Hvaða áhrif hefur undirritun Brewster á sumargluggann?

Mögulega erum við að kynnast Jurgen Klopp fyrir alvöru núna í sumar, hann hefur ítrekað sagt að hann vilji mun frekar þróa ungan leikmann eftir sínu höfði heldur en að kaupa þekktari leikmann. Ekki bara til að spara pening heldur til að bæta liðið. Þannig vann hann hjá Mainz og hjá Dortmund eru mörg dæmi um mjög unga og óþekkta leikmenn sem fengu gríðarlega stórt tækifæri, oft á kostnað mun reyndari og þekktari leikmanna.

Trent Alexander-Arnold og Joe Gomez fengu sem dæmi sénsinn fyrir síðasta tímabil þrátt fyrir að vitað væri að Clyne yrði lítið með. Skilaboðin til Brewster í sumar hafa sterklega gefið til kynna að honum er ætlað miklu stærra hlutverk næsta vetur en hann hefur fengið hingað til og það að hann skrifi undir þýðir einfaldlega að ekki verður keyptur annar hreinræktnaður sóknarmaður. Þar erum við að meina Timo Werner eða álíka kanóna af sóknarmanni.

Þetta er mjög áhugavert í ljósi þess að Brewster er aðeins 18 ára gamall (fæddur 2000) og hefur ekki spilað mínútu af alvöru fótbolta fyrir Liverpool. Hann er hinsvegar einn allra efnilegasti leikmaður í heiminum í dag, mun meira en við gerum okkur líklega grein fyrir. Ekki það að vanti efnilega leikmenn hjá Liverpool en Brewster hefur það umfram flesta að hafa verið markahæstur á HM U17 ára (2017) þar sem hann skoraði þrennu í bæði 8-liða og undanúrslitum áður en hann skoraði eitt mark í úrslitaleiknum. Hann var auk þess valinn þriðji besti leikmaður mótsins.

Hann var í kjölfarið tekinn í U23 ára liðið hjá Liverpool og kom að 12 mörkum í 11 leikjum á síðasta tímabili og sex mörkum í átta leikjum 2016/17 aðeins 16 ára gamall. Líklega væri hann búinn að fá einhverjar mínútur í aðalliði Liverpool nú þegar en hann bæði meiddist illa skömmu eftir áramót (og er enn meiddur) og Liverpool var auðvitað í það harðri keppni á tveimur vígstöðum að ekki var hægt að gefa ungum mönnum margar mínútur.

Brewster er vel þekktur meðal þeirra sem fylgjast með yngriflokkum Liverpool en ekkert í líkingu við t.d. hvernig látið var með Owen og Fowler áður en þeir sprungu út, já eða bara Harry Wilson og Ben Woodburn. Líklegasta skýringin er sú að hann kom ekki til Liverpool fyrr en hann var 15 ára. Hann hefur hinsvegar verið eftirsóttur af stóru liðunum síðan hann var 7 ára. Hann kemur til Liverpool á sama aldri og t.d. Raheem Sterling, Suso og Jordon Ibe komu til félagsins.

Þegar hann skrifaði undir hjá Liverpool 15 ára var ekki farið leynt með það að ástæðan væri vegna þess að forsvarsmenn hans töldu meiri líkur á að hann fengi fyrr sénsinn hjá Liverpool (og Klopp) heldur en hjá Chelsea sem vildi sannarlega halda honum áfram. Hann er uppalin hjá Chelsea þar sem hann var undir leiðsögn Michael Beale til 14 ára aldurs og var það helst hann sem ráðlagði Liverpool að semja við hann og um leið sannfærði Brewster um að koma til Liverpool.

Metnaðurinn hjá þessum strák leynir sér ekki og var hann tilbúinn í sumar að fara til Þýskalands til að fá spilatíma líkt og jafnaldri hans og vinur Jadon Sancho gerði er hann fór frá Man City til Dortmund. Úr því að Klopp náði að sannfæra hann um að skrifa undir nýjan samning við Liverpool er ljóst að hann hefur lofað honum stærra hlutverki. Nú er bara að sjá hvernig hann stendur undir því.

Beint í byrjunarliðið?

Þrátt fyrir að vera einn efnilegasti sóknarmaður í heimi er ekki þar með sagt að Brewster fari beint í byrjunarlið Liverpool, það er m.a.s. erfitt að sjá hann fyrir sér á bekknum þegar allir eru heilir. Hann þarf klárlega smá heppni líkt og t.d. Trent Alexander-Arnold fékk og auðvitað að nýta þá sénsa sem hann fær. Verkefnið er bókstaflega að brjóta sér leið inn í bestu sóknarlínu í heimi.

