Upphitun: Leicester á útivelli

 

Fræknasta fótboltafélag í fornri sögu allra félagsliða leggur sína fullkomnu byrjun tímabilsins 2018-19 að veði gegn foxillum fjendum. Upp er runninn tími undursamlegrar upphitunar og yfirgengilegrar ofstuðlunar!

Nú er tími til að vera upphitaður!

Mótherjinn

Claude Puel hefur hárfína taktík

Leicester hafa byrjað tímabilið sérlega sterkt þrátt fyrir ósanngjarnt tap í fyrsta leik á Old Trafford. Þeir létu slíkt ekki slá sig út af laginu og hafa síðan unnið þrjá leiki í röð í deild og deildarbikar. Erfiðir leikir gegn öflugum Úlfum og gömlu Dýrðlingsdömunni hans Puel hafa ekki reynst vandamál með tveimur deildarsigrum. Eldarnir sem virtust loga í kringum stöðu stjórans hafa verið slökktir að sinni en eldhættan er enn til staðar. Það var þó pláss fyrir Danny Ward í  markinu í deildarbikarleik gegn Fleetwood Town í vikunni og Walesverjinn okkar hélt að sjálfsögðu hreinu í 4-0 sigri.

Það er því ljóst að Leicester munu mæta léttleikandi til leiks með gott sjálfstraust og góða stemmningu í sínu farteski í bardagann við okkar menn á sínum heimavelli. Vissulega mun vanta í þeirra vopnabúr varúlfinn Vardy sem hefur löngum valdið okkar vörnum verulegum vandræðum. Sultuslaka séntilmanninum frá Sheffield tókst að snara sér rautt spjald gegn Úlfunum sem gaf okkur grið gegn hans hraða og beinskeytni.

Í mætingarkladdann af þeim sem vantar má til viðbótar telja að einn þeirra besti maður frá meistaratímabilinu magnaða, Riyad Mahrez, er horfinn á vit olíulindanna í Manchester og verður því vart til stórræða í þessum leik. Sóknarleikurinn verður því ekki helsta ógn Refanna heldur verður það vel vandaður varnarleikur sem Puel hefur verið að þróa á Englandseyjum og meginlandinu síðustu árin.

Lið undir Puel fá ekki mikið af mörkum á sig og því verður hans upplegg fyrir þennan leik sérlega áhugavert. Það mun gefa tóninn fyrir skemmtanagildið og skortöluna. Refliðar munu væntanlega leggja traust sitt á hafsentinn Prince Harry Maguire sem stóð sig framar öllum vonum á HM í Rússlandi og var lengi vonbiðill vina vors og blóma á Eldri Tröðum. Von Leicester er að halda Liverpool í mesta lagi í einu marki og ná að kreista fram ögn meira af eigin ágæti á heimavelli.

Forspáin á form fjendanna er þessi:

Líklegt byrjunarlið Leicester í leikkerfinu 4-2-3-1

Liverpool

Fullkomin. Næstum því algjörlega fullkomin.  Varla er hægt að tala um byrjun Liverpool á leiktíðinni sem annað en fullkomna. Vissulega hefðu 1-2 mörk mátt þenja markmöskvana en heilt yfir þá er þetta eins tröllatraust byrjun og hægt er að hugsa sér. Með metupphæðarmarkvörð að massa galdrabrögð með Merlin-boltann og skartandi skörulegasta skeggi í sögu Anfield þá er margt til að gleðjast yfir. Milner er að þamba yngingarlyfið eins og það sé Ribena, Mané er markamanískur, Van Dijk er voldugri en djöfullinn og allir í liðinu að vinna að sameiginlegu markmiði.

Liverpool er á frábærum stað í dag, innanvallar sem utan, og því ber að fagna. Sjaldan í seinni tíð höfum við Púlarar verið í rónni yfir næstu helgi eða framtíðinni almennt. Andið því rólega og njótið. Þetta er ekkert alltaf svona.

