Liverpool 4-1 Cardiff City

Mörkin

1-0   Mohamed Salah 10.mín
2-0   Sadio Mané 66.mín
2-1   Callum Patterson 77.mín
3-1   Xherdan Shaqiri 84.mín
4-1   Sadio Mané 86.mín

Leikurinn

Leikurinn byrjaði rólega og Liverpool hélt boltanum eins og þeim sýndist. Þegar tæpar 10 mínútur voru liðnar fengu heimamenn sína fyrstu hornspyrnu og upp úr henni skapaðist mikil hætta í teig Cardiff. Boltinn barst til Alexander-Arnold sem átti fyrirgjöf í boxið og þar féll boltinn til Mané sem átti gott skot blokkað af varnarmanni, hið sama gerðist hjá Wijnaldum en á endum fór boltinn á fjærstöng þar sem Mo Salah kláraði darraðadansinn í netið.

Liverpool voru alveg með tögl og hagldir á þessum tímapunkti, komnir snemma yfir og 90% með boltann. Áfram héldu yfirburðirnir og Virgil van Dijk skallaði boltann í stöng á 13.mín eftir flotta fyrirgjöf frá Mo Salah. Tveimur mínútum síðar var Egyptinn nærri sloppinn í gegn en í sömu sókn fékk hann boltann aftur og nartaði varnarmaðurinn það hraustlega í hann aftan frá að stúkan heimtaði vítaspyrnu. Hefði líklega verið ströng en þó rétt dómgæsla ef vítið hefði verið dæmt.

Eftir þetta róaðist leikurinn ögn og Cardiff komust smá í boltann en þó voru rauðliðar með allt sitt á hreinu. Á 25.mínútu spiluðu Púlarar boltanum skemmtilega sín á milli við hægra horn vítateigs Cardiff og endaði syrpan með vinstri fótar skoti frá Alexander-Arnold sem fór framhjá. Áfram héldu yfirburðir okkar manna með ágæta hreyfingu án bolta og sendingar að finna samherja, en minna var um opin marktækifæri. Cardiff fóru að færa sig ögn framar og en þeirra sóknartilburðir voru veikburða og vörnin leysti allar tilraunir þeirra þægilega.

Á lokamínútu uppbótartímans átti Liverpool góða sókn upp vinstra megin og Moreno sendi góða fyrirgjöf beint á kollinn á Adam Lallana sem skutlaði sér fram til að skalla boltann í átt að marki en varnarmaður bjargaði á marklínu. Flautað var til hálfleiks og líklega var Warnock sáttari af þjálfurunum þar sem hans lið var bara einu marki undir þrátt fyrir að hafa verið algerlega yfirspilaðir. Klopp virkaði ögn pirraður á leiktöfum bláliðanna og heimtaði meira frá sínum mönnum.

1-0 í hálfleik.

Seinni hálfleikur byrjaði rólega en Cardiff voru greinilega búnir að færa sig framar á völlinn í leit að jöfnunarmarki. Á 52.mínútu fengu gestirnir aukaspyrnu nærri vítateig Liverpool og úr aukaspyrnunni tókst þeim að koma boltanum í netið en markið var réttilega dæmt af vegna rangstöðu. Viðvörunarbjalla fyrir heimamenn sem virtust hafa slakað of mikið á eftir hálfleiksræðuna. Enn héldu Cardiff áfram að þrýsta og voru að valda vandræðum þó að ekkert opið færi birtist. Aron Einar fór að láta finna meira fyrir sér en hann hafði verið alger áhorfandi í fyrri hálfleik.

Á 60.mínútu fengu Púlarar ágætt upphlaup og fyrirgjöf Moreno fór í hönd varnarmanns inní vítateig en miðað við af hversu stuttu færi það var þá hefði verið full strangt að dæma víti á það. Í kjölfarið var Lallana skipt útaf og inná kom orkuboltinn Shaqiri sem hefur verið að mjög flottur og skapandi í síðustu leikjum. Aftur skaust boltinn í hönd varnarmanns Cardiff inní vítateig og í þetta sinn var vítalyktin sterkari en ekkert var dæmt.

