Ferð á suðurströndina í mávahreiðrið

Nú byrjar ballið. Eftir að Manchester City sigraði Liverpool fyrir viku benti Jamie Carragher á að nú væri í fyrsta sinn í nokkur ár alvöruu kapphlaup um titilinn. Í fyrra var City búið að ganga frá deilidinni í desember, árið áður stungu Chelsea af um þetta leyti, árið þar áður var Leicester ævintýrið og þar á undan unnu Chelsea nokkuð öruggt undir stjórn Jóse Mourinho. Það má færa ágætis rök fyrir að síðasta virkilega spennandi kapphlaupið um titilinn, þá meina ég spennandi fram á síðasta leik, hafi verið 2013-14 þegar Liverpool og Manchester City börðust um titilinn. Nú er komið að öðru kappi milli þessara tveggja liða þó þau séu bæði nánast óþekkjanleg frá því sem þau voru 2013-14.

Á síðasta tímabili unnu Liverpool City í janúar og í kjölfarið fór allt til andskotans í deildinni hjá Liverpool. Það er til of mikil ætlast að Manchester City taki þannig pakka í ár. Til að landa þeim stóra, sem er yfirlýst markmið Liverpool, er mikilvægast að halda áfram svakalegri stigasöfnun liðsins gegn „botn 14“ liðunum. Liverpool á núna fimm svoleiðis leiki í röð, sá fyrsti gegn mávunum í Brighton and Hove Albion núna á morgun.

Brighton and Hove Albion

Það er smá freistandi að breyta þessari upphitun í 3000 orða dásömun á borginni Brighton. Hún er gjörsamlega frábær staður til að heimsækja, gullfalleg með frábæran miðbæ(bæði um hádegi og miðnætti), blómlegt listalíf og óteljandi sögulegar minjar. Ég á frábærar minningar frá borginni en sleppi því að hella þeim yfir ykkur.

Borgin er enga síður ekki þekkt sem fótboltaborg. Hún er ögn of miðstéttar til þess að þar myndi sama stemning í kringum fótbolta eins og í t.d. Liverpool, Newcastle og Sunderland svo nokkur dæmi séu tekin. Liðið spilaði í efstu deild 1979-83 en eftir það tók við mjög slæmur tími í sögu liðsins. Árið 1983 komst liðið í úrslit FA bikarsins, en aðeins fjórtán árum síðar var liðið á botni fjórðu deildar og vantaði 13 stig til að halda sér upp. Það er eiginlega engin fimmta deild, ef lið fellur úr þeirri fjórðu er það komið í svokallaða Conference deild og úr henni er martröð að komast upp.

Á lokadeginum 1998 þurfti liðið að gera jafntefli til að halda sér uppi. Bara til að auka dramatíkina þá byrjaði varnarmaður liðsins Kerry Mayo á að skora sjálfsmark. En Robbie Reinelt skráði sig í sögubækur liðsins með því að jafna leikinn undir lokin og það hélt sér uppi.

Síðan þá hefur liðið verið að taka jöfn og örugg skref upp deildirnar ásamt því að byggja upp innviði liðsins. Árið 2011 flutti liðið á Falmer völlinn eftir 14 ár án þess að eiga sér fastan heimavöll. Þeir höfðu eytt lunganu af þeim tíma á frjálsíþróttavelli, eftir að Goldstone vellinum var lokað 1997.

Tímabilið 2016-17 tókst liðinu svo að tryggja sér sæti í efstu deild eftir margra ára ferðalag um neðri deildirnar. Í fyrra hékk liðið í kringum fallsæti mest allt tímabilið en tókst að tryggja sér áframhaldandi veru í deildinni með sigri á Manchester United fjórða maí. Liðið hefur byggt nokkuð vel á þessu og eru núna í þrettánda sæti og ekki í neinni raunverulegri fallhættu. Árangur þeirra á tímabilinu hefur verið eins og búast má við frá liði sem er um miðja deild, náð í nokkur stig gegnum topp liðunum en aðallega siglt stigunum í höfn með sigrum á liðunum í kringum sig. Sætastur af þeim var væntanlega 3-1 sigur á Crystal Palace í byrjun desember.

Já, minntist ég á að erkifjendur mávanna eru ernirnir sem eiga sér hreiður í annarri borg í 65 kílómetra fjarlægð? Pínu spes, mæli með þessari heimildarmynd um fjandskap þessara liða.

