Napoli 1-0 Liverpool

Markið
1-0 Insigne 90.mín

Leikurinn
Það er nú ekki mikið hægt að taka úr þessum leik annað en að Liverpool liðið var virkilega slakt í nær öllum þáttum fótboltans og Napoli voru bara mikið betri, miklu áræðnari og miklu meira skapandi.

Strax í byrjun þá virtist sem Liverpool ætlaði að spila af krafti og notast við langar sendingar í hlaupaleiðir framherjana til að komast yfir pressuna hjá Napoli – líkt og var gert gegn Chelsea og kannski ekki galið að reyna að notast við sömu aðferð gegn öðru liði sem nýlega var þjálfað af Sarri.

Það bara gekk hins vegar ekkert upp þar sem leikmenn Napoli sáu við þessu og náðu að skilja framherjana eftir tvídekkaða og einangraða. Þeir sóttu í sig veðrið og stjórnuðu allri umferð á miðjunni, voru fljótari að bregðast við lausum boltum og náðu að loka á allar ógnir Liverpool sem aldrei þessu vant náði varla skoti að marki.

Kannski hjálpaði það ekki til að upprunalegt leikskipulag Liverpool þurfti að breytast mjög snemma leiks þegar Naby Keita var borinn af velli og dýnamíkin á miðjunni breyttist. Liverpool var nú svo sem ekki með tökin á miðjunni fram að því en við það missti Liverpool þann leikmann sem átti eflaust að sjá um að brúa bilið á milli miðju og sóknar.

Joe Gomez bjargaði á línu og Alisson varði og bjargaði nokkrum sinnum meistaralega en það dugði ekki til því Napoli náði því miður verðskulduðu marki á 90.mínútu þegar góð lá fyrirgjöf frá hægri kanti barst inn í teig Liverpool og sigldi framhjá varnarmönnum og Alisson og mætti Lorenzo Insigne sem tæklaði boltann yfir línuna.

Verðskuldað en graut fúlt að fá þetta mark á sig og Napoli hoppar upp fyrir Liverpool í riðlinum með fjögur stig en bæði Liverpool og PSG eru með þrjú.

Besti leikmaður Liverpool
Þeir voru nú ekki margir sem stóðu eitthvað upp úr – í raun einungis sárafáir. Van Dijk átti nokkrar góðar rispur en þeir Alisson og Joe Gomez báru höfuð og herðar yfir aðra leikmenn liðsins. Alisson náði í nokkur skipti að bjarga mjög vel með að koma sér af línunni og stöðva sókn þegar Napoli tókst að komast á bakvið vörnina okkar. Gomez var feykilega öflugur og átti að mér fannst virkilega góðan leik. Mikið svakalega lítur strákurinn vel út!

Slæmur dagur
Allt. Það var í raun og veru allt slæmt í dag.

Bakverðirnir voru ekki nægilega góðir fannst mér og ströggluðu svolítið í leiknum. Miðjan var nú varla með og framlínan sást ekki. Napoli voru bara mikið betri hér í kvöld og eru öflugt lið og sterkir á heimavelli. Liverpool voru ekki góðir en það skal ekki tekið af Napoli að þeir voru mjög góðir.

Umræðan eftir leik
– Síðustu dagar hafa ekki verið góðir fyrir Liverpool og liðið á köflum virkað nokkuð ólíkt sjálfu sér og nokkur af sömu vandamálunum dúkkað upp í þessum þremur leikjum gegn Chelsea og Napoli. Er það eitthvað sem við þurfum að hafa áhyggjuar af?

– Miðjan hefur verið nokkuð bitlaus og ekki náð að stjórna leikjum nægilega vel og framlínan hefur verið nokkuð bitlaus. Í hinum tveimur leikjunum var liðið allavega að skapa sér færi en ekki nýta þau og í kvöld tókst ekki að skapa neitt.

– Hefði Klopp átt að rótera meira fyrir þennan leik og eru of margir leikmenn þreyttir eftir þrjá leiki í röð þar sem liðið hefur þurft að elta boltann meira en vanalega?

– Mun Klopp taka einhverjar stórar breytingar fyrir leikinn gegn City og er þetta kannski í fyrsta skipti sem við finnum fyrir því að hafa ekki klárað kaupin á einhverjum eins og Nabil Fekir í sumar?

