Fabinho – Drauma varnartengiliðurinn?

Það kom eins og þruma úr heiðskýru lofti þegar franskur fjölmiðill greindi frá því að Liverpool væri að bjóða rúmlega 40 milljónir punda í Fabinho, leikmann Monaco, og díllinn ætti líklega eftir að ganga í gegn. Þetta var það fyrsta sem maður hafði heyrt af þessu (og treystið mér, það er ekki mikið sem fer framhjá undirrituðum þegar kemur að slúðri!).

Þarna má sjá að klukkan er 17:44 og um hálftíma síðar skellir Mohamed Bouhafsi fram sömu fréttum og segir að félögin séu í viðræðum eftir tilboð Liverpool hafi borist. Þetta er einn sá allra áreiðanlegasti þegar kemur að fréttum úr franska boltanum svo þetta var stórt. Ekki nóg með það heldur fóru Liverpool tengdir blaðamenn; Joyce, Melissa Reddy, Dominic King og þeir hjá Echo að koma með sömu fréttir. Fabinho væri skotmark númer eitt á miðsvæðið, tilboð hefði verið lagt fram og Liverpool bjartsýnt á að klára dæmið.

Þremur korterum seinna greindi Bouhafsi frá því að tilboði Liverpool hafði verið tekið og maður sat hálf gáttaður yfir þessu og hve fljótt þetta væri að gerast. Eins og það hafi ekki verið hálf óraunverulegt þá á slaginu klukkan átta birtist þessi færsla frá Liverpool:

Fabinho mættur á svæðið, klæddur í treyju og opinberlega orðinn leikmaður Liverpool. Holy f***ing moly! Tveimur tímum eftir að við heyrðum fyrsta orðróminn um að hann væri að koma þá var hann staðfestur af klúbbnum sem er alveg ótrúlegt miðað við að þetta er mjög stór leikmannakaup.

Hver er Fabinho?
Fabinho er 24 ára gamall brasilískur varnartengiliður sem hefur síðastliðin fimm ár spilað með Monaco í frönsku deildinni. Hann hóf feril sinn í Evrópu hjá Rio Ave í Portúgal eftir að hafa komið þaðan frá Fluminense í heimalandinu. Hann spilaði þó aldrei leik með Rio Ave og var lánaður til varaliðs Real Madrid þar sem hann spilaði í eina leiktíð og tók þátt í einum deildarleik með aðalliði Real Madrid á þeim tíma.

Monaco fékk hann lánaðan frá Rio Ave í tvær leiktíðir frá 2013-2015 áður en þeir keyptu hann frá þeim portúgölsku. Fabinho spilaði stórt hlutverk hjá Monaco en byrjaði tíma sinn þar að mestu sem hægri bakvörður og gerði vel þar. Frá leiktiðinni 2015/2016 fór hann að færa sig meira á miðjuna og breyttist yfir í varnartengilið og leiktíðina 2016/2017 var hann orðinn fastamaður í þeirri stöðu. Hann var lykilmaður á miðjunni hjá Monaco sem vann frönsku deildina 2016/2017 og fóru langt í Meistaradeildinni.

Mörg lið fóru að fylgjast með honum og reyndu að fá hann í sínar raðir og hafa þá einna helst Man Utd, Man City og PSG verið talin þau lið sem hafa sýnt honum hvað mestan áhuga í gegnum tíðina en lið eins og Juventus og Atletico Madrid hafa verið nefnd til sögunar. Síðasta sumar virtist hann vera kominn langleiðina til PSG en Monaco hætti við skiptin og var sagt að Fabinho hafi ekki verið alltof ánægður með það en varð áfram og stóð fyrir sínu áfram.

