Rauða stjarnan mætir á Anfield

Núna á miðvikudaginn mun Rauða stjarnan frá Belgrad mæta á Anfield í meistaradeildinni. Það vill svo til að þann 24. október 1973 – eða nákvæmlega 45 árum áður – léku Liverpool og Rauða stjarnan í Evrópukeppninni, reyndar í Júgóslavíu sem þá var. Hálfum mánuði síðar mættust liðin aftur og nú á Anfield, og eru þá fyrri viðureignir þessara félaga upp taldar. Meðal leikmanna Liverpool á þessum tíma voru Ray Clemence, Kevin Keegan, Emlyn Huges, Ian Callaghan og fleiri vel þekktar kempur úr sögu Liverpool, en framkvæmdastjóri liðsins var enginn annar en Bill Shankly. Liverpool reið ekki feitum hesti frá þessum viðureignum, báðir leikirnir töpuðust 2-1. Leikurinn á Anfield reyndist vera síðasti Evrópuleikur Shankly með Liverpool, ári síðar tók Bob Paisley við, og sagan segir að þessi lexía sem Rauða stjarnan kenndi Rauða hernum hafi sýnt liðinu hvernig væri nauðsynlegt að leika knattspyrnu til að ná árangri í Evrópu. Fyrsti bikarinn kom í hús fjórum árum síðar, og þrír slíkir bættust við á næstu átta árum.

Rauða stjarnan gerði svosem engar gloríur í keppninni 1973, og féll út í næstu umferð gegn Atlético Madrid. Liðið náði svo hápunkti sínum í keppninni vorið 1991, þegar það mætti Marseille í úrslitum og vann 5-3 eftir vítaspyrnukeppni.

En eins og skáldið sagði: “that was then, this is now”. Nú eru þessi lið í riðli með PSG og Napoli – sem hvorugt hafa unnið Evrópubikarinn, ólíkt Liverpool og Rauðu stjörnunni – og í augnablikinu eru það Ítalirnir sem eru efstir með 4 stig, PSG og Liverpool með 3, og Rauða stjarnan með 1 stig eftir jafntefli við Napoli í fyrstu umferð. Í næstu umferð steinlágu þeir 6-1 fyrir PSG, og eftir þann leik komu upp grunsemdir um að brögð hafi verið í tafli og að úrslit leiksins hafi verið ákveðin fyrirfram. Því hefur semsagt verið haldið fram að háttsettur einstaklingur hjá Rauðu stjörnunni hafi reynt að veðja nokkrum milljónum evra á það að hans menn myndu tapa með 5 marka mun. Klúbburinn hefur sent frá sér yfirlýsingu um málið, frábiður sér allar slíkar ásakanir, og hefur reyndar hótað að draga blaðið sem flutti þessar fregnir fyrst fyrir dómstóla. PSG menn koma af fjöllum, og segjast einfaldlega hafa spilað vel. Við munum að sjálfsögðu fylgjast áfram með þessu máli.

Staðan á okkar mönnum

Eins og komið hefur fram komu menn mislemstraðir úr landsleikjahléinu, en þegar allt kom til alls voru það aðeins Mané og Keita sem voru ekki leikfærir. Staðan á Mané virðist vera sú að hann sé farinn að æfa aftur, væntanlega með gifs, og gæti komið við sögu í leiknum á miðvikudaginn. Keita verður að öllum líkindum eitthvað lengur frá, það var talað um tvær vikur, og því er ekki reiknað með honum á miðvikudaginn. Klopp ákvað enda að nota hópinn ögn betur en hann hafði gert fram að því, þannig spilaði Sturridge allan leikinn, Lallana fékk 70 mínútur, og Fabinho fékk sínar fyrstu mínútur í deildinni. Nú og svo var Shaqiri treyst fyrir því að leika á miðjunni og þakkaði traustið með því að eiga afar góðan leik. Það er því kannski ekki ólíklegt að hann verði annaðhvort í liðinu eða komi inn á af bekknum núna á miðvikudaginn.

En það að henda Shaqiri inn á gegn Rauðu stjörnunni gæti verið svolítið eins og að skvetta olíu á eld. Frægt er þegar hann fagnaði með því að mynda tvíhöfða örn með höndunum í leik Sviss gegn Serbíu á HM í sumar, Serbarnir kröfðust þess að honum yrði refsað, en varð ekki að ósk sinni.

Hver var svo ástæðan fyrir þessum fagnaðarlátum?