Til að byrja með verður samkeppnin líklega ekkert við Salah, Firmino og Mané þó hann geti vissulega dregið sig út á vænginn sem og spilað sem fremsti maður. Það eru fyrir fjórir hreinræktaðir sóknarmenn á undan honum í röðinni með Woodburn og Wilson einnig í baráttu um spilatíma.

Hvernig er goggunarröðin meðal sóknarmanna Liverpool?
1. Divock Origi – Origi var miklu meira efni 18 ára en Brewster er talin vera núna. Hann var aðalsóknarmaður Belgíu á HM 19 ára og fyrir framan Benteke og Lukaku í goggunarröðinni. Hann hefur ekki náð að standa undir væntingum en það væri galið að afskrifa hann strax, hann yrði ekkert fyrsti sóknarmaðurinn til að springa út eftir 23-24 ára aldurinn. Satt að segja á það við um meirihluta sóknarmanna, sérstaklega þeirra sem spila með toppliðum. Það verður spennandi að sjá hvort hann verði í plönum Klopp fyrir næsta tímabil en líklega hefði hann verið fyrstur á blaði í vetur hefði hann ekki farið á láni til Þýskalands. Hann spilaði meira þar en þeir sem voru eftir hjá Liverpool gerðu.

2. Solanke – Ef að Brewster er efnilegur þá er Solanke engu minna efni og þremur árum eldri. Solanke vann EM U17 ára með Englandi árið 2014 og var svo valinn besti leikmaður mótsins þegar England vann HM U20 ára árið 2017. Þetta er annar leikmaður sem Beale þekkir vel frá Chelsea og ljóst að Klopp hefur einnig lofað honum tækifærum hjá Liverpool, eitthvað sem hann stóð við síðasta vetur.

Þetta þýðir ekki að hann springi út um leið og hann fær sénsinn í aðalliðsfótbolta en við sáum í fjölmörgum leikjum síðasta vetur að það vantar ekki mikið uppá hjá honum. Raunar var með ólíkindum að hann hafi ekki skorað fyrr en í lokaleik mótsins en sá leikur sýndi okkur kannski einnig hvernig framtíðarhlutverk hans (og annarra sóknarmanna Liverpool) gæti litið út hjá Liverpool. Brighton réði ekkert við Liverpool með Salah, Firmino og Mané fyrir aftan hreinræktaðan sóknarmann.

3. Danny Ings – Eins mikið og mig langar að sjá Ings springa út hjá Liverpool held ég að hann sé einfaldlega ekki nógu góður til að verða sá leikmaður sem þarf í sóknarlínu Liverpool. Sérstaklega ekki eftir þessi þrjú hroðalegu ár hans hjá Liverpool. Hann þarf alvöru spilatíma til að koma ferlinum aftur af stað og ég sé hann ekki fá þann tíma hjá Liverpool. Hefði hann ekki meiðst væri þetta líklega ekta Klopp tegund af leikmanni engu að síður. Hann var samt aldrei viðlíka heimsklassa efni og Origi, Solanke eða Brewster.

4. Daniel Sturridge – Eina ástðan fyrir því að hann er ennþá leikmaður Liverpool er vegna þess að hann fékk risasamning sumarið 2014 eftir eina alvöru góða tímabil hans á ferlinum. Sturridge var engu að síður algjörlega efni á við hina sóknarmenn Liverpool þegar hann var á sama aldri. Hann hefur samt skv. transfermarket verið meiddur í samtals 567 daga á tíma sínum hjá Liverpool eða 1,6 ár. Auk þess passar hann ekkert sérstaklega í hugmyndafræði Klopp. Takist að fá pening fyrir hann í sumar er fagnarefni að ljúka hans sögu hjá Liverpool.

5. Harry Wilson – Ef að honum er ætlað hlutverk hjá Liverpool er ljóst að það hefur áhrif á leikmannakaup sumarsins. Hann er 21 árs núna og búinn að sanna að hann er allt of góður fyrir U23 ára fótbolta og líklega Champioship deildina líka. Liverpool lagði mikla áherslu á að hann skrifaði undir nýjan samning í janúar áður en hann fór til Hull og vonandi á hann eftir að fá séns til að sanna sig hjá Liverpool.

6. Ben Woodburn – Það er magnað að hugsa til þess að hann er ennþá bara 18 ára og ljóst að hann fer að setja sömu kröfur á Klopp og Brewster er að gera. Hann er samt líklega ekki að keppa við Brewster beint um stöðu en klárlega um sæti á bekknum.


