Liverpool í átta liða úrslitin!

Liverpool og Porto gerðu markalaust jafntefli á Anfield sem þýðir að Liverpool siglir áfram í næstu umferð með 5-0 samanlagðan sigur á Porto.

Eins og við mátti búast spilaðist leikurinn þannig að augljóst var að annað liðið hafði fimm marka forystu eftir fyrri leikinn og var hann nokkuð rólegur heilt yfir en Liverpool stjórnaði allri ferðinni og hefðu í raun átt að klára leikinn með sigri.

Klopp gerði þó nokkrar breytingar á byrjunarliðinu frá því í síðasta leik en þeir Chamberlain, Van Dijk, Robertson, Alexander Arnold og Salah byrjuðu ekki í dag en liðið engu að síður nokkuð öflugt.

Karius

Gomez – Matip – Lovren – Moreno

Milner – Henderson – Can

Lallana – Firmino – Mané

Liverpool byrjaði leikinn nákvæmlega á sama hátt og þeir enduðu hann. Þeir pressuðu ákaft á leikmenn Porto, komu þeim úr jafnvægi og unnu af þeim boltann sem þeir héldu svo lengi og reyndu að finna opnanir. Fullkomin stjórn á leiknum og Porto gerðu nær ekkert í þau skipti sem þeir komu yfir á vallarhelming Liverpool.

Maður skynjaði nú alveg að það vantaði ákveðinn takt í sóknarleiknum í kvöld og að menn voru innst inni ekkert í lífsnauðsynlegri þörf á að skora mörk í kvöld. Mane fékk tvö færi í fyrri hálfleik, annað þegar hann hoppar upp í fyrirgjöf Gomez en nær ekki að stýra boltanum á markið og hitt var þegar hann átti kraftmikið skot sem endaði í stönginni. Lovren átti svo fínan skalla sem fór yfir markið og ef ég man rétt þá var þetta það mest marktækasta úr fyrri hálfleiknum.

Klopp skipti óvenju snemma og tók Firmino útaf – sem, líkt og fyrri daginn, var frábær í pressunni fram á við þó hann hafi líkt og aðrir ekki alveg verið í taktinum fram á við. Danny Ings kom inn á í hans stað og var mjög líflegur. Það er gaman að sjá hann aftur á vellinum og hann er í rosalega flottu standi líkamlega þrátt fyrir að hafa misst úr nær rúmlega tvær leiktíðir vegna slæmra meiðsla. Hann átti tvo góða skalla að marki og í annað skiptið þurfti Iker Casillas, í marki Porto, að taka á honum stóra sínum til að blaka boltanum framhjá.

Lovren átti frábæra björgun seinni part leiks þegar hann hoppar fyrir skot af stuttu færi í teignum og bjargaði mjög líklega marki. Salah kom inn á þegar um stundarfjórðungur var eftir af leiknum og minnti á að hann er ógeðslega góður en tókst ekki að gera það sem gera þurfti til að klára leikinn.

Ég veit nú ekki hvað skal segja meira um þennan leik nákvæmlega. Viðureignin var unnin í fyrri leiknum og þetta kvöld því aðeins formsatriði að spila þessar 90 mínútur og að tapa ekki 6-0, það var nákvæmlega það sem var gert. Porto fengu engan séns í leiknum og leikmenn Liverpool fengu ágætis æfingaleik til að vonandi brýna hnífa sína fyrir stórleikinn á laugardaginn.

Það er í raun ekki einhver ákveðinn sem stendur upp úr í vali á manni leiksins. Allir þrír á miðjunni voru góðir. Henderson fannst mér virkilega góður, Can var gjörsamlega út um allt og James Milner var flottur – sá er búinn að vera frábær síðustu vikur by the way!

Lallana var frekar daufur frannst mér á vængnum og þegar hann og Gomez voru saman á hægri vængnum þá fannst mér við rosalega bitlausir og vanta meiri áræðni. Hann nældi sér í góðar 90 mínútur sem hann þarf til að komast í stand. Mane minnti ágætlega á sig í leiknum og Firmino var fínn en vantaði ögn upp á frammi fannst mér. Moreno átti mjög líflega spretti en vantaði að stilla miðið í fyrirgjöfum og skotum sínum. Ings var líflegur þegar hann kom inn á og Salah líka. Lovren fannst mér mjög flottur þegar á reyndi en fannst Matip ekki eins dominerandi. Veljið einn af þessum þremur sem voru á miðjunni í dag og réttið honum titilinn, mér er sama hvern þið takið þeir ættu það allir skilið.

