Endasprettur toppliðanna

Seinni hálfleikur er vel á veg kominn á þessu óhemju spennandi tímabili í enska boltanum. Stigasöfnun Liverpool það sem af er tímabili er eins sú alllra besta í sögunni en samt er liðið aðeins fjórum stigum á undan Man City sem gefur ekki tommu eftir. Vonandi hafa leikmenn Liverpool sterkari taugar í þetta en við stuðningsmenn því eftir því sem leikjunum fækkar eykst spennustigið. Það er hægt að horfa á svona leiki eins og gegn Crystal Palace um helgina sem morðtilraun!

Það er vonlaust að segja til um hvað gerist núna á vormánuðum og undanfarin ár eru ekkert endilega mælikvarði á hvað gerist núna í framhaldinu. Engu að síður langaði mig aðeins að skoða þróun Liverpool á þessu tímabili vs. Liverpool undanfarin fimm tímabil og bera okkar menn saman við hin toppliðin (og Leicester). Sjá hvort þar sé að finna einhver trend sem gefa okkur kannski smá tilefni til bjartsýni.

Liverpool er með 2,61 stig að meðaltali í leik það sem af er þessu tímabili sem er sjónarmun minna en Man City var með á síðasta tímabili sem er fullkomlega galið. Yfirstrikað með grænu eru liðin sem unnu deildina það tímabilið og má þarna t.d. sjá að stigasöfnun Chelsea var mjög góð bæði árin sem þeir unnu á meðan Leicester hitti á ævintýralega slappt tímabil hjá öllum toppliðunum.

Undanfarin fimm tímabil áður en núverandi tímabil hófst var Liverpool fimmta besta lið Englands að meðaltali en alls ekki langt frá United, Tottenham og Arsenal.

Það sem af er þessu tímabili er stigasöfnun Liverpool að meðaltali 0,73 stigum betri en ef við tökum meðaltal af stigasöfnun tímabilin á undan. Þessi stigasöfnun núna er 0,40 stigum betri að meðaltali í leik en hún var tímabilið 2013/14 sem er okkar besta tímabil í þessum tímaramma.

Ef við heimfærum þetta upp á stigasöfnun kemur það svona út:

Öll toppliðin (plús Leicester) eru með betri stigasöfnun núna en meðaltals stigasöfnun undanfarinna ára en aðeins Liverpool er að bæta stigasöfnun m.v. sitt besta tímabil.

Það kemur líklega engum á óvart að það sem helst stingur í stúf þegar maður horfir á þetta svona er hversu galið Meistaratímabil Leicester var. Þeir voru nýliðar árið áður og svo gott sem fallnir á þessum árstíma árið 2015 neðstir í deildinni.

Stigasöfnun eftir 23 umferðir vs stigasöfnun í síðustu 15 umferðunum.

Það kemur væntanlega ekki mikið á óvart að stigasöfnun Liverpool var öllu verri seinni hluta tímabilsins enda félagið með flugeldasýningu í Meistaradeildinni á sama tíma. Hópurinn var ekki nógu stór fyrir tvær keppnir. Það sem við erum samt að sjá núna er rosalega mikil bæting og kannski viðbúið að liðið gefi eitthvað eftir á lokakaflanum.

Man City var með 2,7 stig að meðaltali í leik eftir 23 umferðir í fyrra eða 62 stig. Þeir gáfu rétt eins og Liverpool eftir á lokakaflanum. Auðvitað gæti spilað þar inní að þeir unnu deildina löngu áður en mótinu lauk. Það er samt áhugavert að þeir töpuðu aðeins tveimur leikjum á síðasta tímabili, einum færri en liðið hefur nú þegar tapað í vetur.

Til að sjá betur hversu mikilvæt hvert einasta stig er þá er hægt að skoða hver stigasöfnunin væri heilt yfir tímabilið m.v. stigasöfnun fyrstu 23 umferðirnar vs stigasöfnun seinustu 15 umferðirnar.

Fyrir utan síðasta tímabil sem á sér eðlilegar skýringar hefur Liverpool annaðhvort nánast staðið í stað eða bætt enn frekar í síðustu fimmtán umferðirnar. Þarna klippum við reyndar út nokkra leiki í janúar sem hjálpar væntanlega mikið við að laga þessa tölfræði enda janúar mánudagur dagatalsins.

