Huddersfield 0-3 Liverpool

26.mín 1-0 Emre Can
45.mín 2-0 Roberto Firmino
78.mín 3-0 Mo Salah

Liverpool vann afar, afar, afar mikilvægan og þarfan sigur á Huddersfield í kvöld og var það klárlega eitthvað sem allir stuðningsmenn, leikmenn, þjálfarar, ræstitæknar, kokkar… félagsins þurftu á að halda eftir tvo ömurlega tapleiki í röð gegn Swansea og WBA.

Leikurinn fannst mér byrja svona frekar stirt og leit ekkert rosalega vel út en ekki leið að löngu þar til Liverpool tók öll völdin á vellinum. Karius átti ágæta vörslu þegar Huddersfield komst í fínt færi en skot sóknarmannsins rataði nokkurn vegin beint á Karius sem varði fínt – ekki oft sem maður sér eitthvað svona falla með Liverpool!

Liverpool jók pressuna á Huddersfield í kjölfarið og braut loks ísinn þegar Emre Can átti fast skot fyrir utan teig sem straukst aðeins við varnarmann Huddersfield en endaði í markinu. Gott mark hjá Can og afar mikilvægt fyrir Liverpool.

Rétt fyrir hálfleik datt boltinn einhvern veginn fyrir Firmino sem slapp í gegn og hljóp meðfram endalínunni vinstra meginn og tókst að lauma boltanum á nærstöngina og skoraði laglegt mark og kom Liverpool í mjög góða stöðu þegar flautað var til hálfleiks. Frábært mark hjá Firmino sem var að skora sitt nítjánda mark á leiktíðinni, það ellefta í deildinni. Svakalegt stökk hjá honum í markaskorun í vetur sem er bara frábært.

Seinni hálfleikur byrjaði svipað og sá fyrri endaði. Sadio Mane átti skalla eftir flotta fyrirgjöf Can en skallinn sem var af löngu færi endaði nokkuð beint á markvörð Huddersfield. Milner átti fínt skot nokkru seinna en aftur nokkuð beint á markvörðinn sem sló boltann yfir markið.

Emre Can og Sadio Mane léku sama leikinn aftur þegar Can lyfti boltanum inn á Mane sem skallaði af löngu færi og náði meiri kraft í skallann en boltinn fór framhjá. Salah slapp svo framhjá markverði Huddersfield en var á miklum hraða úr þröngu færi og skot hans fór í hliðarnetið.

Liverpool fékk vítaspyrnu þegar Emre Can var keyrður niður á 76.mínútu sem Salah tók og skoraði af miklu öryggi og skoraði sitt 26.mark í vetur. Eftir það lét Liverpool leikinn nokkurn veginn bara fjara út og vann sannfærandi og góðan 3-0 sigur.

Þessi sigur var afar kærkominn eftir tvo ömurlega tapleiki gegn tveimur neðstu liðum deildarinnar. Þetta var klárlega skyldusigur en líkt og sást í síðustu tveimur leikjum þá geta þessir leikir verið erfiðir ef menn eru ekki með fótinn á bensíngjöfinni og hausinn í lagi.

Heilt yfir spilaðist þessi leikur nákvæmlega eins og hann ætti að hafa spilast. Karius hafði lítið að gera í markinu en tók þennan eina bolta sem hann þurfti að hafa áhyggjur af – það er ekki sjálfgefið hjá Liverpool. Vörnin var þétt og góð með þá Matip og Lovren í miðvörðunum. Sturluð staðreynd en Joel Matip átti víst 161 sendingu í þessum leik sem er það mesta sem leikmaður Liverpool hefur átt í Úrvalsdeildinni frá því farið var að skrá niður slíka tölfræði!

Gomez var þéttur til baka í hægri bakverðinum en gerði lítið fram á við á meðan að Robertson var virkilega öflugur fram á við og var mikið í boltanum. Flottur strákur þar á ferð sem ég held að sé að eigna sér þessa stöðu þessa dagana.

Milner var líflegur á miðjunni og átti nokkrar góðar rispur. Henderson byrjaði leikinn eftir meiðsli og var virkilega flottur, hann var út um allt og stýrði þessu vel. Frábært að fá hann aftur inn í myndina. Emre Can stal hins vegar senunni og var klárlega maður leiksins. Hann skoraði gott mark, hefði getað lagt upp tvö og vann víti. Frábær leikur hjá honum og elsku Emre minn, viltu vinsamlegast hætta að daðra við önnur lið og skrifa bara undir þennan blessaða samning við Liverpool.