43 Comments

  1. Sælir félagar

    Sanngjörn niðurstaða eftir viðbjóðslega frammist-ðu Liverpool. Uppleggið hjá Klopp að láta eitt öflugasta sóknarlið í heimi spila varnarbolta í heilan leik er beinlínis ógeðslegt. Þetta minnir mig á leikinn sem Dalglish stjórnaði á móti Arsenal og lagði þann leik svipað upp og Klopp þennan. Liverpool tapaði titlinum í þeim leik eitt öflugasta sóknarliðn í heimi á þeim tíma.

    Að spila MU bolta heilann leik er ekki boðlegt, hvorki fyrir liðið, klubbinn og alls ekki boðlegt fyrir stuðningmenn liðsins. Skipptingar eins og Mané úty fyrir Sturridge á 87. mín er ekki boðlegt og gerir ekkert nema ergja alla. Þessi frammistaða er öllum hlutaðeigandi til skammar og Liverpool hrekkur af sínum stalli heldur betur.

    Það er nú þannig

    YNWA

  2. Finnst ég þurfa að leita ansi langt til að finna leik sem Liverpool átti eins mikið skilið að tapa. Vorum ömurlegir í kvöld og maður beið bara eftir þessu verðskuldaða marki frá Napoli sem galopnaði riðilinn.

  3. Sanngjarnt, en ég tek þessu tapi ef við vinnum city heima. Þá núllast þetta út 🙂

  4. Því og miður mjög sanngjörn úrslit vegna þess að Klopp virðist hafa lesið vitlaust í leikinn allan tímann.

  5. Öflugasta sóknarlið í heimi?
    Róa sig aðeins 🙂
    Síðast ég sá stigatöfluna í PL þá var eitt lið búið að skora miklu fleiri mörk en Liverpool.

  6. Það mætti halda að það væru allir fullir á feisbúk hér yfir þessum leik.
    Get ég séð einhver önnur komment frá ykkur á DV eða voruð þið líka á Útvarp Sögu í dag í Línan er laus?
    Erfiður leikur, erfiður útivöllur, erfiðar aðstæður og erfitt prógramm. Algjör óþarfi að örvænta og áfram gakk.
    Anda inn…………………anda út.

  7. Klopp á þetta skuldlaust, Firmino, Salah og Mane hafa ekki átt sína bestu leiki núna upp á síðkastið og því hefði ég viljað sjá hungraða Sturridge og Shaqiri í byrjunarliðinu og einnig Fabinho. Lykilmenn virðast vera hálf bensínlausir og Klopp er ekki að nýta þennan frábæra hóp sem hann hefur í höndunum.
    Napoli átti þennan sigur skilið og núna þarf Klopp að sýna af hverju hann er einn af bestu stjórum heimsins og taka 3 stig á móti city í næsta leik.

  8. BTW, þeir sem tala um að gomez hafi verið frábær ættu að horfa á endursýningu frá marki napoli og þegar þeir áttu skot í slá. Hann var ÖMURLEGUR í kvöld, inn með Sturridge og Lovren fyrir shitty leikinn.

  9. Þetta er ekki flókið.

    Liverpool liðið náði sér ekki á strik í kvöld og annað eins hefur nú gerst í þessum bolta. Óþarfi að fara að hengja menn en fara í kerfi. Markmið í þessari riðslakeppni er að komast upp úr riðlinum og ég hef trú á að strákunum takist það og eiga þessi úrslit ekki eftir að breytta neinu í stóra samhenginu.

    Já það má alveg benda á að lágt tempó og við of aftarlega sé ólíkt okkar leikstíl en kannski var Klopp ekki tilbúinn að keyra þetta á fullt útaf leiknum gegn Man City.

    Allir að anda inn og út. Við eigum ekki eftir að sjá margar svona framistöður í vetur en þegar þær koma þá vona ég að við náum að næla okkur í 1 eða 3 stig en það einkenni góðra liða að fá eitthvað út úr leikjum þegar þau eru ekki að leika vel.

    YNWA í blíðu og stríðu.

