Watford 0 – 3 Liverpool

Mörkin

0-1 Salah (67. mín)
0-2 Trent (76. mín)
0-3 Firmino (89. mín)

Leikurinn

Leikurinn fór nú frekar rólega af stað, og það má segja að fyrsta hálftímann hafi nánast ekkert markvert gerst, nema þá einna helst að Watford náðu að koma boltanum í netið en markið var réttilega dæmt af vegna rangstöðu. Síðasta korterið lifnaði aðeins meira yfir leiknum, og eitthvað af færum leit dagsins ljós. Alisson þurfti tvisvar að grípa inn í og gerði það vel, og okkar menn fengu alveg nokkur hálffæri og jafnvel 3/4 færi en ekkert sem gaf af sér mark.

Í síðari hálfleik æstust leikar ögn. Robertson slapp afar vel þegar Will Hughes féll rétt innan teigs, Moss dæmdi ekkert en ég hugsa að ef þetta hefði gerst hinu megin vallarins hefðum við alveg kallað eftir því að fá víti. Henderson fékk svo ódýrt gult spjald á 60. mínútu, sem allajafna væri varla þess virði að minnast á, en reyndist vera afdrifaríkt. Spjaldið var ódýrt að því leyti að Success og Henderson voru að slást um boltann, og það var alveg togað hressilega í peysuna hjá Hendo, það varð svo til þess að Watford leikmaðurinn var við það að sleppa í gegn, og þá var svosem lítið annað fyrir Henderson að gera en að taka manninn niður og taka á sig gult spjald. Það var svo á 67. mínútu að okkar menn áttu gott upphlaup, Firmino með hárnákvæma sendingu á Mané sem læddist framhjá vörninni vinstra megin, gaf sendingu inn í teig í lappirnar á Salah sem átti skot á markið, og boltinn lak undir Foster í markinu. Á 74. mínútu fór svo Shaqiri af velli en Milner kom inná, og þá var skipt í hefðbundnara 4-3-3 með Mané og Salah sitt hvoru megin við Firmino. Shaqiri var varla sestur á bekkinn þegar liðið vann aukaspyrnu ca. 5-10 metra fyrir framan vítateig Watford. “Þarna hefði nú Shaqiri heldur betur getað látið ljós sitt skína” hugsaði undirritaður, en það kom ekki að sök að hann væri nýkominn í æfingagallann. Upp steig Trent Alexander-Arnold, átti fasta spyrnu sem sigldi yfir hægra horn varnarveggsins og þaðan í netið, Foster reyndi ekki einu sinni að skutla sér. Þarna var staðan orðin 0-2, sem verður að teljast mun þægilegri staða heldur en 0-1. Fjórum mínútum síðar fengu Watford aukaspyrnu úti við hliðarlínu eftir einhver átök Henderson við Watford liða, og fyrirliðinn okkar fékk tiltal frá Moss, greinilegt að hann sagði honum að nú yrði hann að passa sig enda á gulu spjaldi. Ekkert gerðist upp úr aukaspyrnunni, okkar menn fóru í sókn en misstu boltann skömmu síðar, og þegar Watford ætluðu aftur í hraða sókn hljóp Hendo einn þeirra manna niður og var dæmdur brotlegur. Það vissu allir – og þar á meðal Henderson sjálfur – hvað myndi gerast, enda reif hann af sér fyrirliðabandið og hljóp í áttina að búningsklefunum á meðan Moss lyfti seinna gula spjaldinu og þar með því rauða. Þetta kallaði á endurskipulagningu hjá Klopp, svo Salah var tekinn af velli nokkrum mínútum síðar og Fabinho kom inn á. Síðustu mínúturnar sóttu svo Watford stíft, enda klárt mál að þeir sáu möguleika á að jafna verandi einum fleiri. En eftir eina sóknina náði Wijnaldum boltanum af harðfylgi rétt fyrir utan okkar teig, gaf fram á Robertson sem spændi framúr tveimur Watford mönnum, hljóp inn í teig, var reyndar rétt svo búinn að missa boltann frá sér en náði að gefa á Mané sem átti skot sem Foster varði, en ekki lengra en til Firmino sem var réttstæður og skallaði í netið. Staðan 0-3 og formsatriði að klára leikinn, bara spurning hvort það næðist að halda hreinu. Það tókst sem betur fer, og í raun hefði ekki komið neitt svakalega á óvart þótt fjórða markið hefði komið í uppbótartíma, jafnvel þó svo að Firmino væri þá farinn af velli fyrir Matip, og Mané eini eiginlegi sóknarmaðurinn sem var eftir.

