Aldursfordómar

Einn besti leikmaður Liverpool það sem af er árinu 2018 er óumdeilanlega James Milner og  er ferill hans hjá Liverpool farin að minna á Benjamin Button.  Hann kom 29 ára þegar Gerrard hætti og var líklega lofað því að hann yrði arftaki hans á miðjunni. Hann var aldrei sérstaklega sannfærandi og þegar honum var fórnað í hlutverk bakvarðar var eins og hann hefði tapað of miklu af sínum hraða til að spila á hæsta leveli. Hann var jú orðin rúmlega þrítugur.


Stuðningsmenn Liverpool hafa líklega aðeins brenglaða mynd af leikmönnum sem eru komnir norðurfyrir þrítugt og er okkur kannski aðeins vorkun. Það er ekkert leyndarmál að stefna FSG er að leggja áherslu á yngri leikmenn sem hafa ekki endilega toppað á sínum ferli og maður þarf ekki að lesa lengi um Jurgen Klopp til að finna út að hann teflir jafnan fram ungum liðum.

Það er fullkomlega eðlilegt að setja stærstu upphæðirnar í leikmenn þegar þeir eru á aldrinum 22-24 ára og jafnvel +/- tvö ár eftir aðstæðum. Þessir leikmenn eru líklegri til að eiga eftir að toppa á sínum ferli og endursöluvirði er auðvitað meira. 22-24 ára er sweet spot hjá Klopp þegar kemur að leikmannakaupum. Fínn aldur til að móta þá eftir hans hugmyndafræði og næg orka til að þola leikstílinn.

Það sem vantar í þessa jöfnu að 22-24 ára leikmenn eru mun sjaldnar lykilmenn í sínum liðum en 25-28 ára leikmenn og það eru mun fleiri lykilmenn 30 ára eða eldri í nánast öllum byrjunarliðum bestu liðanna frekar en 23 ára eða yngri. Bob Paisley er líklega sá stjóri Liverpool sem kemst næst Klopp í leikmannakaupum (já eða öfugt). Hann keypti sína bestu leikmenn 22-24 ára en þeir tóku oft 6-12 mánuði (eða meira) í varaliðinu meðan þeir lærðu inn á leikstíl Liverpool. Fótbolti hefur breyst mikið undanfarin ár en þetta á að einhverju leiti við ennþá.

Umræðan um Milner hefur ekki aðeins snúist um aldur hans, hann spilaði bakvörð heilan vetur og var varamaður stóran hluta af síðasta tímabili. Það var ekki nokkur maður að kalla eftir stærra hlutverki fyrir hann. Fyrstu ár Milner hjá Liverpool voru ekkert í líkingu við Milner það sem af er ári 2018. Umræðan hefur samt aðeins verið eins og um sé að ræða 37 ára leikmann. Það eru sem dæmi fjögur ár í það ennþá að hann verði jafngamall og Gary McAllister var þegar hann gekk til liðs við Liverpool á sínum tíma. Hann er allt of ungur til að vera kominn í McAllister hlutverkið en er það kannski að einhverju leiti enda leikmannahópur Liverpool gríðarlega ungur.

Umræða um leikmenna eldri en þrítugt er sérstaklega brengluð í ljósi þess að ferill knattspyrnumanna er orðin töluvert lengri og heilsusamlegri. Líklega er rétt að taka það fram að sjálfur hefur ég verið sekur um að nánast afskrifa leikmenn eftir þrítugt. Maður er aðeins brenndur eftir t.d. síðasta tímabil Gerrard, Rooney undanfarin ár og fleiri álíka dæmi.

Ástæðan fyrir því að Milner er tekin sérstaklega fyrir er að hann er elsti lykilmaður Liverpool en líklega er hann ekki einu sinni byrjunarliðsmaður þegar allir eru heilir. Milner er leikmaður sem kemur samt alltaf við sögu í 30+ leikjum yfir tímabilið.

Samanburður á meðalaldri

Ef við berum meðalaldur leikmanna Liverpool á síðasta tímabili saman við bestu lið Evrópu kemur í ljós að umræða um leikmenn eldri en þrjátíu ára hefur verið hlæilega vitlaus oft á tíðum.

Til að vinna þetta er tekið þá 16 leikmenn sem spiluðu flestar mínútur í deildarleikjum sinna liða. Úr þeim hópi er stillt upp byrjunarliði sem gengur upp taktíst og sett þá fimm leikmenn sem eftir standa á bekkinn. 