Salah var líflegur og skoraði sitt 26.mark á leiktíðinni og það nítjánda í deildinni. Þvílík kaup sem hann hefur verið. Var ánægður með að sjá að hann vildi fá að fara á punktinn og skemmtilegt að sjá að boltinn var varla farinn yfir línuna þegar hann snýr sér í átt að Milner og þakkar honum fyrir að hafa gefið honum spyrnuna. Hann er enn að skora mörk sem er frábært.

Sadio Mane var líflegur og reyndi og reyndi og reyndi en líkt og fyrri daginn þá er touch-ið hjá honum bara eitthvað off og hann virðist oft vera að ofhugsa hvern einasta hlut sem hann reynir of mikið. Komst í tvær góðar stöður sem voru nokkurn veginn nákvæmlega eins en skallar hans rötuðu ekki í netið. Hann á helling inni og mikið hlakka ég til þess að hann finni aftur taktinn.

Roberto Firmino var flottur og var góður í tengingunni á milli miðju og sóknar. Hann skoraði stórglæsilegt mark sem minnti ansi mikið á mark sem Luis Suarez skoraði hér um árið. Firmino er algjör töffari, hann er afar furðulegur leikmaður en mikið anskoti er hann góður og ekki skemmir fyrir að hann sé farinn að skora meira en hann hefur verið að gera til þessa. Frábær nía og lykillinn í sóknarleik Liverpool.

Sem stendur er Liverpool með átta stiga forskot á Arsenal sem tapaði í kvöld gegn Swansea og með fimm stiga forskot á Tottenham sem mætir Man Utd annað kvöld en það síðarnefnda er þremur stigum meira en Liverpool. Úrslitin í þeim leik munu því líklega hagnast Liverpool eitthvað sama hvernig fer og það er fínt.

Á morgun er deadline day og ég reiknaði nú með að verða alveg kraft pirraður eftir leikinn og nota þessa skýrslu til þess að blása út og tala um það hvað mér finnst það ógeðslega, viðbjóðslega, fáranlega heimskulegt að selja Coutinho á miðri leiktíð án þess að kaupa í staðinn og sitja á peningnum og leggja allan árangur sem gæti náðst á leiktíðinni að veði – en ég læt það bíða. Ég er sáttur með sigurinn og leikinn, ég er jákvæður og sé fyrir mér að geta náð smá hvíld í kvöld svo ég geti leyft mér að vera ógeðslega pirraður á Twitter á morgun þegar öll liðin í kringum okkur opinbera einhver kaup á meðan við sitjum og gerum ekki neitt.

Um næstu helgi mætum við Tottenham á Anfield og ef úrslitin falla á þann veg þá gætum við verið átta stigum ríkari en þeir þegar sá leikur klárast en sjáum hvað setur. Það er nóg að spá í fram að því.

Klopp kom með smá cliffhanger eftir leik svo fylgist með Kop.is á deadline day á morgun! 🙂

Þetta quote hans þýðir að ég mun ekki komast hjá því að refresha Twitter eins og brjálæðingur á morgun. Takk kærlega fyrir þetta Klopp!

33 Comments

 1. Þetta var virkilega fagmanleg og flott 3 stig.
  Liði okkar mættu grimmir til leiks og voru að vinna návígi og hreyfa sig vel. Við vorum ekki að skapa mikið þegar lið liggja svona tilbaka(sköpuðum meira gegn Swansea) en þar sem heimamenn voru varla að reyna eitthvað þá vorum við mjög öryggir í varnarleiknum.

  Þetta var bara Swansea leikur nema við náðum að nýta færi(ef við köllum þetta E.Can langskot í varnarmann færi) og heimamenn skoruðu ekki úr sínu eina alvöru færi í leiknum.

  Þetta lið sem við vorum að mæta er ekki merkilegt lið en þeir áttu skelfilegan dag og skilur maður ekki þjálfara liðsins.
  Þeir reyndu nákvæmlega ekkert í 90 mín(Swansea reyndu þá eitthvað). Þeim var alveg sama að við vorum með boltan að leika okkur aftast og skipti engu máli hvort að staðan var 0-0, 0-1 , 0-2 eða 0-3 mótspyrnan var engin.
  Stórskrítið að sjá lið á móti okkar með stóran líkamlega sterkan framherja hlaupa þarna einn frami og vera með tvo eldfljóta á bekknum. Þetta er eins og að Klopp hafði stillt upp liði heimamanna.

