Uppgjör 2017/2018

Það hefur oft verið þyngra að gera upp tímabilið heldur en 2017/18. Hver og einn velur sína topp þrjá bestu leikmenn í þeim flokkum sem það á við. Sá sem er efstur fær þrjú stig og þar sem við pennar síðunnar erum níu er mest hægt að fá 27 stig.


Leikmaður tímabilsins
 1. Salah (27)
 2. Firmino (17)
 3. Mané (6)

Afskaplega auðvelt val að þessu sinni og Salah með fullt hús stiga, Firmino afgerandi næst bestur og Mane auðvitað þriðji.  Van Dijk og Robertson fengu líka atkvæði í 3.sæti.


Bestu leikmannakaupin
 1. Salah (27)
 2. Van Dijk (15)
 3. Robertson (11)

Þetta hefur líklega aldrei verið eins afgerandi hvað bestu kaup tímabilsins varðar þó Van Dijk hefði líklega verið efstur flest önnur tímabil.  Andy Robertson fór síðan fram úr öllum væntingum. Með Ox bætti Liverpool hópinn um fjóra sterka leikmenn sem er mun betra en flest tímabil.


Mestar framfarir
 1. Alexander-Arnold (24)
 2. Robertson (14)
 3. Lovren (8)

Þetta var tímabilið sem Alexander-Arnold steig upp og eignaði sér hlutverk í aðalliðinu. Andy Robertson féll með Hull fyrir ári en er nú talinn einn besti vinstri bakvörðurinn í boltanum. Dejan Lovren átti svo sitt besta tímabil í búningi Liverpool, sérstaklega eftir að Van Dijk kom í janúar.


Besti leikur tímabilsins
 1. Liverpool – Man City 3-0 (26)
 2. Liverpool – Roma 5-2 (15)
 3. Liverpool – Arsenal (6)

Meistaradeildin er eðlilega ofarlega í huga eftir þetta tímabil og þar standa uppúr heimaleikirnir gegn Man City og Roma. Stórsigurinn á Arsenal í byrjun tímabilsins rétt hefur svo 0-5 útisigurinn á Porto.


Versti leikur tímabilsins
 1. Tottenham – Liverpool 4-1 (17)
 2. Real Madríd – Liverpool 3-1 (16)
 3. Man City – Liverpool – 5-0 (16)

Það stóðu þrír leikur afgerandi uppúr þegar kom að því að velja versta leik tímabilsins. Flestir voru með Tottenham leikinn í öðru sæti sem dugar til að sá leikur fái flest stig frá okkur. En allir nema einn vorum við samt með City eða Real leikinn efstan á blaði hérna


Bjartasta vonin
 1. Trent Alexander-Arnold (27)
 2. Harry Wilson (11)
 3. Brewster (6)

Það fengu sjö ungir leikmenn atkvæði í þessum flokki sem sýnir efniviðin hjá Liverpool. Alexander-Arnold er auðvitað með fullt hús stiga eftir þetta tímabil og nokkuð ljóst að þarna er alvöru klassaleikmaður á ferðinni. Hann var líka bjartasta vonin eftir síðasta tímabil. Harry Wilson sprakk út í alvöru fótbolta eftir áramót og skrifaði undir nýjan samning. Brewster hefur svo verið í sviðsljósinu undanfarið og ljóst að honum er ætluð framtíð hjá félaginu. Solanke, Woodburn, Gomez og Jones komust einnig á blað.


Hvaða einkunn fær tímabilið hjá Liverpool

7,8 – Rosalega margt jákvætt við leik Liverpool í vetur og 7,8 í meðaleinkunn er nokkuð gott en þetta lið er vonandi bara rétt að byrja. Við gáfum tímabilinu á undan 7,2 svo þetta var klárlega framför.


Hvaða einkunn fær þjálfarateymið

8,2 – Flest erum við líklega sammála um að Liverpool gæti ekki verið í mikið betri höndum. Það var rosalega sárt að tapa úrslitaleiknum en ferðalag Liverpool í úrslitaleikinn og frammistaðan á leiðinni gaf sterklega til kynna að Liverpool mætt aftur til leiks meðal þeirra bestu. Fyrir ári gáfum við teyminu 7,5.