Landsliðsferill Fabinho er einhverja hluta vegna ekki rosalega langur – og í raun afar erfitt að túlka þennan landsliðshóp Brasilíu manna eitthvað of mikið því þeir hafa nú oft ansi furðulegar ástæður fyrir vali sínu á leikmönnum í hópinn. Hann hefur einungis tekið þátt í fjórum leikjum með Brasilíu en þeir voru á árunum 2015-2016 og hefur hann ekki verið í landsliðshóp síðan í Copa America sumarið 2016 þar sem hann kom ekkert inn á. Þrátt fyrir frábærar frammistöður með Monaco í frönsku deildininni og í Meistaradeildinni hefur hann ekki fengið tækifæri með landsliðinu. Við Púllarar fögnum því í sumar því hann verður ekki á HM og mun eiga fullt undirbúningstímabil með nýju liði sem er flott.

Af hverju Fabinho?
Liverpool var lengi vel orðað við Jorginho leikmann Napoli sem spilar sömuleiðis sem djúpur miðjumaður en er “leikstjórnandi” sem vill vera mikið á boltanum, dreifa spilinu og stjórna tempói í leiknum. Allt bendir til þess að hann sé á leiðinni til Man City og því varð nokkuð ljóst að Liverpool myndi þurfa að finna aðra lausn í þessa stöðu – það er að segja ef þessir orðrómar voru sannir.

Það vissi í raun enginn hvert augu Liverpool horfðu hvað þetta varðar en ýmsar get gátur fóru á flug. Ruben Neves í Wolves er leikstjórnandi í svipuðum dúr og Xabi Alonso finnst mér og hefði getað verið áhugaverður kostur á eftir Jorginho ef liðið var að leita eftir slíkum leikmanni. Þá heyrðust orðrómar um Wilfred Ndid hjá Leicester en hann er meira “hreinn varnarmiðjumaður” frekar en einhver leikstjórnandi. Enginn hafði hugmynd.

Skyndilega er Fabinho orðinn leikmaður Liverpool og hann tikkar í ansi, ansi mörg box. Hann er ekki “leikstjórnandi” eins og Jorginho eða “sérhæfður varnarmiðjumaður”, hann er nokkurn vegin blanda af báðu. Hann er svakalega góður í að vinna boltann hvort sem það eru standandi eða liggjandi tæklingar, hlaupa inn í sendingar eða vinna boltann í loftinu. Hann er líka ansi fljótur og leikinn á bolta sem þýðir að hann getur sprengt leikinn upp neðarlega á vellinum og er fljótur að snúa vörn í sókn. Hann er fínn spilari og getur svo sannarlega komið boltanum frá A til B en verður seint kannski talinn “leikjstórnandi”.

Eins og áður kom fram hefur Fabinho spilað vel í hægri bakverði á ferlinum svo hann mun koma með ákveðna fjölhæfni í liðið og aukna möguleika. Ég yrði hissa ef hann spili mikið sem bakvörður hjá Liverpool þar sem Trent Alexander-Arnold er orðinn fastamaður í þeirri stöðu, Clyne er kominn til baka úr meiðslum og Gomez er inni í myndinni líka. Klopp talaði um það að hann geti spilað í þremur mismunandi hlutverkum sem mikilvægt vopn fyrir liðið:

“He has ability and mentality to play at the highest level in a number of positions. He can play ‘6’, ‘8’ and ‘2’. This is cool.

“He is tactically very strong and football smart. I think he improves our squad and there aren’t that many players you can say that about in this moment, because the quality we have already is so high.

“This signing gives us new opportunities and for that I am excited. I’m sure our supporters will make him very welcome and at home at our wonderful club and in our amazing city.”

Klopp talaði svo einnig um það hve góður karakter hann er og hve gott hugarfar hann hefur sem er auðvitað mjög jákvæður og mikilvægur þáttur í liðinu sem hann er að byggja upp hjá Liverpool.

Fabinho er mjög hraður og líkamlega öflugur leikmaður, hann er mjög fljótur að komast á milli staða á vellinum, fljótur af stað og nær góðum hraða yfir langa vegalengd. Hann er tæplega 190 cm á hæð og nokkuð öflugur í loftinu sem þýðir að Liverpool er að koma sér upp ansi ágætum þríhyrning af mönnum sem eru mjög sterkir í háum boltanum í þeim Fabinho, Van Dijk og Lovren.

