Markovic og Bogdan hljóta að vera renna út á samningi. Ings, Moreno, Sturridge og Origi renna allir út á samningi á þessu ári. Reyndar James Milner líka en væntanlega verður framlengt þann samning. Matip, Clyne og Lallana eru allir með samning til 2020 og væntanlega velkomið að fara fyrir lítið. Þar fyrir utan eigum við stráka eins og Kent, Grujic og Ojo sem allir færu líklega á einhvern pening verði þeir seldir. Mögulega Harry Wilson líka en hann skrifaði undir nýjan samning í sumar.

Janúar

Liverpool er alls ekkert með fullkominn hóp og hann mætti alveg við því að fá innspýtingu núna í janúar. Breiddin er ekki jafn góð og hjá Man City og meiðsli eru aðeins farin að taka toll þó vissulega hafi þetta sloppið hingað til. Blessunarlega fékk liðið t.a.m. langt frí núna því að allir fjórir fyrstu kostir í hægri bakverði hafa verið fjarverandi og helmingurinn af miðvarðahópnum. Það er ekki langt síðan 3/4 af miðvarðahópnum var fjarverandi. Þetta er nákvæmlega ástæðan fyrir því að það koma sér vel að vera ekki að spila í FA Cup núna um helgina eða deildarbikarnum í síðustu viku.

Þetta tímabil er þriðja tímabilið þar sem Liverpool gerir atlögu að titlinum og í bæði hin skiptin höfum við horft til baka á janúarmánuð sem glatað tækifæri þar sem félagið gerði bara alls ekkert allt sem í þeirra valdi stóð til að stytta biðina eftir þeim stóra. Sérstaklega þó 2008/09. Maður verður bara reiður við tilhugsunina.

Gillett og Hicks seldu Robbie Keane, stóru leikmannakaup sumarsins strax í janúar en ekkert var keypt í staðin. Gjörsamlega galið enda kom á daginn að hópurinn var of tæpur og þá sérstaklega sóknarlega. Það gleymist oft að Fernando Torres spilaði bara 24 leiki þetta tímabil og aðeins 51% af spiluðum mínútum í deildinni. Robbie Keane var þá búinn að spila 74% og oftar en ekki úr stöðu þar sem Torres var í hans stöðu.  Torres skoraði aðeins 14 mörk, Kuyt fór jafnan fram í hans fjarveru og m.a.s. David N´Gog kom við sögu í heilum 14 leikjum.

Liverpool gerði 11 jafntefli og var aðeins fjórum stigum frá því að vinna deildina. Tvö sigurmörk í ellefu leikjum frá betri varaskeifu en David fuckings N´Gog var allt sem þurfti. Sérstaklega pirrandi þar sem liðið átti fyrir £20m sóknarmann.

Dettur ykkur í hug mörg önnur dæmi þess að Úrvalsdeildarlið í titilbaráttu veiki hópinn með þessum hætti? Gleymum ekki að Gerrard spilaði aðeins 31 leik þetta tímabil en það reddaðist því Nabil El Zhar var einn af fyrstu mönnum af bekk og kom samtals 15 sinnum inná undir lok leikja.  Þið finnið slatta af þessum ellefnu jafnteflum í N´Gog og El Zhar.

Árið 2013/14 var Liverpool orðað við Konoplyanka en ekkert varð af þeim díl. Það kom kannski ekki að sök enda endasprettur Liverpool það tímabil mjög góður en breiddin var svo gott sem engin. Hefði Liverpool landað titlinum með því að kaupa einn leikmann í einhverja af varnarstöðunum? Það vantaði aðeins tvö stig uppá eftir allt saman. Þetta er btw ekki eftiráspeki, þetta var algjörlega umræðan á þessum tíma líka.

Liverpool ætlaði alltaf að kaupa Van Dijk í fyrra og hefði gert það óháð sölu á Coutinho, kostaði það okkur Meistaradeildina að selja hann í janúar? Jafn frábær og sú sala var fjárhagslega. Ef að það kostar einhversstaðar þrjú stig að lána Clyne og fá ekkert í staðin var líklega ekki þess virði að lána hann. Ef að hægt er að flýta kaupum á sóknarmanni næsta sumars um sex mánuði fyrir x hærri fjárhæð er það mjög líklega þess virði ef það skilar 2-4 fleiri stigum. Titilbaráttan er jafnan það hörð þegar Liverpool tekur þátt í henni.

