Huddersfield 0 – 1 Liverpool

Okkar menn heimsóttu Huddersfield í dag. Fyrr um daginn gerðu Chelsea og United jafntefli, en City vann Burnley stórt, og því ljóst að liðið yrði að sigra til að missa City ekki fram úr sér.

Mörkin

0-1 Salah (24. mín)

Gangur leiksins

Þegar fyrri hálfleikur var hálfnaður tvítaði (tveit?) Ian Doyle á þá leið að það hefði ekkert gerst, og það var nokkuð nærri lagi. En þá tóku Gomez, Shaqiri og Salah sig til og bjuggu til mark upp úr nánast engu. Næsta korterið gerðust svosem engin ósköp heldur, Huddersfield áttu þó skot í stöng, Lallana fékk gult spjald fyrir litlar sakir, og svo fengu þeir bláu og hvítu aukaspyrnu 6 mínútum fyrir leikhlé og áttu gott skot sem fór rétt framhjá. Á 43. mínútu fékk svo Milner boltann í höndina innan teigs en réttilega ekkert dæmt, og örskömmu síðar náðu Huddersfield að koma boltanum í netið en það var réttilega dæmt af vegna rangstöðu. Staðan 0-1 í hálfleik, svosem réttilega, en okkar menn alls ekkert að heilla nein ósköp.

Winjaldum kom inná fyrir Henderson í hálfleik, þar sem sá síðarnefndi tognaði víst aftan í læri, en vonandi er það ekki alvarlegt hjá fyrirliðanum. Á 63. mínútu hefði Salah getað komið okkur í 0-2 eftir góða sendingu inn fyrir frá Sturridge, en hann setti boltann rétt framhjá. Á 70. mínútu var svo Lallana sprunginn, svo Fabinho hlaut frumraun sína í deildinni. Síðasta skipting Klopp kom svo á 76. mínútu þegar Firmino kom inn á. Flestir héldu að hann myndi koma inn á í staðinn fyrir Sturridge, en nei, það var Milner sem fór af velli, og Firmino fór á miðjuna. Síðustu mínúturnar voru svo spennandi, okkar menn áttu alveg efnilegar sóknir en ákvarðanatakan var á köflum ansi hæpin. Lokatölur 0-1, og enn einn leikinn eru hinir rauðklæddu alls ekki að heilla eins og við vitum að liðið getur gert. Við skulum orða það þannig að ef liðið hefði sýnt svona spilamennsku gegn betri andstæðingum hefði þessi leikur vel getað tapast.

Slæmur dagur

Já. En liðið vann nú samt og hélt hreinu. Það var slæmt að missa Henderson útaf í hálfleik, vonum að það sé ekki alvarlegt. Enginn okkar manna var að heilla brjálæðislega, en svosem enginn sem átti eitthvað afspyrnu lélegan leik.

Maður leiksins

Ég ætla að tilnefna Joe Gomez, hann hóf sóknina sem gaf mark, og var allt í öllu í vörninni.

Umræðan

Næsti leikur er gegn Rauðu stjörnunni í meistaradeildinni, vonum að liðið sýni betri leik þá, og að sóknarleikurinn fari nú að smella. Við erum satt að segja búin að bíða eftir því í allt haust.

Það jákvæða er að sjálfsögðu að liðið er enn ósigrað í deildinni, varnarleikurinn er ennþá solid (reyndar er þetta besta byrjun liðsins varnarlega í sögu úrvalsdeildarinnar), liðið er enn jafnt City að stigum á toppnum (þetta er auk þess jöfnun á bestu stigasöfnun í upphafi tímabils í úrvalsdeildinni hjá liðinu), en City eru hins vegar kominir með mun betri markamun, og það gæti skipt máli í lokin. En við sjáum til, titlarnir sem hafa unnist í október eru nú ekki margir.

34 Comments

  1. Ef við værum ekki með Van Dijk og Allison þá værum við i 8-10 sæti
    Er ekki einu sinni að djóka!

  2. Góða: Við erum komnir á þann stað að sigur á útivelli í Enskuúrvaldsdeildinni er samt að pirra mann. Lallana er kominn tilbaka, Sturridge fékk 90 mín, Shaq fékk 90 mín og viti menn við héldum hreinu. Fullt af breyttingum en endum með 3 stig.

