Liverpool 2-0 Newcastle United

Jurgen Klopp vs. Rafa Benitez

Sallaróleg sinfónía hins taktíska spænska snillings gegn harðkjarna þungmálma rokkfótbolta þýskarans. Do re mí fa so la rokk & ról!

Mörkin

1-0  Mohamed Salah 40.mín
2-0  Sadio Mané 55.mín

Leikurinn

Þetta byrjaði eins og búast mátti við með einn taktískasta stjóra fótboltasögunnar að stýra gestunum. Liverpool var með boltann í kringum 80% og Newcastle lágu djúpt en beittu skyndisóknum þegar færi gafst. Á 5.mínútu fékk Mané góða sendingu frá Alexander-Arnold inn fyrir vörnina en móttakan brást og færið fór forgörðum. Tíu mínútum síðar smellti Salah í flott viðstöðulaust skot á lofti sem fór í utanvert hliðarnetið við nærstöng en heilt yfir var lítið að gerast í leiknum og fátt um opnanir fyrir okkar menn.

Á 28.mínútu fékk Emre Can tvöfalt skallafæri sem var bæði varið og blokkað og einni mínútu síðar komst Salah í skotfæri en hikaði á sínum eitraða vinstri fæti með hægri skiptum sem gengu ekki upp. En Salah var bara að hita upp og á fertugustu mínútu sprengdi Oxlade-Chamberlain fram í góðum spretti og lagði upp færi fyrir Salah sem klobbaði markvörðinn og í netið. Liverpool komnir yfir og mikill léttir fyrir leikmenn og leikvanginn í heild.

Í uppbótartíma fengu Newcastle sjaldséða sókn. Liverpool-hrellirinn Marcus Gayle sendi á Merino sem lagði upp skotfæri fyrir Diame sem skaut boltanum í átt að skeytunum. Loris Karius hlóð í sína bestu Sigga Dags eftirhermu og sem köttur í markinu skutlaði hann sér og varði glæsilega með fingurgómunum. Þarna sýndi sá þýski þá takta sem gerðu hann að einum efnilegasta markverði Þjóðverja og þetta eru þær þýsku stálkrumlur sem við viljum halda áfram að sjá á milli stanganna.

1-0 í hálfleik fyrir Liverpool

Seinni hálfleikur hófst með meira af því sama þar sem að Liverpool var með boltann að megninu til og Newcastle sáttir með að sitja aftur. Á 55.mínútu strengdi Liverpool saman glæsilegt samspil margra sendinga sem skar Newcastle í ræmur. Meistari Firmino fékk boltann í kjörstöðu fyrir framan vítateiginn, fíflaði vörnina og lagði boltann snyrtilega á Mané sem kláraði færið glæsilega. 2-0 fyrir heimamenn og ró færðist yfir mannskapinn innan vallar sem utan.

Í kjölfarið fylgdi vænn skammtur af sáralitlu þar sem Newcastle gerði hóflega hættulegar tilraunir til að komast aftur inn í leikinn en Liverpool voru traustir og fagmannlegir í sínum vinnubrögðum. Leikurinn var að fjara þægilega og örugglega til endaloka þegar að Salah fékk stungusendingu inn fyrir vörnina, kominn einn á móti markverði og í þann mund að skora enn eitt markið á tímabilinu. Lascelles varnarmaður Newcastle tók kolólöglegt ippon og stranglega bannaðan hælkrók sem hefði átt að þýða víti og rautt spjald en Graham Scott dómari sá aumur á þeim röndóttu og hlýfði þeim við frekari niðurlægingu í lokin. Klopp tók klikkaðan tæknitrylling á kantinum yfir þessu en Rafa andaði léttar.

Bestu menn Liverpool

Það var minna um flugelda í þessum leik en í þeim síðasta en allir leikmenn samt gríðarlega fagmannlegir og flottir. Allir vel yfir meðallagi og mér fannst hafsentarnir vera ferlega flottir hlið við hlið. Firmino og Oxlade-Chamberlain stóðu sérlega vel að sínum stoðsendingum og slúttin hjá Salah og Mané voru til fyrirmyndar. Að þessu sinni ætla ég þó að verðlauna markvörðinn Loris Karius með sæmdarheitinu maður leiksins. Markvarslan rétt fyrir hálfleik var gulls ígildi því að mark á þeim tíma hefði sett leikinn alveg í kleinu og komið okkur í týpísk vandræði á versta tíma. En markvarsla Karius var sú björgun sem við höfum verið að biðjast fyrir og því til viðbótar var Loris með mikið sjálfstraust og öryggi í öllum sínum aðgerðum.

