Upphitun: West Ham á Anfield

Sagan

Þó að tilfinningin sé oft á þann veg að lið eins og West Ham séu stanslaust að gera okkur skráveifu þá er staðreyndin sú að sögulega erum við í ansi fínum málum með þá sem andstæðinga á Anfield. Liverpool er með 66% vinningshlutfall gegn West Ham á okkar heimavelli frá upphafi og sárafá töp en það eru jafnteflin sem stríða okkur helst gegn þeim. Árið 2015 lutum við illilega 0-3 í gras gegn West Ham á heimavelli með brottrekstri hins brottfarna Coutinho en það var í fyrsta sinn síðan árið 1963 sem slíkur ósigur hafði átt sér stað á okkar heilögu grundu. Þeirri niðurlægingu fylgdum við eftir með tapi á útivelli  og jafntefli á Anfield en síðan þá hefur leiðin legið aftur upp á við. Eftir London-tilfærslu WHUFC þá er markatala liðanna 8-1 okkar í vil í tveimur leikjum. Megi meðaltal þeirra leikja viðhaldast sem lengst.

En þegar horft er í söguna þá er varla hægt annað en að horfa í þau tíðu viðskipti sem hafa átt sér stað milli liðanna síðustu ár. Það er sem viðskiptahömlum hafi verið sleppt árið 1993 en fram að þeim tíma höfðu eingöngu 3 leikmenn farið á milli liðanna en eftir það ártal hefur talan hlaupið upp í 16 leikmann sem hafa átt bein vistaskipti. Venjulega stefna leikmenn í suðurátt í ábatasömum sölum en einnig hafa gagnlegir leikmenn verið heiðraðir með blóðrauðri treyju eins og Benayoun og Mascherano.

En þessi öru viðskipti eru klárlega tilefni til að stilla upp í 11 manna liði sameiginlegra leikmanna. Og það þarf ansi slakan þjálfara til að gera ekki góða hluti með þetta ágætlega samsetta lið LiverHam FC með sinn kröftugan kjarna af enskum leikmönnum og eðal-útlenskum erindrekum:

Sölulið LiverHam FC í 4-4-2 demanta-kerfi & Joe Cole sem super-sub

Andstæðingurinn

West Ham byrjaði tímabilið með takmarkaðri velgengni undir stjórn Slaven Bilic og eftir erfiðleika síðasta tímabils þá voru dagar Króatans miskáta taldir í niðadimmum nóvembermánuði. Frá fyrrum Everton-leikmanni snéru stjórnendur WHUFC sér til fyrrum Everton-stjóra sem hafði reyndar haft viðkomu í ónefndu nágrannasveitarfélagi. David Moyes tók við West Ham í kjölfarið og upphitunarritari verður að viðurkenna sínar efasemdir með þá skipun enda eru þær neikvæðu vangaveltur staðfestar á upptöku á podcasti. Spá mín var fallbarátta og reyndar er stigasöfnunin í takt við það en meistari Moyes má eiga það að hann hefur stoppað blæðinguna og haldið lífi í liðinu. West Ham eru í 12. sæti í deildinni en sú staða er þó ekki öruggari en svo að þeir eru einungis 4 stigum frá fallsæti. Þeir eru því upplitsdjarfari og með meira sjálfstraust heldur en síðasta þegar við mættum þeim í miklum markaleik. David Moyes á hliðarlínunni ætti þó að reynast nægur innblástur fyrir Rauðliða til að spila sinn yfirburðarleik gegn vanmáttugri andstæðingi.