 

Fyrri leikur Liverpool og Brighton var djöfulsins basl. Hann var fyrsti af ansi mörgum leikjum sem Liverpool vann frekar ljótt í haust, 1-0 með marki frá Salah og hallelújah markvörslu frá Alison undir lokin. Árangur Brighton á þessu tímabili er fyrst á fremst að þakka fínu formi á heimavelli, unnið sex leiki þar, tapað þrem og gert þrjú jafntefli. Að heiman hefur þeim gengið töluvert verr, aðeins unnið þrjá leiki. Það er því ljóst að þetta verður ekkert grín að heimsækja liðið og ná í þrjú stig.

Liverpool

Það gefur ekki alveg rétta mynd að segja að Liverpool hafi nú tapað tveim leikjum í röð, þó það sé satt. Leikurinn gegn Manchester City frá frábærlega spilaður að hálfu beggja liða og snerist bókstaflega á millímetrum. Það var síðan C lið Liverpool sem rétt tapaði fyrir Wolves í bikarnum og þrír leikmenn að  spila sinn fyrsta leik. Um leið og Alison, Van Dijk, Trent, Andy og Mané koma aftur inn í liðið koma aftur inn í liðið kemur takturinn aftur í það og býst ég við að sjá þá alla spila á morgun.

Vörnin okkar eru rúin inn að beini, en sem betur fer er það bein Virgil Van Dijk. Fyrir utan hann er ekki einn hafsent leikfær, en það er víst stutt í Matip og Lovren og ekki lengra en út mánuðinn í Gomez. Það er spurning hver spilar við hliðiná hollenska tröllinu. Einhverjir hafa kallað eftir Ki-Jana Hoever taki sér stöðu við hliða landa síns í miðju varnarinnar.

Eins flottur og hann var á móti Wolves vil ég alls ekki að það gerist. Strákurinn er 16 ára, hann á að fá tíma til að vinna úr reynslunni að spila með aðalliðinu og halda áfram að bæta sig. Liverpool og fleiri lið hafa of oft gerst sek um að leggja of mikla þyngt á herðar ungra leikmanna og skemmt ferilinn, hann á líklega bjarta framtíð fyrir höndum en í bili á hann að fá að bæta sig í friði. Með öðrum orðum, ég vil sjá Fabinho við hlið Van Dijk. Hollendingurinn hefur átt það til að gera alla varnarmenn sem eru með honum helmingi betri og ég mun hafa takmarkaðar áhyggjur af þeim tveim saman í vörninni.

Þá er það miðjan. Lallana er meiddur (og líklega búin að spila sinn síðasta leik fyrir liðið, get ekki ímyndað mér að hann nái að vinna sér sæti í því úr þessu) og það var pískur um að Henderson væri tæpur á Twitter í vikunni en hann æfði með aðalliðinu í dag.

Ég ætla að tippa á að Winjaldum og Keita spili á miðjunni, með Firmino í þessu djúpa hlutverki sem hann hefur verið í. Ég vil sjá sóknarsinnað lið, með Shaqiri og Mané sitthvorum megin við Firmino og svo auðvitað Salah upp á topp.

Grái gaurinn er Fabinho, hann var ekki í boði hjá forritinu.

Spá

Þetta verður hörkuleikur og ég held að Brigthon verði ansi seigir að eiga við. En ég hef enga trú á öðru en að Liverpool klári þetta, segjum 2-0 með mörkum frá Salah og Mané.

13 Comments

  1. Sælir félagar

    Úrslitin í síðasta deildarleik Liverpool réðust á millimetrum svo tæpara getur það varla verið að tapa leik. Engin veit hvað hefði gerst ef Mané hefði sett’ann stöngin inn. og komið Liverpool í 1 – 0. En hvað um það að tapa svo naumlega fyrir M. City á heimavelli þeirra finnst segja allt um hversu gífurlega sterkt liðið okkar er. Það var ekkert bananahýði sem við féllum á þar við einfaldlega töðuðum með reisn fyrir besta liði á Englandi í áratugi sem er ekkert að skammast sin fyrir.

    Hvað gerist í Brigthon er svo annað mál. Þeir eru gífurlega erfiðir heim að sækja og enginn fer þangað til að hirða stig. Það þarf að sækja stigin þangað af mikilli harðfylgni og einbeitingu ásamt góðu skipulagi og áræðni í sókn. Treystum við okkar mönnum til þess? Ég fyrir mitt leyti geri það. Ég treyst Klopp og þeim afburðamönnum sem við höfum á að skipa í nánast hverja einustu stöðu í býrjunarliði okkar. Eina áhyggjuefnið er vörnin en Klopp og félagar leysa það. Mín spá 1 – 4.

