Benitez kemur í heimsókn

Á laugardaginn kl. 17:30 er komið að næsta leik okkar manna í úrvalsdeildinni þegar hinir röndóttu Newcastle liðar mæta á Anfield með Rafa nokkurn Benitez í broddi fylkingar. Það má búast við hörkuleik, og stigin 3 eru svo sannarlega allt annað en örugg, því Rafa hefur aldrei tapað fyrir Liverpool.

Newcastle

Í haust léku liðin á St. James Park, það væri kannski ekki úr vegi að rifja upp upphitun Beardsley fyrir þann leik, þar sem hann tók t.d. saman sameiginlegt lið þessara tveggja liða, skipað leikmönnum sem leikið hafa með báðum liðum. Jonjo Shelvey komst bara á bekkinn í því liði. Hvar hann verður á laugardaginn er óvíst. Hann ku víst hafa meiðst á hné nýlega, og skv. Physioroom er óljóst hvort hann verður leikfær. Jafnvel þó svo hann verði það hefur hann verið gagnrýndur fyrir lélega varnarvinnu í leiknum gegn Bournemouth, en sá leikur endaði með jafntefli eftir að Newcastle komst í 2-0. En á hinn bóginn fékk hann mjög góða dóma fyrir frammistöðu sína í leiknum gegn United, sem hinir röndóttu unnu einmitt 1-0 sælla minninga. Það hvort Shelvey er með eða ekki geta því verið bæði góðar fréttir og slæmar.

Hvað varðar aðra leikmenn Newcastle, þá greinir téð Physioroom síða frá því að Dwight nokkur Gayle verði mögulega ekki leikfær, og hvorki Slimani né Gamez verði með.

Aðdáendur Newcastle eru síður en svo bjartsýnir fyrir leikinn ef marka má “pre-match” þráð þeirra inni á Reddit. Þar er talað um að Liverpool sé með hættulegustu sóknina í deildinni, og að eini möguleikinn sé sá að spila aftarlega en treysta á að vörn þeirra rauðklæddu geri mistök. Kunnuglegt stef í þessari 38 þátta sinfóníu sem leikin er, gæti jafnvel hafa heyrst í einhverri mynd áður? Við vitum það svosem að Rafa kann alveg þá list að mæta með vel skipulagt lið til leiks, og ekkert sem segir að það klikki eitthvað núna frekar en áður. En við verðum bara að treysta á að okkar menn finni glufu á varnarmúrnum. Og talandi um okkar menn…

Liverpool

Það verður að segjast að það er erfitt að koma inn í leik sem þennan á mikið jákvæðari nótum. Liðið er á góðu “run”-i, hefur aðeins tapað einum leik í deildinni síðan hinn alræmdi leikur gegn Tottenham á Wembley fór fram, er í harði baráttu um 2. sætið í deild þar sem 1. sætið er búið að vera utan seilingar fyrir öll lið í lengri tíma, og var fyrir ekki svo löngu síðan að vinna stærsta útisigur sem unnist hefur í 16. liða umferðinni í Meistaradeildinni, og því nánast formsatriði að tryggja sig inn í 8. liða úrslitin (undirritaður verður einmitt á þeim leik og það kemur bara ekkert til greina að fara að klúðra þessu á Anfield). Þar fyrir utan eru nánast engir okkar manna meiddir: Winjaldum og Ings voru með einhverja flensu síðast en eru sjálfsagt að braggast, og Clyne er vissulega bara rétt nýskriðinn upp úr meiðslum, en spilaði þó með U23 liðinu nýlega og fer því sjálfsagt að detta í að verða leikfær með aðalliðinu. Að öðru leyti eru allir aðrir leikmenn tilbúnir í slaginn. Nú og svo er sóknartríóið okkar alltaf að verða skuggalegra og skuggalegra, komnir með yfir 60 mörk í öllum keppnum í vetur.

Við Liverpool aðdáendur vitum svosem ósköp vel að svona jákvæðni hefur nákvæmlega ekkert að segja um leið og flautað er til leiks. Það þarf nú ekki að fara lengra aftur en að Swansea leiknum núna í janúar, en þá var nýbúið að leggja hið alræmda City lið þrátt fyrir Coutinho leysi, og einhvers konar algleymi sveif yfir vötnum okkar Púlara, þar sem ekkert virtist geta stöðvað skósveina Klopp. Það tók nú ekki langan tíma að kippa okkur niður á jörðina og það harkalega.