Liverpool

Eftir hinn glæsilega söng látúnsbarka okkar Kop.is-verja á Bola-TV í Portúgal (og einnig smáatriðið með 0-5 slátrun Liverpool á Porto) þá mæta okkar menn vel hvíldir til leiks eftir æfingabúðir í Spánarsólinni á Marbella og 10 daga leikleysu. Ekki bara að þeir hafa fengið góða hvíld fram að þessum leik heldur er að honum loknum heil vika í þann næsta gegn Newcastle á Anfield. Í kjölfarið kemur formsatriðið gegn Porto þar sem bekkjarmenn fá næsta víst tækifæri og svo loks stórleikurinn á Old Trafford. Liverpool fær því hálfgert vetrarfrí með þrennu af þægilegum heimaleikjum fram að örlagastundu gegn erkifjendunum en þessi meðvinds-móment hafa oft verið þau vandasömustu fyrir Rauða herinn og vonbrigðin oft þeim mun meiri þegar krosstrén bregðast. Það þarf því að vera fullkomin einbeiting á leikdegi, mikill sóknarkraftur frá fyrstu mínútu og áframhald á góðu varnarskipulagi gegn hinum vestlægu Hömrum.

Ég spái því að Klopp stilli upp sínu sterkasta liði og spili með sókndjarfa bakverði sem verða að megninu til framliggjandi vængmenn, en með íhaldsamari miðju sem tekur bardagann við líkamlegt kraftspili gestanna.  Ég giska á að Matip fái þennan leik á kostnað Lovren og þá helst af því að við verðum mun meira með boltann en báðir hafa verið fínir við hlið VVD í síðustu tveimur hreinlakaleikjum. Karius heldur markmannshönskunum eftir sannfærandi spilamennsku og auðvitað verður hið seiðmagnaða sóknartríó okkar á sínum stað í framlínunni (og vonandi á markalistanum líka).

Svona er minn taktíski töflufundur framreiddur:

Líklegt byrjunarlið Liverpool í leikkerfinu 4-3-3

Klavan-vaktin

Það þurfti ekkert minna en dýrasta varnarmann heims til að koma varnarjaxlinum viljasterka frá Viljandi á varamannabekkinn. En einhörðum Eista verður aldrei haldið ævarandi fjarri fótboltavellinum og hinn rangnefndi Rangi-Ragnar fékk örfá  augnablik í sigrinum á Man City til að hífa vinningshlutfallið upp í 62,2% sem er með því hæsta hjá núverandi leikmönnum LFC. Lukkutröllsins ljúfa hefur reyndar verið sárt saknað í bekkjarsetunni í síðustu leikjum sökum óvenju góðrar heilsuhreysti hafsenta-hjálparsveina Virgils. Vonir standa þó til að Eistinn einstaki fái tækifæri til að syngja spyrnusöngva sína á Bola TV og jafnvel á sparkvellinum líka gegn Porto.

Spakra manna spádómur

Sigur skal það vera hvernig sem hann nú næst á endanum. Mitt getspaka gisk er 3-0 þægindi þar sem Salah, Mané og Robertson sjá um markaskorunina.

YNWA

40 Comments

 1. Það er svo spurning hvort menn höndli pressuna því að sigur í þessum leik skellir okkur í 2 sætið eftir mikinn eltingarleik við united og við eigum loksins séns á að fara upp fyrir þá.
  Þeir eiga svo erfiðan leik á móti chelsea.
  En alveg sammála með byrjunarliðið nema að ég myndi vilja fá Lallana inn fyrir Winjaldum eða Emre Can.

  Ég spái þó að menn komi brjálaðir til leiks og skelli hömrunum 4-0

 2. Takk fyrir skemmtilega upphitun!

  Èg vill sjá Milner í byrjunarliðinu, hann virðist alltaf skila góðri frammistöðu. Annars sammála öllu, úrslitum og markaskorurum. Væri geggjað að sjá Robertson setja einn skrímer til brjóta ísinn.

 3. Voðalega er þetta skrifað á uppskrúfaðri, tilgerðarlegri og lítið sniðugri íslensku.

 4. Svona erum við nú mismunandi, því mér fannst þetta einmitt afskaplega skemmtilegur lestur. En kannski er ég bara svona uppskrúfaður og tilgerðalegur :o)

 5. Sæl og blessuð.

  Tek undir einskæra ánægju með þennan pistil og aðra sem hér hafa verið settir út í alrýmið. Það er skemmtun og upplyfting að lesa þetta og hluti af forréttindunum að vera í hinu faggurrauða liði Liverpool. Hér talar sagan til okkar og ýmsir vinklar koma fram sem gera síðan áhorfið enn skemmtilegra.

