Lengsta landsleikjahlé sögunnar? (opinn)

Einhvern veginn finnst manni alltaf þessi landsleikjahlé alltof löng þegar skemmtiefni eins og LFC á í hlut þetta árið.

Maður er bara búinn að gleyma vangasvipnum á Klopp, ótrúlegum hraða Salah, yfirvegun Van Dijk og þreytusvip hjá honum “Millie” okkar (finnst það alltaf jafn kjánalegt í viðtölum við Klopp þegar gælunafnið Millie er tengt við liðið okkar, finnst það meira svona ein á áttræðisaldri í suðurríkjum Bandaríkjanna).

Við eigum marga landsliðsmenn sem hafa þeyst um heiminn og að loknum fyrri leiknum eru enn að mestu góðar fréttir af líkamsástandi ferðalanganna okkar. Þó virðist ljóst að Gomez verður út a.m.k. á móti Palace en bæði Lovren og Can eru á Melwood með þeim leikmönnum sem eru í landsleikjafríi og góðar vonir um þá báða í baráttuna um Selhurst Park.

Flestar deildir liggja niðri svo að meira að segja lánsmennirnir okkar hafa líka verið í pásu. Harry Wilson hélt þó upp á fríið með því að leika landsleiki með Wales og skora sitt fyrsta landsliðsmark í 6-0 sigri á Kína. Strákurinn sá hefur heldur betur slegið í gegn á láni hjá Hull City og notaði tækifærið í viðtölum og talaði um draum sinn um að spila fyrir Liverpool í kjölfar landsliðsmarksins. Wilson hefur verið frábær í vetur í leikjum U23ja ára liðsins okkar, þeirra langbesti maður og er saknað sárt þar. Hann varð strax mikilvægur hlekkur í leik Hull og hefur verið stór þáttur í mjög bættu gengi hjá því liði.

Það er vissulega stórt skref fyrir Wilson að stíga inn í sóknarlínu LFC, við vitum öll hverjir eru þar fyrir og eru ekki líklegir til að gefa sætið sitt eftir. Wilson hefur hins vegar einmitt þá eiginleika sem að fullkomnaðir eru af draumatríóinu Salah, Firmino og Mané. Hann er mjög fljótur og býr yfir mikilli tækni, með magnaðan vinstri fót sem hefur skilað mörkum úr föstum leikatriðum hægri vinstri. Hann er líka gríðarlega duglegur í pressunni, nokkuð sem Klopp mun örugglega horfa til líka. Ef að hann heldur áfram á sömu braut fram í maí er ég alveg á því að hann fái meiri tækifæri til að sanna sig í alrauða búningnum og mig langar mikið til að hann “meiki’ða” á Anfield. Sakna þess að hafa ekki welskan sóknarmann í liðinu okkar!

Einmitt talandi um að sakna…og þá Wilson. U23ja liðið okkar átti frábærri velgengni að fagna fram í janúar, voru þá langefstir í deildinni sinni og bæði í bikar- og Evrópukeppninni. Í janúar voru nokkrir leikmenn sendir til annarra liða. Auk Wilson fór fyrirliðinn Corey Whelan til Yeovil, Matty Virtue til Notts County (er kominn til baka núna) og Ovie Ejaria til Sunderland…og svo Flanagan og Grujic líka en þeir tóku þátt í nokkrum leikjum í vetur. Skemmst frá því að segja þá hefur botninn dottið úr. Af síðustu leikjum hafa þeir unnið 1 en tapað 7. Komnir niður í 4.sæti í deildinni sinni og fallnir út úr öllum bikarkeppnum. Það er pínu svekk fyrir svona nörda eins og mig. Það var frábært að horfa á þetta lið tæta lið í sig lengst af tímabilinu en skarðið sem var höggvið í janúar var bara of stórt.

