Brighton 0-1 Liverpool

Í dag var mikilvægur leikur fyrir Liverpool sem leitast nú eftir því að byggja aftur upp stórt forskot á Man City og Tottenham í titilbaráttunni. Eftir góðan 1-0 sigur á útivelli gegn Brighton er Liverpool nú með sjö stiga forskot á Man City og níu stig á Tottenham sem eiga leik inni seinna um helgina og á mánudag.

Liverpool vann leikinn eins sannfærandi og 1-0 sigur getur farið fannst mér. Brighton náðu ekki að skapa sér nein alvöru færi, Liverpool hélt boltanum vel og vann hann yfirleitt mjög snemma til baka þegar Brighton var með hann og Liverpool fékk ágætis tækifæri á að bæta við mörkum sem duttu ekki inn. Dominerandi frammistaða hjá Liverpool og Brighton áttu ekki breik.

Eftir tapið gegn Man City var aftur komin smá pressa á Liverpool sem voru “bara” fjórum stigum fyrir ofan liðið í öðru sætinu og því mikilvægt að ná að snúa blaðinu við og byrja aftur að vinna leiki því svigrúmið til mistaka er ekki mikið.

Fyrsta tækifærið til að komast aftur á beinu brautina var í dag þegar liðið mætti Brighton á útivelli, þar sem þeir hafa verið nokkuð sterkir og höfðu aldrei mistekist að skora þar í deildinni á leiktíðinni. Þeir voru eitt þeirra liða sem Liverpool hefur átt í hvað mestum vandræðum með í vetur og stóðu þeir í Liverpool á heimavelli snemma á leiktíðinni.

Klopp kallaði aftur til lykilmanna sinna sem flestir voru hvíldir gegn Wolves í bikarnum. Matip var mættur á varamannabekkinn og verður eflaust klár í leikinn um næstu helgi en Fabinho stillti sér upp í miðverði við hlið Virgil van Dijk.

Firmino og Shaqiri fengu fín tækifæri til að koma Liverpool yfir í fyrri hálfleik en það tókst ekki. Firmino náði ekki að komast í mjög flotta fyrirgjöf Andy Robertson og Shaqiri átti skalla rétt framhjá. Já þið lásuð rétt, Shaqiri átti skalla!

Það var svo á 50.mínútu að Liverpool braut ísinn og skoraði Mo Salah sigurmarkið úr vítaspyrnu sem hann vann sjálfur. Hann lék með boltann inn á teig Brighton en Pascal Gross taldi það vera góða hugmynd að hanga aftan á bakinu hjá Salah og kippa honum niður. Réttilega dæmd vítaspyrna sem Salah skoraði örugglega úr og gerði sitt 14.deildarmark á leiktíðinni.

Wijnaldum átti fínt skot, Salah skaut framhjá úr ansi góðu færi og Firmino átti fínt skot sem var varið. Liverpool fékk sín tækifæri til að drepa niður allar þær litlu vonir sem Brighton átti til að koma sér inn í leikinn og fá eitthvað fyrir sinn snúð en það tókst ekki sem kom þó ekki að sök og Liverpool sá leikinn nokkuð auðveldlega út.

Bestu menn liðsins
Þetta var að mér fannst ekki leikur þar sem einhver einn stóð sérstaklega upp úr yfir aðra en mér fannst nokkrir eiga góða leiki. Robertson var enn og aftur frábær í vinstri bakverðinum að mér fannst. Salah var örlagavaldurinn í þessum leik og mér fannst Firmino ansi líflegur í dag en heilt yfir voru frekar þungar snertingarnar hjá framherjunum okkar.

Virgil van Dijk var virkilega flottur eins og alltaf og Fabinho var flottur við hlið hans í vörninni. Hann átti til dæmis góða block þegar hann náði að henda sér fyrir skot leikmanns Brighton sem var í þokkalegri stöðu.

Held að maður leiksins hafi þó verið Jordan Henderson sem mér fannst virkilega flottur í dag á miðjunni. Hann var mikið á boltanum og gerði vel en hann var þó að mestu frábær í varnarvinnuni í dag og fannst mér hann vinna nær allt sem kom nálægt honum hvort sem það var á jörðu eða í lofti.

