Meistaradeildin hefst aftur á morgun!

Annað kvöld hefur Liverpool aftur leik í Meistaradeild Evrópu og það byrjar á stórleik þegar frönsku meistararnir í Paris Saint-Germain mæta á Anfield.

Við fengum nú marga ansi skemmtilega leiki í Meistaradeildina í fyrra og, þó það kann að hljóma litað komandi frá stuðningsmanni Liverpool, gáfum þessari keppni heldur betur upplyftingu. Rokk og ról fótbolti, markaleikir og flest mörk skoruð í keppninni en því miður tókst okkur ekki að klára þann leik keppninnar sem skipti öllu máli.

Það er kannski pínu erfitt að meta hvað við eigum í vændum annað kvöld hvað varðar skemmtun og stemmingu þar sem þetta er bara fyrsti leikurinn í riðlinum og kannski ekki orðinn “must win” leikur fyrir hvorugt lið þó svo að bæði vilji auðvitað vinna og auka líkur sínar á toppsæti riðilsins.

Lið PSG er stjörnum prýtt og þeir eru eitt fárra liða í Evrópu sem geta boðið upp á fremstu víglínu sem er eins fljót, óútreiknanleg og góð og sú sem Liverpool hefur. Þeir Neymar, Edison Cavani og Kylian Mbappe eru stór hættulegir og geta klárað leiki upp á eigin spýtur á einu augnabliki. Það er því klárt mál að varnarmenn Liverpool munu eiga erfiðara kvöld framundan en þeir hafa átt það sem af er liðið leiktíðar. Það má svo auðvitað nefna aðra frábæra leikmenn eins og Rabiot, Veratti, Dani Alves, Angel Di Maria, Julian Draxler og fleiri öfluga leikmenn.

Líklegt byrjunarlið PSG er talið vera eitthvað á þessa leið:

Areola

Meunier – Kimpembe – T.Silva – Bernat

Di Maria – Marquinhos – Rabiot

Mbappe – Cavani – Neymar

Neymar var hvíldur í síðasta leik og Mbappe tók út leikbann. Veratti og Buffon eru báðir í banni fyrir leikinn og þeir Kurzawa og Alves eru meiddir. PSG, líkt og Liverpool, hefur unnið alla fimm deildarleiki sína á leiktíðinni og koma því inn í leikinn í þokkalegu formi – þó ég verð nú að segja að þessi byrjun þeirra er nú ekkert rosalega marktæk og þeir hafa átt ansi þægilega byrjun í deildinni.

Það eru mikil gæði í þessu PSG liði og það fullt af leikmönnum sem hafa reynslu af því að vinna fótbolta leiki. Þetta lið er fullt af leikmönnum sem hafa orðið Evrópumeistarar (landslið og félagslið), Heimsmeistarar, deildarmeistarar og þar eftir götunum. Þeir eru með öfluga varnarmenn en hafa átt það til að geta skilið eftir pláss bakvið sig og gleymt sér í sóknarleiknum en sóknin er klárlega þeirra helsti styrkleiki.

Af Liverpool er það að frétta að liðið er með fullt hús stiga eftir fimm fyrstu umferðir deildarinnar og eru því miður sem stendur í öðru sæti á markatölu gegn Chelsea. Liðið skorað ellefu mörk og fengið á sig tvö í þessum fimm leikjum og bara almennt á góðu róli þó manni finnst nú enn vanta slatta upp á að liðið detti almennilega í gírinn og hver veit hvað stórleikur í Meistaradeild á Anfield gæti gert fyrir framhaldið!

Helsta áhyggjuefni Liverpool fyrir leikinn – og í raun eina alvöru áhyggjuefnið – er að Roberto Firmino er tæpur fyrir leikinn vegna meiðsla á auga sem hann hlaut þegar hann fékk fingur Jan Vertonghen á bólakaf í augað á sér. Það er sem betur fer engin langtíma meiðsli sem hann hlaut af þessu en er víst tæpur fyrir leikinn og Klopp segist ekki vera alveg viss en ég reikna nú með að hann viti alveg hvort hann sé af eða á – allavega hvað byrjunarlið varðar. Firmino var að minnsta kosti ekki með á æfingu seinni partinn í dag og kannski frekar ólíklegt að hann muni byrja leikinn.