Það er því ekkert annað að gera en að fylgja máltækinu gamalkunna: vona það besta en búa sig undir það versta. Með öðrum orðum: tap eða jafntefli er ekkert óhugsandi, það byrja bæði lið með 0 mörk skoruð, og ef menn mæta ekki með hausinn rétt skrúfaðan á er auðvelt að missa andstæðingana fram úr sér. En á sama tíma þarf maður líka að vona það besta, trúa því að okkar menn mæti fullir sjálfstrausts og með hæfilegt magn af sjálfsöryggi. Og gleymum því ekki heldur að það eru ýmis batamerki á liðinu. Vörnin virðist vera að fá aukið sjálfstraust. Miðjan virðist vera farin að finna eitthvað jafnvægi. Karius virðist vera farinn að finna sig í markinu. Um sóknarþríeykið þarf svo lítið að ræða.

Á maður svo að reyna að spá fyrir um liðið? Jú það er nú hluti af skemmtuninni. Þrátt fyrir að seinni Porto leikurinn sé rétt handan við hornið, þá tel ég engar líkur á að Klopp noti þennan leik fyrir eitthvað “rotation”. Hann mun einfaldlega stilla upp því liði sem hann telur sterkast gegn skósveinum Rafa. Líkamlegt ástand leikmanna spilar sjálfsagt einhverja rullu, t.d. hefur Gomez verið utan liðs síðustu leiki, og TAA hefur staðið vaktina á meðan. Kannski metur Klopp það svo að nú sé kominn tími á að hlífa Trent, það má jú ekki gleyma því að hann er ennþá bara krakki. Miðjumennirnir 6 eru allir option, í raun hefur enginn þeirra verið að standa sig eitthvað áberandi vel eða áberandi illa upp á síðkastið, nema þá kannski einna helst Milner sem sýnir engin ellimerki þrátt fyrir háan aldur. Það gæti því hver sem er þeirra verið í byrjunarliðinu: Milner, Can, Ox, Hendo, Gini eða Lallana. Karius verður nokkuð örugglega í markinu, skytturnar þrjár verða í framlínunni, van Dijk verður í miðverði og Robertson í vinstri bak. Annaðhvort Lovren eða Matip verða með van Dijk. Þannig spái ég a.m.k. Prófum því að stilla þessu einhvernveginn svona upp:

Karius

Gomez – Lovren – van Dijk – Robertson

Ox – Hendo – Can

Salah – Firmino – Mané

Bekkur: Mignolet, TAA, Matip, Milner, Lallana, Solanke, Ings

Þeir sem eru utan hóps eru í þessari uppsetningu: Moreno, Klavan, Winjaldum og svo kjúklingar eins og Ward og Woodburn (já ég er viljandi að gleyma Bogdan).

Og spáin? Við skulum í fyrsta lagi spá því að leikurinn muni fara fram, þrátt fyrir vetrarríki á Bretlandseyjum (með 2ja cm snjódýpt og logni). Við skulum segja að nú sé komið að því að Rafa lúti í gras. Segjum 3-1, þar sem Salah skorar 2 og Ox setur eitt stykki.

Díll?
YNWA!

19 Comments

  1. Ég vona að TAA spili eftir frábæra síðustu leiki og ég reikna með að Klopp roteri aðeins í meistardeildarleiknum þar sem Gomez, Lallana og jafnvel Ings eða Solanke(ekki báðir) fái að byrja leikinn.
    Þetta er eins og allir leikir gríðarlega mikilvægur leikur en við vitum að Benitez er ekki kominn til að gefa okkur 3 stig og þeir eru mjög skipulagðir varnarlega eins og öll hans lið en eru á móti ekki að sækja á mörgum mönnum.
    Þeir gátu leyft sér að pressa Man utd um daginn af því að þeir eru svo lengi að byggja upp sóknir og passa sig á að hleypa ekki alltof mörgum fram en ef þeir gera það á móti okkur þá held ég að þeir myndu fá svipuð úrslit og West Ham fékk gegn okkur sem prófuðu að pakka ekki í vörn.
    Segjum 3 stig í hörkuleik 2-1 sigri og svo vonar maður að Man City halda áfram að gera góða hluti og taki Chelsea á sunnudaginn svo að það komi smá bil á milli okkar og 5.sæti(en nóg eftir af mótinu og ekkert tryggt hjá okkur hvernig sem fer).

