Stórleikur á laugardaginn

Í hádeginu á laugardag mun Liverpool heimsækja Old Trafford og etja kappi við Man Utd í leik sem gæti endað á að vera afar mikilvægur í baráttu beggja liða um að tryggja sig í eitt af efstu fjórum sætum deildarinnar. Staðan í þessari baráttu er afar jöfn en Liverpool er fyrir leikinn með 60 stig í þriðja sætinu, tveimur á undan Tottenham og tveimur á eftir Man Utd en á sjö stig á Chelsea í fimmta sætinu. Sigur fyrir annað liðið í þessum leik gæti komið því í ansi þægilega stöðu.

Þegar liðin mættust fyrr á leiktíðinni var engin rosaleg flugeldasýning í markalausu jafntefli þar sem upplegg liðana varð gjörólíkt og gestirnir fengu akkúrat það sem þeir vildu úr þessum leik, stig á útivelli. Það má alveg reikna með svipuðu uppleggi í þessum leik nema ég vænti þess að sjá Man Utd ögn framar en engu að síður munu þeir leitast eftir því að drepa niður hraðann og plássið á vellinum með þeim tilgangi að núlla út helstu styrkleika Liverpool.

Bæði lið hafa verið á ágætis skriði undanfarið en í síðustu umferð vann Liverpool góðan og þægilegan 2-0 sigur á Newcastle á heimavelli en Man Utd þurfti að hafa aðeins meira fyrir sínum sigri gegn Crystal Palace á útivelli en þeir lentu 2-0 undir og unnu 3-2 í blálokin.

Af okkar mönnum er held ég bara allt fínt að frétta. Ekkert hefur heyrst af óvæntum meiðslum og má reikna með að Gini Wijnaldum verði aftur klár í slaginn eftir að hafa fengið niðurgang. Má segja það hér? Ef Klopp má segja þetta á blaðamannafundi af hverju má ég ekki segja það hér? Ok, afsakið. Hann var með magakveisu.

Henderson á að hafa haltrað aðeins eftir leikinn gegn Porto í miðri viku en eflaust ekkert alvarlegt þar. Ef hann verður á bekknum þá held ég að það sé frekar vegna þess að hann spilaði tvo leiki í síðustu viku og kannski ekki alveg með skrokkinn í þann þriðja. Salah fékk fína hvíld og þeir Mane og Firmino spiluðu stutt gegn Porto svo þeir ættu að vera ferskir.

Ég býst nokkuð fastlega við því að þeir sem voru teknir úr liðinu eftir leikinn gegn Newcastle muni koma aftur inn. Salah kemur klárlega inn ásamt Van Dijk og ég held að þeir Trent Alexander Arnold og Chamberlain komi sömuleiðis inn aftur ásamt Robertson.

Karius

TAA – Van Dijk – Lovren – Robertson

Chamberlain – Can – Milner

Salah – Firmino – Mané

Ég ætla að giska á að þetta verði byrjunarliðið gegn Man Utd og svona nokkurn veginn það sem ég myndi vilja sjá. Eins og áður segir þá held ég að Henderson fari ekki að byrja þrjá leiki í röð en ef hann er maður í það þá mun hann byrja. Chamberlain var mjög sprækur gegn Newcastle og er með kraft og hraða sem gæti nýst mjög vel í þessum leik. Milner hefur leikið frábærlega undanfarnar vikur og ætti að vera í liðinu en hann fékk hvíld gegn Newcastle um síðustu helgi.

Van Dijk er fast nafn þarna í miðverðinum en Klopp hefur verið að rótera aðeins þeim sem er með honum. Lovren byrjaði gegn Newcastle og ef ég fengi einhverju ráðið myndi ég frekar vilja sjá hann byrja en Matip í þessum leik. Liðið er að fara að mæta mjög hávöxnu og physical liði sem mun væntanlega spila Lukaku sem fremsta manni og því fínt að hafa tvo af bestu skallamönnunum og líkamlega sterkari leikmönnum sem við eigum gegn þeim. Það gæti til dæmis verið ein ástæða þess að Klopp myndi notast við Henderson á miðjunni í stað t.d. Milner eða Chamberlain en er ekki viss um að það verði raunin.

