Liverpool 4 – 0 Newcastle

Liverpool hélt áfram sigurgöngu sinni í deildinni þegar Rafa Benitez mætti með lærisveina sína í Newcastle í heimsókn, leikurinn endaði með sigri okkar manna 4-0. Á sama tíma tapaði City fyrir Leicester á útivelli, svo nú er Liverpool með 6 stiga forskot á toppnum.

Mörkin

1-0 Lovren (11. mín)
2-0 Salah (47. mín)
3-0 Shaqiri (80. mín)
4-0 Fabinho (85. mín)

Leikurinn

Eins og svo oft áður fór leikurinn frekar varlega af stað, en á 11. mínútu fékk liðið horn.
Shaqiri tók hornið fljótt, gaf á Robertson sem átti fyrirgjöf, varnarmaður Newcastle skallað frá en ekki lengra en rétt hægra megin við vítateigspunkt þar sem Lovren tók boltann á lofti og negldi upp í þaknetið. Glæsileg afgreiðsla.

Okkar menn héldu áfram sóknarþunganum, og á 19. mínútu fékk Mané 2 færi með stuttu millibili, fyrst eftir magnaða sendingu frá Trent, og í seinna tilfellinu eftir sendingu frá Firmino. Í hvorugt skiptið tókst honum að koma boltanum í netið, en það mátti ekki miklu muna.

Leikurinn róaðist aðeins fram að hálfleik, en samt þannig að það voru okkar menn sem voru mun meira með boltann og voru alltaf líklegri. Satt að segja var ekki mikil ógnun af þessu Newcastle liði.

Á 44. mínútu fékk liðið aukaspyrnu aðeins fyrir utan teig. Shaqiri og Trent voru báðir líklegir til að taka spyrnuna, og það var á endanum Shaqiri sem átti mjög gott skot yfir vegginn, en Dubravka með flotta vörslu.

Síðari hálfleikur var svo nýhafinn þegar Salah sótti upp hægri kantinn, og fór niður í teignum eftir að varnarmaður Newcastle tók í öxlina á honum. Það mætti alveg kalla þetta dýfu, en við vitum að það hefur oft verið brotið verr á Salah, hann staðið það af sér, og ekkert fengið. Allavega, víti dæmt, en þetta var fyrsta vítið sem hefur verið dæmt á Anfield síðan í október 2017. Þá tók Salah vítið og klikkaði, en hann klikkaði ekki núna, og skoraði því fyrsta deildarmarkið úr víti á Anfield síðan í nóvember 2016 þegar Milner skoraði gegn Sunderland.

Pressan hélt áfram án þess að liðið næði að setja mark. Fabinho kom inn á fyrir Wijnaldum og Sturridge inn fyrir Firmino, og á 80. mínútu kom þriðja markið. Sókn sem virtist vera á leiðinni út í sandinn fékk nýtt líf þegar Robertson vann boltann upp við endalínu, gaf fyrir en hreinsað, Sturridge náði boltanum og lagði á Henderson sem gaf algjöra gullsendingu á Trent, hann gaf fyrir í fyrsta beint í lappirnar á Shaqiri sem gat ekki annað en skorað óvaldaður á markteignum.

Robertson fékk svo smáhvíld, og reyndar er það svo að konan hans er komin á fæðingardeildina með barn þeirra hjónakorna nr. 2 á leiðinni. Clyne kom inn á, og stóð sig bara nokkuð vel það sem eftir lifði leiks. Á 85. mínútu fékk liðið svo horn, Salah tók hornið og setti boltann beint á Fabinho sem skoraði sitt fyrsta Liverpool mark. Undir lokin munaði reyndar ekki miklu að Longstaff næði að pota inn marki þegar Alisson var kominn út úr teig að hreinsa, en með sameiginlegu átaki tókst að halda boltanum í hæfilegri fjarlægð frá netmöskvunum, og lakið fékk að haldast hreint.

Góður dagur

Þetta var einn af þessum dögum þar sem liðið sem heild var að spila vel, enginn var eitthvað áberandi verri en aðrir, og í raun enginn sem skaraði meir framúr en annar. Þetta sést t.d. á því hvað markaskorunin dreifist. Þá ber auðvitað að gleðjast yfir því að liðið hélt hreinu, og þegar þetta er skrifað hafa ekki borist fréttir af því að neinn hafi meiðst. Undirritaður á satt að segja í mestu vandræðum með að velja mann leiksins, en gef þó Dejan Lovren nafnbótina í þetta skiptið, að hluta til fyrir að brjóta ísinn varðandi markaskorun, en hann var líka bara mjög solid allan leikinn. Fyrirliðinn okkar átti líka alveg ljómandi leik, átti lykilsendingu í 3ja markinu og lét heyra vel í sér. Salah kæmi líka vel til greina með mark og stoðsendingu.

