Toppbaráttan

Þegar spilað er svona þétt gefst jafnan ekki mikill tími til að fjalla um annað en síðasta leik og þann næsta. Núna er smá svigrúm og í tilefni af því að við eigum United næst er ekki úr vegi að skoða aðeins stöðuna á toppliðunum fyrir jólatörnina.

Man City

Rétt eins og maður óttaðist ætlar Man City ekkert að gefa eftir í vetur þó þeir hafi vissulega tapað síðasta deildarleik. Eftir jafnteflið á Anfield unnu þeir sjö leiki í röð og eru núna stigi á eftir Liverpool sem hefur aldrei byrjað tímabil betur í sögu félagsins. Þeir voru hinsvegar með fimm stigum meira á þessu stigi á síðasta tímabili sem var jöfnun bestu byrjun sögunnar. Þetta lið er engu að síður ekki ósigrandi og ef maður ber saman hópinn hjá Liverpool og City skilur ekki svo mikið að.

Eins og staðan er núna er enginn í vörn Man City sem við myndum skipta við þá á einhverjum úr okkar varnarlínu. Það skilur ekki mikið á milli þarna en við erum með Kompany á hátindi ferilsins í Virgil van Dijk. Laporte og Stones eru mjög góðir en Gomez og van Dijk eru svakalegir líka.

Eins og staðan er núna er ekki markmaður til í heiminum sem við myndum skipta á og Alisson. Oblak, De Gea og Neuer þ.m.t.

Trent Alexander-Arnold tekur sæti Kyle Walker í landsliðinu eftir 1-2 ár max og Robertson stenst mjög vel samanburð við Mendy sem vissulega hefur verið mjög óheppinn hjá City.

Man City er einum Jorginho færri á miðjunni en þeir ætluðu að vera í vetur og eru aðeins að tefla djarft þar núna þegar leikjaálagið er að aukast. Fernandinho er ekkert að gera merkilegri hluti en Wijnaldum það sem af er vetri. Bernanrdo Silva hefur verið frábær og er ofan á í samanburði við Milner en það munar ekkert svakalega á þeim tölfræðilega. David Silva er síðan Rolls Royce og smellpassar í lið Guardiola en á meðan hann er að nálgast síðustu metrana eigum við mann framtíðarinnar í Keita. Gundogan er geggjaður kostur á bekknum rétt eins og Fabinho en jafnan mjög tæpur á meiðslum.

De Bruyne er auðvitað aðalmaðurinn hjá þeim og stærsti factorinn sem skilur þessi lið að held ég en við erum að nálgast jól og hann hefur spilað innan við 90 mínútur.  Coutinho hefði unnið upp á móti honum sem og auðvitað Ox að einhverju leiti en rétt eins og var vitað í haust vantar Liverpool einn í viðbót í svipað hlutverk og De Bruyne leysir hjá City.

Sóknarlína Man City hefur byrjað þetta mót í fluggír með Sterling, Sané og Aguero en rétt eins og með varnarlínuna myndi ég ekki skipta á neinum þeirra fyrir okkar sóknarlínu í augnabilkinu. Sterling og Mané eru sambærilegir, Firmino og Aguero eru mjög ólíkir en svipað mikilvægir sínum liðum á meðan við tækjum Salah allann daginn framyfir Sané sem er vissulega einnig geggjaður leikmaður. Þetta er það jafnt að líklega myndu flestir stuðningsmenn City ekki vilja skipta heldur nema auðvitað á Salah. Hann sker á milli sóknarlega rétt eins og De Bruyne á miðjunni.

Hópurinn hjá Man City kostaði miklu meira en hópurinn hjá Liverpool og þeir eru á miklu hærri launum, þeir eiga að vera með betri hóp en Liverpool en með því að bera þetta svona saman sjáum við að munurinn er ekki svo rosalegur.

Tottenham

Alltaf tekst þeim að sigla pressulaust í Meistaradeildarsæti án þess að mikið sé spáð í þeim yfir tímabilið. Þeir fá líklega ekki allt það hrós sem félagið á skilið en á sama tíma hjálpar það þeim að spila án sömu væntinga og gerðar eru til hinna liðanna. Stuðningsmenn Arsenal voru að verða geðveikir á því að enda alltaf í 4.sæti án þess að komast ofar en það. Liverpool kemst loksins í Meistaradeildina og krafan er að sjálfsögðu á að vinna hana. Man Utd og Chelsea stoppa jafnan ekki lengi við utan Meistaradeildarsætanna. Spurs er ennþá að festa sig í sessi meðal toppliðanna og væntingar stuðningsmanna eru ekki ennþá á sama stað og hjá hinum liðunum.

