Liverpool – Brighton 1-0

1-0 Salah ’22

Leikurinn

Liverpool tók á móti Brighton á Anfield í seinniparts leiknum á þessum ágæta laugardegi.

Leikurinn fór frekar rólega af stað og talsvert var um slakar sendingar hjá okkar mönnum. Salah átti fína sendingu inn á Mané á miðjum teignum á 4 minútu en skotið fór rétt framhjá. 4 Mínútum síðar átti Robertson frábæra sendingu á Firmino en skalli hans af markteig var frábærlega varinn.

Á 13 mínútu skallaði Dijk boltann á Keita sem kom hlaupandi á vörnina en var brotið á honum rétt fyrir utan teig. TAA steig upp en föst aukaspyrna hans hafnaði í þverslánni.

Á 22 mínútu kom eins mikið Liverpool mark og það gerist. Stutt aukaspyrna hjá Brighton á þeirra vallarhelmingi. Sending á Bissouma sem var étinn af Milner, boltinn fór til Mané sem sendi á Firmino, Firmino á Salah sem skaut í fyrsta stöngin inn. 1-0 í raun upp úr engu nema frábærri pressu hjá Milner og flottum einnar snertinga bolta í kjölfarið.

Það gerðist í raun lítið það sem eftir lifði hálfleiks, var í raun bara ein stór sókn Liverpool stærsta hluta hálfleiksins þar sem að Brighton átti örfáar sóknir inn á milli án þess að valda Liverpool einhverjum teljandi vandræðum. Við sköpuðum á móti ekki mikið heldur en yfirburðirnir voru samt sem áður miklir þrátt fyrir að vera ekki að spila neitt frábærlega. Brighton var með 10 menn á bakvið boltann stórann part hálfleiksins og gerði okkur erfitt fyrir. Verðskuldað 1-0 í hálfleik þar sem að Milner og Gini stóðu uppúr að mínu mati á miðjunni en Mané og Firmino hafa spilað betur.

Í síðari hálfleik byrjuðu gestirnir betur, Murray átti frábæran sprett eftir  að Keita (?) hafði átt slaka sendingu á miðjunni, boltinn barst út á Knockaert sem skaut framhjá úr fínu færi. Stuttu síðar barst slök hreinsun gestanna inn á þeirra eigin vítateig. Ryan kom hlaupandi út og fannst mér hann hlaupa inn í Firmino, sem var búinn að taka sér stöðu inn á vítateignum, en dómarinn dæmdi aukaspyrnu á Liverpool þegar það var alveg hægt að færa rök fyrir vítaspyrnu þarna að mínu mati.

Leikurinn róaðist aðeins eftir þetta en sendingar okkar manna voru oft á tíðum alveg skelfilegar. Henderson kom inná í stað Keita á 66 mínútu, Keita átt rólegan dag og var búinn að vera slakastur, að mínu mati, af miðjumönnunum okkar og skiptingin því mjög skiljanleg þar sem við vorum aðeins að missa tökin á þessum tímapunkti. Við virtumst ná aðeins betri tökum á leiknum eftir þetta, en slakar sendingar í dag

Síðustu mínúturnar voru óþæginlega opnar. Liverpool fékk þónokkur hálffæri og hefði vel getað bætt við marki og klárað leikinn. Á 78 mínútu fékk Brighton hornspyrnu, boltinn datt laus á markteig en Milner náði að hreinsa á ögurstundu. TAA átti gott skot úr miðjum vítateig um fimm mínútum síðar, eftir góða sókn, en hafði viðkomu í varnarmanni og fór í horn. Eftir hornspyrnuna held ég að það hafi verið Gini sem tók hann á hælinn en var hreinsað á línu eftir smá barning inn á markteig. Besta færi gestanna kom svo á 88 mínútu þegar Alisson varði góðan skalla Gross í horn, skallinn var af mjög stuttu færi en Alisson var vel staðsettur.

1-0, verðskuldaður sigur þó hann hafi verið heldur erfiður og smá stress í mönnum þegar ekki tókst að gera út um leikinn. Þó niðurstaðan hafi “eingöngu” verið 1-0 þá skulum við samt ekki gleyma því að Liverpool var 70% með boltann og átti 22 skot gegn 6 (8/2 á markið). Brighton kom og spilaði með alla sína leikmenn fyrir aftan boltann og börðust vel. Við héldum hreinu, aftur, og skoruðum gott mark í leik sem ég held að hefði líklega tapast stig í í fyrra. Eftir úrslit dagsins var þetta skylduverkefni – við kláruðum það. Top of the league! Jákvætt.