  Við tökum þessum 3 stigum og þessari framistöðu fagnandi. Liðið var ótrúlega agað og voru ekki að fara framúr sér í að sækja eins og það hefur stundum gert með því að keyra á lið með mörgum köllum, tapa boltanum og láta lið refsa sér.
  Nokkrir leikmenn áttu mjög góðan leik.
  Can átti flottan leik og lét vita að hann mætir ekki bara í stórleikina.
  Lovren var frábær í miðverðinum og vann einvígi í loftinu og sópaði vel í kringum Matip.
  Henderson sem menn hafa verið duglegir að gangrína var mjög góður á miðsvæðinu þar sem hann var með mikla vinnslu fram og tilbaka og gerði hlutina einfalt.

  Næsti leikur er Tottenham heima. Þeir eiga leik gegn Man utd á morgun og eru 5 stigum á eftir okkur. Ég vonast bara eftir jafntefli í þeim leik(á svo erfit með að vonast eftir Man utd sigri ) og að menn mæta tilbúnir til leiks á laugardaginn með það markmið að búa til smá stiga gat á milli okkar og Tottenham

  YNWA – ætli það verða jafn margir að hrósa liðinu eftir svona solid leik eins og voru að gangrína fyrir þann síðasta ?

 2. # 1 🙂

  s.s Öll þessi reiði og dómsdagspár eftir tvo lélega leiki en liði okkar hefur ekki verið með eins mörg stig og eftir 25 leiki síðan 2008/9 liðið okkar og er með jafn mikið og 2013/14 liðið okkar.

 3. Horfði á leikinn með öðru auganu, frábært að fá sigurleik. Vonum að Spurs og United geri jafntefli á morgun og svo crucial leikur á sunnudaginn sem væri ansi gott að vinna.

  Ef Klopp tilkynnir kaup á morgu verð ég hissa.

 4. Sæl og blesssuð.

  Okkur tókst a.m.k. að láta þá líta illa út. Þeir gerðu það ekki of erfitt en, hvað? flott frammistaða og gríðarlega kærkomin.

  Hef það á tilfinningunni að Tottenham vinni á morgun. Þeir eru líklegri til þess á einhvern hátt. Það setur allt í uppnám á efstu hæðinni. Svo fer City að tapa en það verður víst of lítið, of seint.

  Mané karlinn er höfuðverkur dagsins. Það er þó stór bót í máli að karlinn reyndi og reyndi eins og góður skýrsluhöfundur nefnir. Meðan hann reynir þá á hann möguleika að rísa upp úr þessum álögum! Alveg makalus íþrótt, fótboltinn.

 5. Bíðum bíðum bíðum hvar eru allar neikvæðisraddirnar. 2 töp í ég veit ekki hvað mörgum leikjum í deildinni. Samkv síðustu póstum er Klopp búinn, Kan er hálv…., Gomes búinn og ég veit ekki hvað og hvað.

  Flottur baráttu sigur hjá okkar mönnum, okkur hefur oft vantað að vinna ljótt og það gerðum við í kvöld. Hvað vilja menn, að við vinnum alla leiki, spilum alltaf eins og stjörnur, engin á bad day osfr

  Vona að það koma allavegana 100 komment við þessa leikskýrslu ! En ég býst við að þær verði ekki fleiri en svona 30

 6. Fannst samt smá spes þegar að Bobby var tekinn útaf, að hann fékk ekki þetta faðmlag sem hann fær alltaf hjá Klopp…. varð pínu hissa…. góður sigur samt

 7. Undur og stórmerki!!!!!

  Við unnum leik án sturridge 😉

  Vel gert!!

  En án gríns þá var miðjan mjög solid í kvöld .. vel gert

 8. Mér fannst við bara helv… góðir í kvöld. Ef menn mæta með svona vinnslu, baráttu og einbeitingu þá eru ekki mörg lið sem standast okkur snúning., ef nokkurt.
  Margir að spila virkilega vel en mikið roslalega var gott að fá Hendo inn aftur, spilaði virkilega vel að mínu mait.
  Áfram svo. Þolinmæðið þrautir vinnur allar. 😉

 9. Þéttur leikur hjá liðinu.
  Mótspyrnan lítil en litast mikið af góðum og öguðum leik okkar manna.

  Robertson er bara að verða uppáhalds, einhvern veginn öruggari en Moreno.

