Æfingahópur í upphafi tímabils

Eftir óvenju mikla athygli á öðrum fótbolta en enskum nú í sumar þar sem maður gekk svo langt að horfa á fótbolta í bláum búningi mæta okkar menn til æfinga núna á þriðjudag, þann 2.júlí.

Yfirleitt er það þannig á stórmótsári að ansi stór skörð eru í æfingahóp Liverpool en þetta árið er þessu þó miklu betur farið en oft áður. Bæði er það að töluvert er um að í okkar hópi séu leikmenn sem hafa ákveðið að gefa ekki kost á sér í sín landslið, voru ekki valdir eða að liðin þeirra voru ekki með í Rússlandi. Það er ekki úr vegi að skoða nánar þennan hóp sem mætir á Melwood á þriðjudaginn, bæði skoða lykilmennina sem eru á svæðinu en líka þá sem eru að snúa til baka úr láni eða á leið upp úr unglingaliðunum. Draga saman leikstöðurnar, hverjir verði þar áfram, hvort reikna mætti með að einhverjir þaðan hverfi á braut og þá hvort styrkingar er þörf.

Rúllum af stað, enda stutt í fyrsta leik sem er við Chester City laugardaginn 7.júlí.

Markmenn

1. Loris Karius – 34. Adam Bogdan – 52. Danny Ward (Simon Mignolet í HM-leyfi)

Ungir: Kamil Grabara – Shamal George

Hefjum leik á hanskaþjóðinni sem mun væntanlega telja þrjá í aðalliðshóp plús einn ungan með aðkomu að Melwood, þannig hefur Klopp sett þetta upp. Satt að segja þá er óvissan mikil um þessa leikstöðu og stóra verkefnið þeirra þriggja sem hafa númer er ólíkt. Karius hefur verið ræddur í þaula og koma verður í ljós hvort hann á innkomu eftir mörkin gegn Real, þar sýnist sitt hverjum. Danny Ward er líklega besti þriðji markmaðurinn í enska boltanum og verkefni hans í sumar hlýtur að verða að komast ofar í röðina eða þá yfirgefa félagið. Hann mun fá mínútur í leikjunum í júlí án vafa og þær munu líklega ráða framhaldi hans.

Við erum svo enn með Adam Bogdan á samningi (til 2019) en ljóst er að enn eitt árið munum við reyna að koma honum út og til annars liðs. Það er ekkert víst að það takist og þá fær hann að klára samninginn, enda á góðum launum og glaður að fá að æfa hjá liðinu sýnist manni.

Kamil Grabara
Ungu mennirnir tveir eru annars vegar Pólverjinn Grabara og enski unglingurinn Shamal George. Þeir hafa skipt með sér U23ja leikjunum undanfarin ár og munu því væntanlega fá að æfa með Achterberg nú í upphafi leiktímabilsins. George fór í lán á síðasta vetri og líklegt þykir mér að hann verði á þeim vagninum aftur í vetur. Annað mál er held ég með Kamil Grabara. Þar er á ferð mikið efni sem gæti hæglega tekið stöðu þriðja markmanns hjá klúbbnum held ég. Stór og stæðilegur markmaður sem er óvenju fljótur á fótunum miðað við það og býsna góður að koma boltanum í leik. Hann mun fá mínútur og er líklegur til að velgja Ward duglega undir uggum.

Í HM-fríinu er Simon Mignolet. Ég held að ljóst sé að hann og Karius verði ekki báðir í klúbbnum og í því ljósi held ég að Liverpool muni kaupa markmann, hvort sem það verður risi eins og Allison sem slær Karius út eða þá annan sem verður með Þjóðverjanum í að slást um aðalstöðuna. Spennandi staða uppi en í fyrstu leikjunum munu Karius, Ward og Grabara skipta á milli sín mínútum.

Niðurstaða:

Loris Karius og Kamil Grabara verða áfram auk þess sem markmaður verður keyptur. Danny Ward og Simon Mignolet verða seldir, Shamal George (skammtíma) og Adam Bogdan (langtímalán) verða lánaðir í burtu, þann tíma sem George verður í burtu mun Írinn Caoimihn Kelleher fá að æfa á Melwood og spila með U23ja ára liðinu.