Alisson gerir galdra með Merlin

En á morgun er fótboltaleikur sem þarf að spila og þar eru 3 stig í boði í keppni um að vera bestir meðal jafningja innanlands á Englandseyjum. Við höfum ekki náð þeim árangri í óratíð og því þarf að halda einbeitingu. Coach Klopp gaf ýmislegt í skyn varðandi breytingar í lok síðasta leiks eftir að hafa haldið nákvæmlega sama byrjunarliði í fyrstu þremur lakhreinu sigurleikjum tímabilsins. Hann sá eflaust það sama og margir okkar sáu í síðasta leik þar sem vissan neista vantaði til að kveikja það sóknarbál sem oft hefur skaðbrennt andstæðinga okkar. Það mætti því alveg búast við gagngerum breytingum á uppstillingu ef lesa mætti í orð meistarans.

Þrátt fyrir þær vangaveltur þá tel ég að Klopp verði íhaldsamur og geri smávægilegar breytingar á erfiðum útivelli. Að mínu mati mun hann þétta miðjuna með því að setja fyrirliðann Henderson aftur þar inn og þá á kostnað Keita sem verður til í tuskið ef til þarf í sóknarinnspýtingu af bekknum. Hugsanlega gæti Clyne komið í hægri bakvörðinn eða jafnvel Shaqiri fyrir Firmino, en heilt yfir þá er þetta ekki rétti leikurinn í róteringar eftir góða sigurleikjahrinu. Ástand leikmanna verður skoðað og endurmetið eftir þetta lauflétta landsleikjahlé sem allir fótboltaáhugamenn hafa með tímanum lært að þrá og elska.

Mínar spaklegu spjarir spá fyrir um þetta spyrnuvæna byrjunarlið:

Líklegt byrjunarlið Liverpool í leikkerfinu 4-3-3

Spakra manna spádómur

Líkt og gegn Crystal Palace um daginn þá verður þetta þungur róður á erfiðum útivelli, þó að rétt niðurstaða ætti að blessa okkur ef að rétt er á spilunum haldið. Það gæti vel gerst að við myndum leka fyrsta marki tímabilsins en ég ætlast til þess að okkar menn muni alltaf setja nógu mörg mörk til að vinna leikinn. Ég hallast að því að þetta verði blóðugur 0-2 útisigur okkar manna og markaskorarar verði Mané og Salah.

YNWA

18 Comments

  1. Leisester virðist vera með nokkuð gott lið, en það getur ekki verið annað en blóðtaka að missa Mahres og hafa Vardy í banni. En þvílíkur september sem er framundan svo maður horfi ekki lengra en það. Hugsa að þessi leikur spilist ekkert ólíkt CP leiknum að því leiti að um leið og við setjum mark, þá sjá þeir sig knúna að fara framar þar sem setjum seinna markið, 0-2 verði niðurstaðan.

    YNWA

  2. Sama þó að mörg mörk yrðu ekki skoruð en ef okkar mönnum tækist að halda hreinu þá yrði það frábært.

  3. „Vissulega mun vanta í þeirra vopnabúr varúlfinn Vardy sem hefur löngum valdið okkar vörnum verulegum vandræðum.“ Ein allra besta setning sem ég hef lesið í upphitun hér.
    Þessi leikur vinnst með þrem mörkum.

  4. Flottur pistill.

    Skáld er fætt. Rithöfundurinn og skáldið: Magnús Þórarinsson. Þar sem alltaf er erfitt að gefa 10 þá gef ég 9. Einkum vegna þess að rithöfundurinn og skáldið leyfir sér að sletta: Coach Klopp. 🙂

  5. Ég get nú ekki tekið undir það að byrjun tímabilsins hjá Liverpool hafi verið fullkominn, ekki einu sinni á nánd við það og veit til þess að Klopp tekur í sama streng. Varnarleikurinn hefur verið góður og gæði sóknarleiksins nægjanleg til þess að tryggja liðinu sigur í öllum leikjum.