Væri Firmino með þá væri þetta ekkert mál og liðið kæmi eflaust til með að velja sig að mestu sjálft. Vörnin yrði óbreytt frá síðustu leikjum og eflaust yrði þrír af þeim Henderson, Gini, Milner og Keita á miðjunni og framlínan nokkuð sjálfvalin. Þar sem ég held það gæti talist nokkuð líklegt að hann verði ekki með þá verður afar fróðlegt að sjá hvað Klopp gerir.

a) Hann gæti sett næsta framherja inn í liðið sem er Daniel Sturridge. Hann átti mjög flott sumar og hefur virkað sprækari en oft áður og held að þetta yrði líklegasti kosturinn ef við værum að tala um næsta deildarleik við Southampton og Liverpool líklegt til að vera við fulla stjórn í leiknum, meira með boltann og liggja á andstæðingnum. Hins vegar þá er þetta erfiður leikur gegn sókndjörfu liði og guð má vita hvernig þessi leikur kemur til með að spilast, því finnst mér líklegt að Sturridge byrji ekki þennan leik.

b) Naby Keita gæti fært sig af miðjunni og orðið meiri “sóknarmaður” og þeir Gini, Milner og Hendo væru þá á miðjunni. Klopp hefur talað um eiginleika hans til að geta spilað vel í mörgum hlutverkum og jafnvel í sóknarhlutverkum og hingað til höfum við séð hann spila mínútur á vinstri kantinum og í smá stund frammi gegn Tottenham. Það gæti því vel verið að Klopp ákveði að nota hann eitthvað framar ef hann vill fá aukna pressu og varnarburði fram í hugsanlegri fjarveru Firmino. Þá má einnig nefna að þeir Divock Origi og Dominic Solanke eru báðir tæpir eftir leik með u23 á dögunum.

c) Þetta er eflaust líklegasti kosturinn að mínu mati en ég myndi reikna með að Shaqiri kæmi inn í liðið fyrir þennan leik ef Firmino er fjarverandi og annað hvort spila sem nokkurs konar fölsk nía líkt og hann gerði stundum í sumar eða koma inn á hægri vænginn og Salah myndi færa sig í níuna.

Alisson

TAA – Gomez – Van Dijk – Robertson

Wijnaldum – Henderson – Milner

Salah – Shaqiri – Mané

Ég ætla bara að skella þessu liði upp ef Firmino er meiddur. Shaqiri kemur þá eflaust inn í nokkurs konar frjálsa rullu þarna á miðsvæðinu við ýtum Salah kannski aðeins framar en vanalega líka. Ef Shaqiri kemur inn sem nokkurs konar jóker sem er ekki kominn 100% inn í takt liðsins þá finnst mér pínu líklegt að Klopp stilli upp þriggja manna miðju sem þekkja allir vel hvorn annan og setji því kannski Keita á bekkinn og komi Henderson inn. Kannski gæti hann haldið Keita inn á miðjunni til að spila fyrir framan Wijnaldum sem hefur verið frábær í stöðu djúps miðjumanns lengi vel núna.

Vörn Liverpool hefur verið frábær það sem af er leiktíðar og þeir Gomez og Van Dijk verið gífurlega öflugir í hjarta hennar. Alisson verið mjög sannfærandi og flottur fyrir aftan hana og liðið bara að fúnkera almennt nokkuð vel. Það eina sem vantar þessa dagana er að fá aftur ögn meira “finishing touch” fram á við en manni finnst vanta aðeins upp á hjá þessum þremur fremstu – sem er hálf klikkað þar sem þeir Salah og Firmino eru báðir með tvö mörk og tvær stoðsendingar og Mane fjögur mörk í þessum fimm leikjum. Við bara vitum að þeir geta gert enn meira en þetta og hafa svo sannarlega fengið tækifærin til. Ef vörnin heldur áfram að vera svona sterk, miðjan verður áfram svona öflug og þeir fara að taka fleiri af þessum færum sem þeir fá þá má búast við því að liðið verði bara ansi, ansi öflugt í vetur.

Það er snilld að Meistaradeildin sé að hefjast aftur og vonandi fáum við aðra keppni eins og í fyrra en bara með hamingjusömum endi. PSG verður fyrsta áskorunin þetta árið og nú er veturinn kominn í full swing og hver áhugaverði leikurinn á fætur öðrum mun fara fram. Byrjum á morgun og klárum feykilega sterkt lið PSG!