Varnarmenn

2. Nathaniel Clyne – 4. Virgil Van Dijk – 12. Joe Gomez – 17. Ragnar Klavan – 18. Alberto Moreno – 26. Andy Robertson – 32. Joel Matip – 56. Conor Randall (TAA og Dejan Lovren í HM-fríi)

Ungir: Conor Masterson – George Johnston – Corey Whelan

Það er morgunljóst að það er gríðarsterk varnarlína sem að mun verða við æfingar strax frá fyrsta degi. Sem er jú alveg frábært því ég hel að það muni hjálpa bara töluvert að geta teiknað enn betur upp þann hluta leiksins. Í raun er bara einn þarna sem er örugglega að fara, það er hann Conor Randall sem hefur verið að fara burt á láni undanfarin ár og mun skila einhverri milljón punda í kassann. Að auki eru nú uppi fréttir um það að Ragnar Klavan vilji skoða sína stöðu betur og það er nú alveg skiljanlegt, búinn að vera lykilmaður í öllum liðum þangað til undanfarin tvö ár en væri flottur kostur áfram númer 4 – 5 í okkar hópi og mun líklega fá mínútur í leikjunum í júlí.

Sumarið verður kærkomið fyrir Nathaniel Clyne sem missti allt síðasta tímabil í rauninni. Í millitíðinni hefur hann í raun misst stætið sitt til unglingsins Trent Alexander Arnold og það verður gríðarlega mikilvægt fyrir hann að nýta sín tækifæri í æfingaleikjunum. Í þeim munum við líklega einnig sjá Joe Gomez í hafsentastöðu sem var sú staða sem hann var keyptur til að spila í þó hann hafir meira verið nýttur sem bakvörður hingað til. Í fjarveru Dejan Lovren fær hann að spila með Virgil sér við hlið og það verður spennandi að fylgjast með þeirra samstarfi. Joel Matip hefur misst mikið af leikjum vegna meiðsla frá því hann kom en ég held að hann verði áfram partur af hópnum þó óvíst sé að hann verði tilbúinn í það aukahlutverk sem mér sýnist honum ætlað. Vinstri bakverðirnir tveir munu rúlla á milli sín mínútum. Eitthvað hefur frést af því að mögulega verði Moreno látinn fara þar sem aðeins eitt ár er eftir af samningnum hans en á móti eru sterkari raddir sem segja að við séum að framlengja samninginn við hann.

Conor Masterson
Við munum fá að sjá unga menn. Corey Whelan var fyrirliði U23ja ára liðsins í vetur og var síðan í janúar lánaður til Yeovil þar sem hann spilaði töluvert. Hann var lengst af hafsent en hefur upp á síðkastið spilað hægri bakvörð, þar fáum við að sjá hann leysa Clyne af þangað til TAA kemur til baka. Conor Masterson er tvítugur írskur hafsent sem hefur æft á Melwood allt árið 2018 og verið í leikmannahóp í Meistaradeildinni. Hann mun fá mínútur í sumar og ef hann nýtir þær vel gæti vel farið svo að hann fengi mínútur í vetur. Til að velja “outsider” af þeim ungu skelli ég inn hugmynd um að George Johnston fái mínútur. Getur leyst bæði stöðu hafsents og vinstri bakvarðar, grjótharður Skoti sem gæt vel náð að grípa auga þjálfarateymisins…en er þó líklegur á lánamarkaðnum næsta vetur.

Niðurstaða:

Clyne verður með TAA í bakverði næsta vetur, Joe Gomez fær hafsentspláss með Virgil og Lovren, Ragnar leitar á önnur mið og við kaupum hafsent sem gæti þýtt að Matip hugsi sinn gang. Moreno fær nýjan samning og verður bakvörður með Robertson. Corey Whelan verður lánaður í ágúst, Masterson spilar með okkur og fær mínútur í deildarbikar, Johnston spilar með U23 fram í janúar og lánaður þá.