Vondur dagur

Kannski ósanngjarnt að klína því á Rafa Benitez en hann var að missa sitt taplaus record gegn Liverpool í dag eftir ansi virðingarvert úthald. Reyndar gerði Rafa það besta úr þeim slöku spilum sem hann hafði á hendi en það vantar augljóslega meiri gæði í það lið til að hýfa þá almennilega upp úr fallsvæðinu. Eins og Guðjón Þórðarson orðaði það þá er erfitt að gera kjúklingasalat úr kjúklingaskít. Bon appetit.

Tölfræðin

Salah er kominn með 24 úrvalsdeildarmörk það sem af er vetri og stefnir hraðbyr á metin hjá Robbie Fowler (28 mörk) og Luis Suarez (31 mark) eftir að hafa jafnað Fernando Torres í dag. Megi þetta egypska markasukk halda endalaust lengi áfram (7,9,13) og bæta öll met sem í boði eru.

Umræðan

Ef einhverjir voru stressaðir fyrir þessum leik þá voru þær áhyggjur ástæðulausar enda Klopp og hans menn orðnir afar fagmannlegir í sínum frammistöðum. Jákvæðnin heldur því áfram fram að málamyndaleiknum gegn Porto og svo tekur alvaran við á Old Trafford að viku liðinni.

Gleðin heldur áfram á Anfield og yfir engu að kvarta í okkar herbúðum. Lyftum því glösum og lyftum andanum yfir Rauða hernum og rokk & ról fótbolta!

You Never Walk Alone

43 Comments

 1. Augljóst rautt spjald þarna í lokin, annars mjög sáttur með okkar menn

 2. Frábær leikur.
  Professional alla leið.
  Það verða ekki alltaf flugeldasýningar en þessir leikir eru þroskamerki
  Vinnusemin til fyrirmyndar.
  Milner toppaði þetta svo með eldmóði og baráttu fram yfir lokaflaut 🙂
  Nenni ekki að baula á dómarann.

  Liðið maður leiksins.
  YNWA

 3. Sæl og blessuð.

  Krakkar mínir, þarna sáum við þetta sem við höfum ekki getað gengið að sem vísu hjá okkar liði undanfarið. Ærlegir yfirburðir sem leiða til þess að liðið hreinlega sigrar! Hversu oft hafa þeir rauðklæddu leikið við hvurn sinn fingur án þess að ná að pot’onum inn eða þá að andstæðingar hafa átt 10 mín. gæðatíma sem dugir til að jafna metin eða jafnvel fremja rán um hábjartan dag?

  Nei, í þetta skiptið þá var allt undir kontról. Það er hreint ekki sjálfgefið gegn liði sem sigraði manure í síðasta mánuði.

  Það munaði um vörsluna hjá Kariusi og ég verð að segja að allt í vörninni virkaði með VvD þarna. Lovren sýndi loksins af hverju hann var keyptur á sínum tíma.

  Blúsinn er auðvitað augljós: Ef VvD og Karius hefðu verið í vörninni frá upphafi móts, værum við vafalítið í rituðum orðum með þungan andardráttinn í fölblátt hálsmálið hjá þeim sem tróna á toppnum. – Búin að stinga af öll hin liðin!

  En við erum enn í CL og þetta lið gæti hreinlega, ég segi’ða, farið alla leið…

 4. Held ég hafi aldrei séð knattspyrnustjóra jafn öskuþreifandi reiðan á 93. mínútu með öruggan sigur í höndunum. En að það hafi ekki verið dæmt eitt víti og ein aukaspyrna við vítateiginn þarna í uppbótartíma er algjörlega óskiljanlegt.