Shaqiri er Kosovo-Albani að uppruna, fæddist árið 1991 í Gjilan, bæ sem þá var í Júgóslavíu en er núna í Kosovo. Vegna stríðsins flutti fjölskylda hans fluttist til Sviss ári síðar. Kosovo hefur lýst yfir sjálfstæði frá Serbíu, en sú yfirlýsing hefur ekki verið að fullu tekin gild í alþjóðasamfélaginu, og þá sérstaklega ekki af Serbum, en einnig af öðrum sem telja þessa yfirlýsingu geta haft fordæmisgildi gagnvart öðrum þjóðarbrotum. Óhætt er að segja að það sé mikil saga þarna á bak við, saga sem má rekja allt til upphafs 20. aldarinnar og jafnvel lengra aftur í tímann. Það væri óskandi að maður gæti sagt að stríðið í Júgóslavíu 1991 – 2001 hafi verið endapunktur á áratuga gömlum deilum milli þeirra hópa sem bjuggu í gömlu Júgóslavíu, en eins og deilurnar um Kosovo sýna er hætt við að ekki sé búið að útkljá öll mál á þessu svæði.

Það er að sjálfsögðu erfitt að gera jafn flóknum og erfiðum deilum góð skil í lítilli bloggfærslu eins og þessi er, við munum því láta nægja að segja að það verða kannski engir sérstakir fagnaðarfundir þegar og ef Shaqiri mætir liðsmönnum Rauðu stjörnunnar. Áhyggjurnar af áhangendum andstæðinganna þurfa kannski ekki að vera mjög miklar aftur á móti, því Rauða stjarnan má ekki selja miða á fyrstu tvo útileikina í riðlakeppninni í kjölfar óláta sem urðu þegar liðið sló Red Bull Salzburg út. Og kannski þarf Shaqiri alls engar áhyggjur að hafa, því forráðamenn Rauðu stjörnunnar hafa gefið það út að þeir óski þess að hann hljóti góðar móttökur þegar Liverpool mætir til Serbíu í seinni leikinn, og sögðu m.a.: “Red Star must do everything to make Shaqiri feel that he came to play football and it is our duty to protect him in the case of unwanted situations. Let’s be good hosts.”

Nóg af pólitík í bili. Ég ætla að spá því að Klopp geri nokkrar breytingar frá liðinu sem lék við Huddersfield um helgina, og stilli upp sínu sterkasta liði. Stóra spurningin er kannski hvort Henderson verði orðinn leikfær, og eins hvort Milner sé búinn að jafna sig að fullu eftir meiðslin, en hann var jú tekinn útaf í síðasta leik. Þá er líka spurning hvort Trent komi aftur í bakvörðinn, eða hvort Klopp haldi sig við að spila Gomez þar. Stillum þessu svona upp:

Alisson

Gomez – Lovren – Van Dijk – Robertson

Winjaldum – Henderson – Milner

Salah – Firmino – Mané

Ef Mané telst ekki leikfær gæti ég alveg séð fyrir mér að Shaqiri fái tækifærið í fremstu víglínu. Ég gæti líka alveg séð fyrir mér að Van Dijk fái smá hvíld, og að Lovren og Gomez taki þá miðvörðinn og Trent fari aftur í bakvörðinn. Eins er jafnvel spurning um að Fabinho fari að fá sénsinn, mögulega verður það nauðsynlegt ef Henderson er ekki búinn að jafna sig að fullu. Að lokum er örlítill séns að Trent verði færður á miðjuna, en það er eitthvað sem hefur verið slúðrað um í allnokkurn tíma að geti verið möguleiki. Persónulega er ég ekki trúaður á að það gerist í þessum leik.

Spá

Í ljósi þess að PSG vann Rauðu stjörnuna 6-1, og að Liverpool vann PSG 3-2, þá skyldi maður ætla að sigur sé auðsótt mál. En nei, við vitum að svo er ekki, og sérstaklega á meðan sóknarleikur okkar manna er ekki kominn í sama gír og hann var þegar best lét á síðasta tímabili. Við hins vegar sáum í síðasta leik hversu lítið þarf að breytast til að það smelli, því undir lokin fékk liðið ófáar sóknirnar sem hefðu getað endað með marki með örlítið betri ákvarðanatöku. Eigum við að spá því að það lagist á miðvikudaginn? Segjum 3-0, með mörkum frá Winjaldum, Firmino og Lovren.

Þessi leikur verður svo sjálfsagt krufinn til mergjar í podcasti sem er væntanlegt í kvöld. Missið ekki af því.

