Rauða stjarnan 2 – 0 Liverpool

Mörkin

1-0 Pavkov (22. mín)
2-0 Pavkov (29. mín)

Leikurinn

Það er fátt fallegt að segja um fyrri hálfleikinn. Liðið átti ekki skot á rammann. Sturridge fékk reyndar mjög gott færi sem hann setti yfir markið, en í kjölfarið komu tvö mörk frá Serbunum. Fyrra eftir hornspyrnu þar sem Pavkov stökk einfaldlega hæst allra og skallaði í netið. Síðara kom 7 mínútum síðar þegar téður Pavkov féll boltann aðeins inni á vallarhelmingi Liverpool, lék aðeins áfram og lét svo bara vaða án þess að verða fyrir neinni truflun svo heitið geti frá varnarmönnum, og boltinn söng í netinu.

Klopp má þó eiga það að hann brást við í hálfleik með því að skipta Firmino inn fyrir Sturridge, og Gomez inn fyrir Trent. Hvorugur þeirra Sturridge og Trent höfðu átt neitt sérstakan leik, en það var svosem varla hægt að segja um nokkurn mann í liðinu hvort eð er. Lallana var líklega sá sem mestu gagnrýnina fékk, en hann fékk að hanga inn á. Það hlýtur óneitanlega að segja eitthvað þegar það er tveim leikmönnum skipt inná í leikhléi, án þess að meiðsli hafi haft nokkuð um það að segja.

Það er líka vert að minnast á það, að vel frameftir leik var staðan sú að síðasta skot sem Liverpool átti að marki andstæðinganna á útivelli í meistaradeildinni kom í Kiev í vor.

Það var *örlítið* betra að horfa upp á liðið í síðari hálfleik, því liðið hélt a.m.k. boltanum og var að reyna að finna glufur á vörninni. En það gekk hins vegar bara alls ekkert vel. Eins og áður sagði þurftum við að bíða vel fram í síðari hálfleik eftir að liðið næði skoti á marki, þegar Salah átti eitt slíkt. Þau urðu svosem fleiri, en í raun ógnuðu okkar menn marki andstæðinganna aldrei neitt að ráði, Robertson átti reyndar fyrirgjöf sem endaði í slánni, en þessi einstöku færi voru of fá og gæðin ekki nægjanleg. Það var svo sjaldséður hrafn sem fékk að flögra inn á völlinn þegar um 10 mínútur voru til leiksloka, en þá kom Divock Origi inná fyrir Adam Lallana. Hans innkoma breytti engu varðandi úrslit leiksins, en þess má geta að þetta var í fyrsta sinn síðan í 0-3 leiknum gegn Real árið 2014 sem liðið fær á sig 2 mörk eða fleiri í fyrri hálfleik.

Vondur dagur

Já hvað á maður að segja? Það er einfaldlega enginn sem var að sýna neitt af viti, kannski mögulega Andy Robertson. Samt varla. Það er mikið talað um hvað Trent hafi verið óöruggur í fyrri hálfleik, og var enda tekinn af velli. Mest þó talað um Lallana, og kannski ekki að ósekju því það er alveg spurning hvað hann megi fá marga leiki til að spila sig í gang. Þegar einkunnir verða gefnar fyrir þessa frammistöðu efast ég um að nokkur leikmaður fari yfir 5. (Uppfært: Ian Doyle gefur Robertson, Salah og Gomez 6, en aðrir fá minna). Það má líka tala um Milner og Wijnaldum, sem hvorugur var að sýna margt af viti, nákvæmlega ekkert sem kom út úr miðjunni í fyrri hálfleik. Eins og áður sagði, einhver doði yfir mannskapnum.

Það er kannski rétt að taka það fram að auðvitað verða leikmenn Rauðu stjörnunnar að fá kredit fyrir leik sinn. Þetta er greinilega lið sem er erfitt heim að sækja, Napólí menn eru búnir að kynnast því, og það verður forvitnilegt að sjá hvað PSG gera á þessum velli.

