Upphitun: Cardiff City á Anfield

“You’re worse than Cardiff City”

Þannig hljómar einn versti hæðnissöngur sem hægt er að syngja á fótboltavelli í Vestur-Wales. Það skal þó tekið fram að fjöldi fótboltaliða á því svæði, eða jafnvel í öllu Wales ef út í það er farið, er ekki sérlega mikill. Söngurinn er því ekki sérlega útbreiddur en hann á það þó til að vera kyrjaður stöku sinnum á engilsaxneskum sparkvöllum og þá sér í lagi ef að mótherjinn hefur velskar tengingar. Engu að síður þá gefur þetta þær sagnfræðilega réttu vísbendingar um að Cardiff City verður seint kallað stórveldi í enskri fótboltasögu og mæta þeir að þessu sinni á Anfield sem nýliðar í úrvalsdeild hinna bestu Breta. Þeirra hápunktur í sögunni kom árið 1927 er þeir unnu FA bikarinn en síðan þá hefur verið fátt um fína drætti.

Það þarf því ekki fara í neinar grafgötur með það að þetta er alger skyldusigur fyrir Rauða herinn í sinni toppbaráttu. Þetta er síðasta viðureignin í þríleik af léttari leikjum á pappír þar sem Púlarar eiga að sigra alla leiki og hingað til eru úrslitin eftir bókinni. Því er alger skylda að taka góða upphitun til að suðumarkið sé hæfilegt til að steikja andstæðinginn og búa til fyrirtaks heimaeldaða veislumáltíð!

Come on you REDS!

Mótherjinn

Fram að síðasta leik höfðu Cardiff City ekki unnið leik í deildinni, voru eingöngu með 2 stig og 4 mörk skoruð í 8 leikjum með 17 mörk fengin á sig. Nýliðarnir frá Wales voru að kolfalla úr deildinni og virtust ansi vonlausir með 5 tapleiki í röð. En Warnock til varnar mætti vaski víkingurinn Aron Einar á svæðið og í sínum fyrsta leik á tímabilinu þá náði Cardiff viðspyrnu frá botninum og sigruðu 4-2 á sínum heimavelli. Í þessum eina leik tvöfölduðu þeir markaskorun sína á tímabilinu og komu sér naumlega upp úr fallsæti. Áhrif fyrirliða íslenska landsliðsins skulu því ekki vanmetin og allar líkur eru á að hann verði á sínum stað á miðjunni á Anfield til að hvetja sína fylkingu áfram og jafnvel með gríðarlöng innköst í sínu vopnabúri.

Fyrirfram er nokkuð ljóst að tveir andstæðir leikstílar mætast á laugardaginn. Gestirnir eru það lið í deildinni sem heldur boltanum næst minnst innan sinna raða (39,5% possession) og eru með slökustu sendingartíðnina á samherja (63,6% passing accuracy) á meðan Liverpool eru nálægt toppnum í báðum flokkum. Cardiff eru því seint að fara að sundurspila andstæðinginn með 15-20 sendinga tiki-taka sóknum.

Á hinn bóginn þá vinna þeir flest háloftaeinvígi af öllum í deildinni (29,6 aerial duels) á meðan Liverpool eru jafnir neðstir í þeim flokki ásamt Man City með 12,6 skallaeinvígi, en það segir auðvitað sína sögu um gæði liðanna og tegund leikstílsins. Þarna mætir gamli enski skólinn með eina af síðustu risaeðlum efstu deildar hinum úthugsaða hágæða meginlandsstíl hipsterans. Þetta gæti ekki verið ólíkara einvígi en á endanum er knötturinn hnöttóttur og allt getur gerst á 90 mínútum í fótboltaleik. Því er ekkert gefið fyrirfram þó að við ætlumst til öruggra 3ja stiga í þessum leik.

Hjá Cardiff er Lee Peltier meiddur en sá 31 árs kappi er fæddur í Liverpool-borg og uppalinn í akademíu LFC en hann spilaði 4 leiki á LFC-ferlinum í deildarbikar og Meistaradeildinni á tímabilinu 2006-07. Þar á meðal byrjaði hann inná á Ataturk gegn Galatasary í CL og í hinu fræga 3-6 tapi í deildarbikarnum gegn Arsenal. Nathaniel Mendez-Laing er frískur hægri vængmaður sem er einnig meiddur og var lykilmaður á síðasta tímabili hjá bláliðum. Varnarsinnaði miðjumaðurinn Joe Ralls er í leikbanni en hann hefur verið fastamaður í liðinu síðustu 5 tímabil þannig að nokkur skörð eru hoggin í liðshóp gestanna sem er ekki sá breiðasti fyrir.