Já og Emre Can, viltu bara vinsamlegast hætta þessu “play hard to get” bulli þínu og skrifa undir nýjan samning við Liverpool, takk!

Liverpool er komið í fyrsta skiptið í örugglega – guð má vita hvað mörg ár, ég er ekki einu sinni viss um að það hafi verið búið að finna upp á ljósaperunni þegar það var!

Við fögnum þessu stóra skrefi í rétta átt og sjáum nú á næstu sjö til átta dögum hvaða liðum við getum mætt í næstu umferð en þangað til við komumst að því þá er erfiður útileikur í hádeginu á laugardag þegar Liverpool heimsækir Man Utd í leik sem getur spilað stóra rullu í topp fjögur baráttunni svo það er fínt að leikmenn hafi fengið ágætis hvíld í kvöld.

25 Comments

 1. Mikið var þetta nú lítið spennandi leikur. Skiljanlegra af hálfu Liverpool því þeir voru öruggir áfram og Porto hugsaði bara um það eitt að fara úr þessari keppni með einhverskonar sæmd. Það er algjörlega augljóst að Liverpool er miklu betra lið en Porto, því það var miklu líklegra að fara með sigur af hólmi.

 2. Ekki skemtilegasti leikur sem ég hef séð með Liverpool en mjög skynsamlega leikinn og gott að vera komin áfram í meistaradeildinni.

 3. Frábært. Hef ekki neinn óskamótherja í 8 liða en helst ekki enskt lið. Best að fá svo MC í úrslitum og………..

 4. Ekkert hægt að setja útá þennan leik. Salah spilaði 15 mín, Firminho 60 og Mane 75 svo að ég reikna með að þeir verða ferskir í næsta leik. OX, Trent, Dijk og Robertson allir hvíldir og Lallana, Moreno, Gomez og Millner að fá fullt af mín.

  Drauma drátturinn í 8.liða úrslitum er Man utd.

 5. Núna skilur maður hvernig man utd aðdáendum líður 🙂 Eftir svona 0-0 leik. Þessi leikur var nú bara notaður sem eins konar “general” prufa fyrir næsta leik. Gott að geta hvílt nokkra leikmenn og aðeins haldið hinum heitum. Það væri ekki leiðinlegt að fá Sevilla í 8 liða úrslitum 🙂

  Djöf hefði það samt verið gaman fyrir Ings að skora sigurmarkið 🙂

 6. Sæl og blessuð.

  Af hverju í volaðri veröldinni var hann að spila þeim Mané, Firmino og taka áhættuna með Salah þarna í lokin?

  Ings hefði sómt sér vel í 90 mínútur, grænglóandi á eftir hverri hreyfingu. Solanke hefði nú ekki kvartað yfir spilatíma heldur og ekki hefði nú þurft að óttast um framtíð siðmenningar ef Woodburn hefði fengið að trítla þarna um í 10 mín. í lokin.

 7. Gaman að sjá kraftinn í Ings. Vonandi nær hann sér á gott strik, hvort sem það verður nú með Liverpool eða öðru liði. Einn af þessum leikmönnum sem öllum líkar vel við.

 8. Frábærar en hundleiðinlegar 93 min og átta liða úrslitin bíða okkar handan við hornið.
  Gaman að sjá krafinn og dugnaðinn í Ings.
  Til hamingju Liverpool.

 9. Besti leikur LFC í ár. Fagmennska og leiðindi sett í forgang til að tryggja að kraftur og mannskapur sé tilbúinn fyrir næsta leik og næstu UCL umferð. Við erum að spila eins og við eigum heima meðal 5 bestu í heiminum.

 10. Fékk þá tilfinningu í gær að Real Madrid yrði andstæðingur LFC í 8 liða úrslitum. Annars flottur leikur, bar þess merki að liðið væri komið áfram.

 11. Er skíthræddur um að ManU nái að vinna Sevilla með því að pakka í vörn og taka síðan sigur í vídó eða eitthvað álýka ömurlegt eins og flest það sem þeir sýna kanspyrnuáhugamönnum þessa daga, enn hvað með það horfði á fyrri hálfleik í gær sá að Porto æltaði ekki að gera neitt og LFC því heldur ekkert svo ég fór bara í fótbolt sjálfur og horfði ekkert á seinni og sá síðan ekki eftir því þar sem mér skilst að það hafi ekki verið eftir neinu að sjá. En nú er það spurning hvort við erum með þann þroska hjá okkar elskulega liði að klára þessa féndur næstu helgi ætla klárlega að horfa á þann leik frá fyrstu mínútu spái okkur 1-2 sigri í þeim leik.

