Spá Kop.is – fyrri hluti

Þá er komið að því krakkar mínir!

KOP.IS – pennar eru búnir með spána sína í ár!!!

Eins og fyrri ár ætlum við að rúlla yfir það hvernig við spáum um lokastöðu ensku deildarinnar vorið 2019. Við röðum allir liðunum upp í sætin frá 1 – 20 og fá þau “öfuga stigatölu”, þ.e. liðið í 1.sæti fær 20 stig og það í 20.sæti 1 stig. Við leggjum svo stigin saman til að búa til þessa sameiginlegu spá okkar.

Ég held að við séum ekkert að fara yfir okkar spádómsgáfur í gegnum árin, enda þetta algerlega til gamans gert, en þó henti það í fyrra í fyrsta sinn að lið vann þessa spá með fullu húsi stiga. Um var að ræða Manchester City lið sem að setti svo met að vori…svo að eitthvað vissum við þá!

Dembum okkur í þetta, við vorum 8 sem spáðum svo hæsta mögulega stigaskor var 160 stig en það minnsta 8 stig. Eins og venjulega skiptum við í tvo hluta og byrjum á 11. – 20.sæti…neðan frá.

20.sæti Cardiff City 15 stig

Hæ Neil minn Warnock og bless Neil minn Warnock. Við þekkjum öll boltann hjá Warnock sem er sennilega ýktasta long-ball útgáfan af fótbolta með djúpum varnaleik og honum öskrandi brjáluðum á hliðarlínunni. Vissulega er okkar ástkæri landsliðsfyrirliða á meðal leikmanna Welska liðsins en það er bara ekki nóg til að við öðlumst trú á lið sem öskrar á okkur Championship gæði.

19.sæti Huddersfield 19 stig

Lærisveinar David Wagner voru í frjálsu falli eftir áramót í fyrra en héldu sér uppi á góðum fyrriparti. Við höfum töluverða trú á að þeir muni verða fórnarlamb “second season syndrome” og vanti einfaldlega gæði til að ná að vera áfram á meðal þeirra bestu. Wagner hefur þó unnið aðdáunarverða vinnu og alls ekkert víst að hann fari niður með þeim…er jafnvel dark horse að fá stærra lið ef einhver yrði rekinn.

18.sæti Brighton 39 stig

Ef við lesum í stigatöluna má telja nokkuð ljóst að við erum allir á því að Cardiff og Huddersfield ströggli en það er töluvert stökk upp í næstu lið. Brighton fær þriðja sætið í spánni okkar en það skiptist til helminga okkar á milli, helmingur telur þá bjarga sér og helmingur spáir falli. Hughton er að reyna að láta þetta lið spila fallegan fótbolta og á liðnu tímabili tókst það nokkuð vel. Þeir hafa í sumar keypt erlenda leikmenn, lítt þekkta, frá meginlandi Evrópu svo kokteillinn á að verða svipaður. Við semsagt teljum að hann verði súr að lokum.

17.sæti Southampton 41 stig

Við semsagt teljum að nágrannar Brighton á suðurströndinni verði í sætinu ofan við þá, naumlega…ræðst líklega bara í síðustu umferð og þar munu mörk Danny Ings skipta þá miklu máli. Mark Hughes hefur átt í bölvuðu basli sem stjóri undanfarin ár og þarf virkilega að fara að beygja upp á við en satt að segja þá virkar það ekki þannig að klúbburinn sé á réttri leið og kaupin í sumar (utan Ings) eru á leikmönnum sem eru frekar lítt þekktir og ekki með mikla reynslu í toppfótbolta, þó má vissulega nefna hafsentinn Jannik Vestergaard sem leikmanns sem horfa má til. Dýrðlingarnir rétt sleppa við fall og líklega verður Hughes ekki til loka tímabilsins þar!

16.sæti Fulham 49 stig

Nýliðarnir frá London munu verða í fallbaráttu en halda sér uppi. Jean Michael Seri, André Schurrle, Alexander Mitrovic…allt býsna öflug kaup hjá nýliðunum sem geta sótt í digra sjóði eigandans aftur í janúar ef þarf til. Áhugaverður knattspyrnustjóri, Slavisa Jokanovic vill að liðið spili hraðan sóknarfótbolta og innan þeirra raða er eitt mesta efni enska fótboltans, Ryan Sessegnion, sem hefur m.a. verið orðaður reglulega við Liverpool í gegnum tíðina. Vert er svo að muna að Fulham er eitt “Íslendingaliðanna” í deildinni, Jón Ágúst Þorsteinsson hefur farið mikinn með unglingaliðum félagsins og eygir von um að vera í leikmannahópnum í vetur. Það yrði skemmtilegt!