    Slæma: Henderson fór útaf í hálfleik vegna smá meiðsla, Fabinho virkar ekki alveg tilbúinn í þessi læti og við náðum ekki þessu öðru marki sem hefði gengið alveg frá þessum leik.

    Það ljóta: Framistaðann heilt yfir í þessum leik. Þetta var okkar langlélegasti leikur á tímabilinu á móti frekar lélegu liði. Heimamenn hafa varla skapað færi alla leiktíðina en fengur nokkur hálfæri gegn okkur í dag, sóknarlega voru við oft að komast í frábærar stöður en síðasti boltinn var oft skelfilegur en á síðustu leiktíð hefði þetta verið stórsigur hjá okkur miða við allt plássið sem við fengum.

    Maður leiksins: Shaqiri – Var að selja sig dýrt og ætlar greinilega að láta vita af sér.

    YNWA

  3. Þetta hékk á lyginni. Ekki ásættanleg frammistaða en í ljósi þess að stigin öll urðu okkar plús meiðsli og annað þá ætla ég ekki að staldra mikið lengur við þennan leik. Ætlast bara til að Klopp geri það. Taki videoið á þetta með nettum hárblásara inn á milli. En takk fyrir stigin þrjú, þau eru víst ekki gefins.

  4. Litum illa út á móti Huddersfield sem er ekki boðlegt.
    Salah skoraði sem vonandi gefur honum meira sjálfstraust ég var ekki nógu sáttur við minn mann Sturridge og hefði viljað sjá meira frá Shaqiri en hann var auðvitað með stoðsendinguna að markinu sem er frábært.
    Lallana var eins og maður bjóst við í lélegu formi útaf meiðslum.
    Vörnin solid og Alisson góður og já tek undir með mönnum að við værum ekki ríða feitum hesti ef vörnin væri svipuð og áður en VVD kom til okkar en vonandi verður þetta ástæðan að við vinnum titil eða titla á þessari leiktíð því ekki erum við að skora mikið af mörkum.
    Maður sér mikin mun þegar það vantar Mané inná.

  5. Góður sigur á erfiðum útivelli. Ef við vinnum neðstu 5-6 liðin alltaf 1-0 þá er ég sáttur, enda virðumst við vera með fín tök á efstu liðum. Ég er sáttur. Ég er bjartsýnn. Salah með mark, Alison með hreint mark. Efstir ásamt City. Gerist ekki betra. Er sannfærður um að við fáum veislu í næstu leikjum.

    YNWA

  6. Frammistaðan hingað veldur smá áhyggjum sóknarlega. Breytingin er vörnin, hún er að skila þessum stigum að mestu leyti mv seinasta ár.
    Salah flottur, Lovren og Van Dijk flottir. Ég er ekki endilega á því að miðjan sé ekki að standa sig sóknarlega, það gerðist aftur og aftur að við tókum rangar ákvarðanir á seinasta þriðjungi þar sem við hefðum sennilega skilað marki á seinasta ári.
    Það sem er samt flottast er að þetta er það sem Utd lið Ferguson gerðu aftur og aftur og aftur okkur til lítillar gleði. Spilaði ekkert spes en vann samt.

  7. Ósammála Daníeli með eitt og annað en þá helst sá punktur Napólí leikurinn var sá allra versti. Annars flott skýrsla takk fyrir mig

  8. Sma leiðrétting, sá punktur að þetta hafi verið versti leikurinn, Napólí…

  9. Ágætu Liverpoolaðdáendur, við vorum að fá 3 stig. Samt mætti halda, miðað við skrif sumra hérna á síðunni, að við hefðum tapað 3-0. Athugum það að fyrir einu eða tveimur árum hefðum við tapað svona “lélegum” leik. Núna sigrum við líka í lélegu leikjunum. Ég er hæstánægður, 3 stig, leikurinn jú ekkert sérstakur en ég mótæli því algjörlega að andstæðingurinn hafi verið lélegur. Það eru engir lélegir andstæðingur í ensku efstu deildinni og ekki orð um það meir. Síðan má ekki ekki gleyma því að nokkrir eru meiddir, nokkrir hálfmeiddir og einhverjir eitthvað daprir. Etv er eitthvað innst inni hjá Klopp og fleirum að komast sem léttast út úr sumum leikjum og að menn sleppi heilir. Leikurinn á Ítalíu um daginn var dæmi um það. Staðan er núna þannig að liðið er með 23 stig eftir 9 leiki. Með sama áframhaldi gera það einhver 97 stig í 38 leikjum. Einhverntímann hefðum við hoppað hæð okkar af gleði yfir slíkri stöðu. Góðar stundir.