Breyting stigalega yfir heilt tímabil væri því svona:

Liverpool og City gáfu svipað mikið eftir á lokakaflanum, Chelsea hrundi fram af kletti á meðan Tottenham átti sterkan endasprett. Þeir voru ekki bara sprækir í deildinni heldur var aðdáunarvert hvernig þeim tókst að tapa fyrir Juventus í Meistaradeildinni eftir að hafa tætt þá í sig á löngum kafla í því einvígi. Endasprettur Tottenham á þar síðasta tímabili var engu að síður töluvert betri.

Þetta er samt aðeins villandi enda þarna miðað við stigasöfnun yfir heilt tímabil. Raunveruleg breyting á stigasöfnun í fyrstu 23 umferðrunum vs síðstu 15 umferðunum er svona:

Með því að hugsa þetta svona má segja að síðustu 15 umferðirnar á síðasta tímabili þegar Liverpool var með fókusinn á Meistaradeildina hafi kostað okkur 2,79 stig. Þarna er auðvitað ekki tekið inn í myndina að líklega hefði Liverpool bætt stigasöfnunina ennfrekar á lokakaflanum frekar en að halda sig á pari við stigasöfnun í fyrstu 23 umferðunum.

Liverpool 2013/14 vs Liverpool 2018/19

Þessar töflur sýna okkur einnig að endaspretturinn 2013/14 var frábær, mun betri en fyrri hluti tímabilsins og því verulega ósanngjarnt að tala um að félagið hafi tapað titlinum í stökum leik gegn Chelsea eða Crystal Palace það tímabil. Liverpool var með 2,53 stig að meðaltali í leik í þessum 15 lokaleikjum eða 38 stig af 45 mögulegum. Eitt tap og tvö jafntefli. Hinsvegar tapaði liðið fimm leikjum og gerði fjögur jafntefli í fyrstu 23 umferðunum og það var mun frekar það sem kostaði á endasprettinum enda svigrúmið ekkert.

Risastór munur á liðinu 2013/14 og núna 2018/19 er auðvitað varnarleikurinn á meðan miðja og sókn eru svipað solid og breiddin mun betri. Við fáum hroll við tilhugsunina af fleiri svona 4-3 leikjum eins og við horfðum á um síðustu helgi á meðan lið Brendan Rodgers 2013/14 byggði titlbaráttu sína á þannig leikjum.

Varnarleikurinn var byggður rétt eins og Landeyjarhöfn á sandi, Martin Skrtel spilaði 36 leiki á meðan Toure, Sakho og Agger skiptu milli sín 15-17 leikjum hver við hliðina á honum og stöðugleikinn var í samræmi við það. Glen Johnson spilaði 74% leikjanna í hægri bakverði á meðan Jon Flanagan, Aly Cissokho og Jose Enrique sáu til þess að það væri a.m.k. jafnt í liðum (og varla það). Til að skýla vörninni var 34 ára gamall Steven Gerrard seinni hluta mótsins og fyrir aftan allt þetta var Simon F****g Mignolet. Hvernig þetta lið komst svona nálægt titlinum er svipað magnað og að Leicester hafi unnið hann.

Markatalan eftir 23 umferðir var 57-28 en er núna 54-13. Liverpool er með 14 stigum meira núna en 2013/14 liðið var með en gleymum ekki að Suarez og félagar áttu geggjaðan endasprett og voru bara að spila í einni keppni.

Að bera saman Alisson og Mignolet er svipað og að bera saman gæðamuninn á Thomas Brolin i núverandi ástandi og Mo Salah (ekki vanmeta Brolin samt). Fyrir Martin Skrtel höfum við Van Dijk og fyrir Ripp, Rapp og Rupp 2013/14 höfum við núna Gomez, Lovren og Matip sem því miður virðast svipað mikið meiddir og bræðurnir frá Andabæ voru.

Alberto Moreno er eins og Ashely Cole í samanburði við vinstri bakvarðaflóruna 2013/14 og hann er bara varaskeifa í algjörri neyð fyrir Andy Robertson sem er þá eins og Paolo Maldini í samanburði. Liverpool var svo að lána manninn sem kom í stað Glen Johnson, svo mikið betri en Alexander-Arnold.