19 Comments

 1. Ef það er eitthvað annað lið með svipað sturlaða framlínu eins og Liverpool þá er það klárlega PSG er í senn spenntur og smeykur að mæta PSG en hef fulla trú á okkar mönnum í þessa viðureign !

 2. Ef Firmino getur ekki verið með þá VERÐUR Shaq að fá að byrja.

  Shaq Shaq Shaq-Attack!!

 3. Ég er hallast frekar að því að Sturridge fái sjénsinn ef Firmino spilar ekki.

  Shaqiri kemur frekar inn fyrir Salah eða Mané.

 4. Vekur upp áhugaverða spurningu: hvaða leikmann LFC er verst að missa m.t.t. að halda stíl liðsins og taktík gangandi?
  a) Alisson
  b) Firmino
  c) Milner
  d)Van Dijk
  e) Salah

  Held að Bobby sé hugsanlega mest ómissandi.

 5. # 5

  Van Dijk er líka ómissandi.

  Ímyndaðu þér hann meiddan og Lovren (eða god forbid, Matip) inn í staðinn…

 6. Ég mundi halda að Alisson væri mikilvægastur í svona leik.

  Annars er ég drulluspenntur að leikinn, vonandi hefur þessi leikur gegn Spurs í gær sömu áhrif og tapið gegn þeim í fyrrahaust!

  3-2

 7. Væri mikið til í að sjá Shaqiri byrja ef Firmino er ekki leikfær. Ég vil hafa Keita fyrir inni þrátt fyrir það að Shaqiri væri í liðinu þar sem mér finnst hann hafa verið almennt öflugur á tímabilinu. Hafandi sagt það þá er þetta erfiður leikur og það má vera að það sé betra að hafa fyrirliðann á vellinum til að tækla þetta stjörnulið sem PSG er.
  Ég er mjög spenntur fyrir þessum leik, spái 1-1 jafntefli, Gini Van Dijk með markið eftir horn.

 8. Vil sja thetta svona:

  Allison
  TAA-Gomez-VVD-Robertson
  Milner-Hendo-Keita
  Shaq-Salah-Mane

  Mer finnst breiddin mest a midju og sokn hja LFC, og thvi vaeri verst ad missa einhvern ur vorninni eda Alisson i meidsli. Thessir gaejar thurfa ad haldast heilir a naestu vikum og keyra sig i gegnum thett program.

 9. Ef búið er að gefa það út að Firminio sé ok þá eðlilega byrjar hann. Út af fyrir sig hef ég engar áhyggjur af þessum leik, PSG er BARA lið í Frakklandi, sem er að spila á allt öðrum level en við, enda er franska deildin ekkert í líkingu við þá ensku.
  Spái 3-0.

  YNWA

 10. Van Dijk yrði alltaf langverst að missa út úr þessu liði enda fullyrði ég það að hann er langbesti miðvorðurinn á Englandi í dag og líklega þótt miklu víðar væri leitað, ég gersamlega elska þennan dreng. Ef Firmino spilar svo ekki er eg jafn spenntur að sjá Shaqiri eða Sturridge og rétt vona að annar þeirra komi inn en ekki að Klopp setji Keita þarna fremst eða eitthvað álíka.

  Þetta verður allavega Geggjaður leikur sem gæti þess vegna endað 5-4 enda líklega tvær af 3 eða 4 bestu soknarlinum heims að mætast. Annars er unun þessa dagana að sjá varnarleik okkar manna og ef vörnin ætlar að spila í vetur eins og hún hefur verið að gera verður ekkert grín fyrir önnur lið að eiga við okkar menn því sóknarmenn okkar munu alltaf skora mörk og eiga ennþa allir helling inni og ég hef engar áhyggjur af þeim ennþá því þeir eru allir að koma sér í færi og bara timaspursmal hvenær þeir fara að raða inn mörkunum eins og í fyrra. SALAH td er að byrja þetta season eins og það síðasta En þa byrjaði hann líka á að misnota mikið af færum en það fer að detta hjá honum og hann gerir tvö í kvöld.

  Held við vinnum í kvöld 3-1 . Salah gerir 2 í kvöld og Mane eitt en Mbabbe sem ég óttast mun meira en Neymar gerir mark sinna manna.