Þetta verður áhugavert verkefni en leikir þessara liða eru oft mjög taktískir, varkárir og oft bara frekar leiðinlegir. Það gæti orðið breyting þar á ef Liverpool skorar fyrst og nær að draga þétt og agað lið Man Utd úr skotgröfunum. Þetta er eitt af þeim liðum sem hentar Liverpool oft mjög illa að mæta ef þeir hyggjast verjast eins djúpt og síðast þegar þau mættust. Því gæti mark snemma leiks orðið afar öflugt vopn fyrir Liverpool en ef ekki þá mun þetta krefjast mikillar einbeitingar og þolinmæði því ég efa ekki að þeir muni reyna að drepa niður allt tempó í leiknum.

Kannski kemur eitthvað á óvart og dæmið snýst við þar sem Liverpool ákveður að liggja til baka, fá Man Utd á sig og freista þess að ná að fella þá á skyndisóknum. Hver veit? Mér þykir ansi erfitt að lesa í þessar viðureignir því mér þykir þær oft svo furðu óútreiknanlegar. Síðustu þrír leikir þessara liða í deildinni hafa endað í jafntefli og hinn með 1-0 sigri ef ég man rétt – það má því alveg vænta þess að það verði eitthvað svipað upp úr teningnum núna.

Ég er bjartsýnn, vongóður og farinn að setja þá frekjulegu kröfu á að Liverpool nái úrslitum sama á móti hverjum þeir spila og hvar þeir mæta þeim. Man Utd á Old Trafford? Ég vil sigur og vonandi fáum við slíkann og komum okkur í bílstjórasætið í þessu kapphlaupi.

Ég vil svo endilega benda á frábæra upphitun í podcastinu í færslunni fyrir neðan þar sem Kristján Guðmundsson mætti með strákunum að hita upp fyrir leikinn. Tékkið á því!

22 Comments

 1. Töpum 4-0. Erum einfaldlega of lítið lið á móti þessu risa liði frá manchester. Við litla liðið í liverpoo getum vel við unað að tapa þessum stórleik.

 2. ég er ekki að reyna vera leiðinlegur en Við liverpool menn eigum ekkert í risana í manchester.þó svo að eg haldi með mínum mönnum í liverpool þá reikna eg með því að stórveldið í manchester rúlli yfir okkur kv konungurinn

 3. Bara að keyra á þetta og ekkert annað.
  Ekkert spila uppá 1 stig(ekki eins og það sé okkar stíll). Miða við stöðuna í deildinni eigum við bara að blása til stórsóknar frá upphafsflauti.
  Þetta gæti kostað okkur öll stigin en þetta eykur líka líkurnar að við fáum 3 stig en minkar líkur á jafntefli. Förum í þetta með allt eða ekkert hugsun og ef strákarnir gefa sig 100% í verkefnið þá er ég viss um að stuðningsmenn liðsins kunna að meta þeira leikstíl og vinnuframlag í leiknum.

  Mig grunnar nefnilega að Móri sé orðinn pínu þreyttur á öllu tali um neikvætt tal um hans leikstíl og að við endum með að fá fjörugan leik sem var ekki í boði síðast þegar þessi lið mættust.

  Spá 1-2 sigri . Mane kemur okkur yfir, Rashford jafnar en Dijk skorar sigurmarkið eftir hornspyrnu á 83 mín.

  YNWA

 4. Sæl og blessuð.

  Best að henda inn kommenti svo enginn ruglist á okkur Lúðvíkunum. Ég held að Móri reyni að koma á óvart með gegenpressusókn fyrsta hálftímann og svo fari hann í fyrirsjáanlegan bakkgír þá klst. sem eftir lifir leiks.