Vondur dagur
Færanýtingin. Það er líklega það eina sem ég get tekið eitthvað sérstaklega út sem eitthvað sem var ekki nógu gott í dag. Það var ólíklegt að Liverpool myndi stúta þessum leik og skora 5-6 mörk á Brighton sem eru mjög þéttir og gott lið, það var þó klárlega tækifæri til að bæta við í sarpinn og gera út um leikinn með einu eða tveimur mörkum í viðbót. Svo átti Keita ekki góða innkomu síðustu mínútur leiksins og setti liðsfélaga sína undir smá pressu í restina.

Umræðan
Nú verður góð pása fram að næsta leik sem er heimaleikur gegn Crystal Palace næstu helgi, Liverpool mun fá góða pásu á milli leikja eitthvað fram í miðjan febrúar sem Klopp hefur sagt að sé mjög gott fyrir sig og sitt lið sem hefur því góðan tíma til undirbúnings fyrir þessa leiki. Það getur vonandi verið ákveðið vopn fyrir Liverpool í harðri baráttu á toppnum.

Liverpool heldur áfram að vera dominerandi í leikjum sem þessum og gefa “lakari” mótherjum sínum í deildinni og það er gott að sjá. Mikilvægi leiksins í dag var kannski ekki bara að næla í þessi þrjú stig heldur koma líka með ákveðið statement: “Það eru bara örfá lið í heiminum og deildinni sem munu geta unnið okkur og þau munu þurfa að hafa fyrir því, sértu ekki í þeim klassa þá áttu ekki séns”. Að halda aftur hreinu, drepa niður alla styrkleika Brighton og vinna þá örugglega eru góð skilaboð að senda til liða eins og Palace, West Ham og Leicester sem við mætum á næstu vikum.

Pressan er nú komin yfir til Man City og Tottenham. Liverpool gerði sitt í dag og eru komin með sín þrjú stig á töfluna, þau mega því ekki við því að misstíga sig seinna í umferðinni. Liverpool mun svo spila á undan þessum liðum aftur um næstu helgi og geta sett pressuna aftur yfir á þau með sigri.

Þetta er í höndum Liverpool og mjög flott að sjá liðið halda dampi þrátt fyrir svekkjandi tap gegn Man City um daginn.

40 Comments

  1. Auðvitað var ég bara að grínast þegar ég sagði að leikurinn færi 1 – 3 og svo sagði ég 1 – 5. Auðvita vissi ég að leikurinn færi 0 – 1. Sem og gerðist auðvita.

    Mikið er gaman. YNWA

  2. Fjúfff nauðsynlegt að klára svona leiki þótt það hafi verið 1-0.Er að elska þessa vörn sem liverpool er með þessa daga Van Dijk og Robertson eru brilliant.

  3. Frábær 3 stig. Það virtist enginn orka fara í þennan leik þannig vel af sér vikið að labba inn í klefa með 3 stig. Ljótur sigur og leiðinlegur leikur en mér er svosem sama. Þetta var stærsta prófraunin í þriggja leikja hrinu sem eftir var í janúar. Vikuhvíld í heimaleik gegn Palace og svo fáum við 10 daga hvíld í næsta heimaleik gegn Leicster. Frábært að geta safnað orku og sleppa við ferðalög út janúar fyrir erfiða lokamánuði. Til að mynda eiga City erfiðar bikarleik gegn Burnley og þurfa svo að ferðast norður til Newcastle tvem dögum seinna. Vonum að þeir misstíga sig í deildinni í næstu þrem leikjum en þeir byrja á Arsenal og Chelsea í febrúar.

    Fabinho er að stíga heldur betur upp. Dijk alltaf sami kletturinn. Gini og Hendo héldu vel en voru þurrir sóknarlega en verstu menn vallarnis voru þrír fremstu. Þeir stíga upp í næstu leikjum, ég er sannfærður um það.

  4. svo gott að ná í fyrstu 3 stigin á þessu ári og það á erfiðum útivelli

  5. Mjög erfiður útivöllur þar sem Brighton skorar ekki í fyrsta skipti í 10 mánuði! Ekki hægt að kvarta yfir spilamennskunn í svona leikjum meðan við vinnum.