Slæmur dagur

Ef maður á að vera alveg svakalega kröfuharður, þá hefur maður alveg séð Bobby okkar Firmino spila betur. En þá er maður líka ekkert að stilla kröfunum í hóf, við sáum hvernig hann gat leikið í fyrra, og okkur langar alveg til að sjá þann leikmann aftur. En á hinn bóginn er hann auðvitað að spila pínkulítið aðra stöðu um þessar mundir, og á meðan úrslitin eru á þennan veginn getum við bara alls ekki kvartað.

Umræðan eftir leik

Liverpool er núna með 6 stiga forskot á toppnum þegar deildin er nákvæmlega hálfnuð.

6 stiga forskot.

Auðvitað er það þannig að liðið sem er á toppnum um jólin er ekki búið að vinna neitt, og jú vissulega er það þannig að í einu tvö skiptin á síðustu 10 árum þar sem liðið á toppnum um jólin vann ekki deildina var þegar Liverpool var á toppnum um jólin. En eins og Klopp sagði fyrir leik: ef þetta væri á hinn veginn, þ.e. ef Liverpool væri eina liðið sem hefði unnið deildina eftir að hafa verið á toppnum um jólin, héldi hann þá að þetta væri komið núna? Onei ekki aldeilis. Það er hálft tímabilið eftir, 19 leikir eftir og nóg af stigum í pottinum. En er á meðan er, og við gleðjumst yfir stöðunni.

Og það sem meira er, það eru ekki lengur City sem eru í 2. sæti, heldur eru Tottenham komnir þangað núna, og Tottenham eiga tvo erfiða leiki gegn Chelsea í janúar í deildarbikarnum, ofan á hefðbundið leikjaálag í deildinni. Þá eru City núna 7 stigum á eftir Jürgen Klopp og liðsmönnum hans. Það er því í stuttu máli alveg nákvæmlega sama hvernig næstu tveir leikir (gegn Arsenal og City) fara, við verðum alveg örugglega fyrir ofan City þegar leik lýkur á Etihad. En ég þykist alveg vita að Klopp ætlar ekkert að fara að gefa þessa tvo leiki, og vill örugglega halda sigurgöngunni áfram. Hvernig lítur sú sigurganga út? Jú, liðið er ósigrað í deildinni á þessu tímabili, ósigrað á Anfield í 30 deildarleikjum, Klopp var að vinna sinn 100. leik með Liverpool, og þetta var áttundi sigurleikurinn í deildinni í röð, en það er besti árangur sem Klopp hefur náð með liðið. Liðið er áfram það lið sem er með besta árangurinn varnarlega séð, en nú hefur liðið haldið hreinu í 12 leikjum á tímabilinu og hefur aðeins fengið á sig 7 mörk. Já og nú er liðið búið að ná City hvað varðar markamun, ekki að það skipti svosem öllu máli. Sýnir bara hvað hlutirnir geta breyst fljótt.

Það er svo ekki mikil hvíld framundan hjá okkar mönnum, því Arsenal mæta í heimsókn á Anfield á laugardaginn kl. 17:30. Vonum að Klopp nái upp einbeitingu í hópnum fyrir þann leik. Ég veit ekki með ykkur, en ég ætla að leyfa mér að trúa á Klopp og leikmenn liðsins.

44 Comments

 1. Flottur leikur gegn 11 manna varnarmúr ! Glæsilegt hjá Leicester líka. MJÖG Gleðileg Jól 🙂

 2. Sæl og blessuð.

  Krúttlegt allt saman. Hnjúkaselið heillum horfið og allir virðast ósárir eftir að fá það í heimsókn. 4-0 í leik hinna glötuðu hálffæra, segir alla söguna um yfirburðina.

  En hvað um það: undur og stórmerki! Fölbláu bölvuninni hefur verið aflétt amk í bili og nú tekst þeim að tapa tveimur leikjum í röð og missa þ.a.a. Delpharann út af með rautt! Mögulega verður hann í banni þegar við mætum þeim á Etihad. Og svo eru blessaðir miðlungarnir í Tottenham á rífandi siglingu. Það var þeim líkt að koma með eitthvert lífsmark einmitt þegar lítils er að vænta. Já, Saudarnir eru bara komnir í þriðja sæti og maður ímyndar sér að eitthvað hafi gengið á í búningsklefanum eftir þann leik og spennan verði óbærileg þegar við loks kíkjum á þá á nýju ári.