 12. Sælir félagar

  Okkar menn gerðu það sem þurfti og það var eiginlega óheppni að vinna ekki þennan leik sem í raun skipti litlu máli hvort vannst eða fór í jafntefli. Mér er sama hvað andstæðinga við fáum svo lengi sem við sleppum við Tottarana. Það er eina liðið sem ég er hræddur við og ekki síst vegna þessa hvernig lánið og dómgæslan fylgir þeim.

  Ég held hinsvegar að vandlega hugsuðu máli muni “Gamla frúin” (mínir menn á Ítalíu) vinna þá á Wembley með afar skipilögðum og afgerandi varnarleik þar sem Juve vinnur 0 – 1 eða 1 – 2 með afgerandi stuðningi tugþúsunda Ítala. Þannig að við verðum þá lausir við Tottenham.

  Það verður leiðinlegt að fá ekki að spila við MU í þessari keppni en svo sem ekkert við því að segja. Það er líklegt að við fáuum Real Madrid (mínir menn á Spáni svo er Puskas og de Stefano fyrir að þakka fyrir margt löngu) og það verður skemmtileg viðureign sem samkvæmt hefðinni endar með sigri Liverpool (mínir menn á Englandi sem er The Beatles að þakka síðan 1964 – 65).

  Það er nú þannig

  YNWA

 13. Sigkarl. Það sama gerðist hjá mér 1968 því það hlaut að koma eitthvað meira gott frá Liverpool en besta hljómsveit ever.

 14. Ég vil Sevilla eða Juve. Hvernig í ósköpunum tókst Spurs ekki að komast áfram í kvöld???

 15. Vá – þetta var algjört rán hjá Juventus.
  Tottenham voru miklu betri í báðum leikjunum, fengu miklu fleiri færi og voru grátlega nálagt því að slá út Juventus sem er lið sem ræður lítið við hraða og hápressu, Ég væri sko alveg til í að Liverpool myndi fá Juventus í næstu umferð 😉

 16. Sigkarl er með þetta. 1-2 fyrir juve og yndislegt að sjá spurs detta út!

 17. Ég er persónulega mög ánægður að sjá Juventus fara áfram. Fyrsta lagi þá eru engar líkur á niðurlægingunni á því að Spurs taki okkur úr Meistaradeildinni. Í annan stað þá á Buffon allt gott i heiminum skilið og þ.m.t. að vinna Meistaradeildina.

  Ef að Spurs bjóða ekki eriksen, alli, kane og öllum þessu gæjum meira en 1400 + orlof á tímann þá hrynur þetta lið.

  Vona við drögum Barca í 8 liða. völtum yfir þá með cout í stúkunni.

 18. Sæl og blessuð.

  Ég horfði á bút af leiknum í gær og verð að segja að ég er kominn með nett íþol fyrir þessu Tottenhamliði. Þeir eru með eitthvert tak á dómurum og það er með ólíkindum hvað þeir komast upp með að henda sér í grasið þegar endursýningin sýnir og sannar að snerting var lítil sem engin.

  Nú hefur spútniklið Tottenham farið í gegnum enn eitt tímabilið titlalausir. Já, já, já, ég veit að það sama gildir um okkur en sannleikurinn er sá að við fórum í lægð frá 2014 og alls ekkert í kortunum þá að við færum að landa stórum vinningum. Núna erum a.m.k sjóðheit í þessu CL dæmi og aldrei að vita hvað gerist með hækkandi sól á þeim vettvangi.

  Held að ,,Gamla konan” verði verðugur andstæðingur ef leiðir okkar liggja saman. Enginn skyldi vanmeta ítalska Fíatinn!

 19. Reyndar steig nú einn Ítalinn hressilega á Tottenham mann svo vel sást í endursýningu.
  Annars vorkenni ég Tottenham svo sem ekkert, sérstaklega ekki eftir Liverpool leikinn…

 20. #23
  Af hverju segir þú að við förum titillausir í gegn um þetta tímabil? Við erum ekki úr leik í CL þannig að það er góður séns 🙂

Liðið gegn Porto

Podcast – Háspenna lífshætta