Jurgen Klopp hefur verið óspar að kalla unga leikmenn upp úr liðinu til að æfa með aðalliðinu. Áherslur hans voru á sínum tíma svolítið þær að halda leikmönnum í Liverpool frekar en að lána en það virðist þó vera komin sú lína að á ákveðnum tímapunkti vilji hann að leikmenn fari í “meistaraflokksumhverfi”. Ejaria og Wilson settir til stórra klúbba á neðri deildar mælikvarða með það fyrir augum að sjá hvort þeir eru tilbúnir að fara inn í aðalliðshóp og Whelan (sem var fyrirliði U23ja) látinn finna bragðið í D-deildinni. Það að fórna titlum í U23 auðvitað svosem minniháttar atriði ef horft er í stóra samhengið.

Á meðan að U23ja hefur dalað hefur U18 liðið sem stjórnað er af Stevie G verið að stíga upp. Jafntefli í fyrstu leikjum mótsins í haust eru að kosta ansi mikið þessa stundina eftir að liðið hefur unnið býsna marga leiki frá áramótum. Þegar þetta er skrifað er liðið nýdottið út úr UEFA-unglingadeildinni eftir tap í vítakeppni fyrir Manchester City og úr FA-bikarnum fyrir Arsenal eftir framlengingu. Þeir eru í 2.sæti í deildinni en með örlögin í sínum höndum. Með því að vinna þá leiki sem þeir eiga inni á Man. United og síðan innbyrðis viðureign liðanna í næst síðustu umferð kæmust þeir uppfyrir erkifjendurna og ynnu norðurriðil deildarinnar.

Þetta lið spilar fótbolta í anda Klopp og með Gerrard áherslum, grjótharðir og “direct” á margan hátt og vel þess virði að stilla inn á leikina þeirra. Þarna eru spennandi nöfn, þekktastur sennilega er Rhian Brewster, framherji sem verið hefur að sniglast í kringum aðalliðið og aðalstjarna U17 hjá Englandi. Hann hefur lítið spilað í vetur vegna meiðsla en sýnir heldur betur hæfileikana í treyjunni. Það eru miðjumenn þarna sem gaman er að horfa til, Norðmaður að nafni Edvard Tagseth kom í haust og hefur stimplað sig inn sem mikill vinnuhestur með góða tækni og Portúgalinn Rafa Camacho hefur verið sá sem mest hefur skapað, spilar allar stöðurnar aftan við senter í 4-2-3-1 og er mikill hausverkur fyrir mótherjana.

Mér finnst þó sá sem mest er spennandi vera Curtis nokkur Jones sem er nýorðinn 17 ára en styrkurinn og krafturinn gefur til kynna mun þroskaðri einstakling. Þessi strákur hefur alla burði til að vera mjög öflugur “box-to-box” miðjumaður af gamla skólanum. Þessi vinnur tæklingar og skallaeinvígi, sópar upp í vörninni með mikla sendingargetu og skorar reglulega. Frá því í janúar verið fastur maður í U23ja, fengið að æfa töluvert með aðalliðinu og alger lykill að þeim árangri sem U18 eiga möguleika á.

Annars er þráðurinn opinn, við vitum auðvitað af Selhurst Park eftir 4 daga, þar er verðugt verkefni á ferð, hindrun sem verður að yfirstíga fyrir risaverkefnin þar á eftir, double-header við Man.City í CL og svo smá Merseyside derby troðið milli þeirra viðureigna.

Hvenær endar þetta landsleikjahlé eiginlega!?!?!?!?

7 Comments

  1. Ekki nóg með hvað Harry Wilson er búinn að vera spila vel í vetur er hann búinn að vera frábær undanfarin ár með U23 og skorað alveg helling. Hef furðað mig á því hvers vegna hann hefur ekki verið að fá sénsin með aðalliðinu. Verður vonandi lærlingur Salah á næstu leiktíð og grípur sénsinn þegar hann kemur

  2. Fróðlegir punktar og umræða. Held með þessa stráka að það verði að passa að þeir komi ekki of snemma inn í meistaraflokkinn. Held að það sé mun betra fyrir 18 ára gutta að spila á fullu við sína jafnaldra frekar en að vera kippt inn í meistaraflokkinn. Ungir bráðþroska guttar sem hafa verið nánast lykilmenn fyrir tvítugt hafa líka flestir verið útbrunnir 28 ára eða slaknað það mikið að styttist verulega í endalokin. Nefna má Owen, Fowler og Rooney sem dæmi.
    Mér finnst allt í lagi þessi landsleikjahlé, jafnvel þó þau væru lengri.