Bestu menn Liverpool

Heilt yfir var liðið nokkuð jafnt fannst mér, mér fannst ekki neinn bera af.

 • Gini var öflugur inn á miðjunni og öruggur í öllum sínum aðgerðum. Ég átti von á því að hann myndi missa sæti sitt strax eftir West Ham leikinn þar sem að Fabinho og Henderson væru að verða klárir. Hann hefur síðan þá, og í raun í öllum þremur leikjunum, verið frábær.
 • Milner á stóran þátt í markinu og mér fannst hann stíga upp á nokkrum augnablikum í leiknum þegar það leit út fyrir að gestirnir væru að komast betur inn í leikinn.
 • Gomez og Robertson fannst mér einnig eiga mjög góðan leik. Þetta er þriðji leikurinn í röð þar sem að sóknarmaður andstæðinganna “liggur á” Gomez, þ.e. andstæðingarnir fara mun meira á hann en VVD en strákurinn stóðst þetta próf rétt eins og hin tvö. Ég er bara ekkert svo viss um að Lovren komist svo auðveldlega í liðið þegar hann kemur til baka.
 • Salah var líklega frískastur af okkar fremstu þremur og skoraði frábært mark ásamt því að vera alltaf ógnandi, þó hlutirnir hafi ekki alveg gengið upp hjá honum eins og öðrum.

Slæmur dagur

Mané, líklega okkar besti leikmaður það sem af er tímabili, var líklega okkar slakasti leikmaður í dag. Hann var ekki að ná að finna samherja og fyrsta snertingin oft verið betri.

Umræðan

 • Liverpool er ennþá eina liðið í ensku úrvalsdeildinni sem hefur ekki fengið á sig mark. Liverpool hefur nú spilað 600 mínútur á Anfield með markatöluna 20-0. Síðasta mark sem liðið fékk á sig í deildinni var í febrúar (!!). Ég ætla bara að segja það, við hefðum gert jafntefli í þessum leik í fyrra eða hittifyrra. Sóknarleikur okkar er búinn að vera frekar rólegur í síðustu tveimur leikjum, það er þá ómetanlegt að vera komnir með varnarlínu og markmann sem heldur hreinu. Við þurfum þá ekki að skora 2-3 mörk í leik til þess að vinna.
 • Síðan að Liverpool keypti Van Dijk hefur liðið haldið hreinu í 11 deildarleikjum af síðustu 18. Flest allra liða á árinu 2018.
 • Þetta Manchester City lið er að breyta miklu í þessari deild. Ég held að það sé ekki lengur hægt að horfa á eitthvað meðaltal og telja sig geta orðið meistari með +/- 86 stig eða eitthvað álíka. Það gæti eitthvað lið náð 90 stigum í vetur en samt ekki unnið deildina, það er því ljóst að hver leikur er hálfgerður úrslitaleikur ef eitthvað lið ætlar sér að halda í við meistarana. City tapaði stigum í morgun og því var smá pressa á Liverpool að sigra í dag, rétt eins og það var s.l. mánudag eftir að flest toppliðin höfðu unnið góða sigra um helgina. Liðið stóðst prófið, sem er virkilega jákvætt.
 • Alisson Becker. Vandamál Liverpool síðustu áratugina (eitt af þeim) er að vera ekki með markvörð sem ver “það sem hann á að verja”. So far so good. Alisson staðsetur sig vel, hefur varið vel í nokkur skipti og er virkilega góður í fótunum. Hann hefur hingað til verið að staðsetja sig virkilega vel þannig að hann þarf ekki að vera með sjónvarpsmarkvörslur (aukaspyrnan gegn Crystal Palace & skalli Gross í dag)
 • 3 Leikir. 9 Stig. Markatalan 7-0. Síðast þegar við náðum 9 af 9 í fyrstu 3 umferðunum? 2013/14.

Hvað næst?

Liðið spilar n.k. laugardag gegn Leicester á útivelli. Væri hrikalega ljúft að taka þrjú stig þar fyrir landsleikjahlé. Held ég fari ekki með rangt mál þegar ég segi að Vardy sé í banni í þeim leik eftir rautt spjald í fyrsta leik tímabilsins, hann hefur oft reynst okkur erfiður.