Umræðan

Umræðan eftir leik hlýtur að einkennast af áhyggjum af spilamennsku okkar manna. Við höfum einfaldlega ekki séð tangur né tetur af þessu liði okkar sem var að vinna 7-0 oftar en einu sinni á síðasta tímabili. Engu að síður er liðið ósigrað í deild, og þegar þetta er skrifað er ennþá möguleiki á því að liðið verði áfram í efsta sæti riðilsins í lok dags, en það er reyndar háð því að Napoli og PSG geri jafntefli. Mögulega myndi koma liðinu betur ef PSG vinnur þann leik, því þá þarf “bara” að vinna Napoli á heimavelli, og þá er sætið í 16 liða úrslitum tryggt. Hvað veldur samt því að liðið er ekki búið “að finna mojoið sitt” eins og Klopp orðaði það svo skemmtilega eftir leik? Er það niðursveifla hjá Firmino? Er að koma í ljós hvað Buvac skipti miklu máli? Kláraði Milner Ribena safann sinn? Við fáum kannski aldrei almennileg svör við þessum spurningum.

En kannski verður þessi leikur til þess að leikmenn vakna almennilega til lífsins, kannski svipað eins og 4-1 tapið á móti Spurs í fyrra varð. Eigum við ekki bara að vona það?

Nú svo er það Fulham um helgina. Þá duga sko engin vettlingatök. Kannski sjáum við Henderson koma aftur þar. Kannski fær Clyne loksins sénsinn, en hann ku víst hafa verið að glíma við einhver veikindi. Kannski mætir Keita aftur inn á miðjuna, eða Fabinho. En mestu máli skiptir að það mæti 11 dýrvitlausir rauðklæddir leikmenn inn á Anfield, og hætti ekki fyrr en 3 stig eru í höfn.

45 Comments

 1. Sorry, en ég sá bara ekkert jákvætt við leik Liverpool. Klopp þarf virkilega að leggjast undir feld ef hann ætlar sér eitthvað með þetta lið í vetur.

 2. Guð minn góður…. þetta er ein versta frammistaða liðsins í mjög…mjög…mjög langan tíma…og setja origi inná…. guð minn góður

 3. Ja hérna. Þetta var bara ekki okkar kvöld. Nenni núll að ræða þennan leik. Nú er bara að “suck it up” tveir alvöru leikir eftir sem þurfa að vinnast til að klára þetta. Ekki flókið.

 4. Þetta var slæmt tap en leikurinn á móti Napoli var verri. Við hittum þó á markið í þessum leik fjórum sinnum og vorum með 65% possession. Það hefði strax verið betra að fá jafntefli út úr þessu en núna þurfum við bara að vinna Napoli heima og hver veit, kannski náum við í stig í París líka.

 5. Örugglega allir sammála um að þetta var skita. Mér er nokk sama þó svo eitthvað hafi verið hreift við mannskap, menn eiga samt að geta sýnt vilja. Því miður voru menn viljalausir, hlaup út og suður og lítill áhugi yfir höfuð fannst mér. Það er ekki hægt að hengja einstaka leikmenn, þetta var liðsheildin sem skóp þessi ósköp. Vonandi virkar þessi ískalda sturta á hópinn og hrokinn sem skein í gegn í leiknum verði skilinn eftir þarna austur frá. Munum samt að við vinnum sem lið og við töpum sem lið.
  YNWA

 6. Fyrri hálfleikur það slakasta síðan Klopp tók við. Seinni var miklu betri með innkomu Firmino og átti að duga til að jafna þetta. Ótrúlegt að ná ekki marki miðað við færin. Loksins þegar Lallana fór útaf fáum við svo Origi inn af öllum mönnum. Nú þurfum við jafntefli hjá Napoli og PSG.

 7. Klopp á þetta tap skuldlaust. Ef Trent var ekki meiddur þá voru þetta algjörar heigulsskiptingar. Sturridge var alltof eigingjarn en hann er alltaf líklegur til að skora. Óþolandi hvað klopp getur verið þrjóskur. Við spilum 2 leiki í röð með 4-2-3-1 og skorum 8 mörk og sköpum fullt. Shaqiri búinn að vera okkar besti maður en nei bekkjum hann og förum í 4-3-3 gerum jafntefli og töpum 2-0 fyrir lélegasta liði riðilsins. Hættu þessari steingeldu 3 manna miðju!

