Liverpool – Fulham 2-0

1-0 Salah, ´40 min
2-0 Shaqiri, ´52 min

Leikurinn byrjaði heldur rólega og það var ljóst að Fulham ætlaði að liggja til baka, líkt og Cardiff gerði. Á 15 mínútu fékk Liverpool gott færi, Salah og Firmino áttu góðan þríhyrning rétt fyrir utan teig, Salah stakk sér innfyrir vörn gestanna þar sem að Firminio fann hann í smá plássi en Rico varði vel.

Það kom kraftur í okkar menn i kjölfarið. Shaqiri átti flotta sendingu yfir vörn Fulham þar sem að Salah komst einn í gegn en skot hans úr þröngri stöðu var vel varið.

Á 23 mínútu kom þó besta færið það sem af var leiks. Rico spyrnti fram, Virgil fór kærleysislega á móti Mitrovic, án þess þó að gera einhverja alvöru atlögu að boltanum. Þarna skapaðist pláss á bakvið Virgil sem að Sessegnon nýtti sér, komst einn innfyrir eftir hik á Gomez en skaut rétt framhjá. Fimm mínútum síðar áttu gestirnir annað færi, þá var frekar slakt skot Schurrle varið beint út í teig en Virgil náði því betur fer frákastinu og hreinsaði. Alisson hefði mátt gera betur þarna.

Shaqiri átti svo fínt færi á 34 mínútu þegar að Robertson fann Mané á bakvið vörnina vinstra megin, föst fyrirgjöf hans var hreinsuð út í teig þar sem að Svisslendingurinn fékk fínasta skotfæri en frekar slakt skot hans fór framhjá.

Á 40 mínútu kom ótrúlegt atvik. Fulham tók hornspyrnu stutt, beint fyrir framan Kop stúkuna. Þaðan kom fyrirgjöf á Mitrovic sem skoraði af markteig, en markið var dæmt af sökum rangstöðu. Alisson tók aukaspyrnuna strax og sendi á Trent sem sendi boltann í fyrsta innfyrir á Salah sem var aleinn. Hann klikkaði ekki í þetta sinn og kom Liverpool í 1-0, 13 sekúndum eftir að mark Fulham hafði verið dæmt af. Ég er nú ekki búinn að sjá þetta oft í endursýningu en ég er ekkert allt of viss um að þetta hafi verið rétt, fannst Robertson mögulega spila Mitrovic réttstæðan en tæpt var það. Fáum væntanlega betri myndir af þessu þegar líður á daginn.

Ekki gerðist meira í þessum hálfleik, Liverpool ekkert ofboðslega sannfærandi í þessum hálfleik, þó við höfum vissulega verið sterkari aðilinn en Fulham átti klárlega sín augnablik. 1-0.

Shaqiri skoraði svo annað mark leiksins á 52 mínútu eftir að hornspyrna Liverpool hafði orðið ekki að neinu og boltinn borist til Robertson úti vinstra megin. Vörnin færði sig út en þeir gleymdu Shaqiri sem skoraði örugglega á fjærstönginni, 2-0 og leikurinn svo gott sem búinn! Sendingin frá Robertson var algjörlega frábær og slúttið hjá Shaqiri í fyrsta var ekki síðra.

Nokkrum mínútum síðar fannst mér að Chambers hefði átt að fá rautt spjald eftir stórhættulega tæklingu á Salah rétt fyrir utan teig en kaupi slapp með gult. Á 61 mínútu fékk Liverpool annað dauðafæri. Firmino fékk boltann frá Fabinho en beið með að losa boltann með bæði Mané og Salah að bjóða fína kosti, lagði boltann í staðinn til vinstri þar sem að Robertson kom á ferðinni en Rico varði skot hans vel og Salah var að lokum dæmdur rangstæður þegar hann fór a eftir frákastinu.