 

44 Comments

 1. Púff
  Mínir menn leiksins Gomes og Gini
  Aleinir á toppnum er bara fínt, get vanist því
  YNWA

 2. Sæl og blessuð.

  Þetta hefði nú getað orðið stærri sigur. Þeir bröltu um í teignum og tókst að fyrirbyggja stærra tap. Á fyrri leiktíðum hefði þetta klárlega ekki orðið sigur.

  Milner og Alison stóðu sig með prýði. Flott mark hjá Salah og allur undirbúningur. Kæruleysissendingar tóku broddinn úr sókninni.

  Flott’er.

 3. Jákvætt að við séum að taka 6 stig og halda markinu hreinu í þessum seinustu tvem leikjum sem við höfum verið geldir fyrir framan markið. Erfitt gegn liðum sem negla alla sína leikmenn við teiginn., geri mér grein fyrir því. Skemmtileg tilbreyting. Við eigum þá eftir að sjá það besta frá okkar mönnum.

 4. Gini: Vinnusamur með afbrigðum, einn af hans bestu leikjum.

  Mané: Gleymdi að bera harpix á skóna.

 5. Eg verd ad gefa Brighton kredit fyrir leik sinn. Their voru virkilega erfidir og mjog vel skipulagdir. Ad sama skapi frabaert hja Liverpool ad klara leikinn fagmannlega 1-0, thegar menn voru augljoslega pirradir a touchinu og hvernig godar stodur foru forgordum.

  Mane algjorlega off touch i dag. Hann atti alltof morg vond touch thegar vid hefdum getad opnad tha. Mer finnst eins og front-3 seu enn ad komast i girinn, enda bara agust enntha, en thetta verdur rosalegt med tha alla a fullu gasi.

  Munurinn a upphafi thessa seasons er ad vid thurfum ekki ad setja 3 mork til ad vinna leikina.

 6. Frábær 3 stig en bara ágætur leikur.

  Síðarihálfleikur var einfaldlega lélegur hjá okkur við náum ekki sama hraða spili, við opnuðum þá ekki eins mikið og þeir fengu tvö góð færi til að jafna(eitt í upphafi síðarihálfleiks og eitt í restina).

  Allison 6 – Fín markvarsla í restina en þetta eru boltar sem maður vill að heimsklassa markmenn ná að verja. Hann er alltof lengi á boltanum stundum og kostaði það okkur næstum því mark í dag. Það er allt í góðu að hafa sjálfstraust með boltan en óþarfa áhættur er nákvæmlega það ÓÞARFAR.

  Tren 6 – Aftur finnst manni hann bara allt í lagi. Hann gerði nokkur sendingarmisstök en var nálagt því að skora.
  Dijk 8 – Solid leikur hjá miðverðinum okkar.
  Gomez 8 – er greinilega miðvörður en ekki hægri bakvörður. Átti eina tvær sendingar þar sem við töpuðum boltanum á vondum stað en var duglegur að vinna einvígin og verður bara betri.
  Robertson 9 – Maður leiksins. Þessi gaur var allar 90mín upp og niður völlinn. Átti nokkrar frábærar fyrirgjafir sem hefðu á öðrum tíma dugað til að skora
  Winjaldum 7 – vinnu hesturinn sem átti fínan leik og var óheppinn að skora ekki.
  Millner 7 – okkar besti maður í fyrirhálfleik. Nýtist kannski ekki best þegar við erum að reyna að opna svona varnir en solid í dag eins og oft áður.
  Keita 6 – Náði sér ekki alveg á strik í dag. Var stundum of lengi með boltan og sóknarlega hafði hann sig hægan.
  Firmino 6 – Hefur ekki alveg náð sér í gang á tímabilinu og hefði maður viljað sjá hann koma útaf síðustu 15 mín.
  Salah 8 – Frábært mark og sífelt ógnandi. Fékk ekki mikið pláss en maður fann að Brighton vörninn var skjálfandi þegar hann fékk boltan
  Mane 6 – Ógnandi en ekki einn af hans bestu leikjum. Hefur oft verið meira í boltan.