Á 66.mínútu sendi Fabinho góða sendingu á Firmino upp vinstri kantinn og Brassinn kom sér inn í teig en var komst ekki lengra. Hann sendi á Moreno sem lagði boltann á Mané sem dansaði fram og til baka áður en hann hamraði þrumufleyg í fjær hornið hjá Etheridge í markinu. Glæsilegt mark og staðan orðin 2-0 fyrir Liverpool.

Stuttu síðar gerði Klopp aðra liðsbreytingu dagsins og tók Firmino útaf fyrir Milner og það gert bæði með hvíld í huga en einnig til að setja meiri vinnslu á miðjuna og færa Shaqiri framar. Aron Einar fylgdi fljótlega í kjölfarið útaf en hann er enn að komast í leikform og hafði haft í mörgu að snúast við að eltast við Firmino í 70 mínútur.

Leikurinn virtist búinn og að fjara út en á 77.mínútu komust Cardiff upp vinstra megin og fyrirgjöfin skaust af van Dijk og beint fyrir fætur Callum Patterson sem sendi boltann undir Alisson í markinu. Slysalegt og óheppilegt hjá varnarlínu sem hafði verið með allt á hreinu fram til þessa. Þetta var þar með fyrsta markið sem Liverpool fékk á sig í deildinni á Anfield síðan í febrúar þessa árs. Skjálftamælarnir á Anfield mældu stressbylgjuna sem færðist yfir mannskapinn. Staðan 2-1 og því miður „game on“.

En taugarnar áttu eftir að róast skjótt því að á 84.mínútu spilaði Salah boltanum til Shaqiri í teignum sem dansaði framhjá varnarmanninum og lagði boltann snyrtilega út við stöng. Frábær super-sub innkoma hjá Svisslendingnum, 3-1 fyrir Liverpool og sigurinn orðinn öruggur á ný. Til þess að gulltryggja og geirnegla niðurstöðuna þá skellti Salah sér upp völlinn tveimur mínútum síðar og lagði boltann glæsilega inn fyrir á Mané sem vippaði snyrtilega yfir markmanninn. Flottur sigur í lokin og Anfield fagnaði vel.

Bestu leikmenn Liverpool

Liðið var heilt yfir mjög flott og enginn sérstakur veikur hlekkur í dag. Fyrirfram hafði Moreno þótt líklegur til þess stimpils en hann var alveg allt í lagi í dag þó að hann eigi smá sök í markinu ásamt öðrum. Liðið er greinilega með mikið sjálfstraust þessa dagana og sýndu það með þægilegum yfirburðum í fyrri hálfleik og hvernig þeir fóru ekkert á taugum þó að Cardiff hafi minnkað muninn í eitt mark seint í leiknum. Þá þurfti einfaldlega að bæta fleiri mörkum við og það gerðu þeir með bravör. Mané var ekkert sérlega áberandi fyrir utan mörkin en tvö frábær slútt sungu í netinu og hann er kominn aftur í markagírinn eftir að hafa rofið múrinn í síðasta leik. Shaqiri átti mikilvæga innkomu með sínu fyrsta marki fyrir félagið og Fabinho og Wijnaldum voru sterkir á miðri miðjunni.

En það er bara einn sem kemur til greina sem maður leiksins að mínu mati og það er Mohamed Salah sem skoraði eitt og lagði upp tvö. Því til viðbótar var hann afar líflegur, hefði geta fengið víti og lagði upp skallann í stöngina hjá Virgil van Dijk. Svo herma mínar heimildir að hann hafi jafnvel brosað oftar en einu sinni og þá er þeirri “broskrísu” lokið. Broskall á það 🙂

Vondur dagur

Enginn Púlari átti vondan dag og Cardiff voru í þeim gæðaflokki sem búist var við. Það er helst að vörnin fái smá sneið fyrir að hafa ekki náð að halda leikinn út með hreint lak og þar með ná að bæta met Liverpool í að halda hreinu. Þessi vörn hafði alveg átt skilið að bæta metið en núna þarf bara að hlaða í nýja syrpu af tandurhreinu tímabili.

Einnig er þetta vondur dagur fyrir Gilzinegger sem veðjaði 200 evrum á sigur Cardiff í þessum leik og gleðjumst við innilega yfir því tapaða fé.