Jákvætt

Klárlega jákvætt að hafa bætt 3 stigum í sarpinn, enda nauðsynlegt þar sem City unnu West Ham á sama tíma. Þá var einnig jákvætt að hafa náð að skora 3 mörk, sérstaklega var gott að Trent skyldi ná að setja eitt, vonandi verður það til að bæta sjálfstraustið hjá kappanum. Annars átti hann bara ágætan leik, eins og nánast flestir aðrir leikmenn liðsins. Hvað varðar val á manni leiksins, þá verður Virgil van Dijk fyrir valinu að þessu sinni. Það hefði alveg verið hægt að velja aðra, Alisson greip vel inn í þegar þess þurfti, Robertson var þindarlaus eins og venjulega á kantinum og átti stóran þátt í þriðja markinu, Salah lék vel þó svo hann hefði ekki verið mikið í boltanum, enda í gjörgæslu nánast allan leikinn, en náði samt að brjóta ísinn með fyrsta markinu.

Neikvætt

Rauða spjaldið hjá Hendo. Það má líka færa rök fyrir því að Klopp hefði átt að vera búinn að taka hann af velli og setja Fabinho inn á, sérstaklega eftir tiltalið frá Moss. Mögulega var slíkt í kortunum, en gafst ekki tími til þess. Þar sem þetta var ekki beint rautt heldur tvö gul verður leikbannið væntanlega aðeins einn leikur, en það er reyndar derby-slagur gegn Everton um næstu helgi, og það er klárlega leikur þar sem væri betra að hafa möguleika á að spila fyrirliðanum. Hinir bláklæddu koma inn í þann leik eftir 1-0 sigur á Cardiff með mark frá Gylfa, og verða örugglega viðskotaillir.

Umræðan eftir leik

Liðið er nú búið að slá metið yfir besta árangurinn í deildinni eftir fyrstu leikina. Taplaust, aðeins búið að fá á sig 5 mörk í deild, og ef síðustu 38 leikir eru skoðaðir hefur liðið aðeins fengið á sig 25 mörk í þeim leikjum. Vissulega var liðið ekkert frábærlega sannfærandi í fyrri hálfleik, en eins og marg oft hefur komið fram skiptir það litlu máli á meðan úrslitin eru að falla okkur í hag. Þess verður líka að geta að Watford voru afskaplega vel skipulagðir varnarlega, og beittu svo skyndisóknum. Það er svosem gömul saga og ný að liðið á gjarnan í erfiðleikum gegn slíkum liðum, og því afar jákvætt að það skyldi hafa tekist að brjóta andstæðingana á bak aftur í þetta skiptið.

Næsti leikur

Nú pakkar liðið saman og fer til Parísar þar sem PSG taka á móti okkur. Stóra spurningin þar verður hvort Neymar og Mbappé verði leikfærir, sjálfsagt munu Frakkarnir gera allt sem í þeirra valdi stendur til að geta teflt þeim fram. Í ljósi þess að leikurinn úti gegn Rauðu stjörnunni tapaðist er afskaplega æskilegt að tapa ekki, jafntefli myndi alveg sleppa en sigur væri auðvitað lang æskilegastur. Ef leikurinn tapast þarf víst að vinna Napoli heima með a.m.k. tveggja marka mun til að tryggja sig inn í 16 liða úrslitin.

Við gleðjumst yfir árangrinum í dag, og hlökkum til næsta leiks!