 5. Djöfull erum við orðnir solid lið.
  Já við vinnum ekki alla leiki þannig er fótboltinn en við eru byrjaðir að vera mjög vel skipulagðir varnarlega, Karius er byrjaður að taka bolta sem áður hefðu endað inni, miðjumenn að vinna miðjubaráttuna leik eftir leik og sóknarlínan okkar er einn sú besta í heimi.

  Í dag þá sáum við okkur spila skynsamlega og klárlega þetta verkefni eins og ekkert væri sjálfsagðara án þess að gestirnir ættu miklan möguleika.

  Það er erfitt að velja mann leiksins eftir svona solid framistöðu þar sem allir skila sína og fær því bara Benitez þessi verðlaun fyrir mér bara fyrir það eitt að alltaf þegar maður horfir á hann þá mann maður eftir meistaradeildarsigrinum 2005.

  Næsti leikur er Porto heima og reiknar maður með að hann róteri aðeins meir og leikmenn eins og Lallana, Gomez, Moreno og jafnvel Solanke fái að spila.

  Nú eru góðir tímar að vera Liverpool aðdáandi. Flottur stjóri, solid árangur, liðið á uppleið og virkilega skemmtilegur fótbolta.

  YNWA

 6. Rannsóknarefni af hverju Liverpool fær ekkert frá dómurum eða línuvörðum 2 augljós víti og ekkert dæmt. En samt góður sigur á erfiðu liði.

 7. Dómarinn að fara innà topp 10 yfir lélegustu dómara heims ásamt öllum hinum úr enska boltanum og er ég ekki bara að spá í þetta augljósa rauða spjald og brot á þarna í lokinn, en frábær frammistaða hjá okkar liði þó að miðjan hafi aðeins hökt þá áttu flestir ágætis leik.

 8. Það verður að minnast á Karius, hann átti heimsklassa markvörslu rétt fyrir hlé. Þetta hefði getað orðið allt öðruvísi leikur ef Newcastle hefði janfað rétt fyrir pásuna. Búinn að vera hrikalega solid í seinustu leikjum, vel gert, áfram svona!

 9. VvD er að gera svakalega hluti fyrir liðið. Að vera á andstæðingur á milli hans og Bobby á velli er svipað og að vera bingókúla í nammibar Hagkaupa á laugardagi. Þú verður étinn.

 10. Þægilegur sigur í leik þar sem Liverpool þurfti ekki að fara upp úr öðrum gír. Þessir leikir gegn lakari liðum virðast ekki lengur þvælast fyrir okkur – sem lofar góðu fyrir næsta leik gegn united.

 11. Allir solid í dag , Virgil með flawless leik , Robertson er ekki í Liverpool klassa

 12. Ég nenni að baula á dómarann. Það var augljóst að hann vorkenndi andstæðingum okkar og sem betur fer var þetta atriði í restina ekki úrslitaatriði því þá væri Klopp trúlega ekki meðal vor ennþá! Ég mun hafa STÓRAR áhyggjur af því hver mun flauta næstu helgi á móti rútunni.
  Ég vil hvíla Salah og Bobby á móti porto. Fá solanke og Lallana í staðinn og svo má skipta síðar í leiknum. Við megum ekki missa þessa snillinga í meiðsli.
  Geggjað að sjá liðið okkar. VVD, Karíus, hendo, chamberlain, Róbertsson og fleiri voru geggjaðir og þetta lítur hrikalega vel út!

 13. 14. “Robertson er ekki í Liverpool klassa

  Þarna eru við ekki sammála nema að þetta sé kaldhæðni sem mig grunar?

 14. Nú langar mig óneitanlega til að sjá Carragher drulla aftur yfir ákvörðun Klopp að gefa Karíus sénsinn. Elska Carra en akkúrat núna er það #inKloppwetrust og allir aðrir koma þar á eftir.

 15. Sá einhvern segja á Twitter að Robertson væri eins og Finnan í gamla daga, aldrei bestur en alltaf til staðar og engin mistök, sem er alveg rétt so far…

 16. Tjá .. á 85 mínútu hætti dómarinn alveg að flauta, veit einhver af hverju? Var kaupið kannski búið? #solidliverpool.

 17. Berið virðingu fyrir dómurum það er engin leikur án þeirra en já þeir áttu ekki góðan dag annars ætla ég ekki að velta mér uppúr því.