  Efst með sex stiga forskot!!!

 3. Klopp segir:Trúið og í Maí munið yður silfrinu lyfta! Ég trúi, en þið?

 4. Sæl og blessuð.

  Ekki amalegt eða hvað? Magnað að skora fjögur mörk gegn þessu liði sem hékk í vörn í stöðunni 1-0, 2-0, 3-0 og 4-0. Það er víst ekki margt annað í boði hjá Rafa vini okkar á töflufundum en að spila vörn. Sjálfum fannst mér illa farið með hálffærin lengst af í leiknum, en þau voru bara svo ótrúlega mörg að þrátt fyrir spreðið og bruðlið þá hafðist þetta með slíkum yfirburðum.

  Og Saudi komnir í þriðja sætið! Hvað er að frétta? Það er ekki eins og þessi lið sem hafa knésett þá séu af risakalíberi. Svo hef ég ekki mikla trú á að hvítliðar eigi eftir að skrifa nöfn sín á spjöld sögunnar þetta er dæmigert sprikl fyrir miðlungslið. Þeir stefna á Wenger-inn og hafa ekki hungur í frekari afrek. En að vera með sex stiga forystu nú í lok annar er ekkert minna en sturlað.

 5. Sælir félagar

  Hvað get ég sagt svo sem. Ég spáði 4 – 0 og það fór eftir en ég hefði ekkert getað sagt þó leikurinn hefði farið 6 – 0 og spáin mín út í buskann. Markið hjá Lovren var algjör klessa og mikið átti Faninho það skilið að skora. Alisson hélt spanni minni á lífi með enn einni marvörslunni og – haldið ykkur nú – Liverpool fékk víti og snillingurinn salah kláraði það frá upphafi til enda. Taskk fyrir mig og til hamingju Púllarar með stöðuna í deildinni þar sem T’ham er orðið mesta ógnin en ekki M. City.

  Það er nú þannig

  YNWA

 6. Klopp segir: Ég trúi að Liverpool eignist silfur og lyfti upp yfir höfuð er sól hátt rís yfir Norðan eyju grjóthörðustu stuðningsmanna LFC.Já ég trúi!

 7. Geggjaður leikur og við aukum forystuna á toppnum. Búnir að vinna niður markatöluna hjá city, bæði með 36 mörk í plús.
  En spurs á rosalegu runni og til alls líklegir, en það er okkar lið líka.
  Djöfull er gaman að fylgjast með þessu liði okkar.

 8. Frábær þessi Fabinho!
  Er einhver sem man eftir gaur sem ég held að heiti Emre Chan – eða eitthvað svileiðis? ?

 9. Sammála með Lovren sem mann leiksins, hafði áhyggjur af honum í byrjun tímabils en mikið rosalega er hann að stíga upp. Vonandi heldur hann haus út tímabilið, verður erfitt fyrir Gomez að slá hann út úr liðinu þegar hann kemur til baka og það er lúxus vandamál. Þetta er það sem hefur vantað hjá Liverpool síðustu árin þeas alvöru samkeppni um stöður til þess að fá menn til að stíga upp og það hafa nokkrir gert til þessa. Spennandi tímar framundan.

 10. Alveg vita gjörsamlega frábært. Nú er maður sprellandi kátur og gæti dansað djæf eða eitthvað annað. Er hægt að biðja um meira en fumlausan sigur í svona leik. Allir leikmenn að spila vel og er góður stígandi í liðinu þrátt fyrir hnjask nokkurra leikmanna. Ótrúlegt að vera búnir að vinna upp markatöluna gegn MC sem virtist vera óyfirstíganlegt fyrir einhverjum sex umferðum síðan, 30 nóv MC með 35 mörk í plús en Liverpool 21. Ef maður hefur áhyggjur af einhverju þá væri það helst að Klopp skyldi ekki hvíla meira í þessum leik. Rosalegt prógramm framundan, Arsenal og MC næstu tveir leikir. En okkar lið er frábært þessa stundina og til alls líklegt.

 11. Ég ætla að taka undir með nafna mínum # 20 og velja Lovren mann leiksins. Ég hef ekki alltaf verið sáttur við Lovren frekar en Henderson, sem einnig átti stórleik í dag, en vá hvað liðið leikur vel þessa dagana !!!!

 12. Mikið rosalega er Klopp að vinna góða vinnu yfir hausamótunum á leikmönnum.
  Þvílíkt einbeittir inn í hvern leik sama hver andstæðingurinn er.