Öflugasti leikmaður Cardiff það sem af er tímabilinu er varnarmaðurinn með flotta nafnið, Sol Bamba, en einnig er ekki útilokað að inná komi ekki síður skírður sveiflukóngur, Jazz Richards. Að öllu þessu upptöldu giska ég á að strigakjafturinn Neil Warnock muni stilla sínu liði svona upp:

Líklegt byrjunarlið Cardiff City í leikkerfinu 4-4-1-1

Liverpool

Okkar menn eru ósigraðir og jafnir að stigum á toppi deildarinnar. Endurtek. Ósigraðir og á toppnum! Það höfum við gert með ögn íhaldssamari útfærslu af leikstíl fyrri ára og sérstaklega blússandi sóknarleik síðasta vors. Inn er komin pragmatískari og varfærnari útgáfa af gegenpressen a la Klopp en þessi uppfærða útgáfa eru engu minna effektíf eða vænleg til vinnings. Því til staðfestingar eru 7 sigrar og 2 jafntefli ásamt því að hafa eingöngu fengið á sig 3 mörk í þessum 9 ósigruðu deildarleikjum.

Í síðasta leik ákvað Klopp að breyta leikkerfinu vegna meiðslavandræða hjá miðjumönnum og skipti úr 4-3-3 yfir í 4-2-3-1. Þessar breytingar gerðu það að verkum að Fabinho kom inn í þægilegt kerfi sem hann var vanur að spila í hjá Monaco og það svínvirkaði þar sem afmælisbarnið frá deginum áður átti fantaflottan leik sem vel spilandi harðjaxl á miðjunni. Einnig hentaði breytingin Shaqiri afar vel þar sem hann kom á hægri vænginn en með frelsi til að skapa sem hann nýtti sér út í ystu æsar og átti þátt í sköpun á tveimur mörkum.Í tilfærslunni er Salah orðinn fremsti maður með Firmino í holunni og mér finnst líklegt að Klopp haldi sig við það sem virkaði vel í síðasta leik.

Helstu mannabreytingar sem ég ætla að veðja á er að Lovren komi inn fyrir Gomez í hafsentinn. Það væri alls ekki hugsað sem nein gagnrýni á Joe Gomez enda hefur hann verið alveg frábær í hvaða hlutverki sem hann er beðinn um að sinna. Framtíðarmaður okkar í hjarta varnarinnar. En það væri gáfulegt að gefa honum einn leik í hvíld miðað við hans fyrri meiðslavandamál og hversu mikið hann hefur spilað upp á síðkastið bæði fyrir Liverpool og England. Hugsanlegt er að Milner komin inn á miðjuna en ég held að Klopp haldi næstum öllu óbreyttu í ljósi þess að eftir leikinn gegn Cardiff þá er vika í frí fram að stórleiknum gegn Arsenal á Emirates Stadium. Ég mun uppfæra stöðuna ef að Klopp gefur nýjar upplýsingar um stand leikmanna á blaðamannafundinum um hádegisbil.

Svona met ég að liðsvalið verði á laugardaginn eins og staðan er núna:

Líklegt byrjunarlið Liverpool í leikkerfinu 4-2-3-1

Uppfært: Blaðamannafundi Klopp var að ljúka rétt í þessu og að vanda var kappinn kátur á kantinum. Aðspurður um mikilvægi þess að öll framherjaþrennan komst á blað í síðasta leik þá sagðist hann ekki gefa mikið aukalega fyrir það því að hann væri ekki að telja það sérstaklega en auðvitað væri það gleðiefni. Joe Gomez var til umræðu og var ausinn lofi frá þjálfaranum bæði í nútíð og þátíð. Klopp er afar spenntur að mæta gamla refnum Warnock enda er hann eini af hinum fornu ensku framkvæmdarstjórum sem hann á eftir að mæta og Þjóðverjanum þykir hann áhugaverður karakter og knattspyrnustjóri.