    YNWA og tökum vel á móti Benitez og félögum en sendum þá með 0 stig heim.

  2. Mæti og með læti á Anfield, vonandi fljótandi sóknarleikur og mörk hjá okkur og spái 4-2 fyrir okkur en upp stillingin verður líklega óbreytt frá síðasta leik sem var frábær. YNWA

  3. Tekur Klopp sénsinn á að láta Can spila? Ef hann fær gult er hann ì banni gegn united. Kannski að Hendo komi inn ì stað Can, annars vill maður sjá òbreytt lið frá sìðasta leik.

    Gegn Porto vill ég sjá annað lið; Ward(ef hann er heill), Gomez, Lovren, Klavan, Moreno, Gini, Lallana, Hendo, Ings, Solanke og Woodburn. En tel òlìklegt að Klopp geri 10 til 11 breytingar. Væri samt gaman að sjá þetta lið.

  4. Þetta er sýnd veiði en ekki gefin en engu að síður algjör skyldusigur það er bara þannig. Hreinlega verðum að sækja þessi þrjú stig og gætum þar komið okkur í dauðafæri á að enda tímabilið í meistaradeildarsæti ef City klárar Chelsea á sunnudaginn þó auðvitað sé þá ennþá hellingur eftir af þessu tímabili.

    Ætla að spá því að okkar menn skori snemma og verði komnir í 3-0 í hálfleik og endum þetta á fimm núll sigri og styrkjum enn frekar markatöluna okkar sem gæti vel skipt einhverju máli í lokin. Salah hendir í þrennu og eina stoðsendingu og Mane og Firmino henda í sitthvort markið svo þessir þrír halda áfram allir að skora í hverjum leik. Cyti klárar svo Chelsea og þá eigum við 7 stig á 5 sætið en í rauninni 8 stig vegna markatölunnar sem er miklu betri hjá okkur en hjá Chelsea. Væri frábært að enda tímabilið í 2-3 sæti og vera þá að bæta okkur á milli ára og svo er meistaradeildin keppni þar sem við gætum hreinlega alveg eins farið bara alla leið eins og hin liðin. Verður þetta ekki bara ævintýri í vor og við vinnum meistaradeildina bara og klárum svo deildina í 2-3 sæti. Væri svakalegur draumur maður. Það er allavega ótrúlega skemmtilegt að vera púllari í dag og liðið ótrúlega skemmtilegt og ég tel að í sumar þurfi max þrjá frábæra leikmenn auk Keita sem kemur auðvitað. Mögulega að taka markmann annan miðjumann og. Svo einn frábæran leikmann þarna í eina af fremstu stöðunum því við erum ekkert í frábærum málum ef einn af okkar þremur fremstu myndi meiðast, það má losa út í Sturridge Ings og Origi..

  5. Hvar er besta stemning yfir svona leikjum á Höfuðborgarsvæðinu??

  6. #6 Besta stemningin finnst mér á Ölhúsinu á Reykjavíkurvegi. Það ræðst líka af félagsskapnum í kringum þig hverju sinni náttúrulega.

    Annars er þessi leikur svokallaður skyldusigur og þá er maður að sjálfsögðu mun stressaðri en maður á að vera. Spái samt að við klárum þetta en þó ekki eins örugglega og Viðar spáir.
    Segi 2-0 og það verður mark í sitthvorum hálfleik.

  7. Sælir félagar

    Rafa á allt gott skilið frá okkur – nema stig. Þó hann hafi enn ekki tapað fyrir Liverpool þá hlýtur að koma að því. Hann er með vængbrotið lið sem þar að auki er ekki nógu vel mannað. Því spái ég öruggum sigri okkar manna 4 – 0. Annað er bara ekki í boði.