Eini gallinn er að andstæðingurinn er ennþá sá sami nema bara miklu betri en 2013/14.

Man City

Man City gaf ekki mikið eftir síðasta vetur og jafnan ættu stærri liðin að vera sterkari eftir því sem liður á tímabilið enda með stærri og sterkari hópa. Mögulega er ekkert sem fær stoppað þetta Man City lið og þeir vinna rest. Það mun mjög líklega duga þeim til sigurs í deildinni. Þeir eru hinsvegar ennþá í báðum bikarkeppnum og eiga eftir að spila þrjá leiki núna áður en Liverpool á næst leik.

Mjög líklega bætast a.m.k. tveir bikarleikir við það til viðbótar og eins er alveg ljóst að félagið ætlar sér ekki bara lengra í Meistaradeildinni heldur en í fyrra, þeir ætla sér alla leið.

Vonandi kemur þetta leikjaálag þeirra eitthvað niður á þeim í deildinni því eins og þessar töflur sýna munar ótrúlega mikið um hver þrjú stig í svona harðri toppbaráttu.

Það er ekki beint hughreystandi að bera þá leiki sem Man City á eftir í vetur saman við sömu eða sambærilegar viðureignir á síðasta tímabili. Þeir unnu þrettán af þeim og gerðu jafntefli í tveimur.

Það er samt ekki þar með sagt að þeir endurtaki leikinn núna og þessir leikir voru ekkert í þessari röð á síðasta tímabili. Eins hafa þeir það sem af er þessu tímabili tapað 11 stigum í leikjum sem þeir unnu síðasta vetur en unnið á átta stig í öðrum leikjum. Verra er að þeir eru með aðeins þremur stigum minna núna en í sömu eða sambærilegum viðureignum á síðasta tímabili, tímabili þar sem þeir náðu 100 stigum!!! Betra er að þeir hafa skorað fimm mörkum minna og fengið þremur mörkum meira á sig.

Líkega þarf ekki 100 stig til að vinna deildina í vetur en ef City ætlar að jafna eða bæta stigaskor sitt mega þeir ekki misstíga sig meira í vetur.

Liverpool

Ef að glasið er hálffullt má segja að Liverpool hafi mun meira svigrúm til að bæta stigasöfnun síðasta tímabils í þessum fimmtán umferðum sem eftir eru. Ef að glasið er hálftómt þá er leikjaprógramm Liverpool mun erfiðara því að Liverpool fékk aðeins 28 stig af 45 í boði í sömu eða sambærilegum leikjum á síðasta tímabili.

Endurtekning á því myndi gera þetta að 88 stiga tímabili hjá okkar mönnum sem er það besta sem Liverpool hefur náð í Úrvalsdeildinni. Við værum þannig að tala um sigasöfnun upp á 1,87 stig að meðaltali í leik síðustu fimmtán umferðirnar sem er vissulega það sama og liðið gerði innan sama tímaramma síðasta vetur. Þetta væri hinsvegar hrap upp á 0,74 stig í leik miðað við stigasöfnun (2,61) það sem af er þessu tímabili.

Liverpool er líka búið að fara á erfiða útivelli og spila megnið af stórleiknum tímabilsins. Old Trafford og Goodison Park eru eftir og koma þeir leikir ofan í Meistaradeildarleikina gegn Bayern en það er gott að vera búnir með Etihad, Emirates, Stamford og Wembley.

Stigasöfnun það sem af er vetri upp á 2,61 stig myndi gefa okkur 99 stig í lok tímabilsins. Liverpool er nú þegar með 15 stigum meira úr sömu eða sambærilegum viðureignum það sem af er vetri eða 25% og haldi sú þróun áfram mætti vænta 2,34 stiga að meðaltali úr síðustu fimmtán umferðunum eða 35 stiga. Ef að 95 stig duga ekki til að vinna mótið þá bara fair play Man City (fyrir utan FFP svindlið og Olíuauðlindasjóðinn augljóslega).

