Arsenal heimsóttir

Næsta verkefni hjá okkar mönnum er að heimsækja Emirates leikvanginn í Lundúnum, þar sem heimamenn í Arsenal munu freista þess að gera lærisveinum Klopp skráveifu í baráttunni um efsta sæti deildarinnar.

Það er kominn nýr maður í brúna hjá Arsenal: Unai Emery. Þessi réttsvotæplegafimmtugi Spánverji tók við af Arséne Wenger í sumar, eftir alllangt tímabil af #wengerout skilaboðum frá aðdáendum Arsenal. Emery þessi kom til liðsins frá PSG, sá sem tók svo við af honum þar er Thomas Tuchel, en það vill svo skemmtilega til að hann tók við af Jürgen Klopp hjá Dortmund á sínum tíma. Áður en Emery kom til PSG var hann við stjórnvölinn hjá Sevilla, og einn af síðustu leikjunum hans þar fór fram í Basel, í úrslitaleiknum í Evrópubikarnum árið 2016, þar sem Klopp mætti með okkar ástkæra lið. Við munum öll hvernig það fór, og eyðum ekki meiri tíma í að velta okkur upp úr því… Við getum huggað okkur við það að frá því að Klopp tók við hefur Liverpool ekki tapað fyrir Arsenal, 6 síðustu leikir liðanna hafa endað með 3 sigrum Liverpool og 3 jafnteflum, svo það er nú engin ástæða til að óttast neitt, þó það megi að sjálfsögðu búast við hörku leik.

Andstæðingarnir

Eftir fyrstu tvo leikina hjá Arsenal í deildinni leit þetta ekkert rosalega vel út hjá þeim. Báðir leikirnir töpuðust, og liðið með 0 stig. En á það ber að líta að andstæðingarnir í fyrstu tveim leikjunum voru líka ekkert slor: City og Chelsea. Þar að auki var liðið með nýjan stjóra og það átti eftir að stilla saman allnokkra strengi. Eftir þessa erfiðu byrjun hafa nallarnir ekki litið til baka, eru taplausir síðan þá, og reyndar er það svo að jafnteflið á móti Palace um síðustu helgi (sem Einar Matthías jinxaði svona stórkostlega) er eini leikurinn sem þeir hafa ekki unnið frá Chelsea leiknum.

Og hvernig má svo reikna með að Emery stilli sínum mönnum upp? Jú þar gætu málin aðeins vandast. Samkvæmt síðustu veðurathugunum eru allnokkrir annaðhvort meiddir eða í leikbanni. Í leiknum gegn Palace þurfti Xhaka að spila í bakverði, en þótti reyndar vera með betri mönnum liðsins. Í vikunni lék svo liðið gegn Blackpool í deildarbikarnum, vann þann leik svosem, en Guendouzi fékk rautt spjald og verður því í banni á morgun. Bellerin var svo í hægri bakverði fyrir viku, en óvíst hvort hann verður leikfær.

Það er því allt eins líklegt að liðið hjá Arsenal verði ákveðið með stuttum fyrirvara, eða um leið og læknateymið hjá þeim er búið að gefa grænt/rautt ljós á þá leikmenn sem eru tæpir.

Þetta hér er því bara skot í myrkri:

Leno

Lichtsteiner – Mustafi – Sokratis – Xhaka

Torreira – Ramsey – Iwoby

Ozil – Lacazette – Aubameyang

Eitt er víst: sóknarleikurinn þeirra hefur verið að virka ágætlega, eins og lið Leicester fékk heldur betur að finna fyrir fyrr í október. En varnarleikurinn hefur þótt vera tæpur, og ekki eru þessi meiðsli að hjálpa til.

Okkar menn

Það vill svo til að nú hefur liðið okkar haft heila viku til að jafna sig, en það hefur ekki gerst í allnokkurn tíma. Arsenal léku hins vegar í deildarbikarnum í vikunni eins og áður kom fram, það gæti þýtt að þeir verði þreyttari, en gæti svosem líka þýtt að það verði meiri taktur í þeirra spili. Ekki víst að þreyta vegna stífra leikja sé endilega farin að gera vart við sig á þessum tímapunkti á tímabilinu.