Ef eitthvað er þá vantaði Liverpool reyndan leikmann í hópinn á síðasta tímabili. Af þeim sem spiluðu mest er Lovren næst þrítugsaldrinum en á móti sjáum við þarna að aldurssamsetning liðsins er mjög heilsusamleg. Allir hinir eru 24-28 ára nema Gomez/TAA sem voru í liðinu vegna meiðsla Clyne sem er á “besta” aldri.

25,6 ára meðalaldur liðsins er fáránlega lítill. Ef við tökum þessa sextán sem spiluðu mest hjá ensku liðunum er meðalaldur Liverpool lægstur 26,2 ár. Tottenham kemur næst með 26,6 ára meðalaldur.

Öfugt við það sem maður myndi ætla er Klopp ekkert að nota mjög unga leikmenn mikið. Kjarninn í þessu liði er að þroskast saman undir stjórn Klopp og bæta sig ár frá ári og vonandi erum við kominn inn í skeið þar sem bætt er við fáum en mjög góðum lykilmönnum sem styrkja byrjunarliðið og auka breiddina.

Man City

Besta lið deildarinnar innihélt hvorki meira né minna en fimm lykilmenn sem komnir voru á þrítugsaldurinn síðasta vetur og þrjá til viðbótar 27-28 ára. Guardiola er ekkert minna kröfuharður en Klopp og hans menn hlaupa ekki minna. Ef eitthvað er þá hefur hann hækkað meðalaldurinn milli ára með því að bæta Mahrez við á kostnað mínútna hjá Sané og/eða Sterling. Meðalaldur byrjunarliðsins er 28,1 ár en bekkurinn er ungur en fullur af stórstjörnum framtíðarinnar.

Fyndið reyndar að skoða lið City með Milner í huga, hann væri ekkert minni partur af þeirra hópi en hann er hjá Liverpool.

Hin toppliðin

Öll hin toppliðin voru með þrjá lykilmenn sem komnir eru yfir þrítugt á síðasta tímabili. Meðalaldur byrjunarliða Utd, City, Chelsea og Arsenal var 2-3 árum hærri en Liverpool sem er töluvert mikið.

Rashford og Martial voru einu 20-22 ára leikmennirnir í plönum Mourinho á síðasta tímabili. Hann hefur jafnan viljað kaupa 26-28 ára leikmenn enda jafnan ekki lengur en þrjú tímabil hjá hverju félagi og ekki að spá í þeim sem tekur við af honum. United er engu að síður með sterkan hóp og bestu menn liðsins á góðum aldri.

Pochettino eins og Klopp spilar mjög ungum leikmönnum minna en maður myndi kannski halda án þess að skoða málið. Alli er undrabarn sem væri líklega stór póstur hjá öllum toppliðunum og Sanchez ruglar aðeins myndinni með því að slá út Alderweireld. Tottenham liðið er engu að síður á mjög góðum aldri.

Það vantar ekki reynsluna í lið Chelsea heldur og annar af þessum leikmönnum yngri en 23 ára fór til AC Milan á dögunum. Liðið er á góðum aldri en þeir eiga líka rúmlega þrjátíu unga leikmenn úti á láni.

Það lítur svo ekki út fyrir að Emery sé að yngja lið Arsenal mikið með leikmannakaupum sumarsins.

Spánn

Aldursfordómarnir verða svo ennþá kjánalegri þegar við horfum til meginlandsins.

Átta í byrjunarliði Real Madríd eru um og yfir þrítugt. Engin úr “byrjunarliði” þrefaldra Evrópumeistara var undir 25 ára síðasta vetur. Þetta er lið sem hefur spilað lengi saman og mögulega hafa þeir vanrækt það undanfarin ár að endurnýja hópinn en þeir sýndu heldur betur í fyrra að lengi lifir í gömlum glæðum.

Samansetning Barcelona er nánast alveg eins, þeirra bestu menn eru komnir norður fyrir þrítugt og aðeins einn af þeim sextán sem spilaði mest er undir 23 ára. Það er auðvitað undrabarn og einn dýrasti leikmaður sögunnar.

29,3 og 29,2 ára meðalaldur getur samt ekki annað en verið smá áhyggjuefni og mögulega eru þarna merki um að einokun spænsku risanna sé senn á enda. England ætti að vaxa framúr Spáni á allra næstu árum, jafnvel núna í vetur.

Það kom mér verulega á óvart að heilsusamlegasta byrjunarlið toppliðanna á Spáni væri A.Madríd. Ætli þar sé ekki bara besta lið Spánar í dag?

Ítalía

Viðurnefni Juventus er engin tilviljun virðist vera. Sú gamla vill bara old boys fótbolta og samsetning liðsins ber þess merki og hefur gert í mörg ár.