  Gomez gaf 100 sendingar á Matip en þessi uppstilling, Robertson á vinstri hlaupandi upp og niður og Gomez á hægri næstum eins og þriðji hafsent er kannski eitthvað sem gefur vörninni meira öryggi í svona leikjum.

  Lovren og Van Dijk. Er það ekki miðvarðapar sem við viljum í næstu leikjum? Van Dijk þarf bara að læra að spila hægra megin.

  Henderson kom vel inn, Milner solid, Firmino og Salah á ágætu pari en Can the man.

  Mané Mané … enn með lítið tödds og slappur að koma boltanum frá sér eins og undanfarið. Dettur þó reglulega inn í einhverja snilld eins og þegar hann sendi Firmino inn fyrir.

  Markmaður andstæðingana leit út fyrir að hafa tekið sessionir með markvarðaþjálfaranum okkar. Nei nei þetta var óþarfi.

  Magnaður leikur næst. Hvernig við mætum inn í þann leik veit enginn.

  Og Klopp sagði maybe …
  Maður verður víst að eyða einhverjum tíma í fótboltann annað kvöld.

  YNWA

 10. Ég vill Þýska skriðdrekann áfram. ( Kaupum) hann á morgun fyrir næstu 4 ár, PLEASE !

 11. Þvílíkt ánægður með þennan sigur!!!! En stór undarlegt að vera á útivelli með sendinga statistikk í hálfleik: Huddersfield 96 og LFC 456!

 12. I asked Jurgen Klopp “in one word, are you likely to do any business tomorrow?” His answer (laughing) “maybe”
  So there’s still a chance!

  Ég geri ráð fyrir Klopp muni standa í viðskiptum á morgun. Ég held að hann muni klára söluna á hinum Serbneska Messi, a.k.a. Lazar Markovic til Swansea.

 13. Lovren átti óaðfinnalegan leik. Ég vil sjá hann með van Dijk í miðverðinum.

 14. O ég elska þetta lið mitt frábær úrslit sem hefðu hæglega getað verið stærri flestir að spila vel að mínu mati væri samt til í að sjá Gomes karlinn aðeins hugaðri framávið og Mané sem ég dái mikið og hef miklar mætur á verður bara að far koma til og finna taktinn. Annars bara allt gott og góða nótt vinna á morgun.

 15. Sælir félagar

  Takk fyrir fína skýrslu ÓH. Can tróð upp í mig sokk og reyndar Matip líka. Það er alltaf gaman að fá sokk á sinn disk annað slagið og fá honum troðið svona alveg ofaní kok. Yndislegt bara. Þetta var algerlega sólíd leikur hjá okkar mönnum og ég sé akki ástæðu til að taka neinn út fyrir sviga í honum. Alir gerðu það sem ætlast er til af þeim og það er gott. Að vinna þennan leik var gott. Aðþurfa ekki að agnúast útí leikmenn er gott. Að vera sáttur við stjórann eftir leik er gott. Að líða bara assgoti vel eftir leik er gott. Sem sagt gott.

  Það er nú þannig

  TNWA

 16. Engin mótspyrna og leiðinlegur leikur, en Liverpool vann. Áfram Liverpool.

 17. Mér þætti spennandi að sjá Lovren og van Dijk saman í næsta leik og Lovren HÆGRA megin. Hann spilar betur þar.

 18. Versta sem gat gerst var að vinna þennan leik, nu telur klopp liðið nógu gott til að klàra tímabilið og þurfi ekki að styrkja liðið a morgun

 19. Mjög sannfærandi sigur og sanngjarn. Þeir sem sáu bara svartnætti og dauða eftir swansea-leikinn geta aðeins huggað sig við það að swansea eru bara drulluseigir þessa dagana sbr arsenal-leikinn í gærkvöldi.

  Það verður góð tilfinning að fylgjast með prumpinu hjá spurs og scums í kvöld eftir þennan fína sigur okkar.

  YNWA!

 20. Það er stutt á milli hláturs og gráturs. Bara svona einn leikur.
  Ég er búinn að læra það að fara ekki inn á þessa síðu ef liðið okkar tapar. Ég hef líka lært það að hamast ekki á lyklaborðinu ef liðið mitt tapar heldur telja upp að minnsta kosti tíu.
  En annars góður leikur. Mér fannst bakverðirnir okkar frábærir. Karíus átti lykilatriðið í leiknum með frábærri vörslu.