Hvaða leikmaður olli mestum vonbrigðum í vetur
Mestu vonbrigði tímabilsins almennt
Besti pundit tímabilsins hér á landi og besti erlendi
Raunhæft draumabyrjunarlið í fyrsta leik næsta timabils
Álit þitt á FSG í dag?
Næsta tímabil verður…

– Sjá nánar svar frá hverjum og einum neðar í færslu


Svona voru atkvæðin hjá hverjum og einum.


Hvaða leikmaður olli mestum vonbrigðum í vetur

Einar – Coutinho klárlega og hvernig hann fór að því að komast frá Liverpool. Hann var eins og strengjabrúða í venjubundnu leikriti Barcelona og tók þátt í öllum þeirra skítatrikkum þegar kemur að því að fá leikmenn og á ekki nokkurn skapaðan hlut inni hjá stuðningsmönnum Liverpool.

SSteinn – Coutinho ekki út af frammistöðu samt heldur hvernig hann knúði fram söluna

Maggi – Sá leikmaður sem olli mestum vonbrigðum heilt yfir í vetur var Joe Gomez. Höktandi til og frá.  Sýndi fína takta í byrjun en meiðslavesenið örugglega haft á hann áhrif.  Næsta ár algert make or break ár fyrir hann.

Óli Haukur – Philippe Coutinho, ekki spurning. Hann var frábær þegar hann spilaði og var með tólf mörk og átta stoðsendingar í þeim tuttugu leikjum sem hann spilaði. Hann var sjóðandi heitur en hann mætti ekki til leiks undir lok félagsskiptaglugga síðasta sumars vegna “meiðsla” og tók ekki þátt í forkeppni Meistaradeildarinnar. Hann mætti aftur til baka eftir að glugginn lokaði og var óaðfinnanlegur á vellinum þangað til hann opnaði aftur í janúar og varð þá skyndilega meiddur aftur og lék ekki meira með liðinu. Það voru mikil vonbrigði frá leikmanni sem maður vildi sjá áfram sem lykilmann næstu árin.

Eyþór – Það eru nokkrir sem koma til greina og af ólíkum ástæðum. Ég varð fyrir vonbrigðum með Matip, honum tókst ekki að verða sá leiðtogi sem bindur vörnina saman (byrjun tímabils). Við sjáum t.d. þann mun sem varð á vörninni með innkomu Virgil. Matip virðist einnig seint ætla að láta af þessum leiðinlega vana að vera meiddur 20 leiki á tímabili eða svo. Annars verður ekki hægt að horfa framhjá frammistöðu Karius. Ég veit að menn eiga eftir að benda á vaxandann sem var í hans leik þegar leið á veturinn, á móti er hægt að benda á að það voru alveg flögg uppi áður en kom að leiknum gegn Real. Skotið sem hann missti í slánna gegn Roma, vítaspyrnunar ofl. Þessi staða er orðin mesta vandræðastaða liðsins og verður vonandi annar maður á línunni í haust.

Maggi Þórarins – Daniel Sturridge. Hann var loksins orðinn heill í byrjun leiktíðar og mér fannst það vænleg tilhugsun að hafa slíkan lúxus á bekknum. En hann greip sín tækifæri ekkert sérstaklega þegar hann fékk þau og eftir áramót spilaði hann varla leik hjá Liverpool eða í láni hjá WBA. Þetta er leikmaður á besta aldri og með réttu ætti hann sem einn besti enski strækerinn að vera á HM í sumar, en er að enda sem verðlaus og útbrunninn meiðslapési. Og það versta er að maður er aldrei alveg viss hvort að þetta séu alvöru meiðsli líkt og hjá samlöndum hans Lallana og Clyne sem voru sannarlega óheppnir í vetur.

Daníel – Ég ætla að segja Woodburn. Og þá aðallega af því að ég hafði gert mér vonir um að hann fengi að spila talsvert meira. Hef áhyggjur af því að hann sé ekki að þroskast nóg sem leikmaður, en vona að Klopp sé með langtímaplan í huga fyrir hann.