    Hafsentarnir flottir í dag og Salah að skila 3 stigum hús.

    Ætla aðeins að tuða yfir Keita að geta ekki gert neitt að viti í þessum fáu skiptum sem kom við boltann. Sérstaklega þegar hann missti boltann í lokinn. Hann verður að fara að stíga upp og hætta að reyna alltaf að gera eitthvað flókið. Pass and play.

    3 stig YNWA.

  6. Þetta var naumur 1-0 stórsigur en 3 stig er það eina sem skiptir máli. Hversu oft hefur maður séð andstæðinga liverpool ná í svona sigra í toppbaráttuni og er gaman að sjá að við getum líka náð í svona sangjarna en tæpa sigra.

    YNWA – næst á dagskrá heimaleikur gegn Leicester og svo ætlar Klopp með strákana í smá sól fyrst að liðið datt úr FACUÐ

  7. Sæl og blessuð.

    Tæpara mátti það ekki vera og þetta var flott einstaklingsframtak hjá Salah að fiska þetta víti. Sá fyrir mér að þeir myndu jafna þegar hinn sami Salah skaut framhjá frá markteig. En þeir voru sjálfum sér verstir – brætonar – og voru líklega úrvinda á líkama og sálu eftir að hafa verið ,,el puerco” meira og minna allan leikinn. Voru með, held ég 10-15% pósessjón – en þar fyrir utan á æðisgengnum hlaupum fram og aftur völlinn að elta þessa reitabolta.

    Vörnin var fín og miðjan að sama skapi. Fyrir ykkur Hendóóáhangendur þá átti kauði fínustu sendingar á mistæka framlínumenn. Mané heldur áfram að taka furðulegar ákvarðanir en auðvitað er maður ekkert að kvarta.

    Þrjú stig í hús? tékk.
    Allir heilir? tékk.
    Pressa á City? tékk.
    Styttist í fullmannaða vörn? tékk.
    Fáum við nýja fætur í janúar? ___

  8. Frábær leikur og þetta er farið að minna mig á Leicester tímabilið, með hverjum leiknum fer maður að trúa meira og meira á hið ótrúlega. Það finnst eflaust mörgum ekki hægt að bera þetta saman en fyrir mér væri þetta álíka ótrúlegt. Man City á að heita besta lið Englands og þó víða væri leitað.

    Fannst liðið spila vel í dag og gefa fá færi. Halda hreinu var flott og augljóslega nauðsinlegt. Salah minn maður leiksins.

    Áfram Liverpool og áfram Klopp!

  9. Sælir félagar
    Liverpool náði sér í 3 stig á einhverjum erfiðasta útivelli deildarinnar. Það má segja að enginn útivöllur sé erfiðari nema hjá þeim 6 efstu og þar er Liverpool meðtalið. Þar sem liðið okkar getur ekki spilað á útivelli við sjálft sig mun þetta vera 6. Erfiðasti útivöllur á Englandi. En hvað um það Mo Salah sem er þyngdar sinnar virði í gulli kláraði þennan leik fyrir okkur sem lengi leit út fyrir að enda 0 – 0.

    Brighton lagði upp með að halda stiginu og lagði öllum strætisvögnum bæjarins inn í boxinu. En við eigum Salah og hann kláraði stigin þrjú ásamt frábærlega vel spiluðum stórsóknarvarnarleik. Svo verður að minnast á Fabinho sem lék eins og fæddur miðvörður og á allt hrós skilið sem menn vilja hlaða á hann Annars lék liðið að mörgu leyti frábærlega en erfitt er að brjóta á bak aftur þriggja hæða hleðslu af strætóum a la Móri Unætidson. En það hafðist og ég þakka fyrir.

    Það er nú þannig

    UNWA

  10. Erfiður leikur gegn vel skipulögðu liði Chris Hughton og velkominn þrjú stig.
    Áfram marsera okkar menn í áttina að titlinum eftirsótta.

    Y.N.W.A.

  11. Algjör skyldusigur sem hafðist af mikilli seiglu. Van Dijk alveg frábær enn og aftur og reyndar Robertson líka. Fabinho er að standa sig virkilega vel í nýju stöðunni, en Shaqiri byrjar árið ekki vel, hef þó ekki nokkrar áhyggjur af honum. Salah öruggur í vítaspyrnunni, en hefði átt að skora annað mark úr dauðafæri. Ég fer sáttur að sofa í kvöld.