    Það er nú þannig

    YNWA

  2. Fabinho verður líklega við hlið Djik á vörninni og spurng um hvort að Klopp verndar þá ekki varnarlínuna með Winjaldum/Millner og spurning um hvort að Keita eða Shaqirir verða með þeim félögum.

    Brighton verður í 4-5-1 eða jafnvel 5-4-1 með Murry fremstan og verður ekkert grín að komast í gegnum múrinn eins og heimaleikur okkar gegn þeim sýndi.

    Þetta er leikurinn sem ég held að sé vendipunkturinn hjá okkur á tímabilinu. Annað hvort vinnum við þá með miðjumann í miðverðinum og förum á aðra sigurhrinu eða við lendum í vandræðum og förum heim með 1 stig(vill ekki hugsa um verri niðurstöðu) og við förum að hiksta.

    Treystum Klopp og strákunum og ég spái 1-2 sigri í erfiðum leik.

  3. Það eru mistök að gista á hóteli við sjóinn í Brighton. Gargið í mávunum er hreint óþolandi, sérstaklega á nóttunni.

    Það verða engin mistök gerð hjá okkar mönnum frá Liverpool. Spáin er að það verður alskýað suð, suð vestan 1 – 3.

  4. Menn hljóta að koma brjálaðir til leiks og sýna að þeir ætli ekkert að afhenda city titilinn og sigri þetta 0-3 Salah með þrennu.

  5. Já, trúlega verður Fabinho þarna með VVD og ég held að það verði nú bara allt í lagi með það.

    Þetta verður bölvaður barningur, sérstaklega ef mörkin láta bíða eftir sér. Ég er hryllilega stressaður yfir þessum leik og vil að við komumst aftur á rétta sporið.

    Þar sem ég er í stærðfræði í KHÍ og er að fást við lausnir á ýmsum þrautum og mynstrum, þá hef ég fundið út að við munum vinna deildina, ekki bara þetta árið heldur líka næstu árin. Staðreyndin er auðvitað sú að scums hafa unnið 20 sinnum en við 18 sinnum. Þegar við vinnum deildina núna þá verður staðan 20-19. Á næsta tímabili verður það 20-20 og þannig koll af kolli… Ég held að þetta mynstur sé ekkert að fara að klikka. Það virkar skothelt.

    Vinnum þetta basl og horfum á hina leikina með von um óvænt úrslit.

  6. Jahérnahér.

    Mane að fara að spila sinn 100 leik fyrir Liverpool.

    Hvítu mávar segið þið honum,
    að mitt Liverpoolhjarta slái fyrir hann.

    Breytt spá: 1 – 5.

  7. Erfiður leikur á morgun, og nokkrir sparkspekingar sem spá þessum leik jafntefli og er ég ekkert hissa á því, Brighton er með sjöunda besta heimavallarárangur af liðum í úrvalsdeildinni. Þeir eru erfiðir heim að sækja og eru oftar en ekki í long ball leikkerfi þar sem skotmark sendinga þeirra er Murrey sem svo flikkar boltanum á samherja.

    Ég vona að við náum að halda hreinu með Fab í vörninni því við eigum alltaf að skora mark með þessa framherja okkar. Ég spái þessu 0-1 eða 0-2 og Mane og Salah með mörkin, komin tími á sigurleik á þessu ári, vona að janúar bölvunin sé ekki komin til að vera.

  8. Takk fyrir þessa upphitun. Nú verður liðið að koma sér á rétta braut á ný og efast ég ekki augnablik um að það takist. Þó vandræði séu með varnarmenn þessa stundin kemur maður í manns stað. Reyndar með meiðslin, hvenær nær Liverpool tímabili þar sem lítil meiðsli eru.
    Það liggur í loftinu að Mane setur eitt í leiknum.

  9. Brighton sjá ekki til sólar.
    Okkar menn mæta dýrvitlausir til leiks. Mávarnir hrökklast frá pylsuvögnunum við Amex völlinn og setjast á bryggjustaurana við Ermasundið.
    Þurfa að horfa á eitthvað reyna að synda hægt yfir eftir hraðlestina sem keyrði yfir þá.
    YNWA

  10. rústum þessu.. smellti triple captain á salah í fantasy, hef það mikla trú á að liverpool skori slatta af mörkum.

  11. Liðið komið !

    Liverpool: Alisson, Alexander-Arnold, Fabinho, Van Dijk, Robertson, Wijnaldum, Henderson, Shaqiri, Mane, Salah, Firmino.

    Subs: Mignolet, Milner, Keita, Moreno, Origi, Matip, Camacho

Wolves – Liverpool 2-1

Gullkastið – Hvar er Clean Sheet Klavan?