  3 stig 10 – Út á þetta gengur þessi leikur. Það eru svona leikir sem hafa verið okkur að falli þegar við höfum reynt að vinna þessa deild. Maður hefur oft fundist Liverpool verða að spila besta boltan í deildinni(2009 og 2014) en höfum ekki náð að ná úrslitum þegar við vorum ekki að spila okkar besta bolta.
  Mér hefur fundist Man City spila besta boltan þessa fyrstu 3 leiki í deildinni en við sitjum á toppnum núna og er það helvíti ljúft 🙂

 7. 3 stig og höldum hreinu og á þeim stað í deildinni sem viljum vera á. 🙂

 8. Alisson med risa vörslu í lokin, eitthvað sem klárlega hefði orðið mark í fyrra. 1-0 sigur er alltaf sætt og það jakvæðasta er að liðið á helling inni. Hrikalega sáttur við stigin þrjú á móti liði sem kom fullt sjálfstrausts og hafði engu að tapa.

 9. Algjörlega geggjað að halda hreinu í þessum leik og að vera með fullt hús. Þessir Brighton-liðar eru baráttuhundar og skipulagðir. Þeir munu vinna fleiri miðlungslið en manhju. Ekki besti dagurinn okkar EN þrjú dýrmæt stig í dag. A ugly win en samngjarn samt.

 10. Við erum komnir á þann stað í gæðum að það kallast ljótur leikur hjá okkur þegar við vinnum Bara 1-0 😉
  70% með boltan, 22 skot þar af 8 skot á markið.

  Ekki okkar besti leikur en allan tíman sangjarn þótt að maður veit að það getur allt gerst í boltanum og maður líður alltaf betur þegar forustan er tvö mörk.

 11. Þetta tímabil minnir mann alveg merkilega mikið á 2013-2014 tímabilið. Þá vorum við líka með nýjan markmann á milli stanganna, og náðum þrem sigrum og þrem hreinum lökum. Reyndar voru það allt 1-0 leikir. Þá áttum við tiltekinn Luis Suárez inni, en núna getum við sagt að við eigum það inni að fremstu þrír detti úr öðrum gír og í þann þriðja, fjórða eða fimmta. Sérstaklega fannst manni Mané eiga off dag, misheppnaðar sendingar og svona. En gæðin í þessum leikmönnum eru slík að þegar það var virkilega nauðsynlegt, þá smíðuðu þeir (plús Milner) sigurmarkið afar fagmannlega.

  Allavega, það verður gaman að sjá þegar liðið fer upp um gír, vonum að það gerist til dæmis um næstu helgi. En afar jákvætt að liðið sé samt að vinna þrátt fyrir allt.

 12. You have to feel for Brighton. They have conceded 3 goals in their last 2 games facing Man Utd and Liverpool.

 13. Góður sigur, en hér er smá leiðrétting sem ég verð að koma á framfæri í eitt skipti fyrir öll. Hef lengi setið á mér en nú er mælirinn fullur 🙂 þið sem eruð alltaf að tala um “clean sheet” sem “hreint lak”, má ég benda á að þetta er einstaklega vond þýðing. Þegar talað er um “Clean sheet” í fótbolta er í raun átt við að halda leikskýrslunni hreinni. Sbr: that sports reporters used separate pieces of paper to record the different statistical details of a game. If one team did not allow a goal, then that team’s “details of goals conceded” page would appear blank, leaving a clean sheet.

  Ok?! Allir komnir með þetta á hreint núna? Mjög gott.

  Ást, friður og YNWA

 14. “Hreint lak” er tölfræði sem á aðeins við um áhorfendur, t.d. ykkur sem horfðuð á leikinn upp í rúmi og hélduð lakinu hreinu þegar Alisson sólaði Brighton gaurinn með því að vippa. Það væri reyndar áhugavert að fá einhverjar tölur um það. Annars fagna ég þremur hreinum leikskýrslum í röð

 15. Langaði fleiri en mig að sjá Shaqiri koma inná t.d. eftir klukkutíma?

  Ég er svo viss um að litli kubburinn á eftir að gera frábæra hluti EF hann fær að spila eitthvað.