  3. Hef í sjálfu sér ekki kynnt mér unglingaakademiuna allt of mikið. Mér þykir samt segja sig sjálft að það verður sífellt erfiðara að ala leikmenn upp í þeim tilgangi að þeir spili fyrir Liverpool þegar byrjunar liðið styrkist á hverju tímabili.

    Gott dæmi er Jordon Ibe en ég er stórlega efins að hann fengi mikinn spilatíma ef hann hefði verið ennþá hjá Liverpool. Hann kæmist ekki einu sinni á bekkinn.

    Veit eiginlega ekki hvað er til ráða. Svo virðist sem aðaeins brotabrot af unglingademiunni nær alla leið en þó alltaf einhverjir eins og Trent Alexsander er gott dæmi er um og að sjálfsögðu Sterling á sínum tíma. Joe Gomez er t.d ekki uppalinn Liverpoolmaður. Hann var keyptur.

    En ef Akademian er að fjármagna sig með sölum á leikmönnum til neðri deildaliða og á nokkra ára fresti kemur fram einhver gullkoli sem kemst alla leið, er ekki ein einasta spurning að hún sé til hins betra. Það virðist eins og það sé mjög erfitt að sjá hverjir verða algjörir toppleikmenn í krignum 16-19 ára aldur og þetta sé hálfgert happadrætti þegar liðin gera samning við leikmenn.

  4. Allt of langt hlé já, sammála því. Á meðan okkar menn koma heilir tilbaka þá er þetta í lagi. Gat ekki betur séð en að Salah hafi verið hvíldur í seinni leiknum hjá Egyptum. Sama hjá Bobby. Stórt like á það! Fróðlegir molar hvað varðar unglingana okkar, gaman að lesa yfir svona pistla fróðra manna eins og Maggi er.
    Skal vel viðurkenna það að ég er að farast úr spennu yfir komandi leikjum, þetta verður rosalegt og ég er viss um að leikmenn city munu fá áfallahjálp í hálfleik í fyrri leiknum á Anfield, stemningin verður SVAKALEG.
    YNWA!

  5. Hvernig er það með varnarmennina okkar eru allir að meiðast núna svona rétt áður en við náum að tryggja okkur CL sæti ?
    Gomez meiddur , Lovren tæpur , Matip finnst mér ekki búinn að heilla undanfarið sorry,
    TAA mistækur samt ánægður með hann ungur og mun verða betri.

    ánægður með VVD og Robertson veit ekkert hvar við höfum Moreno þessa stundina.

    En þarf klúbburinn ekki að vera með plan C líka það eru alltaf svo mikil meiðsli hjá okkur þrátt fyrir þessa svokölluðu breidd þetta getur kostað okkur mikið og meiðslin á Gomez verða allavega 1 mánuð.

    Hélt alveg þetta væri komið þegar VVD kæmi inn en þegar það kom í ljós að Lovren var að keyra sig áfram meira á lyfjum en lofti þá fer maður að spyrja sig afhverju eru þessi meiðsli að hrjá bókstaflega ALLA varnarmennina okkar?

    Grjóthart skref hjá klúbbnum að borga þessa upphæð fyrir VVD en við meigum ekki gleyma að okkur vantar enn meiri gæði og breidd

    Hvað er svo að frétta af Clyne búinn að vera meiddur í hvað heilt ár þurftu þeir að skipta um bak á honum veit eitthvað hvað er að frétta af kauða.

    Allavega hvað finnst mönnum er þetta bara í góðum gír hjá okkur eða mun þetta mögulega kosta okkur þegar tímabilið er búið?

Opinn þráður – Interlull, meiðsli og Návígi

Podcast – Tottenham umræða með Hjamma