  12. Sæl aftur.

    Það er svo sem ekkert nýtt og e.t.v. ósanngjarnt að dæma karlinn af þessum stutta tíma en Keita fór afar illa með sínar mínútur og leit sannarlega ekki vel út. Hann missti boltann á krítískum stað en þökk sé frábærri vörn þá kom það ekki að sök. Þetta væri ekkert mál ef hann hefði heillað mann í vetur en því fer auðvitað fjarri.

    Held að þessi dapra frammistaða vonarstjörnunnar það sem af er tímabili, auk þess sem tveir eru farnir af varamannabekknum, hljóti að kalla á nýja fætur núna í janúar. Öflugur og reyndur miðjumaður gæfi langþráða breidd/dýpt í liðið og skapaði möguleika á fjölbreyttari leik.

  13. Fannst Salah ótrúlega flottur þegar hann fór að detta aðeins niður í seinni hálfleik og fá boltann í lappirnar … í fyrri hálfleiknum var þetta allt of hægt og framherjarnir lítið að fá boltann í lappirnar … seinni bara mjög góður og lítið vesen eftir að liðið kemst yfir sem er risastór breyting frá síðustu árum …

  14. Salah frábær þegar hann datt aðeins niður í seinni hálfleik til að fá boltann meira … vil sjá meira af þessu í næstu leikjum … en bara frábær sigur á lítið vesen að halda þessu eftir að við komumst yfir sem er auðvitað stærsta breytingin á þessu liði frá fyrri árum.

  15. Góð 3 stig en mikið djöfull er Henderson eitthvað ekki aleg minn captain, hann hefur ekki nógu mikið að bera þegar rífa þar liðið virkileg af stað.
    En hvað um það, ég óttast bara mest að annar hvor bakvörður okkar meiðist. Erum engan veginn með mannskap í nógu góðum gæðum til að leysa þá af fyrst Clyne er farinn á láni sem mér þykir mjög miður.

  16. Salah vann þennan leik fyrir okkur. Öftustu 5 frábærir. Þurftum að berjast fyrir þessu og liðið gerði það. Vona að Fabinho geti farið á miðjuna í næsta leik.

    #13 Sverrir

    Við vorum að spila við lið sem lagði rútunni og vorum með boltan allan leikinn. Þú veist ekki hvað þú ert að tala um ef þú ert að líkja þessari leikaðferð við móra taktík. Miðjan hefði getað skapað meira en þetta er fyrsti leikur sem Brighton skorar ekki á heimavelli og áttu ekki einu sinni skot á mark.

    Nr 14 Lúðvík

    Ætlaru virkilega að slátra Keita fyrir þessar 5 mínútur sem hann spilaði. Þú hefur misst af fyrstu 3 leikjum tímabilsins og Burnley leikinn. Mæli með að þú horfir á Burnley leikinn ef þú hefur ekkert séð neitt frá honum. Okkur vantar ekki miðjumann. Okkur vantar 10 einsog Fekir og hafsent

  17. Jú, Keita byrjaði bærilega en svo hefur eitthvað hlaupið í karlinn og eftir stendur að þessi staða hans er illa mönnuð. Hann var ok. fyrstu leikina en svo ekki söguna meira. Þessar fimm mínútur – voru einmitt ekki fleiri því honum er ekki treyst fyrir lengri tíma. Öflugur leikmaður í þessari stöðu ætti að koma inn á þegar 30-25 mín. eru eftir af leik í rimmu eins og þessari. Þ.a.a. var Mané ekki búinn að heilla fram að því. Nú þegar Lallana – annar boltarekjari er dottinn út þá finnst mér full ástæða til að skoða hvort ekki vantar gaur í þessa stöðu.

  18. fínn leikur 3 stig.

    keita fyrir mér virkar slow, veit ekki hvað er í gángi með hann eiginlega.
    spurning hvort hann myndi virka vel í fremstu línu.