Eiríkur – Markverðirnir Mignolet að sjáfssögðu framan af og svo þegar maður var orðinn ánægður með Karius þá kom þessi blessaði úrslitaleikur. Einnig vil ég nefna Lallana sem er alltaf meiddur og ég er hræddur um að hann gæti endað eins og Sturridge.

Hannes – Joel Matip, hélt að með þessum kaupum værum við að fá alvöru hafsent sem við fengum loks í Virgil. Hefur bæði ekki staðið undir mínum væntingum þegar hann spilar og er alltof, alltof mikið frá vegna meiðsla


Mestu vonbrigði tímabilsins almennt

Einar – Úrslitaleikurinn í Kiev klárlega, Liverpool átti skilið að vinna þessa keppni eftir spilamennsku liðsins á leiðinni til Kiev. Það er erfitt sjá hvernig úrslitaleikurinn gat spilast mikið verr fyrir Liverpool.

SSteinn – Úrslitaleikurinn að sjálfsögðu, gríðarleg vonbrigði

Maggi – Mestu vonbrigðin án vafa tap í Kiev, leikur sem tapaðist á ógeðslegan hátt og verður súr í munni alla tíð.

Óli Haukur – Að hafa farið titlalausir út úr tímabilinu. Fyrir leiktíðina horfði maður á eitt af efstu fjórum sætunum, reyna að berjast um titilinn, komast ágætlega langt í Meistaradeild og næla í eins og einn bikar. Topp fjórir náðist, við fórum alla leið í úrslit Meistaradeildar en gerðum ekki nógu vel í bikarkeppnunum – sem er kannski ekki alslæmt svona þegar öllu er á botnin hvolft. Við vildum bikar og áttum tækifæri á því að næla í einn af þessum tveimur allra stærstu sem í boði eru en því miður skilaði hann sér ekki heim í sjötta skiptið. Tap í úrslitum Meistaradeildar eru mestu vonbrigðin á tímabilinu.

Eyþór – Að enda ekki tímabilið með bikar. Við vorum svo sannfærandi í þessari keppni, í raun andstæðan við Real sem fóru í gegnum Bayern með markmannsmistökum og Juve með vítaspyrnu í uppbótartíma. Við slátruðum þeim liðum sem við mættum og vorum bara virkilega skemmtilegir allt þar til þarna í maí. Virkilega mikil vonbrigði, ekki síst í ljósi þess hvernig við töpuðum.

Maggi Þórarins – Að vinna ekki Evrópumeistaratitil nr.6. Einfalt. Þetta var ótrúlegt ævintýri sem Klopp og co. buðu upp og maður hefði ekki trúað því fyrir tímabilið enda er þetta mikið afrek. En úr því að við vorum komnir í úrslitaleikinn þá eru það alltaf vonbrigði að ná ekki að klára það með sigri. Slík tækifæri bjóðast ekki oft og mér finnst það líka sérstaklega sorglegt hversu illa Klopp gengur að ná að landa silfurgripunum þar sem að hann er svo mikill snillingur að öllu öðru leyti.

Daníel – Klárlega að hafa ekki náð að vinna meistaradeildina. Núna er Klopp búinn að tapa þrem úrslitaleikjum, eigum við ekki bara að segja að þá sé hann búinn með þann kvóta?

Eiríkur – Þó svo mér hafi engan veginn getað dreymt um að komst í úrslitaleik CL þá verð ég að nefna hann. það er hvernig hann spilaðist og hvernig ekkert féll fyrir okkur og bara virkilega erfitt að komast yfir þetta. Salan á Coutinho var einnig erfitt að sætta sig við um tíma.

Hannes – Tapið í Meistaradeildinni, ef mér hefði verið boðinn þessi árángur fyrir tímabilið hefði ég gripið það með báðum höndum en eftir að hafa séð liðið í útsláttarkeppninni og hvernig úrslitaleikurinn tapaðist hlýtur það að vera mestu vonbrigðin


Álit þitt á FSG í dag?