15.sæti Crystal Palace 51 stig

Rétt ofan við Fulham er annað Lundúnalið, lærisveinar Roy Hodgson hjá Palace og mótherjar í okkar fyrsta útileik í vetur. Selhurst Park er einn erfiðasti útivöllurinn að fara á, gríðarlegur hávaði frá áhorfendum, gamaldags þröngur völlur tilvalinn fyrir Woy-boltann. Palace héldu Zaha sem skipti þá miklu máli og náðu í feitan bita á miðjuna þegar þeir náðu í Max Meyer á frjálsri sölu, hann ásamt Kouyaté sem kom frá West Ham mynda saman nokkuð sterka miðju. Þeir verða ólseigir alla leið í gegn og munu ná í þau úrslit sem þurfa til að halda sæti á meðal þeirra bestu áfram. Þrátt fyrir stjórann….

14.sæti Watford 53 stig

Í svipaðri stöðu og liðin tvö á undan. Útborgarlið frá London sem spilar kraftabolta. Misstu Richarlison yfir til Everton í sumar…reynar fyrir svakalegan pening, keyptu Deulofeu í staðinn og í raun lítið annað. Javi Garcia stjórnar hringekjunni að þessu sinni en það er eitt minnsta atvinnuöryggi fyrir stjóra deildarinnar að stýra Watford enda býsna skrautlegir eigendur þar á ferð. Watford heldur sínum kjarnamönnum eins og Deeney, Caboue og Kaboul og mun sleppa nokkuð örugglega við fall að okkar mati.

13.sæti Bournemouth 56 stig

Ævintýrið hans Eddie Howe heldur áfram og suðurstrandardrengirnir hans verða örugglega áfram í deildinni, vissulega skammt undan botnsins en samt með mörg lið fyrir neðan sig. Það er auðvitað ekkert vit að lið með 12500 manna heimavöll í smáborg nálægt risum haldist í þessari deild en þannig er það nú samt…og þar á stjórinn klárlega stærstan heiðurinn. Í raun er hálfgert blaðamál að hann hafi enn ekki verið veiddur yfir í stærra lið og hreinlega hlýtur að fara að gerast. Stóru kaup sumarsins voru í kólombíska varnarmiðjumanninum Jefferson Lerna en eins og hjá Watford liggur kraftur Bournemouth í samheldum leikmannahóp sem hélt sínum nöfnum í sumar og stjóra sem veit nákvæmlega hvernig á að ná út úr þeim því besta!

12.sæti Newcastle 59 stig

Newcastle verða um miðja deild. Fyrir því er ein ástæða…Rafael Benitez. Ef hann gefst upp á þeim sirkus sem er í kringum eiganda félagsins og ótrúlega lélegum afrakstri á leikmannamarkaðnum undanfarin ár verður leiðin niður greið. Það er í raun magnað að Rafa sé þarna enn og segir bara mest um það hversu hátt hann metur félagið sjálft og umgjörð þess, þ.e. áhorfendur og borgina. Hann þurfti í sumar að horfa til frjárlsra sala og kaupa undir 10 milljónum punda og um leið selja leikmenn á móti. Rafa hefur náð í óslípaða demanta sem falla inn í leikstíl hans í gegnum tíðina og honum mun takast það áfram. Vá hvað Newcastle gætu náð langt með því að bakka kappann upp á markaðnum!