    Það er nú þannig

    YNWA

  8. Sæl og blessuð.

    Jæja, best að klára úr kaffibollanum, þrír hringir yfir hvirfli, krossblástur og svo beint á ofninn. Margt áhugavert sem birtist í botninum:

    Wijnaldum og Can á miðjunni með hugann við 8 liða úrslitin í CL. Drattast í hægagangi og skilja ekkert í þeim svartröndóttu sem renna í allar tæklingar og taka skeiðið um miðsvæðið á eftir hverjum bolta og hverjum frílansara. Mané tekur nokkra spretti en boltinn fer ýmist af sköflungi eða hné og endar oftar en ekki utansviðs eða í lófum markvarðar Hnjúkaselsmanna sem á leik lífsins. Salah vankaður eftir samstuð og óvíst um næstu leiki. Solanke leysir hann af og kann illa við sig á stóra sviðinu.

    Henderson er hugmyndalaus með afbrigðum, sendir máttlausa bolta þversum og til baka, eins og bragðlítill Dómínós með rifinni goðaskinku og niðursoðnum sveppum. Gomezinn, tekinn í landhelgi og VvD ræður ekki við skankana sem fella sóknarmenn unnvörpum innan og utan teigs með afdrifaríkum afleiðingum. Matip er annars hugar og annars heims.

    Kariusinn minnir okkur á það hvers vegna við vantreystum honum á sínum tíma.

    Össss best að henda bollanum í uppþvottavélina med det samme.

    Ekkert rugl kæru Liverpoolmenn! Nú þurfum við að sýna oss og sanna, senda þá sneypta heim og minna Benítesinn á það að gæði og gleði kosta sitt. Taka þetta á öllum vígstöðvum, gefa þeim engin grið, lærdómurinn ætti að vera farinn að seitla í gegnum taugakerfið. Það er ekkert tli sem heitir unninn leikur fyrirfram.

    Svo bindum við vonir við þá fölbláu úr miðbænum – að þeir sigri Conté og menn hans. Þá lítur þetta allt mun betur út!

  9. Bara svo það sé sagt (reyndar tveir búnir að segja það á undan mér) að þá er þetta auðvitað alveg dæmigerður leikur til að tapa. Allt í blóma, liðið spilar frábærlega um þessar mundir og þá vantar bara hið reglulega kjaftshögg sem kemur okkur aftur niður á jörðina. Því segi ég og skrifa: 0-1 á morgun. (Hér er gerð heiðarleg tilraun til afjinxunar).

  10. Ég hef enga trú á því að Klopp muni spila Emre Can, Milner kemur trúlegast inn og spilar með Henderson og Chamberlain á miðjunni
    Mikið er gott að þurfa ekki að hafa miklar áhyggjur af Porto leiknum heldur geta einbeitt sér 100% á deildinni fram að 8 liða úrslitunum.

    Benitez er toppnáungi en hann fær engin stig á morgun.

  11. Spái clutch 2-1 sigri, Salah með sigurmarkið á síðustu 10 mínútunum eftir mikið moð.

    Mané með fyrra markið.

    ps.

    Var ég sá eini sam las yfir bollalestur Lúlla #10 og hugsaði “Já, alveg rétt, Jordan Henderson leikur ennþá fyrir Liverpool.”

  12. Hálf fullt eða hálf tómt ? Ég vona að Klopp sé eftir þennan tíma hjá Liverpool og eftir þessar fyrri viðureignir við Rafa búin að finna glufur á hans leikkerfi. Þeir sitja aftarlega og beita skyndisóknum og nýta síðan þessi mistök sem við höfum verið að gera í vörninni. Vonandi er VVD eitthvað farin að stoppa í þessi göt hjá okkur og við getum farið að fækka verulega kjána mistökum þar.

    Ég ætla því að spá að við vinnum þennan leik 3-1 enda Rafa með verulega slappan leikmannahóp, en þó nóg til að vinna SCUM ! En ekki LFC. RESPECT Rafa, en þú færð ekki stig á Anfield á morgun 🙂

  13. Alls ekki auðveldu leikur eins og margir halda. Lið Benitez hafa alltaf kunnað að verjast og svo verður einnig í dag, en þeir standast ekki sóknartríóið okkar (MSF) sem klárar leikinn.
    Leikurinn fer 3-0 eftir erfiða fæðingu, með mörkum Salah-Mané og Robertson.

  14. Jæja, ég var ekki fjarri þessu. TAA heldur áfram að fá að spila en Gomez er á bekknum, og Moreno er þar í staðinn fyrir Ings.

Framfarir milli ára

Byrjunarliðið gegn Newcastle