Besta lið Liverpool?

Tökum þennan WBA pirring aðeins neðar og förum að hita upp fyrir stórleik vikunnar.  Sá umræðu á twitter þess efnis að Klopp hefði lítið bætt lið Liverpool m.v. lið Rodgers 2013/14.  Vinnum aðeins með þetta og höfum með fyrsta lið Benitez 2004/05 sem vann Meistaradeildina og besta lið Benitez 2008/09 sem var í titilbaráttu.

Læt fylgja með mínar vangaveltur og skoðanir um hverja stöðu fyrir sig. 

Markmenn

Dudek var ekki einu sinni öruggur með stöðuna 2004/05 en bjargaði ömurlegu tímabili í Istanbul. Reina er  klárlega bestur í hópnum  en hafði líka gríðarlega góðan varnarleik fyrir framan sig. Dalaði hratt þegar því var ekki að heilsa. Karius gæti alveg ógnað Reina og ég myndi segja þessa stöðu betur mannaða núna en 2005 og 2014.

Miðverðir

Hyypia og Carragher bera klárlega af í þessum samanburði og eru óumdeilt besta miðvarðapar Liverpool á 21.öldinni.  Carragher var sá eini sem spilaði alla leikina 2008/09 en Skrtel, Agger og Hyypia skiptu með sér mínútum. Miklu minni stöðugleiki en 2005 en vel mannað.  Rodgers hafði engan áhuga á varnarleik, mikið var um meiðsli og stöðugleikinn enginn. Hvað hefði þetta lið gert með einhvern af Carragher, Hyypia eða Van Dijk á hátindi ferilsins?

Það sem við erum að sjá núna frá Van Dijk er  á pari og jafnvel  betra en frá Sami Hyypia á sínum tíma. Van Dijk virkar meira vocal leiðtogi og er miklu fljótari. Hann hefur samt ekki neinn Carragher með sér ennþá. Hugsa að mjög fljótlega verði talað um hann sem besta miðvörð Liverpool á 21.öldinni.

Bakverðir

Traore var ekki bara í bakverði í Istanbul, hann spilaði mest allt tímabilið með Riise fyrir framan sig á kantinum. Finnan á hinum vængnum var svo alltaf solid sjöa. Aurelio og Arbeloa voru öllu meira sannfærandi í þessari stöðu tímabilið 2008/09 og eru líklega besta bakvarðaparið í þessum samanburði.

Helstu bakverðir liðsins 2013714 voru Glen Johnson, Jon Flanagan og Aly Cissokho.  Þeir gáfu sannarlega allt sitt í tímabilið og áttu sín moment en eru koma hræðilega út í þessum samanburði. (Sorry Cissokho,)

Robertson hefur núna frá áramótum stimplað sinn inn sem mest spennandi vinstri bakvörður Liverpool á þessari öld. Ef hann sleppur við meiðsli er Liverpool kominn með framtíðarmann í þessa stöðu sem hefur alla tíð verið vandamál. Meiðsli Clyne hafa komið niður á stöðugleika en mínúturnar sem TAA og Gomez eru að fá gætu skilað okkur leikmönnum sem toppa allt sem við höfum áður séð í hægri bakverði. Clyne er eins og Finnan, nokkuð solid sjöa en aldrei mikið meira en það. Ef hann nær sér af meiðslum og kemur aftur inn í liðið er Liverpool með solid bakvarðapar. Clyne kemur samt bara inn ef TAA skiptir um stöðu eða meiðist því hann mun eigna sér þessa stöðu. Sama á við um Gomez. Heilsa og form Clyne gætu haft töluvert um það að segja hvort TAA/Gomez verði bakvörður frekar en miðjumaður/miðvörður.  Moreno og Milner gefa svo cover í þessari stöðu sem við höfum nánast aldrei búið við.

Varnartengiliður

Miðja Liverpool 2008/09 var sannarlega besta miðjan í boltanum á sínum tíma. Mascherano er líklega næstbesti DMC í sögu félagsins á eftir Souness. Alonso spilaði á elítu leveli frá því hann kom til Liverpool og þar til hann hætti í boltanum. Gerrard var svo á hátindi ferilsins og betri alhliða leikmaður en bæði Alonso og Mascherano.