 21. Svona sigrar áttu að nást í síðustu leikjum líka. Það er bara eðlileg krafa okkar stuðningsmanna Liverpool. En burt séð frá því, þá sjá allir ( nema kanski Klopp ), að hópurinn er allt of þunnur.

 22. Afar sannfærandi sigur á hreint arfaslöku liði Huddersfield en tökum ekkert af okkar mönnum hefðum getað skorað 5-6 mörk. Can og Henderson stjórnuðu miðjunni, Firmino ig Salah flottir og Mané fékk færin. Karius leit út eins og alvöru keeper í þau örfáu skipti sem hann þurfti að grípa inní, mikill munur á því hvað hann er sneggri aðkoma boltanum í leik en Mignolet. Sjáum hvort gluggasveinninn færi okkur liðstyrk í dag. Ég er mátulega bjartsýnn á það en treysti því að herr Klopp viti hvað hann syngur. Tottenham næst, það verður eitthvað leikur að skapi Klopp dúndrandi hart rokk og örugglega fullt af mörkum og megi Fowler vera með okkur .YNWA

 23. Sá ekki leikinn, en búinn að horfa á helstu atriði.

  Frábært að komast aftur á sigurbraut!

 24. Munurinn á þessum markvörðum að mínu mati er að Karius gæti orðið góður með því að spila alla leiki og eflast í sjálfstrausti og með betri vörn. Mignolet er einfaldlega búinn með sín tækifæri og má mín vegna vera búinn að spila sinn seinasta leik fyrir félagið.

  Robertson á klárlega að vera á undan Moreno í röðinni i vinstri bakverðinum en eins og sást á leikkerfinu í gær þá spilaði Klopp með 3 miðverði og Roberton var eiginlegur kantmaður og þá hefði kannski Moreno hentað betur. En varnarlega er Robertson mun betri og virkar með betri leikskilning.

  Gomez ætti að vera fyrsti kostur í hægri bakverðinum og með smá tilfæringum eins og í gær þá dettur hann léttilega í 3 manna miðvarðastöðu.

  Svo er bara spurning hvaða miðvörður spilar með Van Dijk, henta Matip eða Lovren honum betur,

  En leikurinn var góður og þessi 3 stig gríðarlega mikilvæg og það var mjög skemmtilegt að sjá svanina leggja Arsenal af velli og högum við þá 8 stig á þá.

 25. Virkilega fínn leikur hjá okkar mönnum, þolinmæðisverk að sigla svona leikjum í höfn.
  Nú vona ég að Tottenham vinni Man Utd í kvöld, skal alveg sætta mig jafntefli líka.

  Y.N.W.A.

 26. Flottur og kærkomin sigur, eini munurinn á þessum leik og hinum 2 á undan fannst mér vera meiri barátta í seinni bolta og ákefð. Það virðist vera mjög þunn lína á milli hláturs og gráturs á móti þessum varnar sinnuðu liðum.

 27. # 23
  Klopp sér alveg hvernig hópurinn er . Hann er hins vegar ekki þannig stjóri að hann kaupi bara til að kaupa.

  Annars flottur sigur og gott að þurfa ekki að bryðja sprengitöflurnar á meðan leik stendur.

 28. Frábær sigur í gær og ég held sveim mér þá að við séum að eignast framtíðar vinstri bakvörð í Robertson, honum fer meira fram með hverjum deginum.
  Eina neikvæða er að Gomez er áfram að gefa færi, það var honum að kenna að Huddelsfield fékk þetta eina færi sitt. En hann er enn að læra en mikið afskaplega hlakkar manni til að Clyne komi aftur.

 29. einmitt vandamálið með klopp ! það er aldrei plan B ! ef leikmaður sem hann vill er ekki fáanlegur, þá er bara enginn keyptur ! það er eins og það sé bara alltaf einn leikmaður á listanum hjá honum, það mun verða til þess að við missum af topp 4 i vor.. við getum ekki keyrt á sömu sóknarlínunni út tímabilið, það eru engin backup!

 30. Þetta er alveg dásamleg mynd af marki Firmino. Hollningin og svipurinn á Lössl, og maður sér vel hvað Firmino var nálægt endalínunni.

  [img]https://i2-prod.liverpoolecho.co.uk/incoming/article14224587.ece/ALTERNATES/s615b/JS142283523.jpg[/img]

 31. #31. Það er alltaf plan B og það er bekkurinn og þessir 25 leikmenn sem eru í A-liðinu.
  Ég vil engan kaupa.

Liðið gegn Huddersfield

Glugginn lokast