Á blaðamannafundi í dag fór Klopp yfir stöðuna á okkar mönnum. Það hefur lítið breyst síðustu daga. Eitthvað var fólk að hræðast það að Salah sást á æfingu með umbúðir um annan handlegginn, en það ku víst ekki vera neitt til að hafa áhyggjur af, og hann á að vera leikfær. Henderson og Keita eru áfram frá, en Klopp reiknar með að Henderson byrji að æfa eftir helgina. Ox og Brewster eru svo á langtímasjúkralistanum sem fyrr.

Spurningin er einna helst sú hvort Klopp haldi sig við 4-2-3-1 kerfið sem hann hefur svolítið verið að leika sér með upp á síðkasið, með Fabinho og Wijnaldum fyrir framan vörnina, eða hvort hann fari aftur í 4-3-3 eins og hafði verið algengara mánuðina þar á undan. Nú svo má líka halda því fram að eins og leikstíllinn er þá skipti kannski ekki alveg öllu máli hvað leikkerfið heitir, því leikmenn eru það fljótandi í sinni stöðu hvort eð er.

Í 4-2-3-1 er Salah meira miðsvæðis, með Mané og Shaqiri/Lallana sitt hvoru megin við sig, og Firmino fyrir aftan, en vissulega allt mjög flæðandi. Í 4-3-3 er Firmino meira sá sem leiðir sóknina, en þó hefur það sýnt sig að þegar meðalstaða leikmanna á vellinum er skoðuð, þá er Salah alltaf fremstur, þó svo hann sé meira hægra megin á kantinum. Mögulega mun Klopp horfa á bakvarðavandræði Arsenal og því kjósa að fara aftur í kerfið þar sem Salah herjar meira á bakverðina. En á hinn bóginn, þá var hann yfirleitt með Wijnaldum/Milner/Henderson/Keita sem miðjumennina í því kerfi, en nú eru tveir þeirra vant við látnir. Lallana gæti alveg spilað á miðjunni, sama gildir um Shaqiri, en það væri samt ákveðin tilraunastarfsemi. Það kæmi undirrituðum samt lítt á óvart þó svo Klopp horfi töluvert marga leiki fram í tímann og komi jafnvel með eitthvað útspil sem kæmi á óvart.

Prófum að stilla þessu upp svona:

Alisson

Trent – Gomez – Virgil – Robertson

Fabinho – Wijnaldum

Shaqiri – Firmino – Mané
Salah

Bekkur: Mignolet, Lovren, Moreno, Lallana, Milner, Sturridge, Origi

Ég myndi a.m.k. halda að hann stefni á að spila sínu allra sterkasta liði, menn hafa jú haft viku til undirbúnings eins og áður kom fram, og frekar hægt að rótera í miðri viku í útileiknum gegn Rauðu stjörnunni.

Spáin? Ég ætla að veðja á að okkar menn hafi þetta, og að leikurinn fari 1-3. Við komumst að hinu sanna í kringum kvöldmatarleytið á morgun.

KOMA SVO!

12 Comments

 1. Gæti orðið skemmtilegur leikur, sem verður örugglega áhugaverður á að horfa. Þarna verða lærisveinar Klopps í báðum liðum. Er sammála greinarhöfundi, 1-3 við erum einfaldlega betri, ekkert flókið.

  YNWA

 2. Sæl öll

  Það verðir rosaleg yfirlýsing hjá okkar mönnum ef þeim tekst að vinna Arsenal. Ef það á að takast er ljóst að liðið þarf að skipta upp í hærri gír og koma mjög ákveðnir til leiks. Á blaði erum við sterkari að mínu mati og ég hef trú á verkefninu. Oft vilja leikir hjá okkar mönnum vera ýmist í ökkla eða eyra og ætla ég að giska á eyra í dag…..1-4 🙂

  Að öðru …..https://www.mbl.is/sport/fotbolti/2018/11/03/evropsk_risadeild_kynnt_i_november/ …ég kem ekki til með að fylgjast með þessari græðgis ofurdeild ef þetta verður að veruleika og vona heitt og innilega að Liverpool dragi sig út úr þessu.