  19. Lúðvík
    Keita er maðurinn sem þú vilt að við kaupum. Hann þarf að spila reglulega en það er erfitt þegar við erum í titilbaráttu. Þótt við þyrftum að bíða þangað til á næsta tímabili þá yrði það þess virði. Við erum ekki að fara kaupa annan miðjumann áður en við losum leikmenn af launaskrá

  20. Vantar fleiri neikvæðna stuðningsmenn eftir svona leik til að tjá sig 😉
    Við töpuðum gegn Wolves og þar voru 67 comment og núna erum við að slefa yfir 20 eftir sigurleik á útivelli gegn Brighton.

    Maður hefur pirrað sig nóg í gegnum síðustu áratugi á þessu liði okkar en núna er tími til að hrósa aðeinso. þegar vel gengur er eins og stuðningsmenn finnst óþægilegt að hrósa en alltaf til í að gagnrína ef úrslitinn eru ekki góð.

    YNWA – hefur þýðingu 🙂

  21. 1-0 eða 10-0 skiptir engu máli svo framarlega sem 3 stig skila sér í hús.

  22. Stórkostlegt að komast aftur á sigurbraut og skella harðri pressu á spurs og city. Ég vona innilega að úlfarnir geri eitthvað hressandi og eins vona ég að spurs-scums endi í orkukrefjandi jafntefli sem inniheldur fjöldann allan af spjöldum og látum.

    Liðið okkar er mjög einbeitt og ég virkilega trúi. Ég missti af leiknum og púlsinn minn var kominn upp í hæstu hæðir þegar ég opnaði á úrslitin. Þvílíkur léttir að ná í þrjú stig í dag, algjörlega stórkostlegt.
    YNWA!

  23. Ég spái því að Keita verði valinn bezti leikmaður næsta tímabils. Á mikið inni.

  24. ÉG ætla bara segja þetta ég elska Klopp og ég elska Kop.is það er ekkert betra en að vera Liverpool stuðningsmaður í dag!
    YNWA!

  25. Held að LFC hefði varla getað spilað þennan leik öðruvísi, gegn liði með alla tiltæka rútubíla fyrir framan sig. Á stórum köflum virkaði þessi leikur eins og gefa á milli æfing, með kannski 2 heimamenn á hlaupum að reyna að ná boltanum, þeir hljóta að hafa verið að niðurlotum komnir í leikslok. Ef við ýmindum okkur erfiðleikastuðul 1-10 fyrir LFC, þá myndi ég ýminda mér 6, sem er gott veganesti fyrir næsta leik. Frábær sigur og 3 dýrmæt stig.

    YNWA

  26. 3 stig!!!!!

    Top of the league!!!!!

    JÁ!!!!

    Ekkert gefið í þessari deild, þetta er enn í okkar höndum til að taka. Einn leik í einu, bring on Crystal Palace heima!!!!

    Ég er svo gjörsamlega á öllum áttum með það hvernig ég vil að Spurs – Mancs fari. Er ekki barasta jafntefli þar fínt, já sei sei.

    YNWA

  27. Takk fyrir þetta. Verkefnið klárað, 3 stig í hús og það er fyrir mestu. Varðandi liðið þá er ég virkilega ánægður hvernig tekst að leysa miðvarðavesenið og halda hreinu. Ég hef ekki yfir neinu að hvort í vetur enda staðan frábær. Það eina sem ég set spurningarmerki við er virðing Klopp gagnvart bikarkeppnunum þennan veturinn. Ef liðið ætlar sér að tapa þá er miklu betra að sleppa því að keppa (sennilega er það varla hægt). Auðvitað er galið hve álagið er mikið í CL en það er jafnmikið hjá hinum liðunum sem taka þátt í þeirri keppni. Þar fyrir utan langaði mig meira til að vinna FA bikarinn í vetur heldur en CL. Því á Liverpool að fara í alla leiki til að vinna þá og ekkert múður. Áfram Liverpool.

  28. Sælir félagar

    Gott að sjá að við erum flest sammála um síðasta leik. Frammistaða leikmanna eftir efnum og ástæðum, álagið þægilegt allavega fram að meistaradeild og meiddir leikmenn fá tíma til að jafna sig og þeir sem hlaupa í skörðin standa sig yfirleitt vel. Ég sá einhversstaðar gagnrýni á frammistöðu framlínunnar. Sú gagnrýni finst mér ósanngjörn. Þeir fengu úr litlu að moða en voru hreyfanlegir og stoppuðu ekki allan leikinn. Það vantaði helst uppá að þeir fengju boltann í fæturna því Dunk og Duffy átu alla loftbolta.