  Frábær leikur í alla staði.
  Ox var algjörlega maður leiksins fyrir mér og braut ísinn með frábærum sprett sem lagði upp markið fannst hann yfirburðamaður á vellinum í dag.
  Karius var frábær líka og átti heimsklassa vörslu frábært að sjá kappann verða betri með leik hverjum.
  Allt liðið var frábært í dag og það þurfti þolinmæði til að brjóta varnarmúrinn hjá NC.

  Takk fyrir mig get ekki beðið eftir næsta leik það er unun að horfa á Liverpool spila í þessum ham.

 18. Virðing er áunnin en ekki sjálfgefin.

  Sem starfandi dómari get ég sagt þér að það skiptir ekki máli hvað leikurinn er langt genginn þú bara hættir ekki að taka ákvarðanir. Það er allt í lagi að taka rangar ákvarðanir öðru hverju (svo fremi sem þær séu ekki of margar 🙂 ) en þessi frammistaða er ekki til fyrirmyndar.

  Þú mátt ekki skemma leikinn, þú verður að vera sanngjarn og passa þig á því að halda línunni góðri.

 19. Leikskýrslan komin inn ef mannskapurinn getur rifið sig/forðað sér frá Júróvisíón.

  Beardsley

 20. Vel skrifað hjá Árna Jóni dómara. Ég var ótrúlega pirraður á þeim hugleysingjum sem dæmdu þennan leik.

 21. Ég var mjög ánægður með mest allt í leiknum fyrir utan dómarann, en maður grætur það ekkert eftir sigur. Lovren er eins og nýr leikmaður hliðiná VvD og mér fannst þetta besti leikur hjá Henderson í langan tíma. Uxinn virðist einnig vera að finna sig og Milner litur alltaf vel út uppa síðkastið. TAA lærir með hverjum leiknum og hann gerði miklir mistök i dag sem að hann verður af með meiri reynslu, þannig það er besta mál meðan að liðið spilar svona og hann mun verða að topp leikmanni, það er ég viss um. Svo er það Karius! Hann er ap sýna þá takta sem ég vonaðist eftir þegar að við keyptum hann. Með hann í liðinu erum við að fá á okkur um 0.8 mörk í leik og eflaust verður sú tölfræði bara betri því lengur sem VvD hefur verið í liðinu. Núna þarf Lallana bara að finna sitt besta form enda getur hann verið svakalega áhrifamikill á sínum bestu dögum. Það er allt á réttri leið!

 22. Það sem pirrar mig meira varðandi þennan aulaskap dómarans í lokinn er að fyrir ekki svo löngu síðan þá fengu TOT 2 stk vítaspyrnur sem kostaði Liverpool sigur sem ég er enn brjálaður yfir ! var dómari þess leiks nógu hugaður að breyta ákvörðun út frá mati línuvarðar ég ætla biðja ykkur kæru vinir að bera þessa hluti saman ! Ég get skilið það ef þessi blessaði dómar hafi óvart verið búinn að missa flautuna í grasið eða ofan í kokið á sér og einhverjir búnir að binda fyrir augun á línuvörðunum. Með öðrum orðum dómarar þessarar deildar eru í ruslflokki.

 23. Er ég virkilega sá fyrsti hérna sem lýsi yfir aðdáun yfir glæsilega skrifaðri leikskýrslu? Meira svona. Mjög gott les!

 24. Bara til að sjá hveru mikil breytting hefur verið hjá liverpool eftir að Klopp tók við

  Liverpool 2017/18
  29 leikir 60 stig

  Liverpool 2015/16 Klopp mætir á svæðið þegar tímabilið er byrjað
  38 leikir 60 stig

 25. Sælir félagar

  Takk fyrir skýrsluna og ég er henni í flestu sammála. Það þurfti járnkrumlu til að stýra boltanum fram hjá markinu í einu alvöru tilraun andstæðinganna. Ég viðurkenni að það flaug í gegnum hug mér að Migs hefði mist þennan inn vegna skorts á handarstyrk. Karíus er greinilega með járnklær.