  Næstu tveir leikir verða æsispennandi og hvert stig úr þeim mikikvægt.
  Ég náði ekki leiknum í dag en það verða gerðar ráðstafanir fyrir þá næstu.
  Það er næsta víst.

  YNWA

 13. það verður ekki betra en þegar beinlínis er ekki hægt að velja mann leiksins. Fólk hefur eðlilega sínar skoðanir, en mín skoðun er að maður leiksins sé liðið í heild. 6 stig á T,ham, 7 stig á manc maður getur byrjað að láta sig dreyma fallega drauma. Þetta lið er ekki að fara að tapa fyrir neinum.

  YNWA

 14. Þetta var stórkostleg frammistaða og það er gríðarlega mikilvægt að vera þessir sem eru í bílstjórasætinu. Þá minnkar pressan og mistök og slys eru bufferuð af þessum 6 stigum. Þetta gefur ótrúlegt sjálftraust inn í liðið og hin liðin fara að skjálfa, missa kjark og gera mistök sem eru svo dýr þegar maður er að ellta lið sem vinnur og vinnur. Þetta á reyndar ekki við um Tottenham sem áttar sig ekki alveg á þessu, er ekki vant því að vera þarna, hva ha við hér bíddu er þetta ekki rangur misskilningur.

 15. Takk Klopp
  Takk Kop.is
  Maður er farinn að ókyrrast í jákvæðum skilningi gi

 16. Shaqiri er maður leiksins, sér alveg um að sprengja upp 11 manna varnir sem einu sinni var vandamál.

 17. Ég á ansi marga Púlara sem vini á fésbók – ég hef tekið eftir að við erum ekki með sama gorgeirinn og fylgir t.d. manú mönnum þegar vel gengur hjá þeim. Í dag höfum við efni á að vera með gorgeir, en við látum það ekki eftir okkur – við sitjum á okkur og fylgjumst með stöðunni verða betri og betri, vonum og trúum. Ég er á því að gleðin muni halda áfram fram á vor.
  YNWA.

 18. Menn sem hrauna yfir Salah og heimta bönn og útskúfun eftir atvikið í teignum í dag sögðu ekki mikið um daginn þegar sá hinn sami Salah var nánast straujaður í teignum en hann stóð það af sér og reyndi áfram þó svo hann var kominn algerlega úr jafnvægi eftir tæklinguna.
  Það er mikið hamast í honum og oftar en ekki komast varnarmenn upp með að brjóta á honum inni í teig. Brot sem flautað er á út á velli.

  Því kalla ég þá hræsnara sem heimta höfuð núna. Varnarmaður tekur á honum, hann fellur, dómarinn dæmir, end of story.
  Svona er að vera á toppnum en mér leiðist það ekki 🙂

  YNWA

 19. Liverpoolaðdàendur. Takk kærlega fyrir málefnalegar og fjörugar umræður hér á síðunni. Við erum líka sem hópur það þroskuð að við gerum ekki lítið úr öðrum liðum eða aðdáendum þeirra. Berum virðingu fyrir öllum. Eins og þú bendir á nr #30 þá eru Liverpoolaðdàendur ekki með mikinn gorgeir og er það vel og höldum því áfram. Góðar stundir.

 20. Frábær og verðskulduð staða hjá okkar liði, toppsætið er okkar. Frábær leikur og þvílíkt jafnvægi sem er komið í þetta lið. En það er kalt á toppnum og því fær Salah að kenna á fyrir hönd liðsins. Auðvitað hefur maður séð hann rembast við að standa svona af sér en því miður gefur það sjaldnast nokkuð. Mér finnst illa vegið að okkar manni og væri gaman að eiga öll þau skipti sem hann hefði átt að fá vítaspyrnu en ekki fengið í einu myndbandi. Ég vil sjá stuðningsmenn Liverpool standa þétt við bakið á Salah og draga fram hans heiðarleika en sleppa því að draga fram verri dæmi frá öðrum leikmönnum, nóg er samt til ?
  YNWA

 21. Sælir félagar

  Árásirnar á Salah eru fyrst og fremst öfund og aumingjaskapur þeirra sem styðja lið sem eru í vondum málum. Liverpool hefur ekki fengið dæmda vítaspyrnu misserum saman og svo eru vesalingar að æsa sig yfir vítaspyrnu sem breytti engu um leik sem Liverpool hafði algerlega í hendi sinni. Það var togað í öxlina á honum og hann missti jafnvægið og var þar með búinn að missa af boltanum. Augljóst brot og vítaspyrna eðlilegur dómur. Allt annað er kjaftæði og öfund.