Föst leikatriði voru eðlilega til umræðu, bæði hjá Liverpool og mótherjanum, og Klopp er vel meðvitaður um löngu innköstin sem von er á. Klopp staðfesti að Naby Keita og Jordan Henderson séu ekki heilir fyrir þennan leik eins og gert var ráð fyrir. Hann bætti við að leikmenn eins og Origi, Solanke, Matip, Clyne og Moreno séu að æfa mjög vel og hver veit nema að einhver þeirra fái leik á morgun. Áhugaverðar upplýsingar varðandi fyrirliðastöðuna voru þær að Klopp ákvað sjálfur að Henderson og Milner yrðu áfram í sínum ábyrgðarstöðum en að leikmenn hafi fengið að kjósa sín á milli um næstu tvo fyrirliða. Þegar öll atkvæði voru talin í Hagaskóla þá kom upp úr kjörkössunum að VVD var kosinn þriðji fyrirliði og Wijnaldum sá fjórði. Við óskum þeim báðum til hamingju með kjörið.

Allur blaðamannafundurinn er aðgengilegur í þúvarpinu hér fyrir neðan (byrjar eftir 8:05):

Spakra manna spádómur

Ég held að okkar menn mæti alveg nægilega vel tilbúnir og einbeittir í þennan leik vitandi að Cardiff munu vera líkamlegir og varnarsinnaðir frá fyrstu mínútu. Það var heppilegt að leikurinn gegn Rauðu Stjörnunni var á heimavelli þannig að ekki of mikilli orku var eytt í ferðalög og hægt að einbeita sér að því að endurtaka leikinn frá miðri viku. Að því leyti held ég að okkar mönnum takist að láta vaða í lið sem verður í tæpt á falli þennan veturinn og ef að fyrstu mörkin detta í fyrri hálfleik þá ætti þetta að vera þægilegur stórsigur.

Mín spá er að Liverpool sigri 4-0 annan leikinn í röð og að markaskorarar verði Salah, Mané, Van Dijk og Shaqiri. Ég að ætla einnig að spá því að Warnock verði sorrý, svekktur, sár í sjónvarpsviðtali eftir leik.

YNWA

P.S. Óvenjuleg viðbót en okkur hefur borist hæka sem varðar efni innslagsins og hún er í þeim gæðaflokki að óumflýgjanlegt er annað en að birta hana. Veskú.

15 Comments

  1. Takk fyrir pistillinn, það yljar mig alltaf í fæturnar að lesa og hlusta á ykkur.

  2. “Þarna mætir gamli enski skólinn með eina af síðustu risaeðlum efstu deildar hinum úthugsaða hágæða meginlandsstíl hipsterans. Þetta gæti ekki verið ólíkara einvígi en á endanum er knötturinn hnöttóttur og allt getur gerst á 90 mínútum í fótboltaleik.”

    Epísk snilld:-)

  3. Er svo heillaður af stílgáfu Magnúsar Þórarinssonar að ég get ekki annað en sett saman hæku (tilraun til hæku þ.e.a.s.)

    Eðlan aldna rymur
    Hipster dansar á velli
    Knöttur hnöttur er

  4. Þetta er tilvalið tækifæri okkar til að tylla okkur einir á toppinn, City á mánudagsleik á útivelli á móti Tottenham sem munu vonandi taka stig af city.

  5. Uppfærsla eftir blaðamannafundinn er komin inn félagar.

    @Guderian

    Kærar þakkir fyrir það meistari. Ég þarf að fá þessa hágæða hæku áritaða og innrammaða! Schön geschriebene Haiku. Vielen Dank!