Liverpool var með mikla yfirburði í þessum leik og þá sérstaklega í síðari hálfleik. Voru s.a. 73% með boltann og ógnuðu gestirnir ekki neitt í síðari hálfleik. Þetta var klárlega ekki besti leikur liðsins þetta tímabilið, maður hefði alveg viljað sjá 2-3 mörk í viðbót og þennan heavy metal fótbolta sem við erum orðnir vanir síðustu misseri. Það er þó ekki hægt að fá allt, þetta dóminerandi 2-0 sigur er eitthvað sem við höfum  ekki átt að venjast síðustu ár. Við ættum að njóta þess að vera taplausir en ekki láta ótrúlega spilamennsku andstæðingana (Man City) eyðileggja neitt fyrir okkur. Takið eftir, Liverpool er efst í deildinni (amk þar til síðar í dag), með sinn besta stigafjölda (30), besta markamun (+18) og fæst mörk á sig (5) eftir 12 leiki síðan Enska Úrvalsdeildin var stofnuð. Það er ekki neitt neikvætt við það.

Maður leiksins

Shaqiri var virkilega góður, alltaf tilbúinn að fá boltann og reyna að láta eitthvað gerast. Virgil og Gomez voru mjög solid, þó það hafi verið smá skjálfti í fyrri hálfleik. Trent fannst mér vera svipaður og undanfarið, er ekki alveg að smella hjá honum þessar vikurnar en vonandi kemur hann til.

Ég ætla að velja tvo leikmenn sem menn leiksins, það eru þeir sem kokkuðu upp þetta fína mark í síðari hálfleik, Shaqiri og Andy Robertson. Robertson gefur okkur svo ótrúlega mikið sóknarlega, var á fullu gasi í 93 mínútur og sendingin hans á Shaqiri var algjört gull!

Umræða eftir leik
Xherdan Shaqiri. Það að við höfum fengið hann á einhverjar 12-13 milljónir punda er ekkert nema rán. Hefur verið frábær síðan hann kom til liðsins og á, að mínu mati, að byrja flesta leiki liðsins. Miðjan hjá okkur hefur bara ekki verið nægilega skapandi þegar hann er ekki í liðinu, ekkert óeðlilegt að það þurfi að fórna smá varnarleik til þess að fá aukna hættu og fjölbreytileika í sóknina.

13 sekúndur: Það er víst tíminn sem getur liðið á milli þess sem að þú heldur að þú sért að komast yfir á Anfield og þar til að Salah er að fagna á hinum enda vallarins. Geri aðrir betur.

Jákvætt. Liðið heldur enn og aftur hreinu. Vissulega fékk Fulham nokkur færi, sérstaklega í fyrri hálfleik en Liverpool var yfir 70% með boltann og hefði vel getað unnið þennan leik með 4-5 mörkum. Þurfum bara að halda áfram að klára okkar leiki og sjá hvað gerist.

Næstu verkefni

Eftir landsleikjahlé heimsækir Liverpool Watford, laugardaginn 24. nóvember áður en við ferðumst til Paris og spilum við PSG, miðvikudaginn 28. nóvember. Alltaf finnst mér jafn leiðinlegt að fá þessi blessuðu landsleikjahlé – en við förum a.m.k. jákvæðir inn í þessa pásu, vonandi verðum við heppnari hvað meiðsli varðar en í síðustu pásu.

Þar til næst,

YNWA

34 Comments

 1. Það er eitthvað jákvætt við það að vera ekki ánægður með spilamennsku liðs sem er þó í efsta sæti í deildinni :-), 3 stig í dag er fyrir öllu, þó svo að liðið hafi ekki verið að spila þennan glimrandi sóknarbolta sem við erum vanir. Nú er bara að vona að bæði manchester liðin tapi í dag 🙂 Það er ekki oft sem maður heldur með everton og utd, en ég held að ég geri það í dag.

 2. Getur Klopp bara haft Shaqiri í liðinu takk fyrir það. Byrjunarliðinu þaes góð úrslit og Djufull er gott að Salah hafi skorað ennnnn eitt markið.

