Liverpool 1-2 Chelsea

Það kom þá að því að Liverpool tapaði en liðið missteig sig gegn Chelsea í Deildarbikarnum í kvöld á nokkuð pirrandi hátt.

Mörkin
1-0 Daniel Sturridge 59.mín
1-1 Emerson 79.mín
1-2 Eden Hazard 86.mín

Leikurinn
Bæði lið mættu með mjög róteruð en sterk lið í kvöld og leikurinn bar þess merki á köflum. Chelsea voru meira á boltanum en Liverpool reyndi að pressa á réttu augnablikunum og notuðust við hraðar og beinskeyttar sóknir. Það er í raun ekkert sem kom á óvart í þeim efnum. Sarri og Chelsea vilja hanga á bolta og reyna að stýra tempói en Liverpool vill komast inn í sendingar og nota leiftursóknir. Þetta verður eins á laugardaginn.

Liverpool liðið byrjaði svolítið út um allar trissur og þá sérstaklega á miðsvæðinu en Chelsea gekk of vel að komast þar í gegn og keyrðu mikið upp hægri kantinn til að notfæra sér það sem er oftar en ekki talið veiki bletturinn í varnarleik Liverpool en það er Moreno í vinstri bakverðinum.

Chelsea átti í fyrri hálfleik að mér fannst ekkert mikið af góðum færum þannig lagað og Liverpool átti nokkrar ágætis rispur en líkt og Chelsea náðu ekki að koma nægilega góðu skoti að marki, seinasta sendingin klikkaði eða eitthvað á þá leið.

Strax og síðari hálfleikurinn hófst slapp Sturridge í gegn eftir slaka sendingu á milli varnarmanna Chelsea en Caballero í marki Chelsea sá við fyrsta skoti hans og það seinna fyrir opnu marki fór framhjá. Sturridge svo sem í engu jafnvægi og á veikari fæti en skotið engu að síður afar slakt.

Hann braut svo ísinn nokkrum mínútum síðar þegar Keita átti fína rispu inn í teig Chelsea og átti þrumuskot sem var varið út í teiginn og Sturridge fékk boltann til sín, tók bakfallsspyrnu og kom boltanum í netið. Verðskulduð forysta Liverpool að mér fannst þar sem liðið var líklegri aðilinn bróður partinn af leiknum.

Leikurinn hélt áfram líkt og hann spilaðist áður. Chelsea á bolta og Liverpool að reyna að þétta og sækja hratt. Chelsea fékk aukaspyrnu um rúmlega miðbik síðari hálfleiks þar sem Emerson tók frákast eftir að Mignolet varði skalla af stuttu færi. Leikurinn hélt áfram líkt og áður og Liverpool átti sín moment frammi og hefðu eflaust átt að geta gert ögn betur í einhver skipti.

Það var svo Eden Hazard sem kom Chelsea yfir þegar fjórar mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma með flottu marki eftir einleik á hægri kantinum og neglu í fjærhornið. Mér fannst bæði Keita og Moreno hafa getað gert betur í þessu atviki en ég ætla ekkert að taka það af Hazard að þessi rispa hans var mjög góð.

Liverpool reyndi að jafna metin en líkt og áður gekk illa að ná nægilega góðu skoti eða ná réttu sendingunni í lok sóknar. Leikurinn fjaraði út og Liverpool því dottið úr leik í Deildarbikarnum þetta árið.

Maður leiksins
Veit ekki hvern ég ætti að velja ef ég á að velja bara einhvern einn en sá fyrsti sem kemur í hugann er eflaust Shaqiri sem var aftur mjög líflegur og skapaði mikinn ursla við teig mótherjans. Hann á eftir að vera ansi drjúgur í vetur, held að það sé ekki spurning.

Slæmur dagur
Moreno er enn veiki hlekkurinn í varnarleik Liverpool þegar hann spilar. Hann fer mikið úr stöðu og skilur eftir sig mikið pláss ásamt því að hann lendir rosalega oft á eftir mótherjanum. Fannst hann ströggla í dag gegn Moses og Willian og hann lét Hazard leika sig ansi grátt í sigurmarki Chelsea.

Það var alveg hægt að sjá nokkuð auðveldlega hvað Klopp er að meina með ákvörðun sinni að vera ekki að henda honum strax í liðið. Hann átti nokkrar mjög fínar rispur í leiknum þar sem maður sér fullkomlega af hverju Klopp vildi fá hann en hann er klárlega ekki kominn í takt við liðið og leikstílinn og það sást stundum á plássinu sem skapaðist bakvið hann á miðjunni. Hann vann sig þó betur og betur inn í leikinn eftir því sem leið á fannst mér.