Einar – Erfitt að sjá hvernig hægt er að reka félagið mikið betur miðað við að Liverpool er ekki partur af svokölluðu reputation laundering verulega vafasamra ríkja eða milljarðamæringa.

SSteinn – Mjög gott, eru að gera hlutina af yfirvegun og félagið virkilega vel rekið

Maggi – FSG eru í góðum málum, völlurinn er bylting fyrir klúbbinn og þeir hikuðu ekki við að setja pening í leikstöður sem þurfti.  Hef trú á Michael Edwards sem góðri ráðningu (þrátt fyrir Fekir) og held að þeir séu á góðri leið með félagið, hafa algerlega sannað sig fyrir mér.

Óli Haukur – Það er bara nokkuð gott. Klúbburinn er á mikilli uppleið síðastliðin ár og margt jákvætt sem er að gerast í kringum hann. Tekjurnar og veltan aukast, völlurinn er orðinn stærri og plön um að gera hann enn stærri, æfingasvæðið verður stækkað, auglýsingasamningar verða betri og betri. Mikill metnaður og samheldni ríkir í félaglinu sem er frábært. Leikmannakaupin verða alltaf stærri og stærri, fleiri og fleiri og hópurinn verður sterkari og sterkari. Menn virðast ekki ætla að malla áfram heldur að gefa í sem er frábært. FSG og Liverpool eru að gera það gott saman held ég bara.

Eyþór – Kannski mun þetta vera umdeild skoðun en þeir eru að mínu mati bestu eigendur sem við getum átt. Erum ekki (og viljum ekki) að fara sykurpabba leiðina, félagið er orðið samkeppnishæft, innan vallar og utan, á þess að leggja framtíðina undir.

Maggi Þórarins – Í hæstu hæðum. Ég hef svo sem alltaf verið frekar hrifinn af þeirra nálgun og ekki verið jafn gagnrýninn á þá þegar kemur að eyðslu í kaup á leikmönnum og margir aðrir. Fyrir mér er skynsamlegt að spara púðrið ef þurfa þykir og vera klókir í monningaboltanum, en að sama skapi eru þeir að boða stórskotahríð núna þegar að við erum strategískt á mjög sterkum stað sem lið og klúbbur. Þeir hafa gert frábæra hluti með Anfield og munu gera hann enn stærri og flottari á næstu árum. Að mínu mati hafa þeir verið að sanna sig á síðustu árum og uppskera laun síns erfiðis.

Daníel – Mér sýnist FSG vera að reka klúbbinn skynsamlega, og mín upplifun er a.m.k. ekki sú að skortur á titlum sé þeim að kenna. Það að splæsa 75 millum í dýrasta varnarmann heims virtist ekki vera neitt mál fyrir eigendurna. Ég vil bara sjá þá halda áfram á sömu braut.

Eiríkur – Virkilega ánægður með FSG, uppbyggingu vallarins, leikmannakaup og -sölur.

Hannes – Frekar jákvætt, hafa sýnt að þeir eru ekki feimnir við að setja háar upphæðir í rétta leikmenn og greinilega tilbúnir að treysta stjóranum. Fekir sagan dró mann þó aftur niður á jörðina eftir jákvæðnina með Fabinho. Hinsvegar erum við búnir að selja fyrir háar fjárhæðir og nú þarf að fara halda bestu leikmönnunum og bæta við.


Besti pundit tímabilsins hér á landi og besti erlendi (lýsandi/álitsgjafi/blaðamaður)

Einar – Er almennt frekar jákvæður gagnvart flestum þeirra sem lýsa leikjum hér á landi og held að þetta sé almennt aðeins vanmetið starf. Gummi Ben er á heimsmælikvarða í lýsingum, okkar maður Höddi Magg einnig góður og kom mjög sterkur til leiks í podcastið okkar í vetur. S/O líka á Henry Birgi sem ég sá taka nokkra minni leiki í vetur og tók þá alvarlega í takti við það, veisla oft á tíðum á að hlusta.