Ólíkt mörgum öðrum varnartengiliðum sem við sjáum þá er hann góður spilari sem þýðir að hann henti leikstíl Liverpool mjög vel. Líkt og Keita, Chamberlain, Wijnaldum og fleiri þá getur hann snúið mjög hratt eftir að hann fær boltann og líkt og þeir Keita og Chamberlain þá getur hann tekið á rás og skapað pláss, færi og sóknir með því að sprengja upp völlinn. Þó hann teljist ekki heimsins besti sendingasérfræðingurinn í boltanum þá getur hann dreift spilinu, lagt upp færi og komið boltanum hratt og örugglega í spil fram völlinn.

Þess má svo til gamans geta að hann er frábær vítaskytta og hefur aldrei á ferlinum klúðrað vítaspyrnu og skorað úr fimmtán af fimmtán spyrnum sínum. (7-9-13)

Á margan hátt er hann ekki ólíkur þeim Henderson og Can á einhvern hátt en hann er bara töluvert fljótari en þeir báðir, hann snýr hraðar og er mikið fljótari. Líklega mun hann koma til með að taka við keflinu af Henderson sem djúpur miðjumaður en þar sem hann getur einnig komið sér í mjög góða hápressu þá kæmi alls ekki á óvart að sjá hann líka í einhverjum leikjum fyrir framan Henderson.

Svona lýsir Fabinho sjálfum sér sem leikmanni:

“I believe I am a player that can organise the game well for my team. I play with a lot of intensity and I’m quite strong in man-marking. Unfortunately, occasionally I get some yellow cards for that but I think that won’t be a problem here. Hopefully I will have no difficulty in adapting to this type of football. I know that the type of football here is quite intense and physical but I think I got some of that while playing in France and I hope I won’t find any problems to adapt to this league.”

Fabinho er fljótur að koma sér upp að hlið mótherja sinna, keyrir að bakinu á þeim og reyni að teygja sig fyrir framan þá til að vinna boltann. Þegar það tekst þá nær hann að klára verkið oftar en ekki. Hins vegar á hann það til að fá reglulega spjöld þar sem hann verst af mikilli ákefð og á það til að brjóta af sér líka. Á síðustu leiktíð fékk hann 13 gul spjöld í öllum keppnum og leiktíðina áður fékk hann 15 gul spjöld. Sturluð staðreynd en hann hefur þó ekki fengið rautt spjald á þessum tveimur leiktíðum!

Liverpool fór hratt og örugglega í það að tryggja sér þjónustu þessa frábæra leikmanns sem félagið náði einhvern veginn að halda undir radarnum í einhverja tvo mánuði eða svo þar til hann var bara allt í einu kominn í treyjuna fögru og klár í slaginn. Fabinho er týpa sem flestir stuðningsmenn Liverpool hafa verið að bíða eftir að verði keyptur og er Liverpool að næla sér í einn flottasta varnartengiliðinn í Evrópu á flottu verði.

Þetta er vonandi fyrstu af fleirum mjög spennandi kaupum sem félagið mun gera í sumar. Naby Keita og Fabinho bætast við liðið í sumar, það er frábær byrjun á sumarglugganum!

Embed from Getty Images

23 Comments

 1. frábærar fréttir, nú getum við loks losað okkur við henderson, sem er hvorki fugl né fiskur

 2. Skemmtileg lesning, hlakka mikid til ad sja hann i action med Liverpool. Frabaer vinnubrogd hja klubbnum.

  Komment numer 2, hvar a madur ad byrja…rokstudningur thinn er sa ad Henderson se hvorki fugl ne fiskur, a madur ad tulka thad sem svo ad hann se hvorki specialist sem djupur midjumadur eda fyrir framan djupan midjumann? Ertu viss um ad folk sem tekur akvardanir fyrir Liverpool se sammala thessari fullyrdingu? Ef thad folk er a sama mali, helduru i alvorunni ad thau hugsi med ser “ja tha er bara best ad selja/lana Henderson (sem er btw fyrirlidi lidsins og thad myndi minnka breidd i leikstil lids sem tharf breidd)”?

  Thad er ollum sama hvort thu fylir Henderson eda ekki. Please ekki vera ad koma med svona ofbodslega slok komment, thetta dregur umraeduna nidur a alltof lagt plan.