  10. Góða kvöldið félagar, Hvað getur maður sagt eftir svona leik? Hann bauð upp á takmarkaða skemmtun hjá okkur, Undanfarið hefur verið talað um svakalega breidd í okkar liði og í kvöld sást það greinilega. Sömu mennirnir spilaðir og undanfarið. Fremstu þrír áttu afleitan leik lengst framan af. Á meðan sáttu Shagiri og Studge á bekknum og fékk síðarnefndi nokkrar mins til að gera eitthvað. Getum gleymt því að hann sé að fara vera supersub á 85 min og læði inn marki í hverjum leik. við töpum réttilega fyrir Napoli sem var miklu betra allan leikinn hvað sjáum við á Anfield á sunnudaginn? Maður leiksins? Veit ekki allt liðið spilaði langt undir pari og var uppleggið greinilega að sækja 1 stig og spara orkuna

  11. Hef ekki séð jafn léleg Liverpool leik lengi þetta var algjört gjaldþrot sé okkur ekki vinna City nema það verði spítt ansi hressilega í lófana. Held líka að Salah þurfi að fá að verma bekkinn í nokkra leiki hann er alveg úr takti.

  12. Ég hef aldrei séð jafn margar BRAUÐFÆTUR hjá einu liði eins og hjá LIVERPOOL í kvöld.

  13. Hélt ég ætti ekki eftir að sjá Liverpool svona lélegt!!!!!!!!!!!!!!!!!!!

  14. Miklu frekar að nota graða ferska fætur heldur en að spila sömu mönnunum leik eftir leik. Lélegasta frammistaða Klopp til þessa þessi leikur og vonandi lærir hann af þessu.

  15. Menn ættu kannski aðeins að róa sig, babblandi um “viðbjóðslega” eða “ógeðslega” frammistöðu. Þetta var jú vissulega mjög léleg frammistaða, allavega á þeim standard sem Klopp hefur sett síðastliðin 3 ár en við skulum ekki gleyma vegalengdinni sem hann hefur borið okkur á þessum tíma.

    Ég get alveg lofað ykkur öllum því að þetta er nákvæmlega sparkið í rassinn sem Liverpool þurftu fyrir leikinn á móti City næstu helgi. Við munum bæta upp fyrir þetta, rétt eins og við höfum séð okkar menn gera svo margoft eftir lélegar frammistöður undir stjórn Klopp.

  16. Sóknin okkar áhyggjuefni. Eins og mest allt tímabilið það sem af er.

    Versti leikur sóknarmanna sem ég hef séð undir stjórn Klopp. Núll skot á mark.

  17. Timburmenn heitir þetta … þurftum að losa út einn lélegan leik … leiðindacomment hjá mörgum hérna þó leikurinn hafi verið dapur … þetta Napóli lið er frábært og held að þeir muni anda alvarlega ofan í hálsmálið á Juve þó þeir hafi tapað fyrir þeim um síðustu helgi. Halda annars ekki allir með Lpool hérna?

  18. Skítur skeður.

    Óttast að það hafi verið mistök að hrista ekki meira upp í liðinu fyrir þennan leik, bæði með þennan leik í huga og ekki síður þann næsta. Liðið virkaði sprungið á þessum ömurlega velli og því miður sanngjarnt tap. Virkar sérstaklega vont þar sem Liverpool hefur alls ekki spilað svona illa í þó nokkurn tíma. Enginn heimsendir að tapa úti gegn Napoli í 2.umferð riðlakeppninnar og nóg tími til að leiðrétta þessi úrslit.

    Hef sérstaklega áhyggjur af miðjunni aftur, finnst hún hafa dalað eftir geggjaðan leik gegn PSG og virka þreytt. Það vantar alveg rosalega einhvern af Keita, Ox eða Lallana í 100% formi til að tengja betur sókn og miðju saman. Sóknartríóið mun svo alltaf eiga erfitt ef bakverðirnir eiga líka svona slæman dag og ná ekki að sækja eins og þeir eru vanir. Miðjan átti varla heppnaða sendingu frammá við í leiknum og það gekk afskaplega lítið upp hjá Trent og Robertson.

