Chelsea á morgun

Nú er deildin heldur betur farin að styttast í annan endann, og aðeins tveir leikir eftir. Staðan er sú sama eins og eftir Stoke leikinn: okkur vantar 3 stig úr þessum tveim leikjum, og reyndar dugar að ná í eitt stig á morgun gegn Chelsea, en takist það ekki þarf að ná í 3 stig í síðasta leiknum gegn Brighton. Lærisveinar Chris Hughton náðu í síðustu 3 stigin sem þeir þurftu til að tryggja veru sína í deildinni í gærkvöldi með því að vinna United á heimavelli. Það er áhugavert að í þeim leik var marklínutæknin notuð til að dæma að um mark hafi verið að ræða, tók einhverjar 2-3 sekúndur, fumlaust, og enginn mótmælti. Það er svona sem VAR þarf helst að virka. En nóg um það. Brighton hafa því ekki að neinu að keppa þegar þeir mæta á Anfield á sunnudaginn eftir viku, en eins og sást í leiknum í gær geta þeir alveg gert toppliðunum skráveifu, og því er alls ekkert hægt að bóka 3 stig gegn þeim. Það er því fyrir öllu að ná góðum úrslitum gegn Chelsea á morgun, og það er örugglega það sem Klopp hefur í huga.

Sagan

Þessi lið eiga auðvitað langa sögu, og hafa oft mæst í öllum keppnum. Þá eru allnokkrir leikmenn sem hafa leikið fyrir bæði lið, og því eru gerð ágæt skil á heimasíðu Liverpool. Þau nöfn sem eru næst okkur í tíma eru auðvitað Mohammad Salah og Dominic Solanke, ásamt Victor Moses sem var hjá okkur 2013/14 en hefur verið lykilmaður hjá þeim bláklæddu. Svo þarf auðvitað ekkert að rifja upp sögu Fernando Torres, og þarna eru líka nöfn eins og Raul Meireles, Joe Cole, Glen Johnson, Nicolas Anelka, Benayoun og fleiri. Það hefur því verið mun meiri samgangur á milli þessara liða heldur en á milli annarra, eins og t.d. á milli Liverpool og United, eða Liverpool og Everton. Og mín upplifun er sú að þó svo að Chelsea séu auðvitað svarnir andstæðingar okkar, þá sé ekki sama ákefðin í því núna með Conte við stjórnvölinn, eins og t.d. þegar Mourinho stjórnaði þeim. Það væri gaman að heyra skoðun lesenda á því í athugasemdum.

Andstæðingarnir

Fyrri leikur liðanna á Anfield í haust endaði með jafntefli, þar sem Chelsea skoruðu jöfnunarmarkið á lokamínútum leiksins á sama tíma og Klopp vildi fá að skipta inn varnarmanni en fékk ekki. Síðan þá hafa okkar menn verið á siglingu sem hefur fleytt þeim í úrslitin í meistaradeildinni, á meðan Chelsea hafa hikstað, en að vísu er formið hjá þeim svolítið á uppleið því þeir hafa unnið þrjá síðustu leiki, gegn Swansea, Burnley og Southampton. Þeir ætla því ekki að gefa þetta 4. sæti eftir svo glatt, og verða örugglega erfiðir heim að sækja. Meiðslalistinn þeirra nær því tæpast að vera listi, Drinkwater og Luiz eru ekki leikfærir, en að öðru leyti ættu þeir að ná að stilla upp sínu sterkasta byrjunarliði, og eins og venjulega er bekkurinn alveg ágætlega sterkur hjá þeim.