 3. Sælir félagar

  Ég er ánægður með þessi 3 stig og frammistöðu sumra leikmanna eins og Robertson, Shaqiri, VvD og Salah. En samt – það er eitthvað að. Liðið spilar ekki vel. Að vera í vandræðum með markaskorun á móti lélegustu vörn deildarinnar er ekki í lagi. Hvað liðið virðist oft á tíðum “sinka” illa. Hvað áhuginn og baráttuþrekið virðist lítið. Hvað mönnum virðist líða ekki beinlínis vel á vellinum. Það er eitthvað að og ég veit ekki hvað það er. En gott að vera í efsta sæti einhverjar mínútur samt

  Það er nú þannig

  YNWA

 4. Þetta var einfaldlega solid leikur hjá okkur í dag. Í fyrirhálfleik fengum við nokkur flott færi en gestirnir fengu líka eitt dauðafæri og svo var tæp rangstaðadæmt á þá 13 sek áður en við skoruðum.
  Í síðarihálfleik mætti allt annað lið til leiks, við héldum áfram að halda boltanum og skapa færi en þeir fengu ekki tækifæri til að skora.

  Menn eru alltaf að bíða eftir einhverji flugeldasýningu en eins og við spiluðum í síðarhálfleik þá gerðum við það frábærlega og er greinilegt að Klopp hafi látið strákana heyra það í hálfleik.
  Shaqiri og Robertson voru okkar bestu leikmenn í dag en Trent/Firmino/Allison/Fabinho áttu ekki merkilegan dag.
  Næsti leikur gegn Watford úti er mjög erfiður leikur en það er langt í hann og fer maður að biðja til Shankley(s.s æðri mátar) að okkar strákar komi heilir heim úr landsliðsverkefninum en þau hafa oft farið illa með okkar leikmenn.

  YNWA

 5. Góður sigur.
  En afhverju i fjandanum er klopp að spila mane, salah og firmino i 90 min gegn hrútlélegu liði fulham a heimavelli, þeir þrír eru eins og sprungnar blöðrur og nuna fara þeir flestir beint uppí vél og i löng ferðalög og fara strax að æfa 100% með sínu landsliði.
  Hann grenjar þegar menn meiðast i landsleikjum, afhverju reynir hann þa ekki að hvíla menn þegar er möguleiki i staðinn fyrir að senda þa sprungna i landsliðsverkefni?
  Þetta er àstæðan fyrir að við verðum langt fra þvi að vinna titillinn, klopp sprengir alltaf liðin sín hann getur ekki spilað þessum þrem i 90 min i öllum leikjum og hvað þa i leikjum gegn liðum sem við eigum að vinna með lokuð augun !

 6. Hvað er metið hjá Liverpool síðan nafninu á deildinni var breytt í premier league að fara taplaust inní mptið?

 7. Sæl öll

  Mér finnst réttlætinu fullnægt í rangstöðudóminum, því eina ástæða þess að þetta er tæpt er vegna þess að Robertson er teikaður og þannig hindraður í að hlaupa upp í varnarlínuna. Þetta var góður leikur hjá Liverpool og sanngjarn sigur.

 8. Langt síðan maður hefur haldið með Everton og Man Utd í sömu umferð og það á sama degi. En frábær úrslit í dag hjá okkar mönnum. 2-0 sigur er nokkuð fullkomið.

 9. Sælir/sælar.

  Fulham var að spila 631 á tímabili í leiknum.
  LFC 73% með boltan.

  Ekkert óeðlilegt að menn séu ekki að raða inn mörkum á “lélegustu vörn deildarinnar ”
  þegar mætti halda að rútustjórinn a.k.a. Móri væri mættur á svæðið. Lítið svæði og erfitt að skapa góð færi í svona þétt setinni rútu.