  10. Sæl og blessuð.

    Var í vandræðum með mig þar sem ég sat og horfði á leikinn, þetta var svo langt frá því sem ég hafði átt von á. Hafði hlakkað til að sjá liðið koma inn á með sjálfstraust og orku en þetta var eitthvað allt annað. Hik og mistök og í raun ljónheppni að enda ekki í jafntefli, jafnvel tapa þessum leik. Enginn leit vel út í leiknum. M.a.s. Robertson, okkar jafnbesti maður, lét ítrekað fífla sig á kantinum, Alison kom sér í klandur, vörnin gaf þeim dauðafæri – sem þeir blessunarlega nýttu sér ekki. Miðjan gerði ekki mikið og ákvarðanatakan á lokametrunum var á köflum alveg út í hött.

    Það er á hreinu að betra lið hefði refsað grimmilega fyrir þessa frammistöðu og Höddararnir voru sjálfum sér verstir að nýta ekki tækifærin sem við gáum þeim á silfurfati.

    Held það sé kominn tími til að skoða málin ofan í kjölinn. Salah er ekki sá sem hann var í fyrra (amk frá miðju mótinu). Það er nett pirrandi að sjá hann í úrvalsstöðu en svo nýtir hann þetta afar illa. Fannst Sturridge alveg standa sig – hljóp eins og óður og átti snilldarsendingu á téðan Salah sem ekki nýtti færið. Þegar svo Firmino kom inn á – átti maður von á meiri snerpu en hann var jafn hikandi og hinir. Hefði alveg getað gert sitthvað upp á sitt eindæmi en hann, eins og aðrir, sendi boltann á rangan stað.

    Ætla ekki að vera með einhvenr blús… eða? jú annars. Þetta er hálfgerður blús – bara það góða er, að stigin lenda okkar megin!

  11. Markatalan er 16-3. 13 mörk i plús og Liverpool er í efsta sæti með 23 stig ásamt Man. City. Margir eru hundóánægðir með spilamennskuna einkum með sóknarleiknin og gagnrýnin lætur ekki á sér standa. Á sama tíma í fyrra eftir 9 leiki voru Liverpool 9 sæti meðn 13 stig og með markatöluna 14-16 þe. mínus 2 mörk! . Man. City þá eins og núna voru í efsta sæti með 25 stig og 25 mörk í plús. Þá héldu menn ekki vatni yfir sóknarleik Liverpool. Ég er barasta rosalega ánægður með framfarirnar og árangurinn hjá okkar liði einkum varnarlega. Það er bara hægt að vinna Premier League með góðri vörn. Þetta vitum við af biturri reynslu samanburður tímabilið 2013/2014 þegar við settum met í markaskorun en töpuðum titlinum á arfa slakri vörn. Vörn Liverpool í dag er sú besta í Evrópu. Taflan lýgur ekki. Sóknin hrekkur í gang fyrr enn síðar og þá stenst ekkert lið Liverpool. Þetta lið getur vel unnið titilinn. Hef fulla trú á því. Áfram Liverpool.

  12. Klopp said to nigth after the game “winning such games is the basis for success…”

    It is maybe the first period in my life that we win kind of average matches. That’s true. We cannot write a book tonight about how to win trophies. There is only one way: to win football games. For that, there are different ways to do so. To be honest, sometimes I prefer the spectacular way, but I take it today completely and I understand why it was like it was. I really understand it, when I look in the dressing room before the game or after they came back; the time difference and stuff like that, nobody asks. You have to go and you have to go. That’s why I was a bit more animated today on the touchline – because if you are tired, you at least need to be afraid of your manager!

  13. We’ve scored two goals more than after nine games last year, conceded 13 less and joint top.
    People who bitch and moan about performances aren’t true fans. Fans by nature do not reason, that’s why they’re called fanatics. All the armchair pundits blaming Klopp or whomever for the “bad performances” go start a podcast or an opinion tv and illuminate other idiots with your hot takes. Only I care about is my football team winning football games. I didn’t even bitch when Woy was in charge and I cheered for Poulsen and that bald fullback who’s name I would butcher if I tried spelling it right now. The point is, quit the moaning, the negativity affects the players especially in the social media era. Cheer the players on and have belief.