Niðurstaða

Ég hef ekki hugmynd, hver og einn túlkar þetta að vild. Vonandi er þetta ekki ruglingslegt hjá mér en það er ljóst að sama hvernig á þetta er litið er staðan vænleg hjá okkar mönnum í dag en spennan og pressan jafnframt að magnast með hverjum leik. Við grátum ennþá tapið á Etihad um daginn enda þar dauðafæri að komast í betri stöðu. Vonandi verður Liverpool bara á undan að ná sjö stiga forskoti frekar en að City nái að minna forskotið enn frekar. Crystal Palace sýndi hvað þessi deild er erfið en þeir voru svosem búnir að sýna það ennþá betur á Etihad um jólin.

Það lið sem var fyrst til að ná 60 stigum hefur alltaf unnið deildina undanfarin ár en auðvitað þurfti munurinn að vera sá minnst sem verið hefur á þessu tímabili…

16 Comments

 1. Takk kærlega fyrir þessa góðu samantekt. Góð staða í augnablikinu gefur samt ekkert færi á að slaka á. Reyndar er það góða að 60 stig verða ekki tekin af liðinu. Samanburður við hið frábæra tímabil 13-14 verulega jákvætt. Liverpool hefði reyndar unnið það tímabil léttilega með einhverjum betri en þessum miðvörðum sem við vorum með það tímabil. Gerrard sem reyndi að verja vörnina var ekki lélegri en það að hann er valinn í lið ársins eftir það tímabil. Reyndar segi ég, ef við erum með betra lið núna en 13-14 þá er liðið okkar gott. Sem það er vissulega og miklu betra varnarlega.
  Næstu leikir geta algjörlega skipt sköpum. Síðan kemur CL með aukaálagi fram til vors enda vonandi 7 leikir þar eftir-+15 leikir í deild. Mikið mæðir því á Klopp næstu vikurnar. Ef litið er á prógrammið (gegn efstu liðum) er Liverpool búið með MC og Arsenal í seinni umferð en MC bara búið með Liverpool. Verst finnst mér að eiga ekki MC eftir ma til að halda þeim á mottunni.

 2. Svo að maður verji aðeins varnarlínu og markmann 2013/14 liðsins þá var leikstíll liðsins á því tímabill bara nánast allir í sókn og varnarlínan lenti mjög oft í því í hverjum leik að vera í undirtölu að verjast. Skrtel átti mjög gott tímabil í vörn Liverpool þetta tímabil svo að það sé alveg á hreinu. Mignolet virkaði líka vel nothæfur það tímabil.

  Liðið okkar í dag er með miklu betra jafnvægi milli varnar og sóknar.

 3. Liðið fékk á sig 50 mörk sem er galið fyrir næstbesta lið deildarinnar og Gerrard var réttilega í liði ársins enda frábær þetta tímabil. Það var samt ekki fyrir varnarleik sem hann fékk þá viðurkenningu.

  Skrtel átti gott mót, skoraði slatta og var eini stöðugi varnarmaður liðsins hvað leiki varðar. Van Dijk er engu að síður stjarnfræðilegt upgrarde á þessu tímabili.

  Auðvitað er öllum varnarmönnum liðsins einhver vorkun í því hvernig Rodgers lagði leikina upp þetta tímabil, en með því að skoða hvaða leikmenn hann hafði held ég að hann hafði hreinlega ekki getað gert mikið betur með þennan hóp þetta tímabil.

  Agger og Sakho voru líklega bestu leikmenn varnarlínunnar og mögulega hefði það dugað til að landa titlinum ef annarhvor þeirra hefði náð jafn mörgum leikjum og Skrtel náði. Ef og hefði…

 4. Sæl og blessuð.

  Þvílík samantekt sem mætir manni á venjubundinni heimsókn hingað inn. Takk fyrir mig. Var fullur bjartsýni í upphafi tímabilsins og sá ekkert annað í kortunum en að við yrðum efst að vori, City í öðru sæti og svo spáði ég því að Lundúnarliðin myndu skipta með sér næstu sætum. Jamm og setti West Ham og Fulham í þann flokk!

  Fyrst þessi rúmi sentimeter féll ekki með okkur í leiknum gegn City þá losna ég ekki við þann beyg að eitthvað fari úrskeiðis í þessum seinni hálfleik mótsins og að þeir bláleitu sigri. Það er þetta krús-kontról sem fylgir sigursælum liðum. Hvað sem verður, þá er ævintýralega gaman að njóta þess að vera uppi á tindinum í allan þennan tíma og stórbrotið afrek hjá okkar mönnum að hala inn öllum þessum stigum.