Tölfræðin

  • Það munað einungis 16 mínútum að klúbbmetið um fjölda mínúta að halda hreinu hefði verið slegið og það er ákveðið svekkelsi að hafa loks fengið á sig mark og það frá miðjumanni Cardiff sem var að spila sem framherji.
  • Í fyrri hálfleik átti Wijnaldum 69 sendingar á samherja á meðan ALLT Cardiff-liðið til samans átti 34 sendingar samtals. Einn leikmaður með rúmlega tvöfalt fleiri sendingar en allir ellefu andstæðingarnir er ansi ágætt.

Umræðan

Púlarar munu ekki dvelja of lengi við frammistöðuna sem var mest megnis mjög fín og á köflum sýndum við algera yfirburði. Það má þó alveg ræða hvort við höfum sýnt smá kæruleysi í seinni hálfleiknum en á endanum er lokastaðan aðalatriðið. Við erum efstir í deildinni og Man City eiga afar erfiðan útileik á mánudaginn gegn Tottenham. Þessir þrír skyldusigrar sem var krafist af okkur á þessum kafla hefur öllum verið skilað í hús og næst er stórleikur á Emirates gegn Arsenal sem eru á mikilli siglingu. Verum því vígreifir og sigurglaðir Rauðliðar að sinni og fögnum góðum sigri sem efsta lið deildarinnar!

YNWA

28 Comments

  1. Ég er mjög hlynntur því að maður geymi hlutina á sínum stað. Núna t.d. er Liverpool komið á toppinn sem er nákvæmlega þar sem liðið á að vera.

  2. #1 tek undir með þér í því þarna þekkjum við okkur.

    Mané maður leiksins !

  3. Salah er maður leiksins með mark og stoð.
    Shaquiri er vara-maður leiksins.

    Efstir og njótum þess. Miðlungarnir í Tottenham munu ekki tapa fyrir þeim fölbláu.

  4. Roberto Firmino er búinn að vera algjört jójó þetta.timabil. Á bekkin með hann. Það eru allir að standa sig betur en hann sem koma inn. EKKI BOÐLEGT!!

  5. Sælir félagar

    Það er skrítið að liðið manns vann leikinn 4 – 1 en samt er maður ekki sáttur eftir það. Þetta mark sem við fengum á okkur fór ósegjanlega í taugarnar á mér. Ég vil alla daga Gomes í miðvörðinn frekar en Lovren. Það að fá á sig mark gegn þessu liði sem átti ekki eina tilraun á markið í fyrri hálfleik er ekki ásættanlegt. Að öðru leyti er ég sáttur við leikinn og minn mann Salah sem skoraði eitt og lagði upp 2. Firmino er ekki að finna sig og það kemur lítið út úr Lallana þrátt fyrir góða boltameðferð. Shakiri kom sterkur inn.

    Það er nú þannig

    YNWA

  6. Flottur sigur, ekki sammála með Firmino hann var dekkaður allan tíman sem gaf öðrum bara meira pláss. Ekki hægt annað en að velja Salah mann leiksins þó að aðrir hafi staðið sig vel.

  7. 4-1 sigur í leik þar sem við vorum miklu betri í fyrir hálfleik sem við unnum 1-0 og komust varla í gang í þeim síðari sem við vinnum 3-1.

    Við stjórnuðum þessum leik í 90 mín og það skilaði 3 stigum en við höfum leikið betur. Þetta var auðvita klaufalegt mark sem við fáum á okkur. Þeir komast með klafsi bakvið Moreno, senda boltan fyrir á mann sem er rangstæður en boltin fer á leiðinni í hælinn á Dijk og þaðan beint á sóknarmann sem var kominn inn fyrir Lovren(enda rangstæður þegar sending kemur) og skorar.
    Þarna var maður orðinn mjög stressaður en okkar menn héldu þetta út og þegar gestirnir sáu smá von og fóru að færa sig framar þá slökktum við bara á þeim vonum.

    Það var engin frábær í þessum leik en manni fannst Salah með mark og stoðsendingu vera maður leiksins .
    Arsenal úti í næsta leik og það verður fjörugur leikur hjá tveimur liðum sem vilja sækja en þeir eru á góðu skriði.

    YNWA og það er gaman að sjá okkar menn á toppnum þótt að það gæti verið tekið af okkur á mánudaginn.