Ég vil árétta að með því að setja þetta svona upp er ég ekki að segja að Liverpool sé að gera einhver galin mistök með því að gera ekkert í janúarglugganum. Leikmannakaup 2018 voru frábær og hópurinn núna ekki í nálægt því eins mikilli neyð og félagið var bæði 2009 og 2014. Það að lána Clyne er örlítið pirrandi ekki kemst ekki einu sinni á radar í samanburði við söluna á Robbie Keane.

Eins sáum við hjá Robertson, Fabinho, Keita og Chamberlain að það er ekkert sjálfgefið að ný leikmannakaup komi strax til með að styrkja hópinn.

 

13 Comments

  1. Við eigum einn leik eftir í janúar – Leicester. 19. febrúar verðum við bara búin að spila tvo leiki í febrúar – West Ham og Bournmouth. Þá spilum við við Bayern og þá er áætlað að allir leikmenn nema Ox verði orðnir heilir (Gomez samt tæpur) og vonandi enginn meiddur í viðbót.

    Þessir þrír leikir sem við eigum fram að 19. feb eru sem betur fer ekki á móti stórum spámönnum en engu að síður erfiðir leikir. Ég held að það sé ljóst að við séum í niðursveiflu tímabilsins núna. Ef við þraukum hana þá erum við í rosalega góðum málum.

    Maður bölvar því samt að eiga ekki aðeins meiri breidd.

  2. Sæl og blessuð.

    Snilldar samantekt. Á meðan varnarmenn eru í þessu ástandi og hinn ,,gíneski Joe Allen” er ekki að axla sína ábyrgð þá finnst mér full ástæða til að kanna með lán á reynslubolta sem getur kíttað í holurnar.

    Svakalega var BR mistækur og ef við erum í því stuði að finna fleiri sökudólga fyrir glötuð tækifæri undanfarin ár, þá trónir hann á toppnum, að mínu mati. Ægilegar ákvarðanir voru teknar á hans tíma. 13/14 stóð skrifað upp um alla veggi að liðið þurfti öflugri vörn. Næstu síson voru tímar glataðra tækifæra með fulla vasa fjár. Allt var í tómu tjóni með leikmannakaup. 6-1 tapið fyrir Stoke í lokaleik Gerrards undirstrikaði þá hörmung. Hann sem hefði átt að lyfta bikarnum vorið áður.

    Horfði stundarkorn á AC Milan vs. Napoli í gærkvöldi með guttanum mínum. Þar voru mættir Suso og Borini! Átti reyndar ekki von á því að sjá þá á stóra sviðinu.

  3. Flottur pistill ég persónulega myndi ekkert slá hendina á móti timo Werner það væri yfirlýsing

  4. Frábær pistill mjög sammála. Það er erfitt að kaupa rétta leikmanninn í janúar þótt við höfum gert frábær kaup í janúar áður fyrr. Mundi nýr leikmaður tryggja titillinn eða kosta okkur hann ?
    Fyrir mér veltur þetta á Gomez hversu fljótt hann kemur tilbaka og hvor hann haldist heill.

    Við þurfum að losa okkur við meiðslapésa og kaupa menn sem meiðast lítið sem ekkert og hafa lítinn hóp og fylla upp í með unga efnilega. Enda hafa Edwards og Klopp verið að kaupa leikmenn sem meiðast lítið. Við gætum losað 500 – 900 þúsund pund á viku í launakostnað í sumar og fengið 3-4 toppleikmenn en samt minkað launakostnað. Við erum vel rekinn klúbbur.

