Borgarslagur um helgina

Í lokaleik helgarinnar á sunnudaginn munu bláliðar í Everton kíkja yfir á Anfield í von um að gera betur en undanfarinn ár. Rauði herinn mætir til leiks eftir vonbrigðakvöld í París með áframhaldandi Meistaradeildarþátttöku á bláþræði og þurfa gíra sig upp í borgarslag gegn Everton en þeir bláu eru að eiga gott tímabil með þá Gylfa og Richarlison að draga vagninn. Þrátt fyrir það eru Everton ellefu stigum á eftir Liverpool fyrir helgina og vonandi verða þau fjórtán á sunnudagskvöldið!

Það hefur gegnið illa hjá Everton að sækja sigur á Anfield, í vikunni var talað um hversu mörg börn hefðu fæðst síðan Lukaku skoraði síðast á Old Trafford en það hafa um 2,5 milljarður barna fæðst síðan Everton vann síðast á Anfield sem mun vera í september 1999. Sú viðureign fór 1-0 fyrir Everton en er þó frekar minnst fyrir það að þrjú rauð spjöld voru í leiknum og þurfti Steve Staunton að verja mark Liverpool síðasta stundarfjórðungin í leiknum eftir að Westerveld fékk rautt og Liverpool búið að nota allar skiptingar. Þá var lagið Blue með Eiffel 65 á toppi vinsældalistans.

Auk þess hefur aðeins einn nýr stjóri Everton tekist að vinna sinn fyrsta leik á Anfield í sögu félaganna og vonandi verður það ekkert öðruvísi í fyrsta leik Marco Silva þar þó hann sé eini stjórinn í ensku úrvalsdeildinni sem Klopp hefur mætt oftar en einu sinni en ekki tekist að sigra.

Af okkar mönnum er það frétta að fyrirliðinn er í leikbanni eftir heimskulegt brot gegn Watford um síðustu helgi annars ættu allir að vera heilir fyrir utan Alex Oxlade-Chamberlain. Eftir staða miðju okkar manna í síðasta leik gæti verið jákvætt að fá annaðhvort Shaqiri eða Keita inn á miðjuna til að hjálpa til við að tengja miðju og sókn og koma með meiri ógn af miðjunni en ég hefði samt viljað sjá Henderson á miðjunni gegn Everton. Hinn höfuðverkurinn er hvort Dejan Lovren eða Trent Alexander-Arnold byrji í vörninni en ég býst við að sjá þann síðar nefnda bæði vegan þess að hann kemur með meiri ógn úr bakverðinum og Gomez hefur verið betri í miðverðinum en í bakverði. Ég býst því við að sjá liðið svona

Alisson
Trent – Gomez – Virgil – Robertson

Milner – Winjaldum – Keita

Salah – Firmino – Mané

Everton byrjaði tímabilið frekar óstöðugir og eftir sex leiki voru þeir aðeins með sex stig en Silva breytti þá aðeins til, færði Richarlison fram og setti Bernard á vinstri kantinn og meiri stöðugleiki í vörninni hefur gert gæfumuninn og sitja þeir nú í sjötta sæti deildarinnar með Gylfa Þór Sigurðsson á eldi í síðstu leiknum og hefur honum ekki leiðst að skora gegn Liverpool í gegnum tíðina. Líkur eru á því að Everton stilli svona upp

Pickford
Coleman – Mina – Keane – Digne

André Gomes – Gueye

Walcott – Gylfi – Bernard

Richarlison

Spá

Ég geri ráð fyrir mjög erfiðum leik en býst við sigri. Everton kemur inn í leikinn af krafti og Liverpool mun veðra strominn og komast yfir um miðjan fyrri hálfleik með marki frá Mo Salah, svo bætir Mané einu við undir lokinn í 2-0 sigri. Talaði áðan um lagið sem var efst á vinsældalistanum þegar Everton vann síðast á Anfield og ég vonast til þess að eftir þennan leik getum við vitnað í lagið sem er efst um þessar mundir Thank you, next

10 Comments

 1. Þess má svo geta að þetta verður tvöfaldur derby-dagur, því fyrr um daginn mun kvennaliðið heimsækja Everton.

 2. Á förnum vegi var ég spurður út í það hvers vegna Liverpool mun ekki tapa fyrir Everton. Nú auðvitað svaraði ég að bragði að það væru allavega þrír sem bera á sig andarnefjuolíu. Agi verður að vera í hernum. Og nú og jæja þannig verður það bara að vera. Ætli þetta verði ekki 3-0 en ef það verður 3-1 þá sveiattann.