 16. #15
  Djöfull er ég sammála þér.
  Eins fer í taugarnar á mér þegar talað er um demantsmiðju en ekki tígulmiðju 🙂

  Annars er maður virkilega sáttur með liðið hingað til, ein slátrun og tveir baráttusigrar sem hefðu örugglega ekki unnist í fyrra. Nú er bara að vona að liðið haldi áfram á sigurbraut og nái að halda Man City fyrir neðan sig það sem eftir er tímabils, og hver veit, kannski náum við að halda hreinu út tímabilið 😀

 17. Ég skal algjörlega taka það á mig að breiða út þessa þýðingu, sem er að sjálfsögðu búin til út frá reglunni “hafa skal það sem fyndnara reynist” hvort sem það svo tekst eður ei. Ég myndi líklega ekki nota þessa þýðingu í grafalvarlegum opinberum leikskýrslum (og myndi líklega ekki nenna sliku hvort eð er). En ef þetta fer mjög í taugarnar á fólki þá er auðvitað sjálfsagt mál að hætta öllu gríni, orðaleikjum og útúrsnúningum.

  Annars verð ég að lýsa yfir ánægju minni með að helsta umkvörtunarefni okkar púlara eftir leik séu þýðingar á hugtökum, en ekki að það þurfi að selja allan hópinn og stjórinn sé alveg ómögulegur og að það þurfi að losna við eigendurna. Það er nefnilega ekki svo langt síðan að staðan var þannig.

 18. #15 mikið er ég sammála þér. Húmorinn við þetta hlýtur að vera mjög djúpur, allavega hef ég ekki sprungið úr hlátri við að lesa þetta.

  Annars lítur þetta vel út, Alisson og Dijk sennilega búnir að bjarga 4 stigum í þessum tveimur síðustu leikjum

 19. Daníel, endilega ekki hætta gríni og gamni, því þetta á að vera og er skemmtun. Þegar dægurþras fer að spilla umfjöllun okkar um liðið okkar, þá mega þeir sem það stunda hverfa héðan, í alvöru. Segjum að þetta hafi verið vinnusigur, ljúfur sem silki, en hart efni inn á milli. Brighton vinnur ekki manu fyrir ekki neitt, þetta er gott lið, eins og CP, en við vinnum, það er eithvað sem við verðum að venjast á jákvæðan hátt. Cleen sheet er að vera með markatöluna 7-0, í efsta sæti, án þess að spila 2 síðustu leiki vel, og það erfiða leiki. Það var vitað að Brighton myndi koma með kassan út eftir sigurinn á móti manu, en við stóðumst álagið.

  YNWA

 20. Mér fannst við mega fá víti, í stöðunni 0-0 minnir mig, þegar boltinn fór í hönd eins gestanna. En það er auðvitað algjör frekja að biðja um víti tvo leiki í röð… eða í okkar tilviki í tveimur leikjum á tímabili.

 21. Ágætis leikur hjá okkar mönnum. Alison verður að passa sig á þessu dútli með boltann, ég er viss um að Klopp klípi hann í þjóhnappana og biðji hann að hætta þessu.

  VIð erum í raun í sama veseni með lið sem liggja vel aftur og í fyrra. Munurinn er bara sá að þessi lið eru ekki að ná að skora á okkur einhver ódýr klaufamörk eins og undanfarin ár. Held að VVD hafi verið ein bestu kaup Liverpool í manna minnum. Fyrirliðabandið á manninn.

  Annars flott að halda beru blaði.

 22. Góður sigur,
  Náði ekki að sjá leikinn.
  En mér finnst ein setning óþolandi í öllum skýrslum.
  „Hefðum tapað þessum leik í fyrra“
  Eða „hefðum tapað stigum í þessum leik í fyrra“
  Þessi leikur fór bara ekki fram í fyrra. Svo við töluðum ekki þessum leik í fyrra við unnum hann í gær.

 23. #30

  Mér hefði fundist þetta comment þitt óþolandi í fyrra en núna finnst mér það bara skemmtilegt 🙂

 24. Þessi lýsing TAW á tæklingu Milner er algjört gull, það væri enginn stjóri í heiminum að fara að senda hann á bekkinn eftir svona frammistöður. Svo verður hann bara heima að vinna í forminu á meðan aðrir fara í landsleiki. Meistari.