  14. Sælir félagar

    Ég spáði fyrir leikinn að annaðhvort yrði þetta drulluerfitt og ynnist 0 – 1 eða þetta mundi smella allt saman og niðurstaðan yrði 0 – 5. Því miður varð það 0 – 1 og frekar dapur leikur hjá okkar mönnum. Ég er ýmsu ósammála í skýrslunni sem mér finnst samt fín og er ósammála öllum hér fyrir ofan í mati á manni leiksins. Fyrir mér er Mo Salah maður leiksins og hefði getað með smá heppni slátrað þessum leik 0 – 5 með mörkum og stoðsendingum. Að öðru leyti vil ég ekki tjá mig um leikmenn okkar en þakka kærlega fyrir þessi 3 stig.

    Það er nú þannig

    YNWA

  15. Spurningin er hvort það sé áhyggjuefni fyrir okkur að liðið er hökta núna eða fyrir andstæðinga okkar??? Við erum jú að ná í stigin, án þess að spila vel, hvernig verður þá liðið þegar það fer að sýna sitt rétta andlit 🙂

  16. Fannst við aldrei ná góðum takti í þessum leik en 3 stig og héldum hreinu. Satt sem sagt hefur verið, síðustu ár hefði þetta endað með jafntefli/tapi. En koma Virgil í vörnina virðist gera aðra betri (lesist: Lovren). Nokkrar breytingar og lítill taktur í okkar leik en tókum skyldusigur á þetta.
    Fannst Lovren/Virgil bestir í kvöld en varð fyrir vonbrigðum með Sturridge. Fannst hann reyna of mikið upp á eigin spýtur í stað þess að láta boltann rúlla. Eins fannst mér innkoma Firmino vond, hvað gerðist með kappann? Á vonandi eftir að koma sterkur til baka.

    Þegar öllu er á botninn hvolft þá erum við á toppnum, taplausir en virðumst enn ekki vera búnir að ná að “smella” sem lið. Það boðar gott 🙂

  17. Nú sá ég ekki Napolí leikinn og get því ekki borið þennan leik saman við hann, en hvar í leikskýrslunni var ég eitthvað að lýsa því yfir að þessi leikur hefði verið verri en sá leikur?

  18. Yndislegt! Frábært! Magnað!

    Það er að detta í miðnætti og kommentin í erfiðum útisigri eru innan við tuttugu stykki. Það er kannski ekki frásögum færandi nema að þegar illa gengur og allt er í klúðri þá logar kommentakerfið í því sem betur mætti fara. Stundum vantar jákvæðnina til að blása í seglin þegar að vel gengur.

    Þessi sigur í kvöld var statement! Við getum unnið þessi botnbaráttulið sem við töpuðum stigum gegn í fyrra og á árum áður. Klárlega var þetta ekki blússandi sóknarbolti og stormandi gegenpressen. Það var ekki hægt í kvöld. Allir nema þrír í liðinu voru að spila með sínum landsliðum í vikunni og flakkandi út um hvippinn og hvappinn meðan að megnið af mótherjanum gat safnað kröftum og einbeitt sér að því að herja á okkur á heimavelli.

    Og það er ekki eins og við höfum spilaði illa. Við vorum betri aðilinn. Punktur. Gerðum nógu mikið til að vinna leikinn. Það er akkúrat það sem lið sem vinna titla gera. Bloody nógu mikið. Viljum við ekki vinna titilinn?? Ójú og ef allir LFC-leikir enduðu í leiðinlegum 1-0 sigri þá yrði ég hæstánægður!

    Gömlu meistaraliðin okkar geta sagt okkur að þar söfnuðum við stigunum í den tid. Hlaða í góðan grunn og svo verður þetta útkljáð í nokkrum lykilleikjum. En ekki klúðra skyldusigrunum. Það er stranglega bannað.

    Það var fullt af jákvæðum hlutum til að gleðjast yfir í kvöld. Shaqiri frábær, Salah með sigurmark, Gomez geggjaður og liðsheildin skotheld. Við vorum betri. Flottir. Sigur. Punktur.