11.sæti Burnley 75 stig

Eftir nokkuð þéttan pakka frá 12 – 16 teljum við Burnley verða nokkuð ofan við hann, en þó í neðri hlutanum. Evrópuævintýrið og það að “surprise”-faktorinn er horfinn frá Turf Moor mun sjá til þess að eilítið skref verður tekið til baka en þó mun klúbburinn sigla lygnan sjó. Jóhann Berg verður í lykilhlutverki hjá Sean Dyche í vetur en stjórinn sá hefur náð flottum árangri. Í sumar bætti hann við tveimur leikmönnum, Ben Gibson og Matej Vydra, en þeir voru lykilmenn í góðum Championshipliðum síðasta vetur og svo splæsti hann í Joe Hart á síðustu dögum gluggans. Lykilatriðið var að halda mannskapnum sem gerði svo vel í fyrra og það tókst. Burnley verða í fínum málum og halda áfram að festa sig í sessi í toppdeildinni…en svo selja þeir Jóa fyrir metfé næsta vor eftir flottan vetur!

Þar með er fyrri hluti spár okkar opinber – sá síðari (sem upplýsir trú okkar á Liverpool FC líka) birtist á morgun áður en fyrsta upphitun leiktímabilsins dettur í hús…

ÞETTA ER ALLT AÐ FARA AÐ GERAST KRAKKAR!!!!

19 Comments

 1. Áhugavert hvað menn hafa mikla trú á Wolves og Fullham, en mín spá er svona:

  1. Liverpool: er alls ekki hlutlaus en tel liðið eiga meiri möguleika á titlinum núna en í mjög langan tíma.
  2. City: taka annað hvort titilinn eða annað sætið.
  3. Tottenham: sama lið sama niðurstaða.
  4. ManU: hafa litið sem ekkert styrkt sig, Mourinho búinn að brjóta móralinn en það eru enginn geimvísindi að leggja rútunni.
  5. Arsenal: hafa bætt sig í mörgum stöðum en hafa bara ekki bætt sig nóg.
  6. Chelsea: fara aftur í fjögurra manns vörn og þeir eru bara of hægir til þess að spila þannig, sást vel þegar Conte stillti liðinu þannig upp seinast.
  7. West Ham: hafa gert góð kaup og eru með fínan þjálfara og spila frekar stöðugan Volta eftir rassskellingu í fyrsta leik.
  8. Everton: vonandi fær Gylfi að spila sína stöðu.
  9. Leicester: misstu Mahrez en héldu Maguire og Vardy.
  10. Wolves
  11. Burnley
  12. Newcastle
  13. Fullham
  14. Crystal Palace
  15. Bournemouth
  16. Brighton
  17. Watford
  18. Southampton
  19. Huddersfield
  20. Cardiff

 2. ég tel að southampton, burnley og cardiff falli.. hugsa að evrópudeildin verði of stór biti fyrir burnley og það eigi eftir að koma niður á deildinni.

 3. Ég mæli með prodkastinu hjá Rauðu Djöflunum. Vil hrósa þeim fyrir að vera mjög málefnalegir og raunsæir en það er dásamlegt að heyra hvað þeir eru svartsýnir . “Salah er óþolandi næs náungi” og þeir hljóma eins þeir séu að vakna úr værum draumi og horfast í augu við kaldranalegan veruleikann. Komnir með áhyggjur af því að fyrrum leikmenn Barcelona eru farnir að tala fallega um Paul Pogba, Man Und er ekki lengur einn af stærstu klúbbum í heimi og eyða dágóðum tíma að tala um hver gæti verið hentugur eftirmaður Mourinho. Þetta hljómar dálítið kunnulegt stef og minnir mig óneitanlega á andrúmsloftið hjá aðhangendum Liverpool, rétt áður en Brendan Rodgers var rekinn.

  Ég skil þá mjög vel og eiga samúð mína alla.

  Besta skemmtun í morgunsárið.