Erlendis finnst mér Neil Atkinson á Anfield Wrap bera höfuð og herðar yfir aðra í umfjöllun um fótbolta. Hann sérstaklega góður þegar vel gengur eins og mest allt þetta tímabil. Eins fannst mér Souness eiga gott ár á Sky og vel hann, sérstaklega þar sem ég er oftar sammála Neville en Carragher og ekki fer maður að velja hann!

SSteinn – Jóhannes Karl Guðjónsson / Jamie Carragher

Maggi – Besti erlendi pundit finnst mér Stevie G.  Auðvitað hlutdrægur með þetta svar mitt en ég horfi nær alfarið á enskar stöðvar og finnst hann mjög góður í sinni nálgun á leikinn, bæði jákvætt og neikvætt gagnvart LFC en gerir það vel.  Paul Joyce er möst á twitter og svo les ég eiginlega bara Liverpool Echo og þar er gaman að lesa eftir eða hlusta á James Pearce. Á Íslandi ber Gummi Ben höfuð og herðar yfir aðra.

Óli Haukur – Hef alltaf gaman af því þegar Höddi Magg lýsir leikjunum hér í sjónvarpinu heima. Hafði oft mjög gaman af því þegar Lampard, Gerrard og Rio Ferdinand voru að rýna í Meistaradeildarleikina hjá Liverpool svo líklega þeir.

Eyþór – Gummi Ben / Carra & Neville.

Maggi Þórarins – Gummi Ben er í sérflokki sem lýsandi hér innanlands og svo er Tomkins vandaðasti greinahöfundurinn sem í boði er um Liverpool. Svo kemur Carragher vonandi sterkur til leiks að nýju eftir skyrpibannið því að hann er frábær í sínum lýsingum og greiningum.

Daníel – Horfi rosalega lítið á íslenskar lýsingar, er eiginlega ekki dómbær þar. Ég er alveg að fíla Carragher/Neville samstarfið, og svo hefur Thierry Henry alltaf virkað vel á mig.

Eiríkur – Finnst enginn sérstaklega góður þegar kemur að  umfjöllun um Liverpool á Íslandi en finnst þó skemmtilegast að hlusta á Gumma Ben og Rikka G lýsa leikjum. þarna er ég að sjálfsögðu ekki með Kop.is podcastið inní sem ber höfuð og herðar yfir alla aðra þegar kemur að umfjöllun um Liverpool á Íslandi. Af þeim erlendu horfi ég mest á Liverpool TV og finnst þeir flestir ágætir þar en annars hef ég gaman af Gary Lineker, Gary Neville og Jamie Carragher.

Hannes – Hef eins og svo margir aðrir mjög gaman af Gumma Ben en er yfirleitt með íslenska lýsendur þegar ég horfi. Fyrir utan það er ég mest í hljóðvörpum þar sem ég hef mest gaman af strákunum í Football Ramble.


Raunhæft draumabyrjunarlið í fyrsta leik næsta timabils

Einar – Oblak / TAA – Van Dijk – Lovren – Robertson / Fabinho – Henderson – Keita / Salah – Firmino – Mané

Það lá mest á að stórbæta miðjuna eftir síðasta tímabil og það hefur nú þegar verið afgreitt. Eftir síðasta leik tímabilsins er einnig ljóst að liðið þarf nýjan markmann þó ég sé ekki eins viss um að það verði gert í sumar. Fram að úrslitaleiknum hafði ég töluvert litlar áhyggjur af Karius í markinu til framtíðar. Þetta væru þrjár breytingar á liðinu sem er passlegt.