  Verum anaegd med ad fa Fabinho. Tha hlytur ad vera haegt ad vera gladur med thad an thess ad thurfa ad hnyta i annan leikmann, eda koma med recommendations sem hafa fengid 5 sekundna hugsun.

 3. Ég er mjög ánægður með fabinho en við þurfum eitthvað að taka til í þessari PR-deild. Þetta myndband er ekki málið. Já og svo mætti Fabinho alveg raka sig betur. Annars bara góður.

 4. Frábært, klárlega leikmaður sem okkur hefur sárlega vantað. Sá einn leik með Monaco í vetur og man svo sem ekkert sérstaklega eftir honum þar. Það sem ég hef lesið mig til um hann þá hefur honum verið líkt ýmist við Patrick Viera og Gilberto Silva. Slíkar samlíkingar ber hins vegar að taka með fyrirvara. Ég er hins vegar virkilega spenntur fyrir þessum leikmanni og hef fulla trú á að Klopp eigi eftir að ná því besta útúr honum og án efa verða Madrid og Barcelona farin að eltast við fljótlega. Vítahæfni hans mun án efa nýtast liðinu vel í Evrópukeppninni en því miður síður í Englandi þar sem liðið fær ekki vítaspyrnur. Sem leiðir mann að þeirri spurningu, hvað myndi gerast ef Liverpool færi í vítaspyrnukeppni í enska bikarnum, fengju þeir að taka víti?

 5. Samkvæmt tölum er hann uppfæring á Henderson og Can. Með fleirri tæklingar og einnvígi unninn sem hentar mjög vel fyrir varnartengilð. Hann er reyndar að spila í frönsku deildinni og kannski algjörlega sambærilegt en það kemur samt ekki að sök. Ef allt gengur samkvæmt óskum fer hann beint inn í byrjunarliðið og Henderson verður færður í hlaupahéramiðjumann (box to box) sem er honum miklu eiginlegri staða.

  Það má ekki gleyma að Henderson var lykilmaður þegar Liverpool varð næstum englandsmeistari með Suarez innan borðs sem “box to box” miðjumaður og með hann og Naby keita á miðjunni við hlið Fabinho bíður upp á rosalega yfirferð. Tala nú ekki um ef Lallana tæki upp á því að haldast heill út næsta tímabil.

 6. Ofboðslega leiðast mér svona næsti hinn eða næsti þessi leikmaður tal. Við höfum fengið næsta Zidane (Bruno), næsta Lizarazu (vignal), næsta Vieira (Diao) og við vitum hversu “rosalegir” þeir voru. Já tala ekki um næsta Ronaldo í Assaidi.

  ég vona að Fabinho verði nafn sem aðrir fara að líkja leikmönnum við en tíminn mun leiða það í ljós.

  Þetta voru frábær vinnubrögð hjá LFC og verst að það sé búið að loka svona rosalega fyrir lekann því nú græðir maður ekkert á að fara á newsnow eða aðra miðla því það veit enginn neitt 🙂

 7. Hvað er að fólki bara selja Henderson sí svona ? veit ekki betur en hann skili því sem þarf á vellinum þegar hann er þar og gerir yfirleitt vel ætla menn kanski að fara kenna honum um smjörhöndina hjá Karius ?

  Hann er búinn að vera mikið meiddur það er satt en við aukum ekki breiddina með að selja hann þrátt fyrir að við séum mögulega fá 2 öfluga inn þá er það styrking á breidd og vonandi byrjunarliði en ekki gleyma elsku vinir að við erum að fara spila í CL aftur og munum þurfa þessa breidd bæði þar og í öðrum keppnum.

  Ef Hendo fer til dæmis á bekkinn þá er bara alls ekkert að því að hafa leikmann eins og hann þar en Klopp dæmir þetta best og já þetta ER fyrirliði LFC ef við styðjum ekki við bakið á honum þá skulum við hætta tala um YNWA.

  Mig hlakkar til að sjá Hendo á komandi tímabili og veit hann hjálpar liðinu en hið gagnstæða .