Líklega fara 2-3 af þessum leikmönnum í sumar, hvort sem það verður á láni eða endanlega. Það er gott ef 1-2 af þessum ungu fái séns til að springa út í vetur en ljóst að Klopp er ekkert að grínast þegar hann segist vilja gefa ungum leikmönnum séns. Þetta þýðir auðvitað ekki að Liverpool geti sleppt því að kaupa leikmenn. Það vantar ennþá mann fyrir Coutinho, það er ekkert hægt að treysta á Lallana og hópurinn í fyrra var allt of lítill. Þessir leikmenn ættu samt að spara okkur 20m í Markovic áhættur og gefa meira svigrúm í stærri nöfn.

5 Comments

 1. Takk fyrir þetta Einar.
  Ef ég væri ekki sköllóttur þá væri ég búinn að reyta hár mitt, á sama tíma og maður vil gefa kjúllunum spilatíma þá liggur maður yfir öllu slúðrið sem maður finnur og vonar að það séu einhverjir snillingar að koma til okkar.

 2. Þessi gutti virkar hrikalega efnilegur og ef að Klopp hefur nóga trú á honum til þess að gera allt í sínu valdi til þess að halda honum þá er það nóg til þess að sannfæra mig um getu Brewster. Annars virðist þessi Fekir saga ekki vera á enda, og mér sýnist af öllu að þetta hafi verið sett í pásu til þess að Lyon gæti afgreitt þetta þegar þeim hentar best útaf einhverjum hlutabréfa eða bókhalds ástæðum, og svo kemur hann bara eftir HM. Það verður gaman að sjá hvaða aðrir leikmenn munu koma, það er svosem lítið af marktæku slúðri og ég hef frekar fylgst með HM og reynt að koma auga á einhverja leikmenn sem ég get látið mig dreyma um að spili svo fyrir okkur. Mér finnst eins og að Boateng og topp markvörður, og Shaqiri eða einhver önnur varaskeifa í sóknina myndu fullkomna liðið. Það sem greip athygli mína hjá Boateng er sendingageta hans og ég held að hann, og Virgil myndu mynda eitrað miðvarðarpar auk þess sem þeir eru báðir með mjög góða sendingagetu. En þetta eru eflaust bara draumórar hjá mér. Svo var ég mjög hrifinn af Loftus-Cheek, en sé reyndar ekki hvar hann myndi passa inn í liðið.

  Takk fyrir góða grein!

 3. Flott skrif hér að venju. Algjörlega sammála pistlinum í einu og öllu.
  Er mjög spenntur að sjá hvað býr í þessum unga orkubolta, Brewster.
  Vona að við náum að losa okkur við Sturridge í sumar, nema hann geti nýst eitthvað í bikarkeppnunum á næsta ári. Hann í formi getur jú alveg skorað nokkur mörk.

  Annað.
  Eins leiðinlegt það er að sjá Mo Salah tapa að þá er það pínu huggun að hann sé að sleppa í sumarfrí snemma og vonandi í 100 % standi, þökk sé ekki rottunni ramos.

  Meira annað.
  Nú er ég ekki landsliðsþjálfari Brasilíu en ég spyr, hvaða lið í heiminum hefur efni á því að nota ekki Firminho í 90 mín?

 4. Fyrst Trent er orðinn fastamaður í byrjunarliðinu þá er alltaf möguleiki að einhver af þessum strákum vinni sér sæti í byrjunarliðinu á þessu tímabili. Annað eins hefur nú gerst.

 5. Sælir félagar

  Takk fyrir góðan og upplýsandi pistil Einar Matthías, klassaskrif að venju. Það sem stendur upp úr athugasemdum hingað til er “rottan Ramos” sem er nákvæmlega það sem Ramos er – og þó. Það er auðvitað niðurlægjandi fyrir þessa nagdýrategund að Romos skuli vera líkt við hana.

  Ég sá hluta úr leiknum hjá Salah og liðið hans er einfaldlega ekki nógu gott til að nýta hæfileika hans. Mínir menn frá Brasilíu létu Neimar leika allan leikinn þar sem hann gat ekki blautann . . . en létu snillingin Firmino sitja á bekknum nánast allan leikinn. Firmino gerði meira á þessum fáu mínútum en Neimar allan leikinn. Fáránlegt.

  Það er nú þannig

  YNWA

HM truflar Liverpool lítið

Emre Can til Juventus