SSteinn – Allison / TAA – Matip – VvD – Robertson / Fabinho – Keita – (Fekir replacement) / Mané – Salah – Firmino

Maggi – Allison / TAA – Lovren – Van Dijk – Robertson / Keita – Hendo – Ox / Salah – Firmino – Mané

Óli Haukur – Kannski pínu erfitt þar sem maður veit nú ekki hvenær menn mæta til baka frá HM og í hvernig standi en ef það gæti verið einhvern veginn á þessa leið þá yrði ég bara nokkuð sáttu: EkkiKarius / TAA – Lovren – Van Dijk – Robertson / Fabinho – Keita / Salah – Fekir – Mane / Firmino

Eyþór – Oblak / TAA – Lovren – Van Dijk – Robertson / Keita – Fabinho – Fekir / Salah – Firmino – Mané

Liverpool mun ekki fara þessa leið, þeir munu ekki fara í klásúlu Oblak en ættu að gera það að mínu mati. Sjálfur er ég ekki seldur á Allisson. Við myndum líklega ekki hika við það með varnarmann (Virgil) eða sóknarmann ef okkur skorti mörkin, af hverju ekki vandræðastöðu síðasta áratuginn? Þetta er a.m.k draumaliðið, á bekkinn væru svo búnir að bætast við Draxler & Shaqiri – bæði leikmenn sem eiga að vera raunhæfari en Oblak en nauðsynlegir uppá breidd (Fekir getur leyst sóknina í hallæri og Brewster virðist eiga að fá stærra hlutverk á næsta tímabili).

Maggi Þórarins – Úff, erfið spurning með innbyggða togstreitu því að draumar eru ekki alltaf raunhæfir. Ég gæti vel trúað því að Fekir-málið myndi leysast með málamiðlun eftir HM og ég skrifa niðurbrot dílsins ekki á okkar aulaskap heldur frekar á erfitt skap Aulas. Hin stóra vangaveltan verður markvarðarstaðan og einnig að styrkja bekkinn. Draumabyrjunarliðið er því svona: Oblak / TAA – Lovren – VVD – Robertson / Fabinho – Keita – Fekir / Mane – Salah – Firminho.

Daníel – Ég myndi segja sama lið og byrjaði CL úrslitaleikinn, nema með Keita og Fabinho í staðinn fyrir Milner og Winjaldum. Mögulega sjáum við nýjan markmann, á milli stanganna, og mögulega nýjan miðvörð við hliðina á Virgil, en ég myndi ekki veðja á það.

Eiríkur – Oblak / TAA – Lovren – Van Dijk – Robertson / Fekir – Fabinho – Keita / Salah Firminho – Mané

Hannes – Allison / TAA – Van Dijk – Lovren – Robertson / Fabinho – Henderson – Keita / Salah – Firmino – Mané


Næsta tímabil verður…

Einar – Áframhald af frábærum fótbolta oft á tíðum en ég sé Man City ekki gefa nógu mikið eftir til að Liverpool vinni titilinn. Vonandi verðum við þó í baráttunni og mun tryggari í Meistaradeildarsæti. Klopp fær megnið af hópnum snemma á undirbúningstímabilinu m.v. að þetta er HM ár sem gæti reynst mikilvægt. Það að komast í úrslit Meistaradeildarinnar var magnað í vetur og ekki hægt að ganga að því sem vísu ár eftir ár… ekki ætla ég samt að veðja gegn því að Liverpool spili aftur til úrslita í Madríd í maí. Hungrið ættið heldur betur að vera til staðar í þessum hóp til að skila loksins alvöru titli í hús, getan er það klárlega.

SSteinn – Áframhaldandi uppbygging – áframhald á skemmtilegum fótbolta – næsta skref tekið og vonandi einn bikar í safnið – title challenge þó svo að hann vinnist líklegast ekki.

Maggi – Næsta tímabil verður lykiltímabil. Við einfaldlega þurfum að vinna titil og búa til sigurhefð.  Mér er eiginlega sama hvaða titil…við bara þurfum bikar og stöðuga veru í Meistaradeildinni.  Og það mun takast.

Óli Haukur – Vonandi enn betra og skemmtilegra en síðasta tímabil! Nokkrir frábærir og mjög spennandi leikmenn eru að bætast við hópinn og liðið virðist stefna í að vera ansi öflugt.

Ég vil sjá setta stefnu á að ná 90 stigum í það minnsta í deildinni og vera í alvöru titilbaráttu. 90 stig duga hugsanlega ekki til sigurs en það er sú tala sem við eigum að reyna að setja upp sem lágmarkið.