22 Comments

  1. Flottur vinnusigur. 3 stig og höldum hreinu, get ekki beðið um meira í dag. Leikurinn í dag var sigur liðsheildarinnar, mér finnst eins og liðið sé alltaf að spila betur og betur saman. Næst er það psg !

  2. Þurftum að hafa fyrir hlutunum í dag.
    En flott þrjú stig er uppskeran.
    TAA að stimpla sig inn í aukaspyrnunum og Robertson að verða minn uppáhalds leikmaður.
    Henderson…….not so much.

    Y.N.W.A

  3. Á sama tíma og við aðhangendur Liverpool sjáum liðið okkar vinna 3-0, gátu aðhangendur Man und þessvegna haft meiri unun á því að horfa á stillimyndina en á leikinn á stöð 2 sport.

  4. #2 Mér fannst Henderson góður fram að þessum tveimur atvikum. Reyndar fannst mér útgangan líka gerð með virðingarmiklum “stæl”. Í raun klikkaði hann bara á tvennu, annað var að hafa of stutt milli brota og hitt var vöntun á hógværð gagnvart dómaranum eftir fyrra brotið.

  5. Í töblunni er Man Citi 35 stig en Liverpool með 31 ég hélt þeir væru bara tveimur stigum á undan okkur, hvað er rétt ?

  6. Frábær sigur .
    Hef áhyggjur af Arnold og Henderson er enn ofmetinn. Arnold virkar kærulaus og er of hægur og líkamlega slakur, mér finnst hann líka vera latur.
    Henderson eins og venjulega , hvorki fugl né fiskur

  7. Flottur sigur og 3 stig heim með bros á vör.

    Allison að bjarna vel, vörnin nokkuð traust, Henderson/Winjaldum í vinnsluhlutverkinu og skiluðu því vel(þótt að Henderson gefur lítið af sér framá) og svo erum við með rosalega fjóra frænku þarna frami sem eru alltaf af ógna.

    Ætla ekki að drulla yfir neinn þegar liðið vinnur 0-3 útisigur gegn liðinu í 7.sæti í deildinni. Einfaldlega sáttur við strákana í dag.

    YNWA – PSG næsti leikur og svo eru það nágranar okkar næstu helgi.

  8. Ég sá ekki leikinn, en er hins vegar mjög sáttur við þessi úrslit gegn góðu liði. Miðað við einkunnir, þá var Henderson sá eini sem átti dapran leik og kemur mér ekki á óvart. Ég skil ekki ofur trú Klopp á Henderson, verandi með betri leikmenn á bekknum.

  9. Góð samantekt, sá ekki leikinn. 3 stig er auðvitað mikilvægast og gegn góðu liði. En mikið er Liverpool að keppa við öflugt lið í Man City. Þetta er nánast svindl.

    Finnst eins og Liverpool sé komið aftur á beinu brautina, þetta var mikilvægur leikur og liðið greinilega stóð sig.

    Mane með undirskrift og Bobby og Salah með mörk. Fullkomið þarna frammi. Vörnin hélt hreinu og skilaði marki. Fullkomið. Henderson er svo auðvitað bara flottur þarna á miðjunni og ég persónulega elska að hafa hann í liðinu, klaufalegt brot og leiðinlegt hann missi af Everton ef það er þannig.

    Áfram Liverpool og áfram Klopp!

  10. Einhvern daginn vona ég að við fáum að sjá Shaqiri í tíunni og gamla góða þristinn fyrir framan: Mané vinstra megin, Firmino up tops og Salah hægra megin. Þá verður veisla!

  11. Geggjaður leikur fyrrihálfleik voru menn einfaldlega að spila í sig hita það var kalt á vellinum og svona þetta var auðvelt í seinni fyrir frábært lið eins og Liverpool!

  12. City virðist ósigrandi en frábært að halda í við þá. Það kemur að því að annað hvort liðið tapar leik og þá skýrast mál. Þetta er langt frá því búið þótt MC sé svona gott. Við erum líka með frábært lið. Mér finnst leikirnir að vísu ekki jafnskemmtilegir og í fyrra – maður hefur til dæmis ekki séð snilldina eins og þegar við tókum MC 4-3, en það er meira stabilítet og það er að skila fleiri stigum þannig að maður væri fífl að kvarta. Bara mjög fáir veikleikar í liðinu. Fram til sigurs.