 11. Sælir félagar

  Ég læt hverjum degi nægja sína þjáningu í uppstillingu liðsins og ef svo illa vill til að Firmino getur ekki byrjað vil ég fá Sturridge inn. Það verður hans tækifæri til að stimpla sig aftur inn í hið frábæra lið Klopps og verða hluti af mögulegu byrjunarliði i hvaða leik sem er. Liverpool ætti alltaf að vinna þennan leik og ég spái 3 – 1 í afar skemmtilegum leik. Svo verður gaman að sjá T’ham spila við Milan kl. 17:00 í dag. Það verður ákveðinn samanburður á ensku liði og meginlandsliði.

  Það er nú þannig

  YNWA

 12. Sæl og blessuð.

  Ég er ekki mjög bjartsýnn fyrir kvöldið. Hef ekki góða tilfinningu fyrir þessum leik. Þessi framlína er í allt öðrum gæðaflokki en þær sem við höfum mætt það sem af er hausti. Tottenham átti að vera öflugasta liðið af þessum andstæðingum okkar en ég held nú alveg vatni yfir honum framlínu þeirra í leiknum, endalausar háar sendingar sem VvD átti í litlum vandræðum með og Gomez-inn tók þá ítrekað í 10 metra sprettunum.

  Nú fáum við Mbappe, Neymar og Cavani – það er allt annar gæðaflokkur en þessir lullandi hvítliðar geta boðið upp á. Ægileg gæði í parísarliðinu og þrátt fyrir yfirburði í síðustu leikjum höfum við líka sýnt marga veikleika í gagnverki okkar.

  Verð sáttur við jafntefli en óttast tap. Hefði líka viljað fara að sjá nýliðana fá að spreyta sig í kvöld. Shaquiri og Fabinho hljóta að vera farnir að missa svefn yfir þessari bekkjarsetu…

 13. #13, slappaðu af. Þessir svokölluðu snillingar á móti okkar snillingum, PSG eru með eina pempíu sem heitir Neymar, bara spurning hvenar hann fær bágt fyrir sýndarmensku. Það er súlu klárt, þetta lið á ekki breik í okkur, no matter what.

  YNWA

 14. Það er einfaldlega þannig að það er engin innistæða til fyrir einhverri neikvæðni eða dómsdagsspám fyrir þessum leik. Klopp og LFC hafa átt algerlega grillaðar frammistöður á Anfield evrópukvöldum og allar líkur á að í kvöld verði annað eins á boðstólnum. Framlína PSG er ógnvænleg en það er framlína LFC líka. Við erum alltaf að fara að skora eitthvað í kvöld og bara spurning hvernig okkur gengur að temja hraðan í Mbappe að mínu mati. VVD fékk ágætis demo í landsleiknum um daginn og það gekk ágætlega.

  Ég ætla að spá epísku evrópukvöldi þar sem Kylian Mbappe byrjar að velta fyrir sér hversu geggjað væri að spila reglulega á þessum velli fyrir framan þessa áhangendur…

 15. Pælum í því, þetta er akkúrat liðið sem við viljum. Framsækið, sem gefur okkur tækifæri á skyndisóknum, mjög snöggum sem þeir einfaldlega ráða ekkert við. Verður frábært kvöld.

  YNWA

 16. Þetta verður einfaldlega Geggjaður leikur, eins og krisstinnej nr 15 segir þá fékk ég Gæsahuð þegar ég las kommentið hans þar sem hann minnti mig á öll geggjuðu evropukvoldin sem við höfum átt á anfield. Ég spáð í hérna fyrr í dag 3-1 en ætla breyta í 5-1, við erum að fara slatra þeim er það ekki bara 🙂

 17. Spennandi leikur. Auðvitað er þetta stóra sviðið og engir bjálfar í riðlakeppninni. Ef Liverpool á eðlilegan leik þá á þetta að vera amk 2-0 sigur á heimavelli. Ef aftur á móti kæruleysið nær einhverjum tökum á okkar mönnum verður þetta erfiðara. Gleymum því ekki að PSG fær sáralítið samkeppni heima fyrir og getur því hvílt leikmenn fyrir stærstu leikina í CL. Veit ekki hvort það kemur þeim til góða núna en etv.

 18. Þessi lið munu bjóða uppá frábæra skemmtun og nokkur mörk. Ef annað liðið leggur rútunni, þá er heimurinn að farast á morgun.
  Það verða mörg færin á báða bóga og bara spurning hvoru megin vörnin stendur sig betur.
  Ég trúi!!!
  YNWA

Kvennaliðið leikur í Continental Cup

Byrjunarliðið gegn París SG