Tottenham byrjaði þetta tímabil með smá forskot að því leyti að þeir breyttu hópnum ekki neitt í sumar og byrjuðu frá fyrsta leik með lið sem þekkti hvað til var ætlast. Þetta er eitthvað sem gæti bitið þá í rassinn þegar líður á tímabilið en þeir hafa leyst öll meiðslavandræði vel það sem af er og Pochettino virðist eiga a.m.k. tvo leikmenn í hverri stöðu sem hann treystir og þekkja sitt hlutverk. Líklega var aðalmálið fyrir Tottenham í fyrra að halda öllum sínum leikmönnum og stjóranum, mikilvægara en að kaupa nýja leikmenn.

Það var klárlega enginn að spá því í haust að Tottenham myndi byrja mótið betur en þeir hafa nokkurntíma gert í Úrvalsdeildinni og Liverpool og Man City með sínar ofurbyrjanir á tímabilinu eru bara fimm og sex stigum á undan eins og staðan er núna. Þetta gæti breyst hratt á næstu vikum enda á Liverpool þrjá stórleiki í næstu fimm umferðum.

Man City og Liverpool eru ekki í neinu tveggja hesta kapphlaupi um titilinn á meðan Spurs fylgja á eftir í kjölsoginu.

Chelsea

Það er svipað með Chelsea og Tottenham að á meðan þeir eru aðeins átta stigum á eftir er ekki hægt að afskrifa þá úr titilbaráttunni strax. Chelsea hafa oft á tíðum verið gríðarlega sterkir í vetur þó við höfum líklega ekki séð nema brot af því sem Sarri hyggst gera með þetta lið og getur gert með þetta lið.

Liverpool þurfti geggjað mark frá Sturridge og tvær einn á einn markvörslur frá Alisson til að fá eitthvað á Brúnni og þeir voru fyrsta liðið um síðustu helgi til að vinna Man City og gerðu það með stæl. Þetta lið er mikið til byggt upp af meistaraliðinu 2017 og er að mínu mati alvöru sóknarmanni frá því að vera með sigurstranglegir á ný. Sarri náði að búa til heimsklassa markamaskínur úr Higuain og Mertens hjá Napoli rétt eins og hann gerði á minni skala hjá Empoli. Hann virkar smá eins og Klopp hvað þetta varðar sem er einmitt að gera það sama með Salah núna og hann gerði með Aubameyang og Lewandowski hjá Dortmund. Það verður því spennandi að sjá hvað Sarri gerir þegar hann kaupir leikmann í stað Morata og Giroud.

Sarri er ekkert búinn að stimpla sinn leikstíl inn hjá Chelsea og virkar stundum eins og kjáni með Kanté “úr stöðu” og Jorginho í vandræðum varnarlega. Þetta er eitthvað sem hann á pottþétt eftir að fínpússa og ég bíð ekki í þetta Chelsea lið þegar Jorginho og Kanté finna taktinn saman. Rétt eins og hjá Klopp virðist vera mjög erfitt að vera miðjumaður í Sarriball en hann með það mikil gæði í hópnum hjá Chelsea að það er bara tímaspursmál hvenær liðið smellur fyrir alvöru.

Arsenal

Arsene Wenger var hættur að ná því besta út úr leikmönnum Arsenal og hefur virkað frekar gamaldags undanfarin ár. Prófessorinn sem gjörbreytti enska boltanum var kominn fram yfir síðasta söludag. Það þíðir að þessi hópur átti töluvert meira inni og er að sýna það í vetur. Unai Emery var ekki í öfundsverðri stöðu að taka við af Wenger sem hefur verið rúmlega tvo áratugi hjá Arsenal en á móti er ekki nærri því nálægt eins mikil pressa á honum og var t.d. á Moyes þegar Ferguson hætti. Væntingar stuðningsmanna Arsenal voru hóflegar fyrir þetta tímabil og góð byrjun hefur hjálpað Emery mikið við að vinna þá strax á sitt band.