 3. Liverpoolaðdáendur til hamingju með 1. des sem ætti í raun að vera þjóðhátíðardagur íslendinga.
  Ánægður með þessa ábendingu hjá þér Steini varðandi að vera á eldi. Eitthvert mesta orðaskrípi sem ratað hefur hvað eftir annað í munn manna og einnig á prent. Ætti jafnvel að banna með lögum og vona ég að það sjáist aldrei oftar á okkar góðu kop síðu.
  Leikurinn, já leikurinn einn af tveimur aðalleikjum tímabilsins. Sannarlega stóru dagarnir þegar þessi tvö lið mætast. Þrátt fyrir að þetta séu okkar höfuðandstæðingar þá hefur mér aldrei líkað neitt illa við Everton og vona yfirleitt að þeim gangi vel nema að sjálfsögðu gegn Liverpool. Í raun fundust mér það góðir dagar þegar þessi tvö lið voru til nokkurra ára á níunda áratug síðustu aldar númer eitt og tvö. Í dag er Evertonliðið bara hreinlega hörkugott og virðist Gylfi vera að ná því besta um þessar stundir. Vonandi verður hann þó rólegur á morgun og gerir ekki neinar rósir. Einhverntímann hefði ég verið rólegri yfir þessum nágrannaslag en nú þarf allt að ganga upp til að 3 stig komi. Því má heldur ekki gleyma að í núverandi toppbaráttu má heldur ekki glutra svona leik niður í jafntefli.

 4. Af hverju er fólk hérna svona rosalega smámunasamt um málfar og ritmál? Ég skil þetta ekki.

  Mér finnst allir pennarnir hjá Kop.is ákaflega góðir og með vönduð vinnubrögð. Allir hafa sín einkenni og ég tek oft eftir því, án þess að kíkja, hver skrifar hvað. Ég er reyndar mikill áhugamaður um íslenska tungumálið okkar og vinn sem kennari og er í kennaranámi.

  Það er nú reyndar viðurkennt að tungumál almennt eru ávallt í þróun og undir erlendum áhrifum. Íslenskan er sérstaklega mikið undir áhrifum enska tungumálsins enda vilja fræðimenn skilgreina enskuna sem okkar annað mál. Ég veit það ekki en svo framarlega sem fólk skrifar ensku áhrifin á okkar ylhýra íslenska máli þá finnst mér þetta nú bara allt í hinu fínasta.

  Ég bý í Noregi og hef gert í mörg ár. Það er svo greinilegt að erlend áhrif hafa náð miklu meira inn í önnur tungumál en í íslenskuna okkar. Vissulega er gott að fólk sé vakandi og vari við erlendum áhrifum, eins og hér var gert en við megum samt ekki vera bókstafstrúar í þessum efnum. Íslenska málstefnan ætti að nægja okkur og passa upp á að varðveita okkar fallega og menningarríka tungumál. Málstefnan hefur gert það með góðum árangri hingað til.

  Annars vinnum við þennan leik 3-1.

 5. Sæl og blessuð.

  Það er ekki laust við að maður sé orðinn svolítið áttvavilltur. Nú er krafan hávær um að þörf sé á ,,skapandi miðjumanni” og jafnvel er látið í veðri vaka að með brotthvarfi aðstoðarm. Klopps hefði allt farið á verri veg. Það er nú reyndar fátt sem bendir til þess sé litið á stöðu liðsins í deildinni en hitt er laukrétt að spilaflæðið er allt annað – en á köflum í fyrra og vel má vera að hásin Chambos beri þar einhverja ábyrgð.

  En, já, þrjú töp á útivelli í CL og allt þar í járnum er ekki það sem maður hefði kosið. Á hinn bóginn er frammistaðan í PL sú besta frá því að ömmur elstu manna geta rifjað upp og því er ekki beinlínis tilefni til krísufunda meðan svo er háttað.

  Það skrifast reyndar sem stór harmur fyrir okkar lið að Rogers skyldi ekki á sínum tíma klára Gylfadæmið. Sá hefði passað inn í okkar lið m.v. ofangreint. Langskot og stoðsendingar — tékk og ég get ekki séð betur en að hlaupagarpurinn Gylfi myndi lyfta brúnum á JK og co. Nú er hann á leið í heimsókn og ég óttast að hann verði okkur erfiður. Held að hann verði besti maður vallarins og ótvíræður vitnisburður um að við þurfum að fara að huga að ,,skapandi miðjumanni” – nema að Keita fari að sýna af hverju hann var fenginn inn í liðið. Það er nú kominn tími til.

 6. Gylfi er ekki nógu góður fyrir stórlið. Honum hentar mun betur að vera stór fiskur í lítilli tjörn. Ef hann hefði komið til Liverpool á sínum tíma þá hefði örugglega gerst nákvæmlega það sama og hjá Spurs. Dottið út úr liðinu og ekki náð að vinna sig tilbaka.
  Everton er geggjað lið fyrir hann að vera í.
  En ég verð samt að segja að þetta er slakasta upphitun sem ég hef séð fyrir þennan borgarslag.

 7. Það er eins og JK segjir, að Everton er með besta lið sem hann hafi séð eftir að hann kom til LFC, held það geti verið mikið til í því. En undir eðlilegum kringumstæðum er LFC á mun hærra leveli og á að taka þennan leik 2-0.

  YNWA

PSG 2 – 1 Liverpool

Everton – Liverpool í kvennadeildinni