  Þegar verið er að velja mann leiksins er greinilegt að við erum orðnir svo vanir afburða frammistöðum Firmino að menn eru ef til vill hættir að sjá þær eða ganga að þeim sem gefnum hlut. Fyrir mér er hann maður leiksins eins og svo oft áður. AOC stóð sig mjög vel og Karíus átti vörslu sem hugsanlega hefði breytt leiknum ef sá bolti hefði farið inn.

  En eins og í flestum leikjum Liverpool þá var framlag Firmino með þeim hætti að hann er orðinn einn besti leikmaður í heimi og þó víðar væri leitað. Hann einfaldlega heldur leik liðsins gangandi – alltaf. Það er sama hvar á vellinum það er, hann er alstaðar og drífur leikinn áfram. Þetta er auðvitað svona í nánast hverjum einasta leik og Firmino er langmikilvægasti maður liðsins að mínu mati.

  Firmino er maður leiksins í mínum huga án nokkurs vafa. Auðvitað verða aðrir leikmenn stundum að fá þessa nafnbót en eftir þær frammistöður sem þessi drengur hefir sýnt og sýndi í dag þá er engin sanngirni til í því að ganga framhjá honum í þessari tilnefningu. Sending hans inna á Mané var þvílíkt augnakonfekt að maður var með gæsahúð lengi á eftir.

  Það er nú þannig

  YNWA

 26. Sigkarl er alveg með þetta.

  Firmino er aðalmaðurinn og jafn mikilvægur fyrir Liverpool og Steve Jobs var fyrir Apple í eina tíð.

  Karius er kominn í framfarahaminn hans Klopp´s og þessi varsla var heimsklassa. Hvernig að strákurinn sveif eins og köttur í ísköldu rokinu á Anfield og slæmdi járnkrumlunni í boltann vara bara epísk snilld.

 27. Eru arsenal að grínast sá stuðulinn fyrir leikinn 1.95 setti pening á það sé eftir því 9 mínútum seinna vissi að þeir væru lélegir en brighton þetta er líklega lélegasta arsenal lið sem ég man eftir er Woy á hliðarlínunni í dulargervi wenger

 28. Mín spá er að ox byrji i sumar á miðjunni með Englandi ásamt dele Alli og Henderson menn sem halda að wilshere eigi eitthvað erindi eru búnir að gleyma því að maðurinn var ekki fastamaður í byrjunarliði bournemouth á síðustu leiktíð enn einn ofmetin Englendingurinn

 29. Jæja, þá er hægt að fullyrða endanlega um að þetta sé 4 liða, EKKI 5 liða, einvígi um 3 sæti í meistaradeildinni. Hvað er eiginlega að frétta hjá Arsenal??!!

  Er ekki viss um að Wenger fái að klára tímabilið.

 30. Ég var næstum því byrjaður að vorkenna arsenal en auðvitað er það ekki hægt. Þetta lið er sorglegt, sálarlaust og hugmyndasnautt á alla kanta, samansafn af gömlum þjálfurum, gömlum markmanni og leikmönnum sem hafa ekki áhuga á því að berjast fyrir klúbbinn. AC-Milan munu jarða þá!

 31. hvað er líka eiginlega hægt að segja um Chelsea?? Þeir eru marki undir og reyna ekki að sækja að marki City! Þeir leyfa City að vera í reitarbolta, hvað er að frétta? Ekki búnir að eiga eitt markskot í öllum leiknum!!

 32. Er þetta ekki bara ljómandi gott nú erum við komnir með 7 stiga buffer á 5 sætið sé Chel$ki ekki vinna það upp í 9 leikjum.

 33. Flott úrslit í dag, er samt á því að annað sætið sé raunhæfur möguleiki, slíkt er runnið á liðinu.

 34. Það var engu líkara en að Mourinho væri að fjarstýra Chelsea í dag. Ég vissi ekki að aðrir stjórar gætu verið svona leiðinlegir.

 35. Takk fyrir firnafima skýrslu, ég er sáttur við að Karius fái fálkaorðuna fyrir vörsluna í lok fyrri hálfleiks. Furða mig á að þessi varsla hafi ekki verið tekin fyrir í Messunni á Stöð 2. Hún var kannski tekin fyrir í messunni í Hallgrímskirkju í gær en ég var þar ekki. En, þetta var mikilvægur sigur…

Byrjunarliðið gegn Newcastle

Allt undir um næstu helgi?