Færanýting Liverpool var einnig ekki alveg nógu góð og hefði liðið alveg getað gert út um leikinn á vissum köflum í kvöld en það reyndist dýrkeypt að gera það ekki.

Umræða eftir leik
– Fyrsti tapleikur liðsins á leiktíðinni kemur í Deildarbikarnum í leik sem mér fannst við þó ekki síðri aðilinn og hefðum jafnvel átt að klára hann. Það gæti því verið fínt spark í rassinn að hafa tapað þessum leik á þennan hátt og verður áhugavert að sjá hvernig hópurinn bregst við þessu.

– Shaqiri kemur inn í liðið af miklum krafti og í þessum einum og hálfa leik sem hann hefur spilað á síðustu dögum hefur honum tekist að vera lykilþáttur í sóknaruppleggi liðsins. Hann býr til pláss, skapar færi og kemur sér í góðar stöður. Hann er flottur og við munum eflaust skemmta okkur með hann í vetur.

– Maður grínaðist nú pínu með það fyrir leikinn að maður myndi sætta sig við tap í dag ef að við vinnum þá á laugardaginn í staðinn og vonandi verður það raunin. Við höfum harma að hefna núna og þetta verður allt annar leikur á laugardaginn þó svo að leikurinn muni eflaust spilast svipað og í kvöld.

– Ég ætla nú alls ekki að lesa mikið í úrslitin í kvöld og það er gott að sjá að breiddin er fín. Sturridge nú skorað sitt þriðja mark á leiktíðinni, eitt eftir að hafa komið inn á og tvö þegar hann byrjar. Við eigum fína varnarmenn sem geta komið inn, öfluga og flotta kosti á miðjunni og mjög öfluga menn í sóknina. Þetta lítur þokkalega út og um næstu helgi verður byrjunarlið Liverpool töluvert sterkara en liðið í kvöld þó það hafi nú líka verið sterkt.

– Ég nenni ekki að kommenta á Kevin Friend.

23 Comments

 1. fint að detta ur þessari keppni, tökum bara þrennuna. maður getur ekki einusinni banterað með að vinna eh carbonara cup

 2. – Ég nenni ekki að kommenta á Kevin Friend.

  Nei orðum það þannig að K.Friend er skelfilega slakur dómari og sýndi það í en eitt skiptið í kvöld.

  En að leikmönnum þá var það einstaklings framtak Hazards sem kláraði þennan leik .

  En við fáum að sjá allt annað liverpool lið á laugd .og sjáum hvað gerist þá.

 3. Við höfum spilað verr en þetta á tímabilið og unnið leiki.
  6 öftustu að spila sinn fyrsta heila leiki í langan tíma og mátti búast við smá vandræðum. Fyrirhálfleikurinn var ekki merkilegur en mér fannst í þeim síðari við vera mun betri og í stöðuni 1-0 fyrir okkur þá stjórnuðum við leiknum og þeir ógnuðu ekki mikið. Mark eftir fast leikatriði og ótrúlegur sprettur hjá Harzard gerði það að verkum að við töpuðum í kvöld.

  Mignolet 7 – Átti bara fínan leik. varði nokkrum sinnum vel, greip vel inní og virkaði betri með fótunum en oft áður. Gat ekkert gert í þessum mörkum.
  Moreno 5 – Það er kraftur í honum en of oft klaufalegur í varnarleik og staðsetningum.
  Matip/Lovren 6 – Ekki lélegir og ekki frábærir. Bara solid leikur hjá þessu miðvarðapari sem en báðir eru fyrir aftan Gomez í gogunarröðuinni en gaman að sjá þá báða heila.
  Clyne 8 – Mér fannst hann mjög góður. Flottur varnarlega , áræðin og vann boltan aftur og aftur. Ef Trent meiðis þá verður maður ekki stressaður en ef Robertson meiðist þá erum við í vandræðum.
  Millner 6 -var lélegur í fyrirhálfleik og tapaði boltan á hættulegum stöðum. Líktist sjálfum sér í þeim síðari.
  Fabinho 6 – var lélegur í fyrirhálfleik þar sem hann var of lengi á boltanum og náði ekki að loka svæðinu milli varnar og miðju. Allt annar leikmaður í þeim síðari þar sem hann var góður.
  Keita 7 – Mér fannst hann sprækur í þessum leik. Duglegur og hættulegur framávið.
  Shaqiri 8 – Flottur leikur hjá kappanum. Greinilega staðráðin að sanna sig og sinnti varnarskildu sem hann gerði nánast aldrei hjá Stoke og virkaði sem okkar hættulegasti maður.
  Sturridge 6 – Geðveikt mark en maður finnst hann stundum of latur þarna fremst þar sem hann er að bíða eftir þjónustu og getum við varla spilað hápressu með hann lengi. Hefði átt að skora fleiri mörk í kvöld. Léleg snerting í fyrirhálfleik og illa klárað 1 á 1 í síðarihálfleik skemmdu það.
  Mane 6 – var týndur en inn á milli sá maður gæðinn.