    YNWA
    Beardsley

  6. Takk fyrir þessa líka fínu yfirferð Magnús. Segi þó við þig eins og fleiri, skyldusigrar eru ekki til og leiðist mér þegar talað er um slíkt. Varðandi leikinn þá er Aron okkar því miður kominn aftur í gang og miðað við frammistöðu hans í síðasta leik þá gæti hann orðið erfiður. Gæði okkar liðs eru þó mun meiri og ekki óeðlileg úrslit 3 til 4-0, þeas ef gamla vanmetið og kæruleysið lætur ekki á sér kræla. Áfram Liverpool

  7. Sælir félagar

    Upphitunin hjá Beardsley er afburða skemmtilega skrifuð og vitræn líka. Ég hefi engu við hana að bæta nema spádómnum 5 – 0. Nýr þjálfari kvennalandsliðsins spáir 2 – 3 sigri Cardiff og er það vonandi MU hjartað sem spáir því en ekki fótboltaheilinn. Ef svo er að fótboltaheili þjálfarans spáir þessu er hann alvarlega tognaður og kvennalandsliðið í vondum málum.

    Það er nú þannig

    YNWA

  8. Svona í augnablikinu sé ekkert annað en sigur LFC, bara spurning hversu stór hann verður. Hverjir skora er aukaatriði, nema vil sjá Salah setjann.

    YNWA

  9. Þetta er orðið þannig hjá okkar félagi eins og ég ímyndaði mér það væri hjá Man U undir stjórn Ferguson, að allt annað en sigur er bara glatað. Maður gleðst varla yfir sigri, manni er hreinlega létt.

  10. Af gefnu tilefnu hefur hæku verið bætt við upphitunina. Líklega í fyrsta sinn í sögu Kop.is.

    Við þökkum Guderian hækuna.

    YNWA
    Beardsley

  11. Nei, þessu verður að linna. Þeir sem meta getu okkar liðs og gæði fótboltaleiks eftir fjölda marka, geta bara farið að horfa á handbolta, þar sem þeir geta séð mark á mínútu fresti. Rosalega skemmtilegt, er það ekki.

    Nú er þetta farin að verða ótrúlegur kór: Huddersfield leikurinn ömurlegur, framvarðatríóið ekkert komið í gang, missa svefn yfir því að Salah sé ekki að skora úr hverju færi… Fótbolti er taktískur leikur þegar hann er spilaður á hæsta leveli og það geta verið gríðarlega skemmtilegir leikir í gangi þó þeir endi 1-0, jafnvel 0-0.

    Að ég tali nú ekki um þegar maður er að horfa á liðið sitt spila. Það skiptir bara engu máli þó að okkar menn séu ekki að valta yfir mótherjana 5-0. Jafnvel betra að sjá liðið vera að spara orkuna og reyna að loka leikjum – það er hluti af taktíkinni og við eigum að hafa þroska til að horfa á leikjaröð og tímabil í heild sinni.

    Að því sögðu, þá vona ég að leikurinn við Cardiff fari eitt- núll fyrir okkar mönnum og að það verði Gomez sem skori með skalla úr þvögu á 37 mínútu.

  12. Takk fyrir upphitunina og flott comment líka. Spái sjálfur þægilegum 3-0 sigri.

    Er Guderian ekki bara að skora á síðuhaldara að setja fram upphitun í bundnu máli.

    Annars vona ég eftir að Shaq og Fabinho byrji báðir. Sturridge má líka koma inn fyrir Mane sem mér finnst vera farinn að gera einfalda hluti of flókna.

  13. Sigkarl nýi kvennalandliðsþjálfarinn spáir (vonar) líka að United tapi 2-0 fyrir Everton rosalega eru þeir desperat að losna við Móra en vinnum þetta 2-0 Cardiff sýnd veiði en ekki gefinn.

  14. Frábærir pistlar Magnúsar G. Þórarinssonar. Er ekki frá þvi að Liverpool gangi betur þá daga sem hann skrifar upphitunina…

  15. Sælir félagar

    Gustith #13 rétt er það og ef það er sami fótboltaheilinn sem spáir því en ekki MU hjartað þá er kvennalandsliðið í enn verri málum en ég hélt. MU með Móra er þrátt fyrir allt margfalt betra lið en Everton að Gylfa okkar ólöstuðum. Svo einfalt er nú það. En þjálfari þessi er hinn besti drengur svo ég reikna með að hjartað ráði för hjá honum en ekki fótboltalegt mat. Skiljanlega vill hann losna við Móra en eg get ekki stutt hann í því máli meðan sá leiði gaur er að trappa MU niður hægt en örugglega.

    Það er nú þannig

    YNWA

Liverpool 4-0 Rauða Stjarnan

Byrjunarliðið gegn Cardiff City