Kvennaliðið heimsækir Yeovil

Núna á eftir hefst næsti leikur kvennaliðsins, en þá munu stelpurnar okkar heimsækja Yeovil í deildinni.

Eins og komið hefur fram hefur gengi liðsins ekki verið nógu gott upp á síðkastið, og liðið er nú í 8. sæti deildarinnar af 11 liðum. Nánar tiltekið, þá er staðan svona:

Hluti af ástæðunni eru meiðsli sem hafa verið að hrjá leikmenn. Þannig voru t.d. bara fjórir leikmenn á bekknum í síðasta leik. Þessari meiðslahrinu er ekki lokið, Rinsola Babajide er t.d. ennþá frá, og í dag vantar varamarkvörð á bekkinn.

En svona er liðinu stillt upp í dag:

Preuss

S.Murray – Bradley-Auckland – Matthews – Robe

C.Murray – Coombs – Rodgers

Clarke – Sweetman-Kirk – Daniels

Bekkur: Linnett, Little, Jhamat, Roberts, Fahey

Yasmine Matthews er sem betur fer komin til baka og byrjar í vörninni. Ashley Hodson byrjaði að æfa aftur í vikunni eftir meiðsli, en er greinilega ekki komin nógu langt til að vera í liðinu. Jhamat og Roberts eru báðar nýkomnar úr unglingaliðinu, Jhamat kom inná í fyrsta skipti fyrir aðalliðið í síðasta leik, og Roberts átti sína fyrstu innkomu í desember.

Undirrituðum er ekki kunnugt um að leikurinn sé sýndur einhversstaðar á netinu, en ef slík útsending finnst verður því deilt í athugasemdum.

Við uppfærum svo færsluna með úrslitum að leik loknum.


Rétt eins og fyrri leik liðanna lauk með marki í uppbótartíma (frá Jesse Clarke í þeim leik), þá lauk leiknum með marki frá Courtney Sweetman-Kirk þegar 2 mínútur voru komnar inn í uppbótartíma. Okkar stúlkur hirtu því stigin þrjú með því að sigra 1-2.

Liðið er vissulega áfram í 8. sæti, nú með 13 stig, en aðeins 3 stigum frá West Ham sem tapaði gegn City 1-3 og eru því áfram með 16 stig. Bristol unnu hins vegar góðan útisigur á liði Birmingham og fóru því upp í 18 stig. Ef ég man rétt er næsti leikur einmitt á móti West Ham, þar verður því algjör 6 stiga leikur. Á toppnum urðu svo þau tíðindi að Arsenal tapaði sínum fyrsta leik, á heimavelli gegn Chelsea, þannig að City náði að skjótast upp í fyrsta sætið. Arsenal eiga þó leik til góða og eru með mun betra markahlutfall.

9 Comments

Leave a Reply
 1. 1
  hjalti þ

  Kærar þakkir til ykkar stjórnenda KOP.is að flytja fréttir af kvennaliðinu. Gaman að fylgjast með öllu Liverpool tengdu.
  Efast ekki augnablik að 3 stig koma í dag. Eru þessi meiðsli í herbúðum Liverpool fólks ekki grunsamlega mikil?

  (14)
 2. 2
  Daníel Sigurgeirsson

  Ég hef ekki séð neina tölfræði varðandi meiðsli kvennaliðsins, eða hvort okkar stelpur séu að meiðast meira en hjá öðrum liðum. Hvað veldur í þessu tilfelli skal ég ekki segja um. Mögulega er Vicky að keyra þær út á æfingasvæðinu, þó ég svosem efist um það.

  (2)
 3. 3
  Daníel Sigurgeirsson

  Liverpool stelpurnar komnar yfir: Yana Daniels var felld í teignum, Courtney Sweetman-Kirk tók vítið og skoraði.

  (2)
 4. 4
  Hörður Ingi

  Jæja, þetta er skyldusigur! Verður að byrja einhvers staðar að saxa á Bristol. Er það rétt skilið hjá mér að það falli aðeins eitt lið?

  (0)
 5. 5
  Daníel Sigurgeirsson

  Mér finnst það mjög líklegt, en get þó ekki staðfest það. Held það hljóti að vera óþægilegt til lengri tíma að hafa oddatölufjölda liða í deildinni. Á Wikipedia (https://en.wikipedia.org/wiki/FA_Women%27s_Super_League) er svosem bara talað um að það eigi að vera á bilinu 8 – 14 lið í deildinni, en ekkert fullyrt um hve mörg þau verða á næsta tímabili.

  (1)
 6. 6
  Daníel Sigurgeirsson

  Yeovil stelpur jöfnuðu, 5 mínútum eftir að síðari hálfleikur hófst.

  (1)
 7. 7
  Lúðvík Sverriz

  Sæl og blessuð.

  Takk fyrir þetta. Ekkert nema sjálfsagt að birta fregnir af kvinnunum.

  Deyja fyrir klúbbinn.

  kvLS

  ps má Keita spila með þeim?

  (2)
 8. 8
  Hörður Ingi

  Flott að vinna þennan leik! Nú er bara að tengja saman sigra og fikra sig upp töfluna!

  (0)
 9. 9
  Daníel

  Það er komin samantekt frá leiknum á síðu kvennadeildarinnar á Facebook:

  https://www.facebook.com/FAWSL/videos/1889903094471043/

  (4)

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Til að bæta við myndum í athugasemd smelltu þá hérna.