 8. Þetta var einfaldlega lélegur Liverpool leikur. Menn voru ekki alveg tilbúnir í verkefnið og var eins og vanmat hafi verið í gangi. Við fáum algjört dauðafæri þegar Sturridge skaut yfir en ég er viss um að mark þar hefði opnað flóðgátir en í staðinn fáum við mark á okkur eftir hornspyrnu og svo klúður sendingu frá Milner, tapað einvígi hjá Winjaldum, Matip fer ekki á móti og Alison hefði einhverntíman tekið hann af svona löngu færi.
  2-0 undir en það voru enþá 60 mín af fótbolta eftir en þetta var bara ekki að ganga, nokkur ágæt færi og hálfæri en við fengum það sem við áttum skilið í þessum leik ekkert.
  Fyrsta sem menn munu gera er að leita af sökudólgi því að það er svo auðvelt. Sturridge klúður, Matipi slakur og Lallana slakur , þetta voru nýju mennirnir og kennum þeim bara um en þetta er ekki svona einfalt því að Trent var ömurlegur, Salah skelfilegur, Mane hörmung, Milner með einn af sínum verstu leikjum, Firmino kom inná í hálfleik en var hættulegri í fyrirháfleik, Winjaldum að tapa einvígum og þá er nú lítil tilgangur að hafa hann inná.
  Þetta var einfaldlega SKELFILEG framistaða hjá öllum en þeir sem vilja geta leikið sér að taka einn eða tvo út.

  Þessi úrslit þýða er að við erum komnir í klandur í þessum riðli. Sigur í þessum leik hefði komið okkur með annað fótinn áfram í þessum riðli en tap þýðir að við þurfum að spila tvo toppleiki en góðu fréttirnar eru að ég get lofað ykkur því að liðið mun mæta af fullum krafti í PSG og Napoli leikinn og ég spái því að við munum komast áfram og þessi leikur verður fljót gleymdur.

  Maður leiksins : Engin góður í dag.
  Skúrkar: Allir skelfilegir

 9. ÖMURLEG frammistaða ! Félaginu til skammar ! Hvar er þessi framlína hjá okkur ? Klopp virkar clueless í CL á útivelli ! Erum við að fara að keppa í Evrópudeildinni eftir áramót ? Draga af leikmönnum vikulaun fyrir þessa SKITU !

 10. Brjálaður. Djö… skíta frammistaða var þetta. Þetta var verra en Napolí leikurinn og er þá mikið sagt. En svona er liðið búið að vera meira og minna í allt haust, skítlélegt, með örfáum undantekningum.Hvað er í gangi þarna eiginlega?
  Eða erum við kannski ekki betri en þetta? Var liðið kannski bara að spila langt umfram getu sl tímabil?
  Ömurlegt að horfa upp á þetta,
  ÖMURLEGT!

 11. Hræðilegur leikur og held að í þessu tilfelli eigi vel við að segja ‘ enginn spilar betur en andstæðingurinn leyfir’ Robertson skástur aðrir komast ekki á blað einu sinni.

 12. Úff hvað við vorum skelfilegir í kvöld 🙁
  Vorum undir allstaðar á vellinum andstæðingurinn vildi þetta mikið mun meira en leikmenn LFC sem komu með kolrangt hugarfar er virðist í þennan leik.

  Ekkert hungur til staðar nákvæmlega ekkert.

  Nenni ekki að pirra mig á áhveðnum leikmönnum þetta er liðsíþrótt og þetta var skita hjá öllum leikmönnum liðsins.

  Það sýnir sig kannski að það vantar Henderson, hann er enginn Xavi eða Iniesta en hann svo sannarlega biður um að boltann og tekur 100 snertingar og 100 hliðar sendingar, en hann heldur boltanum rúllandi innan liðsins og lokar svæðum með sinni orku og öskrar á menn stanslaust í gegnum leikina.

  Það allavega vantar allt mojo í liðið, og vonandi láta menn sér þetta að kenningu verða og mæta dýrvitlausir í leiki sama hver andstæðingurinn er.