    F*cking hell! Verum glaðir. Við erum efstir með olíuaurapúkunum í City og það er ekki sjálfsagt mál. Komum lemstraðir úr þessu grábölvaða landsleikjahlé og tekst samt að skrapa í sigurlið! Ég er stoltur af mínum mönnum. Þrælstoltur!

    YNWA
    Beardsley

    P.S. Respect á Daníel fyrir flotta skýrslu. Come on you REDS!

  19. Ég nenni ekki að bera saman þessa byrjun við byrjunina í fyrra, ég vill bera saman spilamennskuna í dag við spilamennskuna í lok móts í fyrra, sú spilamennska er mun nær í tíma og ætti liðið mun frekar að spila á því kaliberi en því sem var fyrir 12 mánuðum síðan.

    Í dag vorum við heppnir að vinna gegn fallhættuefnunum frá Huddersfield á meðan City snýtti sér á Evrópusætisefnunum frá Burnely. Ef liðið okkar hefði spilað eins og það hefði gert fyrir 5 mánuðum síðan hefðum við einnig snýtt okkur á Huddersfield. Það má gagnrýna alla, líka þá bestu.

    Ef okkar fremstu menn hefðu tekið réttar ákvarðanir, ef okkar fremstu menn hefðu sett nægan kraft í sendingarnar sínar eða miðað rétt hefðum við vel getað séð fram á 0-5 sigur. Skyndisóknirnar okkar voru skelfilegar, fer ekki ofan af því. Miðjan okkar var í stökustu vandræðum, ekki einu sinni Milner átti góðan leik og ekki heldur Robertson sem hefur verið okkar jafnbesti maður með Milner hingað til. Salah klúðraði góðu færi, Sturridge hitti ekki rammann og Shaqiri hljóp til einskis. Vörnin hélt og markmaðurinn gat ekki gert betur, nema við förum fram á að hann búi til sóknir sem hann er vel hæfur til að gera.

    Markatalan og stigasöfnunin. Númer eitt, tvö og þrjú er að ná í þrjú stig í hverjum einasta leik, það telur mest. Við höfum lent í því að skora langmest í deildinni og ekki unnið hana, þegar Rodgers stýrði liðinu. Það hefur einu sinni gerst í 5 stóru deildum Evrópu að lið vinnur deild með markatölu, það var ekki einu sinni vegna markatölu heldur vegna fjölda skoraðra marka, það gerðist á Ítalíu tímabilið 1963-1964, þannig að markatala hefur aldrei skipt máli þegar deildarmeistarar eru krýndir í þessum 5 stærstu deildum. PSV vann á markamun tímabilið 2006-2007 með einu marki á Ajax, eftir að hafa unnið Ajax 5-0 í lokaumferðinni.

    Þessi þrjú stig í dag eru jafnstór og þrjú stig gegn Southampton og West Ham. Ég trúi ekki að sigurvegarar þessa tímabils ráðist á markatölu, ef svo er og ef við töpum á því þá fyrst ætla ég að byrja að kvarta yfir 0-1 sigri á Huddersfield.

    Okkar menn voru að klára landsliðsverkefni, sem þeir horfa stórt á – allir vilja gera vel fyrir sína þjóð. Menn eru sennilega ennþá að jafna sig á því álagi sem þeir voru undir fyrir landsleikjahlé. því að þó að við köllum þetta hlé, er þetta alls ekkert hlé fyrir þá. Þeir eru í burtu frá fjölskyldunni, fljúga hingað og þangað og þess á milli æfa þeir og spila erfiða fótboltaleiki.

    Þessir mögnuðu knattspyrnumenn sem eru á mála hjá Liverpool gerðu því vel í dag, sóttu 3 stig á útivelli. Nú fá þeir loksins viku til að undirbúa sig fyrir næsta leik. Í lokin er ég ánægður með þau þrjú stig sem við fengum í dag, en á sama tíma veit ég að liðið okkar getur spilað betri og skemmtilegri fótbolta.

    Ég held að við getum alveg verið rólegir yfir framhaldinu.

    YNWA

  20. Góð orð hjá #20 Doremí

    Tek undir þau. Heilshugar.

    Beardsley

  21. Hárrétt hjá Doremí. Allt nema þetta með vikuhvíldina því það er leikur á miðvikudaginn.

  22. Liverpool currently have the best defense in the 5 top divisions across Europe. No other club in the Old Continent has allowed fewer goals than the Citizens and the Reds.