 3. Algjör skilda að hafa Shaq inn á, okkar mest skapandi leikmaður eins og staðan er í dag. 3 assist og 1 mark í seinustu 4 leikjum er ekki slæmt. Þetta er heldur ekki leikurinn til að reyna að spila Lallana í form, allt of mikil pressa og ef hann gerir mistök þá verður hann tekinn af lífi.

 4. Sælir félagar

  Takk fyrir góða upphitun Daníel og skemmtilegar pælingar. En hvað sem líður uppstillingu liðsins og hverjir leika hvar þá er sigur og ekkert annað mín krafa. Við eigum að vera með betri menn í flestum stöðum og amk. jafngóða í öðrum. Það á að duga til þar sem varnarleikurinn mun gera Nöllunum erfitt fyrir. Spái þessum leik 0 – 3 og ekkert vesen.

  Það er nú þannig

  YNWA

 5. Sælir
  Nú er ég uppí bústað í reykholti vitið þið nokkuð um einhvern stað í nágrenninu þar sem ég get horft á Liverpool sigra Arsenal?

 6. Ég held að Miklar sé alltaf að fara byrja þennan leik og þá á kostnað Fabinho. Svo gæti Klopp komið okkur á óvart og sett Sturridge inn!! Ekta leikur fyrir hann 🙂

 7. Kirkjan í Reykholti ætti auðvitað að sýna leikinn, annað er guðlast, fáránlega hallærislegt grín frá mér. #6 vonandi finnur þú eðal stað til að sjá þess sem þú óskar.

  YNWA

 8. Einn af stórleikjum tímabilsins framundan. Nú reynir virkilega á að halda dampi þó ekki séu allir heilir í augnablikinu. Á eðlilegum degi sigrar Liverpool 1 til 2-0. En eins og við vitum eru ekki allir dagar eðlilegir og svo hafa Arsenal menn verið að spila virkilega vel.
  Varðandi ofurdeildina sem þú ÞHS minnist á vona ég svo sannarlega að verði aldrei að veruleika. Ef hún verður a veruleika þá má Liverpool alls ekki vera þar með. Það eru jú alltaf einhver öfl sem vilja eyðileggja íþróttina með peningaflóði. Deildarkeppnin í hverju landi er að mínu mati skemmtilegi hlutinn af knattspyrnunni.

 9. Verð að viðurkenna venjulega þegar maður var að mæta Arsenal var maður lítið stressaður yfir því en þeir eru búnir að vera mjög góðir undanfarið og Emery er bara að gera virkilega flotta hluti og þeir eru að nýta styrkleika sína betur. Ég held þetta verði erfiðari leikur en menn eru að spá hér en er alveg til í að hafa rangt fyrir mér í þeim efnum.

 10. Nr.6, þín helsta von er Kollubar á Hvanneyri og það er ekki einu sinni 100% að hann sé sýndur þar, það var nú þannig að þar voru alltaf sýndir allir Liverpool leikir en það eru nokkur ár síðan, veit ekki hvort það er enn þannig.

 11. Þetta er stórleikur og því tel ég að við sjáum Millner byrja inná.

  Já Arsenal hentar Liverpool vel því að þeir sækja á mörgum og það er hægt að keyra á þá en það er samt nákvæmlega sama og Arsenal stuðningsmenn eru að segja um Liverpool.

  Þetta verður mjög erfiður leikur fyrir okkar menn og er ég viss um að það verða fullt af færum.

  Ég er pínu hræddur um að ef Trent byrjar inná þá verðum við í vandræðum varnarlega en hann á það til að ná ekki að loka svæðinu á milli hans og miðvarðar.

  Höfum trú á verkefninu 1-2 sigur. Salah og Mane með mörkin okkar

Hver er bestur og hvað þarf helst að styrkja

Byrjunarliðið gegn Arsenal á Emirates