    Hvað áherslur Klopp varðar í einstökum keppnum (deid, deildarbikar, FA bikar og meistaradeild) varðar þá má auðvitað deila um það. Fyrir mér er augljóst af stöðu liðsins að við höfum ekki breidd í allar þessar keppnir. Þó við getum mannað stöður í öllum leikjum þá sást vel í bikarleiknum gegn Úlfunum hversu djúpt þarf að grafa til að manna allar keppnir. Það lið sem keppti þar var skipað kjúklingum og bekkjarliði í öllum stöðum nema tveim (byrjunarlið) og þegar annar byrjunarliðsmaðurinn meiddist var kallað á 16 ára gutta til að leysa vandann.

    Svona er þetta meðan lið eins og t.d. M. City hafa tvo og þrjá heimsklassa menn í hverri stöðu. M. City er það lið sem við erum helst að keppa við núna um efsta sætið í deildinni. Okkar besta byrjunarlið stendur M.City fullkomlega á sporði hvað getu varðar. En um leið og einhverjir fara að detta út úr byrjunarliðinu þá er skarð fyrir skildi sem erfitt er að fylla. Sjáum bara ef Alisson, Virgil, Salah o.s.frv. detta út. Það eru engir sem fylla þeirra skörð að fullu. Þar af leiðir þð að Klopp verður að ákveða hvar hann ætlar að leggja áherslur með þennan takmarkaða hóp. Við vitum að vísu að bekkurinn hefur styrkst en samt erum við langt á eftir liðum eins og M.City hvað mönnun varðar.

    Niðurstaða mín er því sú, eftir að hafa pælt svolítið í þessu, að ég styð Klopp algerlega í hans nálgun og áherslum á þessu tímabili. Það er engin spurning í mínum huga að enski meistartitillinn er meira virði en allir hinir. Ég held líka að flestir ef ekki allir stuðningmenn Liverpool séu á sama máli. Meira að segja Meistaradeildartitillinn fellur í skuggann af þeims enska. Þetta eru nú mínir 5 aurar í þessari umræðu og svo geta allir verið mér sammála eða ósammála eftir atvikum. En ég styð Klopp algerlega í því sem hann er að gera og svo verður allt til enda veraldarinnar.

    Það er nú þannig

    YNWA

  29. #32
    Sigkarl það er erfitt að halda í breidd þegar alltaf er verið að lána leikmenn. Mér telst til að það séu 13 leikmenn á láni núna. Það hefði verið hægt að nota þá í FA cup. Af hverju var t.d. verið að lána Clyne núna í janúar þegar svona mikil meiðsli eru hjá varnarmönnunum?

  30. #34
    Nokk viss um að hann verið lánaður til að selja þeim Solanke á 19 m.
    Annars er ég sammála hefði viljað hafa Clyne út þetta tímabil.

  31. Sæl öll sem kikið inn á þessa síðu og kærar þakkir til þeirra sem halda henni úti. Stórkostlegt framtak sem búið er að gleðja mikið í gegnum árin.
    Loksins eftir áratuga stuðning við LFC ætla ég ásamt fleiri fjölskyldumeðlimum að fara á leik á Anfield, en þangað hef ég aldrei komið. Ég er búinn að skoða leikjaprogrammið og norsku síðuna sem hér er bent á. Uppselt á alla stórleikina sem er svo sem ekkert óeðlilegt. En það eru lausir miðar t.d. á LFC-Burnley. Þeir bjóða tvo kosti
    1. Miði + hótel (2nætur) + ferðir til frá hóteli á leik + drykki á The Sandon fyrir leik verð frá 599£.
    2. Miði+ ferðir til frá hóteli á leik + drykki á The Sandon fyrir leik verð frá 395£.
    Mér er nú bara spurn, er þetta það sem þessi norska skrifstofa er að bjóða almennt? Miði á leik, skutl sem kostar ca 10-15£ og nokkra bjóra á verði frá 60.000 ISK!!!
    Opinbert miðaverð á Anfield er 40-60£.
    Ég verð viðurkenna að þetta er töluvert dýrara en ég hafði reiknað með. Miðarnir sem um ræðir eru á “Upper Anfield Road”
    Það væri gaman að heyra frá einhverjum sem hafa farið og hvort hægt er að fá miða annarsstaðar (örugga miða). Ég er meðlimur í Liverpool klúbbnum.
    Með kveðju,
    Alfreð
    YNWA