    Hvað segja þeir? Sóknin vinnur leiki en vörnin vinnur tit… Nei ég þori ekki að segja þetta ?

  23. Ég skal segja það fyrir þig Svavar#23, sóknin vinnur leiki, en vörnin vinnur tittla, þessi leikur er skólabókardæmi um það. Er sammála því sem að ofan er sagt, meðan allir leikmenn Huddersfield voru heima að chilla á æfingum, grilla ofl. þá var megnið af okkar mönnum á ferð og flugi með landsliðum sínum, það tekur á, ekki bara leikirnir sem slíkir, heldur einnig ferðalögin, hjá sumum yfir hálfan hnöttinn. Tímasetningin að starta þessari þjóðardeild er svo fáránleg, HM ný lokið. Ef þessi keppni á að vera, þá einungis árin milli stóru mótana, og liðin helst skipuð þeim sem ekki hafa spilað með landsliðum fyrir aðal keppnir, það gæti alveg myndast stemming með þannig fyrirkomulag.
    En þessi sigur var eins og Maggi sagði, ákveðið statement punktur

    YNWA

  24. #20 vann ekki City á markatölu 2012? Annars mikið til í þessu hjá þér. Það þarf ekkert að vera flugeldasýning í hverjum leik, en hefðum við sent boltann betur í dag hefði þessi leikur verið afgreiddur mun fyrr og við hefðum þurft að eyða minni orku í hann.

  25. Hér áður vorum við oft að tapa fyrir svokölluðu litlu liðum en það er ekki nú, og eftir landsleiki voru menn oft eitthvað daufir, enda Klopp ekki sáttur við þessa þjóðardeild. Ég er bara drullusáttur.

  26. Liðið okkar hefur ekki gleymt því hvernig á að spila skemmtilegan fotbolta. Í augnablikinu af einhverri óútskýranlegri ástæðu nær liðið ekki að spila þann fótbolta sem við elskum öll. Við verðum þá að sýna þolinmæði og vera þakklátir fyrir góða stigasöfnun. Mér liður bölvanlega við lestur á hinum ýmsu samskiptamiðlum um frammistöðu liðsins og einstakara leikmanna. Oft á tíðum er engin sanngirni og hreinlega um niðurrifsstarfsemi að ræða. Ég skal taka það fram i þessu samhengi að ég á ekki við þessa síðu . Hér er umræðan oftast mjög málefnaleg og skemmtileg sem gerir þessa síðu svo einstaka. Gaman að sjá hin ólíku sjónarmið. Frábært að hún er til. Gott dæmi um sanngjarna og málefnalega umræðu er til dæmis #19 og #20 Doremí. Ekki taka einstaka leikmenn af lífi og persónugera þá fyrir slæmri spilamennsku liðsins eins og sest víða á samskiptamiðlum t.d. Lallana.

  27. Árið 1989 tapaði Liverpool hreinum úrslitaleik gegn Arsenal á jafnri markatölu .

  28. Auðvitað er mikilvægast að ná stigunum í hús og svona 1-0 iðnaðarsigrar eru mikilvægir og oft sætastir. Við vorum stálheppnir í þessum leik gegn lélegu liði sem ekki hefur skorað mark á heimavelli. Um leið og við fögnum dýrmætum stigum er mikilvægt að horfast í augu við svona frammistaða er ekki að fara skila mörgum stigum. Klopp gagnrýndi líka frammistöðuna eftir leik og bað Wagner raunar afsökunar á ráninu.

  29. Varnarlega séð hafa orðið miklar framfarir hjá Liverpool, en sóknarlega séð er ekki annað að sjá en afturför og þar sár vantar mann eins og Coutinho. Bara að Fekir hefði komið eða komi. Ég verð bara að segja fyrir mig, að leikir með Liverpool þessa dagana er ekki mikil skemmtun og já, sjálfum Klopp er ekki skemmt heldur. Hann verður því að fara að gera eitthvað verulega róttækt blessaður varðandi sóknarleikinn.