    Þetta var versti leikur Liverpool sóknarlega undir stjórn Klopp og þriðji í röð sem ekki tekst að vinna. Ekkert mál ef við vinnum næsta leik en mjög vondur endir á þessu erfiða leikjaprógrammi takist það ekki. Stutt á milli í þessu.

    Það sem helst fer í taugarnar á mér hjá Klopp er hversu lengi hann er bæði að skipta mönnum inná og eins bregðast við taktískum breytingum andstæðinganna. Napoli skipti fyrirsjáanlega um gír eftir að þeir gerðu tvöfalda skiptingu og settu tvo hraða leikmenn inná. Klopp á meðan lét okkar menn hlaupa sig nánast niður á hnén og beið svo með síðustu skiptinguna fram á síðustu mínútu. Skil það ekki og fannst hann líka allt of seinn að skipta í Chelsea leiknum. Sérstaklega þegar við erum loksins með almennilega breidd til að breyta leikjum og koma ferskum löppum inná í leikjum þegar liðið virkar eins þreytt og þeir gerðu í kvöld.

    Engin samkeppni um mann leiksins hjá Liverpool, klárlega Joe Gomez.

  19. Tapið kom mér á óvart í kvöld. Í fyrsta skipti síðan Klopp tók við liðinu reyndi hann að spila upp á jafntefli sem ég hef aldrei séð hann gera áður. Það fer ekki Liverpool að spila varnarleik og að reyna að hanga á jafntefli þrátt fyrir heimsklassa markvörð og góða vörn. Var ekki ósáttur við tapið heldur meira með hugarfarið að spila ekki til sigurs eins og Liverpool hefur gert í öllum leikjum síðan Klopp tók við liðinu . Hann vinnur ekki Champions eða Premier League með þessu hugarfari. Liverpool verður að spila til sigurs í hverjum einasta leik ætli þeir sér að vinna titla á þessu leiktímabili. Ef ég þekki Klopp rétt lærir hann af þessu. Fer til Liverpool á föstudaginn og verð á Anfield 7/10 á leiknum við Man.City. Hlakka mikið til.

  20. Þetta var lélegt og vonandi læra menn af þessum hörmungum. En við skulum samt ekki drulla yfir mann og annan þó svo að við séum ósátt við þessa útreið. Stundum koma svona dagar og fátt við því að gera þó svo að maður hafi alveg skoðun á uppstillingu og uppleggi. Eðlilega veltir maður fyrir sér liðsuppstillingu og í sannleika sagt þá átti ég von á fleiri breytingum. En ég er engin stjóri og hefði þar að auki stein haldið kjafti ef við hefðum náð jafntefli hvað þá unnið. Klopp hefur metið þetta á þennan hátt en væntanlega reiknað með meira framlagi leikmanna á vellinum. En eðlileg finnst manni að það hefði mátt henda fyrr í skiptingar og gefa liðinu smá spark. Nú bíður okkar virkilega erfiður leikur n.k. sunnudag þar sem tvö bestu liðin í enska í dag leiða saman hesta sína. Þar vonast ég eftir að menn reki af sér sliðruorðið og spili skemmtilegan og ákafan fótbolta og megi betra liðið vinna þá rimmu (ef city verður betra liðið þá sætti ég mig við jafntefli)
    YNWA

  21. Aldrei skilið svona seinar skiptingar og þá sérstaklega á sóknarmanni. Gerir ekkert í 5 mínútur.

    Liðið var geinilega afboðslega þreytt, en þar er engin afsökun það þurfa öll lið að spila marga leiki. Vonum bara að sigur í næsta leik komi okkur á bragðið.
    ynwa.

  22. Úff hvað þetta var eitthvað þreyttur og leiðinlegur leikur. Frábært að eiga rauðu stjörnuna næstu 2 leiki.
    Hljótum að ná meiri takti á sunnudag því ekki nenni ég 4 leiknum í röð án sigurs

  23. Koma svo tökum Cyti og allir kátir ég held að við eigum eftir að eiga stór leik heima Úrslit 3 – 0 og Shala með öll mörkin ??????

  24. Klopp verður að læra rótera liðinu. Treystir ekki mönnum eða þeir ekki nægilega góðir eða hvað það er. Hann verður að læra það og það strax.
    Shaqiri og studge áttu að,spila miklu meir .og treysta fabhino.
    Meira segja sá maður þreytu einkenni á milner.
    Þá veit maður að byrjunarliði er þreytt?