Öllu má samt ofgera og 30,3 ára meðalaldur er ansi vel í lagt. Tveir elstu leikmenn liðsins síðasta vetur hafa enda yfirgefið skútuna en það er spurning hvort með þeim fari partur af sigurhefð liðsins?  Maður man varla eftir Juventus án Buffon.

Napoli liðið sem veitti Juve keppni allt tímabilið virkar eins og unglingur í samanburði en meðalaldur byrjunarliðsins er samt meiri en allra ensku liðanna.

HM

Endum þetta svo á úrslitaleik HM í sumar.

Það vantaði ekki leikreynsluna í lið Króata og líklega er þarna hópur sem var að toppa saman í sumar. Luka Modric 32 ára (jafngamall Milner) kemur líklega vel til greina sem besti leikmaður Evrópu eftir síðasta tímabil.

Frakkland er auðvitað með fáránlegan hóp og einn efnilegasta hóp sögunnar. Pogba er aðeins 25 ára og kostaði 90m síðast þegar hann skipti um lið. Mbappe og Dembéle gætu vel verið næstu Messi og Ronaldo og eru nú þegar dýrustu leikmenn í heimi. Þá erum við ekki einu sinni byrjuð að ræða menn eins og Kanté eða hina leikmenn liðsins. Hvað þá hópinn hjá Frökkum sem ekki komst í liðið, sá hópur færi líklega líka langt á HM.

Þessi lauslega fyrirferð yfir bestu lið síðasta tímabils sýna okkur að 32 ára er engin aldur í dag. Hvað þá 29-31 árs.

 

18 Comments

 1. Ég man að það kom dómari í prodcast hjá ykkur og hann efaðist um gæði Liverpool einmitt vegna þess hvað Milner væri gamall. Hann efaðist samt ekki um gæði Man City eða gæði annara erkifjenda, þó liðin væru með fleirri leikmenn sem voru að nálgast “grafarbakkann” sem voru að spila stór hlutverk þar.

  Annars einkennist fótboltagagnríni oft af ottalegu rugli. Annað hvort er liðið of gamalt eða skortir reynslu ef illa gengur. Það er allt tínt til, sama hversu sanngjörn eða ósanngjörn gagnrínin er.

 2. Þessir strákar í dag fara held ég margfallt betur með sig en forverar þeirra. Klopp sagði í einu viðtali t.d. spurður út í drykkju leikmanna sinna, að yrði liðinu boðið upp á bjór, þá þyrfti hann að sporðrenna öllum bjórnum því engin af þeim drykki né reykti, svo hann vissi best. 32ja ára er, miðað við Milner, bara eðal aldur. Hleipur úr sér lungun í öllum leikjum og blæs varla úr nös. Er frábær leikmaður, sem miðlar örugglega reynslu sinni til þeirra yngri. Við erum heppnir að hafa svona strák í okkar liði.

 3. Ef allir okkar leikmenn spiluðu af sömu ástríðu og ákefð og Milner þá efast ég ekki um hvar við endum þetta tímabil.

 4. Nú er verið að tala um að De Bruyne verði frá í allt að 3 mánuði vegna meiðsla á hné. Þetta gæti sett stórt skarð í besta lið Englands.
  Ég efast um að þeir endurtaki árangur síðasta tímabils þegar þeir missa út sinn besta mann en vissulega hafa þeir nóg af gæðum sem koma inn í staðinn en það er klárt mál að þeir eru ekki sterkari fyrir vikið.

 5. RH #4 – þú ert væntanlega að tala um að meiðsli De Bruyne gætu sett stórt skarð í næst besta lið Englands.

 6. Raggi Klavan farinn frá Liverpool til Cagliari á Ítalíu. Rangi Raggi eða Clean sheet Klavan verður sárt saknað á Anfield.

 7. Eigandi Napoli er greinilega mjög skrautlegur karakter. Nú heldur hann því fram að Roma og Liverpool sé með sömu eigendur. Það er svo sem skemmtileg samsæriskenning.

  En með fullri virðingu fyrir Napoli og þeirra fjárstyrk og gæðum. Myndu þeir í alvörunni hafa efni á því að kaupa markvörð á 65 m punda ? Eigandi Napoli segist hafa boðið 60 m punda í hann.
  Ef svo er, þá hefur margt breyst síðan 2017 því þegar Napoli og Man City mættus í meistaradeildinni. Í blaðagrein sem ég fann um viðreignir liðana stendur.