Ef hópurinn verður stærri og sterkari en á síðustu leiktíð gefst vonandi tækifæri til að fara lengra í bikarkeppnunum en þær eru kannski ekki aðalatriðið þó klúbburinn þurfi að fara að koma höndunum á gull medalíur eftir þrjár misheppnaðar tilraunir á þremur árum.

Liðið fær líklega erfiðan riðil í Meistaradeildinni á næstu leiktíð og verður í þriðja styrkleikaflokki en ef liðið verður eins gott og það stefnir vonandi í þá verður það vonandi nóg til að komast upp úr riðlinum. Eftir síðustu leiktíð vill ekkert félag dragast gegn Liverpool en fátt toppar það að fara langt í Evrópukeppnum svo ef við náum að endurtaka leikinn að ári og mæta í úrslitin þá væri það hefð sem ég gæti alveg vanist! 

Eyþór – Forvitnilegt. Við höfum alla ástæðu til þess að vera bjartsýnir og eigum loksins innistæðu fyrir því. EN….við þurfum líka að gera vel í sumar. Suarez tímabilið plástraði yfir ákveðna veikleika í liðinu á sínum tíma. Það er ólíklegt að Salah nái sömu hæðum á næsta tímabili (ekki misskilja mig, verður klárlega frábær. Bara spurning hvort hann sé 44 marka frábær eða 30 marka frábær). Við þurfum að ná svipuðu sumri og s.l. 2 sumur á leikmanna markaðnum. Það eru ennþá veikleikar til staðar, sérstaklega hvað varðar breidd. Okkur vantar einnig fleiri leikmenn sem geta stigið upp.

Við þurfum ennþá að styrkja flest svæði hjá okkur:

 • Markvarðarstöðuna (verst mannaðir þar af topp 6 liðunum)
 • Vörnina (Matip og Lovren einfaldlega of mikið meiddir + misstækir – myndi vilja fá annan sterkan þarna inn þó það sé kannski ekki forgangur – vörnin sterk meira og minna eftir Spurs leikinn fyrir áramót og styrktist mikið með innkomu Virgil).
 • Miðja (byrjar vel, tveir inn og júní hálfnaður – þurfum samt að fá einn í viðbót að mínu mati. Einn skapandi með mörk í sér sbr Fekir)
 • Sókn (erum með frábæra fremstu þrjá – en ekki nærri nægilega öflug backup. Þurfum ekki bara menn sem koma á bekkinn, við þurfum menn sem geta gert tilkall í byrjunarliðssæti og þeir eru vanfundnir. Þurfum að geta gert eins og við gerðum fyrir jól, þ.e.a.s. rótera þessum leikmönnum án þess að veikja liðið + það mun gagnast okkur mikið í bikarkeppnum einnig. Við þurfum að fara vinna titil. Strax. Það væri frábært að fá inn Fekir, Draxler og Shaqiri. Tveir þarna sem gera tilkall til byrjunarliðssæti strax og einn sem er betri kostur á bekkinn en það sem við eigum fyrir)

Maggi Þórarins – MAGNAÐ! Við mætum sterkari til leiks á meðan flest toppliðin verða í deiglu með nýja þjálfara, saddir eða undir mikilli pressu. Ég er mjög spenntur fyrir því hvernig okkur muni ganga í deildinni á næsta tímabili með sterkari varnarleik og sama skemmtilega sóknarleikinn. Spái okkur í toppbaráttu fram undir lok tímabilsins.

Daníel – Næsta tímabil verður erfitt, en vonandi verður meiri breidd til að takast á við álagið. Hef svo áhyggur af því hvernig tímabilið verður hjá kvennaliðinu, en það verður sérpistill um það.

Eiríkur – Gott. Við erum að ná ákveðnum stöðugleika á meðan Arsenal og Chelsea t.d. eru í örum breytingum. Pressan á Mourinho eykst og ég hef ekki trú á að hann geri neitt betur með þá. Ef við fáum annaðhvort Allisson eða Oblak í markið, Fekir á miðjuna og einn góðan kantframherja erum við á flottum stað. Lykillinn er að sjálfssögðu að missa engan lykilmann sem ég tel Can ekki vera. Endum í topp 2 og förum við ekki bara aftur í úrslit CL og leiðréttum vonbrigðin frá Kiev?

