FC Porto 0-5 Liverpool

Það var norður-enskt slagveður í Porto í kvöld og fótbolti spilaður í kunnuglegum rigningarsudda. Liverpool veðraði storminn og tók meistaraslaginn í gini drekans á  Estádio do Dragão.

Mörkin

0-1   Sadio Mané 25.mín
0-2   Mohamed Salah 29.mín
0-3   Sadio Mané 53.mín
0-4   Roberto Firmino 69.mín
0-5   Sadio Mané 85.mín

Leikurinn

Leikurinn byrjaði rólega sem hentaði Liverpool ágætlega enda á erfiðum útivelli á Estádio do Dragão. Porto fengu fyrsta færi leiksins þegar að óákveðinn varnarleikur Liverpool hleypti Otavio í skotfæri sem Lovren gerði vel í að komast fyrir og boltinn fór yfir markið. Fátt markvert gerðist næsta korterið með nokkrum hálffærum og leikurinn var í þægilegu jafnvægi.

Á 25.mínútu kastaði markvörður Porto boltanum fram á völlinn og sú sending var étinn upp af hungruðum Lovren á miðjunni og Wijnaldum göslaðist áfram í kröftugu hlaupi sem endaði með sendingu á Mané í skotfæri. Senegalinn lét vaða með æfingabolta á José Sá í markinu sem sá ekki til sólar og missti skotið undir handarkrikann. 0-1 Liverpool og komnir með gullmark á útivelli.

Einungis fjórum mínútum síðar átti James Milner flottan sprett og hann lauk honum með fallegu innanfótarskoti sem small í stönginni hjá Porto. Frákastið féll til Salah sem tók enn eitt egypska-Messi-mómentið með því að halda boltanum á lofti með rist og kolli áður en hann slúttaði í opið markið.  Þetta róaði taugar okkar manna sem höfðu þó verið vel stemmdir það sem af var leik. Fyrri hálfleikur fjaraði þægilega út og það var frekar að Liverpool myndi bæta við heldur en að fá á sig mark miðað við gang leiksins.

0-2 fyrir Liverpool

Porto hefði þurft að gera alvöru áhlaup strax í upphafi seinni hálfleiks en það virtist sem að staða leiksins og varnarveggur Liverpool soguðu alla mótstöðu úr þeim. Góð staða varð frábær á 53.mínútu þegar að Salah geystist upp í skyndisókn og lagði upp færi fyrir Firmino. Skotið var varið frá þeim brasilíska en boltinn féll þægilega fyrir Mané sem kláraði færið auðveldlega í netið. Einvígið við það að verða búið en samt var nóg eftir í þessum leik.

Liverpool gáfu engin grið og héldu áfram vinnusamri pressu og stálvilja til að gjörsamlega dauðrota drekann á hans heimavelli. Önnur skyndisókn á 69.mínútu gaf Milner hafsjó af plássi á vinstri vængnum og sá enski lagði boltann snyrtilega út í teiginn á Firmino sem slúttaði frábærlega í gegnum varnarklof og í netið.

Gjörsigraður leikur og Klopp nýtti tækifærið til að hvíla menn með þremur innáskiptingum og gaf Danny Ings sinn fyrsta Meistaradeildaleik á ferlinum. Ings launaði greiðann með stoðsendingu á Mané sem tók við boltanum fyrir utan teig, keyrði upp í átt að vítateignum og hamraði boltann í netið til að fullkomna sína þrennu á mögnuðu kvöldið Porto. Kop.is-liðar á vellinum eru eflaust ennþá að fagna á vellinum í þessum töluðu orðum enda ekki á hverjum degi sem Liverpool vinnur 0-5 útisigur gegn öflugu evrópsku liði í Meistaradeildinni.

Bestu menn Liverpool

Vörnin og markvarslan var svo gott sem fullkomin með mjög örugga frammistöðu þar sem allir leikmenn leystu fagmannlega allar tilraunir Porto til markskorunar. Wijnaldum og Milner voru kröftugir á miðjunni og báðir með stoðsendingar, en fyrirliðinn Henderson var engu síðri í sínum leik í djúpri miðjustöðu. Salah og Firmino voru mjög flottir með sín mörk og frábærir í skyndisóknum og alltaf hættulegir með sinni sköpun. En auðvitað er enginn annar en þrennu-hetjan Sadio Mané maður leiksins í kvöld. Fremstur meðal jafningja með sín mörk í frábærri liðsframmistöðu.