Hamann var í liðinu 2005 en með minna vægi en hann hafði á Houllier tímanum. Gerrard og Alonso voru góður 2005 en þeir voru báðir á hátindi ferilsins 2009. Þetta eru miðjur sem hafa allt á hreinu varnarlega og gátu teiknað upp sóknarleik liðsins.

Miðjan 2013/14 var meira spennandi sóknarlega en langt að baki varnarlega. Gerrard sem djúpur miðjumaður dó vagninn og hafði fimm unga og duglega sóknarleikmenn fyrir framan sig. 101 mark á því tímabili segja allt sem þarf um sóknarleikinn.  Coutinho var á miðjunni með Henderson og voru báðir frábærir, besta tímabil beggja hjá Liverpool. Þetta lið var samt bara að spila í deildinni og hefði líklega ekkert ráðið við Evrópukeppni í ofanálag.

Miðjan núna er töluvert á eftir þessum liðum. Emre Can gæti orðið heimsklassa leikmaður á næstu árum en er ennþá ekkert í deild og þeir sem við erum að bera hann saman við. Ox-Chamberlain er að skila svipuðum tölum sóknarlega og Coutinho var að gera á miðjunni 2013/14 og er kominn á aldur þar sem miðjumenn taka oft skref uppá við. Það er engin ástæða til að draga of mikið úr liðinu núna, þessi miðja er ekkert lélegt en í þessum samanburði eru þeir í fjórða sæti.

Sóknarmenn

Kraftaverkið 2005 snýst um það hvernig Liverpool vann mótið með þessa sóknarlínu, eftirmaður Owen (Djibril Cisse) fótbrotnaði snemma sem riðlaði plönunum mjög mikið. John-Arne Riise var einn af fremstu þremur í þessari uppsetningu með Garcia á hinum vængnum eða á miðjunni (með Gerrard á kantinum). Þetta er líklega versta sóknarlína Liverpool síðan Bill Shankly tók við liðinu.

Benitez var kominn með mun öflugri sóknarlínu 2009 en allt of þunnan hóp þökk sé eigendum félagsins. Keane var keyptur um sumarið og seldur strax aftur án þess að neitt kæmi í staðin. Eitthvað sem ég mun aldrei skilja. Kuyt og Benayoun voru sitthvorumegin við Torres og Gerrard. Gleymist aðeins að eftir áramót þetta tímabil var það helst Benayoun sem stóð uppúr. Góð sóknarlína en klárlega í þriðja sæti í þessum samanburði.

Sóknarlínan 2013/14 hefur það helst framyfir sóknarlínuna núna að miðjan fyrir aftan þá var miklu betri sóknarlega. Sterling sprakk út um miðjan nóvember, Sturridge var meiðslaust lungað úr tímabilinu og Suarez var sá besti sem ég hafði séð með berum augum hjá Liverpool.  Hélt að það yrði verulega langt í næsta leikmann í þessum gæðaflokki. Hann var samt alls ekkert sá  eini góði í þessu liði eins og oft er haldið fram.

Þrátt fyrir þetta finnst mér sóknartríóið núna vera betra, sóknarlega eru þeir ca. á pari en í ofanálag eru sóknarmenn liðsins núna með bestu varnarmanna liðsins. Firmino er farinn að skora mörk á pari við bestu sóknarmenn en fyrir utan Liverpool hefur vinnuframlag hans alltaf verið stórlega vanmetið, líklega væri hann frábær varnartengiliður. Hann er litlu minna mikilvægur varnarlega en hann er sóknarlega. Það er ástæðan fyrir því að það er bókstaflega fyndið að hann sé ekki í liði ársins í deildinni.  Hann er Suarez light sem er í lagi þar sem við höfum annan sem skorar meira en Suarez gerði.