  32. Sæll Alfreð. Yfirleitt eru þeir ekki að bjóða bara miða á leikina, enda mega þeir það ekki og þurfa að bæta einhverju meiru í pakkann. Þeir eru því oftast með hótel með í pakkanum og stundum líka flugið (eins og þeir bjóða uppá núna frá Íslandi fyrir Huddersfield leikinn). Það verður að hafa það í huga að þetta eru hospitality miðar, það er ekki hægt að bera saman verðið á þeim við almennt verð á venjulegum miðum á Anfield. Svona miðar kosta nálægt 300 pundum beint af klúbbnum ef menn eru svo stjarnfræðilega heppnir að ná að kaupa þá beint þaðan.

    Það er bara einn leikur í dag sem hægt er að kaupa og ástæðan fyrir því er sú að það er leikur á miðvikudagskvöldi gegn Watford, en leikir í miðri viku seljast mun hægar og seinna og eru ódýrari fyrir vikið. Þessi leikur er núna á 234 pund beint af klúbbnum og er hospitality dæmið á stöðum fyrir utan sjálfan völlinn.

    Málið er að eftirspurnin eftir miðum á Anfield hefur gjörsamlega sprungið í loft upp eftir að gengi liðsins fór á svona mikið flug og það hefur verið ákaflega erfitt að redda miðum og þegar það tekst, þá kosta þeir alveg helvítis helling. Þannig að þessi leikur hjá Norðmönnunum á NOK 5.995 með hóteli í 2 nætur, er bara býsna fínt verð eins og staðan er í dag. Sama með Huddersfield leikinn sem nánast útilokað er að redda miðum á í dag (næst síðasti heimaleikurinn). Hann eru þeir að bjóða með flugi, hóteli og öllum pakkanum á NOK 9.950.

  33. Takk fyrir þessar útskýringar SSteinn, Ég var reyndar að fá svipaðar útskýringar frá
    Thomas G. Tømta
    VP Business Development
    Norwegian Sports Travel AS
    Svo það er þá ekkert annað að gera en borga og brosa býst ég við. Ég hélt í einfeldni minni að miðarnir væru á ca 2-3 földu miðað við verð á síðunni hjá Anfield. Þ.e. ca 20-30.000. en ekki 50-60.000 eins og þeir eru að bjóða ef maður kaupir bara miða. Greinilega betra að kaupa hótelið af þeim líka ef það hentar.
    Því miður ef fram fer sem horfir þá virðast peningamálin koma til með að fæla hinn almenna stuðningsmann frá því að komast á leiki.
    Ég heyrði að stuðningsmannaklúbbur Man.utd. á Íslandi ætti fleiri tugi ársmiða svo þeir geta boðið þokkalega pakkaferðir á Old Trafford reglulega (Veit samt ekki með eftirspurnina 🙂 )
    Á Liverpool klúbburinn einhverja ársmiða fyrir sína félagsmenn?
    YNWA

  34. Jæja nú er TAA frá næsta mánuðinn djufull var nú gott að þeir lánuðu Clyne var það ekki ? Jæja Herr Klopp núna þarft þú að draga kanínur úr hattinum fyrir komandi vikur.

  35. Já, því miður er völlurinn okkar bara ennþá of lítill og framboðið miklu minna en eftirspurnin og því útilokað að kaupa venjulega ársmiða, líkt og hægt hefur verið að gera á Old Trafford. Vonandi að menn drífi af næsta áfanga í stækkun Anfield. Ástandið á miðaeftirspurn er reyndar mjög óeðlilegt eins og það er í dag, ég hef aldrei kynnst öðru eins og hef ég nú tengst þessum málum í yfir 20 ár.

Liðið gegn Brighton

Kvennaliðið heimsækir Yeovil