 4. 1. Man City – Langbesta liðið í fyrra búið að kaupa Mahrez og endurheimta Mendy úr meiðslum.
  2. Liverpool – Einum leikmanni frá titlinum að mínu mati, finnst vanta einhverja breidd í sókn og vörn. Veitum samt City meiri keppni en þeir fengu í fyrra.
  3. Chelsea – Geggjuð miðja, minna spennandi sókn
  4. Tottenham – Spennandi tímar með nýjan völl en þeir ná 4. sætinu naumlega, spái styrkingu í janúar. Veltur mikið á því að Eriksen og Kane verði heilir
  5. Man Utd – Kannski óskhyggja, hef trú að Morinho verði ekki við stjórn í lok tímabils þótt ég óska United að hann verði þarna sem lengst
  6. Arsenal – Finnst þeir ekki hafa bætt sig nóg miðað við leikmannakaup. Aubameyang og Ozil gætu fleytt þeim ofar ef þeir standa sig vel
  7. Everton
  8. Wolves – Benfica að spila undir merkjum Wolves á Englandi. Gæti gengið ágætlega
  9. West Ham
  10. Fulham – Hef trú á Fulham, verður skemmtilegt að horfa á þetta lið.
  11. Leicester – Brotthvarf Mahrez verður dýrt
  12. Burnley
  13. Southampton
  14. Crystal Palace
  15. Newcastle – Ef RB væri ekki við stjórn, þá væri þetta eflaust fall miðað við mannskap.
  16. Brighton
  17. Watford
  18. Bournemouth – Ævintýrið endar í vor. Hef ekki mikla trú á kaupunum þeirra
  19. Huddersfield
  20. Cardiff – Ekki næg gæði

 5. Það svona lítur út að Everton komi til með að geta slegist um evrópusæti, hafa styrkt sig held ég svona sæmilega. Burnley sigla sennilega lygnan sjó um miðja deild, þó neðar en 10 sæti, segjum 10-15. Cardiff er svona þetta óskrifaða blað, þó ekki. En vonandi eru öskubusku æfintýrin ekki liðin undir lok, fyrirliðans vegna.

  YNWA

 6. Held að menn ættu að taka því rólega að afskrifa ManU og Móra . Þetta er hörku mannskapur með DeGea, Martial, Mata, Matic, Sanchez, Pogpa, Lukaku osfr. Þeir spiluðu ömurlegan bolta í fyrra en einhvernvegin náðu þeir 2 sæti.

  Mourinho er óútreiknanlegur og má ekki afskrifa þann djöful. En mikið vona ég innilega að þetta fari allt beinustu leið til fjandas hjá honum. Versta við það væri reyndar að góður stjóri gæti gert virkilega flotta hluti með þetta lið.

 7. Mér finnst það ekki vera til fyrirmyndar að taka þátt í að uppnefna fyrrum stjóra liðsins. Roy heitir Roy þótt hann beri það öðruvísi fram. Það vantar nú ekki upp á að hægt sé að skjóta á manninn og ég veit að þið getið skotið betur en að gera grín að framburðarvandamáli mannsins.

  Annars bara takk fyrir mig og ég hlakka til að lesa seinni part!

 8. Mér finnst menn hérna bera mjög svo óttablandna virðingu fyrir utd. Ef þeir ná á topp 4 þá verður það útaf því að þeir styrkja sig mjög mikið í janúar eftir mikið væl móra.

  1 Man City
  2 Liverpool
  3 Tottenham ( Ef Kane verður heill)
  4 Chelsea
  5 Arsenal
  6 man utd
  7 West Ham
  8 Wolves
  9 Newcastle ( Bara útaf góðum stjóra)
  10 Everton
  11 Fulham
  12 Burnley
  13 Leicester
  14 Crystal Palace
  15 Southampton
  16 Watford
  17 Brighton
  18 Bournemouth
  19 Huddersfield
  20 Cardiff

 9. Er ekki skrýtið að 2 dögum fyrir leik þá eru hvorki Alison né Fabinho ennþá komnir með númer og það er ekki hægt að kaupa treyjur með þeirra nafni í opinberu búðinni.

  Eftir hverju er verið að bíða.

 10. #3 Brynjar

  Takk fyrir að benda á podcast rauðu djöflana, eins og þú réttilega bentir á þá er þetta hin besta skemmtun að hlusta á þá í sínu svartsýnisrausi þessa dagana. Lifi það sem lengst.

 11. Man utd eru að vinna 1-0 í hálfleik gegn Leicester en gestirnir hafa verið betri í leiknum. Þetta er svona Móra leikur. Sigra 1-0 (kannski 2-0), spila ekki vel eru mikið í vörn en það breyttir engu á meðan að 3 stig koma í hús og já auðvita fengu þeir víti á heimavelli.

  Það sem maður tekur samt mest eftir er Maddison hjá Leicester, þessi strákur á eftir að stopa stutt hjá þeim og fara í top 6 lið eftir þetta tímabil.

Sumarglugginn 2018

Spá Kop.is – síðari hluti