Hannes – Skemmtilegra í deildinni mörg lið stefna að titlinum og City er ekki að fara sækja 100 stig aftur á næsta ári. Verður mikil barátta um efstu sætin en vonandi fáum við einnig aðra atlögu að Meistaradeildartitlinum.


4 Comments

 1. Virkilega góður pistill og maður er sammála langflestum þarna enda þið að langmestu leyti sammála um þetta allt saman.. Eg var einn af þeim sem gagnrýndi FSG einna mest fyrstu árin kannski ásamt Magga okkar en þeir hafa heldur betur stungið uppi mann siðan Klopp kom og með breytingum á vellinum, vill sjá þá samt bæta enn meira í hvað varðar leikmannakaup og held það séu til aurar ásamt því að draumurinn væri að klára breytinguna á Anfield. Allar forsendur eru fyrir því að næsta tímabil verði bara enn betra, draumurinn er Markmaður. Klára Fekir eða annan sambærilegan og tæki einn Shaqiri glaður fyrir 12 milljónir til að bakka fremstu 3 okkar upp. Juju betri miðvöð en Lovren og Matip en það er ekkert forgangsatriði og held það verði ekki farið í slík kaup enda Lovren flottur eftir ad Virgil kom ásamt því að við fengum á okkar fæst mörk í deildinni ef við skoðum eftir Tottenham leikinn fræga, eina vesenið er að Lovren á það til að meiðast þess vegna nefni ég þetta og treysti Matip bara mjög illa enda erfitt að treysta á mann sem er meira uppi stúku en inná vellinum..

  Annars er maður farin að sakna Podcast ansi mikið og kíki á hverjum degi hérna inn og vonast eftir ad sjá nýtt podcast en veit að lítið er að frétta og þið búnir að vera kannski hér og þar í fríi. Annars er Fekir sagan vonbrigði sumarsins og maður veit i raun ekkertt enn nkl hvað klikkaði þar eða hvort þetta sé í raun alveg dautt eða ekki. Se hann td aldrei enda í Real Madrid því kröfurnar þar á bæ fara fram á meira enn einn Nabil Fekir og vona ég að Lyon sé að reyna setja pressu á okkur að klára þetta með því að þykjast vera með önnur lið á eftir honum. Vonandi klárum við þau kaup þá væri maður farin að Dansa ansi mikið fyrir næsta tímabil. En allavega enn er nægur tími og eitthvað mun gerast. Annars er nánast engin orðaður við okkur eftir að Fekir átti að hafa klikkað í þessa stöðu sem mér finnst ýta undir að sú saga sé líklega ekki alveg dauð ennþá. Vonum það besta allavega.

  Maður er allavega mjög spenntur fyrr næstu vikum og vonandi endar þessi gluggi frábærlega fyrir okkur sem ég hef alla trú á að verði raunin.

 2. Varðandi Sturridge þá finnst mér 15 milljón punda verðmiði út í hött hjá FSG.

  Raunhæft mat: þetta er í dag ónýtur leikmaður og mun ekki ná sér aftur í fyrra form. Aldrei. Hvort sem um er að kenna líkamlegu og/eða andlegu ástandi. Mín spá er sú að Sturridge mun sitja sem fastast iðjulaus á meðan Liverpool heldur áfram að borga launin hans þangað til samningurinn rennur út. Síðan tekur hann kannski eitt ár í rólegheitunum í USA til að fá ennþá meiri pening.

  Hugsanlega væri hægt að „gefa hann” núna til að losna við 100 þúsund kall á viku í laun, en það er enginn að fara að kaupa Sturridge. Ekki held ég það.

 3. Hann á eitt ár eftir af samning, hann mun eflaust ríghalda í þetta ár í viðbót

Hver er Naby Keita?

Vandræðastaðan