Fullt hús stiga

Það þarf ekki að útskýra fyrir okkur að stöðutaflan eftir þrjár umferðir segir ekki margt. Góð byrjun á tímabilinu er hinsvegar mjög mikilvæg og eitthvað sem við megum sannarlega fagna á meðan er enda hefur Liverpool jafnan byrjað illa undanfarin ár og verið í eltingaleik strax frá byrjun.

Fyrir mér er ennþá of snemmt að dæma um það hvort þetta sé góð byrjun á mótinu eða ekki enda aðeins búið að spila tæplega 8% leikjanna. Línur byrja meira að skýrast eftir svona tíu umferðir þó hvert stig skipti máli í svona harðri toppbaráttu.

Þegar Liverpool tapaði fyrir Tottenham í 9.umferð á síðasta tímabili var liðið búið að vinna jafnmarga leiki og liðið hefur gert núna í fyrstu þremur umferðunum. Ef þetta verður aftur raunin núna er Liverpool ekki að fara vinna neinn leik í næstu sex umferðum. Liverpool vann leikinn í 10.umferð og var með fjóra sigra og fjögur jafntefli í fyrstu tíum umferðunum og tvö mjög slæm töp í sex stiga leikjum gegn Tottenham og Man City. Vond byrjun en alls ekki sú versta undanfarin ár.

City átti auðvitað rosalegt tímabil en var þarna strax komið með tólf stiga forskot. Man Utd náði þarna forskoti einnig sem dugði þeim út tímabilið, rétt eins og Tottenham. Liverpool náði stigi meira en United síðustu 30 umferðir mótsins þrátt fyrir að fókusinn væri að mestu á Meistaradeildina eftir áramót. Tottenham var með tveimur stigum meira en Liverpool í maí. Auðvitað átti helling eftir að gerast en við sjáum þarna hversu mikilvæg öll stigin eru í þessari toppbaráttu.

Markatala Liverpool eftir þessar 10 umferðir var bara +1 mark þökk sé þessum hræðilegum tapleikjum. En að fá á sig 16 mörk í 10 leikjum er eitthvað sem maður sér núverandi lið ekki gera í næstu leikjum (1,6 mörk að meðaltali í leik yfir heilt tímabil væri 60,8 mörk!)

2016/17

Liverpool hefur alveg byrjað vel áður undir stjórn Jurgen Klopp og líklega gleymist aðeins að liðið var alveg með í baráttunni fram að áramótum 2016 er leikjaálag fór að taka sinn toll á allt of tæpan hóp Liverpool.

 Vonandi verður byrjun Liverpool núna eitthvað líkari þessari byrjun liðsins haustið 2016. Sjö sigrar og aðeins einn tapleikur þrátt fyrir að liðið fengi á sig 13 mörk sem er hræðilega mikið (1,3 mörk í leik yfir heilt tímabil væri 49,4 mörk).

Chelsea vann næstu níu leiki í röð en var aðeins með sex stiga forystu á Liverpool þegar tímabilið var hálfnað. Janúar og febrúar kláruðu mótið fyrir Liverpool sem gerði á endanum ágætlega að tryggja sér sæti í Meistaradeildinni á ný. Tilfinningin með núverandi hóp er að hann gæti lifað leikjaálag mun betur af en hópurinn gerði í byrjun árs 2017.

Síðustu tímabil sýna okkur einnig hversu rándýrt það er að byrja mótið núna án þess að fá á sig mark. Haldi vörn Liverpool strax frá byrjun eins og hún gerðir eftir áramót á síðasta tímabili stökkbreytir það stigasöfnun heilt yfir mótið. Engin af Alisson, Robertson, Van Dijk, Gomez eða Trent byrjaði mótið í fyrra sem lykilmaður í þeirri stöðu sem þeir eru að spila núna. (Gomez byrjaði en var bakvörður). Þetta er alveg ný varnarlína og til að toppa hana var keyptur varnartengiliður sem kemur inn þegar líður á mótið.

2015/16

Byrjun Liverpool í fyrra var aðeins tveimur stigum betri en byrjun Liverpool var haustið 2015 en Brendan Rodgers var rekinn í kjölfarið á þessum fyrstu tíu umferðum. Auðvitað bjó meira að baki þeim brottrekstri en tímabilið var strax frá byrjun orðið brekka.

Þetta tímabil vannst á færri stigum en gengur og gerist vanalega á Englandi og var hægt að sjá vísbendingu um það strax eftir 10 leiki. Það spáði reyndar ekki nokkur maður að Leicester myndi stinga af í baráttu við Tottenham og Arsenal en það er önnur saga. Liverpool var þarna með jafn marga sigra eftir 10 umferðir og liðið er með núna eftir þrjár umferðir.

2014/15

Tímabilið á undan var reyndar litlu skárra hjá Rodgers. Þessi byrjun var vægast sagt vonbrigði eftir atlögu að titlinum árið áður.

Enn eitt tímabilið undanfarin ár þar sem Liverpool var ekki einu sinni búið að vinna helminginn af fyrstu tíu leikjunum. Þarna var liðið líka búið að fá á sig 13 mörk eða 1,3 að meðaltali í leik en vörnin var ca. það léleg út mótið.