  25. Þetta var lélegur leikur, engin þörf á að dvelja eitthvað meira á þessu, það er stutt í að okkar menn geti bætt upp fyrir þetta.

  26. Napoli skoraði á 90.min og ef leikurinn hefði farið 0-0 þá væri allt æðislegt, Klopp snillingur og vörnin og miðan átt frábæran leik – Napoli átti sinn besta dag en Liverpool sinn versta dag og það munaði ekki nema 3-4 mín að leikurinn hefði farið jafntefli. Síðan ættu sumir að róa sig aðeins og nota ekki orð eins og viðbjóðslegt og segja að frammistaðan sé öllum hlutaðeigandi til skammar, aðeins og mikil dramtík hér en þetta frábæra lið hefur veitt okkur mikla skemmtun síðustu misseri svo við skulum aðeins róa okkur.

  27. Sumt skil ég bara allsekki.

    Hvers á Shaqiri að gjalda? Hvers vegna er hann ekki settur inn á þegar Keita meiðist? Eða þegar Salah virkar ekki? Þegar framlínan virkar yfirhöfuð ekki?

    Og hvað með Sturridge? Maðurinn er í rjúkandi formi og fær FIMM mínútur?

    Getur verið að Klopp kunni hreinlega ekki að skipta mönnum rétt inn á og Á RÉTTUM TÍMA?

    Var það kannski Buvac sem stýrði leikjunum sjálfum, ekki Klopp?

  28. Sigkarl, takk fyrir að minna okkur á leikinn gegn Arsenal forðum daga. Ég er búinn að vera að reyna að gleyma honum tvo þriðju hluta ævinnar.

  29. Ég sagði þetta síðast og þar síðast… leikurinn okkar er orðinn alltof fyrirsjáanlegur… það hafa flest liðinn eytt sumrinu í það hvernig eigi að stöðva sóknina okkar og það er bara að ganga upp, fáum ekkert pláss og engan hraða, þá er bara best að gefa á miðjuna okkar og hægja á öllu

  30. Alls ekki úrslitin sem maður vildi, að sjálfsögðu viljum við vinna alla leiki. En fínt að klára “lélelega kaflan” (tap, jafntefli, tap) bara núna og svo barasta upp og áfram.

    Svo er líka fínt að skoða árangurinn hingað til í samanburði við síðasta tímabil:

    2018: 19 points/15 GF/3 GA — 3 CL points (Win PSG, Loss @Napoli) — Out of the League Cup to Chelsea

    2017: 12 points/13 GF/12 GA/ — 2 CL points (Draw Sevilla, Draw @Moscow) — Out of the League Cup to Leicester

    Girðum okkur í brók og tökum City á sunnudaginn, koma svo!!!!

    YNWA

  31. Sammála Einari að okkur vantar sárlega mann til að tengja betur miðju og sókn, Keita virðist þurfa aðeins meiri tíma til að komast almennilega á skrið og vonandi að þessi meiðsli haldi honum ekki lengi frá liðinu. Eins góðir og Milner, Wijnaldum og Henderson geta verið, þá er það mín skoðun að með þá saman vantar meiri sköpunarkraft á miðjuna og þrumurnar þrjár fá ekki úr jafn miklu að moða. Ég gæti alveg séð Shaqiri fyrir mér sem framliggjandi miðjumann, annaðhvort í staðinn fyrir einn af miðjumönnunum eða í staðinn fyrir eina af skyttunum og detta í einhvers konar tígulmiðju. Það verður spennandi að sjá hvernig Klopp stillir upp á móti City, treysti honum töluvert betur en sjálfum mér til að sjá um þetta.

    Tek undir að það hefði verið gaman að sjá Shaqiri og Sturridge spila meira, og forvitnilegt væri að vita hvað Klopp er að hugsa. Hann hefur auðvitað sínar ástæður fyrir liðsvalinu en það verður að viðurkennast að maður skilur ekki alltaf hvernig hann metur hlutina.