  8. Fabinho frábær í leiknum. Hreinræktuð 6-a sem hefur vantað síðan litla skrímslið okkar var selt til Barca(sem ég vona btw að við mætum í 16 liða í meistaradeildinni þannig að Suarez og Kútur sjái lið á uppleið, ekki niðurleið).

    Minn maður leiksins. MANÉ.
    Búinn að kvarta yfir honum seinustu leiki að hann sé að gera einfalda hluti of flókna. Í dag þá gerði hann einföldu hlutina einfalt og skar upp 2 mörk að launum. Haltu þessu áfram og þá verður þú markahæstur í liðinu á tímabilinu. Shaq var líka snilld eftir að hann kom inn á.

    Svo bara til að Moreno fái hrós þá var hann frábær í 89 mín í dag. Gleymdi sér í 30 sek. en sömuleiðis gerði Van Dijk. Moreno var upp á 8,5-9 í fyrri hálfleik en dróg af honum í seinni. Heilt yfir fannst mér hann vera 7,5 í leiknum.

    Kv,
    Team Moreno

  9. Maður er orðinn svo dekraður, enn einn sigurinn.
    Best að njóta þess.

    Til lukku öll.

  10. Góður leikur. Liverpool átti þennan leik með húð og hári. Okkar menn voru 81% með boltann, sjö skot á markið og fimm sem hittu ekki á rammann en Carfiff er með 1 skot á ramman og eitt fyrir utan hann. Það sem vantar en sköpun á marktækifærum en það er hægara sagt en gert þegar það er verið að spila á móti liði sem er með 11 mans fyrir aftan boltann.

    Þetta mark Cardiff er fyrirgefanlegt. Svona mörk fá öll stórlið á sig öðru hvoru. Óheppni er eitthvað sem er erfitt að bregðast við. Boltinn skipti um stefnu þegar Van Dijk kom við hann og fyrir vikið fékk framherji Cardiff þeirra eina raunverulega færi í leiknum og skoraði úr því.

    Annars finnst mér Liverpoolliðið gjörbreytt frá því í fyrra. Það vantar enn upp á asann í skónarleiknum en þess í stað er varnarleikurinn orðin fyrirtak og augljóslega ástæða þess að fleirri sigrar eru að nást. Ef sóknarleikurinn nær sömu hæðum og í fyrra í ofanálag þá er Englandsmeistaratitilinn ekki svo fjarlægur draumur.

  11. Sæl og blessuð.

    Eftir að Shaq mætir á völlinn þá skorum við þrjú mörk. Það segir nú eitthvað um snerpuna sem fylgir honum (svo allrar sanngirni sé gætt þá vorum við nú harla nærri því að skora í þeim fyrri – stöng, lína og 50/50 líkur á víti). Þetta eru þó skýr skilaboð.

  12. Leikskýrslan er komin inn félagar. Til lukku með sigurinn og toppsætið.

    YNWA
    Beardsley

  13. Skil ekki þessa gagnrýni á Firmino. Hann er að gera nákvæmlega sem hann á að gera, koma niður og fá boltann sem skapar mikið pláss fyrir hraða Mane og Salah að hlaupa inn í. Ef hann ætti að spila hið hefðbundna “9” hlutverk sbr. Kane að þá fengum við ekki nærri því jafn mikið frá Mane og Salah. Hann sinnir þessu, oft, vanþakkláta hlutverki mjög vel.
    Svo ekki sé minnst varnarvinnuna sem hann skilar af sér, bæði að pressa varnarmenn og að hlaupa til baka ef boltinn kemst yfir fyrstu pressulínu okkar manna.

  14. Tveir frábærir sigrar án Henderson, sem ég hef ekki beint saknað. Það sem gleður mig mest er glæsileg endurkoma Salah. Gomes er betri en Lovren og Robertson er mun betri en Moreno, en Lovren og Moreno sluppu þó báðir nokkurn veginn fyrir horn í dag. Lallana er ekki í góðu leikformi, en meistari Shaqiri er í tvöföldu leikformi. Meira svona !!!