11 Comments

 1. Takk fyrir þetta yfirlit. Þetta lið eru verðugir andstæðingar sem verður að taka alvarlega. Klopp stillir pottþétt upp mjög sterku liði að þessu sinni enda verður að koma sigur til að halda sér inn í keppninni eftir vesöldina í Napoli. Annaðhvort Milner eða Henderson verða hvíldir eitthvað og Lallana fær áfram tækifæri. Ef allt er með felldu þá ætti að nást sigur. En erfitt getur það orðið og held ég að Shagiri setjann í þessum leik.

 2. Er sammála fyrsta ræðumanni, Klopp mun spila Shaqiri ekki spurning. Spurning með seinni leikin í Belgrad. En þessi hópur er það góður, að það á ekki að skipta máli hver mótherjin er, bara hvernig mótífið, lesist viðhorf, er á okkar mönnum. En þessi leikur er samt nokkuð athyglisverður, þarna sker úr um getuna og viljan að fara í 16 liða, og þá með stæl, setja staement eins og Maggi orðar það.

  YNWA

 3. Sælir félagar

  Takk fyrir frábæra upphitun. Þetta er skrifað Tegel flugvelli í Berlín. Ég trúi á sigur hvernig sem stillt verðir upp. Klopp setur það lið inná sem vinnur þennan leik. Það er mín trú. Segjum 0-3

  Það er nú þannig

  YNWA

 4. Shaqiri er 100% að fara að skora í þessum leik ef hann spilar og fagna eins og á HM og fá uþb 5 leikja bann í CL ef ég þekki bönn á Liverpool menn rétt.. en ég væri samt ánægður með kauða ef hann gerði það, ef maður má ekkert tjá tilfinningar í fótbolta þá er eins hægt að sleppa boltanum.
  Spái leiknum annars 2-0 fyrir okkar mönnum og það verða einhver rauð spjöld og hiti á milli Serbanna og Shaq

 5. Ég vil að Fabinho fái heilan leik á morgun, þetta er hörkuleikmaður og það er tilvalið að nýta leikinn á morgun að koma honum betur inn í hlutina.
  Ég væri til í að sjá Gomez og Lovren saman, einfaldlega til að ath hvort að það sé einfaldlega hægt að hvíla Van Dijk eða hvort hann sé gjörsamlega ómissandi.

  Þetta er leikur sem ætti að vinnast og ég held að við siglum þessu nokkuð sannfærandi heim.

 6. Jæja það er orðið ljóst að Henderson verður ekki með:

  https://www.liverpoolfc.com/news/first-team/321932-jordan-henderson-naby-keita-fitness-injury-update

  Ég er á því að Lallana sé ekki klár í leik nr. 2 á 4 dögum, a.m.k. ekki í byrjunarliðið, en hvað veit ég svosem. Þá reikna ég með að þetta þýði annaðhvort að Shaqiri byrji, og Wijnaldum verði þá aftast á miðjunni, nú eða að Fabinho fái loks að byrja.

 7. Rauða Stjarnan er með lélegt lið og Liverpool á að vinna stórsigur, en þá verða sóknarmenn Liverpool líka að girða sig í brók og spila þann grimma sóknarbolta sem við ætlumst til af Jurgen Klopp.

 8. Ég mundi nú ekki segja að þeir séu með lélegt lið, þeir eru í riðlakeppni CL. Hvað um að, við eigum að sigra þá, heima og að heiman, ef við ætlum okkur uppúr þessum riðli. Henderson verður ekki með, en það á ekki að skipta öllu máli fyrir okkur. Ég spái því að við tökum þetta, flóðgáttir opnast og við vinnum 5-1 ! Salah með þrjú kvikindi, og Firmino og Sturridge sitt hvort.

 9. Sælir félagar

  Spá mín átti auðvitað að vera 3 – 1 og bið ég alla hlutaðeigandi afsökunar á þessum herfilegu mistökum 🙂

  Það er nú þannig

  YNWA

 10. Vel skautað í gegnum pólitíkina í þessu sambandi 🙂

  Hlakka til leiksins annars. Serbarnir eru orðnir gríðarlega spenntir! Kveðja frá Belgrad.

 11. Er med adeins of stort vedmal a 4 mork eda minna i leiknum. Plis Liverpool ekki staerra en 3-0 takk.

Leikir hjá kvennaliðinu og U23

Gullkastið – Ljótu sigrarnir