  PS: ég bið afsökunar á óteljandi villum í status hér nokkuð fyrir ofan. Hamingjuæsingurinn var bara svo mikill að ég tók ekki eftir þessu fyrr en ég var búinn að senda þetta inn 🙂

  Það er nú þannig

  YNWA

 22. Nú er Moreno byrjaður að tjá sig um auma framkomu í sinn garð og fá tækifæri…..

  Hann er bara ekki nægilega góður og ef hann fær séns hjá öðrum klúbbi þá bara óska ég honum alls hins besta þar og fjarri okkur,því hann er ágætis leikmaður en vantar gæðin fyrir titilbaráttur eins og sást gegn Sevilla hér um árið.

  Annars ef ég horfi á leikinn gegn Newcastle þá átti vörnin hörkuleik og ég held að ég hafi aldrei verið eins rólegur og í gær – þeir hefðu ekki skorað gegn okkur þó svo að liðin hefðu spilað til miðnættis.VVD og Lovren voru óaðfinnalegir og Henderson var solid.

  City tapar og nú er spurningin hvort að þeir séu svona svakalega háðir Fernandinho á miðjunni,því liðið virkar mjög brothætt án hans.

  Arsenal næst og ef við komumst í gegnum hann þá erum við í dauðafæri á að ná 7-10 stiga forskoti fyrir leikinn gegn City og ef stig næst þar þá er liðið komið í afar vænlega stöðu í deildinni.

 23. Frábær leikur og frábært lið. Tímabilið hálfnað og frábær staða.

  Varðandi Salah, þá var “snerting” en hann lét sig klárlega detta. En fyrrnefnd snerting truflaði Salah og minnkaði líkurnar á að hann næði að klára færið sitt og ef hann hefði staðið og reynt áfram þá hefði hann örugglega ekki fengið neitt dæmt, það höfum við fengið að sjá áður. Ef þetta hefði verið leikmaður Newcastle sem hefði fengið víti með þessum hætti þá held ég að flestir séu hér sammála um að okkur hefði þótt það afar ósanngjarnt. En hvað er það rétta að gera, leyfa varnarmönnum að djöflast í manni án þess að dómarar sjái að um brot sé að ræða eða ýkja minni “brot” til að reyna að fá dæmt? Skiptar skoðanir á því sjálfsagt.

 24. Þetta vítaspyrnudómur var bara réttur. Það var snerting þarna og ekki var Newcastle leikamaðurinn að æsa sig mikið.
  Linker talaði um þetta í Match of the day í gær. Hann sagði bara að varnamaðurinn á ekki að gefa möguleika á því að dómarinn geti dæmt á hann brot í teignum. Hvers vegna var hann að toga í Salah? Algjör óþarfi og þess vegna vissi hann alveg upp á sig skömmina.

 25. sælir felagar hef verið að pæla afhverju erum við að fá Arsenal svona snemma í seinni umferðinni þegar við spiluðum við þá í 11 umferð??

 26. 8 dagar frá sí?asta gullkasti. Á madur ekkert von á einu fljótlega? 🙂

 27. vá maður.. djö væri það sætur draumur ef við vinnum bæði arsenal og city.

  maður má láta sig dreima af og til 🙂

 28. Sá það að menn vilja lyfta silfrinu í vor en ég óska nú frekar eftir gullinu fyrir efsta sætið.

  Ekki vil ég silfur sjá
  sjálfur vil ég gullið.
  Það er alveg af og frá
  að hlusta á bullið.

  YMWA

 29. Hvílík gleði alla daga og stolt, vitum það allra best að það er ekki neitt í hendi en við njótum hvers leiks. Ýmislegt að breytast hjá félaginu og langar að minnast á tvo vinnuhunda. Hendu farinn að skjóta að marki einsog í gamla daga vonandi þýðir þetta að hann sé laus við þessi ristameiðsli sem hafa verið að plaga hann og kannski fáum við aðsjá tæklingar á næstunni. Bobby okkar að breyta um stöðu og þá stíl, það gerist ekki á einni nóttu en oft verið minnst á þetta hérna. Þetta tekur smátíma en eitt hef ég séð að þegar hann er að missa boltann aðeins of langt frá sér og jafnvel tapa honum þá gerist oft eitthvað uppúr pressunni á eftir og þá meina ég jákvætt en þessir tveir eru nú smá uppáhalds hjá mér eftir að hafa sép vinnslun ahjá þeim á vellinum. Í lokin áramóta og jólakveðjur til allra hér með smá ósk um að fara frá línu hér inn frá Halli já smá pælingar takk.

Liðið gegn Newcastle

Gullkastið – Hálfleikur