  “Kevin De Bruyne cost Manchester City as much as the entire Napoli starting XI put together, it has been calculated.”

  Keven De bruyne kostar svipað og allt byrjunarlið Napoli og allt í einu þykist eigandinn að hafa boðið fúlgu fjárs í markmann en ekki í gæði annarsstaðar á vellinum ? Ég leyfi mér að efast og skil vel að Sarri hafi látið sig gufa upp og tekið besta leikmann liðsins með sér.

  Annars eru skrautfuglar í miklum metum hjá mér. Vincent Tan, eigandi Cardiff og þessi gaur ættu að halda tertuboð saman. Gæti vel trúað að þeir ættu vel saman.

 8. Talandi um aldursfordóma þá er aldurs forsetinn Clean Sheet Klavan seldur á brunaútsölu.

  Verður Milner næstur í röðinni?

 9. Tek undir hvert orð í þessari grein. Furðuleg umræða síðustu ár með aldur Milner. Hann er einu ári yngri en Ronaldo og hugsar greinilega gríðarlega vel um sig. Því ætti ekkert að koma á óvart að sjá hann á top-level næstu 2-3 árin. Vonandi þá þann tíma á miðjunni hjá Liverpool enda erfitt að finna annan eins atvinnumann. Það er frábært að hafa mann eins og hann í 16 manna hópi Liverpool og ég efa ekki að byrjunarliðsleikirnir verði 25-30 í vetur.

 10. #8

  Veit ekki afhverju þú segir brunaútsölu. Að fá einhvern pening fyrir 32 ára gamlan backup miðvörð er eiginlega bara allt í lagi. Hefði samt alveg viljiað hafa hann út tímabilið, segi það ekki. Greinilega treystir Klopp ungu strákunum sem og Fabinho mögulega til að covera CB stöðuna.

 11. Það er bara fínt að fá 2 millur fyrir Klavan. Hann náði aldrei að vera í Liverpool klassa fannst mér, skilaði því sem hann gat og bætti kannski samkeppni í byrjunarliði en kom inn og gerði sitt besta í meiðslum varnarmanna okkar.
  Vonandi gengur honum vel hjá nýjum klúbb og það ber að þakka honum fyrir sitt framlag til LFC.
  Annars finnst mér eins og Milner sé 10 árum yngri en Ragnar miðað við vinnuframlag og frammistöðu hans síðasta leiktímabil og í byrjun þessa tímabils. Milner er leikmaður sem ég hef mjög oft vanmetið, en þurft síðan að éta það ofan í mig, sem betur fer.

 12. Aldur er afstæður.
  Ronaldo mætir fyrstur og fer síðastur. Guð fyrirgefi mér að nefna hann.
  Að hafa 30+ gæja með þetta attitude er ómetanlegt.
  Gylfi er í þessum klassa.
  YNWA

 13. Þessi grein opnaði augu mín fyrir eigin ranghugmyndum um háan aldur Milners.

 14. @12 þetta er katalónska en ekki spænska …skil samtalið mjög illa en eftir þrjú áhorf held ég að þetta sé réttur texti.

 15. Góð grein eins og alltaf rn gerið eitt fyrir mig. Breytið millifyrirsögn í “Hin toppliðin og ManU”.

 16. Fínasta umræða og sannarlega mjög þörf. Hvort menn eru í liðinu eða ekki snýst bara alls ekki um aldur, heldur getu. Greinarhöfundur, ég er að heyra þetta í fyrsta skipti, eða lesa réttara sagt, að Milner hafi verið lofað því hlutverki að leysa Gerrard af á miðjunni. Hverjum hefði dottið það í hug að fá mann sem er bara allt öðru vísi heldur en Gerrard og lengstum hefur bara alls ekki spilað á sama stað á vellinum. En af því slepptu þá vex Milner bara í áliti hjá mér og er einmitt týpan sem þarf að vera í hverju liði, duglegur, ákafur, ósérhlífinn, fjölhæfur og nokkuð naskur þegar kemur að því að leggja upp mörk. Ekki ósvipað og Dirk Kuyt sem var sívinnandi. Held að liðið sé jafnvel betra með hann innanborðs þó einhver meiri tæknitöll séu að kalla á byrjunarliðssæti. Finnst líka alltaf hálf asnalegt, á tímabili með allt að 60 leikjum (+ landsleikjum fyrir landsliðsmenn), að tala um 11 manna byrjunarlið. Miklu nær er að tala um 14-16 manna kjarna sem spilar megnið af leikjunum og dreifir þannig álaginu.

Podcast – Coutinho er Pete Best

Kvennalið Liverpool