  30. Stefán #30, ég er ekki sammála þér. Andstæðingar okkar eru búnir að kortleggja okkar sóknarmenn, samt sjáum við ekta Salah mark, sem var frábært, frekar laust í fjær hornið, hnitmiðað. Kannski er þetta spurning um hreifingu á 3 fremstu, að þeir breiti t.d. Firmimio fari aðeins aftar, taki þá til sín fleiri varnarmenn, Salah og Mane skipti um kannt, óvænt, sem ruglar andstæðing því oft eru varnarmenn liða að fókusa á manninn sem þeir eiga að taka vegna stöðu þeirra. En who knows.

    YNWA

  31. Liverpool var sannarlega ekki að spila vel í þessum leik og þetta var hrikalega pirrandi leikur. Mest pirrandi var samt að í svona 5-6 skipti var farið alveg hrikalega með úrvals tækifæri til að opna vörn Huddersfield. Það var innistaða fyrir fleiri mörkum hjá Liverpool þrátt fyrir þessa iðnaðarspilamennsku og það er góðs viti.

    Daniel Sturridge spilaði 90 mínútur í fyrsta skipti í deildarleik í rúmlega eitt ár og það var líklega svipað langt síðan hann spilaði 90 mínútur síðast þegar hann afrekaði það. Adam Lallana var í byrjunarliðinu í fyrsta skipti síðan 1.janúar ef ég man rétt. Shaqiri var að byrja sinn annan deildarleik fyrir Liverpool og bæði Milner og Henderson voru tæpir á meiðslum í þessum leik. Fabinho var að spila sínar fyrstu mínútur í deildarleik.

    Það þarf ekkert að koma sérstaklega á óvart að illa hafi gengið að spila liðið saman enda holningin mjög tæp. Það er mikilvægt að ná að gefa mönnum eins og Lallana og Sturridge mínútur því að þeim kemur til með að fjölga á næstu vikum. Eins Fabinho og Shaqiri því vonandi komast þeir á næstu mánuðum það vel inn í leikstíl Liverpool að þeir verði orðnir fastamenn í byrjunarliðinu. Áhugavert að sjá Shaqiri spila fremst á miðjunni þrátt fyrir að Lallana væri einnig í byrjunarliðinu og gefur það vonandi vísbendingu á að Klopp komi til með að halda áfram að prufa hann í þessu hlutverki. Shaqiri lagði upp sigurmarkið í þessum leik og var okkar lang líflegasti leikmaður. Virkaði eins og hann væri sá eini sem kynni að spila í röffi, eitthvað sem Liverpool þarf að fara læra betur á þessum í útileikjum enda virðist sláttuvélin alltaf bila rétt áður en Liverpool mætir í heimsókn. Svosem ekki skrítið að hann kunni þetta vel eftir árin í Stoke. Lallana vona ég hinsvegar að spili ekki marga fleiri leiki sem einn af þremur fremstu hjá okkur, úff.

    Einhver talaði um að Liverpool væri í 8.-10. sæti ef Van Dijk og Alisson væru ekki í liðinu. Þess vegna voru báðir keyptir á metfé!! Liverpool var bókstaflega í 9.sæti á sama tíma fyrir ári með tíu stigum minna og búið að fá á sig 16 mörk í stað þriggja núna. Sóknarleikurinn var ekki betri en svo að Liverpool er búið að skora meira núna en á sama tíma í fyrra. Það er fullkomlega frábært að vörnin haldi og hún er að vinna leiki fyrir okkur, eitthvað sem við höfum varla þekkt í áratug. Við höfum einmitt verið að kalla eftir þessu í nokkur ár.

    Huddersfield á svo skilið smá meiri virðingu en við erum að gefa þeim. Þetta er klárlega vel þjálfað lið sem hafði tvær vikur til að undirbúa þennan leik og sýndu að þeir eru betri en taflan gefur til kynna (ekki mikið betri samt enda deildin bara heilt yfir mjög sterk). Þetta var þeirra langbesta frammistaða á þessu tímabili og enn einn leikurinn sem Liverpool hefði ekki unnið á undanförnum árum.

    Þetta var níunda umferð mótsins, við erum ekki komin nógu langt inn í mótið til að vera komin með leið á iðnaðarsigrunum, fögnum þeim áfram ákaft enda man enginn eftir þessari frammistöðu eftir áramót, stigin þrjú munu hinsvegar telja jafn mikið.

Liðið gegn Huddersfield

Leikir hjá kvennaliðinu og U23