Ferguson hætti með titli og skildi eftir lið sem var komið á tíma að einhverju leiti. Hann fór upp í stúku og var mættur á flesta leiki fljótlega eftir að Moyes tók við og hafði örugglega sitt að segja bak við tjöldin á meðan Wenger hefur ekki sést í London. Það var enginn til í að gefa Moyes tíma enda áttuðu sig flestir fljótlega að hann var þeirra Hodgson.

Emery kemur að þessu leiti svo gott sem pressulaus til Arsenal og þarf ekkert að breyta öllu strax til að ná meiru út úr liðinu. Hjálpar honum líka að Gazidis er líka hættur og í staðin fékk Arsenal einn af þeim sem séð hafa um innkaupin hjá Dortmund til að vinna með nýjum stjóra. Þar koma líka inn ferskir vindar í félagið sem var líklega ekki síður mikilvægt en að skipta um stjóra.

Sumarglugginn var ekkert geggjaður en í Torreira virðast þeir loksins hafa keypt alvöru varnartengilið sem þetta lið hefur öskrað á undanfarin ár. Sóknarlínan síðasta vetur var nógu góð til að vinna titla en spurningamerkin eru aftast.

Arsenal er líka bara átta stigum á eftir Liverpool og í sama séns og Chelsea og Tottenham þannig séð. Ég á samt ekki von á því að þeir blandi sér í titilbaráttuna en Meistaradeildarsæti gæti alveg náðst og þeir ættu að vera sigurstranglegir í Europa League. Emery þekkir vel að vinna þá keppni.

Man Utd

Síðasta sumar fannst manni eins og Mourinho væri að reyna að láta reka sig. Hann lét eins og Donald Trump á öllum blaðamannafundum og virtist vera byrjaður að afsaka slæmt gengi liðsins áður en tímabilið hófst. Fullkomlega galið hjá stjóra sem fengið hefur að eyða mestum fjárhæðum í knattspyrnusögunni í leikmenn.

Manchester United er með dýrasta leikmannahóp deildarinnar hvað kaupverð varðar og mesta launakostnaðinn. Þeir ásamt Man City skera sig m.a.s. töluvert úr öðrum liðum hvað þetta varðar. Þannig að það ætti ekki nokkur maður að hlusta á þetta Donald Trump esq væl í Mourinho og ef að Wenger virkaði gamaldags hvað má þá segja um Mourinho núna? Hann er bara ennþá í Rich Tony Pulis tveggja hæða rútu leikstílnum.

Berum aðeins saman hóp United við Liverpool og miðum (upp að vissu marki) við spilaðar mínútur í vetur.

Það er slatti af leikmönnum þarna sem virka sem hræðileg peningasóun en hvað á stjóri liðsins stóra sök þar? Hann hefur alltaf fengið gríðarlegt forskot á keppinauta sína á leikmannamarkaðnum og jafnan lent í veseni þegar einhver fær úr svipað miklu að moða. Samkeppninni á Englandi núna er bara miklu harðari en þetta vanalega tveggja hesta kapphlaup og eins og staðan er núna er Mourinho í sjötta sæti (í þessu tveggja hesta kapphlaupi).

Alisson hefur fengið á sig sex mörk í deildinni á meðan De Gea hefur fengið á sig 26 mörk. Já og viti menn, hann fer að virka klaufskur um leið og vörnin er ekki jafn solid og hún var fyrir framan hann. Hlaut reyndar að koma að því að De Gea dytti úr þessu superhuman mode sem hann hefur verið í undanfarin ár en sanniði til, hann mætir eins og Neo í markið um helgina spilar eins og hann sé með átta hendur.

Eitthvað held ég að Mignolet og Karius blóti í hljóði þegar þeir sjá þann varnarleik sem Alisson býr við núna. (Ekki misskilja samt, við værum með 12-14 mörk fengin á okkur núna í deildinni með Mignolet í markinu og klárlega í Europa League).