Miðjumenn

5.Gini Wijnaldum – 7. James Milner – 8. Naby Keita – 20. Adam Lallana – 40. Ryan Kent – 50. Lazar Markovic – 54. Sheyi Ojo – 58. Ben Woodburn – 68. Pedro Chirivella – Fabinho (Jordan Henderson og Marko Grujic í HM fríi, Ox meiddur út árið)

Ungir: Rafael Camacho – Curtis Jones – Bobby Adykanye

Hér verður svo sannarlega veisla að fá að fylgjast með. Við erum strax í æfingaleikjunum með mikil gæði á miðjunni. Fyrst auðvitað verður geggjað spennandi að sjá Fabinho í dýpinu í fjarveru Hendo og svo mun þindarleysinginn Gini verða við hlið Naby Keita eða Ben Woodburn…og svo er það stoðsendingakóngurinn James Milner og vonandi heill Lallana…það kannski segir eitthvað um hann (eða mig) að ég gleymdi honum í upptalningunni hér en bæti umræðu um hann nú við eftir góða athugasemd hér að neðan. Adam hefur orðið verra meiðslahlutfall á sínum LFC ferli en Sturridge karlinn, það þarf að breytast því við vitum allir um hæfileika hans. Allir þessir munu spila mikið í æfingaleikjunum, en að auki finnst mér líklegt að við fáum að sjá allnokkrar mínútur hjá Pedro Chirivella, 21s árs Spánverja sem lék lykilhlutverk í láni hjá Willem II í Hollandi í vetur. Það er enn alveg séns fyrir hann að eiga feril hjá Liverpool, Klopp sendi lykilnjósnara sína að horfa á hann og mun gefa honum tækifærið. Það sam verður líklega ekki sagt um Kent, Markovic og Ojo sem allir áttu í basli síðasta vetur í sínum lánssamningum. Við fáum mögulega að sjá þá í fyrstu æfingaleikjunum…en það verður til þess að hægt verði að selja þá.

Curtis Jones
Af þeim ungu verður mjög líklegt að við sjáum Curtis Jones töluvert. Þessi 17 ára strákur er klárlega sá mest spennandi þeirra ungu hjá klúbbnum núna. Gríðarlega vinnusamur og grjótharður leikmaður, box-to-box miðjumaður sem skorar mörk og vinnur tæklingar. Ég hef alla trú á því að hann fái fullt af mínútum í æfingaleikjunum og ef hann nýtir þær vel mun hann verða hluti af aðalliðshópnum í vetur og fá mínútur þar. Rafa Camacho og Bobby Adykanye hafa báðir fengið töluvert að æfa á Melwood í vetur og munu fá mínútur í fyrstu leikjunum, sóknartýpur frekar en hreinræktaðir miðjumenn sem hafa gaman af því að taka menn á.

Niðurstaða:

Markovic, Kent og Ojo verða losaðir af launaskrá. Woodburn eða Chirivella fá pláss í aðalliðshópnum í vetur og hinn fer í lán hjá stóru liði. Gini, Fabinho, Hendo, Keita og Milner verða miðjan okkar næsta vetur að stærstum hluta, vonandi heill Lallana líka. Grujic verður líklega lánaður í heilt ár frekar en seldur og ég held að Curtis Jones verði hluti hópsins. Við kaupum ekki fleiri inn á miðjuna og Camacho og Adykanye verða í U23 og síðan lánaðir. Ox verður svo klár vonandi í janúar.

Framherjar

15. Daniel Sturridge – 27. Divorck Origi – 28. Danny Ings – 29. Dom Solanke – 59. Harry Wilson (Sadio Mané – Mo Salah og Bobby Firmino í HM fríi)

Ungir: Taywo Awoini – Rhian Brewster – Glen McAuley

Hérna verður líklega allfróðlegast að horfa á æfingaleikina! Þegar þetta er skrifað lítur út fyrir að Danny Ings verði farinn frá félaginu og ekki þykir mér heldur líklegt að við sjáum mikið meira til Daniels míns Sturridge í alrauða búningnum. Svo þangað til að við sjáum “The golden trio” á ný munum við sjá í framlínunni menn sem verða að berjast hart fyrir því að vera í aðalliðshóp LFC næsta tímabil. Þar verður Dom Solanke fremstur í röðinni eftir fínan endapunkt á síðasta tímabili en ég held að við sjáum líka Harry Wilson og Divorck Origi fá fullt af mínútum í fyrstu æfingaleikjunum.