  Finnst það skína í gegn hvað miðjan verður meiri ógnandi og skapandi þegar shaq er inná.
  Hann er akkúrat sú týpa af leikmanni sem er nauðsynlegur þegar spilað er gegn djúpliggjandi Fulham.
  3 punktar er það sem leikurinn snýst um.
  30 stig, 1.sæti, pressan ennþá á og allir glaðir inní hundleiðinlegt landsleikjahlé.

  Góðar stundir.

 10. Sælir félagar

  Ánægjuleg úrslit á Brúnni áðan. Bláliðarnir úr Bítlaborginni gerður jafntefli við olígarka bláliðana frá London.

  Það er nú þannig

  YNWA

 11. Liverpool hefur í gegnum tíðina átt erfitt með að vinna liðin í neðstu sætunum, sem er ekki svo einkennilegt, þar sem þau eru vön að leggja langferðabílnum gegn okkur.
  Í haust eru okkar menn búnir að vinna þessi lið, en það hefur samt ekki verið auðvelt að skora gegn þeim, ekki frekar en fyrri daginn. Við getum því brosað breitt og glaðst yfir góðum árangri, enda efstir í deildinni, a.m.k. í nokkrar mínútur enn.

 12. Nú var ég staddur í fyrsta skipti í kop stúkunni í dag. Mér fynnst alveg bera af hvað heimamenn eru hrifnir af Andy Andy Andy Andy Robertson. Enda alveg geggjaður dregngur.

 13. #8
  Já það er stundum í lagi að halda með litlu liðunum þegar þeir gætu mögulega tekið stig af liðunum í titlilbaráttuni.

 14. Við erum allavega efstir þeirra liða sem fara að reglum. City er svindl-lið og ef ekki á að stórsskaða fótboltan til framtíðar þarf að framfylgja reglum og taka af þeim stig. En ég skal viðurkenna að það er gaman að horfa á þessa menn spila.

 15. Ég get vel tekið undir það að Shaqiri og Robertson voru mjög góðir í þessum leik. En fyrir mér var Mo Salah klárlega maður leiksins, mér fannst hann frábær í þessum leik, sívinnandi og mjög ógnandi. Einn besti leikur hans fyrir Liverpool þessa leiktíð að mínu mati.

 16. Eru menn búnir að gleyma að Liverpool braut FFP reglurnar, en sluppu við refsingu því við vorum ekki með í CL þá?
  Kominn tími til að hætta þessu öfundar kjaftæði útí City. Þeir spila flottasta boltann, en við getum vel unnið deildina ef við spilum betur en við gerum í dag.

 17. Sko… Þessi sigur var ótrúlega sterkur, þó svo að þetta hafi verið botnliðið. Það er einfaldlega EKKERT gefið í EPL. Spyrjið bara Arsenal og Chelsea í dag. Deildin er að spilast alveg hrikalega spennandi og það stefnir allt í rosalega baráttu fjögurra til fimm liða um toppsætið. Staðan er einfaldlega þannig að ekkert má út af bregða því þá stinga MC einfaldlega af! Við gætum líka gert það þó svo að við séum ekki húrrandi ánægðir með spilamennskuna hjá okkar mönnum. Reyndar var það svo eftir hlaðvarpið síðasta að ég mér leið eins og ég væri stuðningsmaður scums, svo neikvæður var tónninn þar. Auðvitað eigum við helling inni EN við erum með bestu vörnina í deildinni, einungis fengið á okkur fimm mörk í 12 leikjum. Ótrúleg staðreynd það og algjör viðsnúningur. Okkar mojo mun koma, trúlega mjög fljótlega. Við eigum inni Keita og Hendo, og nú vil ég að Klopp fái læknisvottorð á landsliðshópinn okkar. Þessi he&$#$#” landsleikjahlé gætu gert mann algjörlega truflaðann.

  Formið á Shaq er frábært og þessar tölur ljúga engu.
  Shaqiri @XS_11official has either scored or assisted in 5 of his last six games for LFC in all comps

  Gleðilega vinnuviku allir saman. Frábær helgi að baki, manú, chelskí, arsenal og barca tapa stigum, virkilega gott og gaman.