  Við sjáum allt annað lið á móti Chelsea á sunnudaginn. Millner og Mane líklega einu sem ég tel að munu byrja þann leik af þeim sem byrjuðu í dag. Við þurfum að spila betur varnarlega í þeim leik og nýta færinn betur og hef ég trú á því að menn munu selja sig dýrt í þeim leik.

  YNWA

 4. Tek þessu létt ef við vinnum þá á laugardaginn. En það sem þessi dómari hefur reynst okkur erfiður í gegnum síðustu tímabil. Fer þessi vanhæfi dómari ekki að hætta ? Hvernig notuðu þeir þetta VAR í þessu fyrra marki celski ?

 5. Hversu oft ætliði að segja fínt að detta úr þessari keppni!!
  Við höfum ekki unnið jack shit! í 12 ár liggur við nema þessa keppni sem við duttum út úr í dag. Vill fara vinna bikara. Orðinn þreyttur á bikarlausum árum ár eftir ár eftir ár!!

 6. Ég var búinn að gleyma hvernig er að tapa leikjum, það er hundleiðinlegt. Er það svona sem united mönnum líður?

  La la leikur, sumir ryðgaðir, sérstaklega í fyrri hálfleik.

  Stóra prófið er á laugardaginn, bæði lið verða sterkari þar.

  Flott mark hjá Hazard, og reyndar Sturridge líka

 7. Sæl og blessuð.

  Sorglegt hvað Moreno karlinn nær að klúðra málum fyrir okkur. Hann leit a.m.k. óþarflega illa út gegn Hazardinum. Listinn er líka nokkuð langur um mistök og þessi drengur ætti fyrir löngu að vera kominn á önnur mið eða í lán. Það væri betra að leyfa ungum fótum að sprikla en að vera að hafa hann þarna í burðarhlutverki.

  Fabinho á eftir að læra sína rullu. Hef slíkt álit á Klopparanum, það er alltaf einhver eðalkjarni í því sem hann sækist eftir. Það verður gaman að fá alvöru DM í liðið, en í þessum leik munaði nú um Gini auk fleiri lykilmanna, sem komu þá aðeins inn í blálokin.

  Það er í sjálfu sér ekki svo súrt að eyða ekki kröftum okkar frekar í þessa keppni. Tvennt er þó neikvætt: annað auðvitað að missa tækifæri á bikar og svo hitt að þarna fá færri tækifæri til að blómstra. Svona leikir hefðu getað hjálpað t.d. Fabinho fyrr inn í enska rytmann og Shaquiri hefði sannarlega getað þegið fleiri tækifæri til að blómstra á vellinum.

  Nú þarf að mæta til leiks á laugardaginn, grjótharðir.

 8. 50/50 leikur.
  Smá heppni og þetta hefði getað verið 3-1 fyrir okkur og Sturridge með þrennu.
  Hazard er hax.
  Næsta mál.

 9. 50/50 leikur.
  Smá heppni og þetta hefði getað verið 3-1 fyrir okkur og Sturridge með þrennu.
  Hazard er hax.
  Næsta mál.

 10. Það voru tveir menn à vellinum sem báru af í léleg heitum einn í rauðu og hinn svörtu eins og dómararnir hafa verið þokkalegir hingað til þá kom dómarahrollurinn aftur í kvöld sem var yfirvofandi allt síðasta tímabil, ekki ætla ég að þakka dómaranum tapið nei Mórinn okkar sà alveg um að láta Móses líta út eins og besta vængmann í heiminum. Maðurinn getur ekki verið í stöðu og ætlar sér alltaf að vera eitthvað númer í leikjunum ég bara þoli ekki að horfa á þennan gaur spila lengur hann er bara eitt orð lélegur í fótbolta.. Gæti alveg trúað því að hann geti eitthvað í t.d. Golfi og vona bara að hann fari að snúa sér að því eða einhverju öðru bara ekki fótbolta.