  “James Milner tackles their lad this morning when he has his breakfast.
  James Milner tackles their lad while he packs his oversized wash bag.
  James Milner tackles their lad from the minute he was born to the second the freekick is given. He has lived his whole life to just tackle their lad at that moment. He has pictured tackling their lad for eternities. Galaxies have exploded, all human life has evolved and become extinct and James Milner is both tackling their lad and picturing doing so.
  That moment was the moment where I was reflecting on Brighton home and away against our rivals last season and how frustrating they could be. It was the moment I was beginning to think we could be in for the longest possible afternoon.
  James Milner tackles their lad and Liverpool score. From the minute he wins his tackle there is an inevitability about events. For the tackle James Milner should be given:
  – the assist.
  – the freedom of the city.
  – his Sunday dinner in a choice of Liverpool restaurants.
  – the right to decide what the dressing room listens to for the next week.
  – Maghull. If he wants it”

 25. #15 Oft stoppar strætó á Hlemmi og Oft eru lök lækuð ef ekki á verr að fara sbr. vísuna hans Eldjárns:

  Dívaninn er þarfaþing
  þreyttum hvíld hann gefur.
  Efni í margan íslending
  í hann runnið hefur.

 26. “it lies in the eyes upstairs” að “clean sheet” er ekki “hreint lak”, en ef það er ekki fyndin mistúlkun þá er ég nú hissa, eða eins og tjallinn mundi segja “I come completely from the mountains ”

  Eða bóndinn sagði túristunum þegar þeir báðu um hjálp við að koma bílnum þeirra upp úr skurðinum. “no problem, first we will rape you and then we will eat you”

  Top of the league baby, top of the league.

 27. Sælir félagar

  Takk fyrir skýrsluna Daníel og “hrein síða” gæti það verið eða eins og einhver bendir á “að halda hreinu”. Ég segi samt eins og einhver annar hér fyrir ofan að “í fyrra” fer meira í taugarnar á mér en hreina lakið. Hreint lak er alltaf til bóta, bæði til höfuðs og fóta. Annars er ég sáttur við þennan sigur þó okkar menn hafi margir hverjir verið líflegri á vellinum en í dag. Ég hefði alveg þegið að fá Shaqiri koma inná síðustu 20 mín. Þessi 3 stig telja jafn mikið og 3 stigin fyrir WH leikinn. Og þó. Markatala getur skipt máli.

  Það er nú þannig

  YNWA

 28. Núna er Karius farinn á lán næstu 2 árin. Getur Alisson farið í #1 treyjuna eða er hann með #13 út tímabilið ?

 29. #23 Ég er svo heimtufrekur að mér finnst í lagi að gera tilraun til að hafa “það sem fyndnara reynist” á meðan það gerir mig ekki geðveikan. Þeir frasar sem falla undir það eru t.d. “hreint lak”, “demantsmiðja” í staðinn fyrir tígulmiðju, “éta/troða sokk” og “mænan” í liðinu í staðinn fyrir hryggsúluna.

  Á hinn bóginn geri ég mér grein fyrir að ég er að lesa síðuna án þess að greiða fyrir (myndi samt eflaust styrkja ykkur) og get ekki verið of heimtufrekur. En þessu hefur allavega verið komið út í kosmósið. Takk fyrir mig annars.
  Ást, friður og YNWA

 30. Það eina sem menn þurfa að hafa í huga í þessari umræðu um hreint lak og hvaðeina er að ef það fer í taugarnar á SStein þá er það í lagi.

 31. Ágætis leikur svosem … hefði samt alveg verið til í að sjá Shaqiri inn á c.a. 65 mínútu til að tæta þá aðeins meira í sig … það vantaði smá meiri læti í þá þrjá fremstu. Sérstaklega Mane karlinn sem var í krummafót í þessum leik. Bobby virkar líka eitthvað þungur / þreyttur á mig. Samt var hann ekkert mikið að spila fyrir Brassana í sumar …
  En maður getur ekki kvartað hátt fyrst við erum enn á toppnum.

  YNWA !

 32. Sammála hef verið að spá í afhverju er Klopp ekki að nota Shaqiri meira en hann getur víst ekki sett alla inná og Sturridge td á þeim tímapunkti sem hann kom inná meikaði alveg sens sérstaklega í ljósi þess að hann var frábær á undirbúningstímabilinu.

  En hlakka til að sjá Shaqiri koma inná söknuðurinn af Ox verður ekki eins mikill með leikmann eins og hann sem getur breytt hraðanum.

Liðið gegn Brighton

Podcast – Kop.is hittir The Anfield Wrap