  15. Skil ekki þessa gagnrýni á Fabinho né Firmino. Fabinho er þessi Kante, Mascerano, Fernandino týpa með góða fótboltatækni enda fékk hann næst hæstu einkunn 7 eftir leikinn. Firmino er svo gríðalega vinnusamur að hann gæti spilað sem bakvörður og verið geggjaður. Ég spái því að innan skamms verði Fabinho einn allra mikilvægasti leikmaðurinn sem tengir vörn og miðju. Þá eins og hefur sýnt sig í síðustu tveimur leikjum opnast meira pláss fyrir sóknina. Því miður fyrir Henderson að þá mun hann ekki fá plássið sitt gefins bara af því að hann er fyrirliði. Án þess að ég vill gera lítið úr Henderson því hann er góður leikmaður og mikulvægur að þá er hann ekki 6a og ekki 8a. Gini hefur stigið skrefið framar en hann og Milner einnig. Svo má ekki gleyma því að við eigum Keita og Uxann inni líka að þetta er orðið svakalegt lúxusvandamál.

    YNWA

  16. Moreno átti að mínu mati alla sök á þessu marki. Kjánaleg tilraun hans til að ná boltanum af sóknarmanninum gerði það að verkum að hætta skapaðist og úr varð þetta færi og mark. Þessi maður á ekki að spila bakvörð. Fínn kantari en ekki bakvörður fyrir fimm aura. Vissi um leið og ég sá hann á leikskýrslunni að Liverpool fengi á sig mark. 🙁

  17. Það var ekki nokkur spurning hvorum megin sigurinn myndi enda, þvílíkir voru yfirburðir okkar manna. Þó skað ég játa, að í stöðuni 2-1 og Cardiff að fá nokkur föst leikatriði bæði í innköstum og aukaspyrnum, að ég fékk smá í magann vitandi að Cardiff hefur góða tölfræði í háboltum. Hvað markið hjá þeim varðar, þá var aðdragandinn og síðan potið eithvað sem getur gerst hjá hvaða liði sem er. Það er eithvað sem segjir mér að fara varlega, engar óþarfa tæklingar eða að lenda illa í tæklingum, hafi verið beiðni Klopp, Lovren var næstur því að meiðast þegar hann hleipur frá marki Cardiff. En heilt yfir stóðu allir sig vel, og fólk búið að nefna mörg nöfn, því óþarfi að endurtaka það.

    YNWA

  18. Takk fyrir þessar fínu umræður hérna á síðunni. Sammála þeim sem skilja ekki neikvæða umræðu um Firmino og Fabinho. Báðir eru þeir hörkugóðir og fer Fabinho fram á hverjum degi. Kannski þarna sé kominn leikmaður, með sömu hæfileika og getu, sem við höfum saknað síðan fyrir meiðsli L Leiva og Alonso skömmu áður. Henderson er góður en ekki afgerandi sem djúpur og held ég að hann verði, þegar líður á veturinn, settur aftar í goggunaröðina. Síðan er gott að eiga öflugan hóp því vonandi verður okkar lið í baráttunni um alla titla næstu misserin. Í þá baráttu þarf amk 16-20 leikmenn í toppklassa.

  19. “Í fyrri hálfleik átti Wijnaldum 69 sendingar á samherja á meðan ALLT Cardiff-liðið til samans átti 34 sendingar samtals. Einn leikmaður með rúmlega helmingi fleiri sendingar en allir ellefu andstæðingarnir er ansi ágætt.”

    Smá stærðfræðikennala, afsakið leiðindin 🙂

    helmingi meira er +50% og tvöfalt meira er +200%

    kv.

  20. Sælir félagar

    Umræðan um Firmino á rétt á sér. Hann er jafn vinnusamur og hann hefur verið og jafn mikilvægur og hann hefur verið fyrir liðið. En hann er ekki jafn frábær í sínum aðgerðum og hann hefur alltaf verið. Hann tapaðu boltanuym nokkrum sinnum klaufalega og átti óvenju margar feilsendingar. En hann er samt mjög góður og er enn minn uppáhalds leikmaður í þessu liði. En samt fannst mér hann betri á síðustu leiktíð en hann er búinn að vera á þessari.

    Mér finnst samt að það sé stígandi í leik Firmino og hann mun ná sínum fyrri hæðum fyrr en varir. Fabino finnst mér mjög vaxandi leikmaður og tel að það verði erfitt fyrir aðra leikmenn að ryðja honum burtu núna. Það var yfirleitt hann sem stoppaði fátæklegar sóknartilraunir Cardiff og hann tengdi saman frá vörn til sóknar frábærlega oft á tíðum frábærlega. Sendingargeta hans er augljóslega mikil og á eftir að verða enn betri með meiri leikæfingu.