2013/14

Atlagan að titilinum 2013/14 byrjaði ekki með neinni flugeldasýningu heldur en var töluvert betri byrjun en flest undanfarin ár fyrir því. Tvö stig að meðaltali af þremur er jafnan lágmarkið til að ná Meistaradeildarsæti og því ættum við að horfa á 20 stig eftir tíu umferðir sem lágmark.

Það er hægt að túlka þetta á ýmsa vegu og auðvitað er ekkert algilt í þessu. Það að skoða þetta eftir tíu umferðir er jafn random og hver önnur umferð þannig séð. Fyrir það fyrsta sjáum við á þessum samanburði að það gefur ekkert endilega vísbendingar fyrir allt tímabilið þó lið vinni fyrstu þrjá leikina. Hinsvegar er ánægjulegt að Liverpool er nú þegar komið nálægt þeim fjölda sigra sem liðið hefur verið að ná undanfarin ár í þessum fyrstu umferðum.

Þetta gengur mjög vel ofan í þá tilfinningu okkar flestra að þetta lið sé töluvert betra en þau Liverpool lið sem verið er að skoða hérna. Hópurinn virkar einnig töluvert stærri og betri.

Stærsta og mikilvægasta breytan er svo auðvitað stjórinn en Jurgen Klopp var að toppa á þriðja og fjórða tímabili hjá bæði Mainz og Dortmund og virðist sannarlega ennþá vera á uppleið með lið Liverpool. Hann virkar fullkomlega andstaðan við t.d. stjóra United sem virðist hafa þriggja ára endingartíma og verður mjög súr er sá tími er liðin. Að þessi ferli virðist vera hitta á sama tíma er ljómandi hressandi mál.

Hvað er í gangi hjá United?

Manchester United var með góða stigasöfnun síðasta vetur og endaði í öðru sæti með 81 stig sem er jafnmikið og dugði Leicester til að vinna deildina 2016. Eftir sjö umferðir voru þeir jafnir Man City á toppnum með 19 stig og markatöluna 21-2. Þetta var sama varnarlína og er sögð fullkomlega óstarfhæf núna nema hvað Luke Shaw hefur unnið sér sæti í liðinu og virðist vera ná sínum ferli aftur af stað. Megnið af þessari varnarlínu vann Europa League árið áður.

Þessi vitavonlausa varnarlína United með besta markmann í heimi og varnarsinnaðasta elíu þjálfarann í bransanum fékk á sig 28 mörk á síðasta tímabili sem er jafn mikið og Liverpool var búið að leka inn um miðjan janúar sl. Þetta er minna fengið á sig af mörkum en Liverpool hefur náð síðan Benitez fór.

Fyrir mér er ennþá allt of snemmt að afskrifa United í vetur, þeir eru með hóp sem hreinlega bara á að gera betur. Þetta er eitt dýrasta lið sögunnar og að mínu mati bara alls ekki jafn lélegt og af er látið. Fremstur í flokki við að tala niður væntingar til liðsins hefur er stjórinn og það sem langmest hefur veikt United liðið undanfarna 12 mánuði er einmitt Mourinho og þjálfunaraðferðir hans. Það að hann sé sá sem væli mest yfir að fá ekki meiri pening í leikmannakaup er hræsi á Donald Trump leveli. Blessunarlega virðast jafnvel síðustu geirfuglarnir vera farnir að átta sig á þessu.

Það sem hvað helst gerði Mourinho að “The Special One” á sínum tíma var sú staðreynd að hann fékk jafnan að eyða miklu meira í tilbúna leikmenn en allir keppinautar hans. Hann gat byggt upp sterkt lið án þess að hafa neinar áhyggjur af framtíðinni og hefur jafnan náð að endast í max þrjú tímabil á hverjum stað. Alltaf endar þetta með því að allir fá ógeð af honum og hann kveður með hvelli.

Ekki misskilja, Mourinho er elítu level af þjálfara og hefur náð árangri hvert sem hann fer. Hann er samt langt frá því að vera “The Special One” lengur og hans leikstíll er kominn vel til ára sinna. Það þýðir ekki að hann muni aldrei virka aftur en líklega fer starfsmöguleikunum á þessu leveli fækkandi er hann kveður United. PSG væri þá helst eftir enda með forskot heimafyrir sem Mourinho vill helst hafa.

Menn eins og Big Sam, Roy Hodgson og Tony Pulis fá alltaf vinnu eins og skot þó þeirra leikaðferðir séu komnar hressilega til ára sinna. Mourinho er elítu levelið af þessum stjórum, líklega maðurinn sem Big Sam sér þegar hann horfir í spegil.

Það sem ég óttaðist fyrir þetta tímabil var að United kæmi inn í það og héldi áfram þessum seiglusigrum sínum án þess að spila endilega glimmrandi vel. Þannig myndi pressan á stjóranum haldast niðri. Það að þeir hafi tapað tveimur leikjum illa strax er frábært mál þó líklega séu það verri fréttir eins og er frá sjónarhóli Liverpool að Tottenham vinni United frekar en öfugt.