  Hvað varðar þennan leik þá hrópa þeir hvor í sitt eyrað, árarnir tveir. Sá á vinstri öxlinni kveinar í kvartsárum neikvæðnitón í gelgjulegri falsettu að leikurinn hljóti að fara á versta veg. Þetta er nú einu sinni liðið sem tapaði fyrir svonsí og vessbróm og vísast kunna myndbandsgreinendur vessham hverja hreyfingu í téðum leikjum. Svo er það hinn yfirvegaði á hægri öxlinni sem talar hægum bassarómi og segir að hér sé ekkert að óttast. Þríeykið snarpa muni renna í gegnum vörnina eins og heitur kuti í gegnum Ljómastykki sem gleymdist á eldhúsborðinu yfir nótt. Þá muni hinn vörpulegi VvD stýra og stöðva eins og honum er ætlað að gera í vörninni. Hver veit nema að hann skalli inn mark sitt nr. 2 úr einu horninu? Þá sé Lallana allur að koma til.

  Við vonum að sá dimmraddaði hafi nú rétt fyrir sér. Ég er a.m.k. slíkur íslendingur að ég trúi fremur þeim sem talar hægt og dimmt. Ekki spillir fyrir að hann hefur margt til síns máls.

 6. Hef minni áhyggjur af þessum leik en mörgum öðrum, sökum þess að liðið hefur bæði fengið tíma til að undirbúa sig fyrir leikinn og síðan dágóða hvíld til þess að hvíla sig fyrir hann. Þetta er samt enginn skyldusigur og það þarf að mæta til leiksins af alefli og það má fastlega búast við því að West Ham muni spila á svipaðan hátt og Swansea gerði gegn okkur og því sýnd veiði en ekki gefin því Liverpool á í stökustu vandræðum með að komast fram hjá þessum rútum þegar þeim er lagt fyrir mark andstæðingana.

  Ég spái samt sigri en geri mér fulla grein fyrir því að þessi leikur er sannkallað bananahýði fyrir okkar menn.

 7. Sælir félagar

  Takk fyrir skemmtilegan pistil og þó stíllinn sé svolítið uppskrúfaður fannst mér hann góð lesning. Þessi leikur getur orðið okkar bananahýði ef menn mæta ekki til leiks af fullkominni einbeitingu og vilja til sigurs. Liðið okkar hefur áður mætt til leiks úthvílt og með allt með sér en runnið svo á sitjandann með skelli og látum. Þess vegna hefi ég dálitlar áhyggjur þó getumunurinn á liðunum sé mikill.

  Ef allt fer að líkum þá eigum við að vinna og það stórt. Komi liðið inn í leikinn af öllum þeim krafti sem menn eiga að hafa safnað upp í fríinu þá fer leikurinn 4 – 0. Ef leikmenn hins vegar verða í einhverju slökum gír þá fer illa og leikurinn endar með 1 – 1 jafntefli og allir brjálaðir. Þetta er alfarið í höndum Klopp að gíra liðið í rétta gírinn og þá stendur fyrir markatalan og allir sáttir og Moyes líka.

  Það er nú þannig

  YNWA

 8. Frábær pistill og listilega vel skrifaður. Það eru forréttindi að svona afburðapennar og pælarar haldi úti þessari síðu.