  YNWA

 13. Ég held að þessi leikur hafi sannað það sem marga hefur grunað lengi, að Klopp er ekkert sérstaklega flínkur í liðsuppstillingu, leikaðferðarbreytingum eða innáskiptingum. Með öðrum orðum, hann er ekki góður í að stýra sjálfum leiknum, þegar á hólminn er komið. Mér finnst mjög trúlegt að undanfarnar skitur séu ekki síst vegna þess að heilinn, Buvac, er horfinn af línunni og munar um minna.

 14. Það hefur verið eitthvað slen yfir Liverpool undanfarið og liðið hefur aldrei náð að spila sinn leik. Mér finnst miklu meiri gæði til staðar en liðið sýnir og mín von er sú að þessi leikur virki svipað á leikmannahópinn og þegar það tapaði gegn Tottenham í fyrra. Það er ekki hægt að treysta endalaust á góðan varnarrleik, sóknarleikurinn verður að fara að komast í gang og liðið verður að dómenera meira í leikjum.

  Það var margt ágætt í leiknum en ef liðið heldur áfram að spila svona og fer ekki að ná þeim sóknargæðum sem það s sýndi farm á í fyrra, má það prísa sig sæla við að ná meistaradeildarsæti. Fenginn reynsla af KLopp er sú að hann vinnur vel úr mótlæti og ég trúi ekki öðru en liðið mæti dýrvitlaust í gang í næsta leik.

  Sem stendur er það mitt mat að geta Liverpool er ofmetin en hef sterka tilfinninguf fyrir því að liðið á fullt inni og vona innilega að þetta var það sem þarf að koma liðinu almennilega í gang.

 15. Ok, þetta var glatað.

  Matip er alveg eins og Crouch á velli.

  Það gekk ekkert upp og Serbarnir mega eiga það að þeir settu allt í þetta og voru með mikið meiri ákafa en okkar menn í öllum aðgerðum sem er óásættanlegt. En, á öðrum degi hefði þetta dottið okkar meginn, mörg færi sem urðu næstum mörk.

  Núna er bara að sýna að þetta var slys næstu helgi og svo gegn PSG og Napoli líka.

 16. Steingeld miðja, og sárt að hugsa út í að við eyddum um 100 milljónum punda í miðjuna en ég hef þó trú á Fabinho og Keita en með svona upphæðum var maður kannski dáldið frekur á árangur hjá þeim strax. Langar að sjá meira af 4231 formattinu með Shaqiri í starting.

 17. Alger hörmung í kvöld og laaaaaanglélagasti leikur liðsins undir stjórn Klopp. Nenni ekki að ræða þennan leik meira. Bægon.

  Góð staða í Napóli fyrir okkur í hálfleik, þ.e. 0-1 fyrir PSG.

  Ef PSG vinnur þennan leik dugar okkur að vinna Napoli heima í lokaumferðinni þó við skíttöpum í Frakklandi. Jafntefli eða sigur Napoli í kvöld þýðir að öllum líkindum að við þurfum að fá 4 stig úr síðustu tveimur leikjunum.

 18. Verður bara að viðurkennast að liðið okkar búið að hóta svona frammistöðu lengi. Góður punktur hjá Árna að ofan. Við spilum 4-2-3-1 og sköpum hrúgu af færum 2 leiki á undan og skorum 8 mörk.

  Förum svo aftur í 4-3-3 og spilum alveg hryllilega passíft og illa. Klopp á stóra sök á þessum úrslitum í þetta sinn. Stundum er hann að reyna vera of klár og of næs. Afhverju í fjáranum tekur hann ekki slaginn bara og lætur Shaqiri spila þennan leik? Tekur í staðinn sénsinn á Lallana a sem var eins og farþegi í leiknum og hægði á öllu. Manni er drullusama þó einhverjum stuðningsmönnum þeirra hafi verið heitt í hamsi útaf gömlum kommentum. Spilaðu besta helvítis liðinu! Við létum þá hræða okkur fyrir leikinn og gáfum þeim sjálfstraust. Shaqiri hefur nær undantekningarlaust verið mjög góður þegar hann hefur spilað. Svona útileikur í CL gegn meðalliði er einmitt leikur til að testa hann í byrjunarliðinu. Þetta voru bara klár mistök hjá Klopp. Hann þarf að fara ranka við sér ef þetta tímabil á ekki að fjara undan okkur fyrir áramót og við að enda í Evrópudeildinni.