Af ólíkum ástæðum þó. Origi hlýtur að horfa til þess að fá stórt hlutverk í aðalliðshópnum hjá okkur eða fara annars varanlega frá klúbbnum en ekki á láni á meðan að Wilson mun vilja sanna það fyrir Klopp að hann geti átt hlutverk í 17 – 22 númerunum í róteringunn í vetur. Ég hlakka mikið til að sjá til þeirra, Origi átti mjög erfitt í Þýskalandi í vetur og verður einfaldlega að standa sig hrikalega vel ef hann á að fá eitthvað annað hlutverk en að styrkja peningakassann en Wilson átti frábært lánstímabil með Hull eftir að hafa verið langbesti leikmaður U23ja um nokkurt skeið. Hann hefur gríðarlega hæfileika en þarf auðvitað að sýna þá með aðalliðinu og mun fá til þess möguleika í júlí sem hann verður að taka…annars verður hann lánaður til stærra liðs en Hull City.

Rhian Brewster
Af ungu mönnunum er ljóst að Rhian Brewster mun fá mínútur. Hann skrifaði í sumar undir samning og það hefði hann alls ekki gert nema að fá sterkar vísbendingar um það að hann yrði hluti aðalliðsins. Þessi strákur er mikið efni, þrátt fyrir að vera frekar léttur er hann helvíti harður í viðskiptum með mikla alhliða tækni, góðan hraða og heilmikið markanef. Hann verður látinn spila þessa æfingaleiki í byrjun og líka þegar líður lengra fram á sumarið til að sjá hvort hann er tilbúinn í að verða í alvörunni hluti aðalliðsins í vetur, það verður mjög spennandi.

Sá sem langbesta mótið gerði í lánabransanum í vetur var Taywo Awoniyi, 21s árs nígerískur framherji sem eyddi síðasta tímabili í láni hjá Mouscron í Belgíu, skoraði þar 9 mörk og lagði upp önnur 7 í 29 leikjum. Hann hefur verið lánaður út síðustu þrjú tímabil til liða á meginlandinu og gengið nokkuð vel. Hann mun nú fá mínútur í æfingaleikjum til að það sjáist hvort það verður mögulega hann sem gæti hirt “rotation spot” næsta vetur, verður annars seldur.

Wildcardið er svo hann Glen McAuley, 18 ára írskur strákur sem er senter af gamla skólanum og hefur raðað mörkum fyrir yngri liðin. Við sjáum hann örugglega fá smá blóð á tennurnar í þessum leikjum núna í sumar til að gera hann enn hungraðri í að ná árangri.

Niðurstaða:

Hér er leikstaða sem ég tel líklegast að verði styrkt. Ég hef ekki trú á því að Origi nái að vinna sér sess hjá klúbbnum á ný og verði seldur og hver þeirra Wilson, Brewster, Solanke og Awoniyi sem ná að spila vel í sumar held ég að þar fari bara tvö sæti sem fá mínútur í hópnum. Ég er nokkuð viss um að Solanke fær annað þeirra og í dag tippa ég á Wilson sem hitt sætið…sem yrði svo til þess að Brewster verði lánaður í Championshipdeildina en Avoniyi verði seldur til meginlandsins á ágætan pening. Ings og Sturridge fara. Hver verður svo keyptur…það kemur í ljós, óskalistinn minn kemur síðar.

SAMANTEKT

Semsagt, menn mæta á æfingar og spila svo fjóra leiki á 12 dögum í nágrenni Liverpool þar sem við fáum líklega að sjá þennan leikmannahóp sem ég hef farið yfir.

Mitt mat í dag er það að við fáum nýjan markmann og framherja, mögulega hafsent, áður en tímabilið hefst. Við munum sjá unglingana Curtis Jones og Harry Wilson fá stærri hlutverk næsta tímabil en töluverð hreinsun verður í júlí og fram í ágúst. Mér finnst líklegt að Mignolet, Ward, Klavan, Kent, Ojo, Sturridge, Ings, Origi og Avoniyi muni svo hverfa varanlega á braut.