  Mín cent eru þau að þessi leikur sé bananhýði eins og fleiri hafa nefnt. Reyndar sé ég fyrir mér haug af gulum hýðum sem erfitt verður að stika yfir. Við höfum áður verið í þessari stöðu og flogið á hausinn. Í framhaldi leggjast allir í þunglyndi og rakka niður eigendur klúbbsins okkar, Klopp, söluna á Coutinho og aðgerðarleysi í janúarglugganum, Henderson og að hann eigi ekki að bera foringja-ólina, Can þ.s. hann er með hugann við Juventus og H&M vörulínuna á næsta ári, og Bjarna Ben af því hann hefur gaman af því að baka súkkulaðiköku. Nei ég myndi ekki meika þessa niðurstöðu. Ég þori reyndar ekki að spá stórum og öruggum sigri en… en… það hlýtur að vera komið að því að við nýtum sénsinn og höldum partýinu áfram!

  Ég trúi á Klopp og co – Við vinnum við 2-1.

 9. Takk fyrir góðan pistil.

  Alltaf gaman af mismunandi stílbrögðum. Um að gera að hafa sitt trade-mark. Ég lofa að stökkva hæð mína í herklæðum ef ég fæ að lesa pistil á kop.is í 16. aldar stíl.

  To be or not to be that is the question (Shakespeare).

  Hell is empty and all the devils are in West Ham (höf. ókunnur).

 10. Sammála með stílbragðið. Gaman að hafa góða tilbreytingu í þessu. Panta Yoda stíl á eftir 16. öld.

 11. Það eru engin takmörk fyrir því hverju menn geta röflað yfir og fundið að. Þessi síða er snilld og okkur öllum fríkeypis. Pistillinn er virkilega vel skrifaður og áhugaverður.

  Spái 2-0 og þætti mér það stórkostlegur sigur því þrjú stig þurfum við svo sannarlega og það yrði yndislegt að ná öðru sætinu því manhú eru aldrei að fara vinna chelsea á sunnudaginn.

 12. Þvílíkur andskotans bölmóður yfir fagurlega uppsettum stíl. Það eina sem hægt væri að setja út á hann er að stöku sinnum ofstuðlar höfundur í setningum en annars er þetta enn sá allra skemmtilegasti upphitunarpistill sem ég hef lesið hér inni. Það kemur mér lítið á óvart að fúlir og neikvæðir vinstri menn þurfi endilega að tjá sig um þennan pistil með þessum hætti.

  Þakka þér fyrir þetta, Hr. Beardsley.

  Andskotinn. Ég er fúll og neikvæður sjálfur (mið-vinstri maður) að vera að tjá mig um neikvæð skrif annarra.

  Það er vandlifað í hinni veröld.

 13. Frábærlega vel skrifað og staðið að einsog öllu sem við kemur þessari síðu… EN mér er nett drullu samma hvernig leikurinn fer á morgun svo framarlega við tökum 3 punka og Chelsea 3 af united og svo má Chelsea tapa á móti City (erum aldrei að fara að ná þeim þannig að óska eftir að þeir taka öll stig af topp liðunum sem eftir er) svo við vinnum örugglega 2 sætisbikarinn… ps geggjað podcast <3

 14. Enginn Julian Dicks í Liverham liðinu? Væntanlega í banni geri ég ráð fyrir 🙂

 15. Mikið djöfull verður mikið að gera hjá Masherano varnarlega í þessu liði. Sérstaklega með Jones að spila í gegnum hnémeiðsli.

  Varðandi pistilinn þá erum við að gera svona 45-70 upphitanir á tímabili með öllum leikjum og æfingaleikjum. Er ekki alveg í lagi að brjóta þetta aðeins upp af og til? Beardsley auðvitað meistarapenni.

  Hrikalega mikilvægt að vinna þennan leik.

 16. Synd að þetta sé ekki í bundnu máli. Fornyrðislag eða jafnvel hrynhenda hefðu komið vel út? 🙂

  En burtséð frá léttum pælingum um stíl er þetta auðvitað skyldusigur á morgun!

 17. Uppskrúfuð upphitun,
  sem yfirfyllt uppistöðulón.
  Uppáskrifuð ofstuðlun.
  You never walk alone!

  Þakka þeim sem hlýddu og líka þeim sem óhlýðnuðust.