 11. Það er löng setning í miðri færslunni um einhvern sem er ekki nefndur. Ég var annars aðeins hræddur við þennan leik og það reyndist rétt, áfram gakk vinnum rest. Sá næsti sem skrifar ursla en ekki usla verður sleginn á rassinn.

 12. Þessi keppni er álíka stór og deildarbikarinn á Íslandi. (Gefur vissulega Evrópusæti hér en ekki það sæti sem við viljum). Þótt Klopp “þykist” vilja vinna þessa keppni þá spilaði hann varaliðinu sínu. Ástæða fyrir því. Áfram gakk, stórleikur á laugardaginn!

 13. nr 12, mér þessi setning gæti átt við bæði Fab og Keita en finnst líklegra að um Fabinho sé sá sem rætt er um. Annars þokkalegur leikur, Sturrigde með flott mark en mér finnst erfitt að sjá stungusendingar inn á framherja sem er orðinn það hægur að hann tekur ekki hlaupin á eftir boltanum, erfitt fyrir miðjumenn sem vanalega er með framherja fyrir framan sig sem hlaupa á eftir öllum boltum og ná þeim yfirleitt. Fyrsti tapleikurinn kominn og þá er það frá . Áfram með smjörið.

 14. Alltaf leiðinlegt að tapa en eg lít a Þetta þannig að fyrst við töpuðum i gær þa vinnum við a laugardag og verði það raunin mun eg stein gleyma þessum leik i gær.

  Eg skil engan veginn samt hvernig ekki var hægt að dæma rangstoðu i fyrra markinu hja chelsea , kannski se eg þetta vitlaust en mer fannst þetta rangstaða . Annars sturlað mark hja Hazard hann ma eiga það.

  En annars engin heimsendir og bara afram gakk og vip hefnum fyrir þetta a laugardaginn og þa verða allir glaðir aftur . Annars frabært að sja Sturridge i þessum gír, þessi maður hefur alltaf skorað mork þegat hann er heill ig verði hann afram heilll i allan vetur mun hann skora a bilinu 10 til 20 mork fyrir okkur fer bara eftir hversu mikið hann fær að spila . Shaqiri a lika eftir að nytast okkur ansi vel

 15. Pínu svekkjandi og óverðskuldað en gæti samt reynst “blessing in desguise” að detta út úr þessu snemma.

 16. Sælir félagar

  Það er alltaf ömurlegt að tapa leik en ef ég hefði átt að velja tapleik í einhverjum af fyrstu 10 – 15 leikjum Liverpool þá hefði ég valið nákvæmlega þennan leik. Svo að þrátt fyrir tapið er þetta skársta tapið sem hægt var að lenda í. Hvað einstaka leikmenn varðar þá var Moreno áberandi slakastur og það sáu fleiri og var enda ávalt ráðist á þann hluta varnarinnar þar sem hann var fyrir.

  En nú er ekkert nema halda áfram og þessi leikur er bara góð áminning um hvað gerist ef menn standa sig ekki. Grundvallar atriði er að stöðva Hazard grasmaðk. Ég hefi lengi kallað hann grasmaðk því hann veltist í grasinu fyrir framan vítateig andstæðinganna sinn eftir sinn og fær endalausar aukaspyrnur. En ef hann vill þá stendur hann allt af sér og engin leið að stoppa dýrið. Ég treysti byrjunarliðsvörn Liverpool til að taka á því máli af festu.

  Það er nú þannig

  YNWA

 17. Ég skrifa eingöngu þegar Sturridge frændi minn skorar svo nú verð ég að taka þátt í örðrum hverjum þræði hérna. Þrjú mörk í húsi, fjórtán á leiðinni!!

 18. Í næsta leik myndi ég vilja sjá miðjun Keita, Wijnaldum, Milner ? Einhver sammála ?

 19. mér er reyndar drullu sama hvernig þessi leikur í gær fór ef við klárum þetta London pakk á laugardaginn

  YNWA

 20. Það hefði verið betra að fá veikara lið en Chelsea í þessari umferð. Þetta vara-lið þarf smá samæfingu og því hefði hentað betur að fá Chelsea seinna í þessari keppni. En svo fór sem fór.

  Trúið mér: Kevin Friend fær ekkert jólakort frá mér.

Liðið gegn Chelsea – Fabinho byrjar!

Nýtt útlit á síðunni