 8. Ég veit ekkert um þennan gæja sem er að koma en ég veit hverjir spiluðu á miðjunni hjá okkur í vetur og komu okkur alla leið í úrslitaleikurinn og tryggðu okkur áframhaldandi veru meðal þeirra bestu í Evrópu.
  Ég fagna komu þess nýja og vona að hann standi undir væntingum.

 9. Mér finnst í fyrsta lagi alger óþarfi að hallmæla Henderson þvi hann skilar oftast sínu og vinnur vanþakklátt starf sem kannski kristallast best í öllum þeim sem yfir honum kvarta.

  En ég spái því að Virgil verði fyrirliði okkar á næsta tímabili því hann kemur til með að spila flesta leiki og er fenginn inní liðið til að stjórna varnarvinnunni.

  Hendo verður í baráttu um sæti við mjög góða menn og þá sjáum við væntanlega best úr hverju hann er gerður.

 10. Of stór fyrir okkar lið. Finnst okkar menn alltaf klikka þegar mest á reynir. Gerrard dettur eins og stelpa á móti Chelsea, og bróðir Bakkusar getur ekki varið bolta. Við eigum að selja mikið í sumar og byggja upp nýtt lið.

 11. #12 verð að vera ósammála þér í þessu, nema þú sért að tala um að selja menn sem voru á láni á þessu tímabili. Hópurinn skilaði okkur í úrslit meistaradeildarinnar og náði í 4ða sæti í deildinni. Það sem kostaði okkur var lítil breidd í hópnum, miklu meira svo frekar en léleg gæði í hópnum. Þess vegna eigum við að halda í sem flesta leikmenn sem voru í byrjunarliðunum á þessu timabili og bæta við þann hóp. Hvort að það þýði að sumir byrjunarliðs menn fari á bekkinn er svo tímaspursmál, en við eigum ekki að selja mikið í sumar (nema láns menn og svo kannski menn sem hafa varla verið í byrjunarliðinu).

  Er mjög ánægður með kaupin á Fabinho og ég bið spenntur eftir því að sjá hvaða leikmenn koma næst!

 12. Ravajg #12 Ég skil tenginguna við Baktus en óþarfi að tengja manninn við Bakkus, nema það útskýri af hverju hann klúðraði leiknum.

  En að útúrsnúningum slepptum þá er Hendo ekki í neinu uppáhaldi hjá mér en hann stóð sig vel síðustu mánuði. Ég yrðu mjög sáttur ýti Fabinho honum í aðra stöðu á vellinum eða yfir á bekkinn, en Hendo mun alltaf fá að spila slatta, hann er það góður.

 13. Það er alltaf áhætta að kaupa leikmenn frá frönsku deildinni, Ligue 1. Þessi deild er mörgum númerum minni en enska/þýska/spænska deildirnar og hún er líka rosalega hæg. Fabinho var ekkert sérstaklega góður í meistaradeildinni með Monaco.

  Sem dæmi um hvað Ligue 1 er léleg, þá hafði Memphis Depay skorað 9 mörk og lagt upp 7 mörk í síðustu 8 leikjum sínum með Lyon! Þess vegna er ég ekki alveg viss með Fabinho og Fekir. Fabinho drollar líka pínu á boltanum en það gengur bara ekkert í Englandi.

  En Fabinho og Keita er auðvitað klárlega betra duo en Milner og Can.

 14. Mér finnst erfitt að vera að tala um að t.d. Fabinho hafi drollað á boltanum í Frakklandi, það segir ekkert hvort hann geri það á Englandi. Þú spilar boltann sem er í gangi á þeim stað sem þú ert. Mögulega verður hann flopp en það hafa komið leikmenn frá Frakklandi sem hafa smollið inn í Ensku deildina og það gera þeir með því að auka tempóið í leik sínum. Ekki myndum við sjá enskann miðjumann koma á sama tempói í Íslenskudeildina og er á Englandi, eftir smá tíma myndi hann aðlagast hraðanum í okkar deild því þða hentar liðinu betur.