  Peter Beardsley

 18. Hugsið ykkur hvað þetta er orðið gott fótboltalið. Það eina sem hægt er að væla yfir er ritstíllinn.
  Ég hef áhyggjur af WestHam leiknum því eftir frábæra leiki kemur alltaf einhver niðurgangur, það segir sagan
  En verum glöð yfir því að Liverpool er að byrja að spila aftur eftir hlé.

 19. Mjög ánægður með að Karius sé númer 1 í markið. Tel samstarf hans og VVD mun líklegra til afreka en með Mignolet. VVD er alltaf að fara stjórna öllu í vörninni og þar með talið Karius, hann vill greinilega taka þá ábyrgð á sig. Er ekki viss um að Mignolet væri til í taka því. Tel einnig að Lovren muni græða mikið á þessu þar sem pressan á honum er orðin mun minni.
  Það sást best á Lovren í Southampton, þar var hann virkilega góður en hann stjórnaði ekki vörninni heldur Jose Fonte.

  Smá pælingar úr sveitinni.

 20. Gleðifréttir að loks sjáum við okkar ástkæra lið leika knattspyrnu eftir smá hlé.
  Mig dreymdi í nótt að við hefðum unnið 2-0, ég man þó ekki hverjir skoruðu en einn hamraður maður fékk rautt á 86 mínútu.
  Nei, ég er ekki berdreyminn…

 21. Leikur við West Ham minnir mig alltaf á úrslitaleikinn í FA cup 2006.
  Ég var á bar einhvers staðar í Bandaríkjahreppi og eins undarlegt og það var þá var hann fullur af West Ham treyjum sem höfðu hátt allan leikinn þar til í uppbótartíma.
  Screamer frá Gerrard, 3-3! Ógleymanlegt.

  Rest is history.

  West Ham bullurnar voru engar bullur, skildu að þetta hafði verið einstakur leikur og fótboltinn hafði sigrað. Gott að kunna að tapa líka.

  Hitið upp fyrir daginn.
  https://youtu.be/IOpLPed4ngc

  YNWA

 22. Ætla rétt svo að vona að þetta verði ekki same old same old. Eins og t.d. þegar við unnum City en töpuðum næstu tveimur leikjum gegn litlu liðum. Unnum Porto 0-5 og væri það mjög týpíst að fokka þessu upp og gera jafntefli. Vill sjá mjög professional sigur í dag og ekkert annað!

 23. Takk fyrir frábæra upphitun ! Nú er lag og ég vona að okkar menn standist prófið í dag og vinni west ham menn. Oft er Klopp að tapa stigum á móti liðum sem gömlu risaeðlurnar stýra, s.s. Pardew, Moyes, Sam og Woy. Við þurfum að halda hreinu í dag og vonandi náum við að læða inn eins og 2 mörkum. Þá erum við komnir yfir man utd í bili. Svo er bara að vona að þeir tapi á morgun 🙂 Nóg ætti að vera á tanknum núna til að pressa þetta lið í 90 mínútur.

  KOMA SVO úthvíldir Rauðir 🙂

 24. Vinnum þetta nokkuð örugglega, 4-1.

  Smá offtopic, en Buttland með mistök aldarinnar fyrir Stoke núna rétt í þessu… hann lýtur bara alls ekki vel út blessaður…

 25. Vil bara alls ekki sjá Can í liðinu helst ekki á bekknum einu sinni.

 26. Hvaða stream eru menn mest að nota hérna ? blabseal er mikið í OL núna, mamahdtv er ekki gott hjá mér. Einhverju öðru sem menn mæla með ?

 27. Ég er à kirkjubæjarklaustri ekki vill svo til að einhver viti um stað hérna i kring sem sýnir leikinn ?

 28. Nú er að vona að Liverpool komi sterkari út í seinni hálfleik, öðruvísi en undanfarna leiki þar sem það virðist eins og Klopp dáleiði þá í hálfleik 🙂

Podcast – Porto Partý

Byrjunarliðið gegn West Ham