  Ástæðan? Jú, hann vill freista þess að skora í byrjun og reynir að koma okkur í opna skjöldu með slíku plani.

  Árangurinn? Ég held að þeim verði ekki kápan úr því klæðinu. Eftir að okkar menn hafa áttað sig á hlutunum setja þeir í fluggírinn og í þrígang á 10 mín. komast þeir þrír á móti tveimur. Í þriðja skiptið nær einhver þeirra, Mané, Firminó eða Salah að skora og þá fellur planið hans Móra um sjálft sig.

  Eftirleikurinn verður ekki auðveldur en hann mun í það minnsta ekki fela í sér tveggja hæða Lundúnarrútu í vítaeig heimamanna.

  Takk fyrir og góða helgi.

 5. Sæl öll,

  Var búin að hugsa svo flott innlegg en las svo fyrstu 2 frá honum Lúðvík og ég eiginlega komst ekki lengra. Hvað er hann að reykja þarna hinu megin “Litla liðið frá Liverpool” það vita það allir að það eru 2 góð lið í Liverpool …Liverpool og svo varalið Liverpool. Við Liverpool menn/konur tölum aldrei um risana í Manchester og meinum Utd. við tölum kannski um risana í Manchester en það er þá væntanlega góð ísbúð. Hann segist ekki vera að reyna að vera leiðinlega en my oh my hvernig er hann þá þegar hann er að reyna að vera leiðinlegur. Lúðvík #1 og #2 vertu úti…eða vertu á Man.Utd. spjallinu þar sem þú greinilega átt heima.

  En ég er í smá vandræðum, fyrir leik okkar gegn betra liðinu í Manchester hét ég á mömmu að ég myndi bjóða henni og pabba út að borða ef okkar menn ynnu, það er skemmst að segja frá því að þau fóru út að borða. Svo fyrir fyrri leikinn gegn Porto endurtók ég áheitið og þau eru á leiðinni út að borða í næstu viku. Fyrir þennan leik á morgun þarf ég að heita á þau ( get ekki sleppt þessum leik) Er einhver með hugmynd af góðum veitingastað sem kostar mig ekki hönd og fót og frumburðin? Ég má ekki eyða of miklu því þá kemst ég ekki heim til Liverpool í haust.

  Varðandi leikinn á morgun við, litla liðið í Manchester að sjálfsögðu munum við vinna með fleiri skoruðum mörkum en andstæðingurinn( er samt rosalega stressuð, búin með neglurnar,búin að lofa því að hætta að drekka Pepsi og Guð má vita hvað)

  Þangað til næst
  YNWA

 6. Lúðvík annar og þriðji vertu úti sammála Sigríði þú talar aldrei um Liverpool sem litla liðið í Liverpool borg öðru vísi en vera A: á einhverju eða B: ekki sannur Liverpool stuðningsmaður
  Spáin . 1-1 í hörkuleik og væntanlega ekki miklum sóknarbolta í.þ.m. ekki af hálfu manure.
  Ég er reyndar eins og fleiri á nálum yfir þessum leik en ætla samt að njóta þess að horfa og vonandi hef ég rangt fyrir mér og við rúllum yfir Manutd .

 7. Sælir félagar

  Það þarf ekki að ræða þetta. Liverpool verður að vinna þennan leik til að tryggja sæti sitt í efstu 4. MU þolir jafntefli en við munum missa T’ham upp fyrir okkur með jafntefli og falla niður í 4. sætið. Það er vont og því er ég viss um að okkar menn eiga eftir að keyra svakalega á Móraskarann í þessum leik. Spái því að það beri árangur. 1 – 4 er mín spá og það verður ekki Lukaku sem skorar fyrir þá heldur Martial.

  Það er nú þannig

  YNWA

 8. Þetta fer 0-2. Munurinn verður nefnilega sá, að LFC glutrar þessu ekki niður eins og CP. Niðurglutrunin hjá okkur er liðin.