Mané er betri en Sterling var í 2013/14 liðinu og ég myndi ekki skipta á þeim í dag heldur.  Báðir samt að sýna í vetur hvað þeir geta með góðum liðum.

Salah er svo búinn að jafna árangur Suarez fyrir framan markið og virðist hafa svipuð áhrif á samherja sína og Suarez gerði. Helsti munurinn á þeim er karakterinn, ég fullkomlega elskaði Suarez hjá Liverpool en það er ekki hægt að horfa framhjá því að (ennþá) er vesenið svo miklu minna á Salah. Löng leikbönn og fjölmiðlafár um þau kostuðu mikla orku fyrir bæði stuðningsmenn og líklega leikmenn sem fylgir Salah bara alls ekki. Salah er farinn að ógna markameti Ian Rush sem eitt og sér er galið. Salah eru eins og Suarez gríðarlega vinnusamur og hefur hann léttilega hvað hraða varðar.


Samanburður 2014 vs 2018

Hver einasta staða í vörninni (markmaður þ.m.t.) er betur mönnuð núna en hún var 2014. Miðjan 2014 var miklu betri sóknarlega en heilt yfir er minni munur á liðinum. Mögulega mun sagan dæma núverndi miðju betur en við höfum verið að gera í vetur. Gerrard var alls ekki góður varnarlega sem aftasti miðjumaður 2014, Coutinho var frábær á miðjunni en skilaði svipuðum tölum fyrir framan markið og Ox-Chamberlain er að gera núna. Ox hefur miklu oftar verið varamaður og var líka að spila í Meistaradeild í miðri viku.

Sóknarlega voru bæði lið frábær en ballið var algjörlega búið eftir þetta tímabil. Suarez fór með látum, Sterling var aldrei jafn góður með verri samherjum og Sturridge hefur verið meiddur síðan. Ég veit ekki um neinn Liverpool mann sem myndi skipta á Sterling og Mané, Salah a.m.k. jafnar Suarez og er jafnvel betri. Firmino er svo miklu mikilvægari liðinu nú en Sturridge var 2014. Svona fyrir utan að þetta var besta tímabil Sturridge, hann spilaði 26 leiki!

Mesta og mikilvægasta breytingin er svo stjórinn sjálfur. Þannig að jú þetta er töluvert betra lið núna en besta lið Rodgers.


Þannig að sameignlegt lið væri eitthvað á þessa leið. 

Reina – Bestur af þessum fjórum. Ekki komin næg reynsla á Karius til að ógna honum.

Arbeloa – Svipað solid og Finnan en betri alhliða leikmaður. TAA verður búinn að eigna sér þessa stöðu mjög fljótlega.

Hyypia – Van Dijk þarf að spila meira en 11 leiki til að slá finnanum við. Aðrir eiga ekki glætu.

Carragher – Varafyrirliði í þessu liði og óumdeilt val.

Robertson – Er að spila það vel bæði sóknarlega og varnarlega að hann slær strax við þeim sem komu á undan. Líklegasta lausn Liverpool í þessari vandræðastöðu á 21.öldinni.

Mascherano – Besti varnartengiliður sem ég hef séð með berum augum hjá Liverpool. Ferill hans eftir að hann fór sýnir að hann er einn besti sem spilað hefur þessa stöðu hjá Liverpool.

Alonso – Rolls Royce og minn uppáhaldsleikmaður frá Benitez tímanum. Einn besti miðjumaður sem spilað hefur fyrir Liverpool.

Gerrard – Hann væri á miðjunni í öllum liðum Liverpool og klárlega fyrirliði í þessu liði.

Suarez – Tímabilið 2013/14 var þar til í vetur það besta sem ég hafði séð frá leikmanni Liverpool á einu tímabili á þessari öld. Alltaf í byrjunarliðinu.

Salah – Hann er einfaldlega að toppa það sem Suarez gerði og verður vonandi mun lengur hjá Liverpool. Suarez átti bara eitt svona uber gott tímabil hjá Liverpool.

Firmino – Léttilega í liðinu á undan t.d. Torres eða Coutinho. Vanmetnari leikmaður en Dirk Kuyt var á sínum tíma.