  Það má síðan lengi hugleiða það glataða tækifæri sem 13/14 tímabilið var. Og í raun líka næsta síson þegar BR valsaði inn á leikmannamarkaðinn með fullar hendur fjár en datt ekkert betra í hug en að kaupa Andy Carrol eftirlíkingar – sem hann hafði ári áður (illu heilli) losað sig við á tombóluverði.

  Mögulega hefði 13/14 liðið getað spilað svipaðan bolta og Chelsea gerði síðar undir stjórn Contes með þrjá miðverði og Moses (sem þá var á láni) sem fúllbakk. BR fann jú lítil not fyrir þann góða dreng, ekki frekar en Aspas ofl. En í því kerfi hefði þurft öflugri miðvörð og DM sem Gerrardinn var auðvitað ekki af náttúrunnar hendi. Hann hefði sannarlega mátt spara aurana sem ,,hinn velski Xavi” kostaði og Sakho stóð auðvitað ekki heldur undir verðmiðanum.

  Einmitt – ,,Ef og hefði”…

 5. GEGGJUÐ SAMANTEKT.

  og ja stressið eykst bara hja manni með hverjum leiknum og ef þetta verður afram svona jafnt og jafnvel enn jafnara þegar lyður a vorið er bara fullkomlega liklegt að eg muni missa af þvi að sja okkar menn lyfta bikarnum þvi mer finnst mjog hæpið að eg verði ekki dauður ur hjartaáfalli. Maður er nu þegar standandi og labbandi um gólfin 90 minutur i hverjum einasta leik, eg hef ekki sest i sófann i eina minutu i vetur yfir liverpool leikjum enda hver einasti leikur jafn mikilvægur og verða bara meira og meira mikilvægir en þetta stress og adrenalin elskar maður og nytur i botn og auðvitað vill maður frekar vera að farast ur stressi yfir hverjum einasta leik heldur en að vera nokkuð solid með 4 sætið og að litlu að keppa. Allavega ljost að framundan er ekkert nema meira og meira gaman og eg ætla trua þvi að við vinnum baða storu titlana i vor og ekkert rugl 🙂

 6. Sælir félagar

  Ég vil þakk Einari fyroir þessa samantekt. Það er gaman að henni en ég (eins og Einar sjálfur) hefi ekki skímu um til hvaða niðurstöðu hún leiðir. Ég veit það eitt sem kemur fram einhverstaðar hér að ofan að allir leikir sem eftir eru í deildinni eru úslitaleikir. En það vissi maður svo sem fyrir.

  Það er nú þannig

  YNWA

 7. Flott samantekt og gaman að skoða þetta.

  En er það rétt að liðið er í Dubai. Það er svoldið einkennilegt að því það er ekkert fjallað um það neinstaðar, ekki neinar myndir eða slíkt á heimasíðunni.

 8. Það ringdi síðasta vor, vitum ekkert um næsta vor. Á við, að eithvað sem gerðist fyrir aftan bak heimfærist ekket sjálfkrafa til nútímans, hvað svo sem töflur sína. Staðreyndin er þessi, bara köld. Við erum í efsta sæti með 4 stig á næsta lið, náum við að halda því? Ef svo, þá verðum við meistarar, megum auk þess tapa einum leik. VvD hafði held ég spilað allar mínútur fram að síðasta leik, sá hlítur að hafa verið orðin lúinn, nú koma menn vel hvíldir til leiks. Ef andinn er á réttum stað. þá hef ég engar áhyggjur afokkarstrákum.

  YNWA

 9. Frábær samantekt.

  Ég stressast samt upp við það að við séum að tala um lokasprett þegar 15 leikir eru eftir(45 stig).
  Fyrir mér er endasprettur þegar liðið er komið í 30 leiki en núna erum við búnir með 23 leiki af 38 og er nóg eftir.

 10. Hæ öll,

  Fulham – Liverpool 16. mars.
  Einhver með góð ráð um að redda sér miðum?

 11. Vá Tomas Brolin ! Ha ha frábært þurfti að Googla hann til að rifja upp.
  Enn og aftur við erum ofdekraðir af því við höldum með LFC svo mikið er víst, frábær samantekt.

Liverpool 4-3 Crystal Palace

Gullkastið – Skrautlegur sigur og Arsenal umræða