Liverpool er með dýrasta miðvörð í heimi og næstdýrasta markmann en varnarlína liðsins er samt mun ódýrari en hjá United. Jafn mikið og Mourinho grenjar fyrir meiðslavandræðum í vörninni er hann með sex viðurkennda miðverði á launaskrá sem allir kostuðu sitt. Lidelof og Bailly kostuðu svipað og Van Dijk. Undanfarin ár hefur United keypt Bailly, Lindelof, Dalot, Rojo og Darmian þannig að þeir hafa alveg sett pening í vörnina. Ég myndi ekki skipta á neinum frá þeim og varnarlínu okkar og tæki Lovren líka á undan því sem er í boði hjá United. Held samt að mjög margir í þessum hópi næðu sér mun betur á strik hjá Klopp en þeir eru að gera núna.

Á meðan við keyptum Fabinho í sumar keypti United Fred á mun hærri fjárhæð. Matic og Pogba kostuðu €150m samanlagt. Fellaini og Mata aðrar €77m og Herrera €35m. Samanlagt eru þetta sjö miðjumenn sem kostuðu samanlagt €320m. Okkar sjö (ef við teljum Ox með) var ekkert gefins heldur en kostaði bara €217m. Þar af fór langmest í Keita og Fabinho sem við eigum mikið til ennþá alveg inni. United helfur heldur ekki þurft að selja leikmenn á móti sem þeir vilja ekki missa öfugt við Liverpool.

Það er rannsóknarefni hversu litlu Mourinho er að ná út úr Pogba og umræðan í kringum það er á villigötum held ég. Pogba sýndi alveg hvað hann gat hjá Juventus og verðmiðin sagði til um það. Hann var lykilmaður í heimsmeistaraliði Frakka í sumar en kemst svo varla í liðið orðið hjá liði með þessa miðju? Þetta er eini leikmaður United sem ég tæki í sameiginlegt byrjunarlið liðanna eins og staðan er núna. Matic væri þar kannski líka á eðlilegum degi.

Stríð Mourinho og Pogba er samt ekki það versta hjá Mourinho heldur Alexis Sanchez. Hann ætti m.v. hæfileika og laun að vera besti leikmaður liðsins en hefur verið hálfgerð grínfígúra eftir að hann kom til United. United á verulega mikið inni í þeim leikmanni og líklega væri hann lykilmaður undir stjórn Klopp.

Eins og hefði mátt vera ljóst strax í sumar er þetta aðeins tímaspursmál hvenær United losar sig við Mourinho, hvort sem það verði núna fyrir áramót, þegar þeir detta úr leik í Meistaradeildinni eða næsta vor. Rétt eins og þegar Moyes og Van Gaal voru við stjórnvölin óttast ég næsta mann því þetta lið á nóg inni. Bæði þessi hópur sem þeir eru með núna auk þess að það er nokkuð ljóst að næsti maður mun fá að versla eitthvað. Nóg hefur hann til að losa sig við í staðin.

Þetta er harðasta toppbarátta sem við höfum séð í einhverntíma og gaman að vera á toppnum. Vonandi verðum við það áfram á mánudaginn.

 

 

3 Comments

  1. Takk fyrir þetta. Sannarlega rosaleg toppbaráttan þetta árið og Liverpool svolítið óheppið að svona mörg önnur lið eru að ná svakalega góðum árangri. Ég er svosem ekki alveg viss en það hefur örugglega ekki gerst oft að 5 lið séu með meira en 2 stig að jafnaði í leik.Í fyrra enduðu þrjú lið með meira en 2 stig í leik og okkar lið rétt neðan við það.
    Varðandi liðin og ef maður reynir að líta hlutlaust á stöðuna. Sammála því að MC sé með rosalegt lið en finnst einhvernveginn að þeir eigi ekki mikið inni. Finnst miklu frekar að Chelsea og ekki síður MU eiga eitthvað inni. Miðað við mannskap og kostnað þá getur MU varla verið lakari en þeir hafa verið að sýna í vetur. Spurs kemur mér alltaf á óvart en ef maður skoðar mannskapinn þá á árangurinn ekkert að koma á óvart. Síðan er það Arsenal, já Arsenal, gott lið en ekki það besta.
    Niðurstaðan er því sú að okkar lið er fullkomlega samkeppnishæft við þau bestu.

Gullkastið – Álíka þægilegt og að skíta gaddavír

Rauðu djöflarnir kíkja í heimsókn