    Lallana er slyngur með boltann en það kemur lítið út úr því – ennþá. Það á vonandi eftir að batna ef hann helst heill og með meiri leikæfingu. Hæfileikarnir leyna sér ekki. Shaqiri er tifandi sprenja sem sprengir upp varnir og leik andstæðinganna með sprengikrafti sínum og það er magnað að fá svona nagla inn þegar andstæðingarnir eru farnir að þreytast dálítið og ráða þá ekkert við þennan orkubolta. En samt – Firmino er búinn að vera minn maður nánast frá því að hann kom til liðsins og ég á von á því að svo verði áfram.

    Það er nú þannig

    YNWA

  21. Þá er það ljóst að Arsenal er ekki að ná okkur að stigum í næsta leik eftir jafntefli gegn Chelsea og ef Liverpool ynni í næstu umferð gegn Arsenal væri bilið skyndilega orðið 7 stig á milli liðana sem væri óskandi en hægara sagt en gert.

  22. @Haukur #21

    Takk fyrir ábendinguna. Mismælti mig. Leiðrétt.

    YNWA
    Beardsley

  23. Ekki þakka fyrir ranga ábendingu Magnús Þ frá #21 því þú segir réttilega rúmlega tvöfalt fleiri sendingar þ.e. 1 sending umfram tvöfalt fleiri (34*2=68) helmingi fleiri en 34 eru 51 sending þ.e. 50% , 68 er 100%
    meira 34 og er eðlilega tvöfalt meira.
    ( smá stærðfræðikennsla, leiðist bara að sjá menn kenna staðleysu)
    Annars YNWA

  24. Helvítis! Man City að vinna Tottenham á útivelli þar sem þeir voru reyndar miklu betri en Tottenham fengu 2-3 dauðafæri til að jafna leiki. Kane einn í gegn, Lamela alein fyrir framan markið en skaut yfir og tvisvar sinnum voru þeir 3 á 2 en nýttu það ekki.

    Einu sinni hefði maður verið sáttur við að Tottenham tapað því að markmiðið var meistaradeildarsæti og titil óraunhæfur en í ár ætlum við okkur að berjast um dolluna en Man City er því miður besta liðið á Englandi í dag þótt að við séum með jafn mörg stig(þetta city lið er að spila betri fótbolta en liði sem rústaði deildinni á síðustu leiktíð)

  25. Sæl og blessuð.

    Já, það var ekki gaman að gerast Spörsari eina kvöldstund. Hafi maður frústrerast yfir ákvörðunum okkar manna, var það léttvægt miðað við það sem þeir hvítklæddu buðu upp á í gærkvöldi. City-liðið bauð upp á hryggjarsúluna, Stones – Fernandinho – Sterling sem gerðu heimamönnum erfitt um vik. Bernando Silva og Da Silva eru alltaf góðir en mér fannst þeir ekkert framúrskandi í þessum leik. Aðrir voru nú ekki að heilla. Walker og Mendy voru ótrúlega klaufskir og hefði sannarlega mátt vinna meira úr þeim færum sem urðu til er þeir misstu boltann, Agurero að sama skapi lítils megnugur, Mahres sást ekki eftir markið og svona mætti áfram telja. Markið sem City skoraði var í raun varnarklúður.

    Almennilegir andstæðingar hefðu gert sér mat úr þessu, en Tottenham vinnur og spilar eins miðlungslið.

  26. Manc vs Spurs hefði auðveldlega geta endað 1-1, en auðvitað var völlurinn ekki sæmandi og á ekki að taka í mál að hafa ruðningsbolta tveimur dögum fyrir leik, enda sennilega hugsað að Spurs væru fluttir á sinn völl fyrir þó nokkru síðan þegar ákvörðun var tekin að hafa þennan ruðningsleik á þessum tíma. En við eigum bara að halda okkar striki, manc mun misstíga sig, bara hvenar og á móti hverjum. Aðallega að við misstígum okkur ekki, sem ég hef trú á.

    YNWA

Byrjunarliðið gegn Cardiff City

Kvennaliðið heimsækir Chelsea