 18. Þessi umferð gekk vel að mörgu leiti. Liverpool er komið í annað sæti deildarinnar með tveggja stiga forskot á Man City. Liðið okkar er komið með tveggja stiga forskot á Chelsea, þrjú stig á Tottenham, sex stig á Arsenal og síðast en ekki síðst 10 stig á Man Und sem er ágætis tilhugsun.

  Ég held að Man City sé ekki að fara að misstíga sig mikið í vetur og því er miklu raunsærra að stefna á annað sæti en tveggja stiga forskot er svo sem ekki mikið og allt getur gerst í fótbolta.

  Ef Liverpool nær sömu hæðum í spilamennsku og það gerði í fyrra getur allt gerst en liðið þarf enn nokkra leiki í að það takmark náist. Það skrítna er að árangur liðsins er frábær og því hálf furðulegt að finnast liðið geta gert miklu betur. Liðið á augljóslega miklu meira inni en góðu fréttirnar eru að það sást glytta í spilamennskuna frá því í fyrra í dag, sérstaklega þegar Salah komst í gegn einn á móti markmanni eftir magnað samspil hjá samherjum sínum. Mér finnst vanta er þetta blessa loka smiðshögg á sóknirnar en það eru alltaf góð teikn á lofti ef liðið er að koma sér í færi gegn liðum sem liggja mjög aftarlega. Í endanum á stjóratíð Rodgers gerðist það oft að liðið fékk varla færi gegn liðum sem láu aftarlega svo dæmi sé tekið.

  Vörnin opnaði sig full mikið á köflum þó svo að liðið hafi verið einráður inn á vellinum. Mér finnst oft eins og Alison sé ekki að fá það hrós sem hann á skilið því hann ver yfirleitt svo áreynslulaust og virðist ekkert þurfa að hafa fyrir markvörslunum og líklega eru þessi aukagæði með komu Van Dijk og Alison þess valdandi að andstæðingarnir eiga erfiðara að skora í opnum færum en áður. Þetta er samt sem áður áhyggjuefni.

  Sóknarleikurinn var mun betri en gegn Rauðu Stjörnunni og því er bölvanlegt að það sé komið að enn öðru landsleikjahléi. Þessi tími hefði getað nýst vel í að spila liðinu enn betur saman. Svo finnst mér Liverpool koma oft hálf ryðgað úr landsleikjahléum og þurfi oft einn leik til að finna taktinn aftur. Vona samt innilega að það verði ekki þannig í næsta leik.

  YNWA

 19. Veit ekki betur en eingöngu þrjú lið hafi skorað fleiri mörk en við og ekkert lið fengið á sig færri mörk í deildinni. Veit ekki betur en að við séum í öðrusæti í deildinni, tveim stigum á eftir City. Veit ekki betur en ef við vinnum rest þá verðum við meistarar. Hvað er þá að hjá Liverpool! Jú við spilum víst ekki nægjanlega beittan bolta og skorum ekki nóg….en halló, halló við erum að taka stig og erum í baráttunni. Ég hef á tilfingunni að “neikvæða” umræðan sé til komin vegna minnimáttarakendar hjá stuðningmönnum Liverpool og menn séu einfaldlega að baktryggja sig áður en slysið gerist. Við erum orðin svo vön að hlutirnir gangi ekki alveg upp, orðin svo vön því að fara úr hæðstu hæðum bjartsýninnar niður í dýpstu dali vonbrigðanna. Þess vegna er svo gott að skrifa frekar af svarsýni en bjartsýni, maður getur þá allavegana sagt “hvað sagði ég ekki”
  YNWA

 20. Vonandi að knattspyrnuyfirvöld gera eitthvað við City ef þeir eru að svindla utan vallar.

 21. Held að við munum því miður setja stigamet en ná samt ekki að vinna deildina. Verðum með þann stigafjölda sem hefur hingað til dugað til að sigra hana. City eru hinsvegar að fara að splundra þessu meti og verða meistarar. Hafa ekkert fyrir þessu.