Liðið

Okkar menn mæta inn í þennan leik í sæluvímu með að vera komnir til Kiev, og nú er það hlutverk Klopp að koma mönnum niður á jörðina fyrir þessa tvo síðustu leiki. Jafnframt getur vel verið að leikjaálag síðustu vikna sé farið að leggjast svolítið þungt á menn, manni fannst það nokkuð greinilegt að það var lítið eftir á tanknum síðasta korterið. En á milli miðvikudags og sunnudags eru 3 heilir dagar, þar að auki er þetta síðdegisleikur. Það er því vonandi að menn verði að mestu búnir að hrista af sér mjólkursýruna. Það kæmi mér samt ekkert á óvart þó Klopp myndi hrista örlítið upp í hópnum, þó ég telji líklegt að hann vilji mæta í þennan leik með eins sterkt byrjunarlið eins og hægt er. Meiðslalistinn er samt ennþá áhyggjuefni: Gomez, Matip, Can, Lallana og Ox allir frá. Lallana gæti hugsanlega komist á bekkinn, það er eitthvað sem læknaliðið metur örugglega í samvinnu við Klopp. Semsagt, miðjan nokkuð sjálfvalin. Hugsanlega hendir hann Ings í byrjunarliðið, en svo gæti hann alveg miðað við að fá hann inn í seinni hálfleik. Vörnin verður sjálfsagt mikið til óbreytt, mögulega fær Lovren pásu og Klavan byrji, og mögulega fær Moreno að byrja í stað Robertson. Nú og svo getur líka verið að Klopp mæti bara með sama byrjunarlið eins og í Róm.

Stillum þessu allavega upp svona:

Karius

TAA – van Dijk – Klavan – Robertson

Winjaldum – Henderson – Milner

Salah – Firmino – Mané

Bekkur: Mignolet, Lovren, Moreno, Woodburn, Lallana, Ings, Solanke

Hér er ég að gera ráð fyrir einni breytingu, en þetta er jú bara ágiskun og ykkar ágiskun er jafn góð og mín.

Maður hefur smá áhyggjur að keppnin um markakóngstitilinn og hin ýmsu markamet sé að stíga Salah til höfuðs, ég vona að hann nái að hrista allt slíkt af sér og að liðið setji alla athygli á það að ná góðum úrslitum. Segjum að leikurinn endi 2-2, með marki frá Firmino og að Robertson nái loksins að brjóta ísinn og lauma inn hinu.

YNWA!

19 Comments

  1. Sælir félagar

    Þetta á ekki að verða svo erfiður leikur fyrir okkar menn. Við erum í betri stöðu en Chelsea með gífurlegan markamun okkar megin. Ég er heldur ekki viss um að Conte sé voðalega æstur í að vinna þennan leik fyrir Olíugarkann Abramovits. það er svo gott sem búið að reka kallinn og hann er varla í neinu bananastuði fyrir hönd liðsins. Hitt er svo annað að Liverpool verður að tryggja sig í meistaradeildina og sigur eða jafntefli í þessum leik léttir allri þeirri pressu af liðinu.

    Því held ég að Klopp muni leggja mikla áherslu á að tapa ekki þessum leik. Liðið hefur sýnt það að það getur alveg haldið hreinu ef leikmenn eru ekki orðnir mjög þreyttir og andstæðingurinn er ekki alltof sterkur gegn þreyttum leikmönnum liðsins. Ég tel því að Klopp muni setja liðið aftarlega og treysta á einhverjar skyndisóknir til að setja mark á gersku olíufurstana. Spái þessum leik 1 – 3 enda kominn tími á að vinna aftur á Brúnni.

    Það er nú þannig

    YNWA

  2. Þetta verður svakalegur leikur. Ég reikna með sama liði og á l’Olimpico.
    Varðandi Morinho, þá hefur mér alltaf þótt hann skemmtilega leiðinlegur. Ef hann væri þjálfari Liverpool þá væri ég reyndar mjög ósáttur við hann þar sem hann lætur liðin sín spila svo leiðinlegan fótbolta. Þess vegna er frábært að hann skuli þjálfa MU, því þótt þeir stefni á annað sætið og hafa unnið einhverja bikara post Ferguson, þá virðast þeir samt vera á niðurleið. Annað en okkar ástkæru. Það er svo miklu skemmtilegra að halda með liði sem spilar skemmtilegan fótbolta og er á uppleið heldur en hitt… við þekkjum það jú líka.