 

 

10 Comments

 1. Aðeins upphitun fyrir upphitun sem vonandi sýnir okkur að þetta lið okkar núna er töluvert öflugt. Þetta er ekkert verra en liðið sem vann Meistaradeildina 2005 og móterjarnir þá voru betri en allt það sem eftir er í keppninni núna. Það er a.m.k. alls engin ástæða til að tala liðið neitt niður.

  Endilega komið með ykkar skoðun á þessum liðum og samanburði á þessum fjórum liðum.

  Stefni á að setja upphitun í loftið þegar ég verð kominn í fyrsta bjór í Leifsstöð í nótt 🙂

 2. Frábær grein
  Mitt sameiginlega lið.

  Reina – var einfaldlega heimsklassa markvörður á sínum tíma. Finnst samt Dudek vanmetinn í umræðuni því uppá sitt besta var hann einfaldlega mjög góður markvörður.

  Glen – Já Arbeloa er meira solid varnarlega en Glen Johnson uppá sitt besta var einfaldlega frábær bakvörður því miður átti hann ekki langt peak hjá okkur en á þeim tímapunkti var hann sterkur varnarlega og gríðarlega mikilvægur sóknarlega.

  Hyypia/Carragher – Liverpool legends

  Robertson – Það er svo skrítið að setja hann hérna inn eftir svona stuttan tíma en það sýnir okkur kannski hvað þessi staða hefur verið til vandræða.

  Mascerano/Gerrard/Alonso – Það þarf varla að ræða þetta. Einfaldlega heimsklassa leikmenn í sínum stöðum.

  Suarez – var stórkostlegur fyrir okkur
  Salah – ER stórkostlegur fyrir okkur
  Torres – var stórkostlegur fyri okkur. Ég dýrka Firminho og skil hans mikilvægi fyrir liðið í dag en Torres uppá sitt besta væri mun meiri ógn sóknarlega og hann var líka duglegur fyrir liðið varnarlega.

 3. Það er alveg umdeilanlegt hversu sambærilegt þetta. Uppleggið og leikkerfin eru ekki alls kostar sambærileg. Svo má benda á að Klopp er með hlutfallslega ódýrara lið en Rodgers ef leikmannaverðbólga er talin með (sjá https://tomkinstimes.com/2018/04/spending-relative-wealth-and-heritage-guardiola-no-better-than-wenger-and-much-more/). Á meðan manni finnst annað sæti Rodgers alltaf vera hálfgert glópalán þá erum við með hóp núna sem nennir ekki að eltast við annað sæti af því að við eigum alvöru séns á meistaradeildinni. Og maður á frekar von á að liðið verði betra á næsta tímabili en þessu tímabili. Ég skil ekki hvernig er hægt að halda því fram að Klopp standi sig illa.

 4. Þetta er rosalegt sameiginlegt lið. Sammála öllu nema eins og Sigurður Einar, soknarlína með Torres fremstan og Suarez og Salah fyrir aftan hann væri of gott til að vera satt. Sérstaklega með þessa miðju þá erum við með miklu betri vörn þar og varnarvinna fremsta manns því minna mikilvæg auk þess sem það eru miklu fleiri stungusendingar í þessari miðju en núverandi og Torres var bestur í að hanga í línunni og slútta 1v1. Miðað við miðjuna fyrir aftan tek ég Torres > Firmino.

 5. Var að fylgjast með live feed á mirror en 433.is sagði frá þessu 20.57. Sem sagt að Mo Salah sé leikmaður ársins. Hvernig er það hægt?

 6. Salah PFA leikmaður ársins á Englandi.
  Til hamingju Mo Salah hann er vel að þessu kominn strákurinn!

  YNWA

 7. Sorry. 433.is sögðu frá þessu 20.48 en úrslitin voru ekki kunngerð fyrr en 23.17 að breskum tíma, 22.17 á isk tíma. Athyglisvert. Tóku þeir bara sénsinn hjá DV?

WBA 2-2 Liverpool

Leikmaður ársins