  5. Sælir félagar

    Takk fyrir þessa yfirferð Einar. Það hefur verið mín tilfinning að það vanti einn í Fekir klassa í öll svæði vallarins, vörn,miðju og sókn. Þá á ég við NÚNA. Það verða auðvitað breytingar þegar og ef meiðslalistinn hreinsast en hætt er við að aðrir fari á hann og sá listi tæmist þess vegna aldrei. Þar af leiðir að til að halda dampi út leiktíðina þarf nýja klassa leikmenn amk. í sókn og vörn. Maður vonar ennþá að Keita fari að skila því sem hann á að gera og var keyptur til. Það er beinlínis lífsnausyn.

    Hvað sölulista Einars varðar þá er ekki eftirsjá að neinum sem hann setur þar. Sá eini sem er ekki BR leikmaður Matip er meiðslapési og svo linur í loftinu að allir hans tæpu 200 sentimetrar nýtast illa og ekki neitt. Hann er ekki maður að mínu skapi þó hann sé ágætur spilari og það væri hægt að nýta hann sem 4. til 5. kost í miðverði en ekki meira en það. Það er auðvitað hægt að taka lán inn í framtíðina og kaupa 2 til 3 rándýra tilbúna leikmenn með sölu á þessum BR hóp í sumar í huga.

    Niðurstaða mín er því áhyggjur af lokakafla leiktíðarinnar ef ekkert verður keypt. Tímo Verner væri risaskilaboð og góð viðbót. En það er ekki nóg því miður. Ég hefi áhyggjur af okkar fremstu mönnum og við megum alls ekki við að neinn af okkar fremstu mönnum meiðist. Það er óviðunandi staða að geta ekki skipt neinum þeirra út fyrir jafngóðan leikmann. Og ef Virgillinn meiðist þá erum við í stöðu sem ekki er hægt að hugsa til enda. Það yrði skelfilegt.

    Það er nú þannig

    YNWA

  6. Takk fyrir þessa yfirferð Einar. Mér finnst reyndar algjöri óþarfi að bölva leikmönnum, menn geta gert það í hljóði en ekki á prenti. Sammála mörgu og nokkuð öruggt að einhverjir leikmenn leita á ný mið næsta sumar. Milner tekur sennilega eitt timabil til viðbótar og lætur svo gott heita hjá liðinu. Ef Ox kemur inn á sama krafti og hann sýndi sl vetur er hann styrkur fyrir miðjuna sem var nú ansi þunnskipuð um tíma í vetur. Ef töluvert los verður á leikmönnum í sumar, annaðhvort í lán eða seldir, er spurning hvort ekki verði að versla miðjumann og jafnvel einn varnarmann á háu kaliberi. Nokkrir yngri leikmenn geta leyst einn og einn leik eða leikhluta og einhverjir þeirra sem eru í hópnum nú um stundir. Sturridge, Lallana og Moreno hljóta að fara. Hvernig er þetta með Moreno, hann á landsleiki að baki en hefur hreinlega farið aftur.

  7. Klopp er aldrei að fara að kaupa leikmann til að stopa í göt í 2-3 leiki áður en menn koma úr meiðslum.

    Stemmning í klefa er mikilvæg og stundum er betra að hreyfa ekki við henni. Það breyttir þá engu um gæðinn á þeim sem er að koma inn. Faustino Asprilla var keyptur hjá Newcastle á meðan að þeir voru með gott forskot í deildinni og þrátt fyri að hann stóð sig vel sjálfur þá hrapaði Newcastle liðið niður en það eru líka hægt að benda á Ronny Rosenthal sem kom til okkar og raðaði inn fullt af mökum á skömmum tíma og hjálpaði okkur að vinna þann stóra 1990.

    Man City er með betri breydd en við í sambandi við gæðaleikmenn á bekknum og við getum ekki keppt við hana eins og staðan er í dag(vasar þeira eru það djúpir) lykilinn hjá okkur eru að þeir leikmenn sem eru ómissandi haldist heilir(Alisson, Djik, Robertson, Salah, Mane og Firmino).