 22. Það er líklega rétt að minna sig á að deildin vinnst ekki í nóvember, en hún getur hins vegar tapast þá! Ég er t.d. ekki að sjá United koma sér í toppbaráttuna úr þessu, til þess hefðu þeir a.m.k. þurft að vinna í dag. Sem stendur er þetta spurning um hvort City misstígi sig, og ef þeir geri það hvort það verði okkar menn eða Chelsea sem hirði þá titilinn.

  Ég veit ekki hvort maður eigi að segja að það hafi verið batamerki á leik liðsins. En ef ég á að velja á milli þess að vinna 4-0 einn leikinn og gera svo 1-1 jafntefli þann næsta (eins og í fyrra), eða vinna alla leiki 1-0 og 2-0, þá tek ég það síðara allan daginn.

 23. Bara svo leiðinlegt þegar Liverpool er á besta runni í 30 ár þá þarf City bara vera á þessu sjúka leveli það er það eina sem pirrar mann en já þetta er lið með ótakmarkað fjármagn og hefur staðið í skuggalegum viðskiptum til að fá sínu í gegn en þeim verður ekki refsað fyrir það.

  Það eru líklegast engin lið að fara stoppa City og ef við vinnum ekki alla leikina og þar á meðal City á Ethihad þá erum við ekki að fara vinna titilinn mér finnst 2. sætið líklegast en það breytir því samt ekki hvert Liverpool er komið allavega eins og staðan lítur út akkurat núna.

 24. Sæl og blessuð.

  Count your blessings… segja þeir vestanhafs: Hafðu tölu á því sem heppnin færir þér – væri löng íslensk þýðing á þessari þjálu speki. Heppni kemur og fer, og það er ekki, strangt til tekið, á okkar færi að stjórna slíku.

  Við sleppum ótrúlega vel gegn Höddurum og nú Fulham. Tvö rangstöðumörk eru dæmd af á tæææpasta vaði, mörk sem hefðu mögulega gert þeim kleift að hanga á jafntefli (jafnvel sigri) til leiksloka. Jú, við misstum mark gegn nöllunum – sem jafnar þetta eitthvað út, en í það heila þá hefðu téðir tveir leikir á þessu sísoni hæglega orðið að fallistabölvuni okkar manna. Það voru í raun dómarar sem björguðu okkur undan því spelli. Punkturinn er því: Þessi botnsætisblús sem hefur þjakað liðið er í rauninni ekki að baki.

  Hvað segir þetta okkur? Sitthvað gengur ekki alveg eins og það á að gera:

  1. Fabinho og Keita hafa ekki staðið undir væntingum. Ólíkt VvD, Mané, Salah ofl. á sínu fyrsta tímabili þá hafa þeir ekki sýnt nema brot af því sem við áttum von á.
  2. Fekir átti mögulega að vera hlekkurinn sem átti að tengja þetta allt saman. Sú staðreynd að hann var ekki keyptur kann að hafa haft mikil áhrif á flæðið í liðinu.
  3. Margir eru ekki í sama stuði og í fyrra. S/M/F – tjah. Milner/Hendó/Gini – hmmm…
  4. Trentarinn er ekki alveg að gera sig. Mögulega er það fyrirsjáanlegt með svo ungan leikmann.
  5. Breiddin er ekki meiri en svo að lítið má út af bregða ef meiðsli verða.

  Þetta þýðir ekkert annað en að liðið þarf að:

  1. fá öflugan leikmann í janúar
  2. Endurskoða sitthvað í skipulagi
  3. Kalla æskulýð heim úr láni.

  Annars eru Manchester Saudi uggvænlegir. Má þó vera að í draumi sérhvers liðs sé fall þess falið. Hvað veit maður nema að það verði einhver frekari æsingur og uppljóstranir í tengslum við þetta gerspillta lið og þeir verði straffaðir áður en tímabilinu lýkur. Fordæmi um slíkt þekkjum við frá Ítalíu. Ekki vilja enskir vera minni menn.