    Á jákvæðu nótunum, Fabinho fannst mér koma ágætlega út í þessar 15 mín sem hann fékk. Enginn stórleikur hjá honum kannski en mér fannst hann sýna framfarir miðað við Chelsea leikinn í deildarbikarnum. Hann stoppaði sóknaruppbyggingu hjá Napoli einu sinni eða tvisvar og mér fannst hann vera oft betur staðsettur og í betri takti við liðið. Alisson, það er svo gott að vita af honum þarna í markinu.

    Okkar menn virðast vera aðeins bognir núna eftir undanfarnar vikur en ég hef trú á að þeir fyllist fítónsanda og gangi frá City mönnum til að ljúka þessu strembna leikjaprógrammi á sem bestan hátt!

  32. Slakasti leikur sem ég hef séð lengi með okkar ástkæra, má örugglega gagnrýna margt í upplegginu en það má segja að við höfum verið teknir í bólinu með okkar leikstíl. Kannski átti Klopp að stokka þetta upp í hálfleik þegar hann sá hversu auðveld svör Napolí átti við sóknartilburðum okkar en eftir að Keita meiddist þá var ekki miklu hægt að breyta fram á við fannst mér. Það vantaði klárlega einhvern til að hanga á boltanum aðeins og spurning hvort Shaq hefði mátt fá sénsinn ásamt Sturrigde fyrir Mane og Salah en það er alltaf möguleiki á marki frá þeim gæjum þannig að maður spyr sig ?
    Næsta verkefni takk fyrir.

  33. Sælir félagar

    Það er ekki góð pólitík að skrifa komment þegar maður er brjálaður eftir leik. Þá segir maður ýmislegt sem óþarfi er að láta flakka. Þetta varðar það sem ég skrifaði eftir leikinn í gær. Um leið bið ég afsökunar á öllum ásláttarvillunum í þeim ummælum.

    Betra hefði verið að segja : “Sanngjörn niðurstaða eftir “skelfilega” (í stað viðbjóðslega) frammistöðu Liverpool. Uppleggið hjá Klopp að láta eitt öflugasta sóknarlið í heimi spila varnarbolta í heilan leik er beinlínis “óásættanlegt” (í stað ógeðslegt)”.

    Að öðru leyti stend ég við það sem ég sagði í mínu fyrsta kommenti. Auðvitað er þetta engin heimsendir en frammistaða liðsins var ekki góð svo ekki sé meira sagt. Leikmenn virtust þreyttir og útkeyrðir. Meira að segja Milner virkaði þreyttur og er hann þó sá leikmaður sem virðist hafa óendanlega orku til að djöflast í leikmönnum andstaðinganna. Skiptingar og nýting hópsins er líka eitthvað sem manni finnst ekki alveg eins og það ætti að vera. En við verðum að treysta Klopp í því sem öðru.

    En hvað um það. Lífið heldur áfram og það þýðir í reynd ekkert að vera að ergja sig á orðnum hlutum. Þeim verður ekki breytt og því er best að snúa sér að nútíð og framtíð. Meiðsli Keita virðast sem næst engin og því ætti Klopp að eiga alla möguleika á uppstillingu í leiknum við M. City. Vonum að uppleggið í Napolí leiknum hafi verið; sparið orku og haldið hreinu því við verðum að eiga allt sem við getum lagt fram í leiknum við City. Það næstum tókst og nú er bara næsti leikur.

    Það er nú þannig

    YNWA

  34. Leiðinlegasti liverpool leikur sem ef hef séð undir Klopp og með þeim leiðinlegri sem eg hef seð síðustu 25 árin.

    Hefði viljað skipta Sturridge inná og taka alla þrjá fremstu útaf fyrir hann einan, liðið hefði líklega ekki versnað við það. Lang slakasti leikur Salah fyrir okkar menn og hann Verður að fara detta í gang sem hann á eftir að gera er ég viss um.

    Rosalega mikið undir á sunnudag, sigur þar og allt er í blóma en tap þar og þá fer maður að hafa áhyggjur.

  35. Mer hefur fundist lidid bitlaust fram a vid I sidustu 3 leikjum, thar sem skorud hafa verid 2 mork. Thad er eins og lidid se ad rembast vid ad komast I einhvern gir sem thad finnur ekki. Ad minu mati kemur thessi Man City leikur a BESTA tima thvi thad er akkurat I svona leik sem menn rifa sig upp.