  Maður skilur að Klopp sé að breyta leik liðsins til að halda líkamlega út allt tímabilið og minnka meiðsli. Það er ekki bara það að lið séu að lesa okkur betur, okkur skortir sömu ákefð og í fyrra og það sem gerði okkur óstöðvandi þá er ekki 100% til staðar í ár og lykilmenn okkar eins og Salah, Firmino og Mané eru voða mikið að spara sig.

  Staðan núna er einfaldlega sú að ef Napoli vinnur PSG á eftir þá gætum við verið komnir útúr CL ef við töpum gegn PSG. Þá mun okkur ekki duga að vinna Napoli í síðasta leiknum til að komast áfram ef hin liðin vinna sína leiki gegn Rauðu Stjörnunni. Það yrði sorglegt og svo algjört óþarfia klúður.
  Frammistaðan ofur passíva gegn Napoli úti þegar við vorum að spara okkur fyrir leikinn gegn Man City yrði þá rosalega dýr.

  Klopp og liðið þurfa að finna drápseðlið og karlmennskuna aftur. Við erum að flækja hlutina alltof mikið fyrir okkur og þurfum að endurvekja það sem virkaði svo frábærlega í fyrra. Fara að nýta þau gæði sem eru í liðinu. Getum ekki endalaust beðið eftir að Fabinho og Keita komi inní liðið einhvern tímann. Hlutirnir þurfa að gerast núna.

  Óþolandi hvað Liverpool þarf alltaf að fara Krýsuvíkur leiðina að hlutunum. Við áttum að vinna þennan leik auðveldlega í kvöld. Mögulega hroki og vanmat í okkar liði. Reyndar væri svo týpísk að við ynnum síðan bæði PSG og Napoli.

  En fokk it. Fulham heima í næsta leik. Ég ætlast til stórsigur og að við spilum alvöru sóknarleik aftur.

 19. Miðjan hefur verið alveg skelfileg seinustu leiki og sérstaklega í þessum leik. Nákvæmlega engin þjónusta eða snöggar sendingar á framherjana og skiljanlega geta þeir lítið gert en voru samt ekkert góðir í dag heldur.

  Skil ekkert að hafa tekið Studge útaf hann var okkar besti leikmaður og alltaf í boltanum þótt sumir munu segja að hann hafi klúðrað einu færi þá var fáranlegur snúningur á boltanum og hann alltof hátti uppi, fáir hefðu klárað þetta. Firmino hefur verið frekar lélegur á þessu tímabili, mundi hiklaust vilja hafa hann gegn topp liðum sem maður þarf að verjast og pressa mikið en í svona leik vil ég alltaf sjá gæðin hans Studge frekar en Firmino sem átti svona sirka 4 snertingar í öllum leiknum eftir að hann kom inná.

 20. Napoli 6 stig
  Liverpool 6 stig
  PSG 5 stig

  Tvö af þessum liðum komast áfram(Rauða Stjarnan fær ekki fleiri stig í þessum riðli)
  Þetta þýðir að ef við töpum fyrir PSG og Napoli vinnur Rauðu Stjörnuna í næstu umferð þá erum við úr leik í meistaradeildinni.
  Ef við gerum jafntefli gegn PSG þá fáum við úrslitaleik á heimavelli gegn Napoli.
  Ef við sigrum PSG þá erum við komnir áfram í meistaradeild.

 21. Ég horfði á meirihlutann af Napoli-PSG. Þið ættuð að gera það líka, sérstaklega t.d. síðustu 10 mínúturnar. Menn voru enn að fórna sér 110% í boltana í uppbótartíma. Í samanburðinum var eins og Liverpool væri að spila ofan í sundlaug.

 22. Jæja, anda með nefinu og jafna sig. Þessi leikur er búinn og nú liggur leiðin bara uppávið. Getum enn náð 3ja sætinu og fengið sæti í Evrópudeildinni. Mig dreymdi tvo misstóra bikara um daginn og sá minni var glóandi.

 23. #26 Þetta er rangt hjá þér.