Vondur dagur

Augljóslega átti enginn hjá Liverpool vondan dag á kvöldi sem þessu, en það er helst að morgundagurinn verði í þynnra lagi fyrir Kopverja og íslenska Púlara í Porto-borg sem munu vafalítið fagna fræknum fimm-marka sigri langt fram á nótt. Endurminningarnar munu þó ylja þeim snögglega um hjartarætur og auðvelda lífið í fyrramálið.

Tölfræðin

Karius hélt hreinu í 8. skipti í 16 leikjum á þessum vetri og er með ansi vígalegt vinningshlutfall. Hann er að vaxa hratt í sínu hlutverki og megi það það halda áfram sem lengst þannig að fáum þann toppmarkmann sem okkur dreymir um að hafa í rammanum.

Umræðan

Púlarar verða í sjöunda himni með stöðu mála og munu núna taka sér 10 daga leikhlé vegna ónefndra bikarkeppni sem engu máli skiptir. Við erum komnir áfram í CL og erum ósigraðir í appelsínugula yfirstrikunar-varabúningnum (7-9-13). Einnig er sú sögulega staðreynd á sveimi að síðustu skiptin sem Liverpool vann útisigra í Portúgal að þá urðu þeir Evrópumeistarar árin 1978 og 1984 (aftur 7-9-13).

Eins og meistari Sigkarli myndi orða það: Það er nú þannig!

YNWA

62 Comments

  1. Sælir félagar

    Hversu drullugott er þetta Liverpool lið. Það er eiginlega alveg ótrúlegt hvað þessir gaurar geta spilað flottan bolta og er þar enginn undanskilinn. Ég hefi verið að pirra mig svolítið á Gini en í þessum leik er hann hefur hann verið ógeðslega góður og er óheppinn að vera ekki búinn að skora eins og eitt mark. Hver og einn einasti leikmaður hefir verið að spila eins og engill og þá ræður ekkert lið við okkar menn.

    Eins og ég talaði um á einhverjum þræði í vikunni þá áttum við Mané inni og það hefur sko sannast í þessum leik. Kallinn búinn að skella í þrennu. Þegar allir í þessari framlínu eru farnir að skora er bara ekki hægt að verjast henni. Ég vil einnig minna á að ég hefi alltaf viljað Lovren frekar en Matip. Þá skoðun hefir hann sko aldeilis sannað króatinn sá arni. Hann verður martröð fyrir íslenska landsliðið er ég hræddur um.

    Ég gef Hverjum einasta leikmanni 8 í einkunn hið minnsta og sumum 10. Tíurnar eru Lovren, Virgil, Mané, Gini og Firmino. Salah, Milner og Henderson 9 og rest 8 að varamönnum ótöldum. Þeim er ekki hægt að gefa nema 7 vegna stöðunnar í leiknum og skamms spilatíma. Þessi leikur var ótrúleg skemmtun og það að taka Porto á heimavelli 0 – 5 er afrek sem fá lið geta leikið eftir.

    Það er nú þannig

    YNWA

  2. Vá vá vá
    Geggjuð úrslit og til hamingju með að vera komin í 8 liða úrslit.
    Þetta lið er líklegt að fara alla leið með svona spilamennsku. Karius að standa vaktina í markinu og Van Dijk er púslið sem þurfti til að binda vörnina saman.

  3. Þvílík frammistaða ! FIMM STJÖRNUR ! ! Nú er bara að vona að Sevilla vinni sína viðureign í næstu viku 🙂

  4. Það má með gamni geta sagt frá því að Milner er með flestar stoðsendingar í CL , 6 stykki !