Núna eru það langmest stuðningsmenn United sem hafa fengið nóg af fíflalátum Mourinho og fan base-ið er í besta falli klofið þegar kemur af afstöðu til hans. Það er komin af stað snjóbolti sem endar alltaf á einn veg. Núverandi stjórn United og nútíma fótbolti gefur Mourinho engin sjö ár eins og Ferguson fékk eins og frægt er. Verra er að nú þegar Mourinho virðist vera í niðursveiflu eru allar líkur á að eftirmaður hans verði töluvert betur í takti við tímann og nái meiru út úr þessum hópi.

Töpuð stig gegn Burnley í næsta leik gætu gert þetta að ansi löngu landsleikjahléi hjá Mourinho.


Salah verulega ósáttur?

Endum þetta svo á þessum vangaveltum. Hef ekki náð að kynna mér þetta mál að neinu viti en reynist þetta rétt er erfitt að sjá fyrir sér að Salah haldi áfram að spila með landsliðinu. Vonandi bara að þetta hafi ekki áhrif á leik hans hjá Liverpool. Komum betur inn á þetta seinna.

10 Comments

  1. Vonum bara að Morri sitji sem lengst í stjórastóli hjá United og að áhrifa hans gæti þar um langt árabil. Hann lengi lifi…

  2. Frábær samanburður

    “Mourinho er elítu levelið af þessum stjórum, líklega maðurinn sem Big Sam sér þegar hann horfir í spegil.”

  3. Frábær pistill.

    Ég er svoldið hræddur við programmið framundan en það verður spennandi að sjá hvernig við stöndum okkur gegn stóru liðinum á næstunni. Það gekk ekki eins vel á móti þeim í fyrra og hefur gert undanfarin ár. Í næstu fimm umferðum er það Tottenham og Chelsea á útivelli og City heima sem verður svakalegur leikur.

    En spennandi tímar framundan en ég spái að við tökum 10+ stig úr næstu fimm leikjum. Þá ættum við að vera í ágætis málum.

  4. Hvernig getur samt verið of snemmt að dæma um hvort þetta sé góð byrjun á mótinu eða ekki? Alveg sama hvernig framhaldið verður þá hlýtur þesdi byrjun að teljast góð

  5. Maður er farinn að dauðlanga í titil og þá er eins gott að hafa stóran og sterkan hóp.
    Ég fór og skoðaði liðið 2001 sem vann UEFA Cup, FA Cup og Deildarbikar og þurfti þetta lið að nota annsi marga leikmenn og má segja að liðið var tilbúð í allskonar meiðsli og voru oft gæðaleikmenn sem komust ekki í hópinn.

    Markvörður : Westerveld – reyndar lélegur(já ég sagði lélegur hann var að gefa c.a 10 mörk á þessu tímabili og lætur Karius og Mignolet líta frábærlega út en hann var látin fara svo fljótlega).

    Varnarmenn: Hyypia, Carragher, Henchoz,Babbel, Ziege, Traore, Song, Heggem, Wright. Vignal og gamla keppan Staunton spilaði 2 leiki – þarna var ágæt breydd en Carragher var varnarmaður sem spilaði allar stöðurnar en á þessu tímabili var hann mest í vinstri bakverði.

    Miðjumenn: Gerrard, Hamann, McAllister, Smicer, Murphy, Barmby, Berger og Biscan -Þarna erum við að tala um þvílík gæði og var hart barist að komast í liðið.

    Sóknarmenn(hérna er veislan): Owen, Fowler, Heskey(sjóð heitur) og Litmanen. Við vorum að spila mikið 4-4-2 og þarna þurftu oftast tveir heimsklassa leikmenn að sitja á bekknum.

  6. Út af fyrir sig hef ég ekki nokkrar áhyggjur af hópnum okkar, ég segji óhikað, við erum með besta lið í heimi. Þetta eru stór orð, en við verðum að hafa fulla trú á okkur. Getur einhver sagt mér hvaða lið getur unnið okkur á sæmilegum degi, það lið kemur mér ekki í hug. Fólk getur auðvitað talað um Barca, RM eða Juve, en þessi lið eru í raun auðunnin undir eðlilegum kringumstæðum.

    YNWA

  7. Það er auðvitað of snemmt til að segja eitthvað af viti um tímabilið en ég bið spenntur eftir leiknum við Tottenham eftir næstu umferð. Þeir virka sterkir í ár, leikurinn er snemma sem skilaði okkur slæmum úrslitum í fyrra og hann er einnig strax eftir landsleikja hlé sem skilaði líka mismunandi úrslitum í fyrra. Það verður því spennandi að sjá hvernig sá leikur spilast!

  8. Dear Glazer family. Please, please, please don’t sac Mourinho.
    Það er svoooo dásamlegt að hlusta á hann; svo innilega geðstirður og þessi djúpa óánægja og hömlulausa svekkelsi sem smitar svo mikilli neikvæðni í leikmennina.
    Þetta er einstakt.
    Please, ekki láta hann fara!

Podcast – Kop.is hittir The Anfield Wrap

Dregið í Meistaradeildinni í dag (16:00)