    Það verða breyttingar á liðinu í sumar það er nokkuð ljóst en það er nógu tími að pæla í þeim, það nefnilega breyttir andrsúmsloftinu og viðhorfi til þeirra hvort að við endum í 1. eða 2.sæti þegar búið er að telja öll stigin í enda tímabilsins og væri sigurvíman það sterk ef þetta endaði vel að maður kæmist líklega ekki úr þessum sjöunda himni næstu árinn en maður hefur ekki séð það sjónarhorn síðan 2005.

    YNWA – Ég einfaldlega treysti Klopp 100% og hvort að það sé tímabært að ná í liðstyrk eða ekki læt ég hann um þá ákvörðun.

  8. Sælir félagar

    Ég er, svona vitsmunalega, sammála Sig. Einari. En það breytir því ekki að ég hefi áhyggjur af breiddinni hjá liðinu sérstaklega ef einhver af lykilmönnum liðsins meiðist. Auðvitað getur verið að menn haldist heilir og öflugir allt til loka en hitt getur líka gerst að menn meiðist og verði frá meirihluta þeirra leikja sem eftir eru. Þetta er auðvitað að hluta til tilfinningalega áhyggjur en líka að hluta til raunhæfar áhyggjur.

    Sú afstaða Sig. Einars að treysta Klopp 100% er mér líka að skapi. Ég hefi nefnt það áður í athugasemdum að það sé ekkert vit í öðru en treysta honum. Hann hefur nefnilega komið liðinu á þann stað sem það er á. Það er orðið ansi langt síðan að það var á toppi deildarinnar í svo langan tíma og á þessum tíma af leiktíðinni (ef ég man rétt). Þó við vitum að Klopp sé bara mannlegur og það getur hent að hann geri mistök þá veit hann örugglega betur en við. Því verðum við og eigum að treysta Klopparanu fram í rauðan dauðann já eða rauðan sigur!!!

    Ég hefi nú fylgst með liðinu okkar í ein 55 ár og lifað mikla dýrðardaga með því. Að vísu sá maður enga leiki en fylgdist með í útvarpi og blöðum sem var eina leiðin til að sjá og heyra hvað var að gerast. Svo kom sjónvarpið og svarthvítir vikugamlir leikir með lýsingum B. Fel. á leikjum eins og þeir væru í rauntíma. Það voru góðir tímar get ég fullyrt, amk. fyrir okkur Púllara. En þrátt fyrir alla þá sögu ég held að titill í vor verði öllum þeim titlum dýrmætari sem ég man eftir í það minnsta.

    Það er nú þannig

    YNWA

  9. Kæmi mér ekki á óvart að Klopp myndi festa kaup nú í glugganum, en aðeins á þeim forsendum að sá leikmaður félli inn í liðið eins og flís við rass að hans mati, annars engan, enda til hvers?

    YNWA

  10. Ings? Var hann ekki lànaður f. 20mills sem verður klàrað í sumar? Væntanlega var gerður lànsdíll svo liðið þyrfti ekki að mæta Ings, ef ske skyldi að hann yrði àhrifavaldur à titilsèns.

  11. Var að lesa, reyndar í slúðurdálkum, að Adrian Rabiot hefði hafnað Tottenham en vildi fara til okkar sem er bara flott. Ok slúðurdálkar, en má alveg ljúga að mér að eithað sannleiksgildi sé til í þessu. Þar spili stórt að hann vilji spila undir stjórn Klopp, hver vill það ekki, nema kjánar eins og Coutiniho, sem varla kemst á bekkinn hjá Barca og segjir sagan að samherjar vilji helst ekki senda boltan á hann. Sennilega allt sjálfstraust farið út í veður og vind. Sjáum hvað setur.

    YNWA

  12. Þó svo ég treysti Klopp þá hef ég vissulega áhyggjur af breiddinni hjá okkur sem er ekki nógu mikil. Það væri frábært að fá Rabiot núna, eða þá einhvern á láni sem væri hægt að nota til þess að stoppa götin í vörn okkar, annað eins hefur nú gerst :–)
    Maður vonar að city misstígi sig í sínum leikjum svo Liverpool nái kannski aðeins betra forskoti því við eigum erfitt prógram í febrúar.

Gullkastið – Skrautlegur sigur og Arsenal umræða

Kvennalið West Ham kemur í heimsókn