Allavega. Fyrstu æfingar sumarsins eru alltaf frábær áminning um það að það styttist í veislu næsta vetrar.

YFIR ÞVÍ BER AÐ GLEÐJAST!

14 Comments

  1. Bobby Duncan á víst að vera svipað mikið efni og Brewster svo við sjáum hann líklega er það ekki? Vona að Origi geti verið bekkjarsetumaður til að koma inn í þeim fáu leikjum sem okkur er ekki að takast að brjóta varnarmúr liða, stór og hraður og getur(þegar hann er með hausinn rétt skrúfaðan, ekkert alltof oft) breytt leiknum eitthvað og fært okkur annað en okkar heilaga þrenning gerir.
    Það er sárt að segja það en mikið vona ég að Sturridge hverfi á braut í sumar. Maðurinn virðist algjörlega búinn á því bæði andlega og líkamlega. Hann spilaði ekkert fyrir West Brom á láni og vill greinilega bara hanga í Bandaríkjunum á NBA leikjum á milli þess sem hann segist vera blessed af einhverjum guði…

  2. Virkilega áhugaverð lesning.

    En raðast Oxlade Chamberlain ekki einhversstaðar þó meiddur sé?

  3. Vá!!!

    Lallana minn, geggjaður fótboltamaður sem ég einfaldlega bara hafði ekki í kollinum, bætti honum inn eftir athugasemd þína goa, takk fyrir það.

    Af því ég var mest að tala um sumarið kippti ég ekki Ox inní þennan pistil en skutla honum svo stuttlega inn.

    Svo kom tilkynning um hverjir mæta á Melwood fyrsta daginn…sést hér:

    https://www.thisisanfield.com/2018/06/liverpool-fc-confirm-26-man-squad-for-first-day-of-pre-season-training/

    Adekanye, Avoniyi og Bogdan eru ekki þar og ætti að vera sterk vísbending um að þeir hverfi frá…

  4. Winjaldum og Djik fá að minnstakosti viku lengra frí af því að þeir tóku þátt í landsleikjum eftir að tímabilinu lauk.

  5. Hvað segirðu Maggi, hvað er málið með Ojo? Var mikið látið með hann sìðustu 2-3 árin. Lùkkaði drullu vel þegar hann fékk smá séns með aðalliðinu. Hefur þròun hans staðnað? Meiddist hann ekki illa ì fyrra eða eitthvað?

  6. Frábær grein!

    Varðandi leikmannahópinn okkar að þá mun ég slá grasið næst nakinn ef við nælum okkur í Marco Asensio! 150 milljónir punda hljómar fullorðins kaup og ber þess merki að liðið okkar er komið þarna upp í þennan flokk, à nýjan leik.

  7. Er ekki málið að kaupa bara Casper Smeichel í markið hann er frábær markmaður sem þarf að komast í stórann klúbb.Hann varði þrjár vítaspyrnur áðan og er búinn að halda Dönum á floti á VM og það var ekki honum að kenna hvernig fór í kvöld.

  8. “Rúllum af stað, enda stutt í fyrsta leik sem er við Chester City laugardaginn 7.ágúst.”
    Nokkuð viss um að Chester sé núna um næstu helgi en ekki eftir mánuð 😉

  9. Góðar fréttir í morgunsárið. Salah búin að skrifa undir nýjan langtímasamning ?

  10. (Rúllum af stað, enda stutt í fyrsta leik sem er við Chester City laugardaginn 7.júlí.)

    #10 hvert ertu að fara með þessu 7 ágúst. var einhver að skirfa það einhverstaðar ?

  11. hahaha slakaðu þér Kaldi 🙂
    Þetta stóð í pistlinum, Maggi er búinn að laga það 😉

  12. Sannspár allavega um markmennina svona fyrsta kastið, Bogdan kominn á lán allt tímabilið…Kelleher verður með aðalliðinu að æfa.

Vandræðastaðan

Salah skrifar undir nýjan samning!