  Ef Napóli vinnur Rauðu Stjörnuna og við töpum í París þá förum við í úrslitaleik við Napólí um að fara upp úr riðlinum. Verðum þá að vinna með tveimur mörkum því við töpuðum fyrir þeim í fyrri leiknum með einu marki. Eins marks sigur mun ekki duga okkur (ekki einu sinni 1-0) því við erum með verri heildarmarkatölu en þeir.

  Með öðrum orðum, ef tvö lið eru jöfn að stigum þá ræður fyrst úrslitum betri markatala úr innbyrðis viðureignum.

 24. Ég er lost eftir að hafa lesið mörg comment hérna. .
  Klopp að sýna það enn og aftur að hann kann ekki að stilla upp liði á útivelli í CL. Klopp ráðþrota og bla bla bla.

  Þetta var slakur leikur. Svo á er fótboltinn bara. Voðalega eru menn fljótir að gleyma. Liverpool tók Maribor úti 0-7 . Porto 0-5. City 1-2. Töpuðum bara fyrir Róma í fyrra á Útivelli og þáttum tapa þar með nokkrum mörkum. Come on.

  Við fengum 2 aula mörk á okkur . Þeir fengu sjálfstraust. Við reyndum að skora og fengum færi. 2 stangarskot . Bjargað á línu.

  Byrjunin í þessum leik skemmdi leikinn. Svona er fótboltinn. Liverpool er ekki yfir það hafið að spila illa og tapa leikjum. Við verðum bara að sætta okkur við það að allt getur gerst í fótbolta.

  Átti PSG ekki að vinna þennan riðil fyrirfram ?
  Var City ekki það lið sem átti að vinna CL I fyrra.

  Jafnvel City hafa tapað í CL á þessu tímabili og það á heimavelli Real Madrid og Bayern eru með allt niðrum sig í sínu heimalandi.

  Klopp kom Liverpool í úrslit í Evrópudeild og meistaradeild. Hann veit sennilega meira en flestir hérna.

  Liðið er bara ekki byrjað að toppa en það kemur. Ég hef engar áhyggjur. Vinnum Napoli heima og sjáum hvað verður svo í boði eftir það.

  YNWA

 25. Ég haft það lengi á tilfinningunni að þessi “Henderson” (ekki leikmaðurinn) heldur að hann hafi rosalega mikið vit á fótbolta, leikkerfum og inná skiptingum. Á því leikur ekki lengur neinn vafi í mínum huga.

 26. Auðvitað var þetta lélegur leikur hjá okkur, sérstaklega fyrri hálfleikur, en vonandi er botninum náð og engin leið nema upp á við sbr. 4-1 leikin á móti spurs sem Daníel benti á. Henda þessum leik aftur fyrir okkur og halda áfram gönguni upp á toppinn í deildini. Fulham næst heima etc.

  YNWA

 27. flott að taka “slæma kaflan” út strax, nú er það bara áfram hærra!!! Napoli vinnur rauðu á heimavelli næst en við náum jafntefli gegn Paris, þá mun vera úrslitaleikur heima gegn Napoli í síðustu umferðinni sem einfaldlega getur ekki tapast og við endum á toppnum!!!

 28. Lélegur leikur af okkar hálfu, en ég hef fulla trú á að við vinnum bæði Napoli og PSG, þar með riðilinn og fáum eins þægilegt verkefni og mögulegt er í 16. liða úrslitum.
  Comment nr. #18: ,,ef liðið heldur áfram að spila svona og fer ekki að ná þeim sóknargæðum sem það sýndi fram á í fyrra, má það prísa sig sæla við að ná meistaradeildarsæti.”
  Varstu raunhæft að búast við meiru? Í fyrra enduðum við í fjórða sæti, fimm stigum á undan Chelsea í 5. sæti, og máttum heldur betur una vel við.
  Liðið þarf að gefa rækilega í núna til að eiga möguleika á að enda í top 4, þannig er það bara. Önnur lið eru að loka miklu meira á Salah heldur en í fyrra (fyrirfram vitað) og Firmino hefur bara ekki verið nægilega góður á tímabilinu.
  Ég er bjartsýnn fyrir helgina og triple captain-a Mané í fantasy, enda þekktur fyrir að spila á 150% í litlu leikjunum.
  YNWA

 29. Ái.