  5. Rosaleg frammistaða hjá liðinu!!

    Þroskuð og þolinmóð yfirkeyrsla frá aftasta manni til fremsta…

    Vörnin frábær… alveg frábær og aldrei þessu vant var miðjan algjörlega rokk solid…. og þvílík frammistaða hjá bobby firmino…
    mané og firmino menn leiksins

  6. Algerlega fullkominn leikur.
    Jafnvægi frá aftasta manni til fremstu þriggja þó sumir séu jafnari en aðrir svo góðir eru þeir.
    Auðvitað komnir áfram, ekkert að því að bóka það.
    En mikið eftir enn. 8 liða verður alvöru, byrjum á að hlakka til þess.

    Drífa svo menn niður á jörðina og hausinn í næsta deildarleik.
    En þetta var geðveikt,
    YNWA

  7. Stórkostlegframistaða.
    Mane frábær með 3 mörk og framlag hans í fjórða markinu okkar var mikið þar sem hann hefði getað láti sig falla þegar verið var að rífa í hann en hann hélt áfram og þetta endaði með marki.
    Lovren var spila eins og kóngur í vörninni
    Firminho með sína vinnslu og ógn
    Salah er heimsklassa
    Miðjan okkar rústaði miðjubaráttuni
    Varnarlínan var traust.

    Klopp og félagar fá 10 fyrir þennan leik og var mjög mikilvægt að ná nánast (99,9% líkur) klára þetta einvígi því að við eigum Man utd útileiki strax eftir síðarileikinn og væri gott að geta gefið 2-3 lykilmönnum smá pásu og láta leikmenn eins og Ings fá að sprikla smá.

  8. Hreint frábær leikur hjá okkar mönnum. VVD gefur greinilega sjáftraust til allra líka til Kariusar. Það er ekki hægt að taka neinn út liðið allt var stórkostlegt í kvöld.

    RISINN er vonandi loksins held ég vaknaður.

    YNWA

  9. Þvílík og önnur eins toppframmistaða. Nánast hver einasti leikmaður liðsins átti toppleik. Vörnin var firnasterk og gaf varla færi og allir meðlimir sóknartríósins skoruðu.

    Lovren og Van Dijk eru að bindast vel saman og Andy Robertson var bæði traustur og ógnandi í vinnstri bakverðinum. Trent var traustur og við höfðum gjörsamlega öll völd á miðjunni.

    Sóknartríóið var frammúrskarandi og það er ánægjulegt að sjá Mane sýna sitt rétta andlit og spila á raunverulegri getu. Firmino virðist alltaf spila vel og Sallah skorar nánast í hverjum einasta leik.

    Næst á dagskrá er West Ham og fenginn reynsla af slíkum leikjum er ekki góð eftir stórsigra sem þessa og vonandi gerist ekki sama og eftir leikin gegn Man City, þegar við töpuðum gegn Swansea.

  10. Liverpool, Man City of Tottenham líklega kominn í 8 li?a. Veit einhver hvort þi? sé einhver filter í drættinum fyrir 8 li?a ?

  11. heyrði þulinn segja að Liverpool hefði 2 sinnum unnið í portugal í champions league og í þau skipti hefðum við unnið titilinn 🙂

  12. Sáuði viðtalið við Gerrard þegar hann sagði við BT-Sport að E.Can væri Obviously leaving í sumar frá Liverpool ?

  13. Skrítið að meistarinn skuli segja þetta sí svona í viðtali og þá sérstaklega á undan Klopp

  14. Frábær sigur og fyllilega sanngjarn. Allir leikmenn með toppframmistöðu og jafnvel 1-2 í heimsklassa. Ég held bara að það verði alltaf að nota Milner í byrjunarliðið í Evrópukeppninni. Hann er búinn að vera í einu orði sagt frábær. Þegar við erum komin niður á jörðina þá þarf að gíra sig upp fyrir næstu leiki. Munum líka að þrátt fyrir ótrúlegt kvöld er ekkert komið i hús.

  15. hann sagði þetta semsagt í hálfleik áðan við þá í BT-Sport ef þið mistuð af því.

  16. Mo Salah vantar nú þrjú mörk til að ná besta tímabili Fernando Torres hjá Liverpool. Og það er 14. febrúar. Vantar eitt til að ná 2013-14 Suárez (sem var þó vitaskuld án Evrópuleikja, en samt…)

    Sóknin er á pari við SAS upp á sitt besta. Ógnin er a.m.k. fjölþættari.