  3. Off topic, stoke er fallið og guð hjálpi klúbbnum okkar ef Butland kemur, hræðilegur markmaður! Megi hann fara með Stoke niður, vil ekki sjá þetta gimpi

  4. Vinnum þessa 2 leiki og endum í þriðja væri frábært að bæta árangurinn í deildinni frá síðasta tímabili!

  5. Hvernig er það, ef við lendum í einu af fjórum efstu sætunum, og vinnum CL , kemur þá fimmta sætið inn í CL?

  6. Tottenham tapar. Finnst margir hafa gleymt þeim í þessari baráttu síðustu vikur. Þeir gætu alveg eins farið niður í 5.sætið líka 🙂

  7. Mér fannst West Brom bara flottir þegar við töpuðum fyrir þeim .. hafa unnið stóra leiki en inn á milli verið ömurlegir .. Gera okkur stóran greiða með að vinna Tottarana.. Flottir bara West Brom !

  8. Benitez á eftir að tefla sínum mönnum fram gegn bæði Chelsea og Tottenham. Vonandi heldur hann þeim báðum fyrir sitt gamla lið.

  9. veit einhver hvort það verði seltar pakka ferðir á úrslitaleikinn

  10. Takk fyrir þetta. Verður ekki annaðhvort Lallana eða Woodburn í byrjunarliðinu. Gleymum því ekki að mikið álag á miðjumönnunum okkar getur skapað meiðsli sem ekki er gott í þunnskipuðum hópi. WBA er að gera frábæra hluti svona undir lokin en þetta er það sem gerir þá ensku svona frábærlega skemmtilega. Verst er alltaf að mæta þessum botnliðum í síðustu umferðunum.
    Varðandi spurninguna um hvort Chelsea séu svarnir andstæðingar þá er það nú svo að ég held alltaf töluvert meira uppá liðin í norðrinu frekar en lið af Lundúnarsvæðinu. Að vísu fyrir utan Manchester liðin sem ég held frekar lítið uppá. Chelsea hafa verið öflugir andstæðngar á þessari öld en komast samt, að ég held, aldrei í flokk með Man U og Everton sem höfuðandstæðingar.

  11. Ég bindi vonir við að þessi fjögurra daga hvíld sé næg til þess að liðið hafi orku í þennan leik. Liverpool spilar þannig bolta að það þarf mikinn kraft til að halda út leiki eins og sást í lok leiksins gegn Roma. Þá var nánast allt liðið búið á því.

    Jafntefli væri óskandi og þá værum við búnir að gulltryggja okkur meistaradeildarsæti.

    Raunsætt séð, þá er Liverpool eina liðið sem gæti náð stigum gegn Chelsea af þeim liðum sem nú eiga eftir að spila við þá.

  12. Gríp off topicið á lofti frá #3. Guði sé lof að Stoke er fallið úr úrvalsdeildinni og þvílík hamingja að það skyldi vera Ryan Shawcross, holdgervingur alls þess sem er slæmt við Stoke, sem rak síðasta naglann í líkkistu Stoke City.

  13. Elskurnar mínar. Erum með mun sterkara lið en Chelsea. Klopp hefur aldrei tapað fyrir Chelsea. Af hverju í ósköpunum ætti hann að taka upp á því núna? Verður samt því miður dull jafntefli, 0 – 0. Við tökum því samt fegins hendi!

    Klopp mun stilla upp sínu sterkasta liði, þ.e. sama byrjunarliði og hóf leik á móti Roma.

  14. Setja inn sterkasta liðið með þá hættu á að leikurinn tapist, og þurfa þá líka að gera það eftir viku, og geta þ.a.l. ekki hvílt neinn eða spara menn í dag ?!?!?
    Það er líklega mjög erfitt að velja liðið í dag

  15. Nr. 16. Ég fer reglulega á Café Amor eða á Back Packers til að sjá leiki þegar ég er norðan heiða.

  16. Hér er svo einhver ITK sem segir að Clyne byrji í bakverði og Trent á miðjunni:

Podcast – back where we belong

Byrjunarliðið gegn Chelsea á Brúnni