 15. Æji, ekki þetta! „Gerrard dettur eins og stelpa”…

  @ravajg 12

 16. Hvernig dettur mönnum í hug að selja Hendo, uppá síðkastið hefur mér t.d. hann spila frábærlega þegar liðið liggur undir mikilli pressu sem hefur verið Akkilesarhæll þess seinustu ár.

  Hendo er bara betri leikmaður en flestir okkar sjá í sjónvarpinu og það er ástæða fyrir því að hann er fyrirliði og spilar með landsliðinu.

  Það vantar dýpt í liðið, hvað ef Henderson eða Millner hefðu meiðst fyrir úrslitaleikinn í Meistaradeildinni ?

 17. Svona svo að ég tali um eitthvað annað en Hendo, sem mér finnst góður fyrirliði, þá horfði ég á compilation með Fabinho þegar hann var staðfestur (ekki samt myndir af honum að halla sér á hluti á Melvood!!!).
  Á þessari youtube ræmu sem ég horfði á, þá minnir hann mig helst á Yaya Toure, einna helst hæðin og rólyndi undir pressu. Svo hefur hann alveg ágætis sendingartækni.

 18. Ég er ekki sammála Haman og finst þetta ottalegt karlrembuþvaður og set frekar spurningu að Liverpool goðsögn tjái sig með þessum hætti í fjölmiðlum.

  Ég sé mig knúinn að taka upp markmannshanskann fyrir Karius. Hann olli tveimur mjög alvarlegum mistökum sem ollu því að Evrópumeistaratitlinn fór í hendur Real Madrid í mikilvægasta leik ævi sinnar. Fyrir vikið hrundi hann gjörsamlega saman eftir leikinn því hann vissi hvað það þyddi. Hann varð að athlægi um allan heim, ferillinn hans er kominn í hættu og hann varð liklega hataðasti leikmaður liverpool að aðhangendum sínum. Þrátt fyrir allt tók hann á sig alla ábyrgð og vék ekkert undan ábyrgð.

  Ef leikmenn mega ekki sýna tilfinningar, sérstaklega þeir eru í áfalli þá legg ég til að Liverpool hætti að fjárfesta í leikmönnum og kaupi þess í stað vélmenni. Þó ég vilji fá annan markmann þá stið ég heilshugar á bak við Karíus. Hann var búinn að standa sig vel í vetur þar til kom að þessum leik og hann er klárlega mun betri markmaður heldur en Mignolet.

  Er ekki bara best að láta drenginn bara í friði ?

  YNWA

 19. #2,”hvorki fugl né fiskur” eg ætla að vona ekki, reikna með að fulgar, þó snöggir, seu ekki góðir í fótbolta, og fiskar einsog liverpool villja blautann völl en það er þeim hamlandi að hafa enga fætur í fótbolta.

  Við spilum betur með Hendo á vellinum, það var augljóst í vetur, en Fabinho gæti vel verið bætin og liklega tekur sæti hanns án þess að veikja liðið, það gerir Henderson ekki lélegann.

 20. Sannarlega gleðitíðindi. En skil samt ekki umræðuna um að losa sig við Henderson sem hefur verið gríðarlega öflugur eftir meiðslin. Missum okkur samt ekki, Fabinho er ekki í hópi hjá Brasilíu. Hve góður er hann þá. Tæplega í heimsklassa en það þurfum við aftast á miðjuna en verið getur að þessi gaur geti vaxið og dafnað hjá Klopp eins og Kúturinn og Firmino. Eins er spurningin með hvernig hann plummar sig í PL. Gleymi aldrei umræðunni um Matip og hvernig margir slefuðu yfir honum af því hann hafði verið góður í Þýskalandi. Hvar er hann nú hjá Liverpool. Nefnilega með fullri virðingu fyrir þýsku og frönsku deildinni þá eru þær bara alls ekki enska deildin. Hef mikla trú á þessum gaur og veitir ekki af að hafa öflugan hóp í öllum stöðum á vellinum serstaklega á meiðslatímabilum sem virðast koma í miklum mæli á hverju tímabili.

Fabinho til Liverpool (Staðfest)

Podcast – Helvítis