  17. Sænskir álitsgjafar hjá Viaplay þar á meðal Carragher eru á því að Liverpool sé það lið sem geti unnið Meistaradeildina í ár. Ástæðan er að þau lið sem eru eftir í keppninni eru sóknarlið og það henti Liverpool best.

  18. Mín tilfinning í vetur hefur verið að Klopp skiptir út mönnum í kringum 60 mínúturnar ef þeir hafa náð að skora 2 mörk í leiknum. Þ.e. þeir fá 60 mínútur til að klára þrennuna. Í dag hefur hann talið Mané alveg mátt við því að setja þrjú. 😀

  19. Nánast gallalaus frammistaða frá markmanni til fremsta manns. Leikurinn fullkomlega lagður upp af Klopp…látum okkur dreyma.

  20. Roses are red, violets are blue, I love Mo Salah and I know you do too.

  21. Algjörlega mögnuð úrslit.

    Allt liðið frábært en langar að nefna sérstaklega James Milner sem skilaði stórkostlegri fyrirliðaframmistöðu.

  22. Margir hafa sett fram þá staðhæfingu að nú fari fram keppni milli miðvarða um að vera næsti maður inn með Van Dijk.

    Er möguleiki að framgangur Kariusar þessa dagana hafi eitthvað með Van Dijk að gera?

  23. Leikskýrslan komin inn félagar. Magnaður sigur á frábæru kvöldi í Portúgal. Beardsley biður vel að heilsa í fagnaðarlætin hjá Kopverjum í Porto!

    YNWA

  24. Eigum við ekki bara að halla okkur aftur í sófanum og njóta þess að horfa á þetta lið spila fótbolta?

  25. Van Dijk er ekki miðvörður á svona degi heldur Holding Midfielder. Öll aftasta línan frábær í dag. Leikvöllurinn styttist um 30 metra fyrir Porto, sem gekk á vegg. Kúdos á allt okkar lið, þjálfara, sókn, miðju og vörn. Unbreakable.

  26. Líka magnað að þessir þrír fremstu hjá okkur hafa í raun allir verið keyptir inn sem miðjumenn. Keep on Pushing segir Klopp. Hann hefur fært miðlínuna svo framarlega að LFC er eitt skemmtilegasta liðið sem maður horfir á í boltanum í dag. Fögnum því.

  27. Góður dagur þegar heimaliðið í CL er að tapa 0-4 fyrir LFC og byrjar að tefja til að verði ekki verra…

  28. Horfði aftur á leikinn fyrir svefninn. Þetta var einhver mest “complete” performans sem ég hef séð hjá Liverpool í langan tíma.

    Virgil Van Dijk er klárlega fær um að gjörbreyta hlutunum varnarlega. Held að það hafi allan daginn verið þess virði að bíða eftir honum, frekar en að fara í einhver panic kaup á leikmanni sem Klopp hugnaðist síður.

    Henderson var u.þ.b. 10 mín að komast í gang en var svo virkilega flottur í sexunni. Það sem vakti samt öðru fremur athygli mína var hve mikið framar Wijnaldum og Milner voru að spila en maður hefði búst við og það tengist klárlega “presence” VVD, sem spilaði oft ansi framarlega. Völlurinn var því á löngum köflum afskaplega stuttur fyrir leikmenn Porto. Myndi þetta ganga á móti sterkara liði með fljótari sóknarmenn? Ekki er gott um það að spá.

    Milner átti virkilega góðan leik, líklega einn sinn besta í byrjunarliði Liverpool. Hann er btw með flestar stoðsendingar (6) í CL í vetur, held að næstefsti sé með fjórar. Þá eru þrír af fimm til átta markahæstu leikmönnum meistaradeildarinnar leikmenn Liverpool. Ronaldo 11; Firmino og Kane 7; Salah, Mané, Ben Yadder, Cavani og Neymar 6.