  Er þessi síða ekki til að hafa skoðanir á liðinu okkar? Og blása þegar vonbrigðin hellast yfir? Mér finnst alveg óþarfi að sparka í þá sem skrifa hérna, við erum öll jafn rétthá.

  Kv, Henderson fróði

 30. Sælir félagar

  Hvernig lið er það sem þarf að skipta Origi inná? Hvernig lið er það sem þarf að hafa Lallana og Matip í byrjunarliði? Hvað segja leikmenn af þessum gæðum um breiddina hjá liðinu? Hvað í andskotanum á það að þýða vera ekki með Shaqiri í hóp? Hverslags aumingjaskapur er það af liðinu að spila eins og það gerði? Fleira var það ekki enda búið að segja það sem segja þarf um liðið í þessum leik.

  Það er nú þannig

  YNWA

 31. Ég er einmitt með skoðanir og var að láta þær í ljós ? Má ég það ekki ? Skoðanafrelsi byggir á því að þú mátt segjast það sem þér finnst en ekki búast þá við öðru en þú ert gagnríndur fyrir þá skoðun sérstaklega ef einhverjum öðrum finnst hún fáranleg.

  T.d er Klopp ekki búinn að tapa leik í deildinni og liðið er augljóslega í einhverri lægð og þá allt í einu finnst þér”Klopp ekkert sérstaklega flínkur í liðsuppstillingu, leikaðferðarbreytingum eða innáskiptingum. Með öðrum orðum, hann er ekki góður í að stýra sjálfum leiknum, þegar á hólminn er komið.”
  Okei- Gott og vel. þín skoðun en mér finnst þetta ótrúlega digurbarkalegt ef ég má vera jafn hreinskilinn og þú. Þú verður bara vinsamlega að sætta þig við það að ansi mörgum finnst þessi skoðun þín út í hött og ekki alveg staðast skoðun.

 32. Brynjar.

  Eitt er að hafa skoðun á LIÐINU, annað er að róta leðju yfir félaga sína á kop.is

  Það er talsverður munur á þessu tvennu.

 33. Mér finnst eitthvernvegin að Klopp hafi verið búin að tapa þessum leik áður en hann lagði á stað til Serbíu, að þora ekki að taka Shaqiri með, hann er hluti af þessu liði og ef Serbarnir geta ekki spilað fótbolta við lið sem hann er í eiga þeir bara ekkert að vera í þessari keppni.
  Klopp á bara að hugsa um fótbolta og sitt lið en ekki eitthverjar fótboltabullur það er annarra að hugsa um þá.

 34. Ég er að gagnrína skoðanir þínar en ekki þig sem persónu Hendó. Ég þekki þig ekki neitt og get ekki dæmt um neitt annað en það sem þú skrifar hér. Þú mátt alveg hafa þessa fáranlegu skoðun þína ( mér finnst hún fáranleg) en þá verðuru bara vinsamlega að þola að verða fyrir gagnríni. Þannig virka skoðanaskipti. Leiðinlegt að þú skiljir það ekki. Mér fanst þessi skoðun bera þess vott um að þú heldur að þú vitir rosalega mikið um fótbolta.

 35. Ég sagði þetta í september og október…. við erum orðnir of fyrirsjáanlegir! Allur hraði er farinn og allur leik skilningur er orðinn uppiskroppa. Við þurfum einhvern creative spilara á miðjuna og framherja. Vinnusemi er ekki alltaf nóg. Gini, Hendo, Milner, Lallana eiga ekki heima í þeirri spilamennsku sem þarf til að ná titli svo einfalt er það. Ég hef virkilegar áhyggjur af næstu leikjum

 36. Var ekki verið að setja línuna og búa til vanmat með því að nota ekki Shaqiri því hann er Albani? Hefði þessi ákvörðun verið tekin ef þetta hefði verið 16 liða úrslit?

 37. Vanmat og ekki vanmat það er spurning. Lið sem var efst í sínum riðli og fór í úrslita leik CL á móti Real Madrid maður skilur alveg Klopp svosem að trúa því að sínir menn geti klárað leik á móti fokkins redstar.

Liðið gegn Rauðu stjörnunni

Gullkastið: Ekkert léttöl – þungt í mönnum