 25. Þessi sigur var stórt statement, ekki vegna þess að Fullham sé neðst og ætti að vera auðunnanlegt, nei vegna þess að við stóðum okkar plikkt gegn liði sem stóðst þá vegu að koma sér upp í efstu deild, það er ekki sjálfgefið, spyrjið bara Fyrirliðan okkar hann veit þetta manna best. En manc þarf að skoða nánar, ef æðstu stjórnendur ensku deildarinar gera ekkert, þá er maðkur í mysuni, það er næsta víst.

  YNWA

 26. Flott þrjú stig sem þurfti að hafa fyrir.
  Það eina sem vantar uppá leik liðsins að mínu mati er að miðjan byrji að smella.
  Vonandi förum við að sjá Keita sýna sitt rétta andlit þegar hann kemur úr meiðslum.
  Annars erum við í topp standi.

 27. #23, “Ekki vilja enskir vera minni menn.”, kanski villja þeir það ekki en þeir eru það, eitthvað á að ræða þetta víst í vikunni en það eru nákvæmlega engar líkur á að nokkuð verði gert, eina vitið hjá EPL er að dæma þá niður um enhverjar deildir, annað er bara einfaldlega ekki sangjarnt en þegar peningarnir eru annarsvegar, þá er ekkert til sem er samgirni.

 28. Þetta manc mál er ekki bara gagnvart þeim, einnig psg. En eins og ég segji, ef ekkert verður gert af amk enska knattspyrnusambandinu þá er eithvað mikið að þar innan dyra, og sumir verði að fjúka með hraði.

  YNWA

 29. Það eru svo margar leiðir framhjá reglunum hjá Man City. Það vita allir að City eru búnir að eyða margfalt meira heldur en þeir hafa í tekjur sem er bannað. Þeir geta búið til auglysingasamninga, búið til sponsora og falið mismuninn. Það er ekki rassgat eftirlit með þessu og eins og presturinn sagði Money talks og bullshit walks.

 30. #28. Tja, má vera að “allir” viti um svindlið hjá Man City. Er samt ekki viss um að allir viti hvernig þeir fóru að því nákvæmlega fyrr en einhver úr innsta hring hjá sheik Mansour lekur fyrirkomulaginu og . Þá er talið líklegt að Soriani, sem er höfundur að viðskiptamódelinu hjá City, viti allt um málið. Þetta er s.s. ekkert grín ef UEFA og PL ætla að beita sér sem maður er nú ekki viss um.

  Málið er sem sagt að nú hefur verið afhjúpað hvernig þetta er gert hjá City og gögn lögð fram s.s. samningar, tölvupóstar o.fl. T.d. þurfa félögin að greiða leikmönnum fyrir réttinn til að nota ímyndavirði þeirra s.s. til auglýsinga. Man City er talið hafa tekið snúning á þessu með því að selja réttinn til félags sem heitir FSM. Síðan er FSM endurgreitt undir borðið. Markmiðið er s.s. búa til gervitekjur til að fegra bókhaldið. Dílarnir við Etihad Airways eru annað dæmi en risasamningar um auglýsingatekjur virðast byggja á svipaðri taktík. Þ.e. Etihad Airways virðist borga gríðarlegar upphæðir fyrir afnot af vörumerki Man City en greiða í rauninni bara brot af upphæðinni því það er sheikinn sem borgar mest af þessu.

  Annars er allt eins líklegt að City sleppi. Gögnin sem sanna vinnubrögðin eru ekki vel fengin og kannski er áhuginn til að fletta ofan af þessu ekki nógu mikill hjá ensku félögunum.

  Þess utan vonar maður líka að Liverpool vinni fair and square þegar titillinn kemur en ekki á einhverju bixi frá eiganda City.

Liðið gegn Fulham

Sturridge á leiðinni í langt bann?