    Vonandi detta sem flest öguð og varnarsinnuð lið út úr þessari keppni sem fyrst. Ef það gerist, eiga okkar menn raunverulegan séns á að fara langt. Þessir mætu menn nefnilega eru færir um að taka hvaða sóknarsinnaða lið sem er í bakaríið á góðum degi.

  29. Djöf svaf ég eitthvað vel í nótt og vaknaði svo hress og glaður. Algjörleg fullkominn leikur hjá Liverpool í gærkvöldi !!!!!

  30. Sæl og blessuð.

    Stórbrotin frammistaða og gaman að sjá hvað þeir hafa lært af sögunni. Sevilla blúsinn var allan tímann í bakhöfðinu á þeim og Moreno fékk að sitja sem fastast á bekknum! Þeir vita að ekkert er gefið í þessum efnum og á undraskömmum tíma geta þeir fengið á sig furðumörg mörk ef einbeitingin dofnar.

    Svo er Swansea blúsinn þarna líka – að tapa fyrir botnliði eftir að hafa unnið toppliðið – er náttúrulega með ólíkindum. Allt þetta hefur farið í reynslubankann.

    Klopp hafði það á orði að hann væri líklega sá eini sem drekkur í hópnum. Það er tímanna tákn. Þegar sigurvíman fer af mönnum þurfa allir að vera sóber og hugsa rökrétt. Þetta var auðvitað ,,dæmigerður” útileikur hjá þeim appelsínugulu. Andstæðingarnir þurftu að sækja, verandi á heimavelli, og þá opnast gáttir. Formúla1 villidýrið gæti átt í vandræðum þegar við mætum WH næst ef þeir reyna að leggja langferðabílnum í teignum.

    Það er ennþá verkefni sem þarf að leysa.

    Í þessum leik voru veikleikar andstæðinganna augljósir. Þeir eru alls óvanir því að mæta svona liðum. Það á ekki við um WH.

  31. Ef þú þénar einbýlishús á mánuði þá er lágmark að þú fáir þér pepsi í staðinn fyrir bjór í 9 mánuði.

  32. Virgil Van Dijk er besti varnarmaður heims í dag – segi og skrifað

  33. Van Dijk hefur gert Lovren að Gerard Pique og Karius að Nuer og Robertson að Roberto Carlos. Hvað er í gangi!!

  34. Geggjað að vinna þetta svona stórt því að seinni leikurinn er 4 dögum fyrir man United á öld trafford vil sjá þetta svona í næstu umferð.
    Karíus
    Clyne-Matip-Lovren-Moreno
    Can-wijnaldum-Milner
    Lallana-Ings-Ox
    Bekkur Mignolet,Dijk,arnold,salah,mane,firmino,Henderson
    Ekki veikt lið og ætti að raða við þá en fáum að hvíla lykil mennina okkar

  35. Spes staðreynd, City, Manu, Liv og Chelski eru einu liðin í úrvalsdeildinni núna sem geta ekki fallið tölfræðilega héðan í frá á þessu tímabili.

  36. úff, maður hélt í vonina að Móri færi niður og maður maður myndi þar með ekki neyðast til að horfa á liðið hanns spila 2x á tímabilinu.

  37. Ferðasaga með videoklippum af söngfuglum og sagnfræðingum ásamt uppljóstrunum úr innsta hring harðkjarna ferðaklúbbs skásera gætu stytt manni stundirnar á þessari leikjalausu helgi.
    Segi bara sona.
    YNWA

  38. Sælir félagar

    Það hlýtur að fara að styttast í podcast af magnaða taginu núna þegar það er alger gúrkutíð hjá liðinu okkar. Hlakka til að heyra sögur og dóma hjá snillingunum okkar.

    Það er nú þannig

    YNWA

  39. #59 Þetta segja bara lið sem vinna ekki bikara. Algjör aumingjaskapur að gefa skít í FA bikarinn og alla þá hefð sem liggur þar að baki. Ég þrái það að sjá LFC spila á Wembley og vinna þennan bikar. Stórlið eiga að geta keppt um alla bikara sem í boði eru.

Byrjunarliðið gegn Porto í CL

Porto ferð lokið – Opinn þráður