    Er ekki sammala thvi ad eg hefdi verid sattur vid leikinn ef hann hefdi farid 0-0, thvi lidid er bara ad spila illa. Thad skapadi ser ekki faeri og thad vantar rosalega mikid uppa fram a vid til ad madur geti verid sattur. Eg er hins vegar sannfaerdur um ad thegar lidur a seasonid, tha mallar thetta betur og lidid verdur ostodvandi. Thad tharf bara ad gerast sem allra allra fyrst svo ad City stingi ekki af I deildinni. Hun getur runnid ur greipum okkar ef lidid tapar tveimur leikjum I rod t.d.

    Vardandi Salah, tha hef eg jafn miklar ahyggjur af markaleysinu og spilamennsku hans almennt. Hann hittir varla a mann. Eg gef honum thad reyndar ad hann er ad fa boltann I erfidum stodum og hann er ekki eins frir/opinn og hann var oft a tidum I fyrra, en hann a samt I vandraedum med ad spila a samherja sina og tapar boltanum adeins of oft.

    Ad lokum…Thad er ordid ansi threytt ad thegar menn pusta sma og gagnryna lidid (svo framarlega sem thad er gert a malefnalegan hatt og folk vandi sig) ad tha byrji menn ad hrauna yfir folk og skipa thvi ad slaka a. Af hverju ekki bara ad svara gagnryninni a vitraenan hatt I stad thess ad vera ad aesa sig? Ef komment eru heimskuleg og ekki svaraverd tha bara lata thau eiga sig, punktur. Latum umraeduna herna snuast um fotbolta.

  36. Mane fær boltann með varnarmann fyrir framan sig, Salah fær boltann og er undantekningarlaust með mann í bakinu og nær sjaldan að snúa sér og gera sér mat úr því. Var hann dekkaður svona í fyrra eða hafa öll liðin lært af ashley young?? Vera alltaf í bakinu á honum og passa að hann nái ekki að snúa að markinu. Eða er ástæðan fyrir muni á mané og salah að egyptinn er að hreyfa sig mun minna án bolta og því alltaf stíft dekkaður??
    Bara smá pælingar fyrir helgina

  37. Þynnkan tvöfaldaðist þegar ég vaknaði í Dublin og sá úrslitinn var feginn að missa af þessari hörmung. Rífa sig upp á rassgatinu á móti City er eina leiðin úr þessari fokkings þynnku!

  38. Hraðinn í liðinu er ekki til staðar í augnablikinu. Það hlýtur að vera þreytueinkenni. Klopp metur að liðið sé samt sterkara með sama mannskap heldur en að prófa varamennina. Þetta gæti orðið erfitt í næsta leik en svo vonandi fáum við að sjá meira af Keita og Fabinho sem eru þungavigtarmenn og Shakiri er lúnkinn.

  39. Come on, city tapaði 1-2 fyrir Lyon, nú veit ég lítið um Lyon, en það er örugglega ekki betra lið en Napoli. Nú er ég ekkert að réttlæta tap okkar manna sem var slæmt, ég hefði sætt mig við jafntefli. En ég vona að slæma kaflanum fari að ljúka.

    YNWA

  40. Þvílíkur munur á Klopp eða Mourinho.
    Klopp á blaðamannafundi segist bera alla ábyrgð á tapinu.
    Mourinho mætir á blaðamannafund og kennir öllum nema sjálfum sér um ef scums tapa.

  41. Fannst þetta ekki leiðinlegur leikur, það var samt Napolí að þakka. Liverpool virkar þreytt. Milner er kannski vél, og ég elska Milner, en hann hefur virkað þreyttur síðustu tvo leiki. Ég er svo sammála mönnum sem vildu sjá breytingar fyrr. Markið lá í loftinu og maður var í raun bara að vonast til að liðið héldi út.

    Það verður mjög fróðlegt að sjá uppstillingua gegn City. Ég fyrir mína parta vil sjá Henderson sem fyrirliða.

Liðið gegn Napoli – ein breyting

Upphitun: Meistararnir mæta á Anfield