    Mér finnst einmitt jákvæðu fréttirnar við gengi liðsins er hvað liðið á mikið inni og er svo víðsfjarri að spila sinn besta leik. Liðið spilaði miklu betur í fyrra þegar það var komið á almennilegt skrið.

  6. Er bara drullu hræddur við þennan leik og óttast að við misstum stig, held allavega að við fáum á okkur mark en vinnum þetta 1-2 hörku leik þar sem Salah skorar og svo mætir Firmino úr sumarfríi á morgun og bæði leggur upp og skorar 🙂

  7. Upphitunin hjá Magnúsi magnaða fær A fyrir Amazing. Framúrskarandi færsla á ferðinni.

    Ég er nokkuð viss um að við fáum fyrsta markið á okkur í þessum leik. 1-3 takk fyrir þægilega.

  8. Frábær lesning.
    Vonandi verður leikurinn jafn skemmtilegur.

    0-2 Salah og Firmino.

  9. Frábær upphitun.

    Held að Leicester án varúlfsins Vardy verði bitlaust fram á við og við höldum hreinu. Spái þessu 4-0 og við leikum á alls oddi.

  10. Stórbrotið innlegg meistari Beardsley, þessi upphitun er í miklum háklassa, simple as that. Taumlaus skemmtun. Hafðu mikla þökk fyrir.

  11. Brynjar #5: ég held að Maggi Beardsley hafi verið að horfa á árangurinn frekar en spilamennskuna með orðunum”Fullkomin byrjun”. Ég held að við getum öll verið sammála um að spilamennskan hafi alls ekki verið fullkomin, og eins og þú bendir réttilega á er afar gaman að vita til þess að liðið á talsvert meira inni.

  12. Takk fyrir góða upphitun. Held þó persónulega að það væri gaman að rótera dálítið með liðið. Við erum með frábæra leikmenn sem eru hungraðir og það er löng vertíð framundan. Liverpool á ekki að hræðast neitt núna og stilla upp liði og spila sinn bolta og láta síðan önnur lið hafa áhuggjurnar af því hvað lið kemur hverju sinni. Ég væri til í sömu vörn, Keita og Wijnaldum á miðju, kantar Mane og Salah og frammi Sturridge ( nota hann á meðann hann er heill ) og í holuna fyrir aftan hann okkar besta mann Firminio. Fyrstu gráðu sóknarbolti.

  13. verður erfitt.. hugsa að við vinnum þetta 2:1 keita og van djik með mörkin.

  14. Kilroy… Kapteinn Klopp væri samt líka mjög skemmtilegt og myndi minna á Tinnabækurnar okkar góðu og Kolbein kaptein. Svo er kapítan. Klopp kapítan. Hljómar samt smá eins og 9unda sæti og smá mistök í markaðsdeild.

    Og þar með: Klopp.

    Klopp er líklega best af þessu því það orð segir allt um það sem fegurðardýrkendur í fótboltaheimi þurfa að vita og kunna.

    Klopp.

    Ekki orð um það meir.

    Góðar stundir.

  15. Sælir félagar. Nú er ég staddur á Torreveja og ætla að leita til ykkar af ábendingum hvar er hægt að horfa á leikinn á morgun. Einhverjir með reynslu af því?

  16. Sælir félagar

    Vi’ höldum hreinu í þessum leik fyrst Vardy verður í banni. 0 – 3 er mín spá og ekkert fær stöðvað tímans þunga nið.

    Það er nú þannig

    YNWA

  17. 1-2. Gomez skorar sigurmarkið með skalla eftir hornspyrnu eftir að Leicester ná að jafna.
    Leiðinlegt að Alisson verði ekki með hreint blað en sigurinn er mikilvægari.

Meistaradeild – PSG, Napoli og Rauða Stjarnan

Evrópuglugginn lokast