  13. Þetta var virkilega sterkur útisigur á móti skipulögðu liði sem er í topp tíu slagnum. Við erum á frábæru rönni en eigum samt helling inni.
    YNWA!

  14. Til hamingju með þennan sigur allir aðdáendur Liverpool. Ja, hugsa sér, menn hálfsvekktir eftir 3-0 sigur. Einhverntímann hefði það kallast rótburst og allir í skýjunum. Ég er algjörlega í skýjunum yfir þessum árangri okkar í haust en eins og ég hef sagt áður, árangurinn kemur mér bara alls ekki á óvart. Liðið okkar er verulega gott, leikjum fækkar þar sem vanmat og kæruleysi er í gangi og það allra jákvæðasta er að við eigum jafnvel leikmenn og getu inni hjá nokkrum í liðinu. Það er hreint út sagt ótrúlegt miðað við að vera með 33 stig eftir 13 leiki sem tryggir liðið næstum því örugglega í deildinni. Höldum okkur samt á jörðinni enda ekkert í húsi enn. Sjáum hvernig staðan verður eftir 19 leiki, þegar fyrri umferðin er búin, og við verðum með ca 49 stig.

  15. Fínn sigur gegn ágætu og vel skiplögðu liði með mikla orku á miðjunni og líkamlegan styrk víða.

    Virgillinn er svaðalegur. Hann er varnarlega það sem Ronaldo og Messi eru sóknarlega. Maðurinn hefur allt; líkamlega, andlega, góða tækni og leikskilning, er jafnframt leiðtogi sem gerir félaga sína betri. Besti varnarmaður í heimi eins og hann er búinn að vera að spila undanfarið.

  16. @Hjalti16

    “Höldum okkur samt á jörðinni enda ekkert í húsi enn.”

    er fólk ekki bara að gleðjast yfir góðri stöðu og eina liðið sem er að ógna City um titilinn, hef ekki séð neinn halda því fram að eitthvað sé komið hjá liðinu

  17. Sæl og blessuð!

    Þetta var stór sigur miðað við það hversu öflugir andstæðingarnir voru og margt sem hefði getað farið á annan veg.Tvennt var í lagi í okkar ástkæra liði, nú í gær: vörnin og slúttið. Hendó vinur okkar var varla skugginn af sjálfum sér og miðjan ekkert til að hrópa húrra yfir – en vörnin hélt og þeir skoruðu eins og þeim er ætlað að gera. Svo er það ráðgáta tímabilsins – hvar er keita??? og svo þegar Fab. kom inn á – þá var maður ekkert að missa vatn yfir frammistöðu hans. Hvenær fáum við að sjá það sem Klopp sá í þeim???

    Að öðru … ef við hefðum haft VvD allt tímabilið í fyrra… hvernig hefðu lyktir orðið þá? Ég var vissulega efasemdarmaður en sá tími er liðinn.

    Þótt Man. Saudi séu ógnvekjandi þá skiptir öllu að hanga í skottinu á þeim, anda niður hálsmálið, reka takkana í hásinarnar og halda þumlungi í réttri hæð. Þegar svo liðin mætast í vor þá munu þeir sækja og hver veit nema að við komum til með að hafa betur í þeirri rimmu. Það þarf ekki meira til og titillinn er okkar. Takk fyrir.

  18. #20 það verður varla komið vor þegar við mætum Man.Saudi nema þú sért að meina í CL ?

  19. Takk fyrir ábendinguna #21 en með vori var átt við vorönn, eins og þar stendur.

    Það er e.t.v. fulleinfalt leikplan: vinna alla leikina framundan! en það er bara ekkert annað sem blífur 😀

Watford – Liverpool: upphitun + leikþráður

Kvennaliðið fær Birmingham í heimsókn