  YNWA

 9. Sigríður mæli með að þú farir með foreldrana á Ban Kúnn í Hafnarfirði
  https://www.facebook.com/Ban-K%C3%BAnn-694901683863441/

  Annars er ég bjartsýnn fyrir þennan leik. Er sammála LS #4 að Móri muni reyna að koma á óvart og sækja til að byrja með en fái það í hausinn og mark beint í smettið á sér í byrjun leiks. Það þýðir að hann getur ekki lagt rútunni og fær fleiri mörk í smettið og við löndum þessu 0-3

 10. Er hægt að fjarlægja commentinn frá Lúðvík stuðningsmanni united þarna efst þetta er ekki boðlegt að lesa þetta.

 11. Tottenham og City hafa flengt utd fyrr á leiktíðinni…það verður eitthvað svipað á öskuhaugunum á morgunn….

 12. Henderson er allan tímann að fara spila þennan leik. Hann er fyrirliði og er búinn að vera frábært svo hann er ekki að fara á bekkinn.

 13. Mér finnst Lúðvík soldið fyndinn og óþarfi að tala um að henda honum út 🙂 Það er ekki sama hvernig svona “diss” er sett fram…

 14. Liverpool teku þetta leiðinlega lið í kennslustund og flengir prímadonnurnar. Áhorfendur vilja sjá skemmtilegan fótbolta en ekki skraut hausa eftir hár lagningu.

 15. Keyra á þetta drasl fra fyrstu sekúndu. Þeir eru lafandi hræddir við kantana okkar og þeir munu reyna að loka öllum leiðum. Ég er ekkert smeykur við þennan leik, er viss um að heimaliðið er ansi stressað, hins vegar.
  Ég trúi á Klopp og það sem hann er að gera. Af hverju ættum við ekki að trúa á okkar menn? Rústum þessu!

 16. Er ég sá eini sem sé kaldhæðnina í kommentum 1 og 2, svona anti-jinx.
  svolítil misheppnuð fyndni.

 17. Sjaldan verið jafn bjartsýnn fyrir leik á old trafford. Spái 1-4 sigri, Salah með þrennu og svo setur Firminho eitt.

  Mourinho reynir að leggja rútunni og fær vikið á baukinn frá stuðningsmönnum United sem er löngu orðnir þreyttir á leikplani hans.

  Þetta lið þeirra er brotið og mun ekki ráða við skriðþunga Liverpool.

 18. ef einhver vinnur þetta þá er það liverpool.

  framlínan öll hjá united er á pari við miðlungslið þannig að ég sé ekki að þeir geti skorað nema vörnin gefi þeim eitthvað á silfurfati.

 19. Ef við skorum ekki mark á fyrstu 20 min verður þetta eins og að horfa á málningu þorna!

  Það er reyndar gegnum gangandi taktík smáliða, og þar með við því að búast frá andstæðingum okkar í dag.

 20. Mér finnst ótrúlegt að láta hendo spila gegn porto í unnu einvígi til að geyma hann á bekknum gegn manutd. Það getur vel verið að Klopp sjái þetta þannig að aðrir henti betur þarna gegn þeim.
  En ég myndi vilja sjá hendo.can milner byrja þennan leik byrja soldið þétt á miðsvæðinu.

  Svo henda léttari mönnum inn ef leikurinn þróast þannig.

  Annars er ég bara spenntur og vonast til að sjá að liðið sé komið á þann stað að geta upp leik gegn jafn sterku liði og utd er á þeirra velli .
  Myndi gefa mikið sjálfstraust inn í cl.

  YNWA koma svo ……

 21. Liðin sýnist mér:
  Manchester United starting lineup:
  De Gea, Valencia, Bailly, Smalling, Young, Matic, McTominay, Mata Alexis Rashford, Lukaku

  Liverpool starting lineup:
  Karius; Alexander-Arnold, Van Dijk, Lovren, Robertson; Henderson, Can, Oxlade-Chamberlain; Salah, Mane